Hæstiréttur íslands

Mál nr. 538/2014


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur
  • Skilorð
  • Sératkvæði


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 27. nóvember 2014.

Nr. 538/2014.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

(Einar Gautur Steingrímsson hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur. Skilorð. Sératkvæði.

X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn A, sem þá var 12 ára gömul, með því að hafa farið með hönd undir sæng hennar þar sem hún lá í rúmi, fært fótleggi A í sundur, káfað á kynfærum hennar innan klæða og sett fingur inn í leggöng. Var brot X talið varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 15 mánuði, en fullnustu 12 mánaða af henni frestað og félli sá hluti niður að liðnum tveimur árum héldi X almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Þá var X gert að greiða A 600.000 krónur í skaðabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. júlí 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða en refsing hans þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.

A krafðist þess í greinargerð fyrir Hæstarétti að ákærða yrði gert að greiða sér 800.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Við munnlegan flutning málsins hér fyrir dómi varð útivist af hennar hálfu og verður því að líta svo á að hún krefjist þess að ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu hennar verði staðfest.

Í hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa að kvöldi 12. mars 2012 farið með hönd undir sæng A, fæddrar 1999, þar sem hún hafi legið í rúmi, fært fótleggi hennar í sundur, káfað á kynfærum hennar innan klæða og sett fingur inn í leggöng hennar. Svo sem nánar greinir í dóminum eiga þessi atvik að hafa gerst í vistarverum, sem ákærði hafði ásamt sambúðarkonu sinni og dóttur til umráða á heimili A, móður hennar og stjúpföður. Hafi A legið í rúmi með dóttur ákærða, sem fædd er 2002, en þær eru systradætur. Samkvæmt gögnum málsins kom dóttir ákærða 20. mars 2012 í könnunarviðtal í Barnahúsi. Í minnisblaði um það viðtal var haft eftir henni að hún hafi ekki tekið eftir „einhverju óeðlilegu“ þegar A lá í rúmi með henni að kvöldi 12. sama mánaðar á meðan ákærði var staddur með þeim inni í herbergi. Hún kannaðist heldur ekki við að A hafi greint sér sama kvöld frá ætlaðri háttsemi ákærða, svo sem A hefur borið. Skýrsla var ekki tekin af dóttur ákærða við rannsókn málsins eða meðferð þess fyrir dómi og getur það ekkert vægi haft, sem móðir hennar kvað í framburði sínum fyrir dómi að hún hafi síðar sagt sér. Verður því að leggja til grundvallar að hvorki hafi dóttir ákærða orðið vör við ætlaða háttsemi hans né hafi A sagt henni frá atvikum í framhaldi af því að þau hefðu gerst. Þetta fær því á hinn bóginn ekki breytt að hinn áfrýjaði dómur verður staðfestur með vísan til forsendna hans að öðru leyti.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ákærða, þar með talin málsvarnarlaun verjanda hans og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Það athugast að í 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er mælt fyrir um að dómur skuli reistur á sönnunargögnum, sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Af þessari meginreglu leiðir að því aðeins á að vísa í dómi til skýrslna ákærða eða vitna hjá lögreglu að þess sé þörf, svo sem vegna ósamræmis milli þess sem þar kom fram og framburðar fyrir dómi. Á þeim grunni var ástæða til að rekja efni skýrslna, sem ákærði gaf hjá lögreglu, eins og gert var í hinum áfrýjaða dómi. Á hinn bóginn var ekki slíkt tilefni til að greina þar jafnframt frá efni lögregluskýrslna sex vitna, sem öll komu fyrir dóm við aðalmeðferð málsins.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 737.731 krónu, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 627.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 62.750 krónur.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara

Í héraði var ákærða gefið að sök að hafa tvisvar sinnum framið kynferðisbrot gegn stúlkunni A. Annars vegar 22. janúar 2012 með því að hafa káfað á stúlkunni utan klæða og reynt að káfa á henni innan klæða. Hins vegar 12. mars 2012 með því að hafa farið með hendur undir sæng hjá stúlkunni þar sem hún lá og káfað á brjóstum hennar og rassi utan klæða, fært fótleggi hennar í sundur, káfað á kynfærum hennar innan klæða og potað fingri inn í leggöngin. Með dómi héraðsdóms var ákærði sýknaður hvað varðar atvik 22. janúar 2012. Á hinn bóginn var hann sakfelldur fyrir að hafa 12. mars 2012 farið með hendur undir sæng hjá stúlkunni þar sem hún lá, fært fótleggi hennar í sundur, káfað á kynfærum hennar innan klæða og potað fingri í leggöng hennar, en sýknaður af öðrum atriðum á þeim grunni að framburður stúlkunnar hafi verið óskýr um þau. Hefur ákæruvaldið ekki krafist endurskoðunar á þessum niðurstöðum héraðsdóms.

Þrátt fyrir að framburður A sé að hluta til ekki í fullu samræmi, eins og nánar greinir í héraðsdómi, verður ekki vefengd sú niðurstaða dómsins að framburður hennar sé trúverðugur og fái stoð í framburði vina hennar, fjölskyldu og sérfræðinga. Hins vegar skortir nokkuð á rökstuðning fyrir því mati héraðsdóms að framburður ákærða hafi verið óstöðugur og skýringar ákærða á misræmi í framburði hafi verið ótrúverðugar. Atvikin 12. mars 2012 sem ákært er vegna áttu sér stað í herbergi dóttur ákærða, sem þar var stödd ásamt honum og A. Ég er samþykkur niðurstöðu meirihluta dómenda að ekkert vægi hafi við mat á sönnun það sem móðir B kvað í framburði sínum fyrir dómi B hafa sagt sér. Þá er ég samþykkur meirihlutanum um að leggja verði til grundvallar að B hafi hvorki orðið vör við ætlaða háttsemi ákærða né að A hafi sagt henni frá atvikum í framhaldi af þeim. Þá verður ekki fallist á með héraðsdómi að skýrslur ákærða hjá lögreglu skuli hafa áhrif til sakfellingar hans. Að frátöldu símtali lögreglu við ákærða 16. mars 2012, þar sem ákærði lýsti yfir afstöðu sinni til sakarefnisins, samkvæmt skýrslu lögreglu er bar yfirskriftina „kynning á framkominn kæru - afstaða til tilnefningar verjanda“, hafði lögregla ekki samband við ákærða fyrr en 7. september 2012 eða um sex mánuðum eftir atvikið. Var þá tekin af honum stutt skýrsla. Loks tók lögregla skýrslu af ákærða 11. nóvember sama ár þar sem hann var spurður tiltekinna spurninga um málsatvik. Bera gögn málsins ekki annað með sér en að ákærði hafi svarað spurningum lögreglu. Samkvæmt reglum sakamálaréttarfars, sem fram koma í 2. mgr. 64. gr. og 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, er sakborningi hvorki hjá lögreglu né fyrir dómi skylt að svara spurningum um refsiverða hegðun sem honum er gefin að sök. Verður ekki séð að ákærði, sem staðfastlega hefur neitað sök við alla meðferð málsins, hafi verið sérstaklega spurður hjá lögreglu um þau atriði sem hann svo fyrst lýsti ítarlega fyrir dómi 14. apríl 2014. Samkvæmt framansögðu ber að una við þá skýringu ákærða fyrir dómi á ítarlegum framburði hans þar að hann hafi þá verið búinn að kynna sér gögn málsins og á grundvelli þeirra reynt að rifja upp atvik eins og hann taldi sér vera unnt. Loks verður ekki látið skipta máli, eins og helst má ráða af héraðsdómi, við mat á trúverðugleika framburðar ákærða honum í óhag hvort fyrrverandi sambúðarkona hans kannist við að ákærði hafi haft það fyrir sið að bursta tennur og þvo sér um hendur fyrir svefn.

Þrátt fyrir framangreint tel ég ekki þörf á að vísa málinu heim í hérað til nýrrar meðferðar samkvæmt 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Í því sambandi ber einkum að líta til þess að ákærði, A og B eru ein til frásagnar um sjálf atvikin 12. mars 2012 er máli skipta. Er A sú eina af þeim þremur sem ber um brot ákærða. Í því ljósi eru önnur gögn málsins ekki óyggjandi um sekt ákærða. Samkvæmt 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 hvílir á ákæruvaldinu sönnunarbyrði um sekt sakbornings og atvik er telja má honum í óhag og er gerð sú krafa að komin sé fram í máli nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, um hvert það atriði sem varðar sekt sakbornings. Samkvæmt öllu framansögðu tel ég að slíkur vafi sé uppi um sönnun á háttsemi ákærða 12. mars 2012 að ekki eigi að koma til sakfellingar eftir reglum sakamálaréttarfars. Í samræmi við þetta verði einnig að vísa einkaréttarkröfu frá héraðsdómi og fella málskostnað á ríkissjóð.

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 13. maí 2014.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 14. apríl sl., höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 14. janúar 2014 á hendur ákærða; „X, kennitala [...], [...], [...], fyrir kynferðisbrot framin á [...] á árinu 2012 gegn stúlkunni A, fæddri [...] 1999, sem þá var 12 ára:

1.     Með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 22. janúar, að [...], farið með hendur um fótleggi og í kringum klof stúlkunnar utan klæða og reynt að káfa á henni innan nærbuxna.

2.     Með því að hafa að kvöldi mánudagsins 12. mars, að [...], farið með hendur undir sæng hjá stúlkunni þar sem hún lá og káfað á brjóstum hennar og rassi utan klæða, fært fótleggi hennar í sundur, káfað á kynfærum hennar innan klæða og potað fingri inn í leggöngin.

Telst brot samkvæmt 1. ákærulið varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003. Telst brot samkvæmt 2. ákærulið varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 61/2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Í málinu gerir Gunnhildur Pétursdóttir héraðsdómslögmaður, fyrir hönd C, kennitala [...], vegna ólögráða dóttur hennar, A, kennitala [...], kröfu um að ákærði greiði miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 23. janúar 2012 til 7. október sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærði greiði málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds en til vara að verði hann dæmdur til refsingar þá verði refsing að öllu leyti skilorðsbundin. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði auk greiðslu útlagðs kostnaðar sem er ferðakostnaður verjandans. Þá krefst hann þess aðallega að hann verði sýknaður af framkominni bótakröfu en til vara að krafan verði stórlega lækkuð.

II

Samkvæmt málsgögnum barst lögreglu 14. mars 2012 kæra félagsmálastjóra [...], dagsett sama dag. Í kæru kemur fram að barnaverndarnefnd hafi daginn áður borist tilkynning um kynferðislegt ofbeldi gegn brotaþola, A, sem fædd er [...] 1999. Stúlkan hafi sagt vinkonu sinni, D, frá því að faðir frænku hennar hafi þuklað á kynfærum hennar og nuddað. Þær vinkonurnar hafi ákveðið að segja móður D, E, frá þessu og hafi hún sagt móður brotaþola, C, frá atvikum. C hafi þá haft samband við félagsmálastjóra. Á fundi félagsmálastjóra með C og stjúpföður brotaþola, F, hafi þau upplýst að systir C, G, og ákærði, sem sé sambýlismaður G, hafi búið á heimili C og F tímabundið vegna húsnæðisskorts. Brotaþoli hafi síðan rætt einslega við félagsmálastjóra. Síðan segir í kæru: „A var í uppnámi og grét en sagði svo að þetta hafi byrjað með kitli í nokkra daga en hún fann að þetta var orðið óþægilegt og vildi ekki meira. Hún hafi á einum tímapunkti reynt að sparka ákærða í burtu til að losna við hann. Hún sagði að hann hafi líka verið að strjúka á henni fótinn og lærið. Henni hafi þótt þetta óþægilegt en gerði ekkert í því. Í eitt skiptið hafi hann aðeins farið með höndina inn á nærbuxurnar. Mánudagskvöldið 12. mars hafði hann svo komið til hennar þegar hún var farin að sofa og strokið henni. Hann hafi nuddað í kringum kynfærin og í nárann og svo stungið hendinni innan undir nærbuxurnar og strokið kynfæri hennar. Hann hafi ýtt lærunum í sundur og sýndi hún með látbragði hvernig hann gerði það. Hún sagðist hafa handfjatlað vinabandið sem hún hefur á hendinni á meðan og ekki þorað að gera neitt. Hún segir X hafa farið með fingurna inn í leggöngin. Hún segist hafa spurt B frænku sína [...] hvort pabbi hennar gerði svona við sig líka og hvort þetta væri eðlilegt. Hún segir að B hafi ekki viljað tala um þetta og sagt við hana að þær ættu að tala um eitthvað annað...“

Þann 20. mars 2012 var tekin dómskýrsla af brotaþola í Barnahúsi. Hún lýsti þar tveim tilvikum þar sem ákærði hefði brotið gegn henni. Það fyrra hafi verið í janúar 2012 áður en hún fór í [...]skóla. Ákærði hafi þá búið í [...] og hafi þetta gerst í sama skipti og hún hafi fengið lánaða myndavél hjá ákærða. Þá hafi ákærði nuddað í kringum klofið á henni og farið smá inn á hana og hafi hún haldið að ákærði hafi gert þetta óvart. Ákærði hafi verið að reyna að fara inn á nærbuxurnar hennar en hún hafi verið í gallabuxum og hann varla komist inn á hana. Þetta hafi gerst í sófa í stofu. Ákærði hafi alltaf verið að segja B að fara og sækja eitthvað.

Brotaþoli sagði seinna tilvikið hafa gerst 12. mars 2012. Þá hafi hún legið með B, frænku sinni, uppi í rúmi, í herbergi B, og hafi hún verið með sæng. Ákærði hafi setið á rúminu og farið undir sængina og inn á klofið á henni og nuddað hana. Hann hafi potað inn í leggöngin á henni. Hún hafi reynt að sparka honum í burtu. Þegar hann hætti hafi hann þurrkað af hendinni á lærið á henni. Síðan hafi hann kysst þær báðar góða nótt. Þá hafi ákærði nuddað á henni kynfærin og farið smá inn á hana, og einnig inn á rassinn á henni. Ákærði hafi einnig farið smá ofan á brjóstin á henni. Nánar aðspurð hvort ákærði hafi snert á henni rassinn og brjóstin kvaðst hún ekki vera viss. Meðan ákærði gerði þetta hafi hann hallað sér yfir hana og skoðað í símann hennar. Hún kvaðst hafa reynt að ræða þetta við B þegar þessu var lokið en hún hafi ekki viljað tala um þetta. Hún hafi heyrt að ákærði fór og þreif á sér hendurnar eftir að hann hætti og hafi hún þá sagt við B: „Heyrir þú í vatninu, hann var að þrífa á sér hendurnar.“

Hún kvaðst hafa sagt D, vinkonu sinni, frá þessu og hún hafi sagt móður sinni frá þessu sem hafi talað við móður hennar. Einnig kvaðst hún hafa talað um þetta við H vin sinn.

Einnig var 20. mars 2012 tekin dómskýrsla af D, vinkonu brotaþola, sem fædd er [...] 1999. Hún lýsti því að einn morguninn, þegar hún og brotaþoli komu í skólann, hafi brotaþoli sagt henni að hún þyrfti að tala aðeins við hana um svolítið mikilvægt. Brotaþoli hafi síðan sagt henni að á mánudeginum hefði ákærði verið að káfa á henni „eða eitthvað svoleiðis“. D kvaðst hafa sagt henni að láta einhvern vita, kennara, mömmu sína eða einhvern sem hún treysti. Brotaþoli hafi sagt henni að hún hafi verið inni hjá B og hafi hann þá farið að strjúka henni um fæturna og síðan hafi hann farið á kynfærin. Brotaþoli hafi sagt henni að fyrst hafi þetta verið allt í lagi en svo hafi þetta farið að vera vont. Sama dag hafi þær ákveðið að segja H, vini þeirra, frá þessu en hann hafi ekki tekið þessu jafnalvarlega og hún og taldi að hann hafi ekki alveg „fattað“ hvað var í gangi. Þær hafi síðan farið heim til hennar og hafi hún þá spurt móður sína hvort hún hefði smátíma til að tala við brotaþola. Brotaþoli hafi síðan sagt móður D það sama og hún hafði áður sagt D. Móðir hennar hafi síðan spurt brotaþola hvort hún vildi sjálf tala við móður sína eða hvort hún ætti að gera það fyrir hana. Hún hafi síðan beðið móður D að segja móður sinni frá.

Ákærða var fyrst kynnt sakarefnið í símaskýrslu 16. mars 2012 og lýsti hann þá yfir sakleysi sínu.

Skýrsla var tekin af ákærða á ný 7. september 2012. Ákærði neitað þá sök en kvaðst kannast við að brotaþoli hafi fengið myndavélina lánaða þegar hún var að fara í skólaferðalag en ekki muna frekar eftir því atviki. Hvað varðar atvik 12. mars kvaðst hann hafa verið að hjálpa B að læra þegar brotaþoli kom. Hann hafi klárað að hjálpa B og svo hafi þær háttað sig og farið að sofa.

Loks var tekin skýrsla af ákærða 11. nóvember 2013. Þar lýsti hann því að brotaþoli væri systurdóttir fyrrverandi eiginkonu hans auk þess sem F, fósturfaðir hennar, væri frændi hans og væri hún þrettán eða fjórtán ára gömul. Hann kvaðst hafa flutt í [...] á [...] líklega í febrúar 2011 og búið þar þangað til í febrúar 2012 en þá hafi hann flutt að [...] inn á heimili C og F. Þar hafi hann og fjölskylda hans verið í um mánuð þegar þau voru á milli húsa. Aðspurður um samband brotaþola og B, dóttur hans, sagði hann þær leika sér saman en eigi ekki von á því að þær séu góðar vinkonur, a.m.k. hafi dóttir hans kvartað undan henni. Brotaþoli hafi þá verið að stríða henni og láta hana gera eitthvað sem hún vildi ekki gera og láta hana grenja að óþörfu en hann myndi ekki eftir sérstökum dæmum. Aðspurður hversu oft brotaþoli hafi gist á sömu stöðum og hann dvaldi sagði hann að það væri kannski fimmtán til tuttugu sinnum. Brotaþoli og B hafi þá oft sofið í sama rúmi. Ákærði kvaðst muna eftir því að þau hafi lánað brotaþola myndavél áður en hún fór í [...]skóla og taldi það hafa verið veturinn 2011-2012 þegar þau voru í [...]. Hann kvaðst ekki muna neitt sérstaklega eftir því. Hann kvaðst heldur ekki muna sérstaklega eftir atvikum í mars þegar stúlkurnar hafi sofið í sama rúmi. Hann neitaði því alfarið að hafa brotið gegn stúlkunni.

Þann 14. mars 2012 var tekin skýrsla af móður brotaþola, C. Hún kvaðst fyrst hafa heyrt af málinu hjá E, móður D, vinkonu brotaþola. E hafi sagt að brotaþoli og D hafi ákveðið að segja E frá því að brotaþoli hefði orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu ákærða. Brotaþoli hafi sagt að ákærði hafi farið með hendurnar undir nærbuxur brotaþola. Í kjölfar þess hafi hún og eiginmaður hennar, F, talað við félagsmálastjórann vegna málsins og gefið henni leyfi til að ræða við brotaþola. Eftir þetta hafi hún farið með brotaþola suður þar sem ákærði var þá á [...]. Á leiðinni hafi brotaþoli sagt henni frá atvikum. Hún sagði þetta hafa gerst þrisvar sinnum með svipuðum hætti. Fyrsta tilvikið hafi verið í janúar þegar brotaþoli var að undirbúa sig undir skólaferðalag að [...]. Hún hafi þá verið heima hjá ákærða og fjölskyldu hans og fengið lánaða þar myndavél. Ákærði hafi þá nuddað á henni fæturna og farið með höndina að og á kynfæri hennar. Þá hafi ákærði brotið gegn henni og síðan aftur skömmu síðar. Í framburði C kom fram að brotaþoli hafi sagt henni að B, dóttir ákærða, hafi verið viðstödd þegar ákærði braut gegn henni og hafi hún spurt B hvort henni fyndist þetta eðlilegt og hvort hann hefði gert svona við hana. B hafi eitthvað reynt að eyða þessu og sagt að hann væri alltaf að nudda alla. C kvaðst ekki vita hvenær annað tilvikið gerðist en sagði þriðja skiptið hafa gerst að kvöldi mánudagsins 12. mars 2012. Hún kvaðst hafa skotið skjólshúsi yfir systur sína, sem var sambýliskona ákærða, og fjölskyldu hennar og hafi þau fengið tvö herbergi til afnota á neðri hæð hússins og hafi B sofið í öðru þeirra. Umrædda nótt hafi brotaþoli gist hjá B og hafi þær legið saman uppi í rúmi með sína sængina hvor þegar ákærði kom inn. Ákærði hafi sest á rúmið og farið með höndina undir sængina hjá brotaþola. Hann hafi gert það til að kitla brotaþola en síðan farið með höndina í fætur hennar og glennt hnén eða fæturna í sundur. Hún sagði frásögn brotaþola ekki hafa verið nákvæma og hafi hún ekki rekið á eftir henni. Brotaþoli hafi ygglt sig og tekið oft um andlitið við tilhugsunina á meðan hún var að segja frá. C sagði að þetta kvöld hafi hún komið heim rétt um klukkan 22.00. Þegar hún hafi gengið fram hjá dyrum að herbergi B hafi hún séð að B og brotaþoli voru báðar í rúmi B og ákærði sat á rúmskörinni fyrir miðju rúmi. Hann hafi virst vera að tala við stelpurnar. Hún hafi síðan heyrt skræki og hávaða frá herberginu og einnig heyrt G kalla til þeirra að hætta nú og fara að sofa. B hafi svarað því að pabbi hennar væri að stríða þeim og hávaðinn væri honum að kenna. Hún kvaðst hafa skilið brotaþola svo að B hafi verið við hlið hennar í fyrsta og síðasta skiptið.

Þá var 15. mars 2012 tekin skýrsla af E. Hún sagði að D, dóttir hennar, hafi 13. mars sl. komið til hennar og spurt hana hvort þær mættu tala við hana um mál sem lægi á brotaþola. Hún hafi fallist á það og brotaþoli hafi þá sagt henni vandræðalega að ákærði hafi áreitt hana kynferðislega nokkrum sinnum. Hann hafi snert hana á óþægilegum stöðum. Hún hafi skilið brotaþola þannig að ákærði hafi snert m.a. brjóst hennar og læri. Brotaþola hafi fundist þetta óþægilegt en ekki þorað að segja ákærða að hætta þessu. Þetta hafi byrjað með því að ákærði var að kitla hana og nudda en þetta hafi gengið lengra og hann farið með hendurnar ofan í nærbuxur hennar. Að beiðni brotaþola hafi hún farið til móður hennar og sagt henni frá þessu.

Þann 3. janúar 2014 var tekin skýrsla hjá lögreglu af G, fyrrverandi sambýliskonu ákærða. Hún sagði að hún og hennar fjölskylda hafi búið á heimili C, systur hennar, þegar þau voru á milli húsa. Hún kvaðst muna eftir að hafa verið í næsta herbergi við brotaþola og B, þegar ákærði var hjá þeim að hjálpa B að læra, þegar hún hafi heyrt fíflalæti í brotaþola og ákærða. Hún hafi ekki áttað sig á því fyrr en seinna að henni fannst eins og einhver hafi verið að gráta eða meira eins og snökta þarna inni. Hún hafi spurt bæði ákærða og B að því hvort einhver hafi verið að gráta en þau svarað neitandi. Henni fannst að brotaþoli hafi verið eitthvað skrýtinn þegar hún vakti hana morguninn eftir en gerði engar athugasemdir við það þar sem hún geti verið morgunfúl. Aðspurð sagði hún ekki óhugsandi að henni hafi liðið illa. Hún kvaðst ekki hafa kannað neitt frekar með þennan grát. Hún kvaðst halda að það hafi verið brotaþoli og ákærði sem hún hafi heyrt í en B hafi verið að læra. Þá kvaðst hún ekki muna eftir því að ákærði hafi um þetta leyti þvegið sér um hendurnar og hefði ekki fundist neitt óeðlilegt ef hann hefði gert það þar sem klósettið var beint fyrir framan herbergið. Þá kvaðst hún ekki hafa séð ákærða liggja uppi í rúmi hjá B og brotaþola en hafa vitað af þeim þremur inni í herberginu.

Vitnið sagði að þegar félagsmálastjóri hafi kallað hana til sín vegna málsins hafi hún ekkert vitað hvað var að gerast en hafi sagt ákærða hvert hún væri að fara. Eftir fundinn með félagsmálastjóra hafi hún ekki treyst sér til að fara heim aftur og segja ákærða þetta auglitis til auglitis heldur hafi hún hringt í ákærða. Hún hafi verið viss um að hann yrði brjálaður en svo hafi ekki verið heldur hafi hann verið pollrólegur og sagt: „G þú veist hvað mér finnst um menn sem gera svona.“ Hún kvaðst hafa haldið að hann yrði reiður yfir því að vera borinn þessum ásökunum. Hún hafi í kjölfar þessa farið með B í Barnahús í viðtal. Þá hafi málið leitt til þess að hún og ákærði slitu samvistum. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa viljað senda B í skýrslutöku í Barnahúsi. B sé of viðkvæm til þess. Hún kvaðst hafa tekið afstöðu með brotaþola með því að slíta samvistum við ákærða. Þá sé hún hrædd um að ákærði sé búinn að tala B til og því ekki viss um að hún sé trúverðugt vitni. Ákærði sé faðir B og þyki henni vænt um hann.

Þann 2. janúar 2014 var tekin skýrsla af F, stjúpföður brotaþola. Hann kvaðst hafa frétt af málinu hjá C og þá strax farið að leita að félagsmálastjóranum. Hann kvaðst hafa verið heima að kvöldi 12. mars en ekki heyrt neinn hávaða frá neðri hæðinni. Hann sagði ákærða vera frænda sinn og hafi þeir verið í miklu sambandi en nú sé ákærði hræddur við að hitta hann. F kvaðst oft hafa verið þar sem ákærði hafi verið í herbergi B að fíflast í henni og brotaþola en viti ekki hvort það hafi verið 12. mars eða annan dag. Þau hafi farið með brotaþola akandi suður eftir að málið kom upp og hafi hún á leiðinni sagt þeim frá því sem gerðist. Hún hafi sagt að ákærði hafi ýtt í sundur lærunum á henni og farið með fingur í leggöng hennar.

Skýrsla var tekin af I hjá lögreglu 5. nóvember 2013. Hann kvaðst hafa verið stjúpbróðir brotaþola seinustu þrettán árin. Hann kvaðst í einhverju tilviki hafa séð ákærða skoða „Ipad“ með brotaþola og B inni í herbergi B. Þær hafi þá verið með „Ipadinn“ en ákærði var liggjandi uppi í hjá þeim annaðhvort fyrir endann á rúminu eða því miðju.

Skýrsla var tekin af H hjá lögreglu 5. nóvember 2013. Hann kvaðst hafa þekkt brotaþola síðan í leikskóla. Hann kvaðst hafa verið að labba í mat ásamt brotaþola og D, en muni ekki hvenær það var, þegar hún hafi sagt frá því að brotið hafi verið gegn henni. Hún hafi sagt að maður systur móður hennar hafi gert það og að hann hafi „snert hluti og pota í hlutinn“ og sagði að orðalag brotaþola hafi verið þannig að hann hafi skilið það svo að hann hafi snert kynfæri og brjóst.

Einnig var við rannsókn málsins tekin skýrsla af J en ekki er talin ástæða til að rekja efni hennar.

Fyrir liggur vottorð Ólafar Ástu Farestveit, sérfræðings í Barnahúsi, frá 26. febrúar 2013. Þar kemur fram að hún hitti stúlkuna tíu sinnum á tímabilinu 10. maí 2012 til 28. janúar 2013. Í niðurstöðukafla vottorðsins segir að stúlkan hafi verið dugleg að mæta í viðtöl og nýta sér þau til fulls og hafi líðan hennar batnað umtalsvert á ofangreindu tímabili. Síðan segir: „Allt frá því að vera mjög hrædd og óttaslegin yfir í það að fá bara smá sting í magann við hugsun um að sjá meintan geranda eru miklar framfarir hjá stúlkunni. Hins vegar líður henni illa að hafa þá reynslu sem hún hefur og því fylgir skömm og sektarkennd sem verið er að vinna með. Mjög algengt er að þolendur kynferðislegs ofbeldis upplifi slíkar tilfinningar þar sem þeir einstaklingar taka oft sökina á sig. Flestar erfiðar hugsanir eru liðnar hjá eins og það að hún hafi ekki sömu möguleika í lífinu og aðrir og yfirfærslan um að aðrir gætu mögulega brotið á henni.“

Einnig liggur fyrir vottorð sama aðila frá 1. apríl 2013. Þar kemur fram að stúlkan hafi komið í þrjú viðtöl til viðbótar síðan vottorðið var gefið út 26. febrúar 2013 og fleiri viðtöl séu fyrirhuguð. Stúlkan sé enn að kljást við endurminningar sem koma upp í kollinn á henni ef einhver kemur við eða snertir læri hennar. Þá sé hana enn að dreyma ákærða en ekki sé endilega um martraðir að ræða heldur að hún sjái hann eða forðist að sjá hann í draumi.

Fyrir liggja minnispunktar frá Barnahúsi, dagsettir 18. mars 2012, um viðtal við B, dóttur ákærða, fædda 2. mars 2002. Þar kemur fram að hún hafi ekki tekið eftir neinu óeðlilegu þegar brotaþoli gisti hjá henni fyrir stuttu. Þá neitaði hún því að brotaþoli hefði rætt við hana um föður hennar. Samkvæmt framlögðum gögnum óskaði lögregla eftir því við héraðsdóm 27. september 2013 að dómskýrsla yrði tekin af B vegna rannsóknar málsins en frá því var fallið þar sem móðir hennar lagðist alfarið gegn því.

III

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði lýsti því í skýrslu sinni að hann hafi, ásamt fjölskyldu sinni, flutt frá [...] um mánaðamótin febrúar/mars 2012 að [...]. Þar hafi þau búið í tveimur herbergjum á neðri hæð á heimili C, systur þáverandi sambýliskonu hans, G. Á neðri hæðinni hafi einnig verið salernisaðstaða. Hann sagði sambýlið hafa gengið vel að því er hann best viti. Hann kvaðst hafa þekkt brotaþola lengi og að stjúpfaðir hennar, F, sé frændi hans og þeir hafi verið fínir vinir. Brotaþoli og B, dóttir hans, hafi umgengist mikið. B hafi oft kvartað undan því að brotaþoli komi ekki vel fram við hana. Ákærði gat ekki nefnt dæmi um þetta en sagði að þetta hafi t.d. gerst í fyrra sumar. Þau hafi flutt á [...] 2012 en B og brotaþoli hafi verið í samskiptum fyrir þann tíma. Aðspurður kvaðst hann hafa verið í samskiptum við B síðan málið kom upp en þá hafi hann og þáverandi sambýliskona hans slitið samvistum.

Ákærði kvaðst muna eftir því þegar brotaþoli kom til þeirra í janúar 2012 til að fá lánaða myndavél. Hún hafi ekki stoppað lengi og hafi G og B einnig verið heima þá. G hafi verið í næsta herbergi en B hjá honum. Hann kvaðst ekki muna hvar í húsinu brotaþoli fékk myndavélina. Hann sagði þau hafa verið með myndavélina í stofunni og hafi hann og B verið að sýna brotaþola hvernig myndavélin virkaði. Hann sagði ekkert hafa gerst þá sem túlka mætti óviðeigandi og minnist þess ekki að hafa snert hana á neinn hátt. Aðspurður kvaðst hann ekki muna hvort B og brotaþoli hafi farið að gera eitthvað eftir að brotaþoli fékk myndavélina. Hann hafi aldrei verið einn nálægt brotaþola í umrætt sinn.

Hvað varðar atvik 12. mars 2012 þá kvaðst hann hafa verið að hjálpa B að læra og hún og brotaþoli hafi síðan farið að hátta og sofa og hann hafi þá boðið þeim góða nótt. Þegar B var búin að læra og þær búnar að hátta sig hafi hann eitthvað verið að fíflast og gantast með þeim stutta stund áður en þær fóru að sofa. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa setið á rúminu en geti ekkert fullyrt um það. Hann sagði alla hafa verið heima þetta kvöld og hafi G verið í næsta herbergi. Ákærði sagði brotaþola og B eitthvað hafa gist saman á þessum tíma á heimilum þeirra beggja og þá hafi þær sofið saman í rúmi. Á þessum tíma hafi hann almennt hjálpað B með heimanámið. Hann kvaðst muna eftir því að í umrætt sinn hafi brotaþoli verið að spyrja hann hvað hann ætti marga vini í símanum og hafi henni þótt fyndið að hann ætti um 700 vini. Hann kvaðst ekki muna eftir því að hafa fengið símtal á meðan á þessu stóð og ekki muna eftir því að hafa verið að skoða í síma brotaþola. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa verið að kitla þær en það hafi hann gert einhvern tímann og þá kitlað þær rétt neðan við rifbein. Þá kvaðst hann ekki muna eftir því að brotaþoli hafi einhvern tímann verið ósátt við að vera kitluð. Hann sagði stúlkurnar væntanlega hafa verið komnar undir sæng á meðan glensið var en hann hafi ekki farið með hendurnar undir sæng hjá brotaþola. Einnig kom fram hjá ákærða að hann þvoði alltaf á sér hendurnar fyrir svefn og burstaði í sér tennurnar en muni ekki eftir því að hafa þvegið sér um hendurnar eftir framangreint atvik.

Aðspurður um það af hverju hann hafi ekki skýrt frá því hjá lögreglu að hann hafi verið með glens við stelpurnar þetta kvöld og að hann hafi verið í samskiptum við þær eftir að B lauk heimanáminu sagði ákærði að verið gæti að hann hafi ekki verið spurður um þetta eða hann hafi ekki talið þetta skipta máli. Aðspurður af hverju hann muni meira nú kveðst hann hafa verið að hugsa um þetta. Hann sagði engar snertingar hafa átt sér stað af hans hálfu. Ekkert illt hafi verið á milli hans og brotaþola á þessum tíma og geti hann ekki útskýrt af hverju þessar sakir væru bornar á hann. Eftir að mál þetta kom upp hafi hann farið að drekka og hafi hann á endanum farið í meðferð. Einnig hafi hann sótt tvo tíma hjá sálfræðingi og hafi það hjálpað honum.

Brotaþoli, A, lýsti því fyrir dómi að það hafi verið um kvöld í janúar 2012 sem hún hafi farið á heimili ákærða að [...] til að fá lánaða myndavél þar sem hún var að fara í [...]skóla. Ákærði hafi þurft að kenna henni á myndavélina og verið gæti að B hafi einnig eitthvað komið að því. Aðspurð kvaðst hún ekki vita hvort G hafi verið heima. Þau hafi eitthvað verið að prófa að taka myndir og hafi hún verið að leika eitthvað við B. Þau hafi verið í stofunni og hafi hún legið í sófanum í „Playstation“ eða eitthvað en B farið inn í herbergi að sækja eitthvað. Þegar hún kom til baka hafi ákærði sent hana eitthvað annað. Ákærði hafi þá kitlað brotaþola og reynt að fara ofan í buxurnar hennar og hafi hann næstum því farið ofan í þær. Fyrst hafi hann verið að kitla á henni tærnar en þar hafi hana ekki kitlað og síðan upp innanvert lærið í klofið á henni og ætlað ofan í buxurnar þegar B kom. Hann hafi þá sent hana að sækja eitthvað annað. Hann hafi komið við hana undir buxnastreng. Hún sagði þetta hafa gerst á um fimm mínútum og hafi henni fundist þetta langur tími. Hún hafi ekki spáð mikið í hvað var að gerast. Hún sagði ákærða hafa kitlað sig áður en ekki svona nálægt klofinu. Brotaþoli kvaðst ekki hafa sagt neinum frá þessu atviki.

Hvað varðar atvikið 12. mars þá sagði hún ákærða og fjölskyldu hans hafa búið heima hjá henni. Hún og B hafi þá verið í rúmi B að tala saman. B hafi verið að læra en hún muni ekki hvort ákærði hafi verið að hjálpa henni. B hafi verið í rúminu, nær veggnum, í horninu. Hana minnti að þær hafi haft tvær sængur, að hún hafi farið upp og sótt sína sæng. Hún kvaðst halda að hún hafi verið í nærbuxum og náttbuxum en þannig hafi hún almennt sofið á þessum tíma. Einnig hafi hún verið annaðhvort í bol eða nærbol og í sokkum. Hún sagði rúmið hafa verið mjótt, ekki tvíbreitt og við hlið þess hafi verið kommóða. Ákærði hafi komið og sest á rúmið „í endanum“, og farið undir sængina og inn á hana undir buxnastreng sem hafi verið teygjanlegur og hafi hann verið inni í náttbuxunum hennar allan tímann. Þá kom fram hjá henni að hún væri aldrei í þröngum náttbuxum. Hún hafi orðið mjög stressuð og farið að fikta í armbandi sem hún var með. Hún hafi legið á bakinu og ákærði hafi ýtt lærunum upp, og verið með hendurnar í náranum. Hann hafi „puttað“ hana með því að setja fingur inn í kynfæri hennar og fiktað í kynfærum hennar. Þegar ákærði ýtti fótunum á henni upp hafi þær titrað og lekið aftur niður og ákærði þá ýtt þeim aftur upp. Hún hafi ekki þorað að segja neitt. Hana minni að þau hafi verið að skoða hvað hann var með marga tengiliði í símanum og hvað hún hafi verið með marga í sínum síma. Hún sagði ákærða einnig hafa verið að skoða í síma hennar. Hún kvaðst ekki muna hvort þau hafi eitthvað verið að hlæja. Hann hafi hvorki komið við brjóst hennar eða rass. Ákærði hafi verið að tala við B á meðan hann gerði þetta. Hún sagði ákærða hafa káfað á sér eftir að hafa farið fram og talað í símann. Ákærði hafi svo hætt og þurrkað sér í, að hana minni, lærið á sér og sagt þeim að fara að sofa og fór sjálfur og þvoði sér um hendurnar í vaski á salerni á neðri hæðinni. Hún kvaðst hafa sagt B frá þessu þegar ákærði var farinn en hún hafi ekki viljað ræða þetta. Hún sagði B hafa verið í rúminu allan tímann. Hún viti ekki hvort B hafi áttað sig á því hvað var að gerast. Sjálf hafi hún bara horft á hendurnar á sér en ekki B. Aðspurð sagði hún að þær hafi verið fínar vinkonur en hún hafi stjórnað allan tímann. Þeirra samband hafi breyst mjög mikið eftir þetta.

Brotaþoli sagði að morguninn eftir hafi henni liðið ótrúlega illa og verið í miklu sjokki og hafi ekki vitað hvað hún ætti að gera. Hún hafi ekki farið á fætur fyrr en ákærði var farinn í vinnu. Hún sagði D, vinkonu sinni, frá þessu þegar hún kom í skólann og einnig H þegar þau voru að labba í mat ásamt D. Þær hafi farið heim til D og beðið eftir móður D og hafi hún sagt henni hvað gerðist. Móðir D hafi þá sagt móður hennar frá þessu. Hún kvaðst hafa verið „smeik“ við að segja móður sinni frá þessu en hún hafi ekki þekkt hana mikið á þessum tíma. Í kjölfar þessa hafi hún talað við K félagsmálastjóra. Eftir þetta hafi hún verið stressuð yfir framtíðinni og haldið að þetta mundi skemma fyrir henni en svo hafi þetta lagast. Hún sagði þessi atvik koma alltaf upp í hausinn á sér inn á milli. Aðspurð sagði hún samskipti sín við B ekki vera góð í dag og finnist henni eins og B sé að forðast hana.

C, móðir brotaþola, lýsti því að mánudagskvöldið 12. mars, þegar hún kom heim, hafi B og brotaþoli verið í herbergi sem B svaf í, á neðri hæð hússins, með ákærða. Hún kvaðst hafa heyrt skríki og hlátur í þeim eins og einhver væri að fíflast. Sjálf hafi hún farið upp en heyrt í þeim þangað en ekki orðaskil. Ákærði hafi síðan komið upp hálfan stigann og spurt hana um eitthvað sem þau höfðu rætt áður, að hún hélt varðandi það hvort maður hennar færi á sjóinn. Henni hafi fundist skrýtið að hann væri aftur að spyrja um það sama. Morguninn eftir hafi brotaþoli farið upp í sitt herbergi og lagst upp í rúmið. Vitnið kvaðst hafa verið hvöss við hana af því að hún fór ekki á fætur en brotaþoli hafi verið treg til að fara fram úr. Seinna hafi brotaþoli sagt henni að hún hafi ekki viljað hitta ákærða og þess vegna hafi hún farið upp í herbergi sitt. Seinna þennan dag hafi E talað við hana og hún í kjölfar þess talað við G félagsmálastjóra. Vitnið taldi að ákærði og fjölskylda hans hafi flutt til þeirra á [...] um mánaðamótin janúar/febrúar, frá [...]. Þau hafi haft til afnota tvö herbergi og salerni á neðri hæð. B og brotaþoli hafi oft gist saman og þá hafi þær frekar sofið á neðri hæðinni og hafi þær verið nánar á þessum tíma. Hún kvaðst ekki muna eftir því að B hafi kvartað undan brotaþola. Þá kvaðst hún minnast þess að síðustu vikuna í janúar 2012 hafi brotaþoli fengið lánaða myndavél frá ákærða. Hún kvaðst hafa verið að sinna sveitarstjórnarmálum á þessum tíma og venjulega komið heim milli klukkan átta og tíu. Varðandi tilvikið 12. mars kvaðst vitnið minnast þess að hafa séð í bakið á ákærða í herberginu hjá stelpunum og heyrt í þeim. Ákærði hafi setið á rúmi stelpnanna, nær fótunum en höfðinu. Henni finnist eins og B hafi verið fyrir innan í rúminu en ekki séð hvort þær voru undir sæng. Hún haldi að ákærði hafi verið að kitla þær þar sem þær hlógu og hafi henni ekki fundist neitt óvenjulegt við þetta. Hún hafi einnig heyrt að þau voru að tala rólega saman. Vitnið kvaðst telja að frá því hún kom hafi ákærði verið líklega um 20 mínútur hjá stelpunum. Hún kvaðst ekki muna eftir því að hafa heyrt G kalla og segja þeim að hætta hávaða og fara að sofa og B svara en rámi nú eitthvað í þetta þegar rifjaður er upp framburður hennar um þetta hjá lögreglu.

Vitnið sagði E hafa sagt henni að brotaþoli væri hrædd um að þau yrðu reið og hafi henni verið mikið létt þegar svo varð ekki. Hún sagði þær mæðgur ekki hafa verið nánar á þessum tíma en orðið það eftir þetta. Þau hafi farið suður þegar málið kom upp þar sem hún treysti sér ekki til að hitta ákærða sem þá bjó á heimili þeirra. Brotaþoli hafi talað mikið um atvikið á leiðinni suður. Hún sagði brotaþola hafa virkað óttasleginn þegar hún sagði frá og síðar hafi hún grátið en aðallega hafi henni verið létt. Brotaþoli hafi talað um tvö skipti en ekki lýst atburðum nákvæmlega. Hún hafi hryllt sig þegar hún lýsti því að ákærði hefði í öðru tilvikinu ýtt fótum hennar en muni ekki hvort hún hafi sýnt slík viðbrögð þegar hún lýsti öðrum atvikum. Brotaþoli hafi óttast að hún hefði boðið upp á þetta, að ákærði og G mundu skilja og að ákærði hefði gert eitthvað við B. Brotaþoli sagði einnig að hún hafi reynt að segja B frá því sem gerðist en B hafi ekki viljað hlusta á hana. Hún vissi að einhvern tímann þegar brotaþoli hafi talað um þetta við B hafi B sagt að ákærði væri alltaf að kitla alla og nudda alla. Einnig hafi brotaþoli verið með sjálfsásakanir fyrir að stoppa ekki kitlið. Eftir seinna tilvikið hafi brotaþoli lagt að jöfnu atvik í janúar og mars og áttað sig á því að atvikið í janúar var meira en kitl. Brotaþoli hafi þurft að ræða mikið um afleiðingar þess sem gerðist frekar en atvikin sjálf. Það hafi verið hennar leið til að vinna sig út úr þessu. Í ársbyrjun 2014 hafi einkunnir brotaþola lækkað og hegðun hennar hafi verið erfið. Um hafi verið að ræða skrítna hegðun við hitt kynið en hún hafi eitthvað verið að nuddast í strákum.

F, stjúpfaðir brotaþola til þrettán ára, sagði í framburði sínum fyrir dómi að hann hafi orðið var við einhverjar kýtingar í samskiptum B og brotaþola en ekki að brotaþoli hafi verið að láta B gráta. Hann sagði E, móður D, hafa hitt C og sagt henni frá því sem brotaþoli sagði. Sjálfur hafi hann þá verið að koma af sjó og hafi farið að leita að félagsmálastjóranum þegar C sagði henni frá þessu. Í kjölfarið hafi þau rætt við félagsmálastjórann um atvik. Vitnið sagði B og brotaþola oft hafa gist í sama herbergi og að ákærði hafi oft verið inni í herbergi hjá þeim að kitla þær. Hann sagði þau hafa farið með brotaþola suður þegar málið kom upp. Á leiðinni hafi hann hlustað á frásögn brotaþola og hafi hún sagt að ákærði hafi þrýst lærum hennar í sundur og potað fingur í leggöng hennar. Þá hafi komið fram hjá brotaþola að hún hafi reynt að tala við B um það sem gerðist en hún hafi ekki viljað tala um þetta. Hann sagði að sér fyndist brotaþoli hafa verið fælin við sig eftir að atvikið kom upp en sé nú að koma til baka. Hann sagði ákærða hafa forðast hann eftir að málið kom upp. Þá hafi þetta haft áhrif á vináttu brotaþola við B, t.d. hafi B í einhverju tilviki ekki viljað leika við brotaþola.

G, fyrrverandi sambýliskona ákærða, sagði þau hafa flutt frá [...] að [...] í mars 2012. B hafi verið í sérherbergi á [...]. Aðspurð um atvik að kvöldi mánudagsins 12. mars 2012 sagði hún brotaþola og B hafi verið í herbergi B ásamt ákærða. Vitnið hafi verið í herberginu við hliðina og I hafi verið á neðri hæðinni í tölvunni. Hún hafi heyrt fíflalæti eins og verið væri kitla þær. Einnig hafi henni fundist eins og einhver væri að gráta en hafi ekki farið að athuga með það þar sem hún hafi verið slösuð og hafi treyst ákærða sem var hjá þeim. Aðspurð kvaðst hún ekki muna eftir því að ákærði hafi verið að tala í síma eða að hann hafi þvegið sér um hendurnar eftir að hafa verið inni hjá stelpunum. Þá kvaðst hún ekki minnast þess að ákærði hafi almennt þvegið sér um hendurnar áður en hann fór að sofa. Vitnið sagði að henni hafi fundist brotaþoli vera skrýtin þegar hún vaknaði morguninn eftir. Brotaþoli hafi farið inn í sitt herbergi þegar hún vaknaði en ekki farið á fætur og hafi hún ekki verið komin fram þegar vitnið fór til vinnu, sem var ekki eðlilegt. Síðar um daginn hafi félagsmálastjóri hringt í hana og beðið hana að hitta sig úr af máli. Vitnið hafi þá ekki vitað um hvað málið snérist en talið það tengjast vinnu sinni. Hún hafi fyrst heyrt af málinu þegar hún hitti félagsmálastjórann. Þá kvaðst vitnið hafa orðið hissa á viðbrögðum ákærða þegar hún hringdi í hann og sagði honum að brotaþoli hefði lýst því að hann hefði brotið gegn henni. Hann hafi verið hissa og mjög rólegur en ekki brjálaður eins og hann gat orðið en hann sé skapmaður. Ákærði hafi t.d. oft sýnt viðbrögð við fréttum um kynferðisbrot. Hann hafi sagt við hana. „Þú veist alveg hvað mér finnst um menn sem gera svona.“ Þegar B kom í Barnahús vissi hún ekki af því máli sem upp var komið varðandi brotaþola. Þá kvaðst vitnið kannast við að brotaþoli hafi strítt B en ekki þannig að hún hafi látið hana gráta. Aðspurð um ástæðu þess að B gaf ekki skýrslu vegna málsins sagði vitnið að B væri búin að ganga í gegnum nóg. Hún hafi verið náin föður sínum en það hafi breyst vegna málsins. B hafi nú takmarkaða umgengni við ákærða þar sem vitnið treysti honum ekki. B hafi sagt að brotaþoli bæri ákærða röngum sökum. Einnig hafi komið fram hjá B að henni fyndist erfiðast að vita ekki sannleikann. Vitnið sagði B hafa viðurkennt fyrir sér nokkrum dögum eftir að hún kom úr Barnahúsi úr könnunarviðtali að brotaþoli hefði sagt henni þetta kvöld hvað hefði gerst. Þá kom fram hjá vitninu að B hafi sagt henni að ákærði hafi sagt B að lögregla hafi komið heim til hans að skoða tölvuna hans og að hann hafi sagt B að segja ekki móður sinni frá því. Aðspurð um atvik 22. janúar 2012 kvaðst vitnið muna eftir því að brotaþoli kom til að fá lánaða myndavél.

Vitnið H, bekkjarbróðir brotaþola, lýsti því í skýrslu sinni að brotaþoli hefði sagt honum frá því að ákærði hafi brotið gegn henni, snert hana á kynfærum o.fl. Hann sagði að brotaþola hafi fundist erfitt að segja frá og einnig vandræðalegt og hafi hún verið byrjuð að tárast. Vitnið kvaðst alltaf hafa verið náinn vinur brotaþola og það sé líklega ástæða þess að hún sagði honum frá atvikum. Hún hafi orðið feimnari eftir þetta en það hafi nú lagast.

Ólöf Ásta Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðingur og starfsmaður Barnahúss, staðfesti í framburði sínum fyrir dómi að hún hafi ritað tvö vottorð vegna málsins, annars vegar dagsett 26. febrúar 2014 og hins vegar 1. apríl 2014. Hún kvaðst hafa verið með brotaþola í meðferðarviðtölum. Eftir að hún fór að hitta brotaþola hafi orðið mikil spennulosun hjá brotaþola. Hún hafi verið búin að draga sig í hlé og hélt sig inni. Þá hafi hún frosið þegar atvikið átti sér stað og ekki vitað hvað hún átti að gera, henni hafi vantað bjargráð. Einnig hafi hún haft áhyggjur af því að hitta ákærða á bæjarhátíðinni Hamingjudögum sem halda átti skömmu seinna. Brotaþoli hafi verið í viðtölum í um ár eða til 13. maí 2013 og þá hafi verið gert hlé en byrjað aftur eftir að ákveðið var að málið færi í dóm. Þá hafi brotaþoli aftur verið farinn að finna fyrir streitu. Hún kvaðst hafa hitt brotaþola síðast 7. apríl sl. og þá hafi henni liðið vel að öðru leyti en því að hún hafi fundið fyrir streitu vegna dómsmeðferðarinnar. Hún sagði streitu tengda dómsmeðferð vera algenga hjá brotaþolum í svona málum, m.a. vegna þess að þá þarf viðkomandi að rifja allt upp aftur. Einnig hafi brotaþoli verið með miklar áhyggjur af B og móður hennar og áður en hún sagði frá því sem gerðist hafi hún haft áhyggjur af því að það væri ekki nógu slæmt til að segja frá. Hún sakni B en samskipti þeirra hafi breyst. Fyrstu vikurnar hafi brotaþoli verið með martraðir um ákærða sem breyttust í drauma um hann og seinna í drauma um að rekast á hann. Þetta hafi endurspeglað hugsanir hennar. Þá hafi hún óttast tvo eða þrjá menn á [...] og hafi velt því fyrir sér hvort þeir gætu gert henni eitthvað en þar sé um að ræða yfirfærslu. Þá hafi komið fram kveikjur sem minni hana á atvik, eins og t.d. vatn að renna í vaski, herbergið niðri, B og þegar klipið er í læri. Einnig hafi myndast hjá henni hræðsla sem sé þessu ótengd. Þá upplifi hún þetta sem svik við sig. Brotaþoli hafi ekki uppfyllt viðmið um áfallastreitu. Aldrei hafi komið fram óvild brotaþola í garð ákærða. Þá kom fram hjá vitninu að þau einkenni sem brotaþoli sýndi væru algeng hjá brotaþolum, t.d. yfirfærsla, skömm og sektarkennd. Vitnið sagði brotaþola ekki hafa verið missaga um atvik eða líðan og henni finnist hún frekar draga úr en bæta í. Fram kom hjá henni að brotaþola gengi vel að vinna úr atvikum en það segði í sjálfu sér ekkert um brotin sjálf. Hún sagði brotaþola hafa náð svo langt á þessum tveimur árum að hún telji að afleiðingar muni ekki hindra hana í framtíðinni.

Vitnið E, móðir D, vinkonu brotaþola, lýsti atvikum svo að þegar hún kom heim þennan dag hafi D og brotaþoli spurt hvort brotaþoli mætti segja henni frá svolitlu. Hún hafi svarað því játandi og hafi brotaþoli þá sagt henni að ákærði hefði kitlað hana og verið með óþægilegar snertingar og eitthvað með að fara inn á buxur. Hafi þetta gerst nokkrum sinnum. Hún sagði að brotaþola hafi fundist þetta vera vandræðalegt og hafi verið pínulítið flissandi og ekki vitað hvernig hún ætti að haga sér. Það hafi ekki verið eins og þetta væri grín heldur frekar vegna þess að hún vissi ekki hvernig vitnið mundi bregðast við þessu. Vitnið kvaðst hafa þekkt brotaþola síðan hún var lítil og sagði D hafa verið vinkonu hennar síðan í leikskóla. Komið hafi fram hjá brotaþola að hún óttaðist að móðir hennar myndi ekki trúa sér og vildi að vitnið talaði við hana. Aðspurð kvaðst hún ekki muna eftir því að brotaþoli hafi sagt ósatt.

I, stjúpbróðir brotaþola, lýsti því í skýrslu sinni að brotaþoli og B hefðu stundum gist saman og hafi þær verið vinkonur. Hann sagði að honum fyndist brotaþola hafa liðið illa út af þessu, liðið illa í hjartanu, það hafi sést á henni. Hún hafi verið döpur. Aðspurður um mánudagskvöldið 12. mars sagði hann að hann hefði verið niðri í tölvunni en ekki uppi eins og fram kom í framburði hans hjá lögreglu. Þegar hann er í tölvunni sé hann alltaf með heyrnartól að tala við vini sína og heyri því ekkert annað. Hann sagði ákærða hafa í einhverjum tilvikum verið með stelpunum niðri í herbergi. Hann kvaðst kannast við að hafa gefið skýrslu hjá lögreglu 5. nóvember 2013 og það atvik sem hann lýsir þar, að hafa séð stelpurnar í rúmi í öðru herberginu á neðri hæðinni og ákærða með þeim. Þau hafi verið að skoða einhvern „Ipad“ saman. Þá staðfesti hann að hafa í skýrslutökunni teiknað upp aðstæður eins og hann taldi þær þá vera. Hann sagði það sem kemur fram í skýrslunni rétt eftir sér haft en hann muni ekki mikið af þessu í dag. Hann telur sig muna eftir að hafa séð ákærða þar með stelpunum en ekki nákvæmlega hvernig þau voru í rúminu. Hann hafi gáð inn og svo farið aftur en ekki verið allan tímann að fylgjast með þeim. Þá kvaðst hann ekki vita hvaða dag hann hafi séð þetta og ekki tengja atvik sérstaklega við 12. mars 2012.

Þorbjörg Sveinsdóttir, sálfræðingur í Barnahúsi, kvaðst hafa tekið könnunarviðtal við B í mars 2012 og kvaðst muna vel eftir henni. Hún sagði viðtalið hafa gengið vel. B sé skýr og eðlileg miðað við aldur en hafi verið dálítið kvíðinn. Hún hafi svarað öllum spurningum greiðlega og svarað öllu neitandi varðandi það hvort hún hafi tekið eftir einhverju óeðlilegu þegar brotaþoli gisti hjá henni fyrir stuttu. Aðspurð sagði hún erfitt að ráða í svör barna. Spurningar um náinn ættingja gætu valdið því að henni finnist þetta óþægilegt frekar en að það sé vegna þess að hún sé ekki að segja satt. Henni hafi augljóslega fundist þetta vera erfitt umræðuefni. Þá hafi hún neitað því að brotaþoli hafi talað eitthvað við hana um föður hennar. Þá sagði vitnið það vera þekkt að krakkar væru ekki tilbúnir til að segja frá og segðu seinna frá atvikum. Alltaf sé tekið fram í minnispunktum Barnahúss að þó að barn tjái sig ekki útiloki það ekki að brot hafi átt sér stað. Þá eigi börn erfiðara með að segja frá brotum þeirra sem þeir tengjast og búa jafnvel á sama heimili.

K, fyrrverandi félagsmálastjóri, sagði foreldra brotaþola hafa stöðvað hana úti á götu og sagt henni frá því sem hafði gerst. Hún hafi síðan rætt við þau á skrifstofu sinni og í kjölfar þess rætt við brotaþola. Stúlkan hafi verið í miklu uppnámi en henni hafi létt við að segja frá og eftir að henni hafði verið sagt að þetta mundi ekki skaða hana. Brotaþoli hafi grátið þegar hún sagði frá og hafi vitninu ekki fundist frásögn hennar vera ýkt. Hún hafi í frjálsri frásögn sagt vitninu frá því sem hún hafði áður sagt foreldrum sínum frá. Í upphafi hafi móðir brotaþola verið með henni en síðan hafi vitnið talað við hana eina. Frásögn brotaþola hafi verið á þann veg að um hafi verið að ræða sama geranda og tvö tilvik. Annars vegar hafi verið um að ræða atvik sem gerðist þegar brotaþoli var í heimsókn hjá frænku sinni og hafi ákærði þá farið inn á buxur hennar. Hitt tilvikið hafi átt sér stað þegar hún var að gista hjá frænku sinni en þá hafi ákærði farið inn á nærbuxurnar hjá henni. Seinna atvikið hafi verið brotaþola ofar í huga. Hún hafi sagt að B hafi þá verið á staðnum. Brotaþoli hafi reynt að ræða það sem gerðist við B strax eftir atvikið en hún hafi ekki viljað tala um það. Vitnið kvaðst hafa hringt í Barnahús eftir að hafa rætt við brotaþola. Þá kom fram hjá vitninu að í svona tilvikum þurfi að vinna hratt og ekki sé hægt að boða í viðtal með viku fyrirvara eins og barnaverndarlög geri ráð fyrir. Hún hafi talið þörf á að taka strax viðtal við brotaþola sem hafi verið í miklu uppnámi. Þá kvaðst hún hafa rætt við vitnið G sama dag og sagt henni frá því sem hafði komið fram.

Skúli Berg lögreglufulltrúi kvaðst hafa fengið málið til rannsóknar síðari hluta ársins 2013 en hann hafi ekki komið að rannsókn málsins í upphafi. Aðspurður sagði hann það hafa verið að beiðni ríkissaksóknara sem óskað var eftir símagögnum.

IV

Ákærði hefur neitað sök.

Af hálfu verjanda ákærða var gerð athugasemd við framkvæmd viðtals vitnisins K, þáverandi félagsmálastjóra, við brotaþola 13. mars 2012. Eins og rakið hefur verið hér að framan leituðu vitnið C, móðir brotaþola, og vitnið F, stjúpfaðir brotaþola, til félagsmálastjórans eftir að vitnið E sagði þeim frá frásögn brotaþola. Félagsmálastjórinn ræddi þá við brotaþola, fyrst að vitninu C viðstaddri en síðan við brotaþola einan. Í kjölfar þess vísaði félagsmálastjóri málinu til lögreglu með kæru dagsettri 14. mars 2012. Á þeim tímapunkti var forræði rannsóknarinnar komið í hendur lögreglu. Samkvæmt 41. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skal könnun á því hvort brotið hafi verið gegn barni hraðað svo sem kostur er. Viðtal félagsmálastjóra við brotaþola varð til þess að strax varð ljóst af hálfu yfirvalda að brotaþoli taldi sig hafa orðið fyrir kynferðisbroti og var því ekki þörf á könnunarviðtali í Barnahúsi. Af hálfu dómsins er ekki fallist á það með verjanda ákærða að sýnt hafi verið fram á að meðferð málsins af hálfu félagsmálastjóra hafi verið ábótavant.

Ákærði lýsti því í framburði sínum 7. september 2012 að hann hafi verið að hjálpa B að læra þegar brotaþoli kom í herbergið en þær farið að sofa eftir að B hafði lokið við að læra. Í framburði sínum 11. nóvember 2013 kvaðst hann kannast við að fyrir hafi komið að brotaþoli hafi gist hjá B en ekki muna sérstaklega eftir að svo hafi verið 12. mars 2012. Þá sagði ákærði hjá lögreglu að hann sé almennt ekki mikið fyrir að snerta fólk og eina dæmið sem hann nefnir um að hann snerti aðra sé að hann knúsi börnin sín. Fyrir dómi gaf ákærði mun ítarlegri framburð um samskipti sín við brotaþola þessa tvo daga sem tilgreindir eru í ákæru og kannaðist þá einnig við að þær aðstæður hafi verið uppi 12. mars sem brotaþoli hefur lýst. Aðspurður fyrir dómi um það af hverju hann hafi ekki skýrt frá því hjá lögreglu að hann hafi verið með glens við stelpurnar að kvöldi 12. mars og að hann hafi verið í samskiptum við þær eftir að B lauk heimanáminu sagði ákærði að verið gæti að hann hafi ekki verið spurður um þetta eða hafi ekki talið þetta skipta máli. Þá gaf hann þær skýringar að hann hafi verið búinn að hugsa mikið um þetta. Við mat á þessum skýringum ákærða þarf að hafa í huga að það var fyrst 7. september 2012, um sex mánuðum eftir að málið var kært, sem ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu og var spurður um málsatvik. Áður hafði hann gefið skýrslu 16. mars 2012 en þá var hann ekki spurður um einstök atvik. Loks ber að líta til þess að í framburði sínum 11. nóvember 2013, eða fimm mánuðum fyrir aðalmeðferðina mundi hann minna eftir atvikum 12. mars 2012 en hann hafði gert 7. september 2012. Þá er einnig til þess að líta að þær lýsingar ákærða fyrir dómi sem ekki höfðu komið fram áður eru í samræmi við framburði vitna hjá lögreglu sem ákærði hafði aðgang að fyrir aðalmeðferð málsins. Má þar t.d. nefna að hjá vitninu C og vitninu G, móður B, kom fram að hlátur og skríkir hafi heyrst í stelpunum þetta kvöld. Þá kom fram hjá brotaþola að þær hafi verið að skoða í síma ákærða þetta kvöld. Samkvæmt vitninu I, stjúpbróður brotaþola, varð hann vitni að því eitthvert kvöldið að ákærði var í herberginu með stelpunum að skoða síma. Þá hafði komið fram í framburði brotaþola, og vitnanna F, G og C, að ákærði hafi verið að kitla eða fíflast í stelpunum þetta kvöld og hjá brotaþola að ákærði hafi einnig kitlað hana í a.m.k. tveimur öðrum tilvikum.

Brotaþoli hefur frá upphafi borið um að ákærði hafi, eftir seinna tilvikið, þvegið sér um hendurnar. Þessu neitaði ákærði hjá lögreglu en fyrir dómi sagðist hann alltaf hafa þvegið sér um hendurnar og burstað tennur fyrir svefn. Þetta fær hins vegar ekki stuðning í framburði fyrrverandi sambýliskonu hans sem fyrir dómi kvaðst ekki kannast við að ákærði hafi haft þessa venju.

Það er mat dómsins að ekki hafi, af hálfu ákærða, komið fram trúverðugar skýringar á því misræmi sem er á framburði hans hjá lögreglu og fyrir dómi.

Frá upphafi hefur framburður brotaþola verið stöðugur um atvik. Fyrir dómi kom skýrt fram hjá henni að ákærði hafi ekki snert á henni rassinn og brjóstin 12. mars. Við mat á þessu misræmi í framburði hennar þarf að hafa í huga að í skýrslu sinni í Barnahúsi sagði hún ákærða hafa snert „smá“ rass og brjóst og nánar aðspurð kvaðst hún ekki vera viss um þetta. Þá hafa frásagnir vitna af því sem brotaþoli sagði þeim um atvik, þ.e. vitnanna C, G, F, E, H og Þorbjargar Sveinsdóttur, í meginatriðum verið í samræmi við framburð brotaþola í Barnahúsi og fyrir dómi. Frásögn hennar við þessa aðila var þó ekki jafnítarleg, enda má ráða af framburðum þeirra að þeir voru ekki að leitast við að fá fram nákvæmari lýsingu af atvikum.

Ákærði byggir sýknukröfu sína á því að alls sé ósannað að atvik hafi gerst með þeim hætti sem lýst er í ákæru. Hvað 1. ákærulið varðar byggir ákæruvaldið aðallega á framburði brotaþola. Brotaþoli tjáði sig fyrst um atvikið 13. mars 2012 daginn eftir að brot það sem lýst er í 2. ákærulið átti sér stað. Af framburði hennar má ráða að það hafi fyrst verið þá sem hún hafi skilið eðli fyrri verknaðar ákærða og áttað sig á því að ákærði hefði þá brotið gegn henni. Brotaþoli tjáði sig því fyrst um atvikið hátt í tveimur mánuðum eftir að það gerðist. Í skýrslu brotaþola í Barnahúsi er framburður hennar um seinna tilvikið mun skýrari og nákvæmari en um það fyrra en fyrir dómi kom fram fyllri framburður hennar um það atvik. Hún lýsti því að hún hafi farið heim til ákærða þennan dag og fengið að láni myndavél. B hafi þá verið heima og hafi hún einnig leikið við hana. Þetta er í samræmi við framburð ákærða að öðru leyti en því að ákærði telur hana hafa stoppað stutt en brotaþoli telur að hún hafi farið að leika sér í „Playstation“. Bæði ákærði og brotaþoli bera um að þau hafi verið í stofu að skoða myndavélina og jafnvel prófað hana og hafi B þá verið viðstödd. Brotaþoli lýsti því að ákærði hefði sent B ítrekað í burtu að sinna einhverjum erindum og á meðan hafi hann brotið gegn henni. Brotaþoli sagði ákærða hafa byrjað á því að kitla hana og í framhaldi af því reynt að fara inn undir buxnastreng hennar en hætt því þegar B kom inn aftur. Ekki hefur verið tekin skýrsla af B um þessi atvik og er því einungis við framburð ákærða og brotaþola að styðjast um það hvort hún hafi verið viðstödd. Ákærði kannaðist ekki við að B hafi verið á ferðinni um húsið. Hvorki liggja fyrir gögn né framburður vitna sem stutt geta lýsingu brotaþola að þessu leyti. Þá er einungis við orð brotaþola að styðjast um að ákærði hafi brotið gegn henni á þann hátt sem lýst er í ákæru. Þrátt fyrir að dómurinn meti framburð brotaþola trúverðugan þá hefur ekkert annað komið fram í málinu sem varpað getur frekara ljósi á atvikið 22. janúar 2012. Þegar allt framangreint er virt þykir ekki fram komin nægileg sönnun þess að ákærði hafi áreitt brotaþola kynferðislega eins og hann er ákærður fyrir í 1. ákærulið, sbr. 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ber því að sýkna hann af þeim ákærulið.

Kröfu um sakfellingu ákærða samkvæmt 2. ákærulið byggir ákæruvaldið aðallega á framburði brotaþola. Eins og áður hefur verið rakið metur dómurinn framburð hennar í heild trúverðugan. Framburður hennar hefur frá upphafi verið stöðugur. Hún hefur lýst því að hún hafi legið uppi í rúmi B, ásamt B, undir sæng. Ákærði hafi setið á rúminu og sett hendur undir sæng, fært í sundur fætur hennar, snert kynfæri hennar innanklæða og potað fingri inn í leggöng hennar. Fyrir dómi kannaðist hún þó ekki við að ákærði hefði snert á henni rass og brjóst eins og hún lýsti óljóst í skýrslu í Barnahúsi. Framburður þeirra aðila sem hún sagði frá atvikum, eftir að málið kom upp, um frásögn brotaþola, er í samræmi við framburð hennar. Má þar nefna lýsingu vitnisins C á því hvernig ákærði ýtti fótum brotaþola og framburð vitnisins F að því leyti að hann sagði brotaþola hafa sagt að ákærði hafi ýtt í sundur fótum hennar og sett fingur í leggöng hennar. Þá er lýsing vitnisins K félagsmálastjóra í kæru, dagsettri 14. mars 2012, á frásögn brotaþola í fullu samræmi við framburð brotaþola, en fyrir dómi staðfesti hún að í kæru væri byggt á frásögn brotaþola.

Þá lýsti vitnið C því bæði hjá lögreglu og fyrir dómi að þegar brotaþoli sagði henni frá atvikum á leiðinni suður hafi hana hryllt við þegar hún lýsti verknaði ákærða og sagði vitnið fyrir dómi að brotaþoli hefði sýnt þessi viðbrögð þegar hún lýsti því hvernig ákærði hafi fært í sundur fætur hennar. Telur dómurinn þessi viðbrögð stúlkunnar styrkja það að hún hafi verið að lýsa atvikum er hún hafði sjálf upplifað.

Þá viðurkenndi ákærði fyrir dómi að hafa verið í herberginu með stúlkunum þetta kvöld og einnig að hafa í einhverjum tilvikum kitlað brotaþola og B en mundi ekki eftir að hafa gert það þetta kvöld. Fyrir liggur framburður vitnisins C um að hún hafi séð ákærða sitjandi á rúmstokk á rúmi því er brotaþoli og B lágu í þegar atvik gerðust og á þeim tíma sem brotið er talið framið. Þá mundi vitnið I eftir ákærða í þeim aðstæðum en gat ekki tímasett þær. Loks heyrði vitnið G að ákærði var um tíma í herberginu með stúlkunum. Brotaþoli lýsti því að snertingar ákærða hafi komið í framhaldi af kitli. Vitnið C lýsti því einnig að hún hafi haldið að ákærði hafi verið að kitla þær og hafi ekki fundist það vera óvenjulegt. Einnig lýsti vitnið F því að ákærði hafi oft verið í herberginu með stelpunum að kitla þær. Þá útilokaði ákærði ekki að hann hefði setið á rúminu.

Einnig ber að líta til þess að bæði vitnið C og vitnið G tóku eftir því að brotaþoli var ekki eins og hún átti að sér morguninn eftir að atvikið átti sér stað. Hún hafi farið upp í sitt herbergi og lagst upp í rúm í stað þess að fara á fætur. Brotaþoli lýsti því fyrir dómi að með þessu hafi hún verið að forðast að hitta ákærða áður en hann færi til vinnu. Telur dómurinn að þetta styðji enn frekar framburð brotaþola.

B, dóttir ákærða og vitnisins G, fór í könnunarviðtal í Barnahúsi þegar rannsókn málsins hófst. Samkvæmt framburði brotaþola sagði hún B frá því að ákærði hefði brotið gegn henni að kvöldi 12. mars 2012 strax eftir að atvikið átti sér stað. Brotaþoli hefur verið staðföst um þetta. Þá kom fram í framburði vitnisins C og framburði vitnisins F að hún hafi sagt þeim þetta þegar hún tjáði sig um atvik í bifreiðinni á leiðinni suður. Auk þess kom þetta fram bæði í skýrslu brotaþola í Barnahúsi og við aðalmeðferð málsins og í kæru félagsmálastjóra sem byggist á viðtalinu við brotaþola daginn eftir að atvik gerðust. Samkvæmt fyrirliggjandi greinargerð Barnahúss neitaði B því að hafa séð þau atvik gerast sem brotaþoli hefur lýst og einnig neitaði hún því að brotaþoli hefði sagt henni frá því í kjölfar atvikanna. Í framburði vitnisins G kom fram að B hefði, nokkrum dögum eftir að hún fór í Barnahús, sagt henni að brotaþoli hefði talað við hana um atvikið þetta sama kvöld.

Þá verður að líta til þess að viðbrögð brotaþola við atvikum 12. mars 2012 styðja framburð hennar. Hún tjáði sig um atvik við fyrsta tækifæri við þá aðila sem hún þá treysti, fyrst B sem ekki vildi ræða atvik, og síðan við tvo vini sína, D og H. Þá fékk hún aðstoð D við að koma upplýsingum um atvikið áfram til móður sinnar. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að brotaþola hafi verið í nöp við ákærða fyrir atvikið eða að einhver annarleg sjónarmið liggi að baki ásökunum hennar.

Loks ber að líta til þess að samkvæmt framlögðum vottorðum Barnahúss og framburði Ólafar Ástu Farestveit hefur stúlkan verið að glíma við afleiðingar er geta samrýmst því að hún hafi orðið fyrir kynferðisbroti.

Þá byggir ákærði vörn sína á því að lýsing brotaþola á því hvernig ákærði hafi farið að þegar hann snerti hana sé honum líffræðilega ómöguleg, þ.e. að hann hafi verið staðsettur við fætur brotaþola þar sem hún lá og farið með hendur undir sæng, upp eftir brotaþola, undir buxnastreng hennar og niður í buxur hennar og að kynfærum innanklæða. Brotaþoli lýsti því í framburði sínum að náttbuxur hennar væru ávallt með teygju í mittið og hún væri aldrei í þröngum náttbuxum. Af framburði brotaþola má ráða að ákærði hafi lyft lærum hennar upp og snert á henni kynfærin og potað fingri í leggöng hennar. Á myndbandi sem tekið var þegar brotaþoli gaf skýrslu í Barnahúsi má sjá brotaþola lýsa því með hreyfingum hvernig ákærði hallaði sér yfir hana meðan hann snerti hana auk þess að lýsa því með orðum. Með vísan til þessarar lýsingar brotaþola á atvikum getur dómurinn ekki fallist á það með ákærða að verknaðurinn hafi verið honum ómögulegur.

Með vísan til alls framangreinds er það mat dómsins að framburður brotaþola um atvik sé trúverðugur, enda hefur hann verið stöðugur í gegnum málsmeðferðina auk þess sem hann fær stuðning í framburði vitna eins og hér að framan hefur verið rakið. Þá hefur framburður ákærða verið óstöðugur um atvik og skýringar hans á misræmi í framburði ótrúverðugar. Því telur dómurinn að fram sé komin nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum um að ákærði hafi fært í sundur fætur brotaþola í umrætt sinn, snert kynfæri hennar innan klæða og potað fingri í leggöng hennar. Þrátt fyrir þetta hafa ekki komið fram nein önnur gögn en framburður brotaþola í Barnahúsi er styðja það sérstaklega að ákærði hafi snert brjóst og rass brotaþola. Með vísan til þess að sá framburður var óskýr, eins og rakið hefur verið, og til þess að brotaþoli féll frá honum fyrir dómi er það niðurstaða dómsins að sýkna beri ákærða af því að hafa snert rass og brjóst brotaþola utanklæða, eins og lýst er í 2. ákærulið. Sú háttsemi að pota fingri í leggöng brotaþola, sem þá var 12 ára gömul, felur í sér kynferðismök samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot gegn ákvæðinu eins og krafist er í ákæru.

V

Ákærði er fæddur árið 1972. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði ekki sætt refsingu. Ákærði hefur nú, eins og rakið er hér að ofan, verið sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga en samkvæmt ákvæðinu varðar brot gegn því fangelsi frá einu ár upp í 16 ár. Við ákvörðun refsingar ber að líta til alvarleika brotsins, bæði hvað varðar grófleika verknaðar og þess að brotaþoli var einungis 12 ára gömul þegar atvik gerðust. Þá er til þess að líta að ákærði misnotaði sér gróflega trúnaðartraust foreldrar brotaþola sem tekið höfðu ákærða og fjölskyldu hans inn á heimili sitt þegar hann og fjölskylda hans þurfti á þeirri aðstoð að halda. Þá braut ákærði gegn barni sem tengdist honum fjölskylduböndum. Hann brást því trausti sem brotaþoli hafði borið til hans vitandi að brotið gæti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola. Þá telur dómurinn að brotavilji ákærða hafi verið einbeittur en hann hann braut gegn stúlkunni þrátt fyrir að tíu ára gömul dóttir hans væri við hlið brotaþola og að þáverandi sambýliskona hans og fjölskylda brotaþola væru öll í húsinu þegar atvik gerðust. Meðferð málsins hefur dregist mjög hjá lögreglu og ákæruvaldi en nú eru meira en tvö ár síðan málið var kært til lögreglu og verður litið til þess við ákvörðun refsingar, en um þennan drátt verður ákærða ekki kennt. Einnig ber að líta til þess að ákærði hefur ekki áður sætt refsingu. Eftir framangreindu og með vísan til 1., 6. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði en með vísan til þess dráttar sem orðið hefur á meðferð málsins skal fresta fullnustu 12 mánaða af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

VI

Af hálfu brotaþola er krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 800.000 krónur. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá liggja fyrir tvö vottorð Barnahúss sem áður hafa verið rakin þar sem vanlíðan hennar er lýst. Í framburði brotaþola og annarra vitna, t.d. Ólafar, C, F, I og H, kom einnig fram að brot ákærða hafi valdið henni vanlíðan. Með brotum sínum þykir ákærði því hafa valdið brotaþola miska sem hún á rétt á að fá bættan á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Þykja bætur henni til handa hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Skal fjárhæðin bera vexti eins og í dómsorði greinir en upphaf dráttarvaxta miðast við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá því bótakrafan var birt fyrir ákærða.

VII

Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað að 2/3 hlutum en til hans teljast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., vegna vinnu á rannsóknarstigi málsins og við meðferð þess fyrir dómi, 600.000 krónur, útlagður kostnaður verjandans 74.124 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 338.850 krónur, og útlagður kostnaður réttargæslumanns, 44.500 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þá teljast einnig til sakarkostnaðar 228.935 krónur vegna ferðakostnaðar vitna og framlagðra vottorða og 15.420 krónur vegna tapaðra vinnulauna vitnisins G.

Vegna anna dómsformanns hefur uppkvaðning dómsins dregist lítillega fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga um meðferð sakamála. Af hálfu dómara og aðila var ekki talin þörf á að málið yrði flutt að nýju.

Af hálfu ákæruvalds flutti mál þetta Daði Kristjánsson saksóknari.

Dóminn kváðu upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri, sem var dómsformaður, og héraðsdómararnir Ásmundur Helgason og Þórður Clausen Þórðarson.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 15 mánuði en fresta skal fullnustu 12 mánaða af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði A, kennitala [...], 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 12. mars 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sömu laga frá 7. október 2012 til greiðsludags.

Ákærði greiði 2/3 hluta alls sakarkostnaðar, 1.301.829 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 600.000 krónur, og réttargæslulaun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 338.850 krónur.