Hæstiréttur íslands
Mál nr. 683/2009
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Aðild
- Orsakatengsl
- Matsgerð
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 30. september 2010. |
|
Nr. 683/2009. |
Ármann Guðmundsson, Tryggvi Guðmundsson og Vátryggingafélag Íslands hf. (Guðmundur Sigurðsson hrl.) gegn Önnu Lind Jóns Friðriksdóttur (Óskar Sigurðsson hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Aðild. Orsakatengsl. Matsgerð. Gjafsókn.
A krafðist skaðabóta í héraði úr hendi G og V vegna tjóns sem hún taldi sig hafa orðið fyrir í umferðarslysi. Í dómi Hæstaréttar segir að í héraði hefði A höfðað mál þetta á hendur G, eiganda bifreiðarinnar, og V, ábyrgðartryggjanda hennar. G hafi andast áður en málið var höfðað og verði kröfu A á hendur honum því vísað frá héraðsdómi. Þá voru ákvæði umferðarlaga ekki talin standa því í vegi að V væri eitt til varna gegn kröfu A. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að þegar litið sé til þess langa tíma sem leið frá slysinu þar til A bar sannanlega fram kvartanir um meiðsli sín og álits undir- og yfirmatsmanna á sönnun um tengsl milli tjóns hennar og slyssins, yrði ekki talið að A hefði tekist sönnun um orsakatengsl. Var V því sýknað af kröfu A í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 30. nóvember 2009. Þeir krefjast sýknu af kröfu stefndu og að henni verði gert að greiða þeim málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar úr hendi áfrýjenda fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
I
Stefnda höfðaði mál þetta á hendur Guðmundi Sigurdórssyni og áfrýjanda Vátryggingafélagi Íslands hf. með stefnu, sem árituð var um birtingu af beggja hálfu 22. desember 2008. Guðmundur hafði verið skráður eigandi bifreiðarinnar X-958, sem ekið var aftan á bifreiðina ND-439, þegar slysið varð 1. júlí 2003. Með hinum áfrýjaða dómi voru báðir þessir aðilar dæmdir til að greiða kröfu stefndu. Í málinu liggja fyrir upplýsingar um að Guðmundur Sigurdórsson hafi andast 10. desember 2004. Áfrýjendur Ármann og Tryggvi Guðmundssynir kveðast vera lögerfingjar Guðmundar og hafi þeir áfrýjað héraðsdómi sem slíkir. Með vísan til 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður kröfu stefndu á hendur Guðmundi Sigurdórssyni vísað frá héraðsdómi. Kemur þá ekki til aðildar áfrýjendanna Ármanns og Tryggva að málinu.
Að þessari niðurstöðu fenginni kemur til athugunar hvort áfrýjandinn Vátryggingafélag Íslands hf. geti, sem ábyrgðartryggjandi bifreiðarinnar X-958, átt eitt aðild til varnar kröfu stefndu án þess að skráður eigandi hinnar vátryggðu bifreiðar eigi þar jafnframt aðild. Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er vátryggingafélag greiðsluskylt gagnvart tjónþola vegna bótakrafna samkvæmt 1. mgr. 91. gr. laganna. Mál þetta var sem fyrr segir höfðað með stefnu birtri 22. desember 2008. Þá höfðu gengið í gildi lög nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, en í 44. gr. þeirra felst að tjónþoli við ábyrgðartryggingu getur krafist bóta beint frá vátryggingafélagi án þess að ávallt sé nauðsynlegt að beina kröfu einnig að þeim sem ber skaðabótaábyrgð og keypt hefur trygginguna. Í 1. mgr. 45. gr. sömu laga er svo á kveðið, að hafi vátryggingartaki tekið ábyrgðartryggingu til þess að fullnægja lagaskyldu, svo sem hér er raunin, skuli ákvæði 44. gr. gilda að því leyti sem um stöðu tjónþola gildi ekki sérstakar reglur. Í umferðarlögum er ekki að finna sérreglu um þetta, en ákvæði 1. mgr. 97. gr. þeirra verður ekki skýrt svo að óheimilt sé að höfða mál gegn vátryggingafélagi einu. Samkvæmt þessu verður lagður efnisdómur á málið þó að áfrýjandinn Vátryggingafélag Íslands hf. sé eitt til varna gegn kröfu stefndu.
II
Ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Meðal þeirra er matsgerð þriggja yfirmatsmanna, Karls Ólafssonar kvensjúkdómalæknis, Stefáns Más Stefánssonar prófessors og Yngva Ólafssonar bæklunarskurðlæknis, sem dómkvaddir voru 11. september 2009 að beiðni áfrýjanda til að meta hvort líkamleg einkenni í mjóbaki stefndu sé að rekja til bifreiðarslyss 1. júlí 2003. Í yfirmatsgerð 21. nóvember 2009 segir meðal annars svo: „Yfirmatsmenn telja litlar líkur á að svo vægt slys, sem hér virðist um að ræða, valdi slíkum líkamlegum meinum og hér um ræðir. Það er skoðun yfirmatsmanna að mestar líkur séu á því að líkamleg einkenni hvort heldur tognun, brot eða aðrir áverkar komi fram strax eða fljótlega og verði þá tilefni til kvörtunar. Yfirmatsmenn telja almennt ólíklegt að einkenni sem koma fram meira en 6 mánuðum eftir slys, tengist því. Hafi einkennin verið komin fram fyrir þann tíma, en þá svo væg að Anna Lind taldi ekki ástæðu til að láta athuga þau betur, telja yfirmatsmenn ólíklegt að þau versni síðar án þess að skýringa sé að leita í nýjum atvikum. Við þetta bætist að einkenni frá baki gera ekki vart við sig í þunguninni fyrr en á 29. viku. Hefði verið undirliggjandi áverki mátti búast við auknum einkennum jafnvel snemma á meðgöngu.“
III
Í málinu deila málsaðilar um hvort sannað sé að umferðarslysið hafi leitt til þeirra heilsufarseinkenna hjá stefndu sem hafa orðið tilefni kröfugerðar hennar á hendur áfrýjanda. Tjónþoli ber almennt sönnunarbyrði fyrir að tjón hans verði rakið til þess atviks sem hann reisir kröfu sína um skaðabætur á. Í héraðsdómi var komist að þeirri niðurstöðu að sönnun væri komin fram um orsakasamhengi milli örorku stefndu og árekstursins 1. júlí 2003. Taldi héraðsdómur að ekki yrði byggt á niðurstöðu undirmatsmanna um að ekki væru orsakatengsl milli einkenna stefndu og slyssins, þar sem þeir hefðu farið út fyrir hlutverk sitt, þegar þeir hafi komist að þeirri niðurstöðu. Þá taldi dómurinn að miða yrði við frásögn stefndu um að hún hefði ekki lent í öðru óhappi sem leitt hefði getað til umræddrar örorku og miska. Yrði að telja að talsvert meiri líkur væru til þess að örorku stefndu væri að rekja til árekstursins heldur en til þess að hún gekk með barn, ellegar annarra óþekktra atvika, eins og komist er að orði. Ekki er unnt að fallast á þessar úrlausnir í héraðsdóminum. Undirmatsmenn voru dómkvaddir til að meta „hvort að líkamleg einkenni sem hrjá matsþola sé sannanlega að rekja til slyssins 01.07.2003“. Þeir orðuðu svar sitt svo að þeir teldu „ekki að orsakatengsl milli einkenna matsþola eins og þau eru í dag og slyssins ... hafi verið sönnuð.“ Var það í verkahring þeirra og í samræmi við dómkvaðninguna að veita þetta svar, þó að hlutverk héraðsdóms hafi eftir sem áður meðal annars verið fólgið í að leggja mat á hvort nægileg sönnun um orsakatengslin væri komin fram. Um skýrslu stefndu fyrir dómi er það að segja að aðilaskýrslur geta ekki haft sönnunargildi um staðreyndir sem deilt er um ef skýrsla er þeim aðila í hag sem gefur hana.
Þegar annars vegar er litið til þess langa tíma sem leið frá slysinu þar til stefnda bar sannanlega fram kvartanir um meiðsli sín og hins vegar álits undir- og yfirmatsmanna á sönnun tengsla meiðslanna við slysið, verður ekki talið að stefndu hafi tekist sönnun um að einkennin í mjóbaki sem hún leitar bóta fyrir eigi rót að rekja til slyssins. Verður áfrýjandi Vátryggingafélag Íslands hf. því sýknaður af kröfu hennar.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar sem ákveðst í einu lagi fyrir bæði dómsstig, eins og í dómsorði greinir.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.
Það er aðfinnsluvert að greinargerð áfrýjenda fyrir Hæstarétti er að mun lengri og ítarlegri en gert er ráð fyrir í b. lið 2. mgr. 156. gr. laga nr. 91/1991.
Dómsorð:
Kröfu stefndu, Önnu Lindar Jóns Friðriksdóttur, á hendur Guðmundi Sigurdórssyni er vísað frá héraðsdómi.
Áfrýjandi Vátryggingafélag Íslands hf. er sýkn af kröfu stefndu.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, sem ákveðst í einu lagi á báðum dómstigum 1.250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30, júní 2009.
Mál þetta höfðaði Anna Lind Jóns Friðriksdóttir, kt. 180885-2429, Löngumýri 4B, Selfossi, með stefnu birtri 22. desember 2008 á hendur Guðmundi Sigurdórssyni, kt. 050921-2989, Akurgerði 1, Hrunamannahreppi, og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík. Málið var dómtekið 2. júní sl.
Stefnandi krefst greiðslu á 2.601.068 krónum með 4,5% ársvöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, af 417.752 krónum frá 1. júlí 2003 til 1. október 2003, af 2.178.545 krónum frá þeim degi til 23. ágúst 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af 2.588.318 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar, til vara lækkunar á dómkröfum og að málskostnaður falli niður.
Stefnandi krefur stefndu í málinu um bætur vegna umferðarslyss er hún lenti í þann 1. júlí 2003. Hún var ökumaður bifreiðar og er hún hugðist taka vinstri beygju af Suðurlandsvegi inn Ártún á Selfossi, var bifreið stefnda Guðmundar ekið aftan á bifreið stefnanda. Bifreið stefnda var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands.
Lögregluskýrsla var gerð um áreksturinn, en hún er mjög stutt og þar er fáu lýst. Segir að slys hafi ekki orðið á fólki.
Í stefnu er því lýst að stefnandi hafi ekki kennt sér meins í fyrstu. Nokkrum dögum eftir slysið hafi hún farið að finna fyrir verk í mjóbaki með dofatilfinningu niður í fætur. Hún hafi eignast barn þann 4. júlí 2004. Einkennin hafi ágerst á meðgöngunni.
Í sjúkraskrá er bókað um komu stefnanda til læknis þann 22. apríl 2004. Segir að hún sé á 29. viku og sé komin með bakverk. Sofi ekki á nóttunni fyrir verkjum og treysti sér ekki til vinnu. Þann 3. maí 2004 kom stefnandi aftur til læknis og er þá skráð að hún sé með bakverk. Í viðtali við lækni 8. mars 2005 er getið um aftanákeyrslu fyrir tveimur árum síðan. Hún hafi síðan haft versnandi verk milli herðablaða og í hálsi og herðum. Fékk stefnandi tilvísun til sjúkraþjálfara.
Í beiðni um sjúkraþjálfun er læknir ritaði 21. febrúar 2006 er óskað bólgueyðandi meðferðar, liðkandi og styrkjandi þjálfunar. Skoðun er lýst með þessum orðum: „Hreyfanleiki er góður en hún fær verk í bakið við frambeygju og aftursveigju. Hliðar sveigjur eru fínar. Útlit hryggjar eðlil. Við þreifingu eru eymsli yfir interspinalbilum L4-5 og niður á sacrum miðjum. Mest eru eymslin við þreifingu lateralt við hæ. SI lið, yfir vöðvafestum þar. Við aktívar vöðvahreyfingar um mjaðmarliði eru vægir verkir við extension um hæ. mjöðm. Taugaskoðun er eðlil.
Virðist vera lítillega bundið við hrygginn neðst en jafnvel meir við vöðvafestur á gluteal svæði hæ. megin.“
Í læknisvottorði, er ritað var að beiðni lögmanns stefnanda þann 10. maí 2006 kemur fram að einkenni hafi versnað á meðgöngu. Hafi stefnandi verið send í sjúkraþjálfun er hafi greint hana með grindargliðnun. Fram kom í skýrslu matsmanns fyrir dómi að stefnandi hefði sagst hafa farið einu sinni til sjúkraþjálfara. Hefði hún kennt um féleysi.
Stefnandi leitaði án aðkomu stefndu til þeirra Björns Daníelssonar hdl. og Stefáns Dalberg læknis. Álit gáfu þeir 14. ágúst 2006. Töldu þeir stefnandi hefði hlotið tognun í mjóbaki við slysið. Þeir töldu að stöðugleikapunktur væri 1. október 2003. Stefnandi ætti rétt á þjáningabótum fyrir tímabilið 1. júlí til 1. október 2003. Varanlegur miski væri 7% og varanleg örorka 5%.
Að fenginni þessari álitsgerð krafðist stefnandi bóta úr hendi stefnda Vátryggingafélags Íslands. Var aflað frekari gagna að kröfu félagsins, sem að lokum leitaði eftir dómkvaðningu matsmanna. Hinn 15. júní 2007 voru Guðjón Baldursson læknir og Birgir G. Magnússon hdl., dómkvaddir til að meta tjón stefnanda og hvort það stafaði af umræddu slysi.
Matsgerð er dagsett 8. október 2007. Matsmenn töldu að ekki væru orsakatengsl á milli einkenna stefnanda og slyssins þann 1. júlí 2003. Segja þeir orðrétt: „Matsmenn telja ekki að orsakatengsl milli einkenna matsþola eins og þau eru í dag og slyssins þann 01.07.2003 hafi verið sönnuð. Svo sem fyrr greinir leitaði matsþoli ekki til læknis fyrr en 22.04.2004 eða tæpum 10 mánuðum eftir slysið. Almennt má segja að einkenni tognunaráverka á háls og bak komi fram strax eftir að slys verður, í síðasta lagi á næstu vikum eftir slysatburð. Er matsþoli leitaði til læknis þann 22.04.2004 var hún ólétt og gengin með 29 vikur. Í gögnum vegna heimsókna til lækna á meðgöngu er ekki rætt um umferðarslysið fyrr en í febrúar 2006. Af þessum ástæðum er ómögulegt að slá því föstu að orsakatengsl séu milli einkenna hennar í dag og slyssins þann 01.07.2003 og ósannað er að hún hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni vegna slyssins.“
Stefnandi undi ekki niðurstöðu matsmanna. Hún krafðist þó ekki yfirmats, heldur óskaði hún eftir áliti örorkunefndar. Skilaði nefndin niðurstöðu þann 2. september 2008.
Örorkunefnd taldi að varanlegur miski og varanleg örorka væri 5%. Stefnandi hefði verið veik án rúmlegu í þrjá mánuði eftir slysið og að stöðugleikapunktur væri 1. október 2003.
Um orsakatengsl segir nefndin: „ telur, að tjónþoli hafi í umferðarslysinu þann 1. júlí 2003, hlotið væga baktognun. Tjónþoli leitaði ekki til læknis fyrr en hartnær 10 mánuðum eftir slysið, en örorkunefnd telur að tjónþoli verði að njóta þess vafa sem kann að leika um orsakasamband núverandi einkenna við slysið 1. júlí 2003.“
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu hafnaði stefndi Vátryggingafélag Íslands greiðsluskyldu með bréfi dags. 11. september 2008. Vísaði félagið til niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna.
Stefnandi sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að bifreið stefnda hefði örugglega verið á talsverðri ferð. Grind á bifreið sinni hefði skekkst. Hún kvaðst ekki hafa áttað sig á því fyrst að verkir sínir stöfuðu af slysinu. Verkirnir væru í bakinu og þegar þeir væru mestir leiddu þeir niður í fætur. Hún kvaðst ekki hafa lent í neinum öðrum slysum og ekki hafa verið með þessi einkenni fyrir.
Bryndís Sveinbjarnardóttir var farþegi í bifreið stefnanda umrætt sinn. Hún sagði fyrir dómi að áreksturinn hefði verið harður.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi vísar til þess að stefndi Guðmundur hafi verið eigandi bifreiðarinnar X-958 og að hún hafi verið tryggð með lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands. Stefndu beri óskipta ábyrgð samkvæmt 88.-91. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en ökumaður bifreiðar stefnda Guðmundar hafi átt alla sök á árekstrinum.
Stefnandi byggir kröfur sínar á álitsgerð örorkunefndar og matsgerð þeirra Björns Daníelssonar og Stefáns Dalberg. Örorkunefnd hafi talið að hún hafi hlotið væga baktognun í slysinu og að hún yrði að njóta vafans sem kynni að vera um orsakasamhengi milli slyssins og örorku hennar. Stefnandi vill leggja niðurstöður nefndarinnar til grundvallar og styður mál sitt við 10. gr. skaðabótalaga. Þær séu vel rökstuddar og umfjöllun nefndarinnar gallalaus að formi til.
Stefnandi telur að matsgerð Guðjóns Baldurssonar og Birgis G. Magnússonar sé gölluð og að hún byggist á röngum grundvelli. Í matsgerðinni segi að slyssins sé fyrst getið í gögnum 21. febrúar 2006 og að ekki hafi verið rætt um slysið fyrr. Á þeim grundvelli hafi matsmenn talið að orsakatengsl væru ósönnuð. Í sjúkraskrá Heilsugæslustöðvar Selfoss sé þess getið í færslu 8. mars 2005 að stefnandi hafi lent í umferðarslysi. Þá sé slyssins getið í læknisvottorði 21. febrúar 2006. Matsmenn virðist ekki hafa kynnt sér skráningar í sjúkraskrá Heilsugæslustöðvarinnar.
Þá telur stefnandi að niðurstaða matsmanna um að telja orsakatengsl ósönnuð byggist á veikum grunni og sé ekki í samræmi við beitingu sönnunarreglna í skaðabótarétti.
Stefnandi bendir á að áreksturinn hafi verið harður. Bifreið hennar hafi verið nánast kyrrstæð en bifreiða stefnda Guðmundar hafi verið sögð á 40 km hraða. Þá hafi Bryndís Sveinbjarnardóttir, farþegi í bifreið stefnanda, hlotið áverka og hafi stefndi Vátryggingafélag Íslands bætt henni tjónið. Þá liggi fyrir að stefnandi hafi leitað til læknis vegna slyssins og sótt sjúkraþjálfun. Því telur stefnandi að hún hafi fært fram fullar sönnur fyrir tjóni sínu og að það sé af völdum umferðarslyssins. Þá sé það viðurkennd regla í skaðabótarétti að tjónþoli skuli njóta vafans ef einhver vafi sé um orsakatengsl.
Fjárkrafa stefnanda er byggð á álitsgerð örorkunefndar og matsgerð Björns Daníelssonar og Stefáns Dalbergs. Varanlegur miski sé 5% og varanleg örorka sé 5%. Þá hafi hún verið talin veik án rúmlegu í þrjá mánuði. Stöðugleikapunktur var ákveðinn 1. október 2003. Niðurstaða nefndarinnar hafi verið nánast samhljóða niðurstöðu Björns Daníelssonar og Stefáns Dalbergs. Því sé krafist bóta eins og gert hafi verið með kröfubréfi lögmanns stefnanda 23. ágúst 2006, nema hvað útreikningur á varanlegum miska sé leiðréttur til samræmis við niðurstöðu örorkunefndar. Þá sé krafist dráttarvaxta af kröfufjárhæð frá 23. ágúst 2006.
Í munnlegum málflutningi vísaði stefnandi jafnframt til þess að matsmaðurinn Birgir G. Magnússon hefði verið starfsmaður stefnda Vátryggingafélags Íslands. Því mætti draga óhlutdrægni hans í efa.
Stefnandi reiknar kröfu sína í samræmi við lánskjaravísitölu í september 2006, þegar bótakrafa var sett fram, sbr. 15. gr. skaðabótalaga.
Þjáningabætur í þrjá mánuði er hún hafi verið veik án rúmlegu, 1.112 krónur á dag, samtals 100.080 krónur.
Miskabætur 317.672 krónur.
Bætur fyrir varanlega örorku er reiknuð í stefnu miðað við lágmarksviðmiðun árslauna og stuðul samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga. Krafan nemur 1.760.793 krónum.
Stefnandi krefst greiðslu kostnaðar af akstri til matsfunda og rannsókna á vegum matsmanna, vegna matsgerðar, vegna öflunar álitsgerðar örorkuefndar og vegna öflunar læknisvottorða og skattframtala 407.643 krónur.
Stefnukrafan er því að höfuðstól 2.601.068 krónur.
Stefnandi krefst vaxta af þjáninga- og miskabótum frá tjónsdegi. Vaxta af bótum fyrir varanlega örorku krefst hún frá stöðugleikapunkti, 1. október 2003. Frá 23. ágúst 2006 krefst hún dráttarvaxta, en þann dag hafi stefnandi verið krafinn um greiðslu.
Stefnandi vísar til almennra meginreglna skaðabóta- og vátryggingaréttar um bætur vegna umferðarslysa, 88.-91. gr. umferðarlaga og ákvæðum skaðabótalaga, einkum 1., 3., 4., 5.-7. og 15. og 16. gr.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu mótmæla því ekki að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni í slysinu. Hins vegar hafi henni ekki tekist að sanna að orsakatengsl séu á milli slyssins og þeirra líkamlegu einkenna sem krafa hennar sé byggð á. Því séu ekki forsendur til að fallast á bótaskyldu í málinu. Verði ekki fallist á aðalkröfu um sýknu telja stefndu að lækka beri dómkröfu stefnanda. Sé þar litið til útreiknings einstakra bótaliða, en stefndu féllu frá andmælum við miska- og örorkustigi.
Stefndu segjast vilja benda á að það sé meginregla að sá sem krefjist skaðabóta verði að sanna m.a. að orsakatengsl séu á milli hinnar bótaskyldu háttsemi og tjónsins sem krafist er bóta fyrir. Stefnanda hafi hér ekki tekist sú sönnun.
Benda stefndu á þessi atriði:
Stefnandi hafi ekki kvartað undan eymslum við lögreglu eftir áreksturinn.
Stefnandi hafi ekki verið óvinnufær í kjölfar slyssins.
Stefnandi hafi ekki leitað til læknis eftir slysið.
Stefnandi hafi fyrst komið til heimilislæknis nærri tíu mánuðum eftir slysið. Þá hafi hún verið ólétt og kvartað um verki í baki. Ekki sé þar minnst á slysið. Sé það einkennilegt þar sem haft er eftir stefnanda síðar í læknisvottorðum að hún hafi farið að kenna sér meins í mjóbaki með doðatilfinningu niður í báða fætur nokkrum dögum eða viku eftir slysið þann 1. júlí 2003. Fram komi í matsgerð að almennt megi reikna með að tognunaráverkar á baki kom fram strax eða á næstu vikum eftir slys.
Stefnandi hafi fengið vottorð læknis um að hún væri óvinnufær vegna bakverkja í apríl 2004. Ganga verði út frá því að þeir bakverki hafi verið tengdir óléttunni, en ekki slysinu.
Stefnandi hafi ekki minnst á bakvandamál tengd slysinu við mæðraeftirlit síðari hluta árs 2003 og fyrri hluta árs 2004.
Stefndu telja að barnsburður stefnanda hafi haft áhrif á líkamlegt ástand hennar og e.t.v. valdið þeim meinum sem hrjá hana nú.
Stefnandi hafi ekki leitað til læknis með vandamál er hún vildi tengja slysinu fyrr en 8. mars 2005, rúmlega 20 mánuðum eftir slysið. Þá sé bókað í sjúkraskrá að hún hafi lent í aftanákeyrslu fyrir 2 árum og verið með verki milli herðablaða, í hálsi og herðum.
Fram komi í áliti örorkunefndar að stefnandi hafi sagt að hún hafi oft fundið fyrir vöðvabólgu í hálsi og herðum.
Í læknisvottorði frá 6. maí 2005 segi að sjúkraþjálfari hafi mánuði fyrr greint stefnanda með grindargliðnun. Þá sé í læknisvottorði 7. nóvember 2006 sagt að stefnandi hafi átt sér sögu um fyrri bakverki.
Stefndu benda á að þar sem langur tími leið þar til stefnandi leitaði til læknis sé útilokað að sjá hvor og hvaða marki önnur atvik hafi orsakað þau mein sem hrjái stefnanda.
Stefndu benda á að einkennum stefnanda sé ekki lýst með sama hætti við komu til læknis annars vegar 8. mars 2005 og hins vegar 6. maí 2005 og 21. febrúar 2006.
Stefndu byggja á því að matsmennirnir Björn Daníelsson og Stefán Dalberg hafi ekki haft undir höndum læknisvottorð frá 20. september 2006, þar sem greint hafi verið frá komu stefnanda til læknis 8. mars 2005 og 21. febrúar 2006. Þá hafi þeir ekki haft vottorð frá 7. nóvember 2006 þar sem fram komi að í heimsókn til læknis 22. apríl 2004 hafi stefnandi ekki tengt bakvandamál sín við slysið og að hún ætti sögu um bakvandamál. Örorkunefnd hafi heldur ekki haft síðastgreint vottorð undir höndum.
Stefndu segja að örorkunefnd nefni ekki að gögn málsins bendi ekki til þess að stefnandi hafi tengt bakvandamál sín við slysið er hún leitaði læknis 10 mánuðum eftir slysið. Þá nefni nefndin ekki fyrri bakvandamál stefnanda. Nefndin hafi haft takmörkuð gögn um fyrra heilsufar undir höndum. Þá sýnist nefndin líta fram hjá meginreglunni um að stefnandi beri sönnunarbyrði um orsakatengsl þegar hún dragi þá ályktun að vafi eigi að koma stefnanda til góða. Vafi ætti hér frekar að leiða til þess að orsakatengsl teldust ósönnuð.
Að gefnu tilefni í málflutningi mótmæltu stefndu því að matsmaðurinn Birgir G. Magnússon væri hlutdrægur. Hann væri hættur störfum hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands.
Stefndu gera þessar athugasemdir um einstaka kröfuliði:
Niðurstöður matsgerða um að stefnandi hafi verið veik sé ekki í samræmi við 3. gr. skaðabótalaga eins og henni hafi verið beitt af Hæstarétti. Skýr fordæmi réttarins séu fyrir því að tjónþoli geti ekki talist veikur nema á því tímabili sem hann er óvinnufær. Stefnandi hafi aldrei verið óvinnufær vegna slyssins. Þá sé ósannað að hún hafi pínt sig til vinnu. Mótmæla stefndu sjónarmiðum matsmanna og örorkunefndar um þjáningabætur.
Verði fallist á greiðslu þjáningabóta gera stefndu athugasemdir við útreikning þeirra. Miða hafi átt við lánskjaravísitölu í ágúst 2006, en ekki vísitölu septembermánaðar. Þetta gildi einnig um miskabótakröfu stefnanda. Þjáningabótakrafan miðað við forsendur í stefnu ætti að vera að fjárhæð 99.900 krónur. Hins vegar væri réttara að miða við dagsetningu stefnu, 18. desember 2008. Þá væri krafan að fjárhæð 122.400 krónur.
Á sama hátt ætti miskabótakrafa miðað við forsendur í stefnu að vera 316.575 krónur. Miðað við dagsetningu stefnu ætti hún að vera 387.800 krónur.
Varðandi kröfu um bætur fyrir varanlega örorku benda stefndu á að samkvæmt dómaframkvæmd skuli lágmarksárslaunaviðmiðun reiknuð til stöðugleikatímapunkts, þ.e. 1. október 2003, en ekki til vísitölu í september 2006 eins og stefnandi geri. Rétt viðmiðun sé 1.645.500 krónur. Þá sé útreikningur á margfeldisstuðli í stefnu rangur. stefnandi hafi á stöðugleikapunkti verið 18 ára og 44 daga gömul. Réttur sé stuðullinn 18,422. Því sé brúttótjón stefnanda 1.515.670 krónur, en ekki 1.760.793 krónur.
Stefndu gera ekki athugasemdir við kröfu stefnanda um endurgreiðslu kostnaðar, nema hvað varðar kostnað af matsgerð Björns Daníelssonar og Stefáns Dalberg. Álitsgerð örorkunefndar sé lögð til grundvallar stefnukröfu, en auk þess skorti nokkuð á að matsgerðirnar byggist á fullnægjandi gögnum.
Stefndu mótmæla kröfu stefnanda um upphafsdag dráttarvaxta. Með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001 telja þeir að reikna ætti dráttarvexti frá dómsuppsögudegi. Skort hafi á að matsgerðir er stefnandi byggi á sé reistar á fullnægjandi gögnum. Þannig hafi verið bent á það í bréfi 1. september 2006 að ekki væri hægt að taka afstöðu til fyrirliggjandi matsgerðar og kröfubréfs stefnanda, dags. 23. ágúst sama ár, nema að fengnum frekari upplýsingum um fyrra heilsufar stefnanda. Þessar upplýsingar hafi aðeins að litlu leyti verið lagðar fram. Þá sé krafa stefnanda byggð á álitsgerð örorkunefndar frá 2. september 2008.
Verði ekki á framangreint fallist telja stefndu að í fyrsta lagi eftir framlagningu læknisvottorðs, dags. 7. nóvember 2006, sé hægt að segja að stefnandi hafi lagt fram nauðsynlegar upplýsingar. Því ætti ekki að geta komið til greiðslu dráttarvaxta fyrr en í fyrsta lagi frá og með einum mánuði eftir að það vottorð var lagt fram. Vottorð þetta hafi borist stefnda Vátryggingafélagi Íslands 22. nóvember 2006.
Loks verði aldrei hægt að reikna dráttarvexti fyrr en frá 23. september 2006, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Þá geti af sömu ástæðu ekki komið til greiðslu dráttarvaxta af matskostnaði og greiðslum fyrir læknisvottorð fyrr en frá 9. október 2008, en kröfubréf sé dagsett 9. september 2008.
Forsendur og niðurstaða.
Ekki er deilt um það að stefndu beri bótaábyrgð á tjóni stefnanda, hafi hún orðið fyrir einhverju tjóni í umræddum árekstri. Stefndu mótmæla ekki niðurstöðu örorkunefndar um örorku- og miskastig stefnanda. Þeir telja hins vegar að þessi mein hennar verði ekki rakin til umrædds slyss.
Þeir Björn Daníelsson og Stefán Dalberg voru ekki dómkvaddir til að meta örorku stefnanda. Matsgerðar þeirra aflaði stefnandi án samþykkis stefndu og verður því ekki hægt að byggja á henni sem sönnunargagni í málinu.
Í matsgerð Guðjóns Baldurssonar og Birgis G. Magnússonar er komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu orsakatengsl á milli einkenna stefnanda og slyssins. Byggja þeir niðurstöðu sína á mati á sönnunargögnum þeim sem fyrir þá voru lögð. Með þessu hafa matsmenn farið út fyrir það hlutverk sem matsmönnum er ætlað í lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991. Sönnun um einstök atvik og orsakasamhengi milli þeirra er meðal þeirra atriða sem leyst skal úr með dómi og verður vald dómstóla til að meta sönnunargögn ekki framselt til matsmanna. Á sama hátt verður ekki unnt að byggja á niðurstöðu örorkunefndar sem sönnunargagni um þetta atriði. Nefndinni er í lögum nr. 50/1993 falið það hlutverk að meta örorku og miskastig. Dómurinn verður því á grundvelli þeirra sönnunargagna sem lögð hafa verið fram að leysa úr um það hvort orsakasamhengi sé á milli örorku stefnanda og slyssins.
Taka verður fram að matsmaðurinn Birgir G. Magnússon er ekki vanhæfur til matsstarfa þó að hann hafi á einhverjum tíma verið starfsmaður stefnda Vátryggingafélags Íslands.
Af frumskýrslu lögreglu má ráða að áreksturinn hafi ekki verið harður. Með framburði stefnanda og Bryndísar Sveinbjarnardóttur, sem var farþegi í bifreið hennar, má þó telja sannað að áreksturinn hafi verið talsvert harður og er ekki ósennilegt að mein eins og þau sem hrjá stefnanda komi til við slíkan árekstur.
Stefnandi leitaði ekki til læknis eftir slysið og liggja því ekki fyrir nein læknisfræðileg gögn um hana fyrr en löngu síðar. Það athugast að sú ályktun að stefnandi hafi verið með grindargliðnun er hún gekk með fyrsta barn sitt virðist frekar vera tilgáta en niðurstaða athugunar eða rannsóknar. Þá er ekki skýrt í gögnum málsins hver dró þessa ályktun.
Mein stefnanda eru minni háttar þó varanleg séu. Er ekki sjálfgefið að þeir sem meiðast lítillega leiti til læknis í kjölfar slyss. Þá var stefnandi aðeins 17 ára gömul er áreksturinn varð og er því ekki hægt að gera sömu kröfur til hennar í þessu efni og gera mætti til fullorðinna einstaklinga.
Dómurinn telur að fyrri saga um vöðvabólgu skipti ekki máli hér. Þá verður að miða við þá frásögn stefnanda að hún hafi ekki lent í öðru óhappi er leitt hefði getað til umræddrar örorku og miska. Stefnandi virðist ekki hafa nefnt áreksturinn í tengslum við bakverki sína fyrr en löngu síðar. Telur dómurinn að þetta geti ekki ráðið úrslitum hér. Hún gekk með barn fljótlega eftir slysið og var einfalt að tengja því ýmiss konar vanlíðan. Að öllu virtu verður að telja að talsvert meiri líkur séu til þess að örorku stefnanda verði að rekja til árekstursins heldur en til þess að hún gekk með barn, ellegar annarra óþekktra atvika. Verður að telja að sönnun sé fram komin um að orsakasamhengi sé á milli örorku hennar og árekstursins, en stefndu viðurkenna að þeir beri ábyrgð á afleiðingum árekstursins.
Um einstaka liði bótakröfunnar:
Samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga skal greiða tilteknar þjáningabætur á tímabilinu frá slysi og fram til þess að heilsufar hins slasaða er orðið stöðugt. Í ákvæðinu er þó óbeint settur sá fyrirvari að viðkomandi sé óvinnufær. Ekkert liggur fyrir í málinu um að stefnandi hafi verið óvinnufær á þeim tíma er leið frá slysinu og fram til þess tíma er örorkunefnd telur að líðan hennar hafi verið orðin stöðug. Verður því að hafna kröfu um þjáningabætur.
Skilja verður stefndu svo að þeir mótmæli ekki miskabótakröfu stefnanda, sem er að fjárhæð 317.672 krónur.
Fallast verður á sjónarmið stefndu um útreikning bóta fyrir varanlega örorku. Nemur krafan 1.515.670 krónum.
Stefndu andmæla aðeins einum þætti í liðnum Annar kostnaður. Þeir mótmæla kostnaði af öflun matsgerðar þeirra Björns Daníelssonar og Stefáns Dalberg. Verður að fallast á að þar sem þeir voru ekki dómkvaddir og stefndu komu ekki að tilnefningu þeirra, getur stefnandi ekki krafist endurgreiðslu þessa kostnaðar. Stefnanda verða dæmdar 266.762 krónur vegna útlagðs kostnaðar.
Stefndu verða því dæmdir til að greiða stefnanda 2.100.104 krónur (317.672 + 1.515.670 + 266.762).
Vextir samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, 4,5%, verða dæmdir af miskabótakröfu frá slysdegi og af bótum fyrir varanlega örorku frá 1. október 2003, en stefndu bera ekki fyrir sig fyrningu. Stefnandi krafði um bætur með bréfi dags. 23. ágúst 2006. Þar sem krafa hans er byggð á niðurstöðu örorkunefndar er hins vegar ekki unnt að miða upphafstíma dráttarvaxta við þessa dagsetningu. Verður eins og hér stendur á að miða við dagsetningu álitsgerðar örorkunefndar og reikna dráttarvexti mánuði síðar, frá 2. október 2008. Dráttarvextir af útlögðum kostnaði reiknast frá sama degi.
Stefnandi hefur gjafsókn eins og áður segir og verður gjafsóknarkostnaður greiddur úr ríkissjóði. Málflutningsþóknun er ákveðin 925.000 krónur með virðisaukaskatti. Annar kostnaður nemur 25.780 krónum. Stefndu verða dæmdir til að greiða 775.000 krónur í málskostnað í ríkissjóð.
Dóm þennan kveða upp Jón Finnbjörnsson héraðsdómari og meðdómendurnir Bogi Jónsson, bæklunarskurðlæknir, og Gauti Grétarsson, sjúkraþjálfari.
D ó m s o r ð
Stefndu, Guðmundur Sigurdórsson og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Önnu Lind Jóns Friðriksdóttur, 2.100.104 krónur auk 4,5% ársvaxta af 317.672 krónum frá 1. júlí 2003 til 1. október sama ár, af 1.833.342 krónum frá þeim degi til 2. október 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 2.100.104 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 950.780 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Stefndu greiði óskipt 775.000 krónur í málskostnað í ríkissjóð.