Hæstiréttur íslands
Mál nr. 3/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Ábúð
- Útburðargerð
|
|
Miðvikudaginn 28. janúar 2008. |
|
Nr. 3/2009. |
Byggingafélagið Traust ehf. (Ólafur Örn Svansson hrl.) gegn Guðmundi Agnari Guðjónssyni(Jón Höskuldsson hrl.) |
Kærumál. Ábúð. Útburðargerð.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu B ehf. um að G yrði borinn út úr fasteign með beinni aðfarargerð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. janúar 2009. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 10. desember 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðili yrði ásamt öllu sem honum tilheyrði borinn út af jörðinni Harastöðum á Fellsströnd í Dalabyggð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að úrskurði héraðsdóms verði hrundið og að fallist verði á kröfu hans um útburð varnaraðila af jörðinni. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Til þess að krafa sóknaraðila nái fram að ganga þarf réttmæti hennar að vera ljóst, svo sem gert er ráð fyrir í 78. gr. laga nr. 90/1989. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur með vísan til forsendna hans.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Byggingafélagið Traust ehf., greiði varnaraðila, Guðmundi Agnari Guðjónssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 10. desember 2008.
Mál þetta var þingfest 16. september 2008 og tekið til úrskurðar 19. nóvember sama ár. Gerðarbeiðandi er Byggingafélagið Traust ehf., Súluhöfða 27 í Mosfellsbæ, en gerðarþoli er Guðmundur Agnar Guðjónsson, Harastöðum í Dalabyggð.
Gerðarbeiðandi krefst þess að gerðarþoli verði, ásamt öllu sem honum tilheyrir, borinn út af jörðinni Harastöðum á Fellsströnd í Dalabyggð með beinni aðfarargerð. Þá er þess krafist að gerðarþola verði gert að greiða málskostnað og að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.
Gerðarþoli krefst þess að kröfu gerðarbeiðanda verði hrundið og að gerðarþola verði úrskurðaður málskostnaður úr hendi gerðarbeiðanda.
I.
Gerðarþoli er fæddur og uppalinn á jörðinni Harastöðum, sem var eignarjörð foreldra hans. Árið 1966 andaðist móðir gerðarþola og tók hann þá við búskap af föður sínum. Frá þeim tíma mun gerðarþoli hafa verið búsettur á jörðinni. Milli þeirra feðga reis ágreiningur um ábúðina og fór svo að tekin var til greina krafa um útburð gerðarþola með dómi Hæstaréttar í máli nr. 75/1976, sem birtur er í dómasafni réttarins árið 1978, bls. 159. Til þess kom þó ekki að gerðarþoli væri borinn út af jörðinni.
Árið 1988 komst jörðin í eigu Fellsstrandarhrepps, en hreppurinn sameinaðist síðan öðrum sveitarfélögum árið 1994 í eitt sveitarfélag, Dalabyggð. Hvorki af hálfu sveitarfélagsins né fyrri eigenda jarðarinnar virðist hafa verið gert byggingarbréf fyrir jörðinni. Hinn 10. desember 1997 ritaði Dalabyggð gerðarþola svonefnt útbyggingarbréf þar sem réttur til að byggja gerðarþola út af jörðinni var reistur á því að hann hefði ekki fengist til að ganga frá byggingarbréfi fyrir jörðina, afgjald og fasteignagjöld hefðu ekki verið greidd, auk þess sem vanrækt hefði verið að halda við húsum og girðingum samkvæmt áliti virðingarmanna. Þegar gerðarþoli rýmdi ekki jörðina á næstu fardögum var krafist útburðar með beinni aðfarargerð, en þeirri kröfu var hafnað með dómi Hæstaréttar í máli nr. 398/1998, sem birtur er í dómasafni réttarins árið 1998, bls. 3335.
Hinn 16. mars 1999 höfðaði Dalabyggð mál á hendur gerðarþola og gerði þá kröfu að honum yrði gert að víkja af jörðinni. Því máli lauk með dómi Hæstaréttar í máli nr. 52/2000, sem birtur er í dómasafni réttarins árið 2000, bls. 2367. Með þeim dómi var kröfunni hafnað og því slegið föstu að gerðarþoli hefði öðlast lífstíðarábúð á jörðinni á grundvelli 6. gr. þágildandi ábúðarlaga nr. 64/1976.
II.
Hinn 30. mars 2006 samþykkti Dalabyggð kauptilboð í jörðina að fjárhæð 42.000.000 króna staðgreitt. Í kjölfarið ritaði fasteignasalinn, sem hafði milligöngu um kaupin, gerðarþola bréf 10. apríl 2006 og bauð honum að neyta forkaupsréttar.
Málsaðilar gerðu með sér samkomulag 2. maí 2006 um nýtingu forkaupsréttar að jörðinni. Meginefni samkomulagsins er svohljóðandi:
Guðmundur mun á grundvelli forkaupsréttar sem ábúandi ganga inn í fyrirliggjandi kauptilboð Verslunar Einars Þorgilssonar ehf. í jörðina Harastaði frá 30. mars 2006 og mun hann endurselja Byggingafélaginu Traust ehf. jörðina á sama verði kr. 42 milljónir.
Elvar Trausti og eða Byggingafélagið Traust ehf. munu sjá um að greiða Dalabyggð kaupverðið samkvæmt fyrirliggjandi kauptilboði. Þeirri greiðslu verður síðan skuldajafnað til greiðslu kaupverðs til Guðmundar Agnars.
Samhliða undirritun samkomulags þessa gefur Guðmundur Agnar út afsal fyrir jörðinni Harastöðum til Byggingafélagsins Trausts ehf. Helgi Birgisson hrl. skal varðveita afsalið og skal því þinglýst á jörðina samhliða þinglýsingu afsalsins frá Dalabyggð til Guðmundar Agnars.
Byggingafélagið Traust ehf. yfirtekur allar skuldbindingar landeiganda gagnvart Guðmundi Agnari sem ábúanda jarðarinnar.
Fullt samkomulag er um að Elvar Trausti, ásamt konu og börnum, eigi aðgang að jörðinni, hlunnindum hennar og mannvirkjum, ásamt Guðmundi Agnari og í samráði við hann, m.a. í þeim tilgangi að auka tekjur jarðarinnar.
Elvari Trausta skal heimilt að taka undan skika af jörðinni vegna byggingar sumarhúss óski hann þess.
Hinn 8. maí 2006 gerðu Dalabyggð og gerðarþoli með sér kaupsamning um jörðina á grundvelli kauptilboðsins frá 30. mars sama ár. Sama dag gaf Dalabyggð út afsal til gerðarþola fyrir jörðin og samhliða því afsalaði gerðarþoli jörðinni til gerðarbeiðanda. Voru skjöl þessi móttekin til þinglýsingar 11. maí 2008.
III.
Með bréfi 4. júlí 2007 fór gerðarbeiðandi þess á leit við landbúnaðarráðuneytið að fram færi úttekt á jörðinni. Í bréfinu var því haldið fram að gerðarþoli hefði vanefnt verulega skyldur sínar samkvæmt ábúðarlögum, nr. 80/2004, og fyrrgreindu samkomulagi málsaðila frá 2. maí 2006. Var krafa um úttekt reist á 37. gr. ábúðarlaga.
Hinn 9. október 2007 framkvæmdu úttektarmenn skoðun á jörðinni að viðstöddum fyrirsvarsmanni gerðarbeiðanda og fulltrúa gerðarþola. Úttektarmenn skiluðu síðan úttekt sinni 8. nóvember sama ár. Í úttektinni er komist að svohljóðandi niðurstöðu:
„...
Viðhald húsa, girðinga og hluta til ræktunar, hefur verið vanrækt mjög lengi. Auk þess er umgengni ábótavant. Samkvæmt 17. gr. ábúðarlaga nr. 80 frá 2004 skal viðhald vera þannig að eignir rýrni ekki umfram eðlilega fyrningu. Samsvarandi ákvæði voru í 17. gr. í áður gildandi ábúðarlögum frá 1976.
Úttektarmenn líta svo á að hér sé til skoðunar ábyrgð ábúanda og skyldur gagnvart núverandi eiganda, þ.e. að meta meintar vanefndir allra mannvirkja jarðarinnar frá þeim tíma er áðurnefnt samkomulag [2. maí 2006] var gert. Eins og framar er rakið liggur ekki fyrir ástandslýsing þegar núverandi eigandi kaupir jörðina, en horft hefur verið til ástandslýsingar er gerð var 1996, í eignartíð sveitarfélagsins, að því marki sem hún nær til. Þær umbætur sem fram hafa farið á jörðinni í seinni tíð, í íbúðarhúsi, endurnýjun vatnsbóls og frárennslis, er framkvæmt og kostað af eiganda.
Eins og framar er rakið liggur ekki óyggjandi fyrir hvernig ástand mannvirkja hafi verið þegar ábúandi tók við, en ljóst er að hann hefur í engu sinnt viðhaldi eða endurbótum mannvirkja hin síðari ár. Engin merki eru um að ábúandi hafi á nokkurn hátt reynt að bæta ráð sitt, í tíð núverandi eiganda.
Mat úttektarmanna er, með tilliti til þess er að framan greinir, að ábúandi hafi vanefnt verulega skyldur sínar í að viðhalda húsum og hluta til ræktun og hafi því brotið gegn ákvæðum 17. gr. ábúðarlaga nr. 80 frá 2004.
...“
Með símskeyti 9. janúar 2008 var gerðarþola sagt upp „afnotum (ábúð) af jörðinni“ með sex mánaða fyrirvara þannig að rýmingu jarðarinnar og mannvirkja hennar væri lokið eigi síðar en kl. 13 þann 1. ágúst sama ár. Í skeytinu var vísað til þess að gerðarþoli hefði meinað gerðarbeiðanda aðgang að jörðinni, en hann hefði lagt umtalsverða fjármuni í endurbætur hennar í trausti þess að hafa þann aðgang. Jafnframt sagði í skeytinu að leitt hefði verið í ljós með úttektinni að verulega hefðu verið vanefndar skyldur til að viðhalda húsum og að hluta til ræktun jarðarinnar, ef svo ólíklega færi að gerðarþoli teldist hafa réttarstöðu ábúenda þrátt fyrir sölu jarðarinnar og að enginn búskapur hefði verið stundaður á jörðinni árum saman. Var þá einnig bent á að gerðarþoli hefði ekki greitt skatta og aðrar skyldur af jörðinni eftir að hún komst í eigu gerðarbeiðanda.
IV.
Gerðarbeiðandi heldur því fram að gerðarþoli hafi ekki fengist til að gera samkomulag um endurgjald hans fyrir afnot af jörðinni og íbúðarhúsi, en í málinu liggja fyrir drög að húsaleigusamningi þar sem leigutími er eitt ár og leigan 40.000 krónur á mánuði auk opinberra gjalda. Heldur gerðarbeiðandi því fram að gerðarþoli hafi ekkert greitt fyrir þessi afnot, auk þess sem hann hafi ekki að neinu leyti staðið skil á opinberum gjöldum vegna jarðarinnar. Í mars 2007 hafi svo steininn tekið úr þegar gerðarþoli hóf skyndilega að meina fyrirsvarsmanni gerðarbeiðanda og fjölskyldu hans að hafa afnot og aðgang að jörðinni þrátt fyrir samkomulag aðila frá 2. maí 2006.
Gerðarbeiðandi andmælir því að gerðarþoli hafi réttarstöðu ábúanda á jörðinni. Því til stuðnings bendir gerðarbeiðandi á að enginn búskapur hafi verið á jörðinni frá 30. ágúst 2002 þegar gerðarþoli seldi þann framleiðslurétt sem hann átti í sauðfé. Einnig vísar gerðarbeiðandi til þess, ef ábúðarréttur var fyrir hendi, að hann hafi fallið niður þegar gerðarþoli varð jarðareigandi með afsali Dalabyggðar 8. maí 2006.
Verði á hinn bóginn talið að gerðarþoli sé ábúandi á jörðinni tekur gerðarbeiðandi fram að óskað hafi verið eftir úttekt til að leiða í ljós að gerðarþoli hafi ekki sinnt skyldum ábúanda samkvæmt ábúðarlögum. Vísar gerðarbeiðandi til þess að fram komi í úttektinni frá 8. nóvember 2007 að íbúðarhús jarðarinnar sé lélegt eftir áratuga vanhirðu og útihús öll í mjög bágu ástandi, bæði ónýt og illa byggð, auk þess sem mikið rusl sé við bæinn. Með hliðsjón af þessu komist úttektarmenn að þeirri niðurstöðu að ábúandi hafi verulega vanefnt skyldur sínar sem ábúandi jarðarinnar.
Gerðarbeiðandi vísar til þess að með skeyti 9. janúar 2008 hafi gerðarþola verið sagt upp afnotum jarðarinnar með sex mánaða fyrirvara. Til stuðnings uppsögninni vísar gerðarbeiðandi til 2. mgr. 37. gr. ábúðarlaga, nr. 80/2004, um heimild til að segja upp ábúð vegna vanefnda á skyldum ábúanda. Verði aftur á móti talið að stofnast hafi ígildi leigusamnings í skjóli afnota gerðarþola verði slíkum samningi einnig sagt upp með sex mánaða fyrirvara, sbr. 2. tölul. 56. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994. Þar sem gerðarþoli hafi ekki rýmt jörðina í samræmi við uppsögnina telur gerðarbeiðandi sér nauðugur sá kostur einn að óska eftir útburði gerðarþola af jörðinni.
V.
Gerðarþoli vísar til þess að grundvöllur samkomulags aðila frá 2. maí 2006 hafi verið að gera gerðarþola kleift að búa áfram á jörðinni og hagnýta hana til atvinnustarfsemi á sviði landbúnaðar. Jafnframt hafi markmiðið verið af hálfu gerðarbeiðanda að frístundabyggð yrði reist á jörðinni. Þá telur gerðarþoli að fullur skilningur hafi verið á því að Elvar Trausti Guðmundsson, fyrirsvarsmaður gerðarbeiðanda og sonur gerðarþola, ásamt konu og börnum, hefði aðgang að jörðinni, svo sem beinlínis sé gert ráð fyrir í samkomulaginu.
Gerðarþoli telur engan vafa leika á því að hann njóti stöðu ábúanda á jörðinni. Jafnframt andmælir gerðarþoli því að hann hafi vanrækt skyldur sínar sem ábúandi og þannig fyrirgert rétti sínum. Jafnvel þótt talið verði að gerðarþoli hafi ekki í öllu tilliti staðið við samkomulagið frá 2. maí 2006 sé ekki um að ræða brot á skyldum gerðarþola sem ábúanda og því sé fráleitt að það geti verið lögmætur grundvöllur riftunar og útburðar.
Varðandi úttekt á jörðinni tekur gerðarþoli fram að hún hafi ekki leitt í ljós annað ástand jarðarinnar og mannvirkja en það var þegar gerðarbeiðandi eignaðist jörðina ári áður og fyrirsvarsmaður gerðarbeiðanda þekkti mæta vel á þeim tíma. Að öðru leyti er úttektinni mótmælt þar sem á henni séu verulegir annmarkar. Í þeim efnum bendir gerðarþoli sérstaklega á að ekki hafi verið fyrir hendi viðhlítandi grundvöllur fyrir úttektinni þar sem úttekt fór ekki fram þegar gerðarbeiðandi eignaðist jörðina. Staðhæfingar úttektarmanna um vanefnd gerðarþola gagnvart gerðarbeiðanda séu því haldlausar og ófaglegar.
Gerðarþoli tekur fram að hann hafi selt fullvirðisrétt sinn frá jörðinni árið 2002 og því hafi hann ekki mátt halda fé um sinn til búskapar á jörðinni í samræmi við gildandi reglur um búfjárhald. Hins vegar tekur gerðarþoli fram að nú í haust hafi hann um 80 kindur á jörðinni. Í framhaldi af því að fullvirðisrétti var ráðstafað heldur gerðarþoli því fram að til hafi staðið að hann hefði viðurværi sitt af öðrum búskap sem betur hæfði högum hans. Í þeim efnum hafi einkum verið litið til skógræktar. Til þess hafi þó ekki komið þar sem gerðarþoli fór að starfa við byggingarvinnu og önnur tilfallandi störf hjá gerðarbeiðanda og öðru fyrirtæki sem einnig er í eigu sonar hans. Þetta hafi gengið um sinn en síðan hafi samskipti þeirra feðga versnað og að lokum soðið upp úr. Eftir standi óleyst deila þeirra um laun og kjör gerðarþola sem hann telur sig eiga inni hjá gerðarbeiðanda.
Gerðarþoli andmælir því sem tilhæfulausu að hann hafi staðið í vegi fyrir endurbótum gerðarbeiðanda á jörðinni eða meinað fyrirsvarsmanni gerðarbeiðanda og fjölskyldu hans að hagnýta sér jörðina í samræmi við samkomulag aðila frá 2. maí 2006. Aftur á móti heldur gerðarþoli því fram að fyrirsvarsmaður gerðarbeiðanda hafi ítrekað gengið í skrokk á gerðarþola, en þau mál séu nú til rannsóknar hjá lögreglu.
Gerðarþoli heldur því fram að hann hafi ekki notið viðhlítandi lögmannsaðstoðar við gerð samkomulagsins við gerðarbeiðanda 2. maí 2006. Einnig heldur gerðarþoli því fram að gert hafi verið ráð fyrir því að gerðarþoli hefði eitthvað um það að segja hvernig jörðinni og húsum yrði ráðstafað. Hafi hann þá haft í huga sín eigin not og enn fremur að aðrir úr fjölskyldunni hefðu með einhverju móti aðgang að jörðinni.
Gerðarþoli telur hafa áhrif við úrlausn málsins að fyrirsvarsmaður gerðarbeiðanda hafi komið því til leiðar, eftir fund með formanni veiðifélags Flekkudalsár, að gerðarbeiðandi fengi greiddan arð af ánni sem kæmi í hlut jarðarinnar. Að þessu sé hins vegar hvorki vikið í samkomulaginu frá 2. maí 2006 né í öðrum samningum málsaðila. Vísar gerðarþoli til þess að þessi hlunnindi komi í hlut ábúanda nema á annan veg sé samið, sbr. 10. gr. ábúðarlaga, nr. 80/2004. Gerðarþoli tekur fram að þetta hafi ekki fengist leiðrétt þótt eftir því hafi verið gengið.
Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur gerðarþoli að fráleitt séu réttindi gerðarbeiðanda það ljós að fallist verði á útburðarkröfuna. Í því sambandi bendir gerðarþoli á að dómara beri að hafna kröfu um beina aðför ef varhugavert verður talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna, sem slík krafa verður reist á, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga um aðför, nr. 90/1989.
VI.
Svo sem hér hefur verið rakið tók gerðarþoli við búskap á jörðinni Harastöðum árið 1966. Í málinu liggur ekki fyrir að gert hafi verið byggingarbréf við gerðarþola, hvorki upphaflega þegar hann tók við búskapnum né síðar þegar jörðin komst í eigu sveitarfélagsins. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 52/2000, sem birtur er í dómasafni réttarins 2000, bls. 2367, var því slegið föstu að gerðarþoli hefði öðlast lífstíðarábúð á jörðinni á grundvelli 6. gr. þágildandi ábúðarlaga nr. 64/1976. Þeim rétti hélt gerðarþoli við gildistöku nýrra ábúðarlaga, nr. 80/2004, sbr. III. ákvæði til bráðabirgða með lögunum.
Í kjölfar þess að sveitarfélagið hafði samþykkt kauptilboð í jörðina 30. mars 2000 var gerðarþola með bréfi 10. apríl 2006 boðið að neyta forkaupsréttar í samræmi við 27. gr. jarðalaga, nr. 81/2004. Hinn 2. maí 2006 gerðu aðilar með sér samkomulag um nýtingu forkaupsréttar að jörðinni. Liður í því samkomulagi var að gerðarþoli ráðstafaði jörðinni til gerðarbeiðanda samhliða því að fá sjálfur afsal fyrir jörðinni frá sveitarfélaginu. Verður að virða þessi lögskipti málsaðila í samhengi þannig að gerðarþoli hagnýtti sér forkaupsréttinn og seldi jörðina til gerðarbeiðanda gegn því að gerðarbeiðandi yfirtæki allar skuldbindingar landeiganda gagnvart gerðarþola sem ábúanda jarðarinnar, eins og beinlínis segir í samkomulaginu. Féll ábúðin því ekki niður við kaup gerðarbeiðanda á jörðinni. Í þessu tilliti getur engu breytt þótt gerðarþoli hafi tæpum fjórum árum áður, eða á árinu 2002, ráðstafað fullvirðisrétti í sauðfé, enda var ekki girt fyrir að jörðin yrði byggð gerðarþola þegar af þeirri ástæðu að slíkur fullvirðisréttur væri ekki á jörðinni.
Af hálfu gerðarbeiðanda er því haldið fram að gerðarþoli hafi hvorki greitt afgjald af jörðinni né heldur staðið skil á opinberum gjöldum. Í málinu liggur ekki fyrir hvort og þá hvað mikið gerðarþoli greiddi til sveitarfélagsins meðan jörðin var í eigu þess. Þá var ekki samið um afgjaldið í samkomulagi málsaðila frá 2. maí 2006. Af því einu getur ekki leitt að gerðarþoli hafi átt að fá afnot jarðarinnar endurgjaldslaust. Í samræmi við almennar reglur kröfuréttar gjaldféll hins vegar ekki krafa um hæfilegt afgjald og eftir atvikum endurgreiðslukrafa vegna opinberra gjalda nema kröfu þess efnis væri beint að gerðarþola, enda hafði gjalddagi slíkra krafna ekki verið fyrirfram ákveðinn með samningi málsaðila. Ekkert liggur fyrir í málinu um slíka kröfugerð og verður því ekki virt gerðarþola til vanefnda þótt hann hafi ekki staðið skil á greiðslum gagnvart gerðarbeiðanda. Hér breytir engu þótt gerðarþoli hafi ekki fallist á að gera tímabundinn leigusamning við gerðarbeiðanda, enda hefði hann með því verið að skerða þann rétt sem hann naut með ábúðinni.
Í annan stað reisir gerðarbeiðandi kröfu sína um útburð gerðarþola á því að gerðarþoli hafi vanrækt skyldur sínar sem ábúandi með því að hirða ekki um eignina. Til stuðnings þessu vísar gerðarbeiðandi til úttektar 8. nóvember 2007 og 17. gr. ábúðarlaga. Þegar úttektin fór fram 9. október sama ár var liðið tæplega eitt og hálft ár frá því gerðarbeiðandi byggði gerðarþola jörðina 2. maí 2006. Af þeirri úttekt verður ekkert ráðið hvort eignin hafi rýrnað frá þeim tíma, enda fór ekki fram úttekt við upphaf ábúðarinnar. Verður því ekki fallist á þessa málsástæðu gerðarbeiðanda.
Loks heldur gerðarbeiðandi því fram að gerðarþoli hafi ekki efnt samkomulagið frá 2. maí 2006 um aðgang fyrirsvarsmanns gerðarbeiðanda og fjölskyldu hans að jörðinni, auk þess sem gerðarþoli hafi staðið í vegi fyrir endurbótum gerðarbeiðanda. Þessa fullyrðingu hefur gerðarbeiðandi ekki sannað með gögnum sem aflað verður í máli um beina aðför samkvæmt 3. mgr. 83. gr. laga um aðför, nr. 89/1989.
Samkvæmt framansögðu hefur gerðarbeiðandi ekki leitt í ljós viðhlítandi grundvöll undir uppsögn á ábúð gerðarþola á jörðinni. Verður kröfu gerðarbeiðanda um beina aðför því hafnað.
Eftir þessum úrslitum verður gerðarbeiðanda gert að greiða gerðarþola málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfu gerðarbeiðanda, Byggingafélagsins Traust ehf., um útburð gerðarþola af jörðinni Harastöðum á Fellsströnd í Dalabyggð er hafnað.
Gerðarbeiðandi greiði gerðarþola 200.000 krónur í málskostnað.