Hæstiréttur íslands

Mál nr. 342/2002


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsagnarfrestur
  • Laun
  • Aflahlutur
  • Tómlæti


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. desember 2002.

Nr. 342/2002.

Siglfirðingur hf.

(Kristján Þorbergsson hrl.)

gegn

Braga Má Valgeirssyni

(Jónas Haraldsson hrl.)

og gagnsök

 

Sjómenn. Ráðningarsamningur. Uppsagnarfrestur. Laun. Aflahlutur. Tómlæti.

Deila málsaðila stóð um þrjú atriði, sem öll vörðuðu uppgjör á launum til B vegna starfa hans sem yfirvélstjóri á frystitogara í eigu S, á tímabilinu frá 23. september 1999 þar til ráðningu hans lauk 6. mars 2000 vegna uppsagnar af hendi S. Í fyrsta lagi var um það deilt við hvaða daga ætti að miða útreikning greiðslu handa B, sem nema átti 25.000 krónum á mánuði samkvæmt tilteknum úrskurði. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest um að miða bæri við þann tíma sem veiðiferð stóð við útreikning greiðslunnar, en ekki hverja 30 lögskráningardaga svo sem B hélt fram. Samkvæmt þeim útreikningi hafði S greitt kröfu B um umrædda greiðslu og var S sýknaður af þessari kröfu. Í öðru lagi var deilt um hvort B ætti rétt á auknum aflahlut samkvæmt sama úrskurði fyrir yfirumsjón með viðhaldi og eftirliti á fiskvinnsluvélum ásamt vélbúnaði tengdum vinnslu og geymslu afla. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest, um að ósannað væri að vélstjórar á umræddu skipi hafi aukið vinnuframlag sitt í því skyni að fara með þessa yfirumsjón, en Félagsdómur hafði í sambærilegu máli talið það skilyrði fyrir auknum aflahlut. Í þriðja lagi laut ágreiningur aðila að uppgjöri launa í uppsagnarfresti. Talið var að B hafi átt rétt á greiðslu launa á 15 daga tímabili í uppsagnarfrestinum eftir að hann var farinn af skipi S. Varðandi fjárhæð launa í uppsagnarfresti taldi dómurinn að ekki yrði fallist á með S að B hafi aðeins átt rétt á kauptryggingu á umræddu 15 daga tímabili, heldur ætti B rétt til greiðslu svonefndra meðallauna. Var fallist á með héraðsdómi að krafan væri ekki niður fallin fyrir tómlæti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. júlí 2002. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hún verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 27. september 2002. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 852.811 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 6. mars 2000 til 1. júlí 2001, en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og ítarlega er rakið í héraðsdómi stendur deila málsaðila um þrjú atriði, en öll varða þau uppgjör á launum til gagnáfrýjanda vegna starfa hans sem yfirvélstjóri á frystitogara í eigu aðaláfrýjanda, Svalbarða SI 302, á tímabilinu frá 23. september 1999 þar til ráðningu hans lauk 6. mars 2000 vegna uppsagnar af hendi aðaláfrýjanda. Í fyrsta lagi er um það deilt við hvaða daga eigi að miða útreikning greiðslu handa gagnáfrýjanda, sem nema átti 25.000 krónum á mánuði samkvæmt lið I.b. í úrskurði, sem gekk 10. maí 1999 í samræmi við ákvæði 10. gr. fylgiskjals III með lögum nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna. Í öðru lagi hvort gagnáfrýjandi eigi rétt á auknum aflahlut samkvæmt II. lið sama úrskurðar fyrir yfirumsjón með viðhaldi og eftirliti á fiskvinnsluvélum ásamt vélbúnaði tengdum vinnslu og geymslu afla. Loks er í þriðja lagi ágreiningur um uppgjör launa í uppsagnarfresti.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um tvö fyrstgreindu atriðin, sem áður er getið.

Ágreiningur aðilanna um laun í uppsagnarfresti varðar eingöngu tímabilið frá því að gagnáfrýjandi kom úr síðustu veiðiferð sinni á skipi aðaláfrýjanda 7. febrúar 2000 til loka uppsagnarfrestsins 6. mars sama árs. Í því sambandi deila þeir annars vegar um fyrir hversu marga daga gagnáfrýjandi eigi að fá laun og hins vegar við hvað miða eigi fjárhæð þeirra. Varðandi fyrrnefnda atriðið er þess að gæta að fyrir Hæstarétti hefur gagnáfrýjandi fallist á að hann eigi ekki rétt til launa fimm fyrstu dagana eftir að skipið kom í land vegna ákvæða í kjarasamningi vélstjóra um hafnarfrí án launa. Fallist verður á með héraðsdómi að gagnáfrýjandi hafi ekki átt rétt til launa eftir að hann lét hjá líða að mæta að boði aðaláfrýjanda til vinnu 28. febrúar 2000. Samkvæmt því átti gagnáfrýjandi rétt á greiðslu launa á 15 daga tímabili í uppsagnarfrestinum eftir að hann var farinn af skipi aðaláfrýjanda.

Varðandi fjárhæð launa í uppsagnarfresti er til þess að líta að ákvæði greina 1.30 og 1.33 í kjarasamningi, sem efnislega eru rakin í héraðsdómi og aðaláfrýjandi vísar til, eiga við þegar skip er ekki við veiðar vegna viðgerða eða aðrar tafir verða á útgerð þess. Í málinu liggur fyrir að aðaláfrýjandi hugðist ekki halda skipinu áfram til veiða hér við land að loknum lagfæringum og breytingum, sem hafist var handa við eftir lok veiðiferðar 7. febrúar 2000, og verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að hann hafi þá sagt allri áhöfninni upp. Mun aðaláfrýjandi hafa haft í hyggju að búa skipið undir rækjuveiðar á Flæmingjagrunni eða selja það úr landi, svo sem síðar mun hafa orðið raunin. Samkvæmt þessu var ekki gert hlé frá veiðum um tiltekinn tíma vegna viðgerða á skipinu eða af öðrum þeim sökum, sem varða fyrrgreind ákvæði í kjarasamningi, heldur var veiðum hætt hér við land. Verður því ekki fallist á með aðaláfrýjanda að gagnáfrýjandi hafi aðeins átt rétt á kauptryggingu samkvæmt þessum ákvæðum á því 15 daga tímabili, sem áður er getið. Af þessum sökum og í ljósi dómaframkvæmdar, sbr. einkum dóm Hæstaréttar 29. mars 2001 í máli nr. 326/2000, verður gagnáfrýjandi að teljast eiga rétt til greiðslu svonefndra meðallauna á þessu tímabili, en fallist er á með héraðsdómi að krafan sé ekki niður fallin fyrir tómlæti. Fyrir Hæstarétti er ekki ágreiningur um þann útreikning héraðsdómara að fjárhæð þessara launa á dag hafi átt að nema 23.341 krónu þegar tillit hefur verið tekið til kauptryggingar, sem gagnáfrýjandi fékk greidda í uppsagnarfresti. Verður aðaláfrýjandi samkvæmt þessu dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda samtals 350.115 krónur með dráttarvöxtum, eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

        Aðaláfrýjandi, Siglfirðingur hf., greiði gagnáfrýjanda, Braga Má Valgeirssyni, 350.115 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. apríl 2002 til greiðsludags.

        Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

          Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 30. apríl 2002.

I.

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 7. mars. sl., er höfðað af Braga Má Valgeirssyni, Berjarima 34, Reykjavík á hendur Siglfirðingi hf., Aðalgötu 34, Siglufirði.

Dómkröfur stefnanda.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 1.022.126 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af þeirri fjárhæð frá 6. mars 2000 til greiðsludags.  Þá gerir hann kröfu um málskostnað að skaðlausu úr hendi stefnda og að við ákvörðun hans verði tekið tillit til virðisaukaskatts.

Dómkröfur stefnda.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

II.

Málavextir.

Þann 23. september 1999 hóf stefnandi störf sem yfirvélstjóri á Svalbarða SI-302 sem þá var í eigu stefnda.  Ráðningarkjör stefnanda voru með þeim hætti að hann fór tvær veiðiferðir í röð en var þá þriðju í fríi en ekki var gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur.  Stefnandi fór samtals þrjár veiðiferðir, fyrsta veiðiferðin stóð frá 23. september 1999 til 18. október 1999. Önnur frá 22. október til 17. nóvember 1999 og sú þriðja frá 4. janúar 2000 til 7. febrúar 2000.  Stefnanda var sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara og átti ráðningu hans að ljúka 6. mars 2000.  Eftir síðustu veiðiferðina hætti stefndi að gera skipið út við Ísland á yfirstandandi fiskveiðiári og útbjó það til veiða við Kanada en hugðist selja skipið ef samningar um það tækjust.  Fyrir liggur að stefndi óskaði ekki eftir starfskröftum stefnanda frá því að skipinu var lagt við bryggju og til 28. febrúar en stefnandi var boðaður til vinnu þann dag með símskeyti sendu 25. febrúar.  Stefndi mætti hins vegar ekki til vinnu samkvæmt þeirri boðun.

Svalbarði SI-302 er svokallað vinnsluskip og er afli unninn og frystur um borð.  Þegar skipið var á bolfiskveiðum voru notaðar fiskvinnsluvélar af Baadergerð og sjá tveir hásetar um að þær vinni eðlilega, oftast kallaðir ,,Baadermenn", og fá þeir greitt sérstaklega fyrir þessa vinnu.  Næstu yfirmenn þessara manna eru vaktformenn hverrar vaktar þ.e. 2. stýrimaður eða bátsmaður en vélstjórar hafa ekkert yfir þeim að segja.  Fyrir dómi lýsti stefnandi því að í starfi vélstjóra fælist umsjón með öllu á vinnsludekki, þeir sjái um lausfrystingu, rafmagn, geymslu afla, lensur og allt sem þeim viðkemur.  Frystikerfi skipsins sé með ammoníaki og vélstjórar hafi umsjón með því en í slíku felist hætta en vélstjórum sé kennt að umgangast ammoníak.  Stefnandi bar að ,,Baadermenn" sjái um brýningu hnífa og þess háttar í Baadervélum en þær vélar flaki fisk og taki úr honum innyflin, annað annist ,,Baadermenn" ekki.  Vélstjórar sjái um rafmagn og annað er viðkemur vélunum en ef stærri viðgerða sé þörf séu þær unnar í landi.  Stefnandi bar að honum hafi ekki verið falið af skipstjóra eða útgerðarmanni að vinna á millidekki en það hafi verið talinn sjálfsagður hlutur að vélstjórar ynnu þar og raunar illmögulegt að starfrækja vinnsludekkið án aðkomu vélstjóra.

Á árunum 1997 til 1998 áttu vélstjórar í kjaradeilu við útvegsmenn.  Deilunni lauk, eftir verkfallsaðgerðir vélstjóra, með því að sett voru lög nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna.  Í fylgiskjali með lögunum er ákvæði um úrskurðarnefnd með það hlutverk að skera úr um hvort greiða skyldi vélstjórum á fiskiskipum sérstaklega vegna breytts verksviðs þeirra og þátttöku í tæknivæðingu fiskiskipa.  Ef niðurstaða nefndarinnar yrði sú að verksvið vélstjóra hefði breyst og álag í störfum þeirra aukist átti nefndin að úrskurða hvort greiða bæri vélstjórum sérstaklega vegna þessa og frá hvaða tíma.  Úrskurður nefndarinnar skyldi þá vera hluti af kjarasamningi aðila frá og með úrskurðardegi.  Nefndin kvað upp úrskurð þann 10. maí 1999.  Í honum kemur m.a. fram í lið I, að yfirvélstjóri á fiskiskipi með aðalvél yfir 1.500 kW en minni en 3000 kW skyldi fá 25.000 krónur til viðbótar við aflahlut en 1. vélstjóri 20.000 krónur auk aflahlutar.  Í lið II í úrskurðinum var svo mælt fyrir að á fiskiskipum með aðalvél yfir 1.500 kW skyldi yfirvélstjóri sem hefði yfirumsjón með viðhaldi og eftirliti á fiskvinnsluvélum ásamt vélbúnaði tengdum vinnslu og geymslu aflans fá 0,10 hlut til viðbótar samningsbundnum aukahlut og 1. vélstjóri 0.08 viðbótarhlut.  Greiðslur samkvæmt úrskurðinum skyldi greiða frá 10. maí 1999.

Stefnandi taldi stefnda ekki hafa greitt sér í samræmi við úrskurðinn.  Af hans hálfu hófust innheimtuaðgerðir með því að lögmaður ritaði stefnda bréf fyrir hans hönd dagsett 22. febrúar 2000 og krafði um 1,6 hlut auk 25.000 króna greiðslu á mánuði.  Þá var og gerður fyrirvari um launarétt stefnanda í uppsagnarfresti, meðallaun með tilliti til aflareynslu skipsins.  Í framhaldi af þessu áttu sér stað nokkrar bréfaskriftir milli stefnda og lögmanns stefnanda.  Stefndi áskildi sér rétt til að kanna hvort honum bæri að greiða stefnanda 25.000 króna fasta aukagreiðslu svo og hvort greiða bæri 0,10 hlut til viðbótar eins og krafist var.  Viðræður milli lögmanna aðila í framhaldi af þessu báru ekki árangur.  Vegna samkynja ágreinings höfðaði Vélstjórafélag Íslands 3 mál fyrir Félagsdómi.  Samkomulag varð með aðilum að láta mál stefnanda og annars vélstjóra bíða meðan beðið var niðurstöðu í máli sem Vélastjórafélagið höfðaði fyrir hönd Júlíusar Hólmgeirssonar gegn Samtökum atvinnulífsins fyrir hönd Landsambands íslenskra útvegsmanna fyrir hönd Útvegsmannafélags Norðurlands fyrir hönd stefnda.  Félagsdómur viðurkenndi rétt Júlíusar til aukagreiðslna en hafnaði kröfu hans til aukahlutar.  Var mál stefnanda fyrir Félagsdómi í framhaldi af því fellt niður.  Með bréfi dagsettu 25. apríl 2001 gerði stefnandi kröfur á hendur stefnda í fjórum liðum.  Í fyrsta lagi krafðist hann aukagreiðslu í samræmi við niðurstöðu Félagsdóms.  Í öðru lagi krafðist hann leiðréttingar á launum sínum þar sem færri menn gegndu vélstjórastörfum um borð í Svalbarða en gert var ráð fyrir í lögum nr. 113/1984.  Í þriðja lagi var gerð krafa um 1,6 hásetahlut í stað 1,5 hásetahlutar.  Loks var gerð krafa um meðallaun fyrir tímabilið 8. febrúar til 6. mars 2000. 

Stefndi kveður að samkomulag hafi verið með aðilum að gera upp launakröfur stefnanda í samræmi við niðurstöðu Félagsdóms en því hafi stefnandi hafnað.  Þess í stað hafi stefnandi sett fram nýjar kröfur sem ekki hafi verið sinnt enda hafi stefndi þá verið hættur að fá botn í breytilegar kröfur stefnanda.  Stefnandi hafi síðan höfðað mál þetta en þá hafi kröfur hans einungis numið fimmta hluta þess sem krafist var með bréfi hans frá 25. apríl 2001.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi krefst 25.000 króna aukagreiðslu á mánuði meðan hann var yfirvélstjóri á Svalbarða SI-302 á grundvelli liðar I.b. í úrskurði úrskurðarnefndar skv. lögum nr. 10/1998 og heldur stefnandi því fram að niðurstaða Félagsdóms í máli Júlíusar Hólmgeirssonar gegn Samtökum atvinnulífsins sé í samræmi við þetta.  Byggt er á því að til þess að fá þessa aukagreiðslu þurfi að uppfylla þrjú skilyrði.  Í fyrsta lagi vélfræðingsmenntun til að sinna vinnu í vélarúmi.  Í öðru lagi þurfi aðalvél viðkomandi skips að vera á bilinu 1.501 til 2.999 kW og í þriðja lagi þurfi viðkomandi vélstjóri að vera yfirvélstóri.  Hér hátti svo til að vélfræðimenntun er skilyrði fyrir því að gegna starfi yfirvélstjóra um borð í Svalbarða SI-302, aðalvél skipsins sé 1.618 kW og stefnandi hafi verið yfirvélstjóri á tímabilinu 23. september 1999 til 6. mars 2000.  Krafa stefnanda vegna þessa nemur að viðbættu 10,17% orlofi 97.316 krónum.  Stefnandi kveðst einungis gera kröfu í samræmi við fjölda daga sem hann var lögskráður á skipið þó halda megi því fram að miða skuli við ráðningartíma.  Stefnandi hafi samkvæmt lögskráningarvottorði verið lögskráður yfirvélstjóri á skipinu 56 daga árið 1999 og 50 daga á árinu 2000 samtals 106 daga.  Kröfu sína reiknar stefnandi þannig út að hann deilir í 25.000 með 30 og fær þannig út hvaða fjárhæð hann átti að fá fyrir hvern dag og bætir síðan 10,17% orlofi við þá kröfu. 

Í öðru lagi byggir stefnandi á því að stefnda hafi borið að greiða honum 1,6 hásetahlut í stað 1,5 hlutar eins og hann fékk greiddan.  Byggir hann þessa kröfu sína á niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar.  En í úrskurði hennar segi að á vinnsluskipum þar sem yfirvélstjóri hafi yfirumsjón með viðhaldi og eftirliti með fiskvinnsluvélum ásamt vélbúnaði tengdum vinnslu og geymslu aflans skulu vélstjórar fá hlut til viðbótar samningsbundnum aukahlut yfirvélstjóri 0,10 hlut, 1. vélstjóri 0,08 hlut og 2. vélstjóri 0,05 hlut.

Svalbarði SI-302 sé frystitogari, vinnsluskip með 1.618 kW aðalvél.  Stefnandi hafi verið yfirvélstjóri á skipinu samkvæmt úrskurði nefndarinnar borið 0,10 hlutur til viðbótar 1,50 hlut sem hann átti rétt á samkvæmt 1. mgr. greinar 1.01 í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands og Landsambands íslenskra útvegsmanna.  Stefnandi heldur því fram að yfirvélstjóri hafi alltaf yfirumsjón með viðhaldi og eftirlit með fiskvinnsluvélum ásamt vélbúnaði tengdum vinnslu og geymslu aflans þegar vinnsluskip eiga í hlut.  Þessi skylda hvíli á yfirvélstjóra samkvæmt 53. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Sú grein mæli svo fyrir að yfirvélstjóri beri ábyrgð á öllum vélbúnaði skips og þar með vélbúnaði á vinnsludekki.  Um þessa skyldu vélstjóra sé ekki hægt að semja, slíkt sé ekki á valdi einstakra útgerðarmanna og vélstjóra.  Í þessu sambandi bendir stefnandi á 4. gr. sjómannalaga en hún kveði á um að samtök sjómanna og útgerðarmanna geti samið um betri réttindi handa sjómönnum en lögin mæli fyrir um.  Í 1. mgr. greinar 1.51. í kjarasamningi aðila komi fram að sérsamningar milli einstakra útgerðarmanna og vélstjóra/vélavarða sem hljóði upp á verri kjör en fram komi í samningi aðilanna séu ógildir.  Einnig megi benda á ákvæði 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993 en þar komi fram að laun og önnur kjör sem aðilar vinnumarkaðarins semja um skuli vera lágmarkskjör.  Samninga um lakari kjör skuli vera ógildir.  Að þessu virtu telur stefnandi að réttur hans til 1,60 hlutar sem yfirvélstjóra sé ljós. 

Að mati stefnanda verður að skoða hvert tilfelli fyrir sig þegar metið er hvort umræddur aukahlutur eigi að koma til greiðslu en í nefndum dómi Félagsdóms segi að aukahlut skuli einungis greiða ef yfirvélstjóri hafi tekið á sig aukið vinnuframlag vegna yfirumsjónar með viðhaldi og eftirliti á fiskvinnsluvélum og vélbúnaði tengdum vinnslu og geymslu aflans.  Stefndi hafi í málinu sem rekið var fyrir Félagsdómi mótmælt því að þessi störf hafi verið unnin af yfirvélstjóra.  Eftir að niðurstaða Félagsdóms í nefndu máli lá fyrir hafi stefnandi ritað skýrslu um störf sín í skipinu og slíkt hið sama hafi Friðrik Már Jónsson, 1. vélstjóri gert.  Samkvæmt skýrslunum sé útilokað að aðrir en vélstjórar sinni þessum störfum.  Erfitt sé hins vegar fyrir aðra skipverja að bera um þetta efni þar sem þeir hafi ekki sérþekkingu á störfum vélstjóra á vinnsludekki.  Byggir stefnandi á því að hann hafi unnið þau störf verði til þess að honum beri þessi aukahlutur.

Stefnandi byggir ennfremur á því að hann hafi verið ráðinn til stefnda á þeirri forsendu að hann fengi greiddan aukahlut samkvæmt nefndum úrskurði.  Ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningasamningur við hann eins og skylt er skv. 6. gr. nefndra sjómannalaga.  Því verði að skýra allan vafa stefnanda í hag og vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar 1993:946 í því efni.  Bendir stefnandi á að hann hafi í fyrstu fengið greiddan aukahlut en aukahluturinn hafi síðan fyrirvaralaust verið tekinn af honum.  Jafnframt liggi fyrir bréf frá fyrirsvarsmanni stefnanda þess efnis að aldrei hafi annað staðið til en að greiða honum þennan aukahlut.  Yfirlýsing stefnanda þess efnis að umræddur aukahlutur yrði greiddur sé bindandi fyrir stefnanda gagnvart honum hvað sem öðrum sjónarmiðum líður.  Þennan þátt kröfu sinnar sundurliðar stefnandi þannig:  Vangreiddur hlutur vegna veiðiferðar 22. september til 17. nóvember 1999 27.629 krónur, vegna veiðiferðar 21. nóvember til 31. desember 1999 30.989 krónur og vegna veiðiferðar frá 5. janúar til 23. febrúar 2000 69.399 krónur.  Samtals eru kröfur stefnanda samkvæmt þessum lið að viðbættu orlofi 10,17% 141.036 krónur. 

Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að laun hans hafi verið vangreidd samkvæmt ákvæðum 27. gr. sjómannalaga tímabilið 8. febrúar til 6. mars 2000.  Honum hafi verið tjáð í lok síðustu veiðiferðarinnar að skipinu yrði ekki haldið frekar til veiða og hann hafi ekki verið kvaddur til skips eftir það.  Stefndi hafi með bréfi dagsettu 25. febrúar 2000 fyrirgert rétti sínum til að óska eftir vinnuframlagi.  Í bréfinu komi fram að skipinu verði ekki haldið til veiða við Ísland og að yfirmenn hafi ekki verið kallaðir til vinnu á uppsagnarfresti þar sem þeir búi allir á höfuðborgarsvæðinu og vinna við skipið sérhæfð.  Þá hafi stefndi viljað gefa mönnunum kost á að leita sér að nýrri vinnu.  Stefndi hafi hins vegar kvatt stefnanda til vinnu 28. febrúar en stefnandi hafi lýst því yfir að hann kæmi ekki til vinnu fyrr en öll hans mál væru frágengin en að mati stefnanda skuldaði stefndi honum töluverðar fjárhæðir.  Þá hafi stefndi ekki gefið út launaseðla fyrir árið 2000 þrátt fyrir skýlausa skyldu til þess samkvæmt 32. gr. sjómannalaga.  Með bréfum lögmanns stefnanda til stefnda þann 22. febrúar og 5. maí 2000 hafi verið gerður fyrirvari um rétt stefnanda til meðalaflahluts á uppsagnarfresti þar sem skipinu hafi verið lagt fyrirvaralaust við bryggju áður en uppsagnarfrestur var úti.  Kröfu um meðalaflahlut byggir stefnandi ennfremur á því að það sé andstætt almennum reglum vinnuréttar að samningsbundnum kjörum launþega sé breytt á uppsagnarfresti.  Stefndi hafi getað látið starfslok stefnanda og stöðvun skipsins verða á sama tíma og þannig komið í veg fyrir að kjör stefnanda skertust.  Stefnandi hafi mátt vænta þess að hann héldi óskertum ráðningarkjörum og aflahlut þar til ráðningartíma hans lyki.  Þetta og 27. gr. sjómannalaga leiði til þess að hann eigi rétt á launum miðuð við meðallaun undanfarna mánuði.  Niðurstaða Hæstaréttar í máli nr. 326/2000 leiði einnig til þessarar niðurstöðu. 

Af hálfu stefnanda er á því byggt að 29 dagar hafi verið eftir af uppsagnarfresti hans þegar Svalbarða var lagt við bryggju þann 7. febrúar 2000.  Óumdeilt sé að uppsagnarfrestur hans hafi runnið út 6. mars 2000.  Stefnandi hafi starfað hjá stefnda frá 23. september 1999 til 7. febrúar 2000 samtals í 135 daga og á þessum tíma hafi hann verið yfirvélstjóri í þrjár veiðiferðir en verið eina í fríi.  Staða yfirvélstjóra á Svalbarða SI hafi á þessu tímabili samtals gefið af sér 4.537.214 krónur.  Meðallaun á dag hafi því verið 33.608 krónur og sú tala margfölduð með 29 dögum nemi 974.632 krónum.  Stefnandi hafi fengið greidda kauptryggingu að fjárhæð 87.396 krónur og þá fjárhæð beri að draga frá.  Krafa vegna þessa liðar sé því 887.236 krónur. 

Kröfu um 10,17% orlof byggir stefnandi á 1. málslið 2. mgr. 7. gr. orlofslaga nr. 30/1987 en þar komi fram að að lágmarki skuli greiða 10,17% orlof af heildarlaunum.  Í kjarasamningi milli LÍÚ og VSFÍ grein 1.18 segi einnig að 10,17% orlof skuli greitt af heildarlaunum.  Stefnandi krefst dráttarvaxta af áunnu orlof frá þeim degi er stefnandi lauk störfum hjá stefnda eða þann 6. mars samkvæmt 8. gr. orlofslaga. 

Stefnandi miðar kröfu sína um dráttarvexti vegna vangoldinna launa við ráðningarlok stefnda og kveður þá kröfu í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 326/2000 og gerir samkvæmt því kröfu um dráttarvexti af stefnufjárhæðinni frá 6. mars 2000 til greiðsludags. 

Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til úrskurðar skv. 10. gr. fylgiskjals nr. III með lögum nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna, liðum I og II greinum 1.01., 1.09., 1.14., 1.15., 1.18. og 1.51 í kjarasamningi milli LÍÚ og VSFÍ, 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993.  2. tölulið 1. mgr. 44. gr. og 2. málslið 1. mgr. 45. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938, 4., 6., 9., 27., 32. og 53. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, lögum nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum sbr. lög nr. 60/1985, 3., 7. og 8. gr. orlofslaga nr. 30/1987 og 3. og 9. gr. og III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.  Hvað varðar kröfu um málskostnað vísar stefnandi til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Af hálfu stefnda er á því byggt niðurstaða að Félagsdóms í máli F-3/2001 hafi leyst með bindandi hætti úr ágreiningi aðila varðandi túlkun á liðum I b og II í niðurstöðu úrskurðarnefndar sem skipuð var samkvæmt lögum nr. 10/1998.  Niðurstaða Félagsdóms hafi verið sú að hina sérstöku þóknun samkvæmt lið I b skuli greiða vélstjórum þá daga sem skip er á veiðum óháð því hvort þeir hafi tilskilin réttindi til að gegna stöðunni eða ekki.  Sú venja hafi hins vegar skapast um greiðslu fastra launa til skipverja að þau hafa einnig verið greidd á biðtíma milli veiðiferða ef skipverjar fara næstu veiðiferð á eftir.  Hins vegar séu föst laun ekki greidd í frítúrum eða öðrum fríum.  Þessi framkvæmd hafi verið tekin upp varðandi greiðslur samkvæmt lið I í úrskurði nefndarinnar og bendir stefndi á að ákvæði kjarasamninga um föst laun séu orðuð með sama hætti og ákvæði liðar I í úrskurði nefndarinnar og því beri að skýra það með sama hætti.  Byggir stefndi á því að stefnandi eigi rétt á þessari greiðslu í 91 dag.  Fyrsta veiðiferðin hafi staðið í 26 daga, biðtími milli ferða 3 dagar, önnur veiðiferðin hafi staðið í 27 daga og sú þriðja í 35 daga. Stefndi hafi þegar greitt stefnanda fyrir þessa daga að viðbættu orlofi og dráttarvöxtum frá 6. febrúar 2000.

Hvað varðar lið II í úrskurði úrskurðarnefndarinnar þá byggir stefndi á því að niðurstaða Félagsdóms varðandi þann lið hafi verið sú að réttur yfirvélstjóra til greiðslu samkvæmt liðnum væri háður því að hann færi með yfirumsjón með viðhaldi og eftirliti með fiskvinnsluvélum ásamt vélbúnaði.  Þannig hafi dómurinn hafnað þeirri túlkun Vélstjórafélags Íslands að vélstjórum á vinnsluskipum með stærri aðalvél en 1500 kW bæri ávallt þessi greiðsla vegna þess að vinna við vinnsluvélar falli undir verksvið þeirra samkvæmt hefðbundinni verkaskiptingu á vinnsluskipum og samkvæmt 53. gr. sjómannalaga.  Stefndi byggir á því að niðurstaða Félagsdóms hafi verið skýr og dómurinn hafi ekki verið að ákvarða vélstjórum aukagreiðslu fyrir þau störf sem þeir ynnu almennt um borð í vinnsluskipum eða störf sem féllu undir starfsskyldur þeirra samkvæmt ákvæðum 53. gr. sjómannalaga.  Stefndi kveður ágreining um þetta atriði skýran og einfaldan.  Stefnandi byggi á því að vélstjórum beri ávallt þessi aukahlutur.  Stefndi byggir hins vegar á því að yfirvélstjóri verði að hafa yfirumsjón með viðhaldi og eftirliti með fiskvinnsluvélum ásamt vélbúnaði eins og áður er getið.  Byggir stefndi á því að yfirvélstjóri hafi ekki slíka yfirumsjón nema að honum hafi sérstaklega verið falin hún af hálfu útgerðar eða skipstjóra.  Í málinu sé óumdeilt að stefnanda var ekki falin slík umsjón heldur hafi hann sinnt hefðbundnum störfum.  Stefndi bendir á að meðan skip hans stundi botnfiskveiðar séu um borð tveir ,,Baadermenn” sem hafi yfirumsjón með vinnsluvélum um borð og fái greiddan aukahlut vegna þeirra starfa samkvæmt ákvæðum kjarasamnings milli Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna sem komið var á með lögum nr. 10/1998.  Í grein 5.24 komi fram að þeir 2 hásetar sem hafa yfirumsjón og eftirlit með fiskvinnsluvélum skuli hafa 1 1/16 hásetahlut hvor.  Jafnframt bendir stefndi á að nefndir ,,Baadermenn” heyri undir vaktformann en yfirvélstjóri hafi ekkert yfir þeim að segja og ekki tíðkist að véstjórar skipti sér af störfum ,,Baadermanna”. 

Stefndi byggir á því að eftir úrskurð úrskurðarnefndarinnar sé kominn grundvöllur fyrir útgerðarmenn og vélstjóra til að semja um að vélstjórar taki að sér yfirumsjón með fiskvinnsluvélum og vélum tengdum geymslu aflans.  Stefndi hafnar því aftur á móti að vélstjórar geti ákveðið að þeim beri að hafa þessa yfirumsjón án samninga við viðkomandi útgerð og krafist á þeim grunni aukinna greiðslna frá útgerðinni.  Slíkt brjóti gegn grundvallarreglum vinnuréttarins um samningsfrelsi og einnig gegn stjórnunarrétti vinnuveitenda.  Þannig geti 2. stýrimaður ekki krafist þess að fá hlut 1. stýrimanns þó hann telji sig vinna betra verk en 1. stýrimaður.  Stefnandi líkt og aðrir skipverjar verði að semja um rétt til launa og laun fyrir aukna vinnu og ábyrgð.

Stefndi hafnar því að stefnandi hafi við ráðningu sína gert það að forsendu að hann fengi greiddan þennan aukahlut eða að honum hafi verið gefið loforð fyrir slíkri greiðslu.  Stefndi hafnar því ennfremur að bréf hans dagsett 25. febrúar 2000 verði túlkað sem staðfesting á slíkum samningi enda sé ljóst að í bréfinu rugli stefndi saman greiðslum samkvæmt liðum I og II í úrskurði úrskurðarnefndarinnar.  Á þessum tíma hafi ekki legið fyrir hvernig greiða bæri eftir úrskurði nefndarinnar en alltaf hafi staðið til að greiða samkvæmt réttri skýringu á úrskurðinum.  Á þetta hafi stefnandi fallist með málshöfðun sinni á hendur stefnda fyrir Félagsdómi. 

Af hálfu stefnda er ennfremur á því byggt að ákvæði 53. gr. sjómannalaga skipti ekki máli varðandi túlkun á II. lið úrskurðarins enda hafi úrskurðurinn í engu breytt þeirri ábyrgð sem á yfirvélstjórum hvíldi.  Réttur til greiðslu samkvæmt úrskurðinum sé skýrlega tengdur við aukið vinnuframlag og ábyrgð.  Þá bendir stefndi á að 53. gr. sjómannalaga sé að stofni til frá fyrri hluta síðustu aldar eða löngu fyrir daga vinnsluskipa.  Af þeim sökum taki greinin ekki á því hvort yfirvélstjóri beri ábyrgð á sérstökum vélum sem komið er fyrir í skipi til vinnslu og geymslu afla um borð.  Raunin hafi orðið sú að vélstjórar hafa ekki tekið ábyrgð á rekstri vinnsluvéla og af hálfu útgerða hefur ekki verið litið svo á að vélar þessar falli undir starfs- eða ábyrgðarsvið vélstjóra.  Þessi niðurstaða hafi orðið í samningum samtaka sjómanna sbr. áðurnefnda grein 5.24 í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Landsambands íslenskra útvegsmanna.  Þá bendir stefndi í þessu sambandi einnig á grein 5.35 í kjarasamningi Farmanna- og fiskimanna-sambandsins.  Ennfremur bendir stefndi á grein 5.35 í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands og Landsambands íslenskra útvegsmanna en það nær til báta sem frysta afla um borð en ekki vinnsluskipa.  Það ákvæði sé ekki í samræmi við þá fullyrðingu að vélstjórar skuli sjálfkrafa hafa yfirumsjón með vinnsluvélum um borð.  Leggja beri til grundvallar ákvæði 56. gr. sjómannalaga en þar komi fram að endanleg ákvörðun um hver beri ábyrgð á rekstri þessara véla sé á hendi útgerðar og skipstjóra sem sé þá heimilt að fela öðrum en yfirvélstjóra þessa ábyrgð og jafnframt leysa hann undan ábyrgðinni verði talið að slík ábyrgð felist í 53. gr. sjómannalaga.  Stefndi byggir á því að með úrskurði úrskurðarnefndar hafi vélstjórum einungis verið veittur sambærilegur réttur til launa fyrir yfirumsjón með fiskvinnsluvélum og stéttarfélög annarra skipverja höfðu samið um fyrir hönd sinna félagmanna.  Við túlkun á ákvæðinu verði að taka tillit til þessara réttinda annarra skipverja.  Á þessi sjónarmið hafi Félagsdómur fallist.  Þá verði og að hafa í huga að ef fallist verður á kröfur stefnanda sé í raun verið að viðurkenna einkarétt vélstjóra til að hafa yfirumsjón með vinnsluvélum.  Með því yrði ekki einungis brotið gegn rétti annarra skipverja heldur einnig stjórnunarrétti útgerðarmanna.

Hvað varðar kröfu stefnanda um laun í uppsagnarfresti byggir stefndi á því að sú krafa sé of seint fram komin.  Stefndi heldur því fram að uppsagnarfresti stefnanda hafi lokið 28. febrúar 2000 þegar stefndi mætti ekki til vinnu þrátt fyrir boðun.  Stefndi taldi samkomulag í gildi þess efnis að stefnandi fengi greidda kauptryggingu út ráðningartímann og þá yrði ekki gerð krafa um vinnuframlag af hendi stefnanda.  Þetta sé í samræmi við kjarasamning aðila og áratugavenju.  Af bréfi lögmanns stefnanda frá 22. febrúar 2000 hafi mátt ráða að stefnandi var ekki sáttur við þessa tilhögun hann hafi gert áskilnað um frekari greiðslur.  Við þessu hafi stefndi brugðist með því að boða stefnanda til vinnu en hann hafi viljað njóta vinnuframlags stefnanda ef til frekari greiðslu á uppsagnarfresti átti að koma.  Þá heldur stefndi því fram að Hæstaréttarmálið nr. 326/2000 eigi ekki við hér þar sem í gildi séu ákvæði í kjarasamningi sem fjalli um tilvik sem þetta en svo hafi ekki verið í tilvitnuðu máli og þar hafi almennum reglum vinnuréttar því verið beitt.  Í þessu tilfelli hafi staðið til að búa skipið til rækjuveiða við Kanada og því hafi þurft að lagfæra og breyta ýmsu um borð.  Hér eigi því ákvæði 1.30., 1.31 og 1.33 í kjarasamningi aðila við.  Í grein 1.30 komi fram að kaup að loknu hafnarfríi skuli greiða samkvæmt viðeigandi ákvæðum kjarasamnings.  Í grein 1.33 segi að fyrstu 7 dagana eftir að hafnarfríi er lokið skuli greiða kaup eftir vinnureikningi miðað við gildandi tímakaup.  Að þeim tíma loknum skuli greiða kauptryggingu.  Þá byggir stefndi einnig á því að krafa stefnanda um meðallaun á uppsagnarfresti brjóti gegn ákvæði 1.30 í kjarasamningi aðila og grundvelli hlutaskiptakerfisins.  Grein 1.30 segi að laun vélstjóra eftir að hafnarfríi er lokið skuli fara eftir ákvæðum kjarasamningsins.  Engin ákvæði samningsins leiði til þess að stefnandi eigi rétt til meðallauna, sem taki mið af því þegar skip er á veiðum, þegar skipi er ekki haldið til veiða og um slík laun hafi ekki verið samið.  Launakerfið byggi á aflahlut með kauptryggingu þegar illa veiðist eða ekki og tímakaupi fyrir aðra vinnu.  Laun sjómanna séu að jafnaði há þegar vel aflast en miklu lægri þegar illa veiðist eða þegar þeir eru á tímakaupi.  Þetta fyrirkomulag sé samningsatriði milli aðila en sé vilji til að breyta því verði að gera það með samningum.  Það sé varla hlutverk dómstóla að ónýta þetta launakerfi eða heimfæra fastlaunakerfi sem þorri landsmanna býr við yfir á hlutaskiptakerfi sjómanna en það sé stefnandi að fara fram á með kröfum sínum.  Með hlutaskiptakerfinu sé öllum tekjum af rekstri skips skipt eftir hverja veiðiferð.  Útgerðarmaður ábyrgist einungis greiðslu kauptryggingar þegar skip er ekki á veiðum eða þegar illa aflast.  Hann ábyrgist ekki að hann muni halda skipi til veiða óháð afkomu þess eða að halda því til veiða meðan á ráðningu skipverja stendur.  Óvissu sem útgerð fylgir verði sjómenn að þola jafnt og útgerðarmenn enda sé þessi óvissa meginröksemdin fyrir hárri hlutdeild sjómanna í tekjum skips.

Stefndi reisir kröfur sínar ennfremur á því að þegar stefnandi kom úr 35 daga veiðiferð þann 7. febrúar 2000 hafi hann átt hafnarfrí í 129 klst. skv. ákvæði 5.26 í kjarasamningi eða 5 daga og 9 klst.  Stefnandi hafi því ekki mátt byrja að vinna aftur fyrr en þann 13. febrúar.  Samkvæmt grein 1.33 hafi stefnda að þeim tíma liðnum borið að greiða stefnanda tímakaup ef hann ynni við skipið næstu 7 daga en kauptryggingu eftir það.  Hann hafi greitt stefnanda kauptryggingu frá 7. febrúar til 6. mars án þess að stefnandi léti af hendi vinnu og þar með hafi hann greitt stefnanda laun í uppsagnarfresti umfram það sem stefnandi átti rétt á.  Þá mótmælir stefndi harðlega útreikningi stefnanda á kröfum sínum samkvæmt þessum lið.  Útreikningurinn sé auk þess ekki í samræmi við málatilbúnað stefnanda sjálfs sem krefjist aflahlutar í hafnarfríi frá 7. til 13. febrúar 2000.  Meðaltalsútreikninga sína miði hann ekki við meðallaun sín heldur meðallaun sem taki mið af því að stefnandi hafi aldrei farið í frí.  Með þessu byggist útreikningurinn ekki á reynslu stefnanda sjálfs heldur sé útreikningurinn hreinn tilbúningur. 

Stefndi telur að ef fallist verði á með stefnanda að hann eigi rétt á einhverjum meðallaunum í uppsagnafresti þá eigi hann ekki rétt til þeirra fyrr en eftir að hafnarfríi lauk þann 13. febrúar og ekki lengur en til 28. febrúar þegar hann átti að mæta til vinnu samkvæmt boðun en gerði ekki.  Meðallaunin verði að taka mið af launum hans sjálfs hjá stefnda er námu, að frádreginni kauptryggingu í uppsagnarfresti, 3.191.838 krónum.  Stefnandi hafi starfað hjá stefnda í 143 daga og daglaun því 22.230 krónur.  Því eigi stefnandi ekki rétt til hærri fjárhæðar en 333.450 krónur vegna þessa. 

Einnig byggir stefndi á því að dómur Félagsdóms um túlkun á ákvæðum úrskurðar úrskurðarnefndarinnar sé bindandi og verði ekki borinn undir almenna dómstóla, sbr. 47. gr. sbr. 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, sbr. einnig 67. gr. laga nr. 80/1938 og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1936.

Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um dráttarvexti og telur að ekki séu forsendur til þess að dæma dráttarvexti fyrr en frá dómsuppkvaðningu verði einhverjar kröfur stefnanda teknar til greina.

Stefndi hafnar alfarið rétti stefnanda til málskostnaðar enda hafi stefndi áður höfðað mál á hendur honum til heimtu sömu kröfu en látið það mál niður falla.  Í þessu sambandi vísar stefndi til 2. mgr. 27. gr. og 4. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 auk þess krefst stefndi þess að litið verði til c liðar 1. mgr. og 3. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 enda sé stefnandi nú að hafa uppi sömu kröfur og leyst var úr í dómi Félagsdóms auk þess sem stefnandi hefur haft uppi ótrúlegan málatilbúnað og fjölbreyttar kröfur, sbr. hinar 6 mismunandi kröfur sem áður hafa verið nefndar. 

IV.

Niðurstaða.

Deilu aðila í máli þessu má skipta í þrjá þætti.  Í fyrsta lagi er deilt um túlkun á lið I b í úrskurði úrskurðarnefndar samkvæmt lögum nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna.  Í öðru lagi deila þeir um skyldu stefnda til að greiða stefnanda 0,10 aukahlut vegna yfirumsjónar með viðhaldi og eftirliti á fiskvinnsluvélum ásamt vélbúnaði tengdum vinnslu og geymslu aflans samanber lið II í úrskurði nefndarinnar og í þriðja lagi deila þeir um hvaða laun beri að greiða stefnanda meðan á uppsagnarfresti hans stóð og einnig hvenær fresturinn byrjaði að líða og hvenær honum lauk.

Hvað varðar túlkun á lið I b í úrskurði nefndarinnar snýst deilan eingöngu um hvernig beri að túlka orðalagið ,,Auk hlutar skulu vélstjórar á fiskiskipum þar sem krafist er vélfræðimenntunar fá sérstakar greiðslur sem hér segir."  Ekki er ágreiningur um að stefnanda bar sem yfirvélstjóra á Svalbarða SI að fá 25.000 krónur á mánuði og hefur stefndi viðurkennt greiðsluskyldu sína hvað það varðar.  Í úrskurði nefndarinnar segir eingöngu að greiðslan skuli, auk hlutar, vera 25.000 krónur á mánuði og það orðalag ekki skýrt nánar.  Í kjarasamningi aðila eru ekki ákvæði sem skera úr um hvernig skilgreina skuli mánuð þegar greiðsla skal vera ákveðin fjárhæð á mánuði auk hlutar.  Grein 1.11 segir að auk hluta skuli vélstjórar fá föst laun á mánuði samkvæmt launatöflu.  Í grein 1.16 í kjarasamningi aðila eru ákvæði um greiðslu ákveðinnar fjárhæðar á mánuði vegna hlífðarfatakostnaðar.  Af launaseðlum stefnanda verður ráðið að hann hefur fengið þessa fjárhæð greidda miðað við fjölda daga frá því að skip lét úr höfn og þar til það kom aftur til hafnar.  Í grein 1.17 er fjallað um fæðisdaga og þar segir að þeir séu þeir sömu og lögskráningardagar að frádregnum ákveðnum dögum þó ekki samningsbundnum helgar- og hafnarfrísdögum.  Af þessu er ljóst að ákveðin regla verður ekki lesin úr kjarasamningi aðila hvað þetta varðar.  Stefnandi telur að stefnda beri að greiða honum þessa fárhæð fyrir hverja 30 lögskráningardaga.  Stefndi telur hins vegar að miða beri við þann tíma sem veiðiferð stendur að viðbættum biðtíma ef skipverji fari næstu veiðiferð eins og venja sé þegar föst laun eru reiknuð auk aflahlutar.  Þessari fullyrðingu hefur ekki verið mótmælt.  Ekki verður fallist á með stefnanda að í þessu tilfelli skuli miða við lögskráningardaga enda geta þeir verið nokkru fleiri en þeir dagar sem hlutur er miðaður við.  Verður fullyrðing stefnda um venju við greiðslu fastra launa lögð til grundvallar og fallist á með honum að í þessu tilfelli skuli sami háttur hafður á þó sennilega sé eðlilegast að miða við þann tíma sem veiðiferð tekur að viðbættum áunnum frídögum, samkvæmt grein 5.26 í kjarasamningi aðila.  Slík niðurstaða rúmast ekki innan kröfugerðar eða málsástæðna stefnanda.  Undir rekstri málsins féllst stefnandi á að stefndi hafi þegar að fullu greitt fyrir 91 dag af þeim 106 sem krafan miðast við.  Samkvæmt því hefur stefndi greitt kröfu stefnanda samkvæmt þessum lið og verður hann sýknaður af þessari kröfu.

Hvað varðar túlkun á lið II í úrskurði úrskurðarnefndarinnar er óumdeilt að stefnandi og Svalbarði SI-302 uppfylla þau skilyrði sem sett eru til að yfirvélstjóri geti átt rétt á 1,6 hlut í stað 1,5.  Með dómi Félagsdóms í máli F-3/2001 var því slegið föstu að ákvæði 53. gr. sjómannalaga eiga ekki við hvað þetta úrlausnarefni varðar ella hefði dómurinn tekið samskonar kröfu sem þar var uppi til greina.  Þessari niðurstöðu Félagsdóms verður ekki haggað hér enda er það í verkahring Félagsdóms að leysa úr deilum er varða túlkun á kjarasamningum.  Í dómi Félagsdóms segir að m.a.  ,,Af þessu verður ekki dregin önnur ályktun en sú að hlutur sá sem vélstjórum ber til viðbótar samningsbundnum aukahlut komi einungis til greiðslu í þeim tilvikum, þegar yfirvélstjóri hefur tekið á sig aukið vinnuframlag í því skyni að hafa yfirumsjón með viðhaldi og eftirliti á fiskvinnsluvélum ásamt vélbúnaði tengdum vinnslu og geymslu aflans um borði í skipi."  Fyrir dómi bar stefnandi að hann hafi verið 1. og 2. vélstjóri á vinnsluskipum í tíð eldri kjarasamninga en störf hans hafi ekki breyst eftir gerð kjarasamninganna og raunar hafi þau verið hin sömu frá fyrstu tíð.  Fyrir dóminum bar Runólfur Birgisson, framkvæmdastjóri stefnda að af hálfu útgerðarinnar hafi yfirvélstjóra ekki verið falin yfirumsjón með fiskvinnsluvélum og ekki hafi komið til tals við vélstjóra að þeir tækju á sig aukna ábyrgð vegna þessa.  Þá bendir staða ,,Baadermanna" um borð í skipinu til þess að svo hafi ekki verið en þeir eru ekki undirmenn yfirvélstjóra.  Telst því ósannað að vélstjórar á Svalbarða SI-302 hafi aukið vinnuframlag sitt í því skyni að fara með þá yfirumsjón sem áður er nefnd.  Verður kröfu stefnanda um þennan aukahlut því hafnað.  Skiptir hér ekki máli þó vélstjórar séu óumdeilanlega best til þess fallnir að hafa umsjón með langstærstum hluta vélbúnaðar á vinnsludekki. 

Í þriðja lagi er deilt um rétt stefnanda til greiðslu launa í uppsagnarfresti.  Ekki verður fallist á með stefnda að krafa stefnanda sé niður fallin vegna tómlætis en hann hefur haft kröfuna uppi allt frá fyrstu tíð en krafan er hluti af uppgjörskröfu stefnanda.  Af hálfu stefnda var því lýst yfir að skipið væri hætt veiðum við Ísland á yfirstandandi fiskveiðiári og að verið væri að búa það undir veiðar við Kanada og að það yrði selt ef samningar þar um tækjust.  Aðilar eru sammála um að stefnandi hafi átt rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti og að ráðningu hans hafi átt að ljúka 6. mars 2000.  Óumdeilt er að Svalbarða SI var lagt við bryggju 7. febrúar 2000 og að þá stóðu eftir 29 dagar af uppsagnarfrestinum.

Þegar svo háttar til sem hér, að útgerð skips er í raun hætt og til stendur að selja það hefur Hæstiréttur Íslands ítrekað dæmt að skipverjar eigi rétt til meðallauna meðan á uppsagnarfresti stendur, sbr. t.d. H. 326/2000 og 214/2001.  Hér verður því ekki fallist á með stefnanda að ákvæði 1.30 og 1.33 í kjarasamningur gildi um atvik þetta.  Fallast verður á með stefnanda að hann eigi rétt til meðallauna.  Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 326/2000 var því slegið föstu að skipverji ætti ekki rétt til launa samkvæmt bótareglu 25. gr. sjómannalaga en tekin til greina krafa um aflahlut.  Krafa stefnanda í því máli byggðist á útreiknuðum meðallaunum hans á dag meðan á ráðningartíma stóð en ekki eingöngu meðan skipið var að veiðum.  Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 214/2001 var fallist á að skipverji ætti rétt á aflahlut í uppsagnarfresti sínum og verður ekki annað ráðið en rétturinn telji rétt að miða meðallaun við lengri tíma en þrjá mánuði eins og stefnandi gerði kröfu um en stefndi lagði hins vegar ekki fram gögn sem unnt var að byggja útreikninga á.  Þar sem bótaregla 25. gr. sjómannalaga á ekki við í þessu máli þykir rétt að miða laun stefnanda við meðallaun hans sjálfs þann tíma sem hann var í starfi hjá stefnda en í málinu liggja frammi launaseðlar hans yfir það tímabil.  Áður er sú niðurstaða fengin að stefnandi átti ekki rétt á 1,6 hlut þó sá hlutur hafi verið greiddur fyrir fyrstu veiðiferð hans.  Samkvæmt launaseðlunum fékk stefnandi greiddar 3.279.234 krónur þann tíma sem hann var ráðinn hjá stefnda.  Þá liggur fyrir að honum bar að fá greiddar 25.000 krónur á mánuði auk hlutar svo sem áður er rakið, samtals 83.545 krónur.  Í heildarlaunum stefnanda eru 87.396 krónur sem greiddar voru sem kauptrygging á uppsagnarfresti.  Þá fékk stefnandi ofgreitt vegna 1.6 hlutar í stað 1,5 í fyrstu veiðiferðinni 54.381 krónu en ekki 27.629 eins og greinir í stefnu.  (Heildarlaun stefnanda reiknast því svo 3.279.234 + 83.545- 87.396 -54.381= 3.221.002 krónur)  Stefnandi var ráðinn hjá stefnda frá 23. september 1999 til 7. febrúar 2000 samtals 138 daga.  Daglaun hans voru því 23.341 króna.

Fyrir liggur að í fyrstu gerði stefndi ekki kröfu um að stefnandi ynni við skipið á uppsagnarfrestinum.  Stefndi gekk út frá því að samkomulag hefði náðst um að stefnandi fengi greidda kauptryggingu út uppsagnarfrestinn og hann yrði þá ekki krafinn um vinnuframlag.  Stefnandi gerði hins vegar athugasemd við þetta fyrirkomulag með bréfi dagsettu 22. febrúar 2000 og krafðist meðallauna.  Stefndi brást við með því að boða stefnanda til vinnu með þriggja daga fyrirvara þann 28. febrúar.  Ekki verður talið að stefndi hafi fyrirgert rétti sínum til að krefja stefnanda um vinnuframlag þó áskilnaður um slíkt hafi ekki verið gerður strax í upphafi og ætla verður að stefndi hafi verið í góðri trú um að samkomulag væri um greiðslu kauptryggingu út uppsagnarfrestinn gegn því að stefnandi þyrfti ekki að vinna við skipið.  Með því að mæta ekki til vinnu samkvæmt boðun fyrirgerði stefnandi rétti sínum til launa það sem eftir var uppsagnarfrestsins.  Ekki verður fallist á með stefnda að draga beri áunnið hafnarfrí frá uppsagnarfresti stefnanda.  Á stefnandi því rétt á launum á uppsagnarfresti í 23 daga eða samtals 536.843 krónur.

Fallast verður á með stefnda að stefnandi hafi farið að honum með miklum kröfum í upphafi en þær kröfur hafi lækkað verulega og af þeim sökum þykir rétt að tildæmd fjárhæð beri dráttarvexti frá dómsuppsögu.  Með sömu rökum þykir hæfilegt að stefndi greiði stefnanda 100.000 krónur í málskostnað og hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Halldór Halldórsson, dómstjóri kveður upp dóm þennan.  Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómara og orlofs um páskahátíðina en sakflytjendur hafa skriflega lýst því yfir að þeir telji ekki þörf á endurflutningi málsins.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Stefndi, Siglfirðingur hf, greiði stefnanda, Braga Má Valgeirssyni 536.843 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. apríl 2002 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 100.000 krónur í málskostnað.