Hæstiréttur íslands
Mál nr. 351/2005
Lykilorð
- Skattur
- Fasteignagjöld
- Endurgreiðsla
- Málsástæða
|
|
Fimmtudaginn 9. febrúar 2006. |
|
Nr. 351/2005. |
Landsafl hf. (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) gegn Reykjavíkurborg (Gunnar Eydal hrl.) |
Skattar. Fasteignagjöld. Endurgreiðsla. Málsástæður.
Deilt var um skyldu L til greiðslu fasteignaskatts til R af þeim hluta húseignar félagsins sem leigður var skólanum T. L byggði á því að húsnæðið væri undanþegið fasteignaskatti samkvæmt þágildandi ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Ágreiningslaust var að T félli undir hugtakið skóli í merkingu ákvæðisins, en R taldi undanþáguna aðeins taka til húsnæðis þar sem eignarhald að fasteign er í höndum þess er skólann rekur. Í ljósi þess að andlag skattlagningarinnar var fasteignin sem slík eftir afnotum hennar, óháð eignarhaldi, var talið að skilja yrði undanþáguákvæðið svo að það tæki til fasteignar væri hún til þeirra nota eða af þeirri gerð sem þar greindi. Ekki var talið að nokkuð í orðalagi ákvæðisins bindi undanþáguna skilyrðum er lytu að eignarhaldi að viðkomandi eign. Þar sem óumdeilt var að skóli í merkingu ákvæðisins var rekinn í því húsnæði sem ágreiningur aðila laut að var talið að húsnæðið væri samkvæmt beinu orðalagi ákvæðisins undanþegið fasteignaskatti. Var aðalkrafa L því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Hrafn Bragason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. ágúst 2005. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 27.706.635 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 14.635.620 krónum frá 1. júlí 2002 til 30. maí 2003, af 20.813.569 krónum frá þeim degi til 31. maí 2004, en af 27.706.635 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að viðurkennt verði að honum hafi ekki borið skylda til að greiða fasteignaskatt árin 2000 til 2004 af húsnæði sínu að Höfðabakka 9 í Reykjavík sem hýsti Tækniháskóla Íslands. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður látinn falla niður.
I.
Í máli þessu greinir aðila á um hvort áfrýjanda hafi borið að greiða fasteignaskatt til stefnda vegna áranna 2000 til og með 2004 af þeim hluta húseignar sinnar að Höfðabakka 9 í Reykjavík sem hann leigði Tækniháskóla Íslands, áður Tækniskóla Íslands. Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar er rakið hafnaði stefndi 18. september 2003 kröfu áfrýjanda um endurgreiðslu fasteignaskatts fyrir árin 2000 til 2003 vegna þessa hluta húseignarinnar, sem og kröfu hans um að staðfest yrði að það húsnæði skyldi að óbreyttum lögum undanþegið greiðslu skattsins. Áfrýjandi kærði þessa ákvörðun til yfirfasteignamatsnefndar 6. október 2003. Með úrskurði nefndarinnar 13. október 2004 var kröfu áfrýjanda um endurgreiðslu fasteignaskatts vísað frá nefndinni en kröfu hans um undanþágu frá greiðslu skattsins hafnað. Þeim úrskurði má samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga skjóta til dómstóla. Áfrýjandi gerir ekki kröfu um að úrskurður nefndarinnar verði ógiltur. Þessa er enda ekki þörf þar sem í dómkröfum áfrýjanda felst sú forsenda að það verði gert.
II.
Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 voru undanþegin fasteignaskatti „sjúkrastofnanir samkvæmt heilbrigðislögum, kirkjur, skólar, heimavistir, barnaheimili, íþróttahús, skipbrotsmannaskýli, sæluhús, bókasöfn og önnur safnahús og hús annarra ríkja að svo miklu leyti sem þau eru notuð af sendimönnum þeirra í milliríkjaerindum.“ Aðila greinir ekki á um að Tækniháskóli Íslands, áður Tækniskóli Íslands, hafi fallið undir hugtakið skóli í merkingu þessa ákvæðis. Stefndi telur hins vegar að undanþágan hafi aðeins tekið til húsnæðis skóla þar sem eignarhald að fasteign sé í höndum þess er skólann rekur, en ekki til húsnæðis í eigu þeirra sem líkt og stefndi hafi aðeins verið í viðskiptasambandi við skóla með því að selja fasteign á leigu til skólarekstrar. Ákvæði þessu var breytt með 4. gr. laga nr. 140/2005 sem öðluðust gildi 1. janúar 2006 en ekki reynir á þá breytingu í máli þessu.
Samkvæmt ákvæðum II. kafla laga nr. 4/1995 skal leggja árlega fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati. Er stofn til álagningar skatts á þær fasteignamat þeirra. Var fasteignum samkvæmt þágildandi ákvæði 3. mgr. 3. gr. laganna skipt upp í tvo gjaldflokka eftir tegund. Andlag skattlagningarinnar var þannig fasteignin sem slík eftir afnotum hennar, óháð eignarhaldi, enda þótt tekið sé fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að eigandi, í sumum tilvikum notandi, skuli greiða skattinn. Í fyrrgreindu ákvæði 1. mgr. 5. gr. var upptalning á fasteignum og mannvirkjum sem undanþegin skyldu skattinum og voru skólar þar á meðal. Í ljósi þess sem fyrr segir að fasteignir séu andlag skattlagningarinnar verður undanþáguákvæðið ekki skilið öðruvísi en svo að það taki til fasteignar sé hún til þeirra nota eða af þeirri gerð er þar greinir. Ekkert í orðalagi ákvæðisins bindur undanþáguna skilyrðum er lúta að eignarhaldi að viðkomandi eign. Þar sem óumdeilt er, eins og að framan er rakið, að skóli í merkingu ákvæðisins var rekinn í húsnæði því sem ágreiningur aðila lýtur að var það samkvæmt beinu orðalagi ákvæðisins undanþegið fasteignaskatti.
Fyrir Hæstarétti reisti stefndi sýknukröfu sína einnig á því að samkvæmt II. kafla laga nr. 4/1995 byggist álagning fasteignaskatts á skrám Fasteignamats ríkisins. Húseign áfrýjanda að Höfðabakka 9 hafi öll þau ár sem deila aðila tekur til verið skráð hjá Fasteignamatinu sem skrifstofur, iðnaðarhúsnæði og vörugeymslur. Áfrýjandi hafi ekki á þeim tíma, og raunar ekki heldur síðar, gert reka að því að fá skráningu fasteignarinnar breytt til samræmis við not Tækniskólans og síðar Tækniháskólans af hluta byggingarinnar og ekki látið meta þann hluta sérstaklega með tilliti til þeirrar nýtingar. Geti hann því ekki krafist undanþágu frá greiðslu fasteignaskatts vegna þessara nota. Þá reisti stefndi fyrir Hæstarétti varakröfu sína um lækkun aðalkröfu áfrýjanda á því að ekki hafi af hálfu áfrýjanda verið gerð tilraun til að skilgreina þá hluta leiguhúsnæðis Tækniháskólans, sem eingöngu væru notaðir til kennslu, en vörugeymslur og gluggalaus rými geti ekki fallið undir hugtakið skóli. Framangreindar málsástæður eru of seint fram komnar og verður þegar af þeirri ástæðu ekki byggt á þeim við úrlausn málsins samkvæmt 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 17. gr. laga nr. 38/1994.
Samkvæmt framansögðu verður aðalkrafa áfrýjanda tekin til greina, en hann hefur ekki glatað rétti til endurheimtu hluta skattsins þótt hann hafi ekki sannanlega haft uppi fyrirvara við greiðslu fyrr en í maí 2002 er hann greiddi fasteignaskatt vegna þess árs, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu ofgreiddra skatta og gjalda.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Reykjavíkurborg, greiði áfrýjanda, Landsafli hf., 27.706.635 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 14.635.620 krónum frá 1. júlí 2002 til 30. maí 2003, af 20.813.569 krónum frá þeim degi til 31. maí 2004 en af 27.706.635 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 13. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Landsafli hf., kt. 670492-2069, Höfðabakka 9, Reykjavík, gegn Reykjavíkurborg, kt. 530269-7609, Ráðhúsinu, Reykjavík, með stefnu birtri 24. ágúst 2004.
Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að stefnanda hafi ekki borið skylda til að greiða fasteignaskatt árin 2000-2004 af því húsnæði stefnanda að Höfðabakka 9, Reykjavík, sem hýsir starfsemi Tækniháskóla Íslands.
Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 27.706.635,- ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, af kr. 4.216.073,- frá 01.09.2000 til 30.05.2001, af kr. 8.979.650,- frá þeim degi til 31.06.2002, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, af kr. 14.635.620,- frá þeim degi til 30.05.2003, af kr. 20.813.569,- frá þeim degi til 31.05.2004, en af kr. 27.706.635,- frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru þær að vera sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins.
Til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Jafnframt að stefnanda verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins.
Upphaflega gerði stefndi kröfu um frávísun málsins, en fallið var frá þeirri kröfu undir rekstri málsins.
Málsatvik
Um árabil hefur Tækniskóli Íslands, nú Tækniháskóli Íslands, leigt húsnæði í lágbyggingunni að Höfðabakka 9, Reykjavík, undir starfsemi sína, en stefnandi er eigandi fasteignarinnar. Skólinn starfaði í áratugi á framhaldsskólastigi á grundvelli laga nr. 66/1972 um Tækniskóla Íslands, en hefur frá árinu 2002 starfað á háskólastigi á grundvelli laga nr. 53/2002 um Tækniháskóla Íslands. Sem slíkur lýtur skólinn stjórn menntamálaráðherra, sem skipar rektor skólans og fulltrúa í háskólaráð.
Tækniskólinn tók fyrst á leigu 4.384 fermetra húsnæði að Höfðabakka 9, með leigusamningi, dags. 29. apríl 1975, sem gilti til 10 ára. Samið var um áframhaldandi leigu árið 1987 og bætti skólinn þá við sig 1.394 fermetrum í sama húsnæði og hafði þá samtals til afnota 5.778 fermetra. Með tveimur samningum árið 1996 bætti skólinn svo aftur við sig 1.450 fermetrum og var þá með samtals 7.228 fermetra á leigu að Höfðabakka 9.
Hinn 1. júní 1999 var gerður nýr heildarleigusamningur til 15 ára og var hið leigða þar talið 7.390 fermetrar að stærð. Heildarstærð umræddrar fasteignar, lágbyggingarinnar að Höfðabakka 9, sem er alfarið í eigu stefnanda, er 17.939 fermetrar. Tækniskólinn/Tækniháskólinn hafði því 41,2% af fasteigninni til ráðstöfunar frá 1999 til 1. júlí 2003. Hinn 1. júlí 2003 var gerður viðauki við húsaleigusamning aðila og samkvæmt honum hefur Tækniháskólinn nú 8.508 fermetra í húsnæðinu til ráðstöfunar, eða 47,43%. Meðalhlutfall Tækniháskólans í lágbyggingu Höfðabakka 9 á árinu 2003 var því 44,32%, en frá og með árinu 2004 er hlutfallið 47,43%.
Stefnandi hefur greitt fullan fasteignaskatt vegna lágbyggingarinnar að Höfðabakka 9 fyrir árin 2000-2004 þrátt fyrir að verulegur hluti húsnæðisins hafi samkvæmt framansögðu hýst starfsemi Tækniskóla Íslands/Tækniháskóla Íslands. Stefnandi telur að honum beri ekki skylda til greiðslu fasteignaskatts af því húsnæði sem hýst hefur skólann og hafi hann því gert fyrirvara við greiðslu skattsins hverju sinni og mótmælti álagningunni. Þessu hefur stefndi mótmælt og kveðst ekki vera kunnugt um fyrirvara af hálfu stefnanda fyrr en stefnandi sendi honum bréf, dags. 31. maí 2002.
Með bréfi til stefnda, dags. 10. september 2003, krafði stefnandi stefnda um endurgreiðslu á kr. 20.813.569,- vegna áranna 2000-2003, ásamt vöxtum samkvæmt 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Þess var jafnframt krafist að staðfest yrði að stefnandi væri undanþeginn greiðslu fasteignaskatta af Höfðabakka 9 í framtíðinni að tiltölu við hlutfall starfsemi Tækniháskóla Íslands í fasteigninni.
Með bréfi stefnda, dags. 18. september 2003, var kröfum stefnanda hafnað. Stefnandi kærði þá ákvörðun til yfirfasteignamatsnefndar með kæru dags. 6. október 2003. Niðurstaða yfirfasteignamatsnefndar lá ekki fyrir er stefnandi höfðaði mál þetta, en úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp 13. október 2004. Samkvæmt þeim úrskurði var kröfu kæranda um endurgreiðslu fasteignaskatts af leiguhúsnæði Tækniháskóla Íslands að Höfðabakka 9 í Reykjavík vísað frá yfirfasteignamatsnefnd. Kröfu kæranda um undanþágu frá greiðslu fasteignaskatts var hafnað.
Málsástæður stefnanda
Krafa um viðurkenningu á skattleysi
Stefnandi byggir á því að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga beri honum ekki skylda til að greiða fasteignaskatt vegna húsnæðis Tækniháskóla Íslands.
Í umræddu ákvæði komi skýrt fram að „skólar“ séu undanþegnir fasteignaskatti. Enginn vafi sé á því að Tækniháskóli Íslands, áður Tækniskóli Íslands, falli undir skilgreiningu hugtaksins skóli í umræddu lagaákvæði, enda starfi skólinn á grundvelli sérstakra laga um Tækniháskóla Íslands nr. 53/2002, sbr. og lög nr. 136/1997. Sé það atriði í raun ágreiningslaust. Afstaða stefnda byggir hins vegar einkum á því að það séu einungis skólar þar sem eigandi viðkomandi skólahúsnæðis hafi sjálfur annast skólahald sem njóti undanþáguheimildarinnar. Stefnandi hafni alfarið þessari skýringu stefnda, enda sé afstaða stefnda lítt rökstudd með tilliti til núgildandi reglna um fasteignaskatt.
Hvorki í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995, né öðrum ákvæðum laganna, sé eignarhald á umræddri fasteign gert að skilyrði, heldur einfaldlega tekið fram að skólar séu undanþegnir fasteignaskatti. Afstaða stefnda verði því engan veginn byggð á skýru orðalagi laganna. Að mati stefnanda sýni þróun lagasetningar um tekjustofna sveitarfélaga jafnframt með ótvíræðum hætti að það sé í samræmi við vilja löggjafans að umrætt húsnæði falli undir undanþáguna.
Í eldri lögum um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. lög nr. 8/1972 og lög nr. 73/1980, hafi komið fram það skilyrði fyrir undanþágu að umrætt húsnæði væri ekki rekið í ágóðaskyni. Þessi regla hafi síðan verið áréttuð í reglugerð nr. 320/1972 þar sem útfærð voru nánari skilyrði fyrir því að fasteign nyti undanþágu frá greiðslu fasteignaskatts. Þar hafi komið fram það skilyrði að húsnæði væri í eigu þess aðila sem starfsemina stundaði og að starfsemin mætti ekki vera rekin í ágóðaskyni.
Með lögum nr. 91/1989, sem komu í stað laga nr. 73/1980, hafi það skilyrði að starfsemin mætti ekki vera rekin í ágóðaskyni hins vegar verið fellt brott. Með því hafi löggjafinn tekið ótvírætt afstöðu til þess að það skipti ekki máli að starfsemi þess sem nyti undanþágu frá greiðslu fasteignaskatta væri rekin í ágóðaskyni. Núgildandi lög nr. 4/1995 leystu lög nr. 91/1989 af hólmi og þar sé undanþágan óbreytt frá fyrri lögum. Á grundvelli nýju laganna hafi verið sett reglugerð um fasteignaskatt nr. 945/2000 þar sem undanþágurnar séu samhljóða lögunum. Með 13. gr. reglugerðarinnar var framangreind eldri reglugerð um fasteignaskatt nr. 320/1972 jafnframt felld brott. Samkvæmt þessu séu engin skilyrði í gildandi lögum og reglugerðum um að starfsemi undanþáguhafa sé ekki rekin í ágóðaskyni og að húsnæðið þurfi að vera í eigu þess aðila sem starfsemina stundar. Samkvæmt beinu orðalagi gildandi ákvæða, í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 og 6. gr. reglugerðar nr. 945/2000, sé ekki annað skilyrði fyrir undanþágu en að um „skóla“ sé að ræða.
Ofangreind löggjafarþróun endurspegli þá þróun sem orðið hafi í átt til fjölbreyttari úrræða við rekstur opinberra stofnana, svo sem með aukinni þátttöku einkaaðila, í þeirri viðleitni að reyna að lækka kostnað og auka hagræði.
Við skýringu á undanþágu 5. gr. laga nr. 4/1995 verði að horfa til skýrs orðalags ákvæðisins, tilgangs þess, ofangreindrar forsögu sem og meginreglu íslensks réttar um jafnræði við skattlagningu og skýrleika skattheimilda. Megintilgangur löggjafans með 5. gr. laga nr. 4/1995 sé augljóslega að styðja við starfsemi skóla, íþrótta- og trúfélaga svo eitthvað sé nefnt. Engin rök virðist standa til þess að draga eigi mörkin við það eitt að viðkomandi félag eða stofnun telji hagkvæmara að taka á leigu húsnæði í stað þess að byggja eða kaupa fasteign. Slík stefna gæti stuðlað að óhagkvæmni og óþarfa fjárfestingum hjá þeim aðilum sem löggjafinn vilji hlúa að. Það fælist jafnframt ótvíræð mismunun gagnvart aðilum í sambærilegri starfsemi, í því að gerður væri slíkur greinarmunur á því hvort formið sé valið, kaup eða leiga. Í báðum tilvikum komi ívilnunin til góða í formi lægra endurgjalds fyrir afnot húsnæðis.
Ekki þurfi að orðlengja að vöxtur í rannsóknar- og skólastarfi byggist m.a. á því að húsnæðiskostnaður sé sem lægstur. Fjölbreyttari húsnæðisúrræði og rekstrarfyrirkomulag menntastofnana sé einfaldlega kall tímans. Þannig hafi fjölmargar stofnanir ríkis og sveitarfélaga kosið einkaframkvæmd og leigu við uppbyggingu húsnæðiskosts síns, sbr. leigu ráðuneyta og annarra ríkisstofnana á húsnæði, sem og heilsugæslustöðva, skóla, tónlistarskóla o.fl. Löggjafinn sem og framkvæmdavaldshafinn hafi tekið mið af þessum breyttu viðhorfum, sbr. það sem hér hafi verið rakið.
Sem fyrr segir sé sú afstaða stefnda sem birtist í höfnun hans hinn 18. september 2003 lítt rökstudd og samhengi rökstuðningsins ekki fyllilega ljóst. Kjarni rökstuðningsins sé eftirfarandi, sbr. bréf stefnda: „Í Reykjavík hafa einvörðungu skólar í eigu opinberra aðila, svo sem borgar og ríkis, svo og skólar þar sem eigandi viðkomandi skólahúsnæðis hefur sjálfur annast skólahald, notið undanþáguheimildarinnar. Húsnæði umbj. yðar, sem um ræðir í málinu, fullnægir ekki framangreindu skilyrði um eignaraðild.“ Umrætt skilyrði stefnda um eignaraðild virðist því eingöngu byggja á því að í Reykjavík hafi slíkir aðilar ekki notið undanþágu hingað til, án þess að séð verði að það eigi stoð í settum réttarreglum eða nokkur umfjöllun fylgi um réttarþróunina í þessum efnum, sem stefndi fullyrðir reyndar ranglega að hafi engin verið.
Í gögnum stefnda til yfirfasteignamatsnefndar sé og iðulega vísað til greinargerðar með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 8/1972, sem löngu séu úr gildi fallin og efnislega ólík núgildandi lögum. Þá vísar stefndi að miklu leyti til sjónarmiða um „eðli málsins“ og „meginreglna laga“. Slík sjónarmið geti að sjálfsögðu ekki orðið grundvöllur skattlagningar. Stefndi verði að sýna fram á að hann hafi ótvíræða lagaheimild til álagningarinnar, sbr. almenn sjónarmið skattaréttar og stjórnskipunarréttar um að skattlagningarheimildir skuli skýra þröngt, skattákvæði þurfi að vera skýr og ótvíræð og að vafa um túlkun beri að skýra skattþegni í hag. Stefndi hafi ekki með nokkrum hætti sýnt fram á ótvíræða lagaheimild sína, enda byggir rökstuðningur fyrir álagningunni fyrst og fremst á tilvísunum í eldra réttarástand og sjónarmiðum um eðli málsins og meginreglur laga.
Í gögnum stefnda til yfirfasteignamatsnefndar komi og fram að stefndi telur að það leiði á einhvern hátt af 2. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995, að stefnandi geti ekki notið skattundanþágunnar, þar sem að það sé stefnandi, sem eigandi, sem sé skattskyldur, en ekki Tækniháskólinn. Þessu hafnar stefnandi alfarið enda komi ákvæði 2. mgr. 4. gr., um það hver standi skil á skattinum, undanþágu 5. gr. alls ekkert við. Í 5. gr. séu einfaldlega taldar upp nokkrar tegundir húsnæðis sem undanþegnar eru fasteignaskatti. Falli húsnæði undir upptalninguna í 5. gr. stofnist ekki skattskylda vegna húsnæðisins og þá skipti að sjálfsögðu ekki máli hverjum hefði hugsanlega borið að standa skil á skattinum. Í þessu sambandi skuli einnig minnt á áðurnefnt markmið löggjafans með undanþágunni, þ.e. að hlúa að þeirri starfsemi sem nefnd sé í ákvæðinu. Það brjóti gegn grundvallarsjónarmiðum um jafnræði við skattlagningu ef mismuna eigi skólum eftir því hvaða leið þeir fara við að afla sér húsnæðis, þannig að sumir njóti hagræðis fasteignaskattsundanþágunnar en aðrir ekki. Það sé forsenda jafnræðis og eðlilegrar samkeppni að öllum skólum sé gefið færi á að njóta undanþágunnar.
Stefndi telur einnig ástæðu til að benda á túlkun annarra sveitarfélaga, sem og fjármálaráðuneytisins, á umræddri 5. gr. laga nr. 4/1995, sem ekki hafi talið það standa í vegi fyrir undanþágu 5. gr. að viðkomandi húsnæði sé í eigu einkaaðila. Nærtækt sé að benda á Iðnskólann í Hafnarfirði en húsnæði hans sem sé að Flatarhrauni 12 sé í eigu Nýsis hf. Engu að síður sé húsnæðið alfarið undanþegið fasteignaskatti. Einnig megi benda á væntanlegt Rannsókna- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri, en í útboðsgögnum vegna hússins sé ótvírætt gert ráð fyrir að undanþágur frá fasteignaskatti verði til staðar. Sama eigi við um leigu- og þjónustusamning vegna hússins frá 3. október 2003. Í samningnum, sem m.a. sé undirritaður af hálfu fjármálaráðuneytisins og Fasteigna ríkissjóðs, komi fram að verðákvörðun sé byggð á þeirri forsendu að undanþága fáist frá greiðslu fasteignaskatts samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995. Loks megi benda á að framkvæmd stefnda sjálfs sé raunar í töluverðu ósamræmi við yfirlýsingar stefnda. Megi þar nefna sem dæmi bréf stefnda til lögmanns stefnanda, dags. 20. nóvember 2003. Þar komi fyrst fram að fasteignir „sem reknar eru af einstaklingum eða félögum í ágóðaskyni njóta ekki undanþáguákvæðis“ 5. gr. Síðan komi hins vegar fram að Sóltún 2, sem hafi að geyma elliheimili rekið af Öldungi hf., njóti undanþágunnar. Varla fari á milli mála að þar sé um að ræða rekstur af félagi í ágóðaskyni. Með tilliti til jafnræðis verði að telja afar sérstakt að veita undanþágu þegar einkaaðili eigi bæði eignina og reksturinn, en ekki þegar einkaaðili eigi fasteignina en reksturinn sé í höndum stofnunar sem lúti yfirstjórnar opinberra aðila.
Með hliðsjón af öllu framangreindu, skýru orðalagi 5. gr. laga nr. 4/1995, tilgangi ákvæðisins, ofangreindri forsögu og réttarþróun sem og meginreglu íslensks réttar um jafnræði við skattlagningu, telur stefnandi ótvírætt að hann njóti undanþágu frá greiðslu fasteignaskatts vegna þess húsnæðis sem hýsir starfsemi Tækniháskóla Íslands, áður Tækniskóla Íslands. Stefnanda beri því ekki að greiða fasteignaskatt af þeim hluta lágbyggingarinnar að Höfðabakka 9 sem hýsir Tækniháskóla Íslands, sem nú sé 47,43% fasteignarinnar. Höfnun stefnda og skýringar á henni eigi sér ekki stoð í orðalagi 5. gr. eða annarra ákvæða laga nr. 4/1995, eða í reglugerðum settum með stoð í lögunum, og brjóti auk þess gegn grundvallarsjónarmiðum um jafnræði við skattlagningu og viðurkenndum lögskýringarreglum um skýringu skattákvæða. Auk þess sé hún í ósamræmi við framkvæmd annarra sveitarfélaga, sem og fjármálaráðuneytisins, og komi illa saman við undanþágur sem stefndi veitir sjálfur.
Þar sem stefndi hafi hafnað ofannefndum sjónarmiðum stefnanda og lagt árlega fasteignaskatt á stefnanda vegna þess húsnæðis sem hýsir Tækniháskóla Íslands sé stefnanda nauðsynlegt að fá viðurkennt með dómi að honum hafi ekki borið skylda til að greiða fasteignaskatt af því húsnæði stefnanda að Höfðabakka 9 sem hýsir starfsemi skólans. Um viðurkenningarkröfuna er vísað til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en stefnandi hafi ótvíræða lögvarða hagsmuni af því að skorið verði úr um tilvist skyldu hans til að greiða fasteignaskatt vegna húsnæðisins.
Krafa um endurgreiðslu ofgreidds fasteignaskatts
Sem fyrr segir hafi stefnandi greitt fullan fasteignaskatt vegna Höfðabakka 9 þótt verulegur hluti umræddrar lágbyggingar hýsi starfsemi Tækniháskóla Íslands. Stefnandi telur ekki að honum beri skylda til greiðslu fasteignaskatts af því húsnæði sem hýst hafi starfsemi skólans og hafi því gert fyrirvara við greiðslu skattsins hverju sinni og mótmælti álagningunni. Stefnandi krefst því endurgreiðslu greiddra fasteignaskatta vegna Höfðabakka 9 fyrir neðangreind ár að tiltölu við hlutdeild Tækniháskólans/Tækniskólans í heildarflatarmáli fasteignarinnar. Samkvæmt þessu sundurliðist krafa stefnanda með eftirfarandi hætti:
Ár Gr. v/ Höfðab. 9 Hlutf. skólans í fast. Endurgreiðslukrafa
2000 kr. 10.233.186,- 41,20% kr. 4.216.073,-
2001 kr. 11.562.079,- 41,20% kr. 4.763.577,-
2002 kr. 13.728.083,- 41,20% kr. 5.655.970,-
2003 kr. 13.939.416,- 44,32% kr. 6.177.949,-
2004 kr. 14.533.136,- 47,43% kr. 6.893.066,-
Samtals kr. 27.706.635,-
Um grundvöll endurgreiðslukröfunnar er vísað til þess sem að framan var rakið, um að skatturinn hafi ranglega verið lagður á stefnanda. Stefnanda beri því að fá skattinn endurgreiddan frá stefnda sbr. lög nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda sem og almennar reglur.
Greiðendur fasteignaskattsins árið 2000 hafi verið Sameinaðir verktakar hf. og Skafl hf., en kröfu sína vegna ársins byggir stefnandi á framsali.
Krafist er dráttarvaxta samkvæmt 2. gr. laga nr. 29/1995 en samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skulu dráttarvextirnir vera samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefnandi hafi ætíð gert fyrirvara við álagninguna og mótmælt henni. Dráttarvaxta sé því krafist frá greiðsludögum fasteignaskattsins, enda hafi kærða verið fullkunnugt um mótbáru stefnanda gegn hinni ólögmætu álagningu allt frá árinu 2000, en það jafngildi kröfu um endurgreiðslu, sbr. m.a. H. 1999:2651. Greiðsludagar voru eftirfarandi:
Ár Oftekinn skattur Greiðsludagur ____________________
2000 kr. 4.216.073,- Síðasta greiðsla 30. ágúst og því miðað við 1. sept.
2001 kr. 4.763.577,- 30. maí.
2002 kr. 5.655.970,- 31. maí.
2003 kr. 6.177.949,- 30. maí.
2004 kr. 6.893.066,- 31. maí.
Stefndi hafi ekki mótmælt tölulegum grunni kröfu stefnanda eins og hún birtist í kröfubréfi til stefnda, dags. 10. september 2003, hvorki í svarbréfinu til stefnanda né í gögnum stefnda til yfirfasteignamatsnefndar. Aðila hafi því ekki greint á um tölur, heldur eingöngu um það hvort skattskylda vegna skólahúsnæðisins sé fyrir hendi.
Stefnandi byggir á ákvæðum laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og reglugerðar nr. 945/2000 um fasteignaskatt, meginreglum skattaréttar og stjórnskipunarréttar um nauðsyn skýrra skattheimilda, að skýra verði skattheimildir þröngt og skattþegni í hag, og um jafnræði við skattlagningu. Þá byggir stefnandi á 2. mgr. 25. gr. og öðrum ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, samkeppnislögum nr. 8/1993, o.fl.
Málskostnaðarkrafa stefnanda eigi sér stoð í 1. mgr. 129. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Um varnarþing er vísað til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnda
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Sýknukröfu sína byggir stefndi á því að stefnandi rekur ekki í húsnæði sínu að Höfðabakka 9 skóla í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Stefndi byggir jafnframt á því að skattlagning húsnæðis stefnanda sé í samræmi við grundvallarreglur laga um jafnræði í skattlagningu og þá viðurkenndu lögskýringaraðferð að skýra beri undanþágur frá skattskyldu þröngri lögskýringu.
Það sé ágreiningslaust af hálfu stefnda að Tækniháskóli Íslands, sem starfar samkvæmt lögum nr. 53/2002 um Tækniháskóla Íslands, með síðari breytingum, falli undir hugtakið “skólar” er tilgreint sé í fyrrnefndu undanþáguákvæði. Það sama gildi um Tækniskóla Íslands er starfaði á grundvelli laga nr. 66/1972. Það komi skýrt fram í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 að það séu skólar sem séu undanþegnir fasteignaskatti en ekki aðilar eins og stefnandi sem séu í viðskiptasambandi við slíka skóla eða aðrar þær stofnanir er þar séu tilgreindar, t.d. leigja þeim húsnæði eða selja þeim aðra þjónustu.
Í lögum nr. 4/1995 sé ekki minnst á eignarhald þess sem undanþágu njóti. Slíkt ákvæði hafi heldur ekki verið að finna í eldri lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 8/1972, nr. 73/1980 eða nr. 91/1989. Í eldri reglugerð um fasteignaskatt nr. 320/1972 hafi þó sérstaklega verið tekið fram í 2. mgr. 5. gr. að skilyrði fyrir undanþágu samkvæmt 1. mgr. væri “..að húsnæðið sé í eigu þess aðila, sem tilgreinda starfsemi annast..”. Sambærilegt ákvæði sé ekki að finna í núgildandi reglugerð um fasteignaskatt nr. 945/2000. Þrátt fyrir það eigi fyrrgreindur fyrirvari eftir sem áður við að mati stefnda. Þegar litið sé til orðalags umrædds undanþáguákvæðis sé ljóst að það sé ekki þess efnis að stjórnvöld geti útfært það að vild eða ákveðið að hve miklu marki undanþágan verði nýtt eða með hvaða skilyrðum. Reglugerðin feli einungis í sér nánari skýringu og fyllingu á því hvert raunverulegt innihald undanþágu 1. mgr. 5. gr. sé. Það hafi því ekki áhrif á innihald hins umdeilda undanþáguákvæðis 5. gr. laga nr. 4/1995 að ekki sé gerður áskilnaður um eignarhald þess sem undanþágu njóti í reglugerð nr. 945/2000. Það séu eftir sem áður einungis skólastofnanir sem geti notið undanþágunnar.
Sá skilningur löggjafans að eftirgjöf fasteignaskatts teljist styrkur við þá starfsemi sem tilgreind sé í 5. gr. komi skýrt fram í athugasemdum við lagafrumvarp það er síðar varð að lögum nr. 91/1989 um tekjustofna sveitarfélaga. Því sé ljóst að ekki sé ætlunin að aðrir er tilgreindar stofnanir njóti eftirgjafarinnar. Aðilar er stundi útleigu á atvinnuhúsnæði geti því samkvæmt framansögðu ekki notið umræddrar undanþágu. Gildir einu þó umrætt atvinnuhúsnæði sé leigt út til framangreindra stofnana.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur dags. 27. júní 1997 í málinu nr. E-1381/1997, Rannsóknarstofan í Domus Medica, Þorvaldur Ásgeirsson og Elías Gíslason gegn Reykjavíkurborg, eigi við í máli þessu að mati stefnda. Hann byggir á þeirri forsendu að viðkomandi stofnanir njóti undanþágunnar. Tekið sé fram í dóminum að það væri til bóta ef hægt væri að komast hjá undanþágunum en til þess beri að líta að þessar stofnanir séu “í eðli sínu ekki vænlegir skattgreiðendur”. Þessar röksemdir séu í fullu gildi að mati stefnda. Það skortir lagaheimild, auk þess sem engin rök hníga að því að Reykjavíkurborg styrki starfsemi stefnanda umfram aðra þá aðila er stunda, í samkeppni við stefnanda, útleigu á atvinnuhúsnæði í ágóðaskyni.
Málatilbúnaður stefnanda gangi út á það að skólar hvort sem þeir leigi eða kaupi eigin húsnæði eigi að njóta eftirgjafar fasteignaskattsins. Segir stefnandi skattlagningu leiguhúsnæðis síns brot á grundvallarsjónarmiðum um jafnræði við skattlagningu. Stefndi mótmælir þessari málsástæðu stefnanda. Í fyrsta lagi þá geti stefnandi ekki borið fyrir sig slíka málsástæðu. Stefnandi reki ekki skóla. Stefnandi sé í samkeppnisrekstri á leigumarkaði atvinnuhúsnæðis. Fái stefndi ekki séð að stefnandi geti í máli þessu borið fyrir sig málsástæður er lúti að samkeppnistöðu þriðja aðila, þ.e. Tækniháskólans, gagnvart hugsanlegum keppinautum í skólarekstri.
Í öðru lagi, þó svo að framangreind málsástæða yrði tekin til greina þá séu skólar er leigja húsnæði ekki í sambærilegri aðstöðu og skólar sem séu í eigin húsnæði. Þeir sem leigja greiði ekki fasteignaskatt og eigi því ekki rétt á undanþágu skattsins. Í þessu sambandi bendir stefndi á að meginreglur laga um jafnræði í skattlagningu feli í sér að sambærileg tilvik verði meðhöndluð á sambærilegan hátt. Að sama skapi felur slík regla í sér að ósambærileg tilvik megi meðhöndla á mismunandi hátt.
Í þriðja lagi þá byggir þessi málsástæða stefnanda á því að Tækniháskólinn greiði fasteignaskattinn óbeint með greiðslu húsaleigu til stefnanda og að stefnandi muni láta skólann njóta góðs af hugsanlegri endurgreiðslu eða undanþágu skattsins. Stefndi bendir á að eftirgjöf skattsins til stefnanda fæli hugsanlega í sér fordæmi vegna þeirra stofnana sem taldar séu upp í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995. Illmögulegt sé fyrir stefnda að sjá til þess að þeir er leigja húsnæði til viðkomandi stofnana láti eftirgjöf fasteignaskatts renna til þeirra stofnana en ekki í eigin vasa.
Í fjórða lagi bendir stefndi á að jafnvel þótt fallist yrði á röksemdir stefnanda þá sé Tækniháskólinn ríkisháskóli og fái vegna þessa greiðslur m.a. úr ríkissjóði til rekstrarins, sbr. athugasemdir með frumvarpi því er síðar var að lögum nr. 53/2002 um Tækniháskóla Íslands. Samkvæmt þessu sé skólinn ekki í samkeppnisrekstri.
Að lokum bendir stefndi á að hann annast eingöngu stjórnsýslu innan lögsagnarumdæmis sveitarfélagsins Reykjavíkur. Því sé álagning fasteignagjalda á húsnæði sem notað sé til skólarekstrar í Hafnarfirði eða á Akureyri algerlega óviðkomandi stjórnsýslu stefnda
Varakrafa:
Fari svo að héraðsdómur fallist á þá málsástæðu stefnanda að honum beri ekki skylda til að greiða fasteignaskatt vegna húsnæðis Tækniháskóla Íslands, þá krefst stefndi þess að kröfufjárhæð verði lækkuð. Samkvæmt gögnum stefnda hafi stefnandi fyrst gert áskilnað um skattskyldu og endurgreiðslu með bréfi til stefnda, dags. 31. maí 2002. Með vísan til þessa krefst stefndi þess að upphafstími dráttarvaxta vegna kröfu stefnanda vegna áranna 2000, 2001 og 2002 ákvarðist samkvæmt 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga, þegar mánuðir sé liðinn frá fyrrgreindri dagsetningu.
Stefndi byggir málatilbúnað sinn m.a. á eftirfarandi réttarheimildum:
· Lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og reglugerð um fasteignaskatt nr. 945/2000.
· Meginreglum stjórnskipunarréttar og skattaréttar um jafnræði í skattlagningu að undanþágur frá skattskyldu beri jafna að skýra þröngt.
· Samkeppnislögum nr. 8/1993.
· Lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.
· Vaxtalögum nr. 38/2001.
· Málskostnaðarkröfu sína byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Í 1. mgr. 5. gr. laganna eru tilgreindar þær stofnanir og húsnæði, þar á meðal skólar, sem undanþegnar eru fasteignaskatti. Þar segir svo: “Undanþegin fasteignaskatti eru sjúkrastofnanir samkvæmt heilbrigðislögum, kirkjur, skólar, heimavistir, barnaheimili, íþróttahús, skipbrotsmannaskýli, sæluhús, bókasöfn og önnur safnahús og hús annarra ríkja að svo miklu leyti sem þau eru notuð af sendimönnum þeirra í milliríkjaerindum. Sama gildir um lóðir slíkra húsa.”
Samsvarandi ákvæði er í 6. gr. reglugerðar nr. 945/2000, sem sett var samkvæmt lögum nr. 4/1995.
Skólahús og skólar hafa verið undanþegin fasteignaskatti samkvæmt heimild í lögum allt frá því að lög nr. 66/1921 um fasteignaskatt tóku gildi.
Stefnandi byggir á því að engin skilyrði séu í gildandi lögum og reglugerðum um að starfsemi undanþáguhafa megi ekki vera rekin í ágóðaskyni og að húsnæðið þurfi að vera í eigu þess aðila sem starfsemina stundar. Samkvæmt beinu orðalagi gildandi ákvæða, í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 og 6. gr. reglugerðar nr. 945/2000, sé ekki annað skilyrði fyrir undanþágu en að um „skóla“ sé að ræða.
Stefndi byggir á því að stefnandi reki ekki í húsnæði sínu að Höfðabakka 9 skóla í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og geti því ekki notið eftirgjafarinnar.
Tækniháskóli Íslands, áður Tækniskóli Íslands, starfar á grundvelli laga nr. 53/2002, sbr. og lög nr. 136/1997. Hann fellur því undir skilgreiningu hugtaksins skóli í umræddu lagaákvæði og er það ágreiningslaust með aðilum. Þá liggur fyrir að það húsnæði, sem skólinn hefur á leigu hjá stefnanda hefur verið notað til skólahalds á leigutímanum.
Af forsögu lagaákvæðis 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 og skýringu dómstóla á því verður ráðið að tilgangur löggjafans með undanþáguheimildinni hafi verið að styrkja starfsemi þeirra stofnanna, sem til almenningsheilla horfa og tilgreindar eru í ákvæðinu. Fallist er á það með stefnda að einungis þeir aðilar sem tilgreindir eru í ákvæðinu njóti eftirgjafarinnar, enda ber að skýra undanþágur frá skattskyldu þröngri lögskýringu. Stefnandi, sem stundar útleigu á atvinnuhúsnæði í samkeppnisrekstri, getur því ekki notið slíkrar undanþágu. Gildir þá einu þótt húsnæði hans sé leigt út til skólahalds. Ekki er fallist á þá málsástæðu stefnanda að með þessu sé brotið gegn grundvallarsjónarmiðum um jafnræði við skattlagningu, þar sem skólum sé mismunað eftir því hvaða leið þeir fara við öflun húsnæðis. Ekkert liggur fyrir um það í hvaða mæli Tækniháskóli Íslands komi til með að njóta eftirgjafarinnar, ef hún rynni til stefnanda. Þá skiptir hér ekki máli hvernig önnur stjórnvöld hafa túlkað lagaákvæði þetta.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af viðurkenningarkröfu stefnanda í málinu. Af því leiðir að stefndi verður einnig sýknaður af kröfu stefnanda um endurgreiðslu ofgreidds fasteignaskatts.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Reykjavíkurborg, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Landsafls hf. í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.