Hæstiréttur íslands
Mál nr. 55/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
- Varnarþing
|
|
Mánudaginn 19. febrúar 2001. |
|
Nr. 55/2001. |
K (Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn M (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur. Varnarþing.
K kærði þann úrskurð héraðsdóms að vísa frá dómi kröfum hennar varðandi forsjá eins af börnum hennar og M. Höfðu K og M gert með sér samkomulag um sameiginlega forsjá þriggja barna sinna. Höfðaði K mál til að fá það fellt úr gildi og til að fá forsjá barnanna dæmda sér. Samkvæmt samkomulaginu skyldi eitt barnanna eiga lögheimili hjá M í Noregi. Hafði það búið hjá M í Noregi rúmt ár en komið nokkrum sinnum til Íslands til dvalar hjá K í fríum. Talið var að í ljósi atvika fæli 56. gr. barnalaga ekki í sér heimild til þess að dómsmál vegna ágreinings aðila um forsjá barnsins væri rekið hér á landi. Var úrskurður héraðsdóms því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. febrúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2001 í máli þessu, sem sóknaraðili höfðaði á hendur varnaraðila meðal annars til að fá fellt úr gildi samkomulag um sameiginlega forsjá þriggja barna þeirra og til að fá hana dæmda sér, en með úrskurðinum var vísað frá dómi kröfum sóknaraðila varðandi forsjá eins af börnunum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar að því er varðar það barna aðilanna, sem úrskurðurinn laut að. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðili dæmd til að greiða sér kærumálskostnað.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, K, greiði varnaraðila, M, 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2001.
Mál þetta er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af K gegn M með stefnu áritaðri um móttöku 18. ágúst sl.
Dómkröfur stefnanda eru þær að fellt verði úr gildi samkomulag hennar og stefnda um að málsaðilar fari sameiginlega með forsjá barnanna A, B og C og að henni verði dæmd forsjá þeirra til 18 ára aldurs.
Jafnframt gerir stefnandi þá kröfu að henni verði úrskurðuð til bráðabirgða forsjá barnanna meðan forsjármálið er til meðferðar. Þá gerir stefnandi þá kröfu að úrskurðað verði að eigi megi að svo stöddu fara úr landi með börnin þar til endanlegur dómur gengur í málinu.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að viðbættum virðisaukaskatti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Við þingfestingu máls þessa fyrir dómi 5. september sl. krafðist stefndi þess, með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, að kröfum stefnanda að því er varðar drenginn A yrði vísað frá dómi þar sem dómstóllinn hefði ekki lögsögu í málinu samkvæmt 56. gr. barnalaga nr. 20/1992. Málið var tekið til úrskurðar um þá kröfu. Málið var endurupptekið í þinghaldi 13. september sl. varðandi framkomna frávísunarkröfu og ákveðið að fresta umfjöllun um hana uns fyrir lægi niðurstaða dóms um þá kröfu stefnda að honum yrði heimilað að fá nafngreindan son sinn tekinn úr umráðum stefnanda og fenginn sér með beinni aðfarargerð. Fallist var á þá kröfu stefnda með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 12. desember sl. í málinu nr. 403/2000.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 22. desember sl. að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda.
Af hálfu stefnda, sóknaraðila í þessum þætti málsins, var frávísunarkrafan rökstudd með vísan til fyrrgreindar bókunar af hans hálfu við þingfestingu málsins, en krafan var einnig byggð á lögum nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl.
Af hálfu stefnanda, varnaraðila í þessum þætti málsins, var gerð sú krafa að frávísunarkröfu sóknaraðila yrði hafnað og málskostnaður látinn bíða efnisdóms í málinu. Var aðallega á því byggt að málið ætti undir lögsögu íslenskra dómstóla á grundvelli d-liðar 1. mgr. 56. gr barnalaga nr. 20/1992, þar sem enginn fyrirvari hefði verið gerður varðandi málshöfðun þessa við áritun á stefnu málsins, sbr. 93. gr. laga nr. 91/1991.
Samkvæmt skilnaðarsamningi aðila dags. 25. júní 1999 fara þau sameiginlega með forsjá barna sinna. Samkvæmt því samkomulagi og staðfestingu sýslumannsins í Reykjavík 13. júlí 1999 skal A eiga lögheimili hjá föður í Noregi, en þau B og C skulu eiga lögheimili hjá móður í Reykjavík. Fram kemur í gögnum máls að drengurinn A hafi búið hjá föður í Noregi frá því í janúar 1999, en komið nokkrum sinnum til Íslands síðan til dvalar hjá móður í fríum sínum. Í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar kemur fram að sóknaraðili eigi rétt til að annast drenginn eftir norskri löggjöf og hafi á þeim grundvelli getað krafist afhendingar hans samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/1995 og 3. gr. Haagsamningsins frá 25. október 1980.
Í 56. gr. barnalaga nr. 20/1992 eru ákvæði um lögsögu hér á landi í dómsmálum vegna ágreinings um forsjá barna. Ekki er fallist á það sjónarmið varnaraðila að málið eigi undir lögsögu íslenskra dómstóla samkvæmt d-lið 56. gr barnalaga sökum þess að enginn fyrirvari hafði verið gerður þar um við áritun um móttöku á stefnu málsins. Nægjanlegt var að andmæli sóknaraðila kæmu fram við þingfestingu málsins, eins og gert var. Þar sem ákvæði 56. gr. barnalaga fela ekki í sér að öðru leyti heimild til þess að dómsmál vegna ágreinings aðila um forsjá drengsins A sé rekið hér á landi, ber með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 að vísa frá dómi kröfum málsins að því er varðar drenginn A.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður bíði efnisdóms í málinu.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfum stefnanda, K, að því er varðar drenginn A, er vísað frá dómi.
Málskostnaður bíður efnisdóms í málinu.