Hæstiréttur íslands
Mál nr. 274/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Frestur
- Forföll
|
|
Þriðjudaginn 5. júlí 2005. |
|
Nr. 274/2005. |
Gísli Björgvinsson(Othar Örn Petersen hrl.) gegn Reyni Elfari Kristinssyni (enginn) |
Kærumál. Frestun. Forföll.
Úrskurði héraðsdóms um frestun aðalmeðferðar var hnekkt þar sem ekki þótti sýnt að lögmaður R eða hann sjálfur hefðu haft lögmæt forföll í þinghaldi til aðalmeðferðar, sem boðað hafði verið til með löngum fyrirvara.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 22. júní 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2005, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um frestun aðalmeðferðar í máli sóknaraðili á hendur henni. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar eigi síðar en 22. júlí 2005. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Mál þetta, sem varðar uppgjör aðila á sameignarfélagi þeirra, var þingfest 9. nóvember 2004. Í þinghaldi 15. apríl 2005 var því frestað til aðalmeðferðar 10. júní sama ár og jafnframt bókað að aðilar myndu að líkindum gefa skýrslu. Við upphaf aðalmeðferðar þann dag var þess óskað af hálfu lögmanns, sem mætti fyrir hönd varnaraðila, að málinu yrði frestað þar sem varnaraðili og lögmaður hans væru staddir erlendis. Lögmaður sóknaraðila mótmælti frestun aðalmeðferðar og hélt því fram að vera varnaraðila og lögmanns hans erlendis teldust ekki lögmæt forföll. Sóknaraðili var viðstaddur þinghaldið.
Upplýst er í málinu að lögmaður varnaraðila hafi fyrir þinghaldið óformlega óskað eftir því við lögmann sóknaraðila að aðalmeðferð yrði frestað, en hann ekki fallist á það. Ekki liggur fyrir að lögmaður varnaraðila hafi fyrirfram tilkynnt dómara málsins um forföll sín eða hvers eðlis þau væru. Þá liggur heldur ekki fyrir að hann hafi tilkynnt Héraðsdómi Reykjavíkur, en þar er málið til meðferðar, að hann myndi vera erlendis á greindum tíma. Hvorki í endurriti þinghaldsins 10. júní 2005 né í úrskurði dómara kemur fram hvert erindi varnaraðili eða lögmaður hans áttu til útlanda á greindum tíma. Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðili hafi verið í sumarfríi og lögmaðurinn í persónulegum erindum, en ekki er þess getið hvers eðlis þau erindi hafi verið. Í úrskurði dómara er eingöngu fullyrt að lögmaðurinn hafi þurft að fara til útlanda með stuttum fyrirvara. Ekki liggur fyrir hvaðan sú vitneskja er fengin. Dómarinn tók kröfu varnaraðila til greina og frestaði aðalmeðferð málsins án þess að ákveða hvenær hún skyldi fara fram.
Til þess að forföll aðila frá þinghaldi teljist lögmæt þarf eitthvert af atvikum 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991 að vera fyrir hendi. Hefur héraðsdómari vitnað til d. liðar ákvæðisins til styrktar niðurstöðu sinni. Aðalflutningur var ákveðinn með löngum fyrirvara í þinghaldi þar sem mætt var af hálfu varnaraðila. Utanferð getur ekki út af fyrir sig verið lögleg forföll. Til þess þarf meira til að koma. Af öðrum ákvæðum málsgreinarinnar má fá vitneskju um þau atvik, svo sem þörf á að leita læknishjálpar, veður og torfærur, verulegur atvinnumissir, embættis- eða sýslunarstörf, sem ekki þola bið, og áður boðað þinghald. Af ákvæðum þessum má ráða að erindin verða að vera brýn. Í máli þessu er ekki upplýst um slík atvik. Sóknaraðili hefur krafist þess að málið verði tekið til efnismeðferðar ekki síðar en 22. júlí næstkomandi. Af framangreindu leiðir að rétt er að fella úrskurð héraðsdómara úr gildi og taka kröfu sóknaraðila til greina.
Ákvörðun um málskostnað í héraði bíður endanlegs dóms.
Rétt er að varnaraðili greiði sóknaraðila kærumálskostnað, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Það þykir athugavert að héraðsdómari lét hjá líða í úrskurði sínum að ákveða hvenær taka ætti málið fyrir á ný til aðalmeðferðar.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til aðalmeðferðar ekki síðar en 22. júlí 2005.
Varnaraðili, Reynir Elfar Kristinsson, greiði sóknaraðila, Gísla Björgvinssyni, 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2005.
Lögmaður stefnda, Brynjar Níelsson hrl., hefur óskað eftir því að aðalmeðferð sú sem fara átti fram í máli þessu nú í dag verði frestað. Hefur komið fram í málinu að lögmaður stefnda hafi þurft að fara til útlanda með stuttum fyrirvara auk þess sem stefndi sjálfur sé erlendis. Þá telur lögmaður stefnda nærveru stefnda við aðalmeðferð málsins nauðsynlega og hafnar því að tekin verði af honum aðilaskýrsla gegnum síma.
Með vísan til þess að bæði lögmaður stefnda og hann sjálfur eru ekki á landinu þykja þeir hafa lögmæt forföll sbr. d liður 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991 og verður því ekki hjá því komist að verða við ósk stefnda um að aðalmeðferð málsins verði frestað.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Aðalmeðferð máls þessa er frestað.