Hæstiréttur íslands
Mál nr. 456/2001
Lykilorð
- Skuldabréf
- Fölsun
- Ábyrgð
|
|
Fimmtudaginn 23. maí 2002. |
|
Nr. 456/2001. |
Guðný Björgvinsdóttir og Ingibjörg M. Ragnarsdóttir (Jón Auðunn Jónsson hrl.) gegn Landsbanka Íslands hf. (Othar Örn Petersen hrl.) |
Skuldabréf. Fölsun. Ábyrgð.
L hf. krafði G og I um greiðslu skuldar samkvæmt skuldabréfi sem K gaf út árið 1994 með sjálfskuldarábyrgð hinna fyrrnefndu. G og I kröfðust sýknu með vísan til þess að héraðsdómur hefði fundið K sekan um að falsa nafnáritanir þeirra á skuldabréfið. Í málinu lá fyrir að G og I höfðu hvort tveggja fyrir og eftir uppkvaðningu dómsins samþykkt breytingar á greiðsluskilmálum skuldabréfsins. Breytti fölsunin því engu um eftirfarandi ábyrgðartöku þeirra, enda gat þeim ekki dulist hvers konar skuldbindingar þær gengust undir með nafnritunum sínum á skilmálabreytingar skuldabréfsins og af hvaða tilefni. Var krafa L hf. því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 20. desember 2001 að fengnu áfrýjunarleyfi. Þær krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfýjaða dóms verður hann staðfestur á þann hátt er í dómsorði greinir.
Áfrýjendur greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að af kröfu stefnda, Landsbanka Íslands hf., greiðast frá 1. júlí 2001 dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Áfrýjendur, Guðný Björgvinsdóttir og Ingibjörg M. Ragnarsdóttir, greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var 3. þessa mánaðar að afloknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu, þingfestri 22. febrúar 2000, af Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, Austurstræti 11, Reykjavík gegn Ingibjörgu M. Ragnarsdóttur, kt. 090642-3169, Hólabraut 3, Hafnarfirði og Guðnýju Björgvinsdóttur, kt. 290653-5769, Þúfubarði 6, Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði dæmdar til greiðslu skuldar in solidum, að fjárhæð 1.556.377 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 1997 til greiðsludags. Þess er krafist, að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Af hálfu beggja stefndu er þess krafist, að þær verði sýknaðar af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað.
I.
Málsatvik
Í málinu krefur stefnandi stefndu um greiðslu skuldar samkvæmt skuldabréfi, upphaflega að fjárhæð 1.220.000 krónur, útgefnu í Hafnarfirði 20. október 1994 af Kristni R. Kristinssyni til stefnanda. Af skuldinni áttu að greiðast kjörvextir, eins og þeir væru ákveðnir á hverjum tíma af stefnanda, 7,50% við útgáfu bréfsins, og til viðbótar 4,25% vaxtaálag, eða samtals 11,75% ársvextir. Skyldu vextir greiðast eftir á, á sömu gjalddögum og afborganir. Bréfið átti að greiða með 60 afborgunum á mánaðar fresti, í fyrsta skipti þann 10. mars 1995. Tvær breytingar voru gerðar á greiðsluskilmálum bréfsins, sú fyrri 27. febrúar 1996 og hin síðari 30. september 1997, þannig að eftirstöðvarnar, sem við síðari breytinguna voru 1.516.091 króna, skyldu greiðast með 144 afborgunum á mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. desember 1997. Skyldu kjörvextir, auk vaxtaálags, vera samtals 10,50% ársvextir og reiknast frá og með 22. september 1997. Þá var sú breyting einnig gerð á skilmálum bréfsins, að lánið yrði bundið vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 180,6. Undir þessar skuldbreytingar rituðu stefndu nöfn sín sem sjálfskuldarábyrgðarmenn. Nöfn stefndu höfðu einnig verið rituð undir skuldabréfið sem sjálfskuldarábyrgðarmanna, en með dómi, uppkveðnum 13. desember 1996, var útgefandi þess, áðurnefndur Kristinn R. Kristinsson, sakfelldur fyrir að hafa falsað nafnritanir þeirra á bréfið, að undangenginni skýlausri játningu hans fyrir dómi þar um. Skuldabréfið hefur verið í vanskilum frá 1. desember 1997 og er því allt fallið í gjalddaga samkvæmt efni sínu. Hafa innheimtutilraunir stefnanda ekki borið árangur, en útgefandi þess var úrskurðaður gjaldþrota 2. október 1998.
Stefna máls þessa var árituð um aðfararhæfi 28. mars 2000 og málskostnaður ákveðinn 144.000 krónur, en með ákvörðun dómsins 8. desember sama ár var endurupptaka þess heimiluð að kröfu stefndu og með samþykki stefnanda.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi rekur mál þetta eftir XVII. kafla laga nr. 91/1991 og byggir kröfur sínar á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um greiðslu fjárskuldbindinga og að samninga skuli halda. Stefnandi byggir á því, að í umræddum breytingum á greiðsluskilmálum skuldabréfs þess, sem mál þetta er sprottið af, felist sjálfstæðar ábyrgðaryfirlýsingar stefndu og skipti ekki máli þótt stefndi hafi falsað nöfn þeirra á skuldabréfið sjálft. Þá hafi stefndu fengið margar greiðslutilkynningar um skuldina og engar athugasemdir gert af því tilefni, auk sem um hafi verið að ræða skuldir, sem stefndu höfðu áður gengist í ábyrgð fyrir, en settar hafi verið á eitt skuldabréf. Sé ábyrgð stefndu því í fullu gildi, enda þótt yfirlýsingarnar á skuldabréfinu séu ógildar sökum fölsunar.
III.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefnda, Guðný Björgvinsdóttir, sem er barnsmóðir áðurnefnds útgefanda skuldabréfsins, byggir á því, að er Kristinn lagði fyrir hana yfirlýsingarnar um breytingar á greiðsluskilmálum skuldabréfsins, hafi henni ekki verið ljóst, að um var að ræða breytingar á skilmálum skuldabréfs, sem hún hafði ekki ábyrgst efndir á. Hafi hún ekki séð ástæðu til þess að kanna sérstaklega, hvort hún hefði áritað bréfið, enda hafi henni ekki komið til hugar, að Kristinn hefði falsað nafn sitt á það.
Stefnda hafi aldrei veitt stefnanda loforð sitt um að greiða skuldina, yrðu vanskil á henni af hálfu skuldara. Hafi stefnda verið í eðlilegri villu um skyldur sínar, þegar Kristinn hafi beðið hana um að undirrita yfirlýsingar um breytingu á greiðsluskilmálum skuldarinnar. Í raun sé áritun hennar á þessar yfirlýsingar markleysa, þar sem hún hafi samþykkt tilteknar ráðstafanir á skuldinni sem ábyrgðarmaður hennar, án þess að vera það. Fölsun nafnritunar stefndu á skuldabréfið hafi verið staðfest með dómi og hafi nafnritunin ekkert gildi fyrir stefndu. Á eyðublöðum þeim, sem greiðsluskilmálunum er breytt með, sé ekki að finna neina yfirlýsingu um, að stefnda lofi greiðslu, líkt og finna megi á skuldabréfinu sjálfu. Hafi þannig ekkert greiðsluloforð stofnast og því eigi stefnandi engan kröfurétt á hendur stefnda.
Stefnda byggir sýknukröfu sína enn fremur á því, að málsóknin á hendur sér sé reist á sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfi, eins og lýst sé í stefnu, en ekki ábyrgðaryfirlýsingum, sem gefnar hafi verið með áritun á skuldbreytingarskjöl. Hyggist stefnandi byggja kröfurétt sinn á því, að stefnda hafi orðið ábyrg fyrir skuldinni með því að samþykkja að greiðsluskilmálum hennar yrði breytt, sé ljóst, að málið sé byggt á röngum grunni í stefnu.
Stefnda, Ingibjörg M. Ragnarsdóttir, móðir útgefanda skuldabréfsins, byggir málsvörn sína á því, að hún hafi ekki tekið á sig ábyrgð á greiðslu skuldar samkvæmt skuldabréfinu, enda þótt óumdeilt sé, að hún hafi undirritað breytingar á greiðsluskilmálum þess. Þá beri að sýkna stefndu á þeim grundvelli, að málsókn stefnanda byggist ekki á slíkri ábyrgð, heldur sé látið nægja að vísa til hins falsaða skuldabréfs. Gefi málatilbúnaður stefnanda því ekki réttarfarslegt tilefni til þrætu um, hvort lesa megi ábyrgðaryfirlýsingu út úr gerðum stefndu.
IV.
Forsendur og niðurstaða
Óumdeilt er, að áðurnefndur Kristinn R. Kristinsson falsaði nöfn stefndu sem sjálfskuldarábyrgðaraðila á skuldabréf það, er hann gaf út 20. október 1994, að fjárhæð 1.220.000 krónur. Var hann sakfelldur og dæmdur fyrir þá háttsemi í refsimáli með dómi, uppkveðnum 13. desember 1996. Þann 27. febrúar 1996 varð samkomulag með stefnanda og Kristni um breytingu á greiðsluskilmálum skuldabréfsins og voru eftirstöðvar skuldarinnar þá 1.315.267 krónur. Kemur þar meðal annars fram, að til skuldarinnar hafi verið stofnað með skuldabréfi, útgefnu 20. október 1994, að fjárhæð 1.220.000 krónur, tryggðu með sjálfskuldarábyrgð stefndu, og að eftirstöðvar skuldarinnar væru 1.315.267,20 og þar af gjaldfallnar 339.266,80 krónur. Skyldi endurgreiða skuldina með 58 afborgunum á eins mánaðar fresti, fyrst 10. mars 1996. Rituðu stefndu nöfn sín sem sjálfskuldarábyrgðaraðilar undir breytingar á greiðsluskilmálunum. Aftur var gerð breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfsins 30. september 1997, eða rúmum 9 mánuðum eftir að dómurinn í refsimálinu var kveðinn upp. Segir þar, eins og áður, að skuldin sé samkvæmt umræddu skuldabréfi, að fjárhæð 1.220.000 krónur. Væru eftirstöðvar skuldabréfsins að fjárhæð 1.516.091 króna og þar af væru gjaldfallnar afborganir 408.186 krónur og vextir að fjárhæð 219.530,30 krónur. Lánstími bréfsins var lengdur umtalsvert og skyldi endurgreiða skuldina með 144 afborgunum á eins mánaðar fresti, fyrst 1. desember 1997. Rituðu stefndu nöfn sín undir breytingarnar á greiðsluskilmálunum á sama hátt og áður.
Svo sem áður greinir er önnur stefnda móðir útgefanda umrædds skuldabréfs, Kristins R. Kristinssonar, og hin stefnda barnsmóðir hans. Er fram komið í málinu, að stefndu höfðu oft verið búnar að gangast í ábyrgð fyrir Kristin, áður en þær rituðu nöfn sín sem sjálfskuldarábyrgðaraðilar undir nefndar skilmálabreytingar á skuldabréfinu. Þá greindi Kristinn frá því við aðalmeðferð málsins, að hér hefði verið um að ræða uppsafnaðar skuldir hans hjá stefnanda, er stefndu hefðu verið ábyrgðarmenn á, sem settar hefðu verið á eitt skuldabréf. Þykir sú staðreynd, að Kristinn falsaði nöfn stefndu sem ábyrgðarmanna á upphaflegt skuldabréf, engu breyta, hvað eftirfarandi ábyrgðartöku þeirra áhrærir, enda verður að telja, að þeim hafi ekki getað dulist, hvers konar skuldbindingar þær gengust undir með nafnritunum sínum sem sjálfskuldarábyrgðaraðilar á greiðsluskilmálabreytingar skuldabréfsins og af hvaða tilefni. Er sjálfskuldarábyrgð þeirra samkvæmt þeim breytingum, sem gerðar voru á greiðsluskilmálum bréfsins 30. september 1997, þar sem lýst er skilmerkilega fjárhæð höfuðstóls upphaflegrar skuldar, skuldastöðu á útgáfudegi greiðsluskilmála-breytingar, þar með töldum fjárhæðum gjaldfallinna afborgana og vaxta, svo og verulegri lengingu lánstíma, því í fullu gildi.
Samkvæmt öllu framansögðu verða stefndu dæmdar til að greiða stefnanda óskipt 1.556.377 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1.desember 1997 til greiðsludags. Ekki er þörf sérstaks dómsákvæðis um vaxtavexti með vísan til 12. gr. vaxtalaga, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Þá verða stefndu dæmdar óskipt til greiðslu málskostnaðar, sem telst hæfilega ákveðinn 160.000 krónur.
Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndu, Guðný Björgvinsdóttir og Ingibjörg M. Ragnarsdóttir, greiði stefnanda, Landsbanka Íslands hf., óskipt 1.556.377 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1.desember 1997 til greiðsludags og 160.000 krónur í málskostnað.