Hæstiréttur íslands
Mál nr. 152/2009
Lykilorð
- Verksamningur
- Skuldamál
- Útivist
|
|
Fimmtudaginn 18. júní 2009. |
|
Nr. 152/2009. |
Gullhamrar ehf. (Ólafur Thóroddsen hrl.) gegn þrotabúi RTH ehf. (engin) |
Verksamningur. Skuldamál. Útivist.
R krafði G um greiðslu á þremur reikningum sem voru til komnir vegna jarðvinnu í þágu G. Einkum var deilt um reikning frá 1. ágúst 2006, sem R hélt fram að væri vegna verks sem hefði ekki verið hluti af aukaverkum samkvæmt verksamningi aðila. Í viðskiptamannabókhaldi sínu, sem G lagði fram við meðferð málsins í héraði til sönnunar um viðskipti aðila, færði hann framangreindan reikning sem skuld í viðbót við skuld með fullri fjárhæð verksamningsins. Miðaðist skuldastaða í bókhaldinu við þetta. Taldist þar með nægilega sannað að verk samkvæmt reikningi 1. ágúst 2006 hefði verið viðbót við það sem samið hafði verið um í verksamningi aðila. Var G dæmdur til að greiða alla reikninganna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. mars 2009. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara lækkunar á fjárhæð hennar. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt ljósriti úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra um tilkynningu á breytingu á nafni sem móttekin var 14. janúar 2009 var nafni stefnanda í héraði, SR verktaka ehf., breytt í RTH ehf. Bú RTH. ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 6. maí 2009 og hefur þrotabúið tekið við aðild að málinu samkvæmt 3. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 ber að líta svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms. Með vísan til sama lagaákvæðis er kveðinn upp dómur í málinu án munnlegs flutnings.
Áfrýjandi hefur lagt fram nokkur ný skjöl fyrir Hæstarétt.
Stefndi heldur því fram að verk samkvæmt reikningi 1. ágúst 2006 hafi ekki verið hluti af aukaverkum samkvæmt verksamningi 7. desember 2005. Í viðskiptamannabókhaldi sínu, sem áfrýjandi lagði fram við meðferð málsins í héraði til sönnunar um viðskipti aðila, færði hann framangreindan reikning sem skuld í viðbót við skuld með fullri fjárhæð nefnds verksamnings. Miðast skuldastaða í bókhaldinu við þetta. Telst þar með nægilega sannað að verk samkvæmt reikningi 1. ágúst 2006 hafi verið viðbót við það sem samið var um í verksamningnum 7. desember 2005. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur með þeim hætti sem í dómsorði greinir.
Málskostnaður dæmist ekki fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Gullhamrar ehf., greiði stefnda, þrotabúi RTH ehf., 1.044.074 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 915.615 krónum frá 2. ágúst 2006 til 2. ágúst 2007, af 572.427 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2007, en af 1.044.074 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. desember 2008.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 19. desember sl., er höfðað með stefnu sem birt var fyrirsvarsmanni stefnda 13. febrúar sl.
Stefnandi er SR-verktakar ehf., Miðhrauni 22, Garðabæ, en stefndi er Gullhamrar ehf., Beykihlíð 25 í Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 1.730.450 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 399.741 krónu frá 1. desember 2005 til 1. ágúst 2006, af 1.258.803 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2007, en af 1.730.450 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt þó að frádregnum 343.188 krónum, sem stefndi greiddi inn á skuldina 2. ágúst 2007. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda, að mati dómsins.
II.
Stefnandi segir skuld þessa til komna vegna jarðvinnu í þágu stefnda við Biskupsgötu 11-39 í Reykjavík á árunum 2005, 2006 og 2007 og byggjast á þremur reikningum úr rafrænu bókhaldi stefnanda, með gjalddaga 1. desember 2005, 1. ágúst 2006 og 1. nóvember 2007. Stefndi hafi greitt 343.188 krónur inn á kröfuna 2. ágúst 2007 og dragist sú fjárhæð frá kröfunni.
Samkvæmt stefnu og framlögðum gögnum sundurliðast krafan þannig:
|
Reikn. nr. 62, dags. 1/12 2005 |
kr. 399.741,- |
|
Reikn. nr. 239, dags. 1/8 2006 |
kr. 859.062,- |
|
Reikn. nr. 752, dags. 1/11 2007 |
kr. 471.647,- |
|
|
kr. 1.730.450,- |
|
Innborgun 2. ágúst 2007 |
(kr. 343.188,-) |
|
|
kr. 1.387.262,- |
Stefnandi byggir á því að skuldin hafi ekki fengist greidd, þrátt fyrir innheimtutilraunir, og sé honum því nauðsynlegt að höfða mál þetta. Til stuðnings kröfum sínum vísar hann til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga og meginreglu samningaréttar um að samninga skuli halda. Krafa hans um dráttarvexti styðst við reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, en málskostnaðarkrafa við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
III.
Stefndi byggir málatilbúnað sinn á því að aðilar hafi gert með sér verksamning 7. desember 2005, í framhaldi af eldri verksamningi. Hafi þar verið kveðið á um uppmælingu og aukaverk vegna vinnu við húsin að Biskupsgötu 11-39. Umsamin heildarfjárhæð vegna verksins hafi verið 9.525.000 krónur. Í samningnum komi fram að stefnandi hafi á undirskriftardegi gefið út reikninga fyrir 9.053.353 krónum, en skuli við verklok gefa út reikning fyrir mismuninum, 471.647 krónum.
Stefndi byggir á því að samkvæmt viðskiptamannabókhaldi sínu 12. desember 2005 hafi bókfærðar eftirstöðvar vegna umrædds verksamnings numið 1.456.553 krónum. Hafi stefnandi þá átt eftir að gefa út reikning fyrir 471.647 krónum, sem lokagreiðslu við verklok. Stefndi hafi 2. ágúst 2006 greitt 1.400.000 krónur inn á viðskiptaskuldina og því hafi eftirstöðvar samningsins þá verið 528.200 krónur, og hafi stefnanda verið það kunnugt. Til þess að jafna út viðskipti aðila hafi forsvarsmaður stefnanda, Þórkatla Ragnarsdóttir, 5. mars 2008 pantað fermingarveislu hjá dótturfélagi stefnda, Veitingahúsinu Þjóðhildarstíg 2 ehf. Hafi stefndi talið að með þeim viðskiptum væri uppgjöri milli aðila lokið, þótt reikningur vegna fermingarveislunnar hafi verið nokkru hærri en eftirstöðvar skuldarinnar, eða 630.000 krónur.
Stefndi mótmælir reikningi stefnanda nr. 239, útgefnum 1. ágúst 2006, að fjárhæð 859.062 krónur, og segir hann ekki eiga sér neina stoð í verksamningi aðila. Jafnframt mótmælir hann vaxtareikningi stefnanda. Þá áréttar stefndi að stefnandi geri í stefnu hvorki grein fyrir innborgun stefnda að fjárhæð 1.400.000 krónur, né samningi aðila um áðurnefnda fermingarveislu.
IV.
Við aðalmeðferð gáfu skýrslu fyrir dóminum Þórkatla Ragnarsdóttir, fyrrverandi forsvarsmaður og skrifstofustjóri stefnanda, Ragnar Þórarinsson, framkvæmdastjóri stefnanda og Lúðvík Thorberg Halldórsson, stjórnarformaður og forsvarsmaður stefnda.
Þórkatla Ragnarsdóttir kvaðst hafa séð um fjármál stefnanda á þeim tíma sem hér um ræðir og mundi hún glögglega eftir reikningi að fjárhæð 859.062 krónur, sem gefinn var út 1. ágúst 2006. Sagði hún að reikningurinn væri vegna vinnu við jarðvegsskipti og hellulagnir við hús dóttur forsvarsmanns stefnda við Biskupsgötu. Hefði forsvarsmaður stefnda sérstaklega beðið um verkið og væri það ekki hluti af verksamningi aðila frá 7. desember 2005. Kvaðst hún ítrekað hafa reynt að fá reikninginn greiddan, en forsvarsmaður stefnda hafi forðast hana og borið ýmsu við.
Í skýrslu sinni fyrir dóminum neitaði Þórkatla því að samið hefði verið um að reikningur vegna fermingarveislu dóttur hennar yrði millifærður sem greiðsla inn á skuld stefnda við stefnanda, og bætti því við að hún hefði enga heimild til að semja um slíkt, þar eð stefnandi væri félag í eigu margra einstaklinga. Við sama tækifæri var hún innt álits á framlögðu viðskiptayfirliti stefnda við stefnanda og hún sérstaklega spurð um innborgun stefnda að fjárhæð 1.400.000 krónur, sem bókfærð er 2. ágúst 2006. Kvaðst hún ekki muna nákvæmlega hvenær greiðslur hefðu borist frá stefnda eða fjárhæðir hverju sinni, en sagðist ekki sjá neitt athugavert við yfirlitið frá stefnda.
Í skýrslu Ragnars Þórarinssonar kom fram að hann hefði sjálfur unnið við jarðvegsskipti og gerð bílaplans við hús dóttur forsvarsmanns stefnda. Hefði forsvarsmaðurinn sérstaklega beðið um það verk, og sagði Ragnar afdráttarlaust að það verk hefði ekki verið hluti af þeim aukaverkum sem um hefði verið samið í verksamningi frá 7. desember 2005, enda væri það ekki í samræmi við teikningar frá Landmótum ehf., sem vísað sé til í verksamningi.
Í máli Lúðvíks Thorbergs Halldórssonar kom fram að stefnandi hefði tekið að sér ýmis aukaverk samkvæmt áðurnefndum verksamningi og væru þau innifalin í þeim greiðslum sem verksamningurinn kvæði á um. Sagðist hann hafa samið um það við stefnanda að fyrir aukaverk skyldi greiða 1.000.000 krónur fyrir hverja húsalengju, eða samtals 3.000.000 króna. Neitaði hann því að hafa beðið stefnanda sérstaklega um að vinna aukaverk við hús dóttur sinnar. Aðspurður um greiðslu til stefnda að fjárhæð 1.400.000 krónur, sagði Lúðvík að hann hefði sjálfur millifært fjárhæðina inn á reikning stefnanda 3. ágúst 2006 og kæmi greiðslan fram á viðskiptayfirliti. Bætti hann því við að bókhald stefnda væri fært daglega.
Bæði Þórkatla Ragnarsdóttir og Lúðvík Thorberg staðfestu fyrir dómi að heildarfjárhæð verksamnings vegna Biskupsgötu 11-39 hefði verið 9.525.000 krónur.
V.
Eins og fram hefur komið gerðu aðilar með sér verksamning 7. desember 2005 vegna framkvæmda við Biskupsgötu 11-39. Þar kemur fram að heildarkostnaður samkvæmt uppmælingu sé 6.525.000 krónur, en fyrir aukaverk vegna allra húsanna, hverju nafni sem nefnist, skuldbindi verkkaupi sig til að greiða 3.000.000 króna. Samtals nemur því fjárhæð verksamningsins 9.525.000 krónur. Jafnframt segir þar að stefnandi hafi þegar gefið út reikninga fyrir 9.053.353 krónum en við verklok muni stefnandi gefa út reikninga fyrir mismuninum, 471.647 krónum.
Stefndi hefur í máli þessu lagt fram yfirlit hreyfinga úr viðskiptamannabókhaldi sínu vegna viðskipta við stefnanda árin 2005 og 2006. Samkvæmt yfirlitinu nemur fjárhæð bókfærðra reikninga frá stefnanda í árslok 2005 samtals 9.053.353 krónum, eins og segir í áðurnefndum verksamningi, en greiðslur stefnda nema samtals 7.596.800 krónum. Í árslok 2005 nam því skuld stefnda við stefnanda 1.456.553 krónum, en þá átti stefnandi eftir að gefa út lokareikning sinn samkvæmt verksamningnum, 471.647 krónur. Meðal þeirra reikninga sem stefnandi hafði þá þegar gefið út, og mynduðu fjárhæð bókfærðra reikninga á yfirliti stefnda, var reikningur að fjárhæð 399.741 króna, útgefinn 1. desember 2005. Sá reikningur er einn þriggja reikninga sem mynda stefnufjárhæðina í máli þessu.
Forsvarsmaður stefnanda, ásamt framkvæmdastjóra, hafa fyrir dómi fullyrt að reikningur að fjárhæð 859.062 krónur, sem gefinn var út 1. ágúst 2006, vegna viðbótarplans og jarðvinnu við hús dóttur forsvarsmanns stefnda, sé ekki hluti af verksamningi aðila frá 7. desember 2005. Hafi forsvarsmaður stefnda sérstaklega óskað eftir því að sú vinna yrði unnin, en verkið hafi ekki verið í samræmi við þær teikningar sem stefnandi hafi unnið eftir og voru hluti af verksamningi aðila. Forsvarsmaður stefnda hefur hins vegar hafnað því að hafa sérstaklega óskað eftir umræddu verki, enda væri það hluti af þeim aukaverkum sem samið hafi verið um.
Ekki er um það deilt að stefnandi vann að jarðvegsskiptum og gerð bílaplans við hús dóttur forsvarsmanns stefnda. Samkvæmt sundurliðuðum reikningi stefnanda nam kostnaður við það alls 859.062 krónur. Gegn mótmælum stefnda telur dómurinn að umrætt verk sé ekki hluti af þeim aukaverkum sem samið var um í margnefndum verksamningi frá 7. desember 2005. Er þá einkum til þess horft að kostnaður við verkið er hlutfallslega mun hærri en aðilar sömdu um sem greiðslu vegna aukaverka fyrir hvert hús í húsalengjunum, en samkvæmt verksamningi voru húsin 15 að tölu og því reiknað með 200.000 krónum fyrir hvert hús, eða samtals 3.000.000 króna fyrir þau öll. Þá þykir færsla stefnda á reikningsfjárhæðinni í viðskiptamannabókhald sitt fyrir árið 2006 eindregið benda til þess að stefndi hafi samþykkt reikninginn. Verður stefndi því dæmdur til að greiða reikningsfjárhæðina.
Stefnandi hefur mótmælt því að stefndi hafi greitt inn á viðskiptaskuld sína 1.400.000 krónur 2. ágúst 2006, eins og fram kemur í viðskiptamannabókhaldi stefnda. Engu að síður kvaðst fyrrverandi forsvarsmaður stefnanda, Þórkatla Ragnarsdóttir, ekki gera neinar athugasemdir við viðskiptamannabókhald stefnda, þegar henni var sýnt viðskiptayfirlitið og hún innt eftir því hvort hún kannaðist við umrædda innborgun. Hins vegar sagðist hún ekki muna hvenær stefndi hefði greitt innborganir, né einstakar fjárhæðir. Í ljósi þeirra ummæla telur dómurinn að stefndi hafi fært nægar sönnur fyrir því að hann hafi greitt umrædda fjárhæð, 1.400.000 krónur, sem innborgun á viðskipti aðila.
Stefndi heldur því fram að áðurnefnd Þórkatla hafi samið svo um að reikningur vegna fermingarveislu dóttur hennar skyldi ganga upp í viðskiptaskuld stefnda við stefnanda. Reikningurinn er að fjárhæð 630.000 krónur, gefinn út á nafn stefnanda 5. mars 2008, og hefur verið framseldur af veitingahúsinu Þjóðhildarstíg 2 ehf. til stefnda. Þórkatla Ragnarsdóttir hefur hafnað þessari staðhæfingu stefnda og bent á að stefnandi sé félag í eigu margra aðila og hafi hún ekki heimild til slíkra ráðstafana. Verður því ekki fallist á að reikningur þessi komi til lækkunar á kröfu stefnanda á hendur stefnda.
Samkvæmt því sem að ofan er rakið verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.044.074 krónur, sem sundurliðast þannig:
|
Skuld stefnda samkvæmt viðskiptamannabókhaldi í árslok 2005 |
kr. 1.456.553 |
|
Reikningur v/ jarðvinnu og viðbótarplans 1/8 2006 |
kr. 859.062 |
|
Lokareikningur v/ verksamnings 1/11 2007 |
kr. 471.647 |
|
|
kr. 2.787.262 |
|
Innborgun stefnda 2/8 2006 |
(kr. 1.400.000) |
|
Innborgun stefnda 2/8 2007 skv. stefnu |
(kr. 343.188) |
|
|
kr. 1.044.074 |
Fjárhæð þessi er í samræmi við framlagt yfirlit úr viðskiptamannabókhaldi stefnda, að viðbættum lokareikningi samkvæmt verksamningi og að frádreginni innborgun stefnda 2. ágúst 2007. Fallist er á að stefndi greiði stefnanda dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 915.615 krónum frá 2. ágúst 2006 til 2. ágúst 2007, af 572.427 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2007, en af 1.044.074 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Samkvæmt úrslitum málsins, sbr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 200.000 krónur.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Gullhamrar ehf., greiði stefnanda, SR-verktökum ehf., 1.044.074 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 915.615 krónum frá 2. ágúst 2006 til 2. ágúst 2007, af 572.427 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2007, en af 1.044.074 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.