Hæstiréttur íslands

Mál nr. 232/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann
  • Útlendingur


Föstudaginn 17

 

Föstudaginn 17. maí 2002.

Nr. 232/2002.

Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli

(Sævar Lýðsson fulltrúi)

gegn

X

(Ásbjörn Jónsson hdl.)

 

Kærumál. Farbann. Útlendingar.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni á grundvelli 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. maí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. maí 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni allt til þriðjudagsins 28. maí nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Varnaraðili liggur undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn 5. og 6. tl. 2. mgr. 17. gr. laga um eftirlit með útlendingum nr. 45/1965, sbr. lög nr. 25/2000, en það getur varðað hann fangelsisrefsingu. Varnaraðili er erlendur ríkisborgari, stundar ekki atvinnu hér á landi og hefur engin tengsl við landið. Fallast verður á með sóknaraðila að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru varnaraðila til að ljúka megi rannsókn málsins. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. maí 2002.

Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli krafðist þess í dag að X, albanskur ríkisborgari, fæddur 28. mars 1971 til heimilis í Tirana verði með úrskurði gert að sæta farbanni til kl. 16:00 þriðjudaginn 28. maí 2002. 

Kröfu sína styður sýslumaður við 5. og 6. tl. 2. mgr. og 17. gr. laga um eftirlit með útlendingum nr. 45/1965, sbr. lög nr. 25/2000, 8. gr.

 

Málavextir eru þeir að kærði kom til landsins með flugi frá Amsterdam miðvikudaginn 8. maí 2002. Við tollleit hjá honum fundust tvö slóvensk vegabréf, annað útgefið í Ljublana 27. maí 1993 á RB og hitt útgefið í Ljubljana þann sama dag á BB.  Í vegabréfum beggja eru myndir og nöfn fjögurra barna. Við rannsókn lögreglu hefur komið í ljós að vegabréfin eru fölsuð á þann hátt að skipt hefur verið um myndir á þeim sem vegabréfin voru gefin út á og nöfnum tveggja barna bætt inn í vegabréfin.  Einnig fundust tvö fölsuð ökuskírteini útgefin á sömu aðila 23. nóvember í Ljubljana.  Kærði hafði meðferðis við komuna til landsins umtalsverða fjármuni eða 3.800 evrur, 330 bankaríkjadali og 5.000 albönsk lek.  Þá  fannst í farangri hans notaður og nýr kven- og barnafatnaður sem virðist hafa verið  keyptur samkvæmt innkaupalista, sem einnig var í ferðatösku kærða.  Kærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 10. maí sl. til kl. 16:00 í dag. 

Sýslumaður kveður rannsókn málsins í fullum gangi.  Kærði sé grunaður um að hjálpa útlendingum til að dvelja ólöglega hér á landi og hjálpa þeim að koma ólöglega til landsins í hagnaðarskyni.  Lögreglan hafi haft upp á fólkinu sem myndirnar séu af í vegabréfunum. Það fólk, hjón með tvö börn, hafi komið til landsins 30. apríl sl. frá Amsterdam og séu þau öll albanskir ríkisborgarar.  Hafi nöfnum barnanna verið bætt inn í vegabréfin.  Þau séu vegabréfslaus og hafi ekki getað sýnt fram á að þau séu með löglega dvalarheimild hér á landi. Þau hafi nú sótt um hæli sem pólitískir flóttamenn hér á landi.  Lögreglan hefur grun um að kærði standi fyrir skipulagðri brotastarfsemi og telur að nauðsynlegt sé að halda rannsókn málsins áfram og hefta för kærða úr landi.  Hyggst lögreglan ljúka rannsókn málsins innan þess farbannstíma sem krafist er. 

Um lagarök vísar sýslumaður til 110. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

 

Kærði gaf skýrslu fyrir dómi þegar krafa kom fram um gæsluvarðhald og einnig nú vegna þessarar farbannskröfu. Sagði kærði að hann væri kominn hingað sem ferðamaður í fríi og þekkti engan hér á landi. Frásögn kærða af því hvernig vegabréfin lentu í hans fórum þykir einkar ótrúverðug og komið hefur í ljós að vegabréfin hafa verið tilkynnt glötuð. Þegar allt framangreint er virt þykir mega fallast á með sýslumanni að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt til þess að varnaraðila verði bönnuð för úr landi, sbr. 110. gr. laganna.  Samkvæmt þessu verður kærða bönnuð för úr landi á meðan mál hans er til rannsóknar eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kærða, X, er bönnuð för úr landi meðan mál hans er í rannsókn en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 28. maí nk. klukkan 16:00.