Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-119

A (Sveinn Andri Sveinsson lögmaður)
gegn
B (Jón Gunnar Ásbjörnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Kærumál
  • Endurupptaka
  • Réttaráhrif dóms
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 8. nóvember 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 27. október sama ár í máli nr. 667/2023: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um hvort fella skuli úr gildi að öllu leyti réttaráhrif dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E–3112/2023, sem kveðinn var upp 12. júní 2023, þar til málinu lýkur á ný í héraði. Stefna málsins var upphaflega birt á lögheimili gagnaðila fyrir manni sem þar hittist fyrir og þingfest 11. maí 2023. Málið var dómtekið í þeim búningi sem það var lagt fram af sóknaraðila en þing var ekki sótt af hálfu gagnaðila. Beiðni gagnaðila um endurupptöku málsins barst héraðsdómi 16. júní 2023 og var það endurupptekið 22. ágúst sama ár.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að taka kröfu gagnaðila um endurupptöku málsins til greina. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að gagnaðili hafi ekki átt þess kost fyrir dómtöku málsins að nýta sér rétt sinn samkvæmt 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 til að lýsa fyrir dómi mótrökum sínum við því að á honum hvíli þær skyldur sem leyfisbeiðandi heldur fram í málinu. Landsréttur taldi að ekki yrði séð að með beiðni um endurupptöku málsins tefði gagnaðili fullnustu á óyggjandi réttindum leyfisbeiðanda. Málatilbúnaður gagnaðila væri með þeim hætti að rétt þætti að hann nyti þess vafa sem uppi væri um endanlegar lyktir málsins eftir að andmæli hans við kröfum leyfisbeiðanda væru komin fram. Þá leit Landsréttur til þess að leyfisbeiðandi hefði látið kyrrsetja tilgreindar eignir gagnaðila fyrir kröfum sínum í málinu.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið varði mikilsverða almannahagsmuni þar sem ekki skuli að ófyrirsynju hrófla við réttaráhrifum útivistardóms. Þá byggir hún á því að málið hafi mikið fordæmisgildi einkum um þau viðmið sem skuli líta til þegar metin eru réttaráhrif útivistardóms, viðmið um hvort þau skuli haldast og gildi tryggingar sem leiði af 96. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Að endingu byggir leyfisbeiðandi á því að hinn kærði úrskurður sé bersýnilega rangur meðal annars þar sem ekki er litið til þess að fjárnám sé lagalega sterkari trygging en kyrrsetning. Hagsmunir gagnaðila séu takmarkaðir af því að réttaráhrif dómsins falli niður og gagnaðili hafi ekki leitt að því líkur að niðurstaða útivistardómsins sé röng eða að staða hans ekki tryggð eftir 96. gr. laga nr. 90/1989.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið geti haft mikilsverða almannahagsmuni eða fordæmisgildi þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 3. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.