Hæstiréttur íslands

Mál nr. 698/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frestur


                                     

Miðvikudaginn 11. janúar 2012.

Nr. 698/2011.

Arion banki hf.

(Erla Arnardóttir hdl.)

gegn

Kristínu Alfreðsdóttur og

Kára Kort Jónssyni

(Valgeir Kristinsson hrl.)

Kærumál. Frestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem frestað var aðalmeðferð máls A hf. á hendur KA og KJ, þar til krafa KA um endurupptöku á gjaldþrotaskiptum bús hennar hefði verið endanlega til lykta leidd. Hæstiréttur felldi hinn kærða úrskurð úr gildi með vísan til þess að hugsanleg endurupptaka á úrskurði, þar sem bú KA var tekið til gjaldþrotaskipta, gæti ekki raskað ráðstöfunum eigna úr þrotabúinu sem þegar hefði átt sér stað, en A hf. hefði þegar fengið afsal fyrir fasteign úr þrotabúi KA. Beiðni KA um endurupptöku úrskurðarins væri því ekki til þess fallin að hafa áhrif á úrslit þessa máls, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. desember 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 2011, þar sem frestað var aðalmeðferð máls sóknaraðila á hendur varnaraðilum, þar til krafa varnaraðilans Kristínar Alfreðsdóttur, í máli nr. G-392/2010, um endurupptöku á gjaldþrotaskiptum bús hennar hefði verið endanlega leidd til lykta. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili fékk afsal fyrir fasteigninni að Hesthömrum 8 í Reykjavík úr hendi þrotabús varnaraðila Kristínar Alfreðsdóttur 18. janúar 2011, svo sem getið er í hinum kærða úrskurði. Bú þessa varnaraðila mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 13. september 2010. Hugsanleg endurupptaka á þeim úrskurði samkvæmt heimild í ákvæði XIII til bráðabirgða í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2010 um breytingu á þeim lögum o. fl., getur ekki raskað ráðstöfunum eigna úr þrotabúinu sem þegar hafa átt sér stað. Beiðni varnaraðila Kristínar um endurupptöku á úrskurðinum er því ekki til þess fallin að hafa áhrif á úrslit þess máls sem frestað var með hinum kærða úrskurði, svo sem tilskilið er í lokaákvæði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi.

Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 2011.

Með aðfararbeiðni, sem barst héraðsdómi 12. júlí sl., hefur sóknaraðili, Arion banki hf., kt. 581008-0150, Borgartúni 19, Reykjavík, krafist þess að varn­ar­aðilar verði ásamt öllu því sem þeim tilheyrir, bornir með beinni aðfarar­gerð út úr fast­eign­inni að Hesthömrum 8, Reykjavík.

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilar, Kristín Alfreðsdóttir, kt. 060359-4239, og Kári Kort Jónsson, kt. 060849-3589, bæði til heimilis að Hesthömrum 8, Reykjavík, krefjast þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Þá krefjast varnaraðilar málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virð­is­aukaskatts á málskostnað.

Málavextir

Hinn 13. september 2010 var bú varnaraðila, Kristínar, tekið til gjald­þrota­skipta, að kröfu sóknaraðila og 18. janúar 2011 afsalaði skiptastjóri búsins sóknaraðila eign Kristínar að Hesthömrum 8. Sóknaraðili bauð varnaraðilum að taka húsið að Hest­hömrum á leigu en varnaraðilar féllust ekki á það. Krafa sóknar­aðila um útburð á varn­ar­aðilum var þingfest 27. maí sl.

Í greinargerð sinni, 15. ágúst, vísuðu varnaraðilar til þess að þau hygðust fara fram á endurupptöku á gjaldþrotaskiptum á búi Kristínar, sem þau gerðu á dómþingi 5. október sl. Hinn 10. október stóð til að aðalmeðferð færi fram vegna kröfu sókn­ar­aðila um útburð en samkomulag varð með málsaðilum um að fresta málinu þar til niður­staða lægi fyrir um beiðni varnaraðila, Kristínar, um endurupptöku á gjald­þrota­skiptum í máli nr. G-392/2010 en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 30. nóvember. Var gert ráð fyrir að aðalmeðferð færi fram þann dag hefði krafa varnaraðila um endur­upp­töku þá verið til lykta leidd.

Á dómþingi 11. nóvember var, við fyrirtöku á máli nr. G-392/2010 og að kröfu varnaraðila, dóm­kvaddur matsmaður til að meta verð fasteignar varnaraðila. Á dóm­þingi 30. Nóvember, við fyrirtöku á kröfu sóknaraðila um útburð á varn­ar­aðilum, vísaði dómari til þess að annar varnaraðila þessa máls, þrotamaður í G-392/2010, hefði óskað þess, með heimild í ákvæði XIII til bráðabirgða í lögum nr. 38/2001 um vexti og verð­trygg­ingu, að fá gjaldþrotaskipti á búi sínu endurupptekin.

Í ákvæðinu segi að hafi gengið dómur um kröfu samkvæmt lánssamningi með óheimilli gengistryggingu skuli endurupptaka heimil skv. XXIII. kafla laga um með­ferð einkamála, nr. 91/1991, án tillits til þess hvort tímafrestir séu liðnir samkvæmt ákvæðum 137. gr. sömu laga. Sama skuli gilda um úrskurði um gjaldþrotaskipti.

Í 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála segi að fái dómari vitneskju um að sakamál hafi verið höfðað eða rannsókn standi yfir vegna refsiverðs athæfis, og telja megi að úrslit þess máls eða rannsóknar skipti verulegu máli um úrslit einkamálsins, geti hann frestað máli af sjálfsdáðum þar til séð sé fyrir enda saka­máls­ins eða rannsóknarinnar. Með sama hætti megi fresta máli hafi annað einkamál verið höfðað út af efni sem varði úrslit þess verulega eða það efni hafi verið réttilega lagt til úrlausnar stjórnvalds.

Þar sem ákvæði XIII til bráðabirgða í lögum nr. 38/2001 gildi bæði um mál skv. lögum nr. 91/1991 og mál skv. lögum nr. 21/1991 þyki 3. mgr. 102. gr. fyllilega gilda um þá stöðu sem málið G-392/2010 sé í. Vegna gjaldþrotaskipta á búi annars varn­ar­aðila hafi sóknaraðili eignast íbúðarhúsnæði varnaraðila. Endurupptaka gjald­þrota­skipta hljóti að hafa veru­lega þýðingu fyrir kröfu sóknaraðila um útburð á varn­ar­aðilum úr því húsnæði sem þau hafi misst vegna gjaldþrotaskiptanna.

Dómari gerði lögmönnum grein fyrir því að hann teldi rétt að fresta þessu máli þar til krafa varnaraðila um endurupptöku á máli nr. G-392/2010 hefði verið leidd til lykta. Lögmaður sóknaraðila mótmælti því að málinu yrði frestað en lögmaður varn­ar­aðila krafðist þess að aðal­meðferð vegna kröfu sóknaraðila um útburð á varn­ar­aðilum yrði frestað þar til úrslit um endurupptökubeiðni varnar­aðila í málinu G-392/2010 lægi fyrir. Lögmenn færðu síðan rök fyrir kröfum sínum.

Málið var tekið til úrskurðar um þessa kröfu varnaraðila.

Niðurstaða

Fyrir dóminum eru nú rekin tvö mál milli sömu aðila. Í öðru krefst sóknaraðili útburðar á varnaraðilum en í hinu krefst varnaraðili, Kristín, endurupptöku á gjald­þrota­skiptum á búi sínu. Sókn­ar­aðili eignaðist það húsnæði sem hann krefst að varnaraðilar rými í kjölfar þess að fallist var á kröfu sóknaraðila um gjald­þrota­skipti á búi Kristínar. Á meðan ekki liggur fyrir hverjar verða lyktir kröfu hennar um endur­upp­töku þykir dómara ekki fært að taka kröfu sóknaraðila um útburð á varnaraðilum til flutnings.

Aðfararmálinu kann mögulega að ljúka þannig að fallist yrði á kröfu sóknar­aðila og hugsanlega verður fallist á kröfu varnaraðila um endurupptöku gjaldþrotamáls hennar. Dómari telur það ekki færa leið að hafa fallist á kröfu sóknaraðila um útburð á varnaraðilum kunni skömmu síðar að verða fallist á kröfu varnar­aðila Kristínar um endurupptöku á búi hennar.

Að mati dómsins varðar endanleg afstaða dómstóla til kröfu varnaraðila, Kristínar, um endur­upp­töku á gjald­þrotaskiptum á búi hennar aðfararmálið svo veru­lega að ákvæði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 eigi fyllilega við og telur hann að fresta verði aðfararmálinu af sjálfsdáðum þar til endan­leg niðurstaða dómstóla hefur fengist um kröfu varnaraðila, Kristínar, um endurupptöku á búi hennar.

Lögmenn kröfðust þess ekki að kveðið yrði á um málskostnað í þessum þætti málsins.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Frestað er, án kröfu, aðalmeðferð máls nr. A-133/2011, Arion banki hf. gegn Kristínu Alfreðsdóttur og Kára Kort Jónssyni, þar til krafa Kristínar, í máli nr. G-392/2010, um endurupptöku á búi hennar hefur endan­lega verið leidd til lykta.