Hæstiréttur íslands
Mál nr. 773/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Húsleit
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. nóvember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. nóvember 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um heimild til húsleitar á lögheimili varnaraðila að [...] í [...] og herbergi hans og hirslum, sem honum tilheyra á geðdeild Landspítalans við Hringbraut, og haldlagningar á tölvubúnaði og síma hans, svo og rannsóknar á efnisinnihaldi raftækjanna. Kæruheimild er í g. og h. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina.
Samkvæmt framburði vitnis, sem óskað hefur nafnleyndar, sbr. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 88/2008, er varnaraðili undir rökstuddum grun um brot, sem getur varðað fangelsisrefsingu eftir 202. gr. og 210. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður því með vísan til 1. mgr. 75. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 74. gr., og lögjöfnun frá 1. mgr. 70. gr. laga nr. 88/2008 fallist á kröfu sóknaraðila eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er heimiluð húsleit á lögheimili varnaraðila, X, að [...] í [...] og herbergi og hirslum hans á geðdeild Landspítalans við Hringbraut. Heimildin nær til læstra hirslna og geymslna, sem tilheyra varnaraðila. Jafnframt er heimiluð haldlagning og rannsókn á efnisinnihaldi tölvubúnaðar og síma varnaraðila, sem finnast kunna við húsleitina.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. nóvember 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness heimili embættinu leit á lögheimili kærða, X, kt. [...], að [...] í [...]. Þess er krafist að heimildin nái til leitar í læstum hirslum og geymslum í og við húsnæðið. Þá er þess einnig krafist að lögreglu verði heimiluð leit í herbergi kærða og hirslum sem honum tilheyra á geðdeild Landspítalans við Hringbraut þar sem kærði dvelur nú. Þá er þess ennfremur krafist að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu verði heimilað að opna og rannsaka efni og innihald raftækja, svo sem tölvubúnaðar og síma, sem lagt verður hald á, þ.m.t. tölvupóst kærða og önnur samskipta- og geymsluforrit kærða sem þar kunna að finnast.
I
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að 11. nóvember sl. hafi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist beiðni um lögreglurannsókn frá barnaverndarnefnd [...]. Samkvæmt beiðninni hafi nefndinni borist tilkynning 20. október sl. um að við vinnslu máls hjá barnaverndarnefnd [...] hafi komið fram upplýsingar um að kærði hafi mögulega misnotað [...], A. Upplýsingarnar hafi verið þess efnis að kona, sem ekki hafi viljað láta nafn síns getið, hafi séð myndir í síma kærða af honum og barninu í kynferðislegum stellingum og hafi barnið virst sofa á myndunum.
Í þágu rannsóknar málsins hafi lögregla haft samband við félagsþjónustuna í [...]. Þar hafi fengist þær upplýsingar að fyrrnefnd kona væri mjög hrædd við kærða og óttaðist að hann gerði henni eitthvað ef að hann frétti að hún hafi gefið lögreglu þessar upplýsingar. Fyrir vikið væri konan ekki tilbúin að gefa upp nafn sitt. Konan hafi síðar tjáð lögreglu að hún hefði búið með kærða á tímabili. Í janúar sl. hafi kærði tekið að breytast og hafi konan í kjölfarið komist að því að hann væri kominn í fíkniefnaneyslu. Kærði hafi verið mjög veikur og hafi konan horft upp á hvernig honum versnaði sífellt. Hann hafi meðal annars verið mikið inni á viðbjóðslegum klámsíðum. Konan hafi haft heimild frá manninum til að skoða síma hans daglega. Einhvern tímann í mars eða apríl hafi hún verið að skoða símann þegar hún hafi séð myndaseríu sem henni hafi fundist virkilega óviðeigandi. Inni á falinni möppu hafi verið margar myndir sem kærði hafi óvart skilið eftir opna. Myndaserían hafi verið af kærða og lítilli [...], fæddri árið [...]. Í myndsyrpunni hafi mátt sjá hvar stúlkan var sofandi og búið var að stilla henni upp í kynferðislegum stellingum og á sumum myndunum hafi kærði verið með tunguna í munni barnsins. Kærði hafi verið ber að ofan og barnið einnig. Þegar kærði hafi áttað sig á því hvað konan var að skoða hafi hann orðið vitlaus og rifið af henni símann. Hann hafi öskrað og sagt að þetta væri bara ást og að móðir barnsins hafi verið viðstödd þegar myndirnar voru teknar. Lýsti konan mikilli hræðslu við kærða þar sem hann hafi ofsótt hana og börnin hennar. Hún hafi því ekki treyst sér til þess að gefa upp nafn sitt að svo stöddu.
Að mati lögreglustjóra sé fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi tekið kynferðislegar myndir af [...] ára barni og áreitt það kynferðislega. Í þágu rannsóknar málsins sé nauðsynlegt að framkvæma leit á heimili kærða þar sem hann búi ásamt foreldrum sínum, systur og því barni sem hann sé grunaður um að hafa brotið gegn. Þá sé nauðsynlegt að leita í herbergi og hirslum hans á geðdeild Landspítalans við Hringbraut þar sem hann dvelji nú. Leitin sé nauðsynleg í því skyni að leita að mögulegum sönnunargögnum í öllum raftækjum, svo sem tölvubúnaði og síma, sem kærði kunni að hafa aðgang að, og í tölvupóstum hans og öðrum samskipta- og geymsluforritum sem hann sé með. Að mati lögreglustjóra skipti miklu fyrir áframhaldandi rannsókn málsins að fengin verði heimild til rannsóknaraðgerða í samræmi við kröfu embættisins.
Með skírskotun til 103. gr., sbr. 104. gr., laga nr. 88/2008 sé þess óskað, eðli máls samkvæmt, að krafan fái meðferð fyrir dómi án þess að sakborningur eða annar sá sem hún beinist að verði kvaddur á dómþing, þannig að unnt verði að leita án þess að hlutaðeigandi hafi haft tækifæri á að koma sönnunargögnum undan.
Lögreglustjóri segir ætluð brot kærða geta varðað við 210. gr. a og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um heimild til rannsóknaraðgerðarinnar vísist til 1. mgr. 75. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 74. gr., laga nr. 88/2008.
II
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er heimilt að leita í húsum sakbornings, geymslustöðum, hirslum, skipum, loftförum, bifreiðum eða öðrum farartækjum hans í því skyni að handtaka hann, rannsaka andlag brots og önnur ummerki eða hafa uppi á munum sem hald skal leggja á. Einnig má leita í húsum, geymslustöðum, hirslum eða farartækjum annars manns en sakbornings þegar brot hefur verið framið þar eða sakborningur handtekinn þar og enn fremur ef rökstuddur grunur leikur á að sakborningur haldi sig þar eða þar sé að finna muni sem hald skal leggja á, sbr. 2. mgr. 74. gr. Skilyrði fyrir húsleit er að rökstuddur grunur leiki á að framið hafi verið brot sem sætt getur ákæru og að sakborningur hafi verið þar að verki, enda séu augljósir rannsóknarhagsmunir í húfi. Það er enn fremur skilyrði fyrir húsleit samkvæmt 2. mgr. 74.gr. að rannsókn beinist að broti sem varðað getur fangelsisrefsingu að lögum.
Svo sem málið liggur fyrir dómnum byggjast kröfur lögreglustjóra eingöngu á frásögn eins vitnis sem óskað hefur nafnleyndar. Að því gættu þykir ekki uppfyllt skilyrði 3. mgr. 74. gr. um að rökstuddur grunur leiki á að framið hafi verið brot sem sætt getur ákæru og að kærði hafi verið þar að verki. Kröfum lögreglustjóra er því hafnað.
Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.
ÚRSKURÐARORÐ
Hafnað er kröfum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að heimiluð verði leit á lögheimili kærða, X, að [...] í [...], og herbergi kærða og hirslum sem honum tilheyra á geðdeild Landspítalans við Hringbraut.