Hæstiréttur íslands

Mál nr. 204/2001


Lykilorð

  • Stjórnarskrá
  • Eignarréttur
  • Lífeyrissjóður
  • Sjómaður


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. desember 2001.

Nr. 204/2001.

Lífeyrissjóður sjómanna

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

 

Stjórnarskrá. Eignarréttur. Lífeyrissjóður. Sjómenn.

Með lögum nr. 48/1981 voru gerðar breytingar á lögum nr. 49/1974 um L, sem leiddu til hækkunar lífeyrisgreiðslna til sjóðfélaga sem hófu töku lífeyris fyrir 65 ára aldur og því aukinna lífeyrisskuldbindinga L. L höfðaði mál á hendur Í og krafðist, með vísan til 72. gr. stjórnarskrárinnar, fjárhæðar sem samsvaraði auknum greiðslum L og greiðsluskuldbindingum vegna breytinganna. Fallist var á það með L að undirbúningur frumvarps þess sem varð að lögum nr. 48/1981 hefði verið óvandaður, en hins vegar var ekki talið að í gerðum ríkisstjórnarinnar hefði falist bindandi loforð að lögum um greiðslur úr ríkissjóði. Til þess hefði þurft lagaheimild, sbr. 41. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar stjórnvöld hlutuðust ekki til um að mæta auknum skuldbindingum sjóðsins hlaut sú skylda að hvíla á stjórn hans, sbr. 6. gr. laga nr. 49/1974, en fljótlega kom í ljós, að af hálfu stjórnvalda yrði ekki lagt fram fé til sjóðsins. Talið var, að umrædd lagabreyting hefði ekki leitt til þess, að fjármunir væru teknir frá L heldur hefðu greiðslur hans aukist til ákveðinna sjóðfélaga á kostnað heildarinnar. Lagabreytingin hefði því í raun þýtt tilfærslu réttinda milli félaga í L. Við úrlausn málsins var og litið til þess að breytingin var almenn og náði til allra sem eins voru settir. Var þannig ekki fallist á að eign L hefði verið skert í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar og var Í samkvæmt þessu sýknað af kröfum L.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 7. júní 2001. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 1.364.900.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. júní 1999 til 1. júlí 2001, en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim tíma til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar stefnukröfu og að málskostnaður verði felldur niður.

I.

Í héraðsdómi er sagt frá tildrögum þess að komið var á lífeyrissjóði fyrir togarasjómenn með lögum nr. 49/1958. Í dóminum eru síðan ítarlega raktar þær breytingar, sem gerðar hafa verið á lagaákvæðum um sjóðinn. Lög þessi urðu grunnur að lögum nr. 49/1974 um Lífeyrissjóð sjómanna, en ágreiningur aðila varðar breytingar sem gerðar voru á þeim með lögum nr. 48/1981. Samkvæmt þessum breytingarlögum var kveðið á um almenna skylduaðild allra sjómanna að sjóðnum og væntanlegum sjóðfélögum þannig fjölgað. Sjómönnum lögskráðum í tilteknum byggðarlögum var þó veitt undanþága vegna aðildar að öðrum sjóðum. Jafnframt var fellt niður ákvæði um að ellilífeyrir skertist um 0,3% fyrir hvern mánuð lífeyristöku fyrir 65 ára aldur og gat skerðingin orðið að hámarki 18%. Þetta leiddi til hækkunar lífeyrisgreiðslna til sjóðfélaga og aukinna lífeyrisskuldbindinga sjóðsins. Eru kröfur áfrýjanda reistar á síðarnefndri breytingu.

Áfrýjandi heldur því fram að þessi lagabreyting hafi verið gerð án samráðs við stjórn sjóðsins og án undangenginnar tryggingafræðilegrar úttektar á honum. Hafi lagasetningin leitt til skerðingar á eignum áfrýjanda, sem aðrir lífeyrissjóðir hafi ekki þurft að sæta. Þar sem óumdeilt sé að eignir sjóðsins njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar beri ríkisvaldinu að bæta þessa eignaskerðingu að fullu. Þá hefur áfrýjandi bent á að lagabreytingin hafi tengst gerð kjarasamninga sjómanna 1980 og haldið því fram að ríkisstjórnin hafi með yfirlýsingu í desember það ár skuldbundið sig til að bæta sjóðnum þessa eignaskerðingu til að liðka fyrir samningum. Slík skuldbinding verði einnig leidd af yfirlýstum tilgangi laga um sjóðinn þegar honum var komið á fót 1958. Þessi skylda hafi í raun verið viðurkennd síðar með því að ríkisstjórninni hafi verið heimilað að greiða öllum lífeyrissjóðum með sjómenn innan sinna vébanda úr svokölluðum gengismunarsjóði. Eignaskerðingin hafi þó ekki verið bætt fullu verði. Vegna þessa hafi áfrýjandi þurft að grípa til skerðinga á lífeyrisréttindum sjóðfélaga sinna frá því að breytingin var gerð til þess að tryggja viðunandi rekstrargrundvöll.

Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram að breyting sú sem gerð var með 4. gr. laga nr. 48/1981 hafi verið almenn og reist á málefnalegum forsendum. Um hafi verið að ræða rýmkun réttinda, sem þegar voru fyrir hendi samkvæmt lögum um sjóðinn, og einnig hafi lögunum þá verið breytt svo að ekki urðu til aðrir starfsgreinalífeyrissjóðir sjómanna eftir breytinguna. Þá hafi réttur sjóðfélaga til endurgreiðslu iðgjalda verið skertur. Að auki er á það bent að á árinu 1985 hafi stjórn sjóðsins sjálf staðið fyrir því að auka réttindi sjóðfélaga og þar með útgjöld sjóðsins án þess að tekið hafi verið tillit til þess í kröfugerð áfrýjanda. Þá vísar stefndi því eindregið á bug að reglur samningaréttar um loforð og bætur vegna vanefnda á samningum geti skotið stoðum undir kröfugerð áfrýjanda. Einnig er kröfum hans mótmælt á þeim grunni að áfrýjandi hafi ekki sannað hver áhrif afnám skerðingarreglu 3. mgr. 12. gr. laga nr. 49/1974 og önnur ákvæði laga nr. 48/1981 hafi í reynd haft fyrir fjárhag sjóðsins. Í kröfugerð áfrýjanda sé ekki tekið tillit til greiðslna ríkissjóðs til sjóðsins á árunum 1982 til 1998. Í fyrsta lagi hafi verið um að ræða greiðslur samkvæmt 4. tölulið 4. gr. laga um efnahagsaðgerðir nr. 2/1983, í öðru lagi samkvæmt 3. gr. bráðabirgðalaga nr. 55/1983 um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum, í þriðja lagi samkvæmt 5. gr. laga nr. 29/1992 um viðauka við lög nr. 39/1990 um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins og loks samkvæmt lögum nr. 43/1998 um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd. Samtals hafi greiðslur þessar numið 720.000.000 krónum að núvirði. Loks byggir stefndi á því að allar hugsanlegar kröfur áfrýjanda, sem risið hafi vegna setningar laga nr. 48/1981, séu hvað sem öðru líði fyrndar, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, en fyrrnefndu lögin hafi öðlast gildi 9. júní 1981. Verði ekki á þetta fallist séu að minnsta kosti allar kröfur frá fyrri tíma en 1. janúar 1990 fallnar niður fyrir fyrningu.

II.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninga Farmanna- og fiskimannasambands Íslands 6. desember 1980 sagði meðal annars: „Ríkisstjórnin mun kanna hvort eðlilegt sé í tengslum við lækkun lífeyrisaldurs sjómanna í almannatryggingum, að sama regla gildi hvað rétt sjómanna varðar í lífeyrissjóðum, og hvaða kostnaðarauka slíkt myndi hafa í för með sér.” Í kjölfar þessara kjarasamninga lagði fjármálaráðherra fram stjórnarfrumvarp það um breyting á lögum nr. 49/1974, sem varð að lögum nr. 48/1981. Hvorki í athugasemdum sem frumvarpinu fylgdu né umræðum um það kom fram hvaða kostnaðarauka umrædd breyting myndi hafa í för með sér fyrir Lífeyrissjóð sjómanna eða hvernig ætti að fjármagna hann.

            Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipaði nefnd 19. mars 1982 til að fjalla um lífeyrismál sjómanna. Í áliti nefndarinnar 8. júní sama ár er á það bent að við framangreinda breytingu á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna hafi myndast sá vandi að nú þurfi að greiða lífeyri „allt að 5 árum fyrr en ella, án þess að nokkrar iðgjaldagreiðslur komi í staðinn.“ Full ástæða sé því fyrir stjórn sjóðsins að láta tryggingafræðing reikna út fjárhag hans eins og lögboðið sé í 8. gr. laga um hann. Tryggingafræðingurinn ætti að athuga sérstaklega að hve miklu leyti sjóðurinn væri megnugur að mæta þessum vanda. Ljóst væri af athugun sem fram hefði farið 1. apríl 1982 að þá þegar hefðu 13,57% af heildarlífeyrisgreiðlum sjóðsins farið til þessara nýju skuldbindinga. Það athugast í þessu sambandi að heimild til töku lífeyris við 60 ára aldur leiddi þegar af lögum nr. 49/1974. Breytingarlögin rýmkuðu hins vegar réttinn með því að fella niður skerðingar greiðslna væri lífeyrir tekinn fyrir 65 ára aldur. Af nefndarálitinu er ekki ljóst hvernig þessar „nýju skuldbindingar” eru reiknaðar út.

Nefndin taldi  þrjár fjármögnunarleiðir koma til greina. Í fyrsta lagi að iðgjöld yrðu reiknuð upp á nýtt og látin standa undir þeim kostnaði, sem þeim væri ætlað að bera. Í öðru lagi að með vísun til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar 6. desember 1980 yrði talið að hún hefði tekið á sig ábyrgð á þeim kostnaðarauka sem lög nr. 48/1981 hefðu haft í för með sér. Kostnaðurinn félli þá á ríkisjóð sem greiddi hann samkvæmt reikningi. Síðasta og einfaldasta leiðin væri hins vegar sú að innleiða aftur skerðingarákvæði, sem gilt hafi hjá Lífeyrissjóði sjómanna fyrir lagasetninguna.

Í bréfi aðstoðarmanns þáverandi fjármálaráðherra 4. ágúst 1982 til ríkissáttasemjara vegna nýrra kjarasamninga Farmanna- og fiskimannasambands Íslands sagði að ríkisstjórninni væri ljóst að gera þyrfti sérstakar ráðstafanir til að lífeyrissjóðirnir gætu staðið við skuldbindingar sínar vegna lækkunar á lífeyrisaldri sjómanna í 60 ár og myndi ráðuneytið beita sér fyrir lausn málsins í samráði við samtökin. Það var jafnframt tekið fram í sérstakri bókun aðstoðarmannsins að ekki bæri að skilja þessa yfirlýsingu sem fjárhagslega skuldbindingu ríkissjóðs. Í fundargerð nefndar sem fjármálaráðherra skipaði af þessu tilefni 6. desember þetta ár, en fundargerðin er frá 20. sama mánaðar, er haft eftir þáverandi ráðuneytisstjóra, sem var formaður nefndarinnar, að ákvæðið um að færa lífeyrisaldur niður í 60 ár væri angi af kjarasamningi og kostnaður af framkvæmd þess yrði ekki borinn af öðrum en samningsaðilum. Ítrekuð var sú afstaða að ríkissjóður tæki engar byrðar á sig í þessu sambandi.

III.

Fallast verður á það með áfrýjanda að undirbúningur frumvarps þess sem varð að lögum nr. 48/1981 hafi verið óvandaður. Hefði verið full ástæða til þess að láta tryggingafræðing reikna út hvað ætla mætti að breytingin kostaði lífeyrissjóðinn. Útreikninginn hefði síðan átt að leggja fyrir Alþingi og skýra frá því hvort og þá hvaða aðgerðir væru fyrirhugaðar til þess að mæta auknum útgjöldum. Hvorki í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 6. desember 1980 né athugasemdum við lagafrumvarpið er nokkuð að finna um það hvernig fjármagna átti þessa breytingu. Verður ekki á það fallist að skýra hafi mátt aðgerðir ríkisstjórnarinnar svo að hún ætlaði ríkissjóði að standa straum af kostnaðinum sem af þessu leiddi. Jafnvel þótt stjórn lífeyrissjóðsins hafi talið að í gerðum ríkisstjórnarinnar hafi verið að finna einhvers konar fyrirheit um að greiða kostnaðinn, fólst ekki í þeim bindandi loforð að lögum um greiðslur úr ríkissjóði. Til þess þurfti lagaheimild, sbr. 41. gr. stjórnarskrárinnar. Verður krafa áfrýjanda ekki byggð á loforði um greiðslur úr ríkissjóði.

 Þegar stjórnvöld hlutuðust ekki til um aðgerðir til að mæta auknum skuldbindingum sjóðsins hlaut sú skylda að hvíla á stjórn hans, sbr. 6. gr. laga nr. 49/1974, en fljótlega kom í ljós, svo sem að framan greinir, að af hálfu stjórnvalda yrði ekki lagt fram fé til sjóðsins. Skiptir ekki máli í því sambandi að síðar hafa verið greiddar til sjóðsins verulegar fjárhæðir úr ríkissjóði samkvæmt sérstökum lagaákvæðum, eins og áður er frá skýrt. Hvíldi það þannig á stjórninni að hafa frumkvæði að því að reglum um sjóðinn væri breytt á þann veg að ekki væri greitt meira úr honum en hann þyldi. Lagabreytingin, sem aðilar eru sammála um að hafi verið til komin vegna óska sjómanna, leiddi ekki til þess að fjármunir væru teknir frá áfrýjanda heldur jukust greiðslur hans til eigin sjóðfélaga, sem hófu töku lífeyris fyrir 65 ára aldur, á kostnað heildarinnar. Fallast verður því á það með héraðsdómi að í raun hafi lagabreytingin þýtt tilfærslu réttinda milli félaga í lífeyrissjóðnum. Breytingin var almenn og náði til allra sem eins voru settir. Skiptir ekki máli í því sambandi að lögin náðu aðeins til félaga í lífeyrissjóðnum, enda höfðu lífeyrisþegar annarra sjóða ekki viðlíka réttindi að lögum. Verður þannig ekki fallist á að eign sjóðsins hafi verið skert í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Samkvæmt því sem að framan greinir ber að sýkna stefnda af öllum kröfum áfrýjanda í máli þessu.

Rétt þykir með tilliti til málsatvika að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                    Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2001.

I

Mál þetta sem dómtekið var 14. maí sl. höfðaði Lífeyrissjóður sjómanna, kt. 460673- 0119, Þverholti 14, Reykjavík gegn íslenska ríkinu með stefnu birtri 12. apríl 2000.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kr. 1.364.900.000 -krónur einn milljarð þrjúhundruð sextíu og fjórar milljónir og níuhundruð þúsund- auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. júní 1999 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati réttarins.

Til vara krefst stefndi þess að stefnukröfurnar verði stórkostlega lækkaðar og máls­kostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

II

Málavextir.

Árið 1958 var komið á fót lífeyrissjóði fyrir togarasjómenn með lögum nr. 49/1958. Með því vildu stjórnvöld og löggjafinn hvetja menn til þess að gera sjómennsku að ævistarfi, en illa hafði gengið að manna togaraflotann. Ríkið tók ekki á sig ábyrgð á lífeyrisgreiðslum til sjóðfélaga, en lagði sjóðnum hins vegar til nokkurt stofnfé. Sjóðfélögum bar að greiða 4% af heildarárslaunum sínum í sjóðinn og launagreiðendur 6%. Hafa iðgjaldagreiðslur í sjóðinn verið miðaðar við þetta  hlutfall æ síðan. Sá sem greitt hafði í sjóðinn í 10 ár og var orðinn 65 ára átti rétt á árlegum ellilífeyri úr sjóðnum, ákveðnum hundraðshluta af meðallaunum sínum 10 síðustu starfsárin. Fór þessi hundraðshluti hækkandi í hlutfalli við lengri starfsaldur.

Ný lög voru sett um sjóðinn, nr. 78/1962, og fékk hann þá nafnið Lífeyrissjóður  togarasjómanna og undirmanna á farskipum en hinir síðarnefndu fengu þá aðild að sjóðnum. Reglur um greiðslu lífeyris úr sjóðnum voru hinar sömu og fyrr að öðru leyti en því að lífeyri mátti miða við meðallaun síðustu 20 ára í stað 10 væri það sjóðfélaga hagstæðara.

Í lögunum er kveðið á um það að stjórn sjóðsins skuli fylgjast vandlega með

fjárhag, rekstri og starfsemi sjóðsins og sjá um ávöxtun hans. Er einnig kveðið á um hið sama í lögum sem um sjóðinn hafa gilt, allt þar til lög nr. 94/1994 voru sett.

Í 9. gr. laga nr. 78/1962 er kveðið á um það að stjórn sjóðsins skuli fimmta hvert ár fá tryggingafræðing til þess að rannsaka fjárhag sjóðsins. Sýndist honum fjárhagsgrundvöllur ótryggur skyldi hann gera tillögur til stjórnar um aðgerðir til þess að efla sjóðinn. Á sama hátt gat tryggingafræðingurinn gert tillögur um lækkun iðgjalda gæfi fjárhagur sjóðsins tilefni til þess.

Lögum nr. 78/1962 var breytt með lögum nr. 59/1970. Aðild að sjóðnum var þá rýmkuð þannig að sjómenn og beitingamenn, sem lögskráðir voru á íslensk vélskip 12 lesta eða stærri, urðu félagar. Reglur um greiðslur úr sjóðnum voru með sama hætti og áður. Sérreglur voru settar um greiðslur hinna nýju sjóðfélaga í sjóðinn.

Með nýjum lögum um sjóðinn, nr. 78/1970, var honum gefið nafnið Lífeyrissjóður sjómanna sem hann hefur borið síðan. Reglum um greiðslur úr sjóðnum var ekki breytt.

Sama ákvæði var í þessum lögum um atbeina tryggingafræðings og í lögum nr. 78/1962.

Lög nr. 78/1970 voru felld úr gildi með lögum nr. 49/1974 um Lífeyrissjóð sjómanna.

Greiðslur í sjóðinn samkvæmt þessum lögum voru með þeim sama hætti og áður að sjóðfélagi greiddi 4% af launum sínum en vinnuveitandi 6%, en ýmist miðað við heildarárslaun eða hluta heildarárslauna.

Í 8. gr. þessara laga segir að stjórn sjóðsins skuli fimmta hvert ár, eða oftar,  fá tryggingafræðing til þess að reikna út fjárhag sjóðsins. Ekki er gert ráð fyrir því að tryggingafræðingurinn geri tillögur um lækkun iðgjalda eins og áður var í lögunum.

Samkvæmt lögunum öðluðust sjóðfélagar rétt til töku lífeyris við 65 ára aldur hefðu þeir greitt iðgjöld í 5 almanaksár eða lengur og áunnið sér samanlagt a.m.k. 3 stig samkvæmt ákveðnum útreikningi sem ekki er ástæða til að rekja hér.

Þá var lögunum breytt á þann hátt að sjóðfélagi gat byrjað lífeyristöku 60 ára gamall að fullnægðum ákveðnum skilyrðum. Kveðið  er á um þetta í 3. mgr. 12. gr. laganna sem er svohljóðandi:

„Heimilt er sjóðfélaga, sem stundað hefur sjómennsku í 25 ár eða lengur, þar af a.m.k. 5 ár eftir 50 ára aldur, og verið lögskráður á íslenskt skip eigi skemur en 180 daga hvert ár, að hefja töku ellilífeyris, þegar hann er fullra 60 ára. Á sama hátt veitir 20-25 ára starf á sjó rétt til töku ellilífeyris frá 61 árs aldri og 15-20 ára starf til töku hans frá 62 ára aldri. Sé ellilífeyrir tekinn fyrr en frá 65 ára aldri, lækkar upphæð hans um 0.3% fyrir hvern mánuð eða brot úr mánuði, sem vantar á 65 ára aldur, er taka hans hefst.“

Skerðingin gat þannig orðið allt að 18% og hélst eftir að sjóðfélagi hafði náð 65 ára aldri.

Undanfari þessa lagaákvæðis var útreikningur tryggingafræðings sem byggðist m.a. á því að ekki myndu allir sem ættu rétt á því að taka lífeyri fyrir 65 ára aldur nýta sér þann rétt. Þannig ætti skerðing um 0,3% fyrir hvern mánuð að nægja til þess að heildarútgjöld sjóðsins ykjust ekki við þessa breytingu. Tryggingafræðingurinn taldi hins vegar að skerðingin þyrfti að vera 0,4% nýttu allir sér réttinn.

Í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 49/1974, og samin  er af tryggingafræðingi, segir að fjárhagur Lífeyrissjóðs sjómanna sé traustari en margra annarra lífeyrissjóða vegna þess hve margir hafi hætt aðild að sjóðnum og skilið eftir hlut vinnuveitanda. Áfram segir að almenn aðild launþega að sjóðnum muni draga úr tekjum af þessu tagi, en engu að síður telur tryggingafræðingurinn fært að gera breytingar á bótaákvæðum sem verði lífeyrisþegum til verulegra hagsbóta á næstu árum.

Næst var lögum um Lífeyrissjóð sjómanna, nr. 49/1974, breytt með lögum nr. 10/1978 og var þar kveðið á um hvernig stjórn sjóðsins skyldi ávaxta hann.

Þá var lögunum breytt með lögum nr. 15/1980 og varðaði sú breyting aukna verðtryggingu lífeyris úr sjóðnum frá því sem verið hafði í lögum nr. 49/1974. Einnig var aukinn réttur til makalífeyris.

Í greinargerð með lagafrumvarpinu kemur fram að ekki er gert ráð fyrir auknum tekjum sjóðsins til að mæta þeirri útgjaldaaukningu sem aukin verðtrygging hafði í för með sér, sem þó var ekki talin verða veruleg næstu ár. Þá kemur fram í greinargerðinni að fram á síðustu ár hafi staða sjóðsins verið talin sterk.

Lögum nr. 49/1974 um Lífeyrissjóð sjómanna var breytt með lögum nr. 48/1981. Með þessum breytingarlögum var kveðið á um almenna skylduaðild allra sjómanna að Lífeyrissjóði sjómanna sem ráðnir eru á íslensk skip 12 rúmlesta og stærri og skipti þá ekki máli hvort um lögskráningu á skip var að ræða eða ekki. Á skylduaðildinni voru þó gerðar undantekningar sem óþarft er að rekja. Fjölgaði sjóðfélögum við þessa breytingu.

Eftir breytingu á 3. mgr. 12. greinar hljóðaði hún svo:

„Heimilt er sjóðfélaga, sem stundað hefur sjómennsku í 25 ár eða lengur og verið lögskráður á íslenskt skip eigi skemur en í 180 daga að meðaltali á ári, að hefja töku ellilífeyris þegar hann er fullra 60 ára. Á sama hátt veitir 20-25 ára starf á sjó rétt til töku ellilífeyris frá 61 árs aldri og 15-20 ára starf til töku hans frá 62 ára aldri. Fáist ekki upplýsingar um lögskráningardaga er stjórn sjóðsins heimilt að beita annarri reglu um mat á áunnum rétti til flýtingar á töku lífeyris.“

Ákvæðið um að lífeyrir skertist um 0,3% fyrir hvern mánuð lífeyristöku fyrir 65 ára aldur var þannig fellt úr gildi sem leiddi til hækkunar lífeyrisgreiðslna og aukningar lífeyrisskuldbindinga.

Kröfugerð stefnanda í málinu er byggð á því að þennan útgjalda- og skuldbindingaauka beri ríkissjóði að greiða lífeyrissjóðnum eins og nánar verður lýst síðar.

Í greinargerð með frumvarpi að lögunum segir að það sé borið fram vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga sjómanna í febrúar sl. [1981] Þá kemur fram í greinargerðinni að breytingin sem fyrirhuguð sé á 3. og 4. mgr. 12. gr. laganna sé gerð til samræmis við breytingu á almannatryggingalögum í sömu átt. Almannatryggingalögum nr. 67/1971 hafði um svipað leyti verið breytt með lögum nr. 30/1981 í þá átt að sjómenn öðluðust rétt á því að taka ellilífeyri frá 60 ára aldri, að uppfylltum vissum skilyrðum.

Lögð hefur verið fram í málinu yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands við afgreiðslu kjarasamninga Farmanna- og fiskimannasambands Íslands í desember 1980, en þetta mun vera yfirlýsing sú sem vitnað er til í greinargerðinni.

Í yfirlýsingunni er talið upp í 7 liðum hvað ríkisstjórnin muni gera við afgreiðslu þessara kjarasamninga. Í 5 lið, sem er um lífeyrismál, segir svo:

„Auk þess, sem þegar hefur verið ákveðið í lífeyrismálum mun ríkisstjórnin í samráði við hagsmunaaðila beita sér fyrir því, að þeir sem sjómennsku stunda verði tryggðir í einum lífeyrissjóði.

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því, að viðunandi lausn geti fengist í iðgjaldagreiðslumálum bátasjómanna. Í því skyni verði sett á laggirnar nefnd aðila og ríkisvalds er skili áliti fyrir janúarlok nk.

Ríkisstjórnin mun kanna hvort eðlilegt sé í tengslum við lækkun lífeyrisaldurs sjómanna í almannatryggingum, að sama regla gildi hvað rétt sjómanna varðar í lífeyrissjóðum, og hvaða kostnaðarauka slíkt myndi hafa í för með sér“.

Í umræðum á Alþingi um frumvarpið kom fram að fjárhags- og viðskiptanefnd hafi haft náið samráð við Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Sjómannasamband Íslands og hafi þessir aðilar verið sammála fyrirhuguðum breytingum á lögum sjóðsins.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að við stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna hafi ekkert samráð verið haft. Gögn málsins bera ekki með sér að löggjafinn hafi haft samráð við stjórn sjóðsins vegna þessara breytinga.

Í gögnum málsins kemur fram að við upphaf kjarasamninga Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands annars vegar og Landssambands íslenskra útvegsmanna hins vegar í desember 1980 hafi sáttasemjari ríkisins beitt sér fyrir fundi félagsmálaráðherra með fulltrúum sjómanna. Á fundinum hafi fulltrúar sjómanna gert þá kröfu að ríkissjóður ábyrgðist þá útgjaldaaukningu sem hlytist af auknum lífeyrisréttindum sjómanna. Ráðherra hafi svarað því til að ríkissjóður gæti ekki ábyrgst Lífeyrissjóði sjómanna óútfyllta ávísun, fyrst yrði að liggja fyrir sá kostnaðarauki sem hlytist af lagasetningunni um lækkun lífeyrisaldurs sjómanna áður en peningagreiðslur kæmu til kasta ríkisvaldsins.

Í bréfi nefndar, sem skipuð var af fjármálaráðherra 6. desember 1982 til að fjalla um lífeyrismál sjómanna, til fjármálaráðherra dags. 6. mars 1984 kemur eftirfarandi fram:

„Eigi lögin um Lífeyrissjóð sjómanna að standa óbreytt í framtíðinni, eru varla nema tvær leiðir til að afla fjár til að standa straum af hinum aukna kostnaði [lækkun á ellilífeyrisaldri]. Önnur er sú að stjórnvöld beri ábyrgð á lagasetningunni og tryggi það fjármagn, sem til þarf, eins og þau hafa raunar gert með því að útdeila fé úr gengismunasjóði til Lífeyrissjóðs sjómanna og SAL sjóða, sem hafa sjómenn innan sinna vébanda. Hin leiðin er sú, að staðið verði undir auknum kostnaði með verulegri hækkun á iðgjöldum. Ekki hefur náðst samstaða í nefndinni um málið.

Formaður nefndarinnar, Höskuldur Jónsson, hefur lýst því yfir, að ríkissjóður hafi ekki í hyggju að bera þann kostnað, sem breytingin hefur í för með sér. ... Fulltrúar launþegar ítreka að sjómannasamtökin hafi í viðræðum við ríkisvaldið alltaf haldið þeirri skoðun fram, að ríkissjóður eigi að greiða kostnaðinn ...“

Í tengslum við skipun framangreindrar nefndar kom fram af hálfu fjármálaráðherra að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar  frá því í desember 1980, að því er varðaði lífeyrismálin, bæri ekki að skilja sem fjárhagslega skuldbindingu fyrir ríkissjóð.

Í bréfi fjármálaráðuneytisins til Farmanna- og fiskimannasambands Íslands dags. 7. maí 1986 kemur eftirfarandi fram:

„Fjármálaráðuneytið vill ennfremur árétta það, að Ríkissjóður hefur ekki undirgengist neinar skuldbindingar um fjárframlög til Lífeyrissjóðs sjómanna og er á engan hátt ábyrgur fyrir lífeyrisgreiðslum úr sjóðnum.“

Hinn 14. mars 1990 ritar Lífeyrissjóður sjómanna forsætisráðherra bréf sem fylgir frumvarp til breytinga á lögum nr. 49/1974 þar sem kveðið er á um það að ríkissjóður beri þann kostnað sem hlýst af greiðslu lífeyris til sjómanna yngri en 65 ára og er síðan vitnað til 4. gr. laga nr. 48/1981.

Þessu bréfi er svarað með bréfi forsætisráðuneytisins dags. 18. september 1990. Í bréfinu kemur m.a. fram:

„Verður að teljast  eðlilegt að Lífeyrissjóður sjómanna greiði lífeyri í samræmi við 8. gr. laga um sjóðinn þ.e. að uppbætur á lífeyrisgreiðslur sjóðsins ráðist af útreikningi tryggingastærðfræðings á fjárhag sjóðsins hverju sinni. Einnig að með sama hætti skerðist upphæð lífeyrisgreiðslna til þeirra sem hefja töku lífeyris fyrr en almennt er gert ráð fyrir í reglum sjóðsins. Skerðingin ráðist af fyrrgreindu mati tryggingastærðfræðings á fjárhag sjóðsins.

Eins og gögn málsins bera með sér, þá  hefur ríkisvaldið aldrei skuldbundið sig til að rísa undir þeim aukakostnaði er hlytist af lækkun lífeyrisaldurs hjá Lífeyrissjóði sjómanna. Hugsunin hefur vafalaust verið sú, að tekjur til sjós, þann lágmarkstíma sem krafist er til að fá lífeyri frá 60 ára aldri, svo og iðgjaldagreiðslur af öllum launum, nægðu til viðunandi lífeyris, þrátt fyrir að skerðingarákvæðin kæmu til.

Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum njóta sjómenn nú þegar þeirra einstæðu kjara að fá ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins frá 60 ára aldri í stað 67 ára aldurs líkt og allir aðrir landsmenn.“

Lögum nr. 49/1974 var breytt með lögum nr. 78/1985 og var þá hækkun lífeyris samfara frestun á töku hans, sem nam ½% á mánuði fyrir hvern mánuð fram yfir 65 ára aldur, einnig látin ná til þeirra sem öðlast höfðu rétt á töku lífeyris fyrir það aldursmark, en frestunarákvæðið hafði áður ekki náð til þeirra. Þá voru gerðar breytingar í hækkunarátt á þeirri viðmiðun sem notuð var við greiðslu lífeyris.

Í umræðum á Alþingi kom fram að kostnaðarauki sem af þessu hlytist myndi ekki falla á ríkissjóð.

Lögum nr. 49/1974 var breytt með lögum nr. 44/1992 og var þá viðmiðunum um töku örorkulífeyris breytt og leiddi sú breyting til að örorkulífeyrir lækkaði eða féll niður í vissum tilvikum.

Lög nr. 49/1974 voru felld úr gildi með lögum nr. 94/1994 um Lífeyrissjóð sjómanna. Þessi lög hafa fá ákvæði að geyma en í 5. gr. er kveðið á um það að nánari ákvæði um skipulag sjóðsins og starfsemi skuli setja í reglugerð sem stjórn hans semji og staðfest sé af þar til greindum samtökum.

Reglugerð þessi hefur ekki verið lögð fram í málinu en með henni voru lífeyrisgreiðslur þeirra sem þá höfðu hafið töku lífeyris fyrir 65 ára aldur skertar með svipuðum hætti og var áður en skerðingarákvæðið var fellt niður með lögum nr. 48/1981. Einn sjóðfélaga höfðaði mál gegn lífeyrissjóðnum og niðurstaða Hæstaréttar í dómi 28. maí 1998 var sú að óheimilt hefði verið skerða lífeyrisréttindi sjóðfélagans með reglugerðarákvæði, en lífeyrisréttindin nytu verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Til skerðingarinnar hefði þurft skýlausa lagaheimild.

Þetta leiddi til þess að Lífeyrissjóður sjómanna þurfti að greiða þessum sjóðfélaga og öðrum þeim sem sömu réttarstöðu höfðu, en samtals voru þetta 108 sjóðfélagar, kr. 62.470.642 á árinu 1998. Telur stefnandi að framtíðarskuldbindingar sjóðsins gagnvart þessum sjóðfélögum hafi aukist um kr. 78.800.000. Eru þessar fjárhæðir hluti af stefnukröfu.

Í málinu hefur verið lagður fram útreikningur tryggingastærðfræðings á fjárhagsstöðu Lífeyrissjóðs sjómanna miðað við 31. desember 1992, dagsettur 28. apríl 1994. Þar kemur fram að staða sjóðsins sé slæm. Meginástæðan fyrir lakri stöðu sjóðsins umfram aðra sjóði sé sú að hann greiði lífeyri frá 65 ára aldri og allt frá 60 ára aldri á meðan aðrir sjóðir greiði almennt lífeyri frá 70 ára aldri. Halli á sjóðnum í reynd sé kr. 12.878.000.000 miðað við lögbundnar skyldur hans.

Ný lög, nr. 45/1999, voru sett um Lífeyrissjóð sjómanna og þá felld úr gildi lög nr. 94/1994. Þá er á nýjan leik tekið upp ákvæði um skerðingu lífeyrisgreiðslna til þeirra sem hefja lífeyristöku fyrir 65 ára aldur.

Óumdeilt er að ríkið greiddi eða beitti sér fyrir því að til stefnanda rynnu eftirtaldar greiðslur

Kr. 3.666.500 á á árinu 1982 og 1983 á grundvelli 4. tl. 4. gr. laga nr. 2/1983 um efnahagsaðgerðir, sbr. bráðabirgðalög nr. 79/1982.

Kr. 21.375.000 á árinu 1984 samkvæmt bráðabirgðalögum nr. 55/1983, sbr. lög nr. 71/1984 um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum.

Kr. 231.123.696 árin 1992 og 1993 samkvæmt 5. gr. laga nr. 29/1992 um viðauka við lög um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins.

Kr. 2.583.188 á árinu 1994 samkvæmt lögum um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd.

Þá er og óumdeilt að núvirði þessara greiðslna samanlagðra megi teljast kr. 720.000.000 miðað við 1. janúar 1999 og núvirði tveggja fyrstu greiðslnanna miðað við sama tíma kr. 292.000.000.

III

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að hann sé sjálfstæður lögaðili og geti sem slíkur átt réttindi og borið skyldur að einkarétti. Eignir sjóðsins njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Um það sé ekki deilt.

Ríkisvaldið hafi skert eignir Lífeyrissjóðs sjómanna með því að breyta lögum nr. 49/1974 um sjóðinn með lögum nr. 48/1981 á þann veg að skylda sjóðinn til þess að greiða sjóðfélögum á aldrinum 60-65 ára óskertan lífeyri. Þessi skylda hafi ekki verið felld niður fyrr en með lögum nr. 45/1999. Auknar greiðslur stefnanda og greiðsluskuldbindingar af þessum sökum nemi stefnufjárhæðinni, kr. 1.364.900.000, samkvæmt útreikningum fyrirtækisins Talnakönnunar hf. sem miðaðir séu við 613 sjóðfélaga. Þessi fjárkrafa sé ófyrnd. Útreikningar Talnakönnunar hf., sem ekki hafi verið hnekkt, séu full sönnun þess að fjárhæð stefnukröfu sé rétt. Frá þessari fjárhæð megi draga til skuldajafnaðar kr. 292.000.000, þ.e.a.s. það sem ríkisvaldið hafi á árunum 1982-1984 greitt í sjóðinn úr gengismunasjóði samkvæmt lögum nr. 2/1983 um efnahagsaðgerðir, sé litið svo á að skuldajafnaðarkrafan sé ófyrnd. Þessi greiðsla hafi hins vegar falið í sér viðurkenningu ríkisins á skyldu þess að greiða lífeyrissjóðnum bætur fyrir aukin útgjöld hans.

Því sé hins vegar mótmælt að aðrar greiðslur í sjóðinn eigi að koma til frádráttar enda greiddar með fjármunum sem sjóðfélagar sjálfir hafi átt. Til Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins hafi runnið fé sem orðið hafi til vegna hlutaskerðingar sjómanna. Greiðsla verðjöfnunarsjóðs í lífeyrissjóðinn, kr. 221.878.749 árið 1993,  hafi því verið fé sem sjómenn hafi átt. Greiðsla í lífeyrissjóðinn samkvæmt lögum um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins nr. 43/1998, kr. 2.583.188, sem innt hafi verið af hendi árið 1998, hafi komið til vegna þeirrar lagasetningar.

Með því að breyta lögunum á framangreindan hátt hafi ríkið stuðlað að lausn kjaradeilu sem sjómenn hafi átt í við viðsemjendur sína á þessum tíma. Um lagabreytinguna hafi ekki verið haft samráð við stjórn lífeyrissjóðsins og hún ekkert haft um hana að segja. Lausn kjaradeilunnar hafi verið sú almenningsþörf sem ríkið hafi talið vera fyrir hendi. Ríkið hafi hins vegar ekki kostað þessa lausn heldur með lagasetningu lagt kostnaðinn á Lífeyrissjóð sjómanna, einan lífeyrissjóða, og þennan kostnað beri ríkinu að bæta sjóðnum samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar. Með því að leggja þannig aukna greiðsluskyldu á Lífeyrissjóð sjómanna, en ekki jafnframt á aðra lífeyrissjóði, hafi ríkið og brotið gegn viðurkenndri jafnræðisreglu stjórnskipunarlaga, nú 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Með breytingarlögum nr. 78/1985 hafi réttindi félaga í Lífeyrissjóði sjómanna verið samræmd réttindum félaga í öðrum lífeyrissjóðum og skipti þessi lagabreyting engu um niðurstöðu þessa máls.

Lífeyrissjóður sjómanna hafi ítrekað orðið að skerða bætur til sjóðfélaga til þess að geta staðið undir þeim auknu útgjöldum sem ríkisvaldið hafi á sjóðinn lagt með lögum og verði stjórn sjóðsins ekki sökuð um að hafa vanrækt skyldur sínar. Lagasetning af þessu tagi sé óheimil komi bætur ekki til. Þannig séu skilyrði bótaskyldunnar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar fyrir hendi en eftir sé að greiða bæturnar.

Stefnandi kveðst einnig byggja kröfu sína á reglum samningaréttar um loforð og bætur vegna vanefnda á samningum.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá því í desember 1980 hafi verið gefin til þess að stuðla að lausn kjaradeilunnar. Hún hafi verið skuldbindandi fyrir ríkið, reikna hafi átti út kostnaðaraukann sem af lagabreytingunni 1981 stafaði og ríkið síðan átt að greiða hann. Líta verði á þessa yfirlýsingu sem loforð um greiðslu. Ríkið hafi hvorugu komið í framkvæmd, að reikna út kostnaðaraukann né greiða hann.

IV

Málsástæður og lagarök stefnda.

Af  hálfu stefnda er því alfarið mótmælt að hann hafi með loforði eða samningi tekið að sér að greiða kostnað sem leiddi af þeirri breytingu sem gerð var á 3. mgr. 12. gr. laga nr. 49/1974 með 4. gr. laga nr. 48/1981. Engin gögn liggi fyrir í málinu sem hægt sé að byggja á slíka greiðsluskyldu.

Af hálfu stefnda er því og mótmælt að framangreind lagabreyting hafi falið í sér skerðingu löggjafans á stjórnarskrárvörðum eignarrétti stefnanda þannig að varðað geti bótaskyldu ríkisins gagnvart honum.

Lífeyrissjóði sjómanna hafi verið komið á fót með lögum og hafi það verið á valdi almenna löggjafans að gera breytingar á þeim lögum sem um sjóðinn giltu á hverjum tíma, hvort heldur til að auka eða létta skuldbindingar sjóðsins. Það hafi hins vegar ekki falið í sér að ríkið tæki á sig almenna fjárhagsábyrgð á sjóðnum.

Breytingin sem gerð hafi verið á 3. mgr. 12. gr. laganna um lífeyrissjóðinn hafi verið almenn og reist á málefnalegum forsendum. Með lögun nr. 49/1974 hafi verið aukin réttindi þeirra sjóðfélaga sem áttu langan starfsaldur að baki og höfðu greitt iðgjöld til sjóðsins um langan tíma. Þeim hafi samkvæmt lögunum verið heimilað að taka lífeyri frá 60 ára aldri að vissum skilyrðum uppfylltum og með ákveðinni skerðingu, sem mest hafi getað numið 18%. Um tiltölulega fámennan hóp hafi verið að ræða. Ekki fái staðist að löggjafanum hafi verið óheimilt að rýmka þau réttindi sem þannig voru fyrir hendi með þeim hætti sem hann gerði með lögum nr. 48/1981. Aukin réttindi þessara sjóðfélaga hafi hlotið að leiða til skerðingar á réttindum annarra sjóðfélaga, væri ekkert að gert. Breytingin hafi þannig haft í för með sér tilfærslu réttinda á milli sjóðfélaga, sem ekki sé hægt að skoða sem tjón hjá sjóðnum.

Jafnhliða þessari breytingu hafi verið rækilega kannað hvort aðrir lífeyrissjóðir sem sjómenn áttu aðild að, svokallaðir SAL sjóðir, gætu tekið upp sama fyrirkomulag á greiðslu lífeyris, en það hafi verið vandkvæðum bundið vegna blandaðrar aðildar að þessum sjóðum.

Breytingarlögin nr. 48/1981 hafi og styrkt stöðu Lífeyrissjóðs sjómanna fjárhagslega. Þannig hafi sjóðurinn verið gerður að almennum lífeyrissjóði sjómanna sem öllum sjómönnum hafi verið skylt að eiga aðild að nema við ættu sérstakar lögbundnar undanþágur. Lífeyrissjóður sjómanna hafi þannig orðið eini starfsgreinasjóður sjómanna og þar með hafi honum verið tryggðar iðgjaldatekjur frá fjölda ungra sjómanna. Það hafi haft verulega þýðingu fyrir fjárhag sjóðsins.

Með breytingalögunum hafi jafnframt verið reistar skorður við því að iðgjöld yrðu endurgreidd úr sjóðnum nema í því skyni að færa fé og réttindi á milli lífeyrissjóða.

Þá beri til þess að líta að stjórn sjóðsins hafi verið skylt að lögum að láta fara fram tryggingafræðilega úttekt á fjárhag sjóðsins og hafi lögin haft að geyma almennan fyrirvara um endurskoðun lífeyrisréttinda gæfi sú úttekt og efnahagur sjóðsins tilefni til. Það hafi sýnt sig að 1980 hafi staða lífeyrissjóðsins verið sterk og hin umdeilda breyting hafi ekki haft verulega aukningu á skuldbindingum í för með sér. Þá hafi verðtrygging og nýir ávöxtunarmöguleikar komið til sögunnar á þessum tíma.

Stjórn lífeyrissjóðsins hafi beitt sér fyrir breytingu á lögum sjóðsins þegar sett voru breytingalög nr. 78/1985 sem hafi haft í för með sér aukinn rétt allra sjóðfélaga til lífeyrisgreiðslna. Þetta hljóti að vera vísbending um að stjórn sjóðsins hafi talið fjárhagsstöðu hans góða. Hér hafi ekki verið um það að ræða að réttindi sjóðfélaga væru samræmd réttindum félaga í öðrum lífeyrissjóðum heldur hreina réttindaaukningu.

Samkvæmt því sem að framan segi sé fjarri lagi að hægt sé að skoða auknar lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga sem tjón sjóðsins sem ríkinu beri að bæta á grundvelli 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Þá er því haldið fram af hálfu stefnda að allar kröfur stefnanda séu fyrndar. Stefnandi byggi á því að hann hafi beðið tjón vegna setningar laga nr. 48/1981 og verði því að líta á þá lagasetningu sem tjónsatburð. Hafi því fyrningarfrestur verið löngu liðinn áður en mál þetta hafi verið höfðað.

Þá mótmælir stefndi því að auknar greiðslur lífeyris vegna málaferla sem risið hafi í kjölfar setningar laga nr. 94/1994 verði lagður á ríkissjóð. Ríkið hafi ekki haft nein afskipti af þeirri skerðingu sem ákveðin var í reglugerð um sjóðinn og ekki hafi verið talin standast stjórnarskrá. Þá telur stefndi að sá hluti stefnukröfu sem byggist á niðurstöðu Hæstaréttar í framangreindum málaferlum hafi hækkað um 108 milljónir við nýjan útreikning á kröfum stefnanda og mótmælir því að sú hækkun komist að í málinu.

Kröfur stefnanda vegna framtíðarskuldbindinga sjóðsins fái ekki staðist eins og þær séu settar fram því að þau lög sem nú gildi um sjóðinn, nr. 45/1999, hafi að geyma skerðingarákvæði sem hafi áhrif á framtíðarskuldbindingarnar.

Þá mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda. Ekki hafi verið gerð fullnægjandi grein fyrir kröfum í stefnu málsins og komi dráttarvextir ekki til álita frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.

Þær greiðslur sem runnið hafi í sjóðinn á árunum 1982-1994 eigi að koma til frádráttar kröfum stefnanda verði litið svo á að hann eigi rétt á bótum. Þessar greiðslur hafi ekki falið í sér neins konar viðurkenningu á greiðsluskyldu af hálfu stefnda.

V

Niðurstaða dómsins.

Í máli þessu er óumdeilt að stefnandi, Lífeyrissjóður sjómanna, er lögaðili og getur borið skyldur og átt réttindi, þ.á m. rétt til skaðabóta. Af því leiðir að eignir sjóðsins nutu verndar 67. greinar stjórnarskrárinnar, nú 72. greinar hennar, sbr. 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, að þeim skilyrðum fullnægðum sem sett eru í greininni. Þeir sem rétt eiga til að njóta eigna sjóðsins eru hins vegar þeir sjóðfélagar sem ákvarðaður er sá réttur í þeim lögum sem um sjóðinn gilda á hverjum tíma.

Eins og að framan er rakið var Lífeyrissjóði sjómanna komið á fót með setningu laga nr. 49/1958. Starfsemi sjóðsins hefur verið lögbundin æ síðan, síðast með lögum nr. 45/1999. Á starfstíma sjóðsins hefur staða sjóðfélaga tekið breytingum, einkum að því leyti að réttindi þeirra hafa ýmist verið skert eða aukin. Þótt þær breytingar hafi ekki gengið jafnt yfir alla sjóðfélaga hafa þær náð jafnt til allra þeirra sem eins var ástatt um á sama tíma eftir því sem best verður séð. Aukin réttindi ákveðins hóps sjóðfélaga, sem leiða til aukinna útgjalda sjóðsins, eru til þess fallin að valda skerðingu á réttindum annarra sjóðfélaga sé ekkert að gert til að mæta skerðingunni. Þannig eru nú í lögum nr. 45/1999, sbr. 3. mgr. 9. gr., ákvæði um að þeir sjóðfélagar sem hefja töku lífeyris fyrir 65 ára aldur skuli sæta ákveðinni skerðingu lífeyrisins og er tvímælalaust að það ákvæði var sett í lög til að bæta fjárhagsstöðu sjóðsins auk annarra breytinga sem gerðar voru í sömu átt. Þessari skerðingu þurftu þeir hins vegar ekki að sæta sem tóku lífeyri með sama hætti þegar lög nr. 48/1981 voru í gildi.

Óumdeilt er að löggjafanum er heimilt að lögbinda starfsemi Lífeyrissjóðs sjómanna, þar með að kveða á um skyldur sjóðsins sem lögaðila og hver skuli vera réttindi og skyldur sjóðfélaga. Þegar með lögum nr. 48/1981 var afnumin skerðing á lífeyri þeirra sem hófu töku hans fyrir 65 ára aldur voru þeim hópi fengin aukin réttindi fram yfir þá sem tóku lífeyri með sama hætti á gildistíma laga nr. 49/1974. Afnám þessarar skerðingar hafði kostnaðarauka í för með sér sem stefnandi telur nema stefnufjárhæðinni. Þennan kostnaðarauka vill stefnandi fá bættan úr hendi stefnda og koma þannig í veg fyrir að hann leiði til skerðingar á rétti annarra sjóðfélaga.

Hér er í raun um að ræða tilfærslu réttinda á milli félaga í Lífeyrissjóði sjómanna og þykir hún ekki vera þess eðlis að sjóðurinn hafi með henni verið skyldaður til þess að láta eign sína af hendi í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar af þessari ástæðu ber að sýkna stefnda af skaðabótakröfu stefnanda.

Ekki er hægt að fallast á það að stefndi hafi skapað sér greiðsluskyldu gagnvart stefnanda á grundvelli samnings eða greiðsluloforðs, en ekkert haldbært hefur komið fram í málinu þeirri málsástæðu stefnanda til stuðnings.

Samkvæmt þessu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu

Dóm þennan kváðu upp Friðgeir Björnsson dómstjóri, formaður dómsins, Bjarni Guðmundsson tryggingastærðfræðingur og Skúli Pálmason héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Lífeyrissjóðs sjómanna.

Málskostnaður fellur niður.