Hæstiréttur íslands
Mál nr. 54/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Greiðsluaðlögun
|
Þriðjudagurinn 9. mars 2010. |
|
|
Nr. 54/2010. |
A (sjálfur) gegn Héraðsdómi Reykjavíkur (enginn) |
Kærumál. Greiðsluaðlögun.
A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Talið var að fjárhagsörðugleikar A stöfuðu öðru fremur af því að á honum hvíli ábyrgðarskuldbindingar vegna atvinnurekstrar, en einkahlutafélag í eigu hans og tveggja annarra hafi haft þennan rekstur á hendi. Ábyrgðirnar hvíli því á A á grundvelli samninga en ekki ótakmarkaðrar ábyrgðar hans á atvinnustarfsemi. Ákvæði 2. mgr. 63. gr. a. laga nr. 21/1991 girði því ekki fyrir að A yrði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 272/2009. Þar sem ekki væru heldur leiddar í ljós aðrar ástæður sem staðið gætu þeirri niðurstöðu í vegi var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og A veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. janúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. janúar 2010, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að honum yrði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með áorðnum breytingum. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á beiðni hans um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
I
Sóknaraðili óskaði 30. október 2009 eftir heimild Héraðsdóms Reykjavíkur til að gera nauðasamning til greiðsluaðlögunar við lánardrottna sína samkvæmt X. kafla a. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. Í hinum kærða úrskurði er í helstu atriðum greint frá eignum og skuldum sóknaraðila, svo og tekjum og aðstæðum að öðru leyti. Í greiðsluáætlun, sem fylgdi beiðni sóknaraðila til héraðsdóms, greinir svo frá að heildarsamningsskuldir hans nemi rúmlega 10,6 milljón krónum, vanskil af þeim tæplega 113.000 krónum og skuldir vegna ábyrgða fyrir aðra rúmlega 15,8 milljón krónum. Síðastnefndu skuldirnar munu þó samkvæmt gögnum málsins vera ívið lægri, en þær eru til komnar vegna ábyrgða, sem sóknaraðili gekkst í ásamt tveimur öðrum mönnum í þágu félags þeirra, C ehf. Bú félagsins hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Í sömu áætlun greinir að nettó tekjur sóknaraðila á mánuði séu 132.183 krónur. Mánaðarleg útgjöld, þar á meðal til framfærslu, telur hann nema 138.183 krónum, en að viðbættum 67.000 krónum vegna afborgana af húsnæðislánum en ekki öðrum lánum séu þau 205.183 krónur. Auk greiðsluáætlunar fylgdu beiðninni meðal annars ljósrit fimm síðustu skattframtala sóknaraðila og maka hans og vottorð um hjúskaparstöðu þeirra. Sóknaraðili kveður sig vera ófæran um að standa í skilum með skuldbindingar sínar, en jákvæð greiðslugeta eiginkonu hans um rúmlega 26.000 krónur á mánuði breyti engu um það enda séu skuldirnar hans og vinnuþrek hennar skert vegna sjúkleika. Tillaga sóknaraðila er sú að þær skuldir hans, sem ekki eru tryggðar með veði í fasteign, verði felldar niður að fullu.
II
Samkvæmt forsendum hins kærða úrskurðar réðst niðurstaða hans af því að ekki þótti fyllilega upplýst hver greiðslubyrði sóknaraðila yrði af þeim sjálfskuldarábyrgðum, sem hugsanlega kemur í hans hlut að greiða. Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt gögn þar sem fram kemur að Arion banki hf. og NBI hf. krefja hann og tvo aðra menn um samtals 14.096.813 krónur vegna sjálfskuldarábyrgða á skuldum C ehf. Greiðsluskyldan hvílir á þeim óskipt. Að þessu virtu stendur 4. töluliður 1. mgr. 38. gr. laga nr. 21/1991 því ekki í vegi að sóknaraðila verði veitt heimild til að leita nauðasamnings. Fjárhagsörðugleikar hans stafa öðru fremur af því að á honum hvíla ábyrgðarskuldbindingar vegna atvinnurekstrar, en áðurnefnt einkahlutafélag hafði þennan rekstur á hendi. Umræddar ábyrgðir hvíla á sóknaraðila á grundvelli samninga en ekki vegna ótakmarkaðrar ábyrgðar hans á atvinnustarfsemi. Ákvæði 2. mgr. 63. gr. a. laga nr. 21/1991 girða því ekki fyrir að sóknaraðila verði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, sbr. dóm Hæstaréttar 10. júní 2009 í máli nr. 272/2009. Ekki eru heldur í ljós leiddar aðrar ástæður sem staðið geti þeirri niðurstöðu í vegi. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Sóknaraðila, A, er veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt ákvæðum X. kafla a. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl..
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. janúar 2010.
Með bréfi er barst dóminum 30. október sl. hefur A, kt. [...],[...], óskað heimildar til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009.
Því er lýst í beiðni að umsækjandi sé atvinnulaus. Hann sé kvæntur B [...] og búi þau ásamt 19 ára gamalli dóttur sinni í eigin húsnæði. Umsækjandi hafi rekið fyrirtæki [...] ásamt fleirum en beiðni liggur nú frammi um að það verði tekið til gjaldþrotaskipta. Skuldir séu aðallega til komnar vegna tekjumissis, veikinda maka og dóttur svo og mikilla útgjalda vegna lyfja- og lækniskostnaðar þeirra. Þá hefur skuldari tekið á sig töluverðar sjálfskuldarábyrgðir vegna fyrirtækjarekstursins.
Skuldari hefur lagt fram ítarlega greiðsluáætlun í samræmi við 2. mgr. 63. gr. c laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009.
Skuldari á helmingshlut í húsnæðinu að [...] sem er 167,3 fm íbúð. Nettó laun skuldara eru 132.349 krónur á mánuði. Tekjur maka eru 305.599 krónur á mánuði. Ekki hefur verið tekið tillit til vaxtabóta í greiðsluáætlun við útreikning ráðstöfunartekna.
Helstu samningskröfur skv. greiðsluáætlun eru skuldir við NBI hf., Lýsingu og Lánasjóð íslenskra námsmanna. Eftirstöðvar samningsskulda eru rúmlega 10 milljónir króna og gjaldfallnar kröfur nema 112.856 krónum.
Greiðslugeta, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar, er neikvæð.
Tillaga skuldara er sú að allar samningskröfur verði felldar niður.
Skuldari kveðst ekki hafa gripið til neinna ráðstafana sem riftanlegar væru samkvæmt lögum nr. 21/1991.
Forsendur og niðurstaða
Leitað er greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 24/2009 um breytingu á lögum nr. 21/1991.
Fram kemur í beiðni að skuldari hafi rekið fyrirtækið C ehf., í samstarfi við tvo aðra en reksturinn hafi gengið illa eftir efnahagshrunið. Þá hafi skuldari tekið á sig þó nokkra sjálfskuldarábyrgð vegna rekstursins sem hann sitji nú uppi með. Var C ehf. tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði sem kveðinn var upp þann 5. nóvember sl. í héraðsdómi Reykjaness.
Samningsskuldir skuldara fyrir utan ábyrgðarskuldbindingar, nema rúmlega 10 milljónum króna eins og fram kemur í greiðsluáætlun. Þar af eru námslán um 8,6 milljónir króna. Námslán teljast til svokallaðra félagslegra lána en afborganir þeirra á ársgrundvelli miðast við tekjur skuldara. Því verður að telja ólíklegt að afborganir þess verði íþyngjandi fyrir skuldara á því tímabili sem tekjur hans eru skertar. Að námslánum undanskildum standa eftir bílasamningur við Lýsingu að fjárhæð 1,5 milljónir króna og lán hjá NBI hf. að fjárhæð 545.569 krónur, eða samtals rúmlega 2 milljónum króna.
Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. a. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009, getur maður leitað nauðasamnings til greiðsluaðlögunar ef hann sýnir fram á að hann sé og verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar. Ekki verður séð af framangreindu að skuldari uppfylli skilyrði 1. mgr. 63. gr. a hvað þetta varðar.
Samkvæmt 4. lið 1. mgr. 38. gr. laga nr. 21/1991 er kveðið á um að héraðsdómari skuli synja um heimild til að leita nauðasamnings ef beiðni skuldara sé áfátt, fylgigögn vanti með henni eða annmarkar séu á þeim.
Skuldari hefur ekki gert grein fyrir í umsókn til greiðsluaðlögunar hvort sjálfskuldarábyrgðir vegna C ehf. muni eingöngu falla á hann, enda hvílir ábyrgðin á fleiri aðilum vegna rekstursins eins og sjá má í fylgigögnum með umsókn skuldara. Þá hefur ekki verið fullupplýst hver greiðslubyrði hans muni vera af þeim sjálfskuldarábyrgðum sem hugsanlega komi í hans hlut að greiða. Að þessu leyti er beiðni skuldara áfátt.
Með vísan til þess að ofan hefur verið rakið, sbr. 4. tl. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 21/1991 er það niðurstaða dómsins að ekki verði hjá því komist að hafna beiðni skuldara um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.
Unnur Gunnarsdóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Hafnað er beiðni A um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.