Hæstiréttur íslands

Mál nr. 14/2017

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
Þórði Má Sigurjónssyni (Kristján Stefánsson hrl.)

Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Ítrekun

Reifun

Þ var sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið yfir löglegum hámarkshraða og undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Með vísan til sakarferils Þ var refsing hans ákveðin 30 daga fangelsi auk þess sem hann var sviptur ökurétti ævilangt.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og ökuréttarsvipting tímabundin.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Þórður Már Sigurjónsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 257.509 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 248.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. nóvember 2016

Mál þetta sem dómtekið var 21. nóvember sl., höfðaði lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra 25. júlí 2016 á hendur Þórði Má Sigurjónssyni, kt. [...], Viðjulundi 1, Akureyri,

„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa fimmtudagskvöldið 8. júní 2016, ekið bifreiðinni PU-346, undir áhrifum áfengis (alkóhólmagn í blóði reyndist 1,19‰), undir áhrifum fíkniefna (amfetamín mældist í blíði 60 ng/ml.) suður Drottningarbraut á Akureyri, með allt að 113 kílómetra hraða miðað við klukkustund eftir vegarkafla við Aðalstræti, þar sem hámarkshraði er 50 kílómetrar.

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. A, 1. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar, samkvæmt 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga.“

Ákærði játar sök. Með játningu hans sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm, enda í samræmi við rannsóknargögn, telst hann sannur að sök um þann verknað sem í ákæru er lýst og þar er rétt heimfærður til refsiákvæða. Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, með heimild í 164. gr. laga nr. 88/2008.

Sakaferill ákærða hefur hér þýðingu að því leyti að með sátt 8. september 2009 sætti hann 140.000 króna sekt og sviptingu ökuréttar í 12 mánuði fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 63. gr. umferðarlaga og með annarri sátt 13. febrúar 2013 sætti hann aftur 140.000 króna sekt og sviptingu ökuréttar í 12 mánuði fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga.

Ákærði hefur nú ítrekað brot gegn 45. gr. eða 45. gr. a umferðarlaga öðru sinni. Breytir engu þótt viðurlög sem hann sætti með sáttinni 13. febrúar 2013 hafi verið vægari en venja er og andstæð ákvæði 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga hvað varðar sviptingu ökuréttar.

Með vísan til þess hluta sakaferils ákærða sem hér hefur verið rakinn verður refsing hans ákveðin fangelsi í 30 daga og hann sviptur ökurétti ævilangt, sbr. 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga.

Ákærði verður dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar sem ákveðst eins og greinir í dómsorði. Er virðisaukaskattur innifalinn og tekið tillit til þess að hluti kostnaðar á rannsóknarstigi stafar af rannsókn á morfíni í blóðsýni, en það efni greindist ekki.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Þórður Már Sigurjónsson, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærða greiði 473.474 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl. 306.900 krónur og ferðakostnað, 48.065 krónur.