Hæstiréttur íslands

Mál nr. 438/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Réttindaröð
  • Innstæða


                                     

Fimmtudaginn 12. september 2013.

Nr. 438/2013.

Kaupþing hf.

(Andri Árnason hrl.)

gegn

Iccrea Banca S.p.A.

(Heiðar Ásberg Atlason hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Réttindaröð. Innstæða.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu I, sem lýst var við slit K hf. á grundvelli láns þeirra í millum, var skipað í réttindaröð við slitin sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Ágreiningur aðila sneri að því hvort lán I til K hf. teldist innlán í merkingu 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir setningu laga nr. 79/2012, og þar með hvort krafa I nyti forgangs við slit, eða hvort féð væri undanskilið tryggingavernd laganna og yrði þar með skipað í réttindaröð sem almennri kröfu við slitin. Fyrir Hæstarétti var einvörðungu deilt um hvort krafa I á hendur K hf. væri í formi verðbréfs og þar með undanskilin tryggingarvernd laga nr. 98/1998, sbr. síðari málslið 3. mgr. 9. gr. laganna. Því var hafnað að svo væri, en dómur Hæstaréttar 22. mars 2013 í máli nr. 722/2012 var ekki talinn eiga við eins og atvikum málsins væri háttað. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júní 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2013, þar sem krafa varnaraðila við slit sóknaraðila að fjárhæð 527.130.178 krónur var viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að fyrrgreind krafa varnaraðila njóti stöðu sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit sóknaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Gerð er grein fyrir málsatvikum í hinum kærða úrskurði. Meðal gagna málsins eru svonefnd Reuters samskipti 25. júlí 2008 þar sem varnaraðili samþykkti á skuldbindandi hátt, fyrir milligöngu miðlara, að veita sóknaraðila lán að fjárhæð 3.000.000 evrur 29. júlí 2008 til 29. október sama ár með 5,1% ársvöxtum. Samdægurs munu aðilar hafa staðfest viðskiptin með svokölluðu SWIFT-skeyti, en ekki var gengið frá formlegum samningi milli þeirra um lánið.

 Aðila greinir á um það hvort umrætt lán varnaraðila til sóknaraðila teljist hafa verið innlán í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, eins og sú málsgrein hljóðaði upphaflega fyrir setningu laga nr. 79/2012, og þar með hvort fyrrgreind krafa varnaraðila njóti forgangs við slit sóknaraðila samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Nánar tiltekið lýtur ágreiningur aðila hér fyrir dómi að því einu hvort krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila teljist vera í formi verðbréfs þannig að lánið yrði ekki talið innlán, sbr. síðari málslið 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999.

Hugtakið verðbréf er skilgreint í 2. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Felst skilgreiningin í meginatriðum í því að verðbréf sé gerningur í bréflegu eða rafrænu formi um kröfu sem þarf að vera framseljanleg og unnt að eiga viðskipti með á fjármagnsmarkaði. Í dómi Hæstaréttar 22. mars 2013 í máli nr. 722/2012 var talið að samningar, sem krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila í því máli áttu rætur að rekja til, féllu undir áðurnefnda skilgreiningu og teldust því vera verðbréf í skilningi 2. málsliðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 eins og hann hljóðaði upphaflega. Enginn sambærilegur gerningur lá til grundvallar láni því, sem um er deilt í þessu máli, heldur var stofnað til þess á annan og óformlegri hátt eins og að framan er rakið. Verður því ekki fallist á með sóknaraðila að krafa varnaraðila á hendur honum sé í formi verðbréfs. Skiptir ekki máli í því sambandi þótt varnaraðili sé lánastofnun eins og sóknaraðili heldur fram í kæru, sbr. dóm Hæstaréttar 19. júní 2013 í máli nr. 383/2013. Samkvæmt því telst hið umdeilda lán vera innlán í skilningi hins umrædda lagaákvæðis og af þeim sökum nýtur krafa varnaraðila forgangs við slit sóknaraðila á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.

Með skírskotun til þess sem að framan greinir, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

 Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Kaupþing hf., greiði varnaraðila, Iccrea Banca S.p.A., 400.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2013.

I

Mál þetta sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila barst dóminum með bréfi slitastjórnar varnaraðila 22. júní 2010. Um heimild til að bera ágreininginn undir dóm vísaði slitastjórnin til 120., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var þingfest 24. september 2010 og tekið til úrskurðar 11. apríl sl.

Sóknaraðili er Iccrea Banca S.p.A.,Via Lucerza Romana 41-47, Róm, Ítalíu.

Varnaraðili er Kaupþing hf., Borgartúni 26, Reykjavík.

Dómkröfur

Sóknaraðili krefst þess að krafa hans að fjárhæð 514.306.893 krónur, sem sundurliðast í höfuðstól að fjárhæð 507.690.000 krónur og 5,10% samningsvexti á dag af nefndum höfuðstól frá 29. júlí 2008 til og með 29. október 2008 að fjárhæð 6.616.893 krónur, verði samþykkt sem forgangskrafa í slitameðferð varnaraðila samkvæmt 112. gr. um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102.gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.

Sóknaraðili krefst þess jafnframt að krafa hans um vexti frá gjalddaga lánsins 29. október 2008 til 22. apríl 2009 að fjárhæð 12.823.285 krónum verði samþykkt sem forgangskrafa samkvæmt nefndri 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002

Þá krefst sóknaraðili þess að krafa um útlagðan kostnað fram til 22. apríl 2009, samtals að fjárhæð 3.901.912 krónur verði samþykkt sem forgangskrafa og vísar í því efni til sömu lagagreina og áður.

Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila og að við ákvörðun hans verði tekið tillit til virðisaukaskatts.

Varnaraðili krefst þess að staðfest verði sú niðurstaða varnaraðila að krafa sóknaraðila að fjárhæð 514.306.893 íslenskar krónur verði samþykkt sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Varnaraðili krefst þess jafnframt að krafa sóknaraðila um vexti frá gjalddaga lánsins hinn 29. október 2008 til úrskurðardags hinn 22. apríl 2009 að fjárhæð 12.823.385 krónur verði samþykkt sem almenn krafa en öðrum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Loks krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðili og að við ákvörðun hans verði tekið tillit til virðisaukaskatts.

Upphaflega voru fleiri aðilar til varnar í máli þessu en þeir féllu frá aðild sinni í þinghaldi 5. júlí 2011.

II

Í október 2008 skipaði Fjármálaeftirlitið, með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, skilanefnd yfir Kaupþingi banka hf. og tók skilanefndin þegar við öllum heimildum stjórnar bankans. Að beiðni nefndarinnar skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur hinn 25. maí 2009 bankanum slitastjórn í samræmi við ákvæði laga nr. 44/2009 um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Skilanefnd og slitastjórn fara sameiginlega  með stjórn málefna bankans en það er m.a. í verkahring slitastjórnar að annast innköllun krafna á hendur bankanum, halda skrá yfir lýstar kröfur og taka afstöðu til slíkra krafna. Þá er það í verkahring slitastjórnar að eiga aðild að ágreiningsmálum sem rekin eru samkvæmt XXIV. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Hinn 30. júní 2009 var í fyrsta sinn birt innköllun í Lögbirtingablaðinu og skorað á alla þá sem teldu sig eiga kröfur eða önnur réttindi á hendur bankanum að lýsa kröfum sínum skriflega fyrir slitastjórn bankans innan sex mánaða frá birtingu innköllunarinnar.

Varnaraðili lagði á árinu 2008 inn á svokallaðan millibankamarkað tilboð í þeim tilgangi að fjármagna bankann til skemmri tíma. Í tilboðunum kom fram ákveðinn vaxtafótur á ákveðnu gengi til ákveðins tíma. Tilboðin voru send miðlurum sem komu þeim á framfæri við önnur fjármálafyrirtæki sem þá gátu gengið að tilboðunum á þeim kjörum sem kynnt voru hverju sinni ef þeim sýndist svo. Í þessum tilfellum gengu miðlarar frá samningum við gagnaðila með því sem nefnt er SWIFT- skeyti (societi for Worldwide interbank Financial Telecommunication) Í skeytum þessum voru endanlega staðfestar fjárhæðir, vaxtafótur, upphafs- og lokadagur samninganna. Sóknaraðili gekk að nokkrum tilboðum varnaraðila en einn slíkur samningur var óuppgerður þegar skipuð var skilanefnd yfir varnaraðila. Samningur sá sem var óuppgerður og er hér til umfjöllunar komst á með þeim hætti að útibú miðlarans Integrated Financial Products í Mílanó hafði samband við sóknaraðila og lét hann vita af þeim skilmálum sem í boði voru hjá varnaraðila. Sóknaraðili ákvað að leggja fé inn á reikning varnaraðila. Sóknaraðili lagði inn hjá varnaraðila 3.000.000 evra. Viðskiptadagur var 29. júlí 2008 og átti fjárhæðin að vera laus til útborgunar 29. október sama ár en samið var um að fjárhæðin bæri 5,10% vexti. Til staðfestingar þessu sendi sóknaraðili SWIFT skeyti til varnaraðila hinn 25. júlí staðfestingu og með sama hætti staðfesti varnaraðili samninginn. Varnaraðili segir að samningurinn hafi verið skráður í bókhaldi hans sem lán og í efnahagsreikningi undir liðnum skuldir við lánastofnanir og Seðlabanka. Fjárhæðin hafi hins vegar ekki verið skráð í innistæðugrunn bankans og þar af leiðandi hafi ekki verið greitt af fjárhæðinni til Tryggingasjóðs innistæðueigenda og ekki hafi myndast af henni bindiskylda og þá hafi ekki verið skylt að geta fjárhæðinnar í skýrslugerð til Seðlabanka Íslands. Sóknaraðili skráði fjárhæðina í sínar bækur sem innlán.

Þar sem síðasti samningur sóknaraðila við varnaraðila var óuppgerður lýsti sóknaraðili kröfu í bú varnaraðila. Kröfunni var lýst sem forgangskröfu að fjárhæð 580.070.485 krónur (EUR 3.427.704) auk þess sem lýst var eftirstæðri kröfu að fjárhæð 70.422.047 krónur. Forgangskrafan er til komin vegna fjármuna sem millifærðir voru til varnaraðila á árinu 2008 auk kröfu um samningsvexti, dráttarvexti og kostnað til 22. apríl 2009. Krafan sem lýst er sem eftirstæðri er til komin vegna dráttarvaxta og kostnaðar eftir 22. apríl 2009.

Sóknaraðili féllst ekki á með varnaraðila að krafa hans nyti forgangs á grundvelli 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. en samþykkti kröfuna sem almenna kröfu sbr. 113. gr. nefndra laga að fjárhæð 514.306.893 krónur (EUR 3.093.100). Kröfu um dráttarvexti og kostnað til 22. apríl 2009 var hafnað og þá var ekki tekin afstaða til kröfu sóknaraðila um dráttarvexti og kostnað eftir 22. apríl 2009 í samræmi við ákvæði 119. gr. sömu laga.

Sóknaraðili mótmælti afstöðu varnaraðila með bréfi dagsettu 17. maí 2010. Ekki tókst að jafna ágreining aðila og var málinu því skotið til úrlausnar í héraðsdómi.

III

Máli þessu hefur ítrekað verið frestað m.a. meðan beðið var úrlausnar Hæstaréttar Íslands í málum sem talið var að gætu haft áhrif á niðurstöðu máls þessa. Nokkrir dómar hafa nú gengið sem teljast fordæmisgefandi fyrir mál þetta sem leiddi til þess að í þinghaldi hinn 11. apríl sl. lögðu aðilar fram sameiginlega svohljóðandi bókun:

„Aðilar máls staðfesta að ekki er ágreiningur um að krafa sóknaraðila uppfyllir skilyrði til að teljast vera innistæða í „rýmri“merkingu 1. málsliðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, eins og sú grein hljóðaði fyrir setningu laga nr. 79/2012.

Ágreiningur aðila varðandi rétthæð kröfunnar er því afmarkaður við það eitt hvort krafa sóknaraðila er undanskilin tryggingarvernd skv. ákærðum sömu laga og geti af þeim sökum ekki notið forgangsstöðu við slitameðferð varnaraðila.

Þá staðfesta aðilar að ekki er ágreiningur um að sóknaraðili er lánastofnun samkvæmt ítölskum lögum líkt og kemur fram í starfsleyfi hans.

Þá eru aðilar sammála um að áfallnir vextir á kröfu sóknaraðila frá gjalddaga lánsins þann 29. október 2008 og fram að úrskurðardegi þann 22. apríl 2009 nemi kr. 12.823.385.

Loks eru aðilar sammála um að dómsskjöl nr. 1.7, 2-3 og 37-62, sem lögð voru fram af hálfu Arrowgrass Master Fund o.fl. sem fallið hafa frá aðild að málinu, hafi ekki þýðingu fyrir ágreining aðila.“

Málatilbúnaður aðila takmarkast samkvæmt rakinni bókun við það sem þar kemur fram og er því óþarft að rekja og gera grein fyrir málsástæðum sem snúa að öðrum ágreiningi aðila sem var til staðar í upphafi málsins.

IV

Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að málið snúist um það hvort innstæða hans njóti tryggingaverndar og þar með forgangs við slitameðferð varnaraðila. Hugtakið innstæða sé skilgreint í 1. málslið 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar eins og lögin voru áður en þeim var breytt með lögum nr. 79/2012 en ekki sé lengur ágreiningur um það hvort um innstæðu sé að ræða. Sóknaraðili segir innstæðu sína tilkomna vegna innláns eins og það hugtak hafi verið túlkað af Hæstarétti Íslands og EFTA dómstólnum og undanþágur frá tryggingavernd laga um innstæðutryggingar eigi ekki við um innstæðuna.

Sóknaraðili segir hugtakið innstæðu skilgreint í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 en hér eigi það lagaákvæði við. Fjölmargir dómar hafi fallið um það hvað falli undir þetta ákvæði og hvað ekki. Bendir sóknaraðili í því sambandi á dóma Hæstaréttar í svokölluðum „Neyðarlagamálum“ en þar hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að heildsöluinnlán í eigu sveitarfélaga og fyrirtækja væru tryggðar innstæður sem nytu forgangs við slitameðferð. Sóknaraðili segir engan efnislegan mun á þessum lánum og því láni sem hér er til umfjöllunar og einkenni innlánsformanna séu þau sömu. Lán það sem hér er til umfjöllunar sé innlán þar sem samið var um skilmála þess og ekki sé til staðar sérstakur innlánsreikningur. Hugtök séu notuð á misjafnan máta í báðum tilfellum og ýmist vísað í innlán eða lán og ýmist vísað í aðila sem lender eða borrower. Það er því ekkert sem aðgreinir heildsöluinnlán frá peningamarkaðslánum annað en nafngiftin nema ef vera kynni sú staðreynd að sóknaraðili er banki og að lánið var staðfest með SWIFT skeyti.

Að mati sóknaraðila var varnaraðili þeirrar skoðunar að ekki væri munur á þessum lánum og bendir í því sambandi á skýrslu sem stafar frá varnaraðila og er meðal gagna málsins en þar séu heildsöluinnlán og peningamarkaðslán lögð að jöfnu. Peningamarkaðslán séu samningur á milli fagfjárfesta, veitt fyrir milligöngu miðlara, eðlisólík lánum til einstaklinga, byggð á samningi aðila, liggi ekki á reikningi, séu ekki færð sem innstæður í bókhaldi og þá hafi ekki verið greitt af þeim til tryggingasjóðs. Sóknaraðili segir Hæstarétt Íslands þegar hafa tekið afstöðu til allra þessa atriða og talið heildsöluinnlán vera forgangskröfur og um leið hafnað röksemdum varnaraðila. Vísar sóknaraðili hvað þetta varðar til álits EFTA dómstólsins sem Hæstiréttur tekur undir í máli nr. 169/2011.

Sóknaraðili heldur því fram að innlán hans njóti tryggingaverndar. Lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta eins og þau voru fyrir breytingu hafi að geyma tvennskonar undanþágur frá tryggingavernd. Sú fyrri hafi verið í 3. mgr. 9. gr. og undanþiggi útgefið verðbréf en hin síðari komi fram í 6. mgr. 9. gr. og undanskilji innstæður, verðbréfi og reiðufé í eigu aðildarfélaga tryggingasjóðsins. Aðildarfyrirtæki er skilgreint í 3. gr. laganna og þar komi fram að um sé að ræða fjármálastofnanir sem staðfestu hafa á Íslandi og útibú þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu. Undanþágur frá þessum lögum séu tæmandi taldar í lögunum og frá því verði ekki vikið og af því leiðir að eingöngu sé unnt að undanskilja verðbréf eða þá að eigandi kröfunnar sé aðili að tryggingasjóðnum en hvorugt eigi við hér. Fjármálastofnanir sem ekki eiga aðild að sjóðnum njóti því tryggingaverndar.

Sóknaraðili heldur því fram að lánastofnanir séu ekki undanskyldar tryggingavernd skv. ísl. lögum. Hæstiréttur Íslands hafi staðfest að þeir einir verði undanþegnir tryggingavernd sem eru það samkvæmt íslenskum lögum. Fjármálastofnanir sem ekki eiga aðild að tryggingasjóðnum njóti því tryggingaverndar. Í 3. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993 segi að skýra skuli lög og reglur í samræmi við samninginn eftir því sem við á. Henni verði þó aðeins beitt ef hægt sé að skýra landsrétt í samræmi við samninginn. Sóknaraðili vísar í þessu efni til dóma Hæstaréttar í málum nr. 722/2012 og 79/2010 en þar komi skýrt fram hjá réttinum að ákvæði nefndrar 3. gr. geti ekki leitt til þess að horft verði framhjá skýrum ákvæðum íslenskra laga. Í þessu tilfelli séu lögin skýr um það að eingöngu aðildarfyrirtæki séu undanskilin tryggingavernd en önnur ekki.

Sóknaraðili heldu því fram að innstæða hans geti ekki talist verðbréf sem þá yrði undanskilið tryggingavernd skv. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Verðbréf séu framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðru en fasteign eða einstökum lausafjármunum. Sóknaraðili byggir á því að staðfesting fyrir innstæðu sóknaraðila eigi ekkert skylt með verðbréfum sem verslað er með á fjármagnsmarkaði. Sóknaraðili hafi fengið einfalda kvittun fyrir millifærslu og móttöku fjármuna sem feli ekki í sér eignarheimild fyrir innstæðunni. Slík skjöl séu ekki framseljanlegir gerningar í eðli sínu og geti því ekki gengið kaupum og sölum á fjármagnsmarkaði enda felist engin réttindi til innstæðunnar í eignarhaldi kvittunarinnar sem slíkrar. Af þessu leiði að kvittun fyrir innstæðu falli ekki undir skilgreiningu verðbréfs eins og það hugtak er skilgreint í lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Útbúa hefði þurft sérstakan aðgreindan samning um framsal innstæðunnar ef vilji sóknaraðila hefði staðið til slíks framsals. Þá telur sóknaraðili að orðalagið í staðfestingu fyrir innstæðunni sé hefðbundið fyrir innlánsviðskipti lík því og hér áttu sér stað. Sóknaraðili segir að gera verði skýran greinarmun á milli kröfu hans í slitabú varnaraðila annars vegar og þeim undirliggjandi réttindum sem eru tilefni kröfunnar hins vegar. Kröfur á hendur varnaraðila og öðrum fjármálafyrirtækjum í sömu stöðu hafi gengið kaupum og sölum en með því sé framseljandi að gefa eftir rétt sinn til greiðslu úr búinu. Á slíku framsali séu engar takmarkanir og því séu allar kröfur á hendur bönkum í slitameðferð framseljanlegar hvaða nafni sem þær nefnast.

Sóknaraðili heldur því fram að enginn raunverulegur munur sé á heildsöluinnláni og peningamarkaðsinnláni en Hæstiréttur Íslands hafi staðfest að heildsöluinnlán séu ekki verðbréf. Það eitt að lánið sé á milli fjármálafyrirtækja breyti því ekki í verðbréf og það sama megi segja þó lánið hafi verið staðfest með SWIFT skeyti í gegnum svokallað Rauters kerfi en í gegnum það samskiptaforrit eigi aðilar samtal. SWIFT skeyti séu samskiptavettvangur banka en fyrir daga þess kerfis hefðu viðskipti sem þessi verið gerð símleiðis eða með póstsendingum. Með þessum skeytum hafi aðilar sín á milli staðfest fjárhæð, upphafsdag, lokadag og vexti. Samskiptamáti geti ekki orðið til þess að breyta innláni í verðbréf. 

Varnaraðili byggir á því að krafa sóknaraðila sé reist á verðbréfi og því undanskilið tryggingavernd. Varnaraðili heldur því fram að hugtakið verðbréf, sem nú er skilgreint í lögum 108/2007 sem tóku við af lögum nr. 33/2003, án þess að þrengja hugtakið, eigi ekki að skýra þröngt og það nái yfir ýmis réttindi og taki til hverskonar framseljanlegra kröfuréttinda. Eina breytingin sem orðið hafi með nýjum lögum hafi verið sú að greiðsluskjöl voru undanskilin hugtakinu. Verðbréf þurfi því að kveða á um peningagreiðslu eða hafa almennt ígildi peningagreiðslu en lánasamningar milli fjármálafyrirtækja á millibankamarkaði séu ekki greiðsluskjöl. Í núgildandi lögum um verðbréfaviðskipti séu tvö skilyrði sem þurfi að uppfylla þannig að um verðbréf sé að ræða. Annars vegar þurfi það að vera framseljanlegt og hins vegar að unnt sé að hafa viðskipti með það á fjármagnsmarkaði. Varðandi fyrra skilyrðið bendir varnaraðili á að ekki séu gerðar miklar kröfur um framseljanleika eingöngu að krafa geti flust milli aðila. Samkvæmt meginreglum kröfuréttar séu kröfur framseljanlegar og því þurfi að vera ákvæði í samningi eða lögum sem mæli gegn framsali ef það á að vera óheimilt. Slík ákvæði séu ekki til staðar í þessu máli. Varnaraðili heldur því fram að engin rök hafi komið fram af hálfu sóknaraðila sem leiði til þess að lánasamningar milli fjármálafyrirtækja á millibankamarkaði séu ekki framseljanlegir. Þá sé það einnig meginregla í kröfurétti að kröfuhafaskipti séu heimil án aðkomu skuldara.

Varnaraðili segir sóknaraðila halda því fram að meginregla kröfuréttar um framsal kröfu eigi ekki við og hann verði því að sýna fram á með vísan í lög eða reglur eða eðli samningsins að framsal sé óheimilt. Í málinu sé óumdeilt að kröfuréttindin eru lán með ákveðnum gjalddaga og sóknaraðili verði að færa fyrir því rök að réttindin séu ekki framseljanleg en að mati varnaraðila standi SWIFT skeyti því ekki í vegi.

Síðara skilyrðið sem þarf að uppfylla til að kröfuréttindi teljist verðbréf er að unnt sé að eiga með þau viðskipti á fjármagnsmarkaði. Hugtakið viðskipti á fjármagnsmarkaði verði ekki túlkað þröngt að því gefnu að fjármálafyrirtæki með leyfi til viðskipta geti haft þar milligöngu en ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að slíkt fyrirtæki hefði milligöngu um að miðla þessu láni. Ef unnt sé að framselja gerning og hægt að eiga með hann viðskipti á fjármagnsmarkaði geti slíkur gerningur verið verðbréf að því gefnu að hann sé ekki greiðsluskjal.

Varnaraðili hafnar því að lán það sem hér er til umfjöllunar sé sambærilegur gerningur og var til umfjöllunar í Hæstaréttarmálinu nr. 169/2011 en hér sé um hefðbundið lán á millibankamarkaði að ræða. Nú liggi fyrir að lánið teljist innstæða og ágreiningur aðila sé um það hvort innstæðan sé tryggð eða ekki. Eftir að innstæðuhugtakið hafi verið útvíkkað frá því sem áður var sé rétt að horfa með öðrum augum á tryggingaverndina og það hafi Hæstiréttur gert í dómi sínum í máli nr. 722/2012. Í þessu máli hafi Hæstiréttur fjallað um lánveitingu milli fjármálafyrirtækja sem felld hafi verið undir innstæðuhugtakið en undanskilið hana tryggingavernd vegna þess að lánasamningar í því máli töldust vera verðbréf. Varnaraðili telur þennan dóm hafa fordæmisgildi fyrir þetta mál en ekkert mæli því gegn að innlán það sem hér er deilt um teljist verðbréf.

Að mati varnaraðila ber að túlka lög nr. 98/1999 með tilliti til þrengri skilgreiningar á innstæðu. Lögin hafi verið sett til að innleiða tilskipun Evrópusambandsins nr. 94/19/EB og þar eru innstæður lánastofnanna ekki tryggðar. Til að tryggja að lögin samræmist efni tilskipunarinnar þurfi að skýra efni 9. gr. laganna eftir tilskipuninni eins og unnt er innan þeirra marka sem dómstólar hafa til að ná fram tilgangi tilskipunarinnar. Í 6. mgr. 9. gr. 98/1999 sé fjallað um innstæður og sagt að innstæður aðildarfyrirtækja séu undanskildar tryggingavernd en aðildarfyrirtæki ekki skilgreint. Að mati varnaraðila er ekki óeðlilegt að skýra aðildarfyrirtæki þannig að allar lánastofnanir á EES svæðinu sem eiga aðild að tryggingakerfi séu undanskildar tryggingavernd líkt og tilskipunin gerir ráð fyrir. Í frumvarpi með lögunum segi um 9. gr. að verið sé að víkka út ákvæði eldri laga en það sé ekki gert ef ákvæðið er bundið við fjármálafyrirtæki sem eiga aðild að íslenska tryggingakerfinu enda sé tilgangur tilskipunarinnar að tryggja hag sparifjáreigenda en ekki fjármálafyrirtækja.

Varðandi fjárhæð þess hluta kröfu sóknaraðila sem er umdeildur í málinu byggir varnaraðili á því að það sé margdæmt af Hæstarétti Íslands að kröfuhafar beri sinn kostnað sjálfir, sbr. t.d. dóma réttarins í málum nr. 10/2012 og nr. 301/2011. Auk þess sé kostnaðarkrafa sóknaraðila vanreifuð og reikningar hans á ensku. Þá verði ekki annað ráðið en verið sé að innheimta kostnað fyrir vinnu sem unnin var í þágu annars banka. Þá séu reikningar dagsettir eftir að varnaraðili fékk heimild til greiðslustöðvunar og að einhverju leyti eftir að slitameðferð hófst.

V

Líkt og fram kemur í sameiginlegri bókun aðila takmarkast ágreiningur þeirra við það sem þar kemur fram. Deila þeirra snýst því aðallega um það hvort krafa sóknaraðila sé undanskilin tryggingavernd og njóti af þeim sökum ekki forgangsstöðu við slitameðferð varnaraðila. Aðilar eru sammála um að krafa sóknaraðila teljist vera innstæða í „rýmri merkingu“ 1. málsliðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1998, eins og sú grein hljóðaði fyrir setningu laga nr. 79/2012.

Áður er rakið að varnaraðili heldur því fram að krafa sóknaraðila njóti ekki tryggingaverndar og vísar í því efni einkum til tveggja atriða. Annars vegar vísar hann til 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og byggir á því að krafa sóknaraðila sé reist á verðbréfi og því sé krafan undanskilin tryggingavernd. Hinsvegar vísar hann til 3. gr. nefndra laga og telur að skilgreina beri sóknaraðila sem aðildarfyrirtæki og af þeim sökum njóti krafa hans ekki tryggingaverndar.

Í 2. málslið 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 kemur fram að trygging nái ekki til skuldabréfa, víxla eða annarra krafna sem útefnar eru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa. Áður er rakið með hvaða hætti samningur aðila komst á í þessu máli en í aðalatriðum var það þannig að varnaraðili lagði fram tilboð á svokallaðan millibankamarkað en í tilboðunum komu fram kjör þau sem varnaraðili bauð hverju sinni. Miðlarar komu tilboðunum síðan á framfæri við önnur fjármálafyrirtæki. Miðlarar gengu síðan frá samningum við gagnaðila og þau voru staðfest með SWIFT skeyti. Samningarnir eru þannig í raun mjög einfaldir.

Aðilar málsins telja báðir að fyrir liggi fordæmi Hæstaréttar Íslands sem rétt sé að horfa til. Varnaraðili vísar til dóms réttarins í máli nr. 722/2012 en þar hafi verið kveðið á um að fjármálagerningur teldist verðbréf og þar með undanskilinn tryggingavernd. Sóknaraðili telur hins vegar að horfa beri til dóma réttarins í málum er varða heildsöluinnlán. Að mati dómsins er ekki hægt að fallast á með varnaraðila að nefndur dómur nr. 722/2012 hafi fordæmisgildi við úrlausn þessa máls en þar er fjallað um löggerning sem erfitt er að bera saman við þann samning sem deila þessi snýst um. Hins vegar er fallist á með sóknaraðila að þeir dómar Hæstaréttar sem skáru úr ágreiningi varðandi heildsöluinnlán fjalli í meginatriðum um viðskipti sem svipar mjög til þeirra viðskipta sem um ræðir í máli þessu og má í því sambandi nefna hæstaréttardóma í málum nr. 276/2011 og 277/2011. Af þeim dómum má ráða að undir rekstri málanna voru hafðar uppi málsástæður sem lutu að því að umrædd heildsöluinnlán teldust verðbréf en því var hafnað. Að mati dómsins eiga sömu sjónarmið við í máli þessu og verður kröfu sóknaraðila því ekki hafnað á þeim grunni að hún sé reist á verðbréfi.

Í annan stað ber varnaraðili fyrir sig að sóknaraðili sé aðildarfyrirtæki í skilningi 3. gr. laga nr. 98/1999 og falli því undir undantekningarreglu 6. mgr. 9. gr. sömu laga og því njóti krafan ekki tryggingaverndar. Í 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið segir að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggi. Þessa lagagrein skýrði Hæstiréttur í dómi sínum í máli nr. 79/2010 þannig að lögskýring í samræmi við ákvæðið taki eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði svo sem framast er unnt gefin merking er rúmist innan þeirra og næst komist því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eigi á Evrópska efnahagssvæðinu, en hún geti á hinn bóginn ekki leitt til þess að litið verði framhjá orðum íslenskra laga.

Sóknaraðili er ítalskur banki en hefur ekki staðfestu hér á landi svo sem áskilið er í nefndri 3. gr. Fellur hann þegar af þeirri ástæðu ekki undir nefnda undantekningar-reglu. Orðalag 3. gr. laga 98/1999 er skýrt og fá þau sjónarmið sem varnaraðili vísaði til um það hvernig skýra beri greinina því ekki breytt. Í nefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 79/2010 var dæmt að orðalag ákveðinnar lagagreinar væri ótvírætt og gæfi ekkert svigrúm til að hliðra til ábyrgð sem í því orðalagi felst. Hið sama á við hér. Orðalag títtnefndrar 3. gr. laga nr. 98/1999 er skýrt og verður ekki hnekkt með lögskýringargögnum jafnvel þótt ákvæðið samrýmist ekki ákvæðum tilskipunar þeirrar sem því var ætlað að innleiða.

Þegar af þeim ástæðum sem að framan eru raktar er fallist á með sóknaraðila að krafa hans að fjárhæð 527.130.178 krónur (höfuðstóll að viðbættum vöxtum og vöxtum frá 29. október 2008 til 22. apríl 2009) skuli njóta stöðu í réttindaröð sem forgangskarfa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila.

Fallist er á með varnaraðila að krafa sóknaraðila vegna kostnaðar að fjárhæð 3.901.912 krónur, sé ekki nægilega rökstudd til að unnt sé að taka efnislega afstöðu til hennar og er henni því hafnað.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins er varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.882.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið munnlega Hjördís Birna Hjartardóttir héraðsdómslögmaður en Þröstur Ríkharðsson héraðsdómslögmaður flutti málið af hálfu varnaraðila.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Fyrir uppkvaðningu úrskurðarins var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Úrskurðarorð:

Krafa sóknaraðila, Iccrea Banca S.p.A., að fjárhæð 527.130.178 krónur, er viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila, Kaupþings hf.

Kröfu sóknaraðila að fjárhæð 3.901.912 krónur er hafnað.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 1.882.500 krónur í málskostnað.