Hæstiréttur íslands
Mál nr. 13/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Föstudaginn 12. janúar 2001. |
|
Nr. 13/2001. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Pétur Örn Sverrisson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
Talið var að ekki hefði verið rökstutt með viðhlítandi hætti hvernig X kynni að torvelda lögreglurannsókn, sætti hann ekki áfram gæsluvarðhaldi, en samkvæmt málatilbúnaði L beindist rannsóknin að einum afmörkuðum þætti málsins og tafir á rannsókn málsins voru óútskýrðar. Skilyrði gæsluvarðhalds samkvæmt a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 þóttu því ekki uppfyllt. Þá þóttu þær ástæður einar að X væri erlendur ríkisborgari og ekki búsettur hér á landi ekki nægja til þess að uppfyllt væru skilyrði b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir gæsluvarðhaldi yfir X. Var gæsluvarðhaldsúrskurður héraðsdóms því felldur úr gildi, en X þess í stað látinn sæta farbanni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. janúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar sl., þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 20. febrúar nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
I.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði var varnaraðili handtekinn á Keflavíkurflugvelli 18. október 2000 við komu til landsins frá Spáni, grunaður um innflutning fíkniefna. Á sama stað og tíma voru handteknar af sama tilefni tvær erlendar konur. Segir sóknaraðili að í ljós hafi komið að konurnar hafi geymt innvortis samtals 342,03 g af kókaíni, en varnaraðili 48,91 g af MDMA dufti og 3 ml af fljótandi LSD. Hann hafi kannast við að hafa staðið að innflutningi þessum og skipulagt hann. Varnaraðili hafi ekki greint frá neinum, sem hafi átt að taka við fíkniefnunum hér á landi, en sóknaraðili hafi ákveðnar grunsemdir í því sambandi, sem hann reisi á símhlustunum. Geri sóknaraðili ráð fyrir að fleiri verði teknir höndum vegna málsins, en auk þeirra þriggja, sem að framan er getið og sætt hafa gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsóknina, hafi ónafngreindur maður nýlega verið handtekinn og honum gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að málinu.
Sóknaraðili reisir kröfu um gæsluvarðhald á a. og b. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Til stuðnings því að fullnægt sé skilyrðum fyrir gæsluvarðhaldi samkvæmt fyrrnefnda lagaákvæðinu vísar sóknaraðili til þess að rannsókn málsins hafi gengið allvel, en henni sé þó ekki lokið. Beinist hún nú einkum að ætluðum viðtakendum fíkniefnanna hér á landi. Nauðsynlegt sé að skerða frelsi varnaraðila meðan svo er ástatt, en endurheimti hann nú frelsi væri honum auðvelt að torvelda rannsóknina með því að hafa áhrif á vitni og samseka eða á annan hátt. Varðandi skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi samkvæmt síðarnefnda lagaákvæðinu vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili sé erlendur ríkisborgari og ekki búsettur hér á landi. Gengi hann laus mætti gera ráð fyrir að hann myndi reyna að koma sér undan frekari rannsókn, málsókn og refsingu. Beri því brýna nauðsyn til að halda varnaraðila í gæsluvarðhaldi til að tryggja að hann geti ekki torveldað rannsókn málsins eða komist úr landi.
II.
Vegna rannsóknar málsins hefur varnaraðili nú verið sviptur frelsi í rúmar tólf vikur. Fram er komið að í gæsluvarðhaldsvistinni hafi hann sætt einangrun í um tíu vikur. Þegar krafa sóknaraðila um gæsluvarðhald var tekin fyrir á dómþingi var því lýst yfir af hans hálfu að „gæsluvarðhaldið verði án takmarkana verði krafan tekin til greina”, eins og segir í endurriti úr þingbók. Sóknaraðili hefur ekki rökstutt sérstaklega í þessu ljósi hvernig áframhaldandi gæsluvarðhald yfir varnaraðila geti þjónað þeim rannsóknarhagsmunum, sem áður er getið. Að auki verður ekki litið fram hjá því að eins og málið er lagt fyrir dómstóla er sakarefnið ekki margbrotið, en lögregluskýrslur virðast aðeins hafa verið teknar af varnaraðila þrívegis, síðast 20. nóvember 2000. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila beinist rannsóknin nú einkum að einum afmörkuðum þætti málsins. Verður ekki annað séð en að svo hefði mátt vera meginhluta þess tíma, sem varnaraðili hefur verið sviptur frelsi, en engin skýring hefur komið fram á því hvers vegna sóknaraðili hafi ekki fylgt eftir þeim grunsemdum, sem hann kveður beinast að öðrum mönnum vegna málsins, miklu fyrr en raun hefur orðið á. Að öllu þessu gættu eru ekki skilyrði til að verða við kröfu sóknaraðila á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Þær ástæður einar, sem sóknaraðili hefur fært fram og áður er getið, nægja ekki til þess að uppfyllt séu skilyrði b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila. Er þá litið til þess að sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að sérstök hætta sé á að návist varnaraðila verði ekki tryggð á annan hátt en með gæsluvarðhaldi.
Samkvæmt framangreindu verður kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald yfir varnaraðila hafnað. Með vísan til 110. gr. laga nr. 19/1991 verður varnaraðila hins vegar gert að sæta farbanni í þágu málsins eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, lögreglustjórans í Reykjavík, um að varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi.
Varnaraðila er bönnuð brottför af landinu allt til þriðjudagsins 20. febrúar 2001 kl. 16.00.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2001.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess með vísan til a- og b-liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að X, ítölskum ríkisborgara, [ . . . ], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 20. febrúar n.k. kl. 16,00.
[ . . . ]
Kærði hefur mótmælt framkominni kröfu.
Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi, sem lýkur á morgun kl. 16.00, vegna rannsóknar á ætlaðri aðild hans og fleiri aðila að innflutningi fíkniefna. Verið er að rannsaka ætluð brot hans gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 sem geta varðað kærða fangelsisrefsingu ef sannast. Rannsókn málsins er ekki lokið og gera má ráð fyrir að kærði, sem er erlendur ríkisborgari, fari af landi brott gangi hann laus.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og a- og b-liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður krafa lögreglustjórans í Reykjavík um gæsluvarðhald yfir kærða tekið til greina eins og hún er fram sett.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 20. febrúar nk. kl. 16:00.