Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-301

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Ásbirni Stefánssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Líkamsárás
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.

Með beiðni 14. október 2019 leitar Ásbjörn Stefánsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 20. september sama ár í málinu nr. 52/2019: Ákæruvaldið gegn Ásbirni Stefánssyni, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.

Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sakfella leyfisbeiðanda fyrir að hafa brotið gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veist tvisvar að nafngreindum manni með nánar tilgreindum afleiðingum. Játaði leyfisbeiðandi þá háttsemi sem honum var gefin að sök. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 30 daga en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var honum gert að greiða fésekt til ríkissjóðs.

Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt. Vísar hann til þess að vísa eigi ákæru lögreglustjórans í Vestmannaeyjum frá héraðsdómi þar sem skilyrðum 2. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940 hafi ekki verið fullnægt. Almannahagsmunir hafi ekki krafist þess að ákæra væri gefin út á hendur honum enda hafi hann bæði verið þolandi og gerandi í sakamáli þar sem náðst hefðu fullar sættir. Þá hafi málið fullnægt öllum skilyrðum þess að vera vísað til sáttamiðlunar, sbr. fyrirmæli ríkissaksóknara nr. 8/2017, eins og leyfisbeiðandi og brotaþoli hefðu óskað eftir. Þá telur leyfisbeiðandi að með vísan til 3. mgr. 218. gr. c laga nr. 19/1940 hafi átt að fella refsingu hans niður eða milda hana og eingöngu gera honum að greiða sekt.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því hafnað.