Hæstiréttur íslands

Mál nr. 209/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


                                     

Þriðjudaginn 8. apríl 2014.

Nr. 209/2014.

 

Soffanías Cecilsson hf.

(Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

 

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu S um dómkvaðningu matsmanna, í máli sem L hf. höfðaði á hendur S til heimtu skuldar samkvæmt tveimur lánssamningum. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að með matsspurningum S væri ekki leitað svara um hverjar venjur hefðu gilt í verðbréfaviðskiptum, sem haft gætu þýðingu við úrlausn málsins, heldur væri óskað eftir að lagt yrði mat á atriði sem dómara bæri að leysa úr í ljósi allra atvika.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að dómkveðja matsmenn til að svara nánar tilteknum spurningum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. 

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með matsspurningum sóknaraðila er ekki leitað svara um hverjar venjur hafi gilt í verðbréfaviðskiptum, sem haft geta þýðingu við úrlausn málsins, heldur er óskað eftir að lagt verði mat á atriði sem dómara ber að leysa úr í ljósi allra atvika. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Soffanías Cecilsson hf., greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2014.

I.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 7. febrúar sl., er höfðað 28. desember 2012 af Landsbankanum hf., Austurstræti 11 í Reykjavík, gegn Soffaníasi Cecilssyni hf., Borgarbraut 1 í Grundarfirði.

Í málinu krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.743.711.737 japönsk jen og 2.379.096.967 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að dómkröfurnar verði lækkaðar verulega og að viðurkennt verði með dómi að dómkrafa stefnanda í japönskum jenum sé ólögmæt. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

Stefndi lagði, í þinghaldi 15. janúar sl., fram beiðni um dómkvaðningu tveggja matsmanna til að svara nánar tilgreindum matsspurningum, sem raktar verða í kafla III. Stefnandi áskildi sér í fyrstu rétt til þess að mótmæla dómkvaðningunni sem hann gerði í næsta þinghaldi 27. janúar sl. Lögmenn fengu færi á að reifa sjónarmið sín um þetta álitaefni 7. febrúar sl. og var það tekið til úrskurðar í kjölfarið.

II.

Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um endurgreiðslu tveggja lánssamninga milli stefnda og Landsbanka Íslands hf. Annar lánssamningurinn, lán nr. 7206, er dagsettur 13. mars 2007, og var upphaflega að fjárhæð 1.500.000.000 króna, í nánar tilgreindum mynthlutföllum. Bar að endurgreiða lánið með einni afborgun í lok lánstímans 25. mars 2010, en þó skyldi greiða vexti á sex mánaða fresti. Lánið var ekki endurgreitt á gjalddaga. Með bréfi, dags. 6. september 2011, var viðurkennt að lán þetta kvæði á um ólögmæta gengistryggingu og voru eftirstöðvarnar endurreiknaðar. Kveður stefnandi að síðari dómkrafa sín taki mið af þeim endurútreikningi þar sem miðað sé við lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabanka Íslands samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/2001.

Hinn lánssamningurinn, lán nr. 9089, er frá 22. ágúst 2007. Samningurinn fól í sér skyldu stefnanda til að veita stefnda „fjölmyntalán til 2,5 ára að jafnvirði kr. 1.500.000.000 ... í japönskum jenum“. Bar að endurgreiða lánið sama dag og fyrrgreint lán nr. 7206, 25. mars 2010, en vexti bar að greiða á sex mánaða fresti. Stefnandi segir að þetta lán hafi verið greitt út með því að leggja samtals 2.687.229.525 japönsk jen inn á gjaldeyrisreikning stefnda í sex hlutum 24. ágúst 2007. Stefnandi vísar einnig til þess að greitt hafi verið af láninu að hluta í japönskum jenum. Kveður stefnandi fyrri dómkröfu sína nema eftirstöðvum lánsins.

Hið stefnda félag reisir sýknukröfu sína í mjög stuttu máli á því að fjármunirnir hafi verið notaðir til að kaupa annars vegar hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. og hins vegar til að fjármagna kaup stefnda á peningabréfum bankans, allt í samræmi við ákvæði í lánssamningunum. Telur stefndi sig vera óbundinn af þessum samningum þar sem þeir séu ekki gildir og vísar um það m.a. til umboðsskorts, en stefndi sé útgerðarfélag. Þá hafi bankinn virt að vettugi við samningsgerðina upplýsingaskyldu sína, skyldur um góða viðskiptahætti, leiðbeiningarskyldu og reglur um fjárfestavernd. Þannig telur stefndi að stjórnendum bankans hafi verið kunnugt eða átt að vera kunnugt um að fjárhagsstaða bankans væri svo slæm að óheimilt hafi verið að ráðleggja stefnda að kaupa hlut í bankanum. Síðar hafi bankanum einnig verið skylt að vara stefnda við svo félaginu væri unnt að selja bréfin. Þá telur stefndi sig eiga gagnkröfu á hendur stefnda sem sé jafnhá eða hærri en stefnukröfurnar. Varakrafa stefnda um lækkun er meðal annars reist á því að eigi síðar en 3. desember 2007 hafi bankinn átt að ráðleggja stefnda að selja hluti sína í bankanum og peningabréfin til að takmarka tjón stefnda. Jafnframt byggir stefndi á því að lán nr. 9089 sé ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum, en ekki erlent lán. Því beri að sýkna stefnda af endurgreiðslu þess í japönskum jenum.

III.

Með matsbeiðni, sem lögð var fram í þinghaldi 15. janúar sl., óskar stefndi eftir dómkvaðningu tveggja sérfróðra og óvilhallra manna til þess að svara sjö matsspurningum sem eru svohljóðandi:

I.a Telja hinir dómkvöddu matsmenn að Landsbanki Íslands hf. hafi starfað samkvæmt bestu framkvæmd og í samræmi við heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum, svo og með hagsmuni matsbeiðanda að leiðarljósi, þegar bankinn gerði lánssamning nr. 7206 hinn 13. mars 2007 við matsbeiðanda um lán að fjárhæð kr. 1.500.000.000 til kaupa á verðbréfum bankans, þ.e. hlutabréfum í bankanum sjálfum.

I.b. Telja hinir dómkvöddu matsmenn að Landsbanki Íslands hf. hafi starfað samkvæmt bestu framkvæmd og í samræmi við heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum, svo og með hagsmuni matsbeiðanda að leiðarljósi, þegar bankinn gerði lánssamning nr. 9089 hinn 22. ágúst 2007 við matsbeiðanda um lán að fjárhæð kr. 1.500.000.000 til kaupa á verðbréfum bankans, þ.e. peningabréfum bankans og hlutabréfum í bankanum sjálfum.

II. a. Telja hinir dómkvöddu matsmenn að það hefði verið í samræmi við bestu framkvæmd og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum, svo og með hagsmuni matsbeiðanda að leiðarljósi, að Landsbanki Íslands hf. hefði ráðlagt matsbeiðanda að selja hlutabréf þau og peningabréf, sem bankinn seldi matsþola í mars og ágúst 2007, þegar markaðsverð verðbréfanna tók að lækka í nóvemberbyrjun 2007 og hélt áfram að lækka allt þar til bankinn féll í október 2008 og hlutbréfin urðu verðlaus.

II. b. Ef hinir dómkvöddu matsmenn svara matsspurningunni í II.a með jákvæðum hætti er þess óskað að matsmennirnir láti í té álit sitt á því hvenær, þ.e. á hvaða tímamarki eða tímamörkum, bankanum hefði verið rétt að ráðleggja matsbeiðanda að selja annars vegar hlutabréfin í bankanum og hins vegar peningabréf bankans.

II. c. Verði svar hinna dómkvöddu matsmanna við spurningunni í lið II.a jákvætt og komist matsmennirnir að niðurstöðu um það tímamark eða tímamörk, sem um er spurt í lið II.b, þá er þess óskað að þeir segi til um og meti hvaða verð matsbeiðandi hefði fengið eða hefði líklega fengið fyrir umrædd hlutabréf og umrædd peningabréf á þeim tímamörkum, sem spurt er um í lið II.b.

III. Telja hinir dómkvöddu matsmenn að það hefði verið í samræmi við bestu framkvæmd og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum, svo og með hagsmuni matsbeiðanda að leiðarljósi, að Landsbanki Íslands hf. hefði varað matsþola við þeirri áhættu, sem því fylgdi eða kynni að fylgja, að taka lánin nr. 7206 og nr. 9089 með þeim skilmálum, að endurgreiðsla þeirra tengdist þróun gengis erlendra mynta, einkum með hliðsjón af því að matsþola bar að ráðstafa lánsfénu til kaupa á verðbréfum af bankanum í íslenskum krónum.

IV. Telja hinir dómkvöddu matsmenn að það hefði verið í samræmi við bestu framkvæmd og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum, svo og með hagsmuni matsbeiðanda að leiðarljósi, að Landsbanki Íslands hf. hefði varað matsþola við þeirri áhættu sem því fylgdi eða kynni að fylgja að ráðstafa öllu andvirði lánanna nr. 7206 og 9089 til kaupa á verðbréfum Landsbanka Íslands hf., þ.e. hlutabréfum í bankanaum og peningabréfum hans, í stað þess að dreifa áhættunni með því að fjárfesta í fleiri fjárfestingarkostum.

Aðili að máli, sem rekið er á grundvelli laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, á að meginstefnu til rétt á því að afla og leggja fram þau sönnunargögn sem hann telur þörf á. Það er því almennt hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að hamla því nema með stoð í lögum. Af þeim sökum ber dómara jafnan að verða við beiðni málsaðila um að dómkveðja matsmann eða matsmenn samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 nema skilyrði 2. málsl. 1. mgr. 61. gr. laganna séu ekki fyrir hendi, leitað sé mats um atriði sem dómari telur bersýnilegt að ekki skipti máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, eða að matsbeiðnin lúti að atriðum sem dómara ber að leggja sjálfur mat á en ekki sérfróðir matsmenn, sbr. 2. mgr. 60. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 61. gr. laganna.

Mótmæli stefnanda við dómkvaðningu matsmanna til að meta framangreind atriði byggist í fyrsta lagi á því að bersýnilega sé þarflaust að afla matsgerðar um þau auk þess sem matsspurningar séu ekki nógu afmarkaðar. Ómögulegt sé að veita einhlítt svar við þeim, en þar sé meðal annars farið fram á að matsmenn leggi huglæga afstöðu á mismunandi fjárfestingarkosti. Þá byggir stefnandi á því að þar séu gefnar forsendur sem séu rangar. Stefnandi vísar jafnframt til sjónarmiða sem koma fram í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli þessu frá 19. nóvember 2013, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar Íslands 8. janúar 2014 í máli nr. 767/2013. Telur stefnandi að þær spurningar sem stefnandi vilji nú leggja fyrir matsmenn að svara séu sömu annmörkum háðar og þær sem þar var fjallað um.

Dómurinn tekur fram að spurningar Ia og Ib, IIa, III og IV eiga það sammerkt að skírskota til matskenndra viðmiðana um siðlega hegðun í verðbréfaviðskiptum sem í stórum dráttum eru lögfestar. Þannig verður ekki betur séð en að matsspurningar Ia og Ib feli í sér beiðni um að dómkvaddir matsmenn svari því hvort stefnandi hafi, með gerð tveggja lánssamninga 13. mars 2007 og 22. ágúst 2007, brotið gegn fyrirmælum 4. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, þar sem þess er krafist að fjármálafyrirtæki starfi í samræmi við eðlilega- og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum, með trúverðugleika fjármálamarkaðarins og hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi. Einnig virðist þar leitað svara við því hvort gerð samninganna samrýmist 9. gr. sömu laga, þar sem lýst er „bestu framkvæmd“ viðskiptafyrirmæla. Þá er með matsspurningu IIa óskað svara á grundvelli sömu viðmiða samkvæmt 5. og 18. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Spurningar III og IV vísa einnig til framangreindra viðmiða sem matsmönnum er ætlað að beita við mat á aðstæðum út frá tilteknum forsendum. Þær forsendur lúta annars vegnar að því að stefnda hafi ekki verið leiðbeint um áhættu, sem tengist þróun erlendra mynta, og hins vegar að honum hafi ekki verið leiðbeint um áhættu við að ráðstafa öllu andvirði lánanna til kaupa á verðbréfum Landsbanka Íslands hf.

Með matsspurningunum er samkvæmt framansögðu leitast við að fá fram álit matsmanna á þeim samningum, sem um er deilt, og samningssambandi aðila, í ljósi framangreindra viðmiðana, en ekki að leiða í ljós tiltekin atvik eða aðstæður sem þýðingu geta haft við úrlausn á ágreiningi aðila. Að mati dómsins er það í verkahring dómara samkvæmt 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 að leggja mat á samningsgerðina og lögskipti aðila í ljósi allra atvika út frá framangreindum viðmiðunum, en ekki sérfróðra matsmanna. Af þeim sökum ber að hafna dómkvaðningu matsmanna til að svara umræddum spurningum með skírskotun til 1. mgr. 61. gr. sömu laga. Spurningar IIb og IIc leiða af svari við spurningu IIa og ber því að hafna þeim af sömu ástæðu.

Ákvörðun málskostnaðar bíður lokaniðurstöðu málsins.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Beiðni stefnda, Soffaníasar Cecilssonar hf., um dómkvaðningu matsmanna, sem lögð var fram í þinghaldi 15. janúar sl., er hafnað.

Ákvörðun málskostnaðar bíður lokaniðurstöðu málsins.