Hæstiréttur íslands

Mál nr. 297/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Skaðabætur
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Fimmtudaginn 11

Fimmtudaginn 11. júní 2009.

Nr. 297/2009.

Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag

(Kristinn Brynjólfsson framkvæmdastjóri)

gegn

VBS Fjárfestingabanka hf.

(Skúli Bjarnason hrl.)

Kærumál. Nauðungarsala. Skaðabætur. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

M krafðist skaðabóta úr hendi V vegna málskostnaðar sem V hafði lýst til uppboðsandvirðis fasteignar í eigu M og fengið úthlutun fyrir en V var sjálfur uppboðskaupandi. Málinu var vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar. Í dómi Hæstaréttar er vísað til þess að samkvæmt úthlutunargerð sýslumanns hafi  221.859.002 krónur greiðst upp í kröfu hans. Eins og málið liggi fyrir væri vafalaust að V hefði fengið sömu fjárhæð úthlutað, þótt hann hefði ekki lýst hinum umdeilda málskostnaði með öðrum þáttum kröfu sinnar. Þótt fallist yrði á málsástæður M um skaðabótaskyldu V gagnvart honum með því að lýsa of hárri fjárhæð vegna málskostnaðar gætu þær af þessari ástæðu ekki leitt til þess að dómkrafa hans yrði tekin til greina. Varð hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2009, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila og Kristins Brynjólfssonar stjórnarformanns og framkvæmdastjóra sóknaraðila.

Í máli því sem vísað var frá héraðsdómi með hinum kærða úrskurði krefst sóknaraðili skaðabóta úr hendi varnaraðila vegna málskostnaðar, sem var hluti fjárhæðar sem varnaraðili lýsti til úthlutunar á söluverði fjögurra fasteignarhluta að Rafstöðvarvegi 1a í Reykjavík, en varnaraðili keypti sjálfur þessa fasteignarhluta á nauðungarsölu 18. apríl 2007. Í hinum kærða úrskurði er atvikum nánar lýst sem og fyrri tilraunum sóknaraðila til að hafa uppi kröfur á hendur varnaraðila af sama tilefni.

Fallist verður á þá úrlausn héraðsdóms að með vísan til 3. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu geti sóknaraðili höfðað málið á þessum grundvelli þrátt fyrir frávísunardóma í hæstaréttarmáli nr. 155/2008 frá 16. apríl 2008 og í máli nr. 400/2008 frá 2. september sama ár.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði gerði varnaraðili kröfu um greiðslu á 303.360.042 krónum á grundvelli skuldabréfa sinna við úthlutun á söluverði fasteignarhlutanna. Hann keypti þá sjálfur á uppboðinu á samtals 224.400.000 krónur. Samkvæmt úthlutunargerð sýslumanns 14. ágúst 2007 greiddust 221.859.002 krónur upp í kröfur hans. Eins og málið liggur fyrir er vafalaust að varnaraðili hefði fengið sömu fjárhæð úthlutað, þó að hann hefði ekki lýst hinum umdeilda málskostnaði með öðrum þáttum kröfu sinnar. Þótt fallist yrði á málsástæður sóknaraðila sem lúta að því að varnaraðili hafi skapað sér skaðabótaskyldu gagnvart honum með því að lýsa of hárri fjárhæð vegna málskostnaðar geta þær af þessari ástæðu ekki leitt til þess að dómkrafa hans verði tekin til greina. Leiðir þetta til þess að hinn kærði úrskurður verður staðfestur.

Með hliðsjón af málsatvikum verður kærumálskostnaður felldur niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2009.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 15. apríl sl., er höfðað 25. september 2008.

                Stefnandi er Miðstöðin ehf, eignarhaldsfélag, Lágabergi 1, Reykjavík.

Stefndi er VBS Fjárfestingarbanki hf., Borgartúni 26, Reykjavík.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 9.709.061 króna auk dráttarvaxta frá 18. aprí1 2007 til greiðsludags vegna ólögmæts málskostnaðar sem hann fékk greiddan af andvirði nauðungarsöluverðs eignarhluta með fastanúmerin 225-8524, 225-8526, 225-8527 og 225-8528 að Rafstöðvarvegi 1 a.

Þá er og krafist málskostnaðar að mati dómsins auk 24,5% virðisaukaskatts.

Stefndi krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi, en til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til þrautavara er þess krafist að stefnukröfurnar verði lækkaðar verulega.

Í öllum tilvikum er krafist málskostnaður að mati dómsins samkvæmt málskostnaðarreikningi sem áskilinn er réttur til að leggja fram við aðalmeðferð málsins og beri málskostnaðarfjárhæðin dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 15. degi eftir dómsuppsögu til greiðsludags.

Jafnframt er þess krafist að umboðsmaður stefnanda, Kristinn Brynjólfsson, verði dæmdur persónulega til greiðslu kostnaðar vegna tilefnislausrar málssóknar.

Í þessum þætti málsins er einungis fjallað um frávísunarkröfu stefnda. Gerir stefndi þær kröfur að málinu verði vísað frá dómi og honum verði úrskurðaður málskostnaður. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og málið verði tekið til efnismeðferðar. Krefst hann málskostnaðar í þessum þætti málsins.

Málavextir

Stefnandi höfðar mál þetta til heimtu skaðabóta vegna greiðslu meints ólögmæts málskostnaðar í tengslum við nauðungarsölu fjögurra nánar greindra fasteigna sem stefndi keypti á nauðungarsölu þann 18. apríl 2007 fyrir samtals 224.400.000 krónur.

                Stefnandi kveður málið til komið vegna innheimtu vaxtalausra, skammtíma­skulda­bréfa, sem útgefin voru af VBS Fjárfestingarbanka og samþykkt til greiðslu af fyrri eiganda viðkomandi fasteigna að Rafstöðvarvegi 1a vegna fjármögnunar endurbóta á þeim. Bréfin voru samtals að fjárhæð 252.000.000 krónur að nafnvirði með krossveði í 7 eignarhlutum á 1., 2. og 3. veðrétti. Skipting milli veðrétta var þannig að á 1. veðrétti hvíldu 32 handhafaskuldabréf, hvert að fjárhæð 5.000.000 króna, útgefin þann 1. mars 2006, á 2. veðrétti hvíldu 10 handhafaskuldabréf, hvert að fjárhæð 5.000.000 króna, útgefin þann 5. október 2005 og á 3. veðrétti hvíldu 14 handhafaskuldabréf, hvert að fjárhæð 3.000.000 króna, útgefin þann 30. júní 2006. Bréfin voru öll vaxtalaus og með sama gjalddaga, þann 1. september 2006.

Þann 18. apríl 2007 hafi eignarhlutar með fastanúmerin 225-8524, 225-8526, 225-8527 og 225-8528 verið seldir nauðungarsölu og hafi boði stefnda/uppboðsbeiðanda verið tekið. Söluverð eignarhluta 225-8524 var 44.800.000, eignarhluta 225-8526  var 44.800.000 krónur, eignarhluta 225-8527 44.800.000 krónur og eignarhluta 225-8528  90.000.000 króna eða samtals 224.400.000 krónur.

Stefnandi kveður kröfulýsingar varnaraðila (uppboðsbeiðanda/uppboðskaupa) í söluandvirðið, lagðar fram þann 18.apríl 2007, daginn sem sala á framangreindum eignarhlutum fór fram hafa verið eftirfarandi:

1. veðréttur

2. veðréttur

3. veðréttur

Höfuðstóll, gjaldfelldur

160.000.000

50.000.000

42.000.000

Dráttarvextir til 18.04.2007

24.422.219

7.631.943

6.410.832

Málskostnaður

6.029.318

2.225.610

1.948.977

Gagnaöflunargjald

2.025

2.025

2.025

Birting greiðsluáskorunar

3.000

3.000

3.000

Uppboðsbeiðni

5.890

5.890

5.890

Kostnaður vegna uppboðs

38.500

44.625

38.500

Kröfulýsing

6.125

6.125

6.125

Vextir af kostnaði

2.193

2.214

2.214

Virðisaukaskattur

1.480.623

550.215

480.939

Samtals kr.

191.989.893

60.471.647

50.898.502

Eins og fram komi í kröfulýsingum stefnda sé auk málskostnaðar gerð krafa um greiðslu fyrir gagnaöflun, birtingu greiðsluáskorunar, uppboðsbeiðni, kostnað vegna uppboðs, kröfulýsingu, vexti af kostnaði og virðisaukaskatt. Málskostnaðarkrafa upp á  10.203.905 krónur auk virðisaukaskatts sé því í raun sett fram sem þóknun lögmanns stefnda fyrir að taka að sér máliõ, rita innheimtubréf, samhljóða greiðsluáskoranir og hafa umsjón með því frá janúar 2007 til og með 18. apríl 2007, en allur annar kostnaður hafi verið innheimtur sérstaklega sbr. framangreinda sundurliðun kröfulýsinga. Að viðbættum virðisaukaskatti hafi innheimtuþóknun krafa stefnda því samtals verið að fjárhæð 10.456.061 krónur vegna skuldabréfa á 1. og 2. veðrétti.

Samkvæmt úthlutunarfrumvarpi sýslumannsins í Reykjavík, dags 14. ágúst 2007, hafi 221.859.002 krónur greiðst upp í framangreindar kröfulýsingar eða 191.989.893 krónur vegna bréfa á 1. veðrétti og 29.869.109 krónur upp í kröfu vegna bréfa á 2. veðrétti. Sóknaraðili hafi mótmælt fjárhæð málskostnaðar og hafi gert kröfu um lækkun en henni hafi verið hafnað af fulltrúa sýslumannsins í Reykjavík þann 26. september 2007. Umboðsmaður stefnanda/gerðarþola hafi þá þegar lýst því  yfir að sú ákvörðun yrði borin undir héraðsdóm og hafi það verið gert í málinu Z-2/2007. Málinu hafi verið vísað frá dómi með úrskurði sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. febrúar 2008. Niðurstaða héraðsdóms um frávísun vegna vanreifunar hafi verið staðfest í Hæstarétti miðvikudaginn 16. apríl 2008. Málið hafi verið höfðað að nýju með ítarlegum rökstuðningi og hafi það verið þingfest 26. apríl síðastliðinn. Því hafi hins vegar verið vísað frá að nýju með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 3. júlí síðastliðinn á þeirri forsendu að frestur til að bera úthlutunarfrumvarp sýslumanns undir héraðsdóm samkvæmt nauðungarsölulögum nr. 90/1991 hafi verið liðinn. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavík hafi enn á ný verið kærður til Hæstaréttar sem staðfest hafi úrskurðinn þriðjudaginn 2. september s.l.

Stefndi bendir á að hann hafi verið uppboðsbeiðandi og eini veðhafi allra eignanna að frátöldum lögveðshafa, Reykjavíkurborg, vegna fasteignagjalda. Það sé því rangt að stefndi hafi fengið málskostnaðinn greiddan, hið rétta sé að hann hafi tekið kostnaðinn „undir sjálfum sér“, líkt og kröfuna að öðru leyti, en sitji enn uppi með eignina

Málsástæður stefnanda

Stefndi telur ljóst að ekki séu frekari lagaforsendur samkvæmt nauðungarsölulögum nr. 90/1991 til að leita úrskurðar dómara um réttmæti úthlutunarfrumvarps sýslumanns enda hafi úthlutun söluverðs átt sér stað í samræmi við úthlutunarfrumvarpið og stefndi hafi fengið greiddan uppsettan málskostnað og afsal fyrir eignunum. Réttmæti kröfu stefnda vegna málskostnaðar hafi hins vegar enga umfjöllun fengið fyrir dómstólum og þar sem stefnandi telji að gróflega hafi veriõ á sér brotið verði ekki hjá því komist að höfða einkamál á hendur stefnda til greiðslu skaðabóta vegna þess tjóns sem óhófleg og ósanngjörn innheimtuþóknun hans hafi valdið.

Almennar reglur bótaréttar kveði á um að skaðabætur skuli einungis nema sannanlegu tjóni en innheimtuþóknun/málskostnaður í málinu sé í raun skaðabætur til handa stefnda vegna kostnaðar hans við innheimtuaðgerðir. Það sé því alveg ljóst að krafa lögmanns stefnda sé ósanngjörn og fái engan veginn staðist. Samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofunnar sem lögð hafi verið fram hjá sýslumanninum í Reykjavík sé tímagjald fyrir lögmannsstörf 12.275 krónur auk virðisaukaskatts. Það samsvari því að lögmaðurinn hafi unnið 831 klukkustund við ritun innheimtubréfa, samhljóða greiðsluáskorana og umsjón með málinu frá janúar 2007 til 18. apríl 2007, því eins og áður hafi komið fram sé allur kostnaður vegna nauðungarsölunnar tilgreindur sérstaklega.

Hér hafi verið um að ræða einfalda innheimtu á veðskuldabréfum sem öll hafi verið vaxtalaus og með sama gjalddaga. Stefnandi telji ólíklegt að fleiri en 40 vinnustundum hafi verið varið í innheimtuaðgerðir vegna allra málanna samanlagt á tímabilinu janúar 2007 til og með 18. apríl 2007. Hann telji að innheimtuþóknunin sé því ekki í samræmi við lög og venjur og sé bersýnilega ósanngjörn. Í þessu sambandi sé vísað til 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og hæfilegt endurgjald þeirra fyrir störf sín. Ítrekað sé, og áhersla lögð á, að innheimtuþóknun/málskostnaður sé í þessu tilviki skaðabætur til handa stefnda vegna kostnaðar hans við innheimtuaðgerðir og því í engu samræmi við þær almennu reglur bótaréttar að skaðabætur skuli einungis nema sannanlegu tjóni.

Stefnandi telji að enginn munur geti talist á umfangi vinnu við innheimtu bréfanna sem hvíli á 1., 2. eða 3. veðrétti og þar sem um innheimtu óumdeildar peningakröfu í formi veðskuldabréfa hafi verið að ræða, hafi ekki verið þörf neinnar sérfræðiráðgjafar né heldur hafi verið til staðar áhætta sem réttlætt gæti þessa óhóflegu og ósanngjörnu málskostnaðarkröfu. Af þessum sökum hafi verið talið nauðsynlegt að gera þá kröfu að dómkvaddur verði sérfróður og óvilhallur matsmaður til að meta hvað sé eðlilegt vinnuframlag og þar af leiðandi þóknun lögmanns við innheimtu skuldabréfanna með tilliti til þess sem hér hafi verið rakið.

Krafa um dómkvaddan matsmann til að meta þann málskostnað, sem hér sé deilt um, sé nú þegar fyrir héraðsdómi Reykjavíkur í málinu nr. M-00112/2008. Matsspurningar samkvæmt matsbeiðni, sem þar sé óskað rökstuddra svara við, séu eftirfarandi:

1.             Er eðlilegt að krafa um málskostnað vegna vinnu við innheimtu bréfanna á tímabilinu janúar 2007 til og með 18. apríl 2007 sé 10.203.905 krónur auk virðisaukaskatts, þ.e. 6.029.318 krónur auk virðisaukaskatts vegna 1. veðréttar, 2.369.125 krónur auk virðisaukaskatts vegna 2. veðréttar og 1.948.977 krónur auk virðisaukaskatts vegna 3. veðréttar?

2.             Hvað er eðlilegt að reikna með mörgum vinnustundum við að semja og rita innheimtubréf og greiðsluáskoranir vegna framangreindra veðskuldabréfa auk umsjónar með málinu frá fyrri hluta janúar 2007 til uppboðsdags þann 18. apríl 2007?

Forsendur dómkröfu og bótafjárhæðar, sem mál þetta snúist um, byggist á því að krafan hafi verið bersýnilega ósanngjörn þar sem fjöldi vinnustunda við innheimtuna fram til 18. apríl 2007 hafi verið að hámarki 40 klukkustundir, en það álit sé byggt á viðræðum við aðra lögmenn sem reynslu hafi af innheimtustörfum. Þó ríflega sé reiknað telji stefnandi að eðlilegur innheimtukostnaður sé að hámarki 300.000 krónur vegna 1. veðréttar og 300.000 krónur vegna 2. veðréttar, auk 24,5% virðisaukaskatts eða samtals 747.000 krónur. Höfuðstóll bótakröfu sé því eftirfarandi:

Greidd innheimtuþóknun ásamt 24,5% vsk.

10.456.061 króna

Innheimtuþóknun skv. dómkröfu ásamt 24,5% vsk.

-  747.00  krónur 

Ofgreidd innheimtuþóknun-bótakrafa samtals

9.709.061 króna

Það liggi fyrir að stefndi hafi fengið málskostnaðarkröfur sínar greiddar og miðast greiðslan við 18. apríl 2007, daginn sem nauðungarsalan fór fram og kröfunum var lýst. Þar sem skuldin hafi ekki greiðst að fullu með andvirði kaupverðs hafi stefndi reiknað sér dráttarvexti af nýjum höfuðstól frá 18. apríl 2007, sem stefnandi telji 9.709.061 krónu of háan, eða sem nemi ofreiknaðri innheimtuþóknun. Á þessu byggi krafan um dráttarvexti.

Í ljósi þess að þingfest hafi verið beiðni um dómkvaddan matsmann, þá áskilur stefnandi sér rétt til að breyta kröfufjárhæð að fengnu endanlegu mati.

Kröfunni til stuðnings sé vísað í lög um meðferð einkamála nr. 91/1991 sem og almennar reglur bótaréttar um að skaðabætur skuli einungis nema sannanlegu tjóni. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. sömu laga, nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt ofan á málskostnað styðjist við lög nr. 50/1988 en sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi varnaraðila.

Málsástæður stefnda vegna frávísunarkröfu

Frávísunarkrafa stefnda byggir aðallega á eftirfarandi:

a.             Heimild skorti til málssóknarinnar, en stefnandi hafi þegar látið reyna á hið meinta ólögmæti málskostnaðar í tvígang, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Engin heimild sé í lögum nr. 90/1991 um nauðungarsölu til þess að láta reyna á álitaefnið þriðja sinn fyrir héraðsdómi og nú utan kæruleiða. Ekki sé hægt að túlka 3. mgr. 80. gr. nsl. öðruvísi en svo að heimildin sé bundin við „..að ekki hafi verið skilyrði fyrir nauðungarsö1u eða ranglega hafi verið staðið að henni “. Hvorugu sé hér til að dreifa og sé raunar ekki einu sinni gerð tilraun til þess að byggja á því í málinu. Réttarfarsreglur um res judicata leiði til sömu niðurstöðu, en ágreiningsmál þetta verði ekki borið undir dómstóla að nýju, en ekki verður stuðst við nein rök eða beinar lagaheimildir til þess að bera sama úrlausnarefnið enn einu sinni undir dómstóla, þó undir öðrum formerkjum sé, eins og áður sagði.

b.             Málið sé verulega vanreifað og fullnægi ekki áskilnaði 80. gr. eml. um skýran og glöggan málatilbúnað. Hvergi sé gerð grein fyrir skaðabótagrunni eða útreikningi og rökstuðningi bótakröfu með fullnægjandi hætti. Ekki sé heldur gerð grein fyrir á hverju meint ólögmæti málskostnaðar byggi né gerð grein fyrir grundvallar málsástæðum með þeim hætti sem nauðsynlegt sé til þess að fóta megi sig á sakarefninu. Í upphaflega uppboðsmálinu hafi verið lögð fram gjaldskrá lögmannsstofunnar sem hafi séð um innheimtuna, en þar komi m.a. fram að gjaldtakan hafi verið miðuð við hagsmunatengingu en ekki tímagjald. Slíkt hafi tíðkast við alla þá vanskilainnheimtu sem lögmenn hafi stundað fram til þessa, eftir því sem best sé vitað. Því sé hvorki mótmælt í málatilbúnaði stefnanda að gjaldskráin sem slík sé rétt né heldur er því nokkurs staðar haldið fram að rangt sé reiknað eftir gjaldskránni miðað við forsendur innheimtumálsins. Loks séu allar reikniforsendur í kröfugerð stefnanda rangar. Þannig blasi t.a.m. við að stefnan snúist samkvæmt efni sínu í kröfugerð um fjóra nánar greinda eignarhluta og lýstar veðkröfur vegna þriggja veðrétta. Fyrir liggi hins vegar, samkvæmt framlögðum frumvörpum til úthlutunargerða, að einungis hafi fengist fullnusta á 1. veðrétti og inn í 2. veðrétt að hluta við sölu þessara eignarhluta. Þar með sé 3. veðréttur ekkert til umfjöllunar í máli þessu og raunar ekki 2. veðrétturinn heldur, þó allir útreikningar og kröfugerðin í heild byggi á því að allir þrír veðréttirnir séu undir. „Greiddur“ málskostnaður, samkvæmt framlögðum úthlutunargerðum, hafi því numið 6.029.318 krónum samkvæmt hinni endanlega staðfestu úthlutunargerð, en ekki 10.203.905 krónum, eins og haldið er fram í stefnu. Rétt sé að vekja athygli á því að matsmál sem rekið sé samhliða máli þessu sé haldið sömu ágöllum og verði niðurstaða í því máli aldrei tæk til að byggja niðurstöðu á í máli þessu. Allir þessir þættir hljóti að varða frávísun málsins að mati stefnda. Hvergi sé gerð grein fyrir hvað sé rangt, óhóflegt eða ólöglegt né heldur hvað ætti að leggja til grundvallar eða hvernig. Vangaveltur um 40 klst. vinnu séu auðvitað 1 besta falli fáránlegar og málsástæðan í heild, eða grundvöllur hennar, þ.e. „byggt á viðræðum við aðra lögmenn“, dæmi sig sjálf að mati stefnda.

Þannig telji stefndi öll þau frávísunarrök sem málið hafi fallið á áður enn vera í fullu gildi, þ.e. að málið er stórlega vanreifað. Málatilbúnaðurinn gangi allur út á það að gera lítið úr allri þeirri vinnu og ábyrgð sem hinn endalausi eltingaleikur við fullnustu krafna stefnda á hendur stefnanda hafi kostað. Engin rök séu færð fyrir því af hverju skuldari ætti að geta valið innheimtukostnað samkvæmt tímagjaldi. Gjaldskrá Málþings ehf. sem stefnandi vísi til sé einfaldlega byggð upp hvað innheimtur varðar með hagsmunaviðmiðun líkt og gjaldskrár annarra lögmannsstofa. Sóknaraðili kjósi að horfa gersamlega fram hjá því eða gera grein fyrir því af hverju hann ætti að falla þar utan við. Hljóti þetta eitt og sér að vera vanreifun sem varðar frávísun.

Niðurstaða

Stefnandi höfðar mál þetta sem skaðabótamál og krefst hann skaðabóta úr hendi stefnda vegna ólögmæts málskostnaðar sem stefndi hafi fengið greiddan af andvirði nauðungarsöluverðs eignarhluta með fastanúmerin 225-8524, 225-8526, 225-8527 og 225-8528 að Rafstöðvarvegi 1 a.

Fyrir liggur að framangreindir eignarhlutar voru seldir nauðungarsölu á uppboði 18. apríl 2007 og stefndi, sem var uppboðsbeiðandi, keypti eignarhlutana.

Eins og áður greinir höfðaði stefnandi tvö mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem hann krafðist þess að málskostnaður sem stefnda var úthlutaður yrði lækkaður. Var fyrra málinu vísað frá dómi vegna vanreifunar en því síðara á þeirri forsendu að tímafrestur samkvæmt 80. gr. laga nr. 90/1991 til þess að leita úrlausnar héraðsdómara um ákvörðun sýslumanns varðandi mótmæli við frumvarp til úthlutunar samkvæmt XIII. kafla laganna væri útrunninn. Hæstiréttur Íslands staðfesti báða þessa úrskurði.

Í 3. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 segir að ákvæði 1. og 2. mgr., um frest til málshöfðunar um gildi nauðungarsölu, breyti því ekki að annars megi hafa uppi kröfu um skaðabætur eða aðra peningagreiðslu sem byggist á því að ekki hafi verið skilyrði fyrir nauðungarsölu eða ranglega að henni staði.

Af málatilbúnaði stefnanda verður ekki ráðið að hann byggi málatilbúnað sinn á þessu ákvæði, enda ljóst að ógildingar verður ekki leitað á nauðungarsölu eða einstökum atriðum hennar með öðrum hætti en í máli eftir XIV. kafla laga nr. 90/1991 og að slík málalok verði ekki fengin með annars konar málssókn.  Stefnandi virðist hins vegar byggja á almennum reglum skaðabótaréttar. Verður að telja að stefnanda sé það heimilt þrátt fyrir fyrri málshöfðanir, sem áður er getið.

Skaðabótareglur taka einungis til tjóns sem verður af tilteknum orsökum. Oftast er skilyrði bótaskyldu að tjónið verði rakið til mistaka eða yfirsjónar, þ.e. sakar. Tjónþoli á ekki rétt á skaðabótum nema hann geti sýnt fram á að tjón hans verði rakið til sakar annars manns.

Heldur stefnandi því fram í stefnu að málskostnaður sá sem stefnda var úthlutað hafi í raun verið skaðabætur til handa stefnda vegna kostnaðar hans af innheimtuaðgerðum. Á þetta er ekki fallist.

Byggist dómkrafa stefnanda á því að málskostnaður sem stefnda var úthlutaður í uppboðsmálum vegna Rafstöðvarvegar 1a hafi verið ósanngjarn og of hár. Lýtur málatilbúnaður hans einvörðungu að því að fjalla um hvað hefði verið eðlilegur málkostnaður í þessum tilvikum. Er umfjöllun hans í engu samræmi við dómkröfuna, kröfu um skaðabætur, sem er algerlega órökstudd. Stefnandi gerir enga grein fyrir grundvelli málsins eða hverjar þær málsástæður eru sem hann byggir skaðabótakröfu sína á. Enga útlistun er að finna á því með hvaða hætti stefndi hafi átt þátt í því að baka stefnanda tjón sem bótaskylt sé samkvæmt almennum skaðabótareglum.

                Er vanreifun stefnanda á málsgrundvelli, dómkröfu og málsástæðum slík að ógerlegt er að fella efnisdóm á málið í þeim búningi sem það er í.  Málinu er því vísað frá dómi.

                Stefnandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað. Ekki þykja efni til að dæma Kristinn Brynjólfsson, framkvæmdastjóra stefnanda til greiðslu málskostnaðar.

                Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Máli þessu er vísað frá dómi.

                Stefnandi, Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, greiði stefnda, VBS Fjárfestingarbanka hf., 150.000 krónur í málskostnað.