Hæstiréttur íslands

Mál nr. 35/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. janúar 2002.

Nr. 35/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Lúðvík Kaaber hdl.)

 

Kærumál. Nálgunarbann.

X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem honum var gert að sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 94/2000, þannig að honum var í þrjá mánuði bannað að koma á eða í námunda við heimili Y.  Þá var honum bannað jafnlengi að veita Y eftirför eða setja sig á annan hátt í samband við hana. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms með vísan til forsendna hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. janúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. janúar 2002, þar sem varnaraðila var með nánar tilteknum hætti gert að sæta nálgunarbanni. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að varnaraðila verði „þrátt fyrir  nálgunarbann, heimil för um [...].“ Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili hefur einnig kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur þó þannig að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni í 12 mánuði.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða allan kostnað af kærumáli þessu, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Varnaraðili, X, greiði allan kostnað af kærumáli þessu, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Lúðvíks Kaaber héraðsdómslögmanns, 40.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. janúar 2002

   Ár 2002, föstudaginn 18. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður í málinu UÖ-1/2002:  Ákæruvaldið gegn X.

                Málavextir:

                Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess hinn 11. þ.m. að varnaraðila, X, verði gert í 12 mánuði að sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a í lögum um meðferð opniberra mála nr. 19, 1991, sbr. lög nr. 94, 2000, þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili Y, til heimilis [...], nánar tiltekið á svæði sem markast af [...].  Þá er þess krafist að honum verði jafnlengi bannað að veita henni eftirför eða að setja sig í samband við hana.  Málið var þingfest og tekið til úrskurðar í dag.  Varnaraðili og Y voru í sambúð á árunum 1998 til 2000.  Eiga þau saman tveggja ára gamlan son.  Y er nú í tygjum við annan mann, Z.  Meðal gagna málsins eru margar lögregluskýrslur og önnur gögn frá síðasta hálfa ári.  Benda gögnin sterklega til þess að varnaraðili hafi á þessu tímabili ásótt Y með ýmsum hætti, svo sem með því að hringja í hana, sitja fyrir henni, ráðast að henni og veita henni áverka, veita henni eftirför, hóta henni óförum - bæði í hennar eyru og annarra, henda steypuhnullungi inn til hennar í gegn um gluggarúðu, sparka í hurðar hjá henni, aka utan í bíl Z er þau Y voru í ferð á honum eftir [...], skemma bíl Z sem stóð fyrir utan hjá henni og fleira.

                Varnaraðili mótmælir kröfunni.  Segist hann sjálfur hafa orðið fyrir ásókn af hálfu Y á þessum tíma og sé sumt af því sem borið er á hann í lögreglu­skýrsl­unum tilbúningur, þótt sumt af því sé rétt.  Hann leggur áherslu á það að hann hafi ekki á móti því að hitta ekki Y sjálfa.  Aftur á móti hafi hún meinað honum að hitta son þeirra og sé tilgangurinn með því að fá lagt á nálgunarbann sá að koma í veg fyrir að hann fái að umgangast barnið.

                Dómarinn telur að rökkstudd ástæða sé til þess að ætla það að varnaraðili muni ásækja Y, raska friði hennar og jafnvel brjóta gegn henni með alvarlegri hætti, verði ekki að gert.  Ber með heimild í 110. gr. a í lögum um meðferð opinberra mála að fallast á kröfu ákæruvaldsins og leggja bann við því að varnaraðili komi á eða í námunda við heimili Y, nánar tiltekið á svæði sem markast af [...].  Þá ber einnig að leggja bann við því að hann veiti henni eftirför eða setji sig í samband við hana. Varnaraðili og Y eiga saman ungt barn og sakir þær sem bornar hafa verið á varnaraðila hafa enn ekki sætt fullri rannsókn hjá lögreglu.  Þykir ekki rétt að kveða á um lengra nálgunarbann en þrjá mánuði meðan málavextir hafa ekki skýrst frekar.

                Gera ber varnaraðila að greiða verjanda sínum, Lúðvík Kaaber hdl., 35.000 krónur í málsvarnarlaun.

Úrskurðarorð:

                Varnaraðila, X, er, í 3 mánuði frá birtingu úrskurðarorðs, bannað að koma á eða í námunda við heimili Y, nánar tiltekið á svæði sem markast af [...].  Þá er honum bannað jafnlengi að veita Y eftirför eða setja sig á annan hátt í samband við hana.

                Varnaraðili greiði verjanda sínum, Lúðvík Kaaber hdl., 35.000 krónur í málsvarnarlaun.