Hæstiréttur íslands

Mál nr. 366/2003


Lykilorð

  • Vinnusamningur
  • Endurkrafa


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. apríl 2004.

Nr. 366/2003.

Íslenska ríkið

(Óskar Thorarensen hrl.)

gegn                                                     

Kristjáni S. Guðmundssyni

(Ástráður Haraldsson hrl.)

og gagnsök

 

Vinnusamningur. Endurkrafa.

Deilt var um túlkun samnings um starfslok K hjá Í. Í taldi að í samningnum hefði falist að laun vegna unninnar yfirvinnu, auk þóknunar fyrir nefndarstörf K, skyldu falla niður vegna hærri fastra launa og fastrar yfirvinnu, sem hann fengi í staðinn með samningnum. Þessu mótmælti K og krafðist þess að bakfærsla Í á launum til hans yrði dæmd ólögmæt. Talið var að Í bæri sönnunarbyrði fyrir því að samið hefði verið við K á þann hátt sem Í byggði á. Þar sem Í þótti ekki hafa tekist sú sönnunarfærsla var umrædd bakfærsla talin ólögmæt. Aðrar kröfur K voru lækkaðar með vísan til þess að Í hafði ofgreitt honum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. september 2003. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.

Héraðsdómi var gagnáfrýjað 25. nóvember 2003. Gagnáfrýjandi krefst þess að viðurkennt verði að bakfærsla launa hans frá aðaláfrýjanda samkvæmt launaseðli nr. 16-2001, samtals að fjárhæð 2.093.990 krónur, hafi verið ólögmæt og að aðaláfrýjanda verði gert að endurgreiða honum 480.935 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 96.187 krónum frá 1. febrúar 2002 til 1. mars sama árs, af 192.374 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama árs, af 288.561 krónu frá þeim degi til 1. maí sama árs, af 384.748 krónum frá þeim degi til 1. júní 2002 og af 480.935 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Gagnáfrýjandi krefst staðfestingar héraðsdóms um málskostnað í héraði. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda, Kristjáni S. Guðmundssyni, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2003.

Stefnandi málsins er Kristján S. Guðmundsson, kt. 220934-2769, Rauðagerði 39, Reykjavík, en stefndi er íslenska ríkið, kt. 550269-1639, Arnarhváli.

Málið er höfðað með stefnu, dagsettri 24. júní 2002, sem árituð var um birtingu af ríkislögmanni f.h. stefndu 25. sama mánaðar. Það var þingfest hér í dómi 27. sama mánaðar, en dómtekið  25. mars sl. að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi.

Dómkröfur:

Stefnandi krefst þess, að viðurkennt verði að bakfærsla launa stefnanda frá stefnda skv. launaseðili nr. 16-2001, samtals að fjárhæð 2.093.990 krónur, hafi verið ólögmæt.

Stefnandi krefst þess einnig, að stefnda verði gert að endurgreiða honum 480.935 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, af 96.187 kr. frá 1. febrúar 2002 til 1. mars s.á., þá af 192.374 kr. frá þeim degi til 1. apríl s.á., þá 288.561 kr. frá þeim degi til 1. maí s.á., þá af 384.748 kr. frá þeim degi til 1. júní s.á. og loks af 480.935 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati réttarins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Stefndi krefst, aðallega, sýknu af kröfum stefnanda og að stefnda verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins.

Til vara krefst stefndi þess, að stefnukrafa verði lækkuð verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

Málavextir, málsástæður og lagarök málsaðila.

Málsatvik eru þau í stórum dráttum, að stefnandi var ráðinn framkvæmdastjóri rannsóknarnefndar sjóslysa (eftirleiðis rannsóknarnefnd) frá og með 1. janúar 1987 með skriflegum ráðningarsamningi, sem dagsettur er 5. sama mánaðar. Að sögn stefnanda hafi þess verið beiðst, að hann gegndi svokölluðum bakvöktum í kjölfar alvarlegs sjóslyss, sem átti sér stað 22. nóvember 1991, en ekki hafi þá verið hægt að ná sambandi við hann. Hafi honum verið gert að ganga með boðtæki, einnig í sumarleyfum, þannig að hægt væri að kalla hann til fyrirvaralaust, ef ástæða þætti. Um hafi verið að ræða ótvíræða vinnuskyldu á bakvöktum.  Ekki hafi verið gengið frá greiðslum fyrir aukið álag, sem þessu var samfara.  Stefnandi hafi gengið eftir greiðslum fyrir bakvaktirnar, samkvæmt kjarasamningum starfsmanna ríkisins, en ávallt fengið þau svör, að málið væri í athugun.  Hann lagði fyrst fram skriflega kröfu um greiðslu bakvaktarálags með bréfi til samgönguráðuneytisins, dags. 22. nóvember 2000, og krafðist þess að fá greitt fyrir bakvaktarálag frá árinu 1991, þegar fyrst var óskað eftir því, að hann bæri boðtæki. Samgönguráðuneyti vísaði stefnanda á fjármálaráðuneytið og stéttarfélag hans. Stefnandi bar erindið undir fjármála­ráðuneytið með bréfi, dags. 5. desember s.á., og leitaði jafnframt aðstoðar hjá Starfs­mannafélagi ríkisstofnana. Gestur Jónsson, þáverandi lögmaður starfsmannafélagsins, hafði að sögn stefnanda milligöngu um viðræður milli aðila, en hætti fljótlega afskiptum af málinu, eftir að samband var komið á milli stefnanda og Jóns Birgis Jónssonar, ráðuneytisstjóra. Stefnandi segist eftir þetta einn hafa séð um sín mál gagnvart stefnda.  Stefnanda kvað sér hafa orðið ljóst á miðju ári 2000, eftir að lög nr. 68/2000 tóku gildi, að stefndi hefði ákveðið að ráða annan mann í hans stað.  Starfið hafi verið auglýst laust til umsóknar.  Í kjölfarið hafi viðræður átt sér stað um starfslok hans. Í þeim samningaviðræðum segist stefnandi hafa lagt á það höfuðáherslu, að hann fengi sömu laun greidd og sá sem við starfi hans tæki og að gengið yrði til samninga við hann um greiðslu fyrir bakvaktir. Starfslokasamningur var gerður við stefnanda 10. september 2001.

Samningurinn og túlkun hans er kveikjan að ágreiningi málsaðila, sem hér er til úrlausnar. Því verður efni samningsins nú rakið í meginatriðum. Stefnandi skyldi láta af hefðbundnum störfum hjá rannsóknarnefnd 1. nóvember 2001, en skyldi eftir það færa upplýsingar um sjóslys fyrir árin 1986 til 2001 inn í nýjan hugbúnað rannsóknarnefndar sjóslysa. Verkinu var skipt í þrjá áfanga og skyldi þriðja og síðasta áfanga lokið fyrir 30. september 2004, en þá átti stefnandi endanlega að láta af störfum.  Stefnandi skyldi leggja sér til vinnuaðstöðu, sem ekki yrði sérstaklega greitt fyrir umfram greiðslur skv. samningi þessum, eins og segir í 3. gr. samningsins. Þá átti rannsóknarnefnd að láta stefnanda í té tölvu með nauðsynlegum búnaði og prentara, ásamt nauðsynlegum tengingum (4. gr.).  Síðan er samningurinn orðréttur þannig: 5. Mánaðarlaun verða samkvæmt launaflokki C-15 eða krónur 290.253.- og skulu hækka í samræmi við launaflokkahækkanir framkvæmdastjóra nefndarinnar. Föst yfirvinna verður greidd sem nemur 37 klukkustundum á mánuði og skal fjöldi yfirvinnutíma haldast óbreyttur út samningstímann. 6. Auk launa samkvæmt 2. lið fær Kristján greiddar tvær fastar greiðslur á ári árin 2001-2004, krónur 250.000 í hvert skipti og skulu greiðslurnar inntar af hendi 1. mars og 1. september ár hvert samtals 8 greiðslur. Báðar samningsgreiðslur vegna ársins 2001 skulu greiddar við undirritun samnings þessa. 7. Lífeyrissjóðsgreiðslur fyrir Kristján skulu taka mið af launum framkvæmdastjóra rannsóknarnefndar sjóslysa á hverjum tíma. 8…… 9. Með samningi þessum eru til lykta leidd öll álitamál sem uppi hafa verið á milli Kristjáns og rannsóknarnefndar sjóslysa og samgönguráðuneytisins., þ.m.t. mál er varða bakvaktargreiðslur og orlof. Kristján fellur frá öllum kröfum sem hann hefur gert á hendur samgönguráðuneytinu og rannsóknarnefnd sjóslysa. Samningsaðilum er kunnugt um að Kristján á inni ótekið 30 daga orlof sem hann mun taka út í september eða október 2001. Eftir undirritun samnings þessa á Kristján ekki frekari kröfur á hendur rannsóknarnefnd sjóslysa og samgönguráðuneytinu en sem felast í samningi þessum.  10. Samningur þessi gildir frá 1. janúar 2001 til 30. september 2004 en þá lætur Kristján endanlega af störfum við þau verkefni sem tilgreind eru í 1. gr.  Samningurinn er undirritaður af stefnanda, Inga Tryggvasyni, formanni sjóslysanefndar, f.h. nefndarinnar, og Jóni Birgi Jónssyni, ráðuneytisstjóra, f.h. samgönguráðuneytisins.

Starfslokasamningur stefnanda fól það einkum í sér, að grunnlaun hans hækkuðu verulega, auk þess sem hluti af launakjörum hans fólst í 37 yfirvinnustundum á mánuði án vinnuskyldu, en áður hafði stefnanda verið greidd yfirvinna fyrir unnar yfirvinnustundir, samkvæmt framlögðum reikningi.  Stefndi breytti útfærslu á 5. gr. samningsins þannig, að í stað launaflokks C-15 skyldi koma D-14 og yfirvinnufjöldi á mánuði skyldi vera 39 í stað 37, eins og segir í þessari grein samningsins. Málsaðila greinir ekki á um þá breytingu.

Föst laun stefnanda voru síðan bakfærð, ásamt hluta yfirvinnu miðað við 1. janúar 2001, en honum greidd samtímis laun á grundvelli samningsins og yfirvinna fyrir sama tímabil, hvort tveggja með launaseðli nr. 11-2001, sem dagsettur er 5. október 2001. Ríkisbókhald sendi stefnanda bréf, dags. 29. janúar 2002, sem er svohljóðandi: Efni: Ofgreidd laun. Við skoðun launagreiðslna til þín í kjölfar starfslokasamnings kom í ljós að greiðslur til þín voru rangar. Þannig hefði átt að bakfæra þá eftirvinnu til þín sem greidd hafði verið á árinu, en í stað áttu að koma greiðslur skv. starfslokasamningi. Sama máli gilti um greiðslu nefndarlauna. Eins og þér er kunnugt var þetta ekki gert með þessum hætti. Að beiðni samgönguráðuneytis hafa því greiðslur verið leiðréttar í lokabakfærslu ársins. Niðurstaða leiðréttingar er skuld að fjárhæð kr. 1.154.241.  Meðfylgjandi sendist þér launaseðill úr bakfærslu sem sýnir leiðréttinguna. Endurgreiðslu skuldar þessarar verður dreift á 12 mánuði og verða því kr. 96.187,- dregnar frá launum við næstu útborgun…. Bakfærslan var gerð með launaseðli nr. 16-2001, sem dags. er 31. desember 2001.

Aðalkrafa stefnanda lýtur að því, að bakfærslan verði dæmd ólögmæt.

Þegar mál þetta var höfðað, hafði stefnandi hafði dregið af launum stefnanda í fimm mánuði 96.187 kr., samtals 480.935 kr., sem stefnandi gerir kröfu til að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða honum. Nú hefur öll sú fjárhæð, sem stefndi telur, að stefnanda hafi verið ofgreidd, verið endurgreidd af stefnanda með afdrætti af mánaðarlaunum hans. Við aðalmeðferð málsins hafnaði lögmaður stefnda beiðni lögmanns stefnanda um að fá að breyta kröfum sínum í þá veru að gera kröfu til endurgreiðslu allrar þeirrar fjárhæðar, sem stefndi hefur dregið af launum stefnanda, þ.e. 1.154.241 kr.

Málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi byggir á því, að stefnda beri að efna starfslokasamning málsaðila, samkvæmt efni hans.  Samkvæmt launaseðli nr 16-2001 hafi verið bakfærð laun stefnanda, samtals að fjárhæð 2.093.990 kr. vegna yfirvinnu og nefndarstarfa, sem nemi eftir staðgreiðslu 1.154.241 kr.  Stefnandi hafi aldrei afsalað sér launum vegna unninnar yfirvinnu né heldur vegna nefndarþóknunar. Hann hafi þvert á móti átt að halda launum sínum vegna þessara starfa.  Bakfærslan sé því skýrt brot á starfsloka­samningi málsaðila. Sú túlkun stefnda á starfslokasamningi málsaðila, að stefnandi hafi afsalað sér launum fyrir yfirvinnu og nefndarstörf, sé beinlínis röng og eigi sér enga stoð í samningnum sjálfum. Þurft hefði að taka það skýrt fram í samningnum, að unnin yfirvinna og nefndarstörf skyldu dragast frá, hefði svo átt að vera. Með samningnum hafi farið fram lokauppgjör á vangoldnum launum stefnanda á bakvöktum. Túlkun stefnda feli það í sér, að engar greiðslur kæmu upp í það uppgjör.  Stefnda hafi verið það fullljóst, eftir að Jón Birgir Jónsson ráðuneytisstjóri gerði stefnanda tilboð í júlí 2001, að forsenda stefnanda fyrir samningsgerðinni hafi verið greiðsla fyrir bakvaktir allt frá árinu 1991. Þar hafi verið lagt til, að stefnanda yrðu greiddar sex greiðslur, hver að fjárhæð 250 þúsund krónur á sex mánaða fresti fyrir bakvaktirnar. Gagntilboði stefnanda hafi verið tekið, sem hækkaði tilboð stefnda um 500 þúsund krónur og kvað einnig á um, að laun yrðu greidd afturvirkt frá 1. janúar 2001 að telja, hvort tveggja til að mæta kröfu stefnanda um ógreidd laun fyrir bakvaktir. Sönnunarbyrðin hvíli á stefnda í þessu tilliti. Stefnandi vísar einnig til gríðarlegs aðstöðumunar málsaðila við samningsgerðina.  Allan vafa verði því að túlka stefnanda í hag.  Þá byggir stefnandi á því, að stefndi hafi viðurkennt í verki með greiðslum í samræmi við starfslokasamninginn fyrstu þrjá mánuði eftir undirritun hans, að ekki ætti að bakfæra laun hans vegna unninnar yfirvinnu og nefndarlauna.  Stefndi hafi sent ríkisbókhaldi starfslokasamninginn með bréfi, dags. 14. septemer 2001, og fyrirmæli um það, hvernig greiða skyldi stefnanda samkvæmt honum. Stefndi hafi sent ríkisbókhaldi annað bréf, dags. 28. sama mánaðar, þar sem greiðslur til stefnanda séu nánar skýrðar og útfærðar. Í því bréfi sé heldur ekkert minnst á bakfærslu launa fyrir unna yfirvinnu.  Sá skilningur hafi fyrst borist ríkisbókhaldi með bréfi, dags. 11. janúar 2001. Þar sé mælt fyrir um bakfærslu unninnar yfirvinnu, orlofs og nefndarlauna.

Stefnandi byggir lögsókn sína á meginreglum samningaréttar um efndir gerðra samninga, og einnig á rétti sínum til endurgjalds vegna vinnu sinnar í þágu stefnda. Um greiðsluskyldu stefnda vísar stefnandi til meginreglna vinnuréttar um greiðslu verkkaups og meginreglna samningaréttar um skyldu til efnda samninga, auk laga nr. 30/1987 um orlof. Þá vísar stefnandi til laga nr. 55/1980, laga nr. 19/1979, laga nr. 80/1938 og laga nr. 7/1936. Til stuðnings dráttarvaxtakröfu sinni vísar stefnandi til laga III. kafla laga nr. 38/2001, en byggir málskostnaðarkröfu sína á XXI. kafla laga um meðferð einkamála (eml.) nr. 91/1991. Stefnandi rökstyður kröfu sína um virðisaukaskatt ofan á málflutningsþóknun með vísan til laga nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir á því, að ákvæði starfslokasamnings stefnanda séu tæmandi um öll lögskipti samningsaðila, enda sé endanlegt uppgjör eðli slíks samnings. Þetta sé tekið fram berum orðum í 9. gr. samningsins, að með samningnum væru til lykta leidd öll álitamál, sem uppi hefðu verið á milli stefnanda og rannsóknarnefndar sjóslysa og samgönguráðuneytis, þ.m.t. mál er vörðuðu bakvaktargreiðslur og orlof.  Starfs­lokasamningurinn hafi verið afturvirkur frá 1. janúar 2001, en gerður upp 10. septem­ber s.á. Leitt hafi af afturvirkni samningsins um breytt launakjör, að uppgjör þurfti að fara fram, sem fól það í sér, að öll áður greidd laun stefnanda, samkvæmt fyrri starfskjörum hans,  komu til frádráttar þeirri launahækkun, sem stefnanda var veitt með starfslokasamningnum.  Bakfærsla fyrri launa stefnanda, hafi verið hefðbundin  og hafi falist í eðlilegri túlkun starfslokasamningsins og því ekki talin þörf á að taka það fram í texta samningsins. Stefndi byggir á því, að stefnandi hafi með samþykki sínu á starfslokasamningnum afsalað sér launum fyrir unna yfirvinnu og nefndarþóknun ársins 2001 gegn greiðslu samkvæmt samningnum.  Mistök hafi valdið því, að aðeins hluti af fyrri starfskjörum stefnanda voru bakfærð og hafi þau uppgötvast við venjubundið eftirlit í ráðuneytinu.  Stefndi hafi tilkynnt ríkisbókhaldi um tilvist starfslokasamningsins með bréfi fjórum dögum eftir gerð hans. Þar sé lýst ákvæðum samningsins um tvær fastar greiðslur á ári, auk annarra starfskjara, sem breytt hafi verið stefnanda í hag, s.s. hvað launaflokk skyldi miða við, umsamdar fastar mánaðarlegar yfirvinnustundir.  Ekki hafi verið hægt að framkvæma fyrirmælin, þar sem umsaminn launaflokkur hafi ekki orðið til fyrr en 1. mars 2001. Því hafi þetta verið leiðrétt með bréfi, dags. 29. september s.á.

Mistök þau, sem gerð hafi verið hinn 5. október 2001, sbr. launaseðil nr. 11.2001, hafi legið í því, að mánaðarlaun stefnanda fyrstu 10 mánuði ársins hafi verið hækkuð/leiðrétt (janúar til og með október). Einnig hafi öll yfirvinna og orlofslaun, sem stefnandi hafði fengið greidd á árinu, verið hækkuð til samræmis í stað þess að bakfæra/skuldfæra þær greiðslur. Þá hafi til viðbótar honum verið greiddar þær föstu yfirvinnustundir, sem starfslokasamningurinn hafi kveðið á um (þ.e.  fyrir tímabilið frá 19. desember 2000 til 15. september 2001). Loks hafi láðst að bakfæra þá fjárhæð, sem stefnandi hafði þegið í þóknun fyrir nefndarstörf, sem hafi verið hluti af launakjörum hans (þ.e. 36 einingar á mánuði, einingarverð staðlað og því ótengt mánaðarlaunum öfugt við yfirvinnu).

Stefndi byggir á því, að leiðrétting á ranglega greiddum launum stefnanda hafi verið lögmæt og í samræmi við samning aðila.

Stefndi mótmælir því einnig, að starfslokasamningur málsaðila hafi falið í sér greiðslu bakvakta. Ekki hafi verið litið svo á, að stefnandi stæði bakvakt, þótt hann hafi verið beðinn um að bera boðtæki. Tilgangurinn með þeirri ráðstöfun hafi fremur verið sá, að auðveldara væri að ná sambandi við stefnanda utan reglulegs vinnutíma hans, líkt og nú eigi sér stað, þegar vinnuveitandi leggi starfsmönnum til farsíma. Stefnandi hafi fyrst sett fram skriflega ósk um bakvaktargreiðslu í nóvember árið 2000, eða u.þ.b. níu árum eftir að hann fór að bera boðtæki að ósk stefnda. Þetta hafi gerst eftir gildistöku nýrra laga um starfsemi rannsóknarnefndar sjóslysa og eftir að starf stefnanda hafði verið lagt niður. Því sé ljóst, að verulegur hluti meintrar kröfu stefnanda hafi þá verið fallinn niður fyrir fyrningu.

Stefndi mótmælir þeirri staðhæfingu stefnanda, að hann hafi ekki afsalað sér launum vegna unninnar yfirvinnu eða þóknunar fyrir setu á nefndarfundum. Stefndi byggir á því í þessu sambandi, að taka hefði þurft fram í starfslokasamningnum með ótvíræðum hætti, ef einhver tiltekinn þáttur launa hans hefði átt að vera undanþeginn afdrætti við afturvirkt uppgjör, eins og það, sem átti sér stað.  Samið hafi verið við stefnanda um, að honum skyldi greitt fyrir tiltekinn tímafjölda í hverjum mánuði, án tillits til þess hvort yfirvinna væri unnin eða ekki.  Slíkt fyrirkomulag kallist föst yfirvinna eða ómæld yfirvinnu, og viðtekin venja sé við gerð starfssamninga, að annaðhvort sé viðhaft slíkt fyrirkomulag eða greitt fyrir unna yfirvinnu skv. tímaskýrslu, en ekki hvort tveggja.  Því feli bakfærslan ekki í sér brot á starfsloka­samningi málsaðila.  Málið snúist um það, að stefnandi hafi fengið afturvirka launahækkun, sem leiði til þess, að honum beri að endurgreiða þau laun og aðrar launatengdar greiðslur, sem hann áður hafði fengið á viðmiðunartímanum. Bakfærslan/skuldfærslan feli það eitt í sér og leiðrétti þau mistök, sem gerð hafi verið.

Stefndi mótmælir enn fremur þeirri staðhæfingu stefnanda að líta beri á aðgerðir þær, sem bakfærslan fól í sér sem viðhorfsbreytingu gagnvart honum. Í bréfum stefnda í september 2001 sé að sönnu ekkert minnst á bakfærslu, enda engin þörf á því. Fyrra bréfið upplýsi m.a. ríkisbókhald um gerð starfslokasamningsins en hið síðara sé svar við viðbrögðum ríkisbókhalds við fyrra bréfi. Mistökin höfðu á hinn bóginn átt sér stað, þegar þriðja bréfið er ritað og lýtur að því að upplýsa ríkisbókhald, hvað hafi farið úrskeiðis.

Séu starfskjör stefnanda borin saman fyrir og eftir starflokasamninginn, sbr. framlagt dómskjal (nr. 40), sé auðsætt, að kjör hans hafi batnað verulega við gerð hans, ekki síst lífeyriskjör hans.

Stefndi vísar einnig til þess, að stefnanda hafi verið sýnd sanngirni með því að leyfa honum að dreifa endurgreiðslu á fé, sem hann fékk ofgreitt fyrir 12 mánuða tímabil. Stefndi mótmælir sérstaklega endurgreiðslukröfu stefnanda og bendir á í því sambandi, að það myndi leiða til mjög ósanngjarnar niðurstöðu, ef fallist yrði á dómkröfu stefnanda. Þá mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda.

Stefndi bendir einnig á, að réttara hefði verið að stefna einnig rannsóknarnefnd sjóslysa til varnar í málinu.

Loks byggir stefndi á því, að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir öllum sínum fullyrðingum.

Stefndi vísar til 130. gr. eml. til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni.

 

Niðurstaða.

 

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu auk stefnanda eftirtaldir einstaklingar:

Oddur Einarsson, verkefnisstjóri í samgönguráðuneytinu, Jón Birgir Jónsson, ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu, Arngrímur Vilhjálmur Angantýsson, sérfræðingur hjá fjársýslu ríkisins, Haraldur Blöndal hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi formaður rannsóknarnefndar sjóslysa og Ingi Tryggvason núverandi formaður rannsóknarnefndar sjóslysa.

Framburður þeirra verður nú rakinn í stórum dráttum:

Stefnandi kvað tilefni starfslokasamningsins vera auglýsingu, sem birst hafi í Morgunblaðinu 9.-10. febrúar 2001, þar sem auglýst hafi verið eftir umsækjendum í þá stöðu, sem hann hafi þá gegnt. Í viðræðum, sem fylgdu í kjölfarið, hafi honum verið boðin þau kjör, sem sá myndi njóta, sem tæki við starfi hans, allt þar til ráðningarsamningi hans lyki í lok september 2004. Þetta hafi falið í sér allmikla launahækkun. Til þess hafi verið ætlast, að hann léti af starfi sínu en tæki að sér vinna ákveðið verkefni á starfslokatímabilinu. Það hafi falist í í tölvuskráningu sjóslysa, sem hann hafði aflað sér upplýsinga um í frítíma sínum um margra ára skeið. Samkvæmt starfslokasamningnum átti ráðuneytið að leggja honum til tölvubúnað og forrit, en það hafi ekki gengið eftir og ekkert heyrst frá ráðuneytinu um þetta mál. Einnig hafi þess verið krafist, að gengið yrði frá greiðslum í eitt skipti fyrir öll vegna svokallaðra bakvakta, sem hafi verið í athugun í ráðuneytinu um margra ára skeið. Hann hafi rætt um málið við ýmsa ráðamenn í ráðuneytinu í langan tíma, m.a. sjálfan ráðuneytisstjórann, og ávallt fengið sömu svörin, að málið væri í vinnslu. Stefnandi lýsti aðdraganda þess, að hann var beðinn um að vera ávallt tiltækur og bera boðtæki á sama hátt og greint er frá í málavaxtalýsingu. Einnig hafi þetta fyrirkomulag gilt í sumarleyfum hans, að undanskilum tveimur síðustu árum hans í starfi, en þá hafi Haraldur Blöndal, formaður rannsóknarnefndar sjóslysa, leyst hann af. Gengið hafi verið frá greiðslum með starfslokasamningnum, en þá hafi þetta verið leyst í einhverju dulargervi að ósk ráðuneytismanna, eins og starfslokasamningurinn beri með sér. Einnig hafi átt að greiða fyrir bakvaktirnar með afturvirkni launa. Á móti hafi átt að bakfæra föst laun hans á afturvirknitímabilinu. Hann taldi sig með þessu hafa veitt stefnda u.þ.b. 50% afslátt af réttmætri greiðslu fyrir bakvaktirnar og hafi persónuleg kynni við Jón Birgi ráðuneytisstjóra átt þátt í þeirri afstöðu.  Stefnandi upplýsti aðspurður, að hann hafi tekið að sér sem verktaki að annast uppsetningu og vinnslu tölfræðilegra upplýsinga í tengslum við ársskýrslu rannsóknarnefndar allt frá árinu 1987. Þetta hafi verið á verksviði samgönguráðuneytisins. Hann hafi unnið þetta verkefni sem sérstakt aukastarf frá árinu 1987 og hafi fengið greitt unninn tíma með yfirvinnukaupi samkvæmt reikningi, þ.e.a.s. meðan ráðuneytið hafði þessa útgáfu með höndum. Verkið hafi hann unnið heima hjá sér, en prentað efnið á reglulegum vinnu­stað sínum. Hann kvaðst hafa fengið greitt fyrir vinnu við skýrslu ársins 1999 á árinu 2001 en meginn hluti þessarar vinnu hafi átt sér stað á árunum 1999 og 2000, enda hafi hann unnið að þessu verkefni, þegar tími gafst. Hann hafi unnið verkið að beiðni formanns rannsóknarnefndar og ráðuneytisstjóra samgönguráðuneytisins.

Oddur Einarsson sagðist hafa hafið störf í samgönguráðuneytinu í febrúar 2001. Hans starf sé m.a. fólgið í því að yfirfara launagreiðslur ráðuneytisins. Hann hafi veitt því athygli við venjulegt eftirlit, að mistök hafi átt sér stað við greiðslu launa til stefnanda samkvæmt starfslokasamningi hans. Hann kvaðst ekki hafa komið að samningsgerð við stefnanda, en hafi verið beðinn um að reikna út kostnað ráðu­neytisins af samningnum meðan á samningaviðræðum stóð.  Því hafi hann veitt því athygli, að greiðslur til stefnanda hafi verið langt umfram það, sem hann hafði áður áætlað. Mistökin hafi falist í því, að láðst hafi að bakfæra ákveðnar tegundir áður greiddra launa stefnanda. Uppgjör, eins og það, sem átti sér stað við stefnanda, verði ekki framkvæmt nema með bakfærslu. Eigi til að mynda að hækka laun úr 300 í 400 þúsund krónur, séu færðar 400 þúsund krónur en 300 þúsund dregnar frá, ella gefi bókhaldið ekki rétta mynd. Í tilviki stefnanda hafi launakjör samkvæmt starfs­loka­samningnum átt að koma í stað eldri launakjara og hafi bæði nefndarstörf og yfirvinna verið nefnd í því sambandi sem bakfærsluatriði.  Sérstaklega aðspurður kvaðst vitnið ekki hafa leitað upplýsinga hjá samningsaðilum um það, hvernig túlka bæri starfslokasamninginn, en taldi sig hafa séð drög að honum og byggt á því við endur­skoðun sína.  Vitnið kvaðst hafa vitað, að stefnandi hefði gert kröfu um langt skeið um greiðslur fyrir bakvaktir, og það mál hafi verið rætt í ráðuneytinu, en aldrei verið ljáð máls á því.

Vitnið, Jón Birgir Jónsson, kvað tilefni starfslokasamningsins hafa fyrst og fremst stafað af því, að stefnandi hefði safnað upplýsingum um eldri sjóslys og taldi mikinn feng í því að fá hann til að koma þeim upplýsingum í samræmt tölvutækt samevrópst form. Hann hafi því viljað nota tækifærið í tilefni af starfslokum stefnanda til að fá hann til að vinna þetta verk. Sérstakar átta greiðslur til stefnanda, hver að fjárhæð 250 þúsund krónur á hálfs árs fresti, hafi átt að vera endurgjald fyrir upplýsingar, sem stefnandi hafði safnað saman um langt árabil, og fyrir vinnu, sem stefnandi hafði lagt til þessarar heimildasöfnunar, eftir því sem vitnið taldi sig muna best. Vitnið kannaðist við kröfu stefnanda fyrir bakvaktir, en taldi starfslokasamn­inginn ekki koma því máli við. Hann taldi sig og stefnanda hafa að mestu komið að gerð starfslokasamningsins, en Ingi Tryggvason formaður rannsóknarnefndarinnar hafi verið upplýstur um gang mála. Vitnið staðfesti, að stefnanda hefði verið falið að vinna að gerð ársskýrslu rannsóknarnefndar í samvinnu við formann hennar og taldi sig muna, að stefnanda skyldi greitt fyrir það með yfirvinnukaupi. Sérstaklega aðspurður kvaðst hann hafa litið svo á við gerð starfslokasamningsins, að stefnandi ætti að fá að njóta þeirrar hækkunar, sem samningurinn fól í sér umfram þau laun, sem hann áður hafði fengið, þ.e.a.s. mismun fyrri launa og þeirra, sem samningurinn veitti honum, án þess að skilgreint hafi verið, hvað fælist í eldri launum í þessu tilliti. Hann hafi viljað gera vel við stefnanda, svo að allir mættu vel við una. Vitnið kvaðst ekkert þekkja til bakfærslu, sem stefnanda var gert að sæta, og það hafi ekki verið í hans huga við samningsgerðina.

Vitnið Arngrímur Vilhjálmur Angantýrssson gerði dóminum grein fyrir þeim færslum og bakfærslum, sem mál þetta fjallar um. Annars vegar færslu á reikning nr. 11-2001 og hins vegar bakfærslu á reikning nr. 16-2001.

Vitnið Haraldur Blöndal kvaðst hafa átt þátt í því að ráða stefnanda sem framkvæmdastjóra rannsóknarnefndar.  Hann upplýsti, að samgönguráðuneytið hefði falið rannsóknarnefndinni að gefa út ársskýrslu nefndarinnar, en það verkefni falli undir verksvið ráðuneytisins. Stefnandi hafi komið að því starfi. Leitað hafi verið til utanaðkomandi aðila um útgáfu skýrslunnar og hafi stefnandi unnið fyrir þann aðila að gerð hennar. Síðan hafi Innkaupastofnun ríkisins tekið að sér að gefa skýrsluna út, en í samningum við stofnunina hafi ekki verið tekið tillit til vinnu við umbrot og frágang skýrslunnar.  Leitað hafi verið til stefnanda og hann beðinn um að annast þetta verkefni. Stefnandi hafi sett það skilyrði, að hann fengi sérstaklega greitt fyrir verkið sem aukastarf, og hafi hann fengið greitt í formi yfirvinnu samkvæmt reikningi. Samgönguráðuneytið hafi fallist á þá tilhögun. Stefnandi hafi unnið þetta starf heima hjá sér utan venjulegs vinnutíma, og þetta hafi alls ekki tengst hans aðalstarfi.  Vitnið kannaðist við kröfu stefnanda um greiðslur fyrir bakvaktir. Hann kvaðst oft hafa rætt við starfsmenn samgönguráðuneytis um málið, m.a. við ráðuneytisstjóra ráðuneytisins og fundið að vilji var til að leysa málið. Vitnið staðfesti, að hann hefði staðið bakvaktir fyrir stefnanda í sumarleyfi hans og þegið greiðslu fyrir.

Ingi Tryggvason sagði starfslokasamning málsaðila að mestu hafa verið saminn í samgönguráðuneytinu, en hann hafi fengið uppkast að samningnum og fylgst með gangi mála. Vitnið kannaðist kröfu stefnanda um bakvaktir, en kvaðst ekki hafa þekkt til þess máls.

Starfslokasamningurinn hafi ekki beinlínis falið í sér þóknun fyrir bakvaktir, en þó hafi verið sett inn í samninginn ákvæði þess efnis, að öll ágreinings­efni samningsaðila væru til lykta leidd.  Vitnið kannaðist ekki við, að stefnandi hafi átt að fá aðrar greiðslur, en samningurinn tæki afstöðu til. Hann taldi, að hálfs árs sér­greiðslur til stefnanda hafi ekki átt að vera fyrir neitt sérstakt. Vitnið kvaðst ekki hafa kynnt sér sérstaklega launakjör stefnanda. Hann kannaðist ekki við samning við stefnanda um útgáfu ársskýrslu rannsóknarnefndar.

 

Álit dómsins:

 

Eins og áður er getið, voru fyrri launakjör stefnanda með þeim hætti, að hann fékk greidd föst laun samkvæmt ákveðnum launaflokki, og auk þess virðist hann hafa fengið greitt mánaðarlega fyrir nefndarstörf, sem stefndi heldur fram, að hafi verið hluti af föstum launakjörum hans óháð fundarsetum eða fundarstörfum.

Ágreiningur málsaðila lýtur að því, hvort stefnda sé heimilt að draga launagreiðslur, sem stefnandi hafðið fengið greiddar fyrir yfirvinnu og nefndarstörf á tímabilinu frá 1. janúar 2001 til loka september s.á., frá þeim launum, sem honum voru greidd á sama tímabili samkvæmt starfslokasamningnum.

Þegar gert er upp við stefnanda samkvæmt launaseðli nr. 11-2001, sem dagsettur er 5. október 2001, voru áður greidd föst mánaðarlaun hans dregin frá launum hans samkvæmt starfslokasamningnum. Hækkun fastra launa stefnanda fól í sér launahækkun samtals að fjárhæð 697.178 kr. fyrir þetta tíu mánaða tímabil. Greiðsla fyrir yfirvinnu var einnig hækkuð um sama hlutfall og nam hækkun fastra launa, en til frádráttar kom áður greidd yfirvinna.  Mismunur þannig hækkaðrar yfirvinnu nam 336.166 kr., eða samtals hækkun um 1.033.344 kr. Auk þess fékk stefnandi greidda 273 vinnustundir í yfirvinnu, eða sem svarar til 7 mánaða yfirvinnugreiðslu (7x39), en samkvæmt starfslokasamningnum átti stefnandi að fá greidda fasta yfirvinnu (ómælda) frá áramótum. Sýnist því vanta greiðslu fyrir yfirvinnu í tvo mánuði, sé við það miðað, að yfirvinna sé eftirágreidd.

Yfirvinnugreiðsla til stefnanda samkvæmt þessum lið nam 812.560 kr. Fram kemur á afgreiðsluseðlinum, sem er annars afar óskýr og torráðinn, að nefndarlaun frá áramótum hafi numið 381.598 kr. Aðrir tilgreindir launaliðir seðilsins hafa ekki þýðingu, enda enginn ágreiningur um þá. Þó verður að geta þess, að orlofslaun stefnanda af yfirvinnu er breytt til hækkunar í samræmi við starfslokasamninginn, en áður færð orlofslaun færð til frádráttar.

Bakfærslan umdeilda átti sér stað í janúar 2002, eins og áður er lýst. Þar er um að ræða launaseðli nr. 16-2001, sem dagsettur er 31. desember 2001. Þar eru bakfærðar 2.093.990 kr., sem þannig eru sundurliðaðar:  Vegna yfirvinnu 1.443.297 kr. (214.034+1.229.263), vegna fastra nefndarlauna 509.716 kr. og v/orlofslauna  188.206 kr., samtals 2.141.219 kr., en til frádráttar tekjufærsla að fjárhæð 47.229 kr., mismunur 2.093.990 kr.  Að teknu tilliti til skattskyldu var stefnandi skuldfærður fyrir 1.154.231 kr., sem honum var gert að endurgreiða með 12 jöfnum mánaðarlegum greiðslum, sem hver um sig nam 96.186 kr.

Stefnandi krefst þess, að bakfærsla stefnda verði dæmd ólögmæt.

Úrlausn þess felst í túlkun á samningi málsaðila um starfslok stefnanda frá 10. september 2001. Samningurinn segir það eitt, að laun stefnanda skulu hækka í sam­ræmi við launaflokkahækkanir framkvæmdastjóra nefndarinnar (rannsóknarnefndar sjóslysa) og tilgreinir launaflokk, sem framvegis skuli miða laun hans við.  Einnig var þar ákveðið, að stefnandi skyldi fá greiddan tilgreindan fjölda yfirvinnustunda á mánuði út samningstímann (5. gr.).  Í 10. gr. segir, að samningurinn skuli gilda frá 1. janúar 2001, og er ágreiningslaust með málsaðilum, að stefnandi skyldi njóta hinna bættu launakjara frá þeim tíma.  Í samningnum segir ekkert um það, að áður greidd laun stefnanda fyrir tímabil skuli koma til frádráttar og því síður, við hvað skyldi miða í því sambandi. Vitnið Jón Birgir Jónsson, ráðuneytisstjóri, sem annaðist að mestu samningsgerðina við stefnanda, upplýsti dóminn um það, að stefnandi hafi átt að njóta þess launamismunar, sem samningurinn veitti honum, án þess að tilgreint hafi verið, hvað fælist í eldri launum í þessu tilliti. Vitnið kvaðst hafa viljað gera vel við stefnanda, og bakfærsla eldri launa hafi ekki verið í hans huga við samningsgerðina. Vitnið Ingi Tryggvason, sem einnig undirritaði starfslokasamning stefnanda, virðist lítið hafa komið að málinu.

Stefndi byggir á aðgerðir sínar gagnvart stefnanda á því, að venjulegt og eðlilegt sé, að öll áður greidd laun á viðmiðunartímabili skuli koma til frádráttar, þegar um afturvirkar launahækkanir sé að ræða. Stefnandi verði að sæta því, eins og allir aðrir.

Telja verður, að stefndi beri sönnunarbyrðin fyrir því, að samið hafi verið við stefnanda á þann hátt, sem stefndi byggir á.

Ljóst er, að stefnandi fékk hinn 1. maí 2001 greitt fyrir sérverkefni, sem hann tók að sér að beiðni stefnda. Þetta verkefni tengdist í engu aðalstarfi hans sem framkvæmdastjóri rannsóknarnefndar, eins og fram kemur í vætti Haraldar Blöndal og einnig er staðfest af vitninu Jóni Birgi Jónssyni. 

Stefnandi vann aðra yfirvinnu, samkvæmt reikningi. Slík vinna fellur utan venjulegrar skilgreiningar á föstum launum, að mati dómsins, enda eru yfirvinnutekjur misjafnar frá einum tíma til annars.

Sýnt þykir, að bakfærsla áður greiddra launa hlýtur að hafa ákveðið vægi í samningaferli sem því, sem hér er til umfjöllunar.  Við gerð starfslokasamningsins var engin afstaða tekin til þess, hvort frádrætti skyldi beitt vegna launa stefnanda fyrir nefndarstörf.  Ráða má af framlögðum launaseðlum stefnanda, að umrædd nefndarlaun voru greidd eftirá, gagnstætt föstum launum hans. Af framangreindum ástæðum verður að telja, að sú þóknun, sem stefnanda var greidd fyrir nefndarstörf, falli utan fastra launa hans, enda hefur stefndi ekki fært sönnur á hið gagnstæða.

Þá ber til þess að líta, að svo virðist sem umræddri bakfærslu hafi verið beitt einhliða og án þess að stefnandi fengi notið andmælaréttar. Fyrir liggur, að vitnið, Oddur Einarsson,  sem fyrst gerði athugasemdir við uppgjör á starfslokasamningi stefnanda, leitaði ekki til samningsaðila um efni samningsins, heldur túlkaði hann einhliða stefnda í hag.

Niðurstaða dómsins er því sú, samkvæmt framansögðu, að dæma beri bakfærslu launa stefnanda samkvæmt afgreiðsluseðli 16- 2001 ólögmæta.

Stefnandi krefst þess einnig, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 480.935 kr. auk dráttarvaxta, eins og að framan er lýst.  Rétt þykir að taka afstöðu til þessarar kröfu stefnanda í tengslum við varakröfu stefnda.

Stefndi krefst til vara lækkunar á kröfu stefnanda, án þess að rökstyðja þá kröfu á nokkurn hátt.

Við könnun á greiðslum stefnda til stefnanda, þykir sýnt, að stefndi hefur ofgreitt stefnanda, eins og nú verður lýst.

Við uppgjör á launum stefnanda samkvæmt launaseðli nr. 11-2001 hækkaði stefndi yfirvinnugreiðslu stefnanda um sama hlutfall og svaraði til hækkunar fastra launa hans samkvæmt starfslokasamningnum.  Sýnt er, að sú hækkun er byggð á röngum forsendum. Stefnandi fékk greitt fyrir yfirvinnu samtals 1.444.571 kr. á viðmiðunartímabilinu. Þeim launum skal stefnandi halda með vísan til þess, sem að framan er rakið. Á hinn bóginn fær ekki staðist að hækka þær yfirvinnugreiðslur um sama hlutfall og föst laun stefnanda. Laun stefnanda voru hækkuð með þessum hætti í 1.780.737 kr., eins og að framan er lýst. Mismuninn, 336.166 kr., ber að draga frá fjárkröfu stefnanda.

Til þess ber einnig að líta, að stefndi greiddi stefnanda nefndarlaun allt árið 2001, einnig eftir undirritun starfslokasamningsins. Framlagðir launaseðlar gefa þetta ljóslega til kynna. Stefnanda hlaut að vera ljóst, að hér var um mistök að ræða og bar honum að gera stefnda grein fyrir því. Um er að ræða laun fyrir nefndarstörf fyrir mánuðina október til og með desember 2001, samtals 128.118 kr. (42.706x3).

Þessa fjárhæð skal einnig draga frá fjárkröfu stefnanda. Ber því, samkvæmt framansögðu, að draga samtals 464.284 kr. frá fjárkröfu stefnanda.

Niðurstaðan verður því sú, að stefndi dæmist til að greiða stefnanda 16.651 kr. Rétt þykir að stefndi greiði stefnanda dráttarvexti af þeirri fjárhæð frá 1. júní 2002 til greiðsludags. 

Ástæðulaust þykir að taka afstöðu til hugleiðinga stefnda um að rétt hefði verið af hálfu stefnanda, að stefna einnig rannsóknarnefnd sjóslysa til að þola dóm með stefnda, enda er engin krafa gerð í því sambandi af hálfu stefnda.

Með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 dæmist stefndi til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilegur með hliðsjón af umfangi málsins 500.000 kr., að teknu tilliti til skyldu stefnanda til greiðslu virðisaukaskatts af þóknum lögmanns hans.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

 

Dómsorð:

 

Bakfærsla stefnda, íslenska ríkisins, á launum stefnanda að fjárhæð 2.093.990 krónur, samkvæmt launaseðli nr. 16-2001, er ólögmæt.

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Kristjáni S. Guðmundssyni, 16.651 krónu, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. júní 2002 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.