Hæstiréttur íslands
Mál nr. 427/2005
Lykilorð
- Verðbréfaviðskipti
- Hlutabréf
- Aðild
- Málsástæða
|
|
Fimmtudaginn 16. mars 2006. |
|
Nr. 427/2005. |
Sameinaði lífeyrissjóðurinn(Hörður Felix Harðarson hrl.) gegn Guðmundi Oddssyni (Kristinn Hallgrímsson hrl.) |
Verðbréfaviðskipti. Hlutabréf. Aðild. Málsástæður.
S byggði fjárkröfu sína á því að hann hefði átt viðskipti við G um kaup á hlutafé í K 11. nóvember 1999, en G hafi ekki afhent hlutabréf til efnda á kaupsamningnum. G mótmælti því að hafa átt umrædd viðskipti við S og byggði á því að kaupandi hlutabréfa sem hann seldi umrætt sinni hafi verið fyrirtækið B, sem nú sé gjaldþrota. Talið var að S bæri sönnunarbyrði fyrir því að hann hefði átt umrædd viðskipti við G. Ekki var talið að sú sönnun hefði tekist, enda bentu gögn málsins bentu fremur til þess að B hefði keypt bréfin af G og síðan selt þau S. Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var niðurstaða héraðsdóms um sýknu G staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. september 2005. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 9.421.875 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. nóvember 1999 til 30. júní 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi byggir kröfu sína á því, að hann hafi átt viðskipti við stefnda um kaup á hlutafé í Kögun hf. 11. nóvember 1999. Stefndi hafi ekki afhent hlutabréf til efnda á kaupsamningnum og beri honum því að endurgreiða kaupverðið að viðbættum kostnaði, sem áfrýjandi kveðst hafa orðið fyrir við kaupin. Stefndi hefur mótmælt því að hafa átt umrædd viðskipti við áfrýjanda. Telur hann kaupanda hlutabréfa sem hann seldi umrætt sinn hafa verið fyrirtækið Burnham International á Íslandi hf., sem nú er gjaldþrota.
Áfrýjandi ber sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu sinni um að hann hafi átt umrædd viðskipti við stefnda. Þessi sönnun hefur ekki tekist, og benda gögn í málinu fremur til þess, að Burnham International á Íslandi hf. hafi keypt bréfin af stefnda og síðan selt þau áfrýjanda. Þannig sýna söluseðlar fyrirtækisins mismunandi gengi við kaup á bréfunum af stefnda og sölu þeirra til áfrýjanda, auk þess sem tekin er þóknun í báðum tilvikum. Bendir það til þess að þetta hafi verið tvenn aðskilin viðskipti. Hvorugur málsaðila vissi af hinum þegar viðskiptin áttu sér stað og í yfirlýsingu forstjóra Kögunar hf., sem hann staðfesti fyrir dómi, kemur fram að hluthafaskrá Kögunar hf. hafi á umræddum tíma borist óformlegt bréf frá Burnham, þar sem tilkynnt hafi verið að það fyrirtæki hafi keypt þessi hlutabréf í Kögun hf.
Áður en málið gekk til dóms í héraði lagði áfrýjandi fram skriflega yfirlýsingu frá skiptastjóra þrotabús Burnham International á Íslandi hf., sem sögð er gefin í tilefni af þessu dómsmáli. Þar segir meðal annars að fyrirtækið hafi aðeins haft milligöngu við sölu hlutabréfanna og þau hafi ekki orðið eign þess á neinu tímabili í viðskiptunum. Síðan segir: „Þar sem því mun vera haldið fram í fyrrgreindu máli að sala bréfa þessara hafi verið til Burnham lýsir skiptastjóri því yfir að hann framselji Sameinaða lífeyrissjóðnum kröfu Burnham á hendur Guðmundi Oddssyni ... vegna framangreindra viðskipta, teljist slík krafa vera fyrir hendi.“ Kveðst áfrýjandi til vara byggja kröfu sína á þessu framsali. Stefndi mótmælti framlagningu þessarar yfirlýsingar og málsástæðunni sem of seint fram kominni. Bendir hann á að allt aðrar efnisvarnir eigi við gegn kröfu þrotabúsins heldur en áfrýjanda, sem til dæmis geti snert rétt til skuldajöfnunar gegn kröfum þess, en hann kveðst einmitt eiga gagnkröfur sem hefðu getað nýst honum í þessu skyni. Í stefnu til héraðsdóms var ekki byggt á þessari málsástæðu og var ekkert að henni vikið í greinargerð stefnda. Kemur hún því ekki til athugunar við úrlausn málsins.
Samkvæmt því sem fyrr var sagt hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að hann hafi átt í þeim lögskiptum við stefnda, sem hann byggir kröfu sína á. Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, greiði stefnda, Guðmundi Oddssyni, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2005.
I
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 9. júní sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþingi af Sameinaða lífeyrissjóðnum, Borgartúni 30, Reykjavík, á hendur Guðmundi Oddssyni, Fögrubrekku 39, Kópavogi, og Agnari Jóni Ágústssyni, Aðaltúni 10, Mosfellsbæ, með stefnu birtri 28. nóvember 2002 og 12. desember 2002. Stefnandi féll síðar frá öllum kröfum á hendur stefnda, Agnari Jóni Ágústssyni.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 9.421.875 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. nóvember 1999 til 30. júní 2001 og frá þeim degi samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, til greiðsludags. Krafist er vaxtavaxta, sbr. 12. gr. vaxtalaganna. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu, in solidum.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Hinn 23. apríl var kveðinn upp dómur í máli þessu í Héraðsdómi Reykjavíkur, sem var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Með dómi Hæstaréttar hinn 20. janúar 2005 var dómur héraðsdóms ómerktur og málinu vísað heim í hérað til málflutnings og uppsögu dóms að nýju.
II
Málavextir eru þeir, að hinn 11. nóvember 1999 keypti Lífeyrissjóðurinn Hlíf hlutabréf í Kögun hf., að nafnvirði 500.000 krónur, á genginu 18.75000. Lífeyrissjóðurinn greiddi fyrir hlutinn 9.375.000 krónur, ásamt 48.875 krónum í þóknun, eða samtals 9.421.875 krónur, til Burnhams International á Íslandi hf., sem annaðist milligöngu um sölu hlutafjárins.
Hinn 17. nóvember 1999 greiddi Burnham International á Íslandi hf. 9.188.400 krónur af reikningi sínum inn á reikning nr. 0111-26-11833, á nafni Agnars Jóns Ágústssonar.
Stefnandi kveður, að stefndi hafi, á þeim tíma er viðskiptin fóru fram, verið eigandi hlutafjár í Kögun hf., að nafnvirði 919.288 krónur. Um hafi verið að ræða 5 hlutabréf, sem stefndi hafi keypt, samtals að fjárhæð 282.118 krónur, og jöfnunarhlutabréf að fjárhæð 637.170 krónur, sem gefið hafi verið út hinn 24. febrúar 1999 og sent hluthöfum í ábyrgðarpósti 19. apríl 1999.
Stefnandi kveður, að af hálfu Lífeyrissjóðsins Hlífar hafi ekki verið gerður reki að því að kalla eftir þessu hlutabréfi eða tryggja sér eignayfirráð þess með öðrum hætti. Hafi það ekki verið fyrr en Lífeyrissjóðurinn Hlíf og stefnandi sameinuðust haustið 2001, að farið hafi verið að grennslast fyrir um hlutabréf þetta.
Í fyrstu var kröfu um afhendingu hlutabréfs beint til skiptastjóra Burnhams International á Íslandi hf., sem svipt hafði verið starfsleyfi hinn 27. nóvember 2001, og í kjölfarið úrskurðað gjaldþrota. Skiptastjóri hafi gert leit að bréfinu, en í ljós hafi komið að það væri ekki í vörslum þrotabúsins.
Samkvæmt yfirlýsingu forstjóra Kögunar, var félaginu tilkynnt að Lífeyrissjóðurinn Hlíf hefði keypt, gegnum Burnham International á Íslandi, hlutabréf að nafnvirði 500.000 krónur. Hlutabréfið hafi aldrei komið í hendur Kögunar hf., þannig að Burnham International á Íslandi hf. hafi aldrei getað yfirfært hlutabréfið á nafn kaupandans, Lífeyrissjóðsins Hlífar, með útgáfu nýs hlutabréfs. Þar sem hlutabréfið hafi aldrei verið sent Kögun hf. til breytinga á hlutafélagaskrá fyrirtækisins vegna sölunnar, hafi hlutaféð verið talið eign stefnda, í bókum Kögunar hf.
Hinn 22. apríl 2002 sendi lögmaður stefnanda stefnda, Guðmundi, bréf, þar sem þess var krafist að hann afhenti hlutabréfið eða annað sambærilegt hlutabréf, eða jafnvirði þess sem hann seldi. Stefndi hefur ekki orðið við þessum tilmælum lögmannsins.
Stefndi kveður, að hann hafi ásamt Agnari Jóni Ágústssyni, átt í umtalsverðum hlutabréfaviðskiptum á árunum 1998 til 2000. Hafi þeir keypt og selt töluvert af hlutabréfum í gegnum Burnham. Þeir séu vinir, en hafi ekki haft með sér formlegt samstarf um fjárfestingar. Hafi þeir hvor um sig átt töluverða inneign hjá Burnham, sem notuð hafi verið til að kaupa og selja hlutabréf. Við gjaldþrot þess félags hafi þeir tapað umtalsverðum fjárhæðum.
Stefndi kveðst fyrst hafa vitað um kröfur stefnanda í apríl 2002. Fram að þeim tíma hafi hann talið að eignastaða hans hjá Kögun hf. væri í góðu lagi. Hann hafi aldrei átt í viðskiptum við stefnanda. Stefndi, Guðmundur, hafi á þeim tíma sem liðinn sé frá meintri sölu til stefnanda, árlega fengið senda staðfestingu um hlutafjáreign sína samkvæmt hlutaskrá Kögunar. Stefndi kveðst hins vegar aldrei hafa fengið eiginlegt hlutabréf í Kögun hf. í hendur.
Stefnandi lagði fram yfirlýsingu skiptastjóra Burnham International á Íslandi hf., þar sem þeirri afstöðu skiptastjórans er lýst að umrædd hlutabréf hafi aldrei orðið eign Burnham í umræddum viðskiptum. Jafnframt er því lýst yfir, að verði talið að Burnham hafi keypt bréfin af stefnda þá framselji hann fyrir hönd þrotabúsins kröfu á hendur stefnda vegna umræddra viðskipta, teljist hún vera fyrir hendi. Stefndi mótmælti þessari yfirlýsingu, sem óstaðfestri og þýðingalausri, þar sem ekki væri til úrlausnar í máli þessu viðskipti Burnham International á Íslandi hf.
III
Stefnandi færir þau rök fyrir sóknaraðild sinni, að hann hafi við sameiningu stefnanda og Lífeyrissjóðsins Hlífar tekið við öllum eignum og skuldbindingum Lífeyrissjóðsins Hlífar og þar með kröfu þeirri sem stefnt er vegna.
Kveðst stefnandi byggja mál sitt á því, að hann hafi keypt hinn 11. nóvember 1999 af verðbréfamiðlunarfyrirtækinu Burnham International á Íslandi hf., hlutabréf í Kögun hf. í eigu stefnda, Guðmundar Oddssonar, að fjárhæð að nafnvirði 500.000 krónur á gengi 18.75000, og greitt fyrir það samtals 9.375.000 krónur auk kostnaðar að fjárhæð 48.875 krónur, eða samtals vegna kaupanna 9.421.875 krónur. Kaupverðið hafi verið lagt inn á reikning Agnars Jóns, að frádreginni þóknun, eða samtals 9.188.400 krónur, samkvæmt umboði til hans til þess að taka við þeirri greiðslu vegna stefnda. Sama dag hafi Burnham gengið frá sölu hlutabréfa að sama nafnvirði til Lífeyrissjóðsins Hlífar. Af númeri sem umrædd viðskipti hafi fengið hjá Burnham, H000370, megi sjá að sömu hlutir og stefndi hafi selt hafi verið seldir áfram til Lífeyrissjóðsins Hlífar. Stefndi hafi hins vegar aldrei afhent stefnanda þetta ákveðna hlutabréf í Kögun hf., enda hafi það hvorki verið afhent verðbréfafyrirtækinu né Kögun hf. til þess að hægt væri að yfirfæra hlutabréfið á nafn kaupanda, þ.e. stefnanda. Hugsanlega kunni þetta hlutabréf að hafa verið selt þriðja aðila, þótt stefnandi geti ekkert um það fullyrt. Stefndi hafi heldur ekki látið stefnanda hafa annað sambærilegt hlutabréf eða gert tilraun til þess. Þá hafi hann ekki gert neina tilraun til þess að endurgreiða stefnanda vegna kaupa hans á hlutabréfi þessu.
Stefnandi krefst þess, að stefndi standi við sinn hluta kaupsamningsins og afhendi stefnanda þetta ákveðna hlutabréf í Kögun hf., eða annað sambærilegt hlutabréf í Kögun hf., sem þá yrði væntanlega keypt á almennum hlutabréfamarkaði. Gangi það ekki eftir hjá stefnda, Guðmundi, þá greiði hann stefnanda til baka þá fjárhæð, sem stefnandi hafi lagt út á sínum tíma vegna hlutabréfakaupanna, ásamt dráttarvöxtum og kostnaði vegna þessarar innheimtu.
Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna kröfu-, kaupa- og samningaréttar, sérstaklega þeirrar grundvallarreglu kauparéttar, að seljanda beri skylda til að afhenda kaupanda hinn selda hlut, en ella endurgreiða kaupandanum andvirði hins selda hlutar, þannig að kaupandinn verði eins settur og kaupin hefðu aldrei átt sér stað.
Einnig vísar stefnandi til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, II., III. og IV. kafla, einkum 6. gr., 9. gr., 12. gr., 13. gr. og 22. gr. laganna.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og III. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína fyrst og fremst á aðildarskorti. Stefnandi hafi ekki getað sýnt fram á að hafa átt þau viðskipti við stefnda, sem dómkröfur hans byggja á. Gögn málsins bendi frekar til þess að stefnandi og stefndi hafi átt viðskipti við Burnham International á Íslandi hf. sama dag, annars vegar um kaup og hins vegar um sölu á hlutum í Kögun hf., en í bæði skiptin hafi hlutir, að nafnverði 500.000 krónur, skipt um eigendur. Ekkert bendi hins vegar til að viðskiptin hafi verið milli stefnanda og stefnda. Mismunandi gengi viðskiptanna sýni og að ekki hafi verið um sömu viðskiptin að ræða. Stefndi, ásamt Agnari Jóni Ágústssyni, hafi átt í miklum viðskiptum með hlutabréf á þessum tíma og sé því ekki ljóst hvers vegna umrædd greiðsla á bankareikning í nafni Agnars Jóns Ágústssonar hafi verið. Ekkert kröfusamband sé því á milli stefnanda og stefnda.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á þeirri forsendu, að málatilbúnaður sé ákaflega hæpinn, í engu sé sýnt fram á að hann hafi átt í viðskiptum við stefnanda, að stefndi hafi vanrækt að standa við meint viðskipti á vegum Burnham og að ekki liggi fyrir sönnun þess hvaða viðskipti hafi átt sér stað. Þvert á móti liggi frammi skjöl um eignastöðu stefnda í Kögun hf., sem engin athugasemd hafi verið gerð við í um tvö ár. Stefnda hafi ekki verið kunnugt um viðskipti við stefnanda fyrr en fram hafi komið staðhæfingar í þá átt í byrjun síðasta árs.
Stefndi kveður skýringar stefnanda og forstjóra Kögunar hf. um afhendingu stefnda á hlutabréfi fjarstæðukenndar. Viðskipi hafi verið með bréf í félaginu svo sem um rafræna skráningu væri að ræða, sökum þess að hlutaskrá Kögunar hf. hafi verið allt of svifasein um útgáfu á hlutum. Það sé hreinn fyrirsláttur af hálfu félagsins rúmum tveimur árum síðar að halda fram að eignastöðu stefnda, vegna meintra viðskipta, hafi ekki verið unnt að breyta af þessum sökum og að þess í stað hafi inneign hans verið ofskráð þennan tíma. Stefnandi og Kögun hf. virðast vera að gera aðra ábyrga fyrir eigin tómlæti og vanrækslu Burnham. Stefnda hafi aldrei verið kunnugt um meint viðskipti né hafi hann móttekið greiðslu á þessum tíma vegna þeirra. Stefndi hafi bæði fyrr og síðar átt í verðbréfaviðskiptum, m.a. í gegnum félag sitt Fögrubrekku ehf. en kannast ekki við að hafa móttekið nefnda greiðslu. Á þessum tíma hafi Fagrabrekka ehf. hins vegar átt um 638.897 króna hlut í Kögun hf., sem seldur hafi verið. Þetta sé hluti af þeirri sölu sem því miður liggi ekki fyrir um nægjanleg gögn frá Burnham, sem keypt hafi bréfin af Fögrubrekku ehf.
Varakröfu sína byggir stefndi á því, að stefnandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti, með því að láta undir höfuð leggjast í tvö og hálft ár að gera kröfu á stefnda. Stefndi ítrekar óskýrleika kröfugerðar stefnanda í þessum efnum og bendir á að með framlögðu minnisblaði Kögunar hf. sé fyrirtækið að reyna að draga úr ábyrgð sinni vegna óskipulags á hlutaskrá. Stefndi hafi alltaf verið í góðri trú um hlutafjáreign sína, svo sem hann hafi fengið staðfest frá hlutaskrá Kögunar.
Stefnandi hafi ekki lagt fram í málinu sönnun fyrir þeirri fjárhæð eða hluta, sem hann telji að sér beri frá stefnda og sé dráttarvaxtakröfu hafnað á þeirri forsendu, að eigi stefnandi kröfu, liggi hún ekki fyrir fyrr en við uppkvaðningu dóms í málinu, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Um lagarök vísar stefndi til meginreglna kröfuréttar, samningaréttar, sem og meginreglna réttarfars.
Einnig vísa stefndu til ákvæða kaupalaga nr. 50/2000, samningalaga nr. 7/1936 og laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 2. mgr. 16. gr. laganna.
Kröfu um málskostnað byggja stefndu á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, aðallega 130. gr. laganna.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggja stefndu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
V
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort málsaðilar hafi átt í hlutabréfaviðskiptum, þar sem stefnandi hafi keypt af stefnda, Guðmundi, hlutabréf í Kögun hf., en ekki fengið afhent hlutabréf í samræmi við það.
Í máli þessu liggur fyrir, að Lífeyrissjóðurinn Hlíf keypti hlut í Kögun hf., að nafnvirði 500.000 krónur á genginu 18.75000, eða 9.375.000 krónur, samkvæmt ljósriti af kvittun frá Burnham.
Samkvæmt yfirlýsingu endurskoðanda, sem skoðaði tölvugögn Burnham International á Íslandi hf., eftir að það fyrirtæki hafði verið úrskurðað gjaldþrota, fannst í bókhaldinu innkaupareikningur þar sem stefndi er sagður hafa selt hlut í Kögun hf., að nafnvirði 500.000 krónur á genginu 18.60000, eða 9.300.000 krónur. Þóknun hafi verið 11.600 krónur og til útborgunar hafi verið 9.188.400 krónur. Samkvæmt símbréfi frá Landsbanka Íslands var fjárhæð þessari ráðstafað inn á reikning Agnars Jóns Ágústssonar hinn 17. nóvember 1999.
Samkvæmt yfirlýsingu forstjóra Kögunar hf., barst fyrirtækinu óformleg tilkynning frá Burnham Int. á Íslandi þess efnis, að fyrirtækið hefði keypt hlutabréf í Kögun að nafnvirði 500.000 krónur og að Burnham International á Íslandi hafi selt hlutabréf í Kögun hf. að nafnverði 500.000 krónur til Lífeyrissjóðsins Hlífar.
Eins og áður greinir byggir stefnandi á því, að hann hafi átt í viðskiptum við stefnda og keypt af honum hlut í Kögun hf. á árinu 1999, en ekki fengið afhent bréf vegna kaupanna. Fyrir liggur að hlutafjárviðskipti þessi annaðist verðbréfafyrirtækið Burnham International á Íslandi hf. Stefnandi fullyrðir að hann hafi ekki fengið afhent bréf í samræmi við hlutafjárkaupin. Þegar gögn málsins eru virt liggur ekki fyrir með óyggjandi hætti að málsaðilar hafi átt umrædd viðskipti. Þegar það er virt er ekki unnt að fullyrða nú, svo mörgum árum síðar, gegn andmælum stefnda, að stefndi hafi ekki á þeim tíma er hlutafjárviðskiptin urðu, afhent þann hlut sem hann seldi, og stefnandi keypti, eða að atvik hafi verið með þeim hætti sem stefnandi lýsir. Með vísan til þess ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Guðmundur Oddsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Sameinaða lífeyrissjóðsins, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.