Hæstiréttur íslands

Mál nr. 138/2001


Lykilorð

  • Vinnusamningur
  • Sjómaður
  • Skip
  • Hlutafélag
  • Einkahlutafélag
  • Hlutabréf


Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. október 2001.

Nr. 138/2001.

Ólafur Haraldsson

(Jónas Haraldsson hdl.)

gegn

Útgerðarfélaginu Nirði hf.

(Halldór Þ. Birgisson hdl.)

 

Vinnusamningur. Sjómenn. Skip. Hlutafélög. Einkahlutafélög. Hlutabréf.

Ó var vélstjóri á fiskiskipi í eigu Ú hf. Eigendur Ú hf. ákváðu að skipta félaginu upp í tvö félög, þ.e. Ú hf. og Ú ehf., og var umrætt fiskiskip meðal þeirra eigna er komu í hlut Ú ehf. Í kjölfarið voru öll hlutabréf í Ú ehf. seld G hf. Ó taldi sig af þessu tilefni geta krafist lausnar úr skipsrúmi sínu og kaups í sex mánuði samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Hæstiréttur taldi að yfirfærslu skipsins til hins nýja félags yrði ekki jafnað við sölu þess til annars innlends útgerðarmanns, sbr. 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga. Sölu hlutabréfa í útgerðarfélagi yrði heldur ekki jafnað til sölu skips í merkingu ákvæðisins, enda yrði ekki breyting á eignaraðild að skipi við sölu hlutabréfa í þeim lögaðila sem væri eigandi skipsins. Kröfu Ó var hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. apríl 2001. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 645.393 krónur með dráttarvöxtum frá 6. september 2000 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Mál þetta var dómtekið í héraði að lokinni aðalmeðferð 4. desember 2000. Var héraðsdómur kveðinn upp á dómþingi 19. janúar 2001 eftir að aðilar höfðu lýst yfir að þeir teldu óþarft að málið yrði flutt á ný og dómarinn lýst sig sammála því.

I.

Áfrýjandi réði sig til starfa sem 1. vélstjóri á fiskiskipinu Heiðrúnu GK 505 í apríl 1998, en það var í eigu Útgerðarfélagsins Njarðar hf. og gert út af því félagi. Á skipinu störfuðu lengst af á starfstíma áfrýjanda þrír vélstjórar þannig að tveir störfuðu um borð í senn en einn var í fríi. Vélstjórarnir fóru því almennt í tvær veiðiferðir með skipinu en áttu frí þá þriðju. Samkvæmt gögnum málsins landaði skipið í Sandgerði 24. nóvember 1999 og var áfrýjandi afskráður þann 27. þess mánaðar, enda var komið að því að hann ætti frí í næstu veiðiferð. Skipið landaði afla á Ísafirði 2. desember sama árs og aftur í Sandgerði 9. þess mánaðar. Yfirvélstjóri skipsins bar fyrir héraðsdómi að þegar skipið var á landleið til Sandgerðis í það sinn hafi sá vélstjóri, sem gegndi stöðu 1. vélstjóra í þeirri ferð, hringt í áfrýjanda og boðist til að fara einnig í næstu veiðiferð í hans stað. Hafi áfrýjandi þegið það. Fór áfrýjandi ekki í þá veiðiferð, en henni lauk 16. desember 1999 og landaði skipið í Sandgerði þann dag.

 Þann 17. desember 1999 var undirritaður kaupsamningur um öll hlutabréf í Útgerðarfélaginu Nirði ehf. milli Hafliða Þórssonar og Huldu Emilsdóttur sem seljenda og forráðamanna Guðmundar Runólfssonar hf. sem kaupanda. Í 1. gr kaupsamningsins er hinu selda lýst svo að það séu „öll hlutabréf í Útgerðarfélaginu Nirði ehf ... sem er nýskráð hlutafélag sem er í eigu Hafliða Þórssonar að 99 hundraðshlutum og Huldu Emilsdóttur að 1 hundraðshluta. Skráð hlutafé í félaginu er kr. 500.000.-. Samkvæmt gögnum sem eru fylgiskjal með kaupsamningi þessum liggur fyrir ákvörðun eigenda Útgerðarfélagsins Njarðar hf.... um að skipta upp félaginu í tvö félög og verður hið nýskráða einkahlutafélag sem selt er með samningi þessum skipta félagið. Vegna ákvæða hlutafélagalaga mun ekki verða lokið við að skipta félögunum fyrr en í febrúarmánuði 2000.“ Eru síðar í greininni taldar upp í sjö stafliðum forsendur fyrir kaupum á hlutafénu, þar á meðal að hið nýstofnaða félag muni við skiptinguna „í samræmi við fyrirliggjandi gögn“ eignast fiskiskipið Heiðrúnu og annað nafngreint skip. Er skipunum og fylgifé þeirra nánar lýst í 3. og 4. gr. samningsins. Þau gögn um stofnun hins nýja einkahlutafélags, sem vitnað er til í 1. gr. kaupsamningsins, hafa ekki verið lögð fram í málinu. Í 12. gr. samningsins er kveðið á um að kaupandi taki við undirritun samningsins við formlegum umráðum allra þeirra eigna, sem verða eign Útgerðarfélagsins Njarðar ehf. eftir skiptingu félaganna. Samkvæmt þessu var Útgerðarfélaginu Nirði hf. skipt upp í tvö félög, Útgerðarfélagið Njörð hf. og Útgerðarfélagið Njörð ehf., og var fiskiskipið Heiðrún meðal þeirra eigna er komu í hlut síðarnefnda félagsins. Voru öll hlutabréf í síðarnefnda félaginu jafnframt seld Guðmundi Runólfssyni hf.

 Samkvæmt gögnum málsins virðist skipinu hafa verið siglt til Grundarfjarðar 20. desember 1999 og þar landaði það eftir næstu veiðiferð 30. desember þess árs. Enn landaði skipið á Grundarfirði 10. janúar 2000. Áfrýjandi var ekki um borð í þessum veiðiferðum. Bar yfirvélstjóri skipsins fyrir héraðsdómi að hann hefði ítrekað reynt að ná í áfrýjanda milli jóla og nýárs í því skyni að fá hann til starfa en án árangurs. Fær sá framburður stoð í framburði skipstjóra skipsins fyrir héraðsdómi. Áfrýjandi bar fyrir héraðsdómi að hann hefði frétt af sölu skipsins 9. desember 1999 og hafi eftir það beðið eftir að heyra frá kaupendum þess, sem ekki hafi orðið, og hafi hann hvorki átt samskipti við forsvarsmenn Útgerðarfélagsins Njarðar hf. né kaupanda hlutabréfanna fyrr en hann ritaði þeim fyrrnefnda bréf 8. janúar 2000. Í því bréfi taldi hann að störfum sínum hjá félaginu hafi lokið við sölu skipsins. Ekki hafi verið haft samband við sig af hálfu nýs eiganda þegar skipið fór í sína fyrstu veiðiferð eftir eigendaskiptin. Óskaði hann eftir að fá „greiddan uppsagnafrest samkvæmt kjarasamningum.“ Er í máli þessu deilt um hvort áfrýjandi eigi rétt á kaupi samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 vegna starfsloka hans um borð í fiskiskipinu Heiðrúnu.

II.

Samkvæmt 2. mgr 22. gr. sjómannalaga er skipverja heimilt að krefjast lausnar úr skiprúmi sé skip selt öðrum innlendum útgerðarmanni og á hann þá rétt til kaups í sex vikur samkvæmt 3. mgr. sömu greinar að öðrum þar greindum skilyrðum uppfylltum. Af þessu ákvæði verður dregin sú almenna regla að áhöfn fylgir skipi við eigendaskipti innanlands, sbr. dóm Hæstaréttar 17. maí 2000 í málinu nr. 169/2000. Ákvæði 2. mgr 22. gr. sjómannalaga um heimild skipverja til að krefjast lausnar úr skiprúmi við sölu skips er undantekning frá þeirri meginreglu og verður því að skýra ákvæðið bókstaflega samkvæmt orðanna hljóðan.

 Samkvæmt framansögðu var Útgerðarfélaginu Nirði hf. skipt upp í tvö félög, Útgerðarfélagið Njörð hf. og Útgerðarfélagið Njörð ehf. Takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir í málinu um þessa skiptingu, en af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað ráðið en að við hana hafi hluti af eignum og réttindum sem og skuldum og skyldum hins eldra félags flust yfir til hins nýja einkahlutafélags án afsals, þar á meðal fiskiskipið Heiðrún. Hafi hluthafar eldra félagsins fengið hlutabréf í nýja einkahlutafélaginu við skiptinguna. Verður þessari yfirfærslu skipsins til hins nýja félags ekki jafnað við sölu þess til annars innlends útgerðarmanns í merkingu 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga.

 Hlutabréfin í hinu nýja einkahlutaféalagi voru samkvæmt framansögðu seld með kaupsamningnum 17. desember 1999. Sölu hlutabréfa í útgerðarfélagi verður ekki jafnað til sölu skips í merkingu 2. mgr. 22. gr. sjómannalaganna, enda verður ekki breyting á eignaraðild að skipi við sölu hlutabréfa í þeim lögaðila, er skipið á. Samkvæmt framansögðu eiga ákvæði 2. og 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga ekki við í því tilviki, sem til úrlausnar er í máli þessu. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.

Í ljósi atvika málsins er rétt að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af því í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 19. janúar 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 4. desember sl., að loknum munnlegum flutningi, er höfðað af Ólafi Haraldssyni, kt. 201043-3529, Asparfelli 12, Reykjavík, með stefnu birtri fyrir fyrirsvarsmanni stefnda, þann 13. júlí 2000.

Stefndi gerir þær dómkröfur, að hið stefnda félag, Útgerðarfélagið Njörður ehf., kt. 621276-2479, Hamraborg 10, Kópavogi, verði dæmt til að greiða 645.393 krónur, auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af þeirri fjárhæð frá þingfestingu til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu m.t.t. þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur. Stefnandi áskilur sér rétt til að leggja fram málskostnaðarreikning.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara, að kröfur verði lækkaðar að mati dómsins. Varðandi málskostnað er þess aðallega krafist, að stefnda verði tildæmdur málskostnaður samkvæmt mati dómsins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi. Til vara að málskostnaður verði látinn niður falla.

I.

Stefnandi starfaði hjá stefnda, sem 1. vélstjóri á m.s. Heiðrúnu GK 505 frá 1. maí 1998, uns hann var afskráður 26. nóvember 1999. Greindi stefnandi svo frá fyrir dómi, að svokallað skiptifyrirkomulag hefði verið meðal vélstóra um borð sem þýddi tvo túra á sjó og eina í fríi. Þann 26. október 1999, hafi hann verið afskráður þar sem hann átti að fara í frí. Hafi hann síðan haft samband um borð þegar líða tók á veiðiferðina og þá fengið þær fréttir að lítið væri að fiskast og að landa ætti á Ísafirði en að lokinni löndun ætti að fara strax á veiðar án þess að skipta ætti um áhöfn og ætti því ekki að enda túrinn. Þann 9. desember 1999, hafi skipið síðan landað í Sandgerði. Þann dag hafi hann talað símleiðis við yfirvélstjóra skipsins, Jónas Halldór Geirsson og hafi hann greint sér frá því að skipið hefði verið selt Guðmundi Runólfssyni hf. á Grundarfirði og sennilega yrði haft samband við hann af nýjum eigendum. Ekki hafi hins vegar verið haft samband við sig af hálfu nýrra eigenda skipsins en skipinu hafi verið siglt til Grundarfjarðar síðasta túrinn fyrir jól. Skv. gögnum málsins skrifar stefnandi stefnda bréf, dags. janúar 2000, þar sem hann greinir frá því, að þar sem ekki hafi verið haft samband við sig af hálfu nýrra eigenda fyrir veiðiferð þá er hófst þann 26. desember 1999, líti hann svo á að störfum hans sé lokið fyrir útgerðarfélagið Njörð og lýsir stefnandi því yfir að hann reikni með að fá laun í uppsagnarfresti greidd skv. kjarasamningi. 

Stefndi greinir svo frá, að samningar hafi náðst við Guðmund Runólfsson hf. á Grundarfirði í desember 1999, um kaup á félagi sem skipt yrði út úr Útgerðarfélaginu Nirði hf. og myndi það félag m.a. eiga fiskiskipið Heiðrúnu GK 505. Er stefnandi hafi farið frá borði í desember 1999, hafi verið rætt við hann um að taka síðasta túr á skipinu fyrir jól sem stefnandi hafi neitað, en sagst vera klár í að taka túr milli jóla og nýárs. Þann túr hafi stefnandi síðan ekki farið og ekki látið ná í sig í síma. Á sama tíma hafi stefnandi ráðið sig sem vélstjóra á farskip án þess að tilkynna það stefnda. Vegna manneklu hafi síðan verið gerð tilraun til að ná í stefnda eftir áramót 2000 til þess að óska eftir því að hann færi veiðiferð með skipinu. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafi þó ekki náðst í stefnanda og hafi þá verið hætt frekari tilraunum til að ná í stefnanda enda legið fyrir að hann væri kominn í fast starf hjá öðrum atvinnurekanda. 

II.

Stefnandi byggir mál sitt á því, að honum beri réttur til meðallauna í hálfan uppsagnarfrest. Uppsagnarfrestur yfirmanna, þ.m.t. vélstjóra sé þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga. Samkvæmt 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. 2. mgr., eigi yfirmaður rétt á greiðslum í hálfan uppsagnarfrest, vilji hann ekki halda áfram störfum á skipi, þegar eigandaskipti verða á því. Fyrir liggi að skipið hafi verið selt til Guðmundar Runólfssonar hf, á Grundarfirði og stefnandi hafi ekki haft áhuga á að starfa áfram á skipinu, þar sem það yrði gert út frá Grundarfirði.

Telur stefnandi mótbáru stefnda við því að greiða sér laun, vera fólgna í því, að þar sem fyrirtæki stefnda hafi verið selt með öllu því sem fylgir og fylgja beri, þ.m.t. skipinu Heiðrúnu GK 505, þá eigi 22. gr. sjómannalaga ekki við. Með öðrum orðum þá eigi 22. gr. sjómannalaganna eingöngu við þegar viðkomandi skip sé selt eitt og sér. Séu önnur skip útgerðarinnar seld á sama tíma eða fyrirtækið ásamt öllum eigum þess, þá eigi 22. gr. sjómannalaga ekki við. Stefnandi hafnar slíkum skilning stefnda. Ekki skipti máli, að mati stefnanda, hvenær í desember 1999, eigendaskipti urðu að m.s. Heiðrúnu GK 505. Eftir sem áður eigi stefnandi rétt á launum í 6 vikur. Samkvæmt framlögðum launaseðlum og sé sú krafa stefnufjárhæð máls þessa, þar sem miðað sé við aflareynslu tilgreindan tíma.

Hvað varða lagarök, vísar stefnandi til 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Um dráttarvexti er vísað til III. kafla laga nr. 25/1987. Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. EML nr. 91/1991. Einnig er vísað til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Stefndi telur ágreiningslaust í málinu að stefnandi hafi hætt að eigin frumkvæði hjá stefnda í desember 1999. Stefnandi hafi talið sig óbundinn af ráðningarsamningi skv. þegjandi samþykki fyrirsvarsmanns stefnda. Stefnandi hafi þar að auki þegar í desember 1999, ráðið sig í annað skipspláss. Byggir stefndi á því að stefnanda hafi ekki verið vikið úr starfi og sé bótakrafa stefnanda, byggð á sjónarmiðum vegna sölu skipsins, síðar fram komin.

Sýknuröfu byggir stefndi, aðallega á því, að stefnandi hafi hætt hjá sér að eigin ósk og að eigin frumkvæði. Því geti hann ekki gert kröfu um laun í uppsagnarfresti. Bendir stefndi á að eðlilegt sé að stefnandi upplýsi með vottorði á hvaða tíma hann hafi hafið störf hjá nýjum vinnuveitanda og frá hvaða tíma hann hafi þegið laun frá honum. Fram hafi komið hjá stefnanda, að hann hafi byggt ákvörðun sína um að mæta ekki til borðs eftir 15. desember 2000, á fréttatilkynningu sem hann hafi lesið, þar sem hafi komið fram að verið væri að selja Heiðrúnu GK 505. Stefnandi hafi ekki leitað frekari upplýsinga um þetta frá stefnda. Telur stefndi því að þar sem  ljóst sé að stefnandi neitaði að koma um borð, hafi hann sjálfur rift mögulega gildum samningi með aðgerðum sínum. Byggir stefndi á því, að sá tími er réttaráhrifa 22. gr. sjómannalaga tæki að gæta hafi ekki verið kominn þegar stefndi neitaði að koma um borð.

Vísar stefndi og til tómlætissjónarmiða, en fyrir liggi að stefnandi hafi ekki gert kröfu í málinu fyrr en í lok apríl 2000, en það séu fyrstu samskipti aðila málsins eftir að stefnandi hafi farið frá borði.

Fari svo að dómurinn líti svo á að ráðningarsamnigur milli aðila hafi verið gildur er stefnandi fór síðast frá borði, byggir stefndi sýknukröfu sína á þeim rökum, að ákvæði 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 eigi ekki við í málinu. Vísar stefndi máli sínu til stuðnings, til þess að stefnandi hafi talið sér óskylt að mæta um borð eftir 15. desember 1999, eða eftir að fréttatilkynning barst frá Guðmundi Runólfssyni hf., þess efnis að þeir hyggðust kaupa skipið.  Stefnandi hafi ekki tilkynnt stefnda, að hann ætlaði ekki að mæta aftur um borð. Ekki hafi heldur nein tilkynning verið send til stefnanda af hálfu stefnda, þess efnis að hann ætti ekki að mæta um borð eða um sölu skipsins. Telur stefndi því að ekki séu uppfyllt skilyrði ákvæða 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga, á þeim tíma er stefnandi mætir ekki um borð.

Varakröfu um lækkun krafna, styður stefndi þeim rökum, að miða skuli kröfu stefnanda við þann dag sem hann tók sjálfur ákvörðun um að mæta ekki frekar til skips, eða þann 15. desember 1999.  Stefndi eigi ekki rétti til meðallauna frá fyrri hluta ársins 1999, eins og hann miði við, heldur eingöngu rétt til kauptryggingar í sex vikur fyrir allt tímabilið enda liggi ekki fyrir að bætur samkvæmt 22. gr. skuli reiknast sem meðallaun. Fallist dómurinn ekki á framangreint telur stefndi að leggja skuli til grundvallar laun stefnanda síðustu sex vikur ráðningar hans hjá stefnda og reikna meðaltal þeirrar fjárhæðar þar sem þó verði dreginn frá sá tími sem stefndi sannanlega neitaði að mæta til borðs.

Mótmælir stefndi framsetningu kröfugerðar í málinu, þar sem stefndi velji að miða laun við janúar og febrúar 1999 eða ári fyrr. Er vaxtakröfu og mótmælt og þess krafist að vextir verði ekki reiknaðir fyrr en frá dómsuppsögu.

Um lagarök vísar stefndi til sjómannalaga nr. 35/1985, aðallega 27. gr., sbr. og 22. gr. Vísað er til reglna vinnuréttar um stofnun og slit ráðningarsamninga. Um vexti er vísað til ákvæða vaxtalaga nr. 25/1987. Um málskostnað er vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III.

Í máli þessu er því ekki mótmælt að stefnandi réð sig til starfa á skip stefnda, Heiðrúnu GK 505, í maí 1998. Af gögnum málsins verður og ekki annað séð en ráðning hans hafi verið ótímabundin þó ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur sbr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, en stefndi hefur ekki sýnt fram á að annað ráðningarsamband hafi verið í gildi.

Við meðferð málsins fyrir dómi kom fram hjá stefnanda að hann hafi átt símasamtal við yfirvélstjóra skipsins, Jónas Halldór Geirsson, þann 9. desember og hafi hann tjáð stefnanda að skipið væri selt og sennilega yrði haft samband við stefnanda af hálfu stefnda eða nýrra eiganda skipsins. Kom einnig fram hjá stefnanda að hann hafi skv. öllu óbreyttu átt að fara á sjó þann 9. desember 1999, ef ekki hefði komið til áðurgreind sala. Hafi Jónas Halldór Geirsson, yfirvélstjóri, gert sér grein fyrir því að ekki yrði um áframhaldandi starf að ræða þar sem skipið væri selt til Grundarfjarðar og ætti hann því ekki að koma um borð í næstu veiðiferð. Kom fram hjá stefnanda, að á þessum tímapunkti hafi hann talið sig hafa haft fulla vitneskju um sölu Heiðrúnar GK 505, til Grundarfjarðar, t.d. frá fjölmiðlum og eftir áðurgreint samtal við yfirvélstjóra skipsins. Hefur stefnandi og borið að engin samskipti hafi verið á milli hans né stefnda eða kaupanda skipsins í desember 1999, eða  í janúar 2000, fyrr en stefnandi sendir stefnda bréf, þann 8. janúar 2000. Í því bréfi lýsir stefnandi því yfir, að þar sem ekki hafi verið haft samband við hann þegar farið var í fyrstu veiðiferð fyrir nýja eigendur Heiðrúnar GK 505, sem hafist hafi þann 26. desember 1999, þá lýti hann svo á að störfum hans hjá stefnda sé lokið og vænti hann þess að sér verði greiddur uppsagnarfrestur.

Vitnið Jónas Halldór Geirsson, yfirvélstjóri, kom fyrir dóminn. Kannaðist hann ekki við að hafa rætt við stefnanda í síma þann 9. desember. Fram kom hjá vitninu Hafliða Þórssyni, framkvæmdastjóri stefnda, að langur aðdragandi hefði verið að sölu skipsins og hefðu söluþreifingar hafist í maí - júní 1999 og hefði áhöfnum skipa útgerðarinnar verið kunnugt um að breytingar á rekstri yrðu gerðar en samningar um endanlegt fyrirkomulag við Guðmund Runólfsson hf. hafi ekki legið fyrir fyrr en 17. desember 1999, fær sá framburður stoð í framlögðum gögnum málsins. Í framburðum Ólafs Haraldssonar, skipstjóra á Heiðrúnu GK 505 í desember 1999 og Jónasar Halldórs Geirssonar, kom og fram að samkvæmt þeirra vitneskju hefði mikið verið reynt að ná í stefnanda til að fá hann til að fara túr milli jóla og nýárs og til að láta hann vita um hvenær farið yrði á sjó eftir áramót.

Stefnandi byggir mál sitt á því að samkvæmt 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. 2. mgr. þeirrar greinar, eigi yfirmaður rétt á greiðslum í hálfan uppsagnarfrest, vilji hann ekki halda áfram störfum á skipi, þegar eigandaskipti verða. Eins og áður greinir byggir stefnandi mál sitt á 22. gr. sjómannalaganna. Í gögnum málsins kemur fram að stefnandi gerði ekki reka að því að tilkynna stefnda um slit á ráðningarsamningi sínum við hann, fyrr en með bréfi 8. janúar 2000. Fram að því tímamarki átti stefnandi að hafa farið a.m.k tvær sjóferðir fyrir útgerðarfélagið Njörð enda kemur það fram í gögnum málsins að stefndi gerði sjálfur upp við áhöfn Heiðrúnar GK 505 fram að áramótum 1999/2000.

Telja verður í máli þessu að stefnandi hafi borið skv. 2. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 að tilkynna það stefnda strax og hann fékk vitneskju um það, að búið er að selja skipið til Grundarfjarðar að hann hygðist neita réttar síns skv. 22. gr. sjómannalaga. Ákvæði 2. mgr. 22. gr. sjómannalag nr. 35/1985, þess efnis, að skipverji geti krafist lausnar úr skiprúmi, þegar hann fær vitneskju um sölu skips, verða ekki skilin á annan veg en svo, að skipverji geti, ef hann vill nota rétt sinn, krafist lausnar þegar hann fær um það traustar upplýsingar að skip hafi verið selt til annars útgerðarmanns. Þessi réttur er hins vegar, að mati dómsins, bundinn því að skipverji tilkynni þessa ákvörðun sína til viðkomandi útgerðarmanns eða kaupanda ef kaupandi hefur lýst því yfir að hann vilji halda viðkomandi sjómanni áfram við störf. Ekki er nægjanlegt að skipverji mæti ekki til skips eftir að hann telur sig hafa fengið upplýsingar um sölu skips til annars útgerðaraðila. Á þetta sérstaklega við þegar, eins og hér háttar til, engar sjáanlegar breytingar verða fyrsta kastið á útgerðarmunstri skips eða það hefur ekki verið afhent strax nýjum eigendum.

Samkvæmt framburði vitnisins Óla Fjalars, tilkynntu nýir eigendur áhöfn Heiðrúnar um kaupin á skipinu þann 16. desember 1999, er skipið kom í land í Sandgerðishöfn og samkvæmt gögnum málsins var samningur, sem fól í sér kaup á skipinu, undirritaður 17. desember 1999. Frá því tímamarki gat stefnandi krafist lausnar úr skiprúmi sínu.

Það er álit dómsins að fallast beri á sýknukröfu stefnda, þar sem stefnandi hafi í raun, með því að mæta ekki til skips, einhliða rift ráðningarsamningi sínum við stefnda. Því er það niðurstaða máls þessa að stefndi er sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Með vísan í 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda 150.000 krónur í málskostnað, hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Dóm þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson, héraðsdómari.

DÓMSORÐ

Stefndi, Útgerðarfélagið Njörður ehf., kt. 621276-2479, er sýknað af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Stefnandi, Ólafur Haraldsson, kt. 201043-3529, greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað, að viðbættum virðisaukaskatti.