- Þjóðlenda
- Ábúð
- Aðild
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
- Gjafsókn
|
Fimmtudaginn 25. mars 2010. |
Nr. 409/2009. |
Hallgrímur Þórhallsson og Anna Bryndís Tryggvadóttir (Berglind Svavarsdóttir hrl.) gegn íslenska ríkinu (Indriði Þorkelsson hrl.) |
Þjóðlenda. Ábúð. Aðild. Vanreifun. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi. Gjafsókn.
H og A höfðuðu mál til að fá hnekkt niðurstöðu úrskurðar óbyggðanefndar um þjóðlendumörk gagnvart ábúðarjörð sinni. Með byggingarbréfi landbúnaðarráðherra 11. maí 1999 var H og A leigð ríkisjörðin Skriðuklaustur til lífstíðarábúðar. Í ábúðarsamningnum voru H og A ekki veitt nein réttindi til að fara sjálfstætt með hagsmuni Í sem eiganda jarðarinnar umfram það, sem leiddi af ákvæðum ábúðarlaga og jarðalaga. Talið var að hvorki væri að finna í ábúðarlögum né annars staðar í lögum neina stoð fyrir því að leiguliði gæti haft uppi kröfu fyrir dómi um ákvörðun merkja ábúðarjarðar í andstöðu við landsdrottin sinn. Engu gæti breytt um heimild H og A til að leita dóms að þeim hefði ranglega verið játuð aðild að ágreiningi um mörkin fyrir óbyggðarnefnd. Var Í sýknað af kröfu H og A um að fellt yrði úr gildi ákvæði úrskurðar óbyggðanefndar. H og A kröfðust þess einnig að viðurkenndur yrði réttur þeirra til að nýta land Skriðuklausturs í samræmi við ábúðarsamning eins og landsvæðið, sem óbyggðanefnd felldi undir þjóðlendu, væri háð beinum eignarrétti. Ekki höfðu verið færðar fram sjálfstæðar röksemdir fyrir þessari kröfu og var málið því að þessu leyti vanreifað af hendi H og A. Var málinu því vísað frá héraðsdómi að því er varðaði þessa dómkröfu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 17. júlí 2009. Þau krefjast þess að fellt verði úr gildi ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar 29. maí 2007, eins og honum var breytt við endurupptöku 12. febrúar 2009, í máli nr. 1/2005, Fljótsdalur og Jökuldalur austan Jökulsár á Jökuldal, um að til þjóðlendna teljist landsvæði, sem þar var nefnt „nyrðri hluti afréttarlandanna Rana og Undir Fellum að frátöldu Brattagerði“ og afmarkað á eftirfarandi hátt: „Frá merkjavörðu (merkt L.M.) í Miðheiðarhálsi er dregin lína í stefnu á ósinn úr Hólmavatni, þar til kemur að skurðpunkti við línu sem liggur frá merkigarði þeim, sem liggur frá Jökulsá í Fljótsdal fram og upp eftir nesinu upp undir fjall, þaðan sjónhending upp á fjall og áfram í stóran stein, sem stendur utan til á ytra Eyvindarfjalli. Frá þeim skurðpunkti er þeirri línu fylgt að framangreindum stórum steini á ytra Eyvindarfjalli og þaðan í Jökulsá á Jökuldal, þar sem Hölkná rennur í hana. Jökulsá á Jökuldal ræður síðan þangað sem Sauðá fellur í hana og síðan Sauðá þangað sem hún fellur niður af efstu fjallsbrúninni. Þaðan er dregin lína í vörðu sem hlaðin er upp á millum tveggja stórra jarðfastra steina og síðan að þeim stað þar sem Eiríksstaðavegur yfir heiðina liggur út í Eyvindará. Eftir það er Eyvindará fylgt þar til kemur að skurðpunkti við línu sem dregin er frá merkjavörðu (merkt L.M.) í Miðheiðarhálsi og þvert vestur heiði í merkjavörðu í svokölluðum Klappalækjarflóa og í Eyvindará. Er þá miðað við þá línu sem aðilar eru ásáttir um. Þessari línu er fylgt frá framangreindum skurðpunkti hennar við Eyvindará og að upphafspunkti lýsingar þessarar, þ.e. merkjavörðu (merkt L.M.) í Miðheiðarhálsi.“ Áfrýjendur krefjast þess einnig að viðurkenndur verði réttur þeirra til að nýta land Skriðuklausturs í samræmi við ábúðarsamning eins og landið innan framangreindra merkja væri háð beinum eignarrétti. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt heimild í 1. mgr. 31. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með áorðnum breytingum, hefur sakarefni málsins verið skipt að beiðni áfrýjenda og með samþykki stefnda á þann hátt að fyrst verði dæmt fyrir Hæstarétti hvort áfrýjendur séu réttir aðilar til að hafa uppi framangreindar dómkröfur, sbr. 2. mgr. 16. gr. sömu laga.
I
Óbyggðanefnd, sem starfar samkvæmt ákvæðum laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, gaf út tilkynningu 1. mars 2004 um að hún hefði ákveðið að taka til meðferðar svæði, sem afmarkað var að vestan af meginfarvegi Jökulsár á Fjöllum allt frá Öxarfirði að aðalupptökum hennar í Dyngjujökli, en að austan af farvegi Lagarfljóts allt frá Héraðssandi þangað, sem Gilsá fellur í það, þaðan eftir henni og nánar tilgreindum sveitarfélagamörkum að Geldingarfelli og loks frá því inn á tiltekinn hnjúk á Vatnajökli. Til suðurs fylgdu mörk svæðisins að hluta jaðri Dyngjujökuls, en að öðru leyti tilteknum kennileitum á Vatnajökli. Að fram komnum kröfum stefnda um þjóðlendur á þessu svæði og kröfum þeirra, sem töldu þar til eignarréttinda, ákvað óbyggðanefnd í júlí 2005 að fjalla um það í fimm málum. Eitt þeirra, sem varð nr. 1/2005, tók til Fljótsdals og Jökuldals austan Jökulsár á Jökuldal.
Áfrýjendur, sem fengu 11. maí 1999 byggingarbréf landbúnaðarráðherra fyrir jörðinni Skriðuklaustri í Fljótsdalshreppi, beindu sem ábúendur hennar kröfulýsingu til óbyggðanefndar 31. mars 2005, þar sem krafist var að viðurkenndur yrði réttur þeirra til nýtingar jarðarinnar í samræmi við ábúðarsamning eins og hún væri að öllu leyti eignarland innan nánar tiltekinna merkja, sem studd voru við landamerkjabréf 27. ágúst 1922 fyrir Skriðuklaustur með eyðijörðinni Brattagerði. Fyrir óbyggðanefnd krafðist stefndi þess á hinn bóginn að mörk þjóðlendu og eignarlanda yrðu að því er varðar Skriðuklaustur dregin á nánar tiltekinn hátt, sem efnislega fól í sér að þau yrðu látin fylgja mörkum jarðarinnar gagnvart afréttarsvæðunum Rana og Undir Fellum eins og stefndi taldi þau liggja, þótt þessi svæði hafi talist innan merkja Skriðuklausturs eftir hljóðan fyrrnefnds landamerkjabréfs. Í úrskurði óbyggðanefndar 29. maí 2007 var fallist á kröfu stefnda að þessu leyti, en við endurupptöku málsins fyrir nefndinni 12. febrúar 2009 var úrskurðinum breytt á þann hátt að mörk eignarlands Skriðuklausturs voru ákveðin gagnvart þjóðlendu, sem afmörkuð var í heild eins og fram kemur orðrétt í áðurgreindri dómkröfu áfrýjenda fyrir Hæstarétti, en jafnframt var ákveðið að það landsvæði væri afréttareign Skriðuklausturs. Útdráttur úr upphaflegum úrskurði óbyggðanefndar mun hafa verið birtur í Lögbirtingablaði 18. júlí 2007. Áfrýjendur höfðuðu mál þetta 17. desember sama ár til að fá hnekkt niðurstöðu úrskurðarins um þjóðlendumörk gagnvart ábúðarjörð sinni.
II
Með áðurnefndu byggingarbréfi landbúnaðarráðherra 11. maí 1999 var áfrýjendum leigð ríkisjörðin Skriðuklaustur til lífstíðarábúðar og var þar tekið fram að um réttindi og skyldur áfrýjenda færi eftir ákvæðum þágildandi ábúðarlaga nr. 64/1976 og jarðalaga nr. 65/1976 að því leyti, sem annars væri ekki getið. Í þessum ábúðarsamningi voru áfrýjendum ekki veitt nein réttindi til að fara sjálfstætt með hagsmuni stefnda sem eiganda jarðarinnar umfram það, sem leiddi af ákvæðum fyrrnefndra laga eða ábúðarlaga nr. 80/2004 og jarðalaga nr. 81/2004, sem nú hafa leyst þau af hólmi. Hvorki er að finna í ákvæðum III. kafla ábúðarlaga né annars staðar í lögum neina stoð fyrir því að leiguliði geti haft uppi kröfu fyrir dómi um ákvörðun merkja ábúðarjarðar í andstöðu við landsdrottin sinn. Engu getur breytt um heimild áfrýjenda til að leita dóms um mörk eignarlands Skriðuklausturs og þjóðlendu að þeim hafi ranglega verið játuð aðild að ágreiningi um mörkin fyrir óbyggðanefnd. Með þessum athugasemdum verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest um sýknu stefnda af kröfu áfrýjenda um að felld verði úr gildi ákvæði úrskurðar óbyggðanefndar 29. maí 2007, eins og honum var breytt 12. febrúar 2009, um mörk eignarlands Skriðuklausturs og þjóðlendu.
Eins og áður greinir hafa áfrýjendur einnig krafist þess að viðurkenndur verði réttur þeirra til að nýta land Skriðuklausturs í samræmi við ábúðarsamning eins og landsvæðið innan framangreindra merkja, sem óbyggðanefnd felldi undir þjóðlendu, væri háð beinum eignarrétti. Eftir hljóðan þessarar dómkröfu snýr hún ekki eingöngu að gildi úrskurðar óbyggðanefndar, heldur gæti hún allt eins beinst að stefnda sem eiganda lands í þjóðlendunni, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 58/1998, til að fá viðurkennd sérstök réttindi áfrýjenda innan hennar á grundvelli samningsskuldbindingar stefnda við þau samkvæmt byggingarbréfinu frá 11. maí 1999, þar sem vísað var um merki hins leigða lands í „landamerkjaskrá Norður-Múlasýslu“. Í málatilbúnaði áfrýjenda hafa ekki verið færðar fram sjálfstæðar röksemdir fyrir þessari kröfu og er málið því að þessu leyti vanreifað af þeirra hendi. Af þessum sökum verður af sjálfsdáðum að vísa málinu frá héraðsdómi að því er varðar þessa dómkröfu áfrýjenda.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjenda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Vísað er frá héraðsdómi kröfu áfrýjenda, Hallgríms Þórhallssonar og Önnu Bryndísar Tryggvadóttur, um að viðurkenndur verði réttur þeirra til að nýta samkvæmt ábúðarsamningi frá 11. maí 1999 við stefnda, íslenska ríkið, allt land jarðarinnar Skriðuklausturs eins og það var afmarkað í landamerkjabréfi 27. ágúst 1922.
Að öðru leyti skal héraðsdómur vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 20. apríl 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 23. mars 2009, var höfðað 17. desember 2007.
Stefnendur eru Hallgrímur Þórhallsson og Anna Kristín Tryggvadóttir, Brekku, Fljótsdalshreppi.
Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhváli, Reykjavík.
Dómkröfur stefnenda eru þær að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í málinu nr. 1/2005: Fljótsdalur og Jökuldalur austan Jökulsár á Jökuldal, frá 29. maí 2007, að því er varðar þjóðlendu innan neðangreindra marka:
Frá merkjavörðu (merkt L. M.) í Miðheiðarhálsi í stefnu á ósinn úr Hólmavatni, þar til kemur að skurðpunkti við línu sem liggur frá merkigarði þeim, sem liggur frá Jökulsá í Fljótsdal fram og upp eftir nesinu upp undir fjall, þaðan sjónhending upp á fjall og áfram í stóran stein, sem stendur utan til á ytra Eyvindarfjalli. Frá þeim skurðpunkti er þeirri línu fylgt að framangreindum stórum steini á ytra Eyvindarfjalli og þaðan í Jökulsá á Jökuldal, þar sem Hölkná fellur í hana. Jökulsá á Jökuldal ræður síðan þangað sem Sauðá fellur í hana og síðan Sauðá þangað sem hún fellur niður af efstu fjallsbrúninni. Þaðan er dregin lína í vörðu sem hlaðin er upp á millum tveggja stórra jarðfastra steina og síðan að þeim stað þar sem Eiríksstaðavegur yfir heiðina liggur út í Eyvindará. Eftir það er Eyvindará fylgt þar til kemur að skurðpunkti við línu sem dregin er frá merkjavörðu (merkt L.M.) í Miðheiðarhálsi og þvert vestur heiði í merkjavörðu í svokölluðum Klappalækjarflóa og í Eyvindará. Þessari línu er fylgt frá framangreindum skurðpunkti hennar við Eyvindará og að upphafspunkti lýsingar þessarar, þ.e. í merkjavörðu (merkt L.M.) í Miðheiðarhálsi.
Þá er þess krafist að viðurkenndur verði réttur stefnenda til nýtingar lands Skriðuklausturs, í samræmi við ábúðarsamning þeirra, eins og land jarðarinnar sé beinum eignarrétti undirorpið innan fyrrgreindra merkja.
Þá krefjast stefnendur málskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt hér fyrir dómi.
Stefndi krefst sýknu. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar en til vara að hver aðila verði látinn bera sinn kostnað af málinu.
I.
Samkvæmt þinglýsingarvottorði sem fyrir liggur í málinu er stefndi íslenska ríkið eigandi jarðarinnar Skriðuklausturs, en samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar er landsvæði innan ofangreindra merkja, sem nánar er lýst í kröfugerð stefnenda, þjóðlenda í afréttareign þeirrar jarðar. Stefnendum var byggð jörðin til lífstíðarábúðar með byggingabréfi 11. maí 1999. Kemur fram í stefnu að jörðin Skriða í Fljótsdal hafi verið gefin til klausturhalds með sérstöku gjafabréfi 8. júní árið 1500. Fram að þeim tíma hafi sárafáar heimildir varðveist um jörðina, en eftir að jörðin hafi verið gefin til klausturs hafi orðið til um hana fjölmargar heimildir, sem margar hverjar hafi varðveist til vorra daga, eins og í tilfelli flestra jarða í eigu kirkju eða kirkjustofnana hér á landi. Jörðin hafi komist í eigu einkaaðila á 19. öld. Gunnar Gunnarsson skáld hafi keypt jörðina, skv. afsali 27. ágúst 1938, en Gunnar og eiginkona hans Franzisca hafi gefið íslenska ríkinu jörðina með sérstöku gjafabréfi 11. desember 1948 og sé jörðin enn í eigu þess. Þann 11. maí 1999 hafi stefnendum verið byggð jörðin til lífstíðarábúðar.
II.
Í samræmi við ákvæði laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, tók óbyggðanefnd til meðferðar nánar tilgreint landsvæði á Norðausturlandi, sem nefndin kallaði svæði nr. 5. Hófst málsmeðferðin á árinu 2004 og lauk með uppkvaðningu úrskurða 29. maí 2007 í málum sem fengu númerin 1 til 5/2005. Var útdráttur úrskurðanna birtur í Lögbirtingablaðinu 18. júlí 2007, lögum samkvæmt, en mál þetta var höfðað 17. desember sama ár og því innan þess sex mánaða málshöfðunarfrests sem kveðið er á um í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 58/1998. Óbyggðanefnd tók ákvörðun um það undir rekstri málsins að kröfur stefnenda sem ábúenda yrðu teknar til efnismeðferðar fyrir nefndinni gegn mótmælum stefnda. Stefnendur áttu því aðild að málsmeðferð óbyggðanefndar sem ábúendur jarðarinnar Skriðuklausturs, en jörðin er eins og fyrr segir í eigu stefnda.
Ágreiningsefni í máli þessu varðar þann hluta úrskurðar óbyggðanefndar í máli nr. 1/2005 sem lýtur að eignarréttarlegri stöðu lands innan þeirra merkja sem fram koma í kröfugerð stefnenda hér að framan. Komst óbyggðanefnd að þeirri niðurstöðu í nefndum úrskurði að landsvæðið væri þjóðlenda í afréttareign jarðarinnar Skriðuklausturs.
Í úrskurði í máli nr. 1/2005 var umrætt landsvæði talið nokkru stærra, en vegna nýrra gagna sem komu fram eftir uppkvaðningu úrskurðarins endurskoðaði óbyggðanefnd niðurstöðu sína að því er varðaði hluta landsvæðisins, eða nánar tilgreint þann hluta þess sem talinn var tilheyra eyðijörðinni Brattagerði. Breytti óbyggðanefnd úrskurðarorði að því er afmörkun þessa landsvæðis varðar með endurupptöku málsins og sérstakri bókun 12. febrúar 2009. Voru mörk þjóðlendu í afréttareign Skriðuklausturs dregin um landsvæði sem er nokkru minna að flatarmáli en í upphaflegu úrskurðarorði, en þar munar eingöngu því landsvæði sem óbyggðanefnd taldi að virtum nýjum gögnum að félli innan merkja eyðijarðarinnar Brattagerðis. Breyttu stefnendur kröfugerð sinni hér fyrir dómi í samræmi við hina nýju niðurstöðu óbyggðanefndar og gerði stefndi ekki athugasemd við það. Eignarréttarleg staða þess landsvæðis sem deilt er um í máli þessu samkvæmt endanlegum dómkröfum stefnenda breyttist ekki frá upphaflegum úrskurði óbyggðanefndar í málinu. Þykir því ekki tilefni til að telja grundvöll máls þessa brostinn þó óbyggðanefnd hafi tekið upp ákvörðun sína með þeim hætti sem að framan er lýst.
Stefndi í máli þessu unir niðurstöðu óbyggðanefndar um hið umdeilda landsvæði og stendur ágreiningur máls þessa því um hvort innan greindra merkja, sem nánar er lýst í aðalkröfu stefnenda, sé þjóðlenda í afréttareign stefnda eða hvort landið er háð beinum eignarrétti hans. Telja stefnendur sig hafa sjálfstæða lögvarða hagsmuni af úrlausn ágreiningsefnisins sem lífstíðarábúendur jarðarinnar Skriðuklausturs.
III
Ekki þykir ástæða til að rekja alla umfjöllun óbyggðanefndar um jörðina Skriðuklaustur og verður því látið við það sitja að gera grein fyrir niðurstöðukafla nefndarinnar. Má vísa um einstakar skjallegar heimildir sem þar er minnst á til umfjöllunar hér síðar um málsástæður aðila þar sem ítarleg grein er gerð fyrir þessum gögnum eftir því sem þeir telja þau skipta máli.
Í niðurstöðu óbyggðanefndar varðandi jörðina kemur fram að í kjölfar þess að landamerkjalög hafi tekið gildi, fyrst nr. 5/1882 og síðan nr. 41/1919, hafi verið gerð þrjú landamerkjabréf fyrir Skriðuklaustur. Skjöl þessi hafi verið þinglesin og innfærð í landamerkjabók sýslumanns. Sú hafi verið niðurstaða Hæstaréttar í sambærilegum málum að landamerkjabréf fyrir jörð feli í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða en hins vegar verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt. Frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki einungis helgað sér ákveðin landsvæði sem hafi verið háð beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu hafi getað haft fyrir afkomu þeirra. Meðan landsvæði hafi gefið eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau hafi verið. Beri um þetta efni sérstaklega að vísa til dóms Hæstaréttar 5. október 2006 í máli nr. 67/2006.
Af heimildum megi skýrt ráða að innan þeirra merkja sem lýst sé í landamerkjabréfum Skriðuklausturs séu afréttarsvæðin Rani og Undir Fellum. Landamerkjabréfin lýsi merkjum mun vestar en úttekt frá 1828 og skoðunargjörð frá sama ári. Merkjalýsingar Skriðuklausturs frá 1828 falli vel að austurmerkjum afréttarins Undir Fellum og séu í samræmi við umsögn sýslunefndar Norður-Múlasýslu, dags. 24. apríl 1893, þess efnis að jörðin hafi „lítið heimaland, en afrjettarland mikið, sem [taki] við af heimalandi...“.
Að slepptum heimildum um nýbýlastofnun á Ranaafrétti sé ljóst að um Rana og Undir Fellum sé fyrst og fremst fjallað í tengslum við upprekstur og afréttarnot. Gerður sé greinarmunur á þeim og öðru landi tilheyrandi Skriðuklaustri með því að þau séu jafnan tiltekin sérstaklega og þess getið að Skriðuklaustur eigi þar afrétt eða hlunnindi. Heimildir bendi þannig til að þar sé um að ræða afrétt stofnunar í þeim skilningi að Skriðuklaustur hafi átt þar óbein eignarréttindi, sbr. m. a. dómtitil frá 1679, úrskurð sýslumanns frá 1835 og landamerkjabréf Skriðuklausturs. Engin gögn liggi fyrir um að fyrir gildistöku þjóðlendulaga hafi þessi landsvæði nokkurn tíma verið nýtt til annars en sumarbeitar og e.t.v. annarra takmarkaðra nota. Staðhættir styðji þá niðurstöðu en land þetta liggi í um 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Fjallskil hafi verið á hendi sveitarfélags, svæðið sé ekki afgirt og þangað hafi búfénaður leitað frá öðrum jörðum án hindrana. Svör hreppstjóra Fljótsdalshrepps og Jökuldalshrepps frá árinu 1920 við fyrirspurn sýslumanns Múlasýslu samrýmist þessu. Þá gerir óbyggðanefnd grein fyrir þeirri afstöðu sinni að greiðsla felligjalda hreindýra fylgi afréttareign.
Ekkert liggi fyrir um það hvernig Skriðuklaustur sé komið að rétti til þeirra landsvæða sem hér sé fjallað um. Óbyggðanefnd telji hvorki hægt að útiloka að þau séu að einhverju leyti innan upphaflegs landnáms né að þau hafi upphaflega verið samnotaafréttur jarða á svæðinu en síðar komist undir Skriðuklaustur. Í máli þessu sé þannig ekki sýnt frá á annað en að réttur til afréttarsvæðanna Undir Fellum og Rana hafi orðið til á þann veg að þau hafi verið tekin til sumarbeitar fyrir búpening og, ef til vill, annarrar takmarkaðrar notkunar. Um afréttarmálefni og fjallskil hafi snemma verið settar opinberar reglur, sem sveitarstjórnum hafi verið falið að annast framkvæmd á.
Samkvæmt framanröktu sé það niðurstaða óbyggðanefndar að land innan lýsingar í landamerkjabréfum Skriðuklausturs hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu, þ.e. afréttarsvæðin tvö, þ.e. Rani og Undir Fellum, þjóðlenda í afréttareign Skriðuklausturs en annað land eignarland. Þar sem afréttareignin tilheyri Skriðuklaustri í báðum tilvikum sé ekki þörf á að afmarka afréttarsvæðin innbyrðis. Að því er varði afréttarnýtingu annarra jarða í Fljótsdal á þessum sömu svæðum verði að skilja málatilbúnað Fljótsdalshrepps þannig að litið sé svo á að þau séu í eigu Skriðuklausturs að því leyti sem þau séu þar innan merkja. Afréttarnýting jarða í Fljótsdal hafi þannig farið fram í skjóli þess eignarréttar og með samkomulagi aðila. Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu um afréttareign Skriðuklausturs verði ekki talið að þessar kröfur þarfnist frekari umfjöllunar. Þá séu kröfur ábúenda Skriðuklausturs byggðar á ætluðum rétti eiganda Skriðuklausturs en ekki á sjálfstæðum grundvelli. Úr þeim verði því einungis leyst með óbeinum hætti, þ.e. niðurstöðu um eignarréttarlega stöðu umrædds landsvæðis.
Eftir sé þá að leysa úr því hver séu mörk eignarlands og þjóðlendu. Með hliðsjón af merkjalýsingum Skriðuklausturs, afréttarlýsingum og staðháttum telji óbyggðanefnd þó ljóst að þau liggi ekki vestar en þjóðlendukröfulína íslenska ríkisins . Með hliðsjón af dómum Hæstaréttar frá 6. september 2005 í máli nr. 367/2005 og 16. maí 2007 í máli nr. 571/2006, geti ekki komið til álita hvort þau liggi austar. Verði því kröfulína íslenska ríkisins lögð til grundvallar um mörk eignarlands og þjóðlendu, enda sé fjármálaráðherra í máli þessu fyrirsvarsmaður bæði jarðarinnar Skriðuklausturs og þjóðlendu, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 58/1998.
Ljóst sé að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hafi verið fjallað um og talið þjóðlenda í afréttareign eigenda Skriðuklausturs séu misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld. Land það sem hér sé til umfjöllunar verði því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði ... sem að staðaldri [hafi] verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998.
Að öllu framangreindu virtu hafi ekki verið sýnt fram á það að afréttarsvæðin Rani og Undir Fellum, þ.e. land á þjóðlendukröfusvæði íslenska ríkisins innan landamerkja Skriðuklausturs, sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Eins og notkun landsins hafi verið háttað hafi ekki heldur verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því. Rannsókn óbyggðanefndar leiði einnig til þeirrar niðurstöðu að framangreint svæði sé þjóðlenda.
Það sé því niðurstaða óbyggðanefndar að umrætt landsvæði, þ.e. þeir hlutar Rana og Undir Fellum sem séu innan þess landsvæðis sem afmarkað sé í landamerkjabréfi Skriðuklausturs, dags. 27. ágúst 1922 og þingl. 23. júlí 1923, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998. Sama landsvæði sé í afréttareign Skriðuklausturs, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.
Þykir ekki nauðsynlegt að rekja merkjalýsingu úrskurðarins hér, en endanleg kröfugerð stefnenda fellur saman við þá merkjalýsingu sem fram kemur í breyttu úrskurðarorði óbyggðanefndar, sbr. bókun nefndarinnar frá 12. febrúar 2009.
IV
Stefnendur kveðast í stefnu byggja málatilbúnað sinn á því að þeim hafi verið byggð jörðin Skriðuklaustur til lífstíðarábúðar með byggingabréfi nr. 387, dags. 11. maí 1999, sem þinglýst hafi verið á síðu jarðarinnar 31. maí sama ár. Jörðin hafi verið byggð stefnendum innan landamerkja samkvæmt landamerkjaskrá Norður-Múlasýslu, eins og segi í 9. gr. byggingabréfsins. Samkvæmt gr. 10.7 í byggingabréfinu hafi jörðin verið byggð stefnendum með öllum hlunnindum, sem fylgi og fylgja beri lögum samkvæmt, en án greiðslumarks. Stefnendur hafi nýtt hlunnindi á hinu umdeilda landi, þ.m.t. rjúpna og gæsaveiði.
Byggingabréfið hafi verið gert eftir gildistöku þjóðlendulaga og telji stefnendur að það hafi vakið hjá þeim réttmætar væntingar til þess að ætla að allt land jarðarinnar samkvæmt gildandi landamerkjabréfi væri undirorpið beinum eignarrétti. Réttmætar væntingar njóti sjálfstæðrar verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og því hafi óbyggðanefnd verið óheimilt að úrskurða hið umdeilda landsvæði þjóðlendu. Stefnendur hafi lögvarða hagsmuni og sjálfstæðan rétt á því að fá efnislegan dóm í málinu.
Stefnendur haldi því fram að land Skriðuklausturs innan þinglýstra merkja sé eignarland í skilningi 1. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998 þar sem eignarland sé skilgreint þannig að það sé landsvæði þar sem eigandi landsins fari með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segi til um á hverjum tíma. Þjóðlenda sé hins vegar landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Það hafi því verið röng niðurstaða hjá óbyggðanefnd að telja hið umdeilda landsvæði til þjóðlendu.
Stefnendur telji að hið umdeilda land hafi verið hluti landnáms Skjöldólfs Vémundarsonar og Brynjólfs gamla. Skjöldólfur hafi numið Jökuldal fyrir austan Jökulsá og upp frá Hnefilsdalsá, skv. frásögn Landnámu, en Brynjólfur hafi numið Fljótsdal allan fyrir ofan Hengifossá fyrir vestan, en fyrir ofan Gilsá að austan, samkvæmt sömu heimild.
Eignarréttur hafi þannig stofnast fyrir landnám og fullljóst að um fullkominn eignarrétt hafi verið að ræða þar sem engar heimildir bendi til þess að landnámsmenn hafi numið land til annars en fullrar eignar. Engin rök séu fyrir því að ætla að hluti lands, sem verið hafi á einni hendi um aldir, hafi verið skilinn frá og talinn einungis undirorpinn afnotarétti. Slíkt væri hugsanlegt ef um almenning eða samnotaafrétt margra jarða eða heillar sveitar væri að ræða, sem ekki sé í þessu tilviki.
Stefnendur telji að þinglýstar heimildir beri með sér að hið umdeilda land hafi verið hluti Skriðuklausturs samkvæmt þinglýstum landamerkjabréfum.
Elsta landamerkjabréf jarðarinnar sé skráð 18. júní 1884 og þinglýst daginn eftir, en þar segi:
„Þessi eru landamerki milli Skriðuklausturs í Fljótsdalshrepp og Valþjófsstaðar. Hin fyrrnefnda jörð á land „að merkigarði þeim, sem að fornu og nýju haldinn hefur verið landamerki“ og sem liggur frá Jökulsá fram og upp eptir nesinu upp undir fjall, þaðan sjónhending upp á fjall, og þaðan í stóran stein, sem stendur utan til á ytra Eyvindarfjalli, og þaðan réttlínis norður í Jökulsá á Jökulsdal. Að austan ræður Jökulsá í Fljótsdal. Að utan ræður úr nefndri á Melakvísl og Bessastaðaá allt upp á fjallsbrún í Eyvindarkeldu, og svo beina stefnu yfir miðheiði, ofan með svo nefndum Stóralæk, allt í Eyvindará, sem greinir Skriðuklaustursland frá Brattagerðislandi, allt að þeirri stefnilínu, sem áður var greint að aðgreindi Valþjófsstaðar- og Klaustursland. Fyrir norðan Eyvindarfjöll á einnig Skriðuklaustur land allt frá nefndri línu út að Sauðá, sem skilur það aptur frá Brattagerðislandi. ...“
Sæbjörn Egilsson hafi skrifað undir fyrir hönd Páls Ólafssonar umboðsmanns. Jón Einarsson eigandi Víðivalla hafi verið samþykkur landamerkjabréfinu. Það hafi Sigurður Gunnarsson einnig verið fyrir hönd Valþjófsstaðarkirkju.
Annað landamerkjabréf fyrir jörðina Skriðuklaustur, með eyðijörðinni Brattagerði, hafi verið útbúið 17. maí 1896 í Nesi í Loðmundarfirði. Bréfið hafi verið lesið á manntalsþingi 3. júní sama ár og hljóði svo:
„Að framan á Skriðuklaustursland „að merkigarði þeim, sem að fornu og nýju haldinn hefur verið landamerki“ og sem liggur frá Jökulsá fram og upp eptir nesinu upp undir fjall, þaðan sjónhending upp á fjall og þaðan í stóran stein sem stendur utan til á ytra Eyvindarfelli og þaðan rjettlínis norður í Jökulsá á Jökuldal. Að austan ræður Jökulsá í Fljótsdal. Að utan ræður úr nefndri á Melakvísl og Bessastaðaá allt upp á fjallsbrún í Eyvindarkeldu, og þaðan bein stefna yfir miðheiði ofan með svonefndum Stóralæk allt í Eyvindará, þaðan Eyvindará í Jökulsá á Jökuldal. Að norðan ræður Jökulsá á Jökuldal. ...“
Páll Ólafsson hafi skrifað undir fyrir hönd umboðsins. Þórarinn Þórarinsson, prestur á Valþjófsstað, hafi verið samþykkur framangreindum landamerkjum fyrir hönd Valþjófsstaðakirkju. Hann hafi skrifað undir 27. maí 1896.
Gildandi landamerkjabréf Skriðuklausturs ásamt eyðijörðinni Brattagerði hafi verið útbúið 27. ágúst 1922, þinglesið 23. júlí 1923 og hljóði svo:
„Að framan á Skriðuklaustur land að merkigarð þeim, sem að fornu og nýju haldinn hefur verið landamerki og sem liggur frá Jökulsá fram og upp eftir nesinu upp undir fjall, þaðan sjónhending upp á fjall, þaðan í stóran stein sem stendur utantil á ytra Eyvindarfjalli, þaðan réttlínis norður í Jökulsá á Jökuldal. Að austan ræður Jökulsá í Fljótsdal. Að utan ræður úr nefndri á Melakvísl og Bessastaðaá alt upp á Fjallsbrún í Eyvindarkeldu og þaðan bein stefna á miðheiði í merkjavörðu (ytri) (merkt L.M. á jarðfastan stein og hlaðin varða ofan á), þaðan um miðheiðarháls í merkjavörðu fremri (merkt L.M eins og hin varðan). Þaðan þvert vestur heiði í merkjavörðu í svokölluðum Klappalækjarflóa og þaðan í Eyvindará. Þaðan Eyvindará í Jökulsá á Jökuldal. Að norðan ræður Jökulsá á Jökuldal.“
Undir bréfið skrifi Sigmar G. Þormar eigandi 13/16 úr Skriðuklaustri auk Guðmundar Snorrasonar eiganda Fossgerðis.
Á bls. 84 í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 1/2005 komi fram túlkun nefndarinnar á landamerkjabréfum Skriðuklausturs, en þar segi:
„Af heimildum má skýrt ráða að innan þeirra merkja sem lýst er í landamerkjabréfum Skriðuklausturs eru afréttarsvæðin Rani og Undir Fellum. Landamerkjabréfin lýsa merkjum mun vestar en úttekt frá 1828 og skoðunargjörð frá sama ári. Merkjalýsingar Skriðuklausturs frá 1828 falla vel að austurmerkjum afréttarins Undir Fellum og eru í samræmi við umsögn sýslunefndar Norður-Múlasýslu, dags. 24. apríl 1893, þess efnis að jörðin hafi „lítið heimaland, en afrjettarland mikið, sem tekur við af heimalandi...“
Tilvitnuð úttekt og skoðunargjörð frá 1828 hljóði svo:
„Landamerki ségir Abúandinn séu ad framan: frá Jökulsá rædr Merkigardr upptil Fialls, enn ad utan rædr Bessastada á, upp til brúna allt þar til hún fer ad buga sig framm á vid, Þadan og Þvert nordr i Eyvindarkéldu.“
Það sé vissulega rétt að þetta séu nokkurn vegin merkin, sem eftir úrskurð óbyggðanefndar afmarki eignarland Skriðuklausturs, en nefndinni hafi láðst að skoða málið í samhengi við hjáleigu Skriðuklausturs, Klaustursel, sem tekin hafi verið út á sama tíma, af sama tilefni og af sömu mönnum. Um landamerki segi í skoðunargjörð Klaustursels:
„Landamerki jardarinnar tiást vera: ad utan rædr Tregagilsá upp á Heidi, þangad sem vötnum hallar til afnota, en Merki ad framan vita menn ecki, þar Land Klaustursels er óskipt frá Klausturlandi.“
Land Klaustursels (með Fossgerði) nái í dag frá Jökulsá á Jökuldal með Tregagilsá upp í heiði sem vötnum hallar og þaðan í Eyvindará sem ráði aftur í Jökulsá. Land Klaustursels sé óefað eignarland (engar þjóðlendukröfur hafi verið gerðar í jörðin) og þess vegna verði að teljast undarlegt að Klausturselshluti jarðarinnar Skriðuklausturs skuli teljast eignarland en Brattagerðishluti jarðarinnar (og raunar meira) teljast þjóðlenda. Það verði raunar að teljast enn einkennilegra þegar litið sé til úttektar Klaustursels frá 23 apríl 1841, en þar segi:
„Landamerki jardarinnar eru ad utan Tregagilsá austur til midheidar. Þadan eru landamerki (eptir sögn ábúandans og framlögdum vitnisburdum gamallra manna sem um lánga tid hafa þekt landamerki jardarinnar eftir þvi sem hún hafi bygd verid til afnota) fram midheidarháls alt ad Vegakvisl ytri þadan nidur i Eyvindará eptir sem nefnd kvisl rædur; sidan nidur med Eyvindar á í Jökulsá
Þar ad auki var ábúendum jardarinnar bygdur Rani allur án þess ad landskuld væri meiri, enn nu er ráni fallin til Skriduklausturs heimajardar. ...“
Samkvæmt úttektinni hafi Raninn áður fyrr verið hluti þess lands sem byggt hafi verið Klausturselsábúanda, en hafi árið 1841 verið fallinn til heimajarðarinnar. Það sé þannig ekki undarlegt að árið 1828 hafi Raninn ekki verið tekinn inn í landamerkjalýsingu Skriðuklausturs. Árið 1835 hafi verið mælt út land í Rananum fyrir nýbýlinu Brattagerði og hljóti það að vera ástæðan fyrir því að Raninn hafi verið tekinn undan hjáleigunni Klausturseli. Komi fyrrgreindur skilningur og vel heim og saman við útmælingu nýbýlisins en í útmælingargerð sýslumanns segi:
„...Sömuleidis mætti Ummbodsmads Skridu Klaustrs Bergvin Þórbergsson uppá nefnds klaustrs vegna innan hvörs Landamerkia þad land liggr sem nú skal útmælast til áminnstrar Jardar. ...“
Skoðunar og skiptagerð hafi farið fram á hinu sama nýbýli þann 18. ágúst 1845.
Óbyggðanefnd hafi einnig láðst að meta fyrrgreinda lýsingu á landamerkjum Skriðuklausturs í úttektinni frá 1828, í samhengi við Skoðun og landamerkjaákvörðun Aðalbóls og Vaðbrekku frá 23. ágúst 1824, en þar segi um landamerki Vaðbrekku:
„Hennar Landamerki ad framan eru en sömu sem Adalbóls, ad utanverdu; Ad vestan rædur Lande Jökulsá, en ad austan Holktá; En ad utanverdu á hún Land ámóti Skridu Klaustri. ...“
Óbyggðanefnd hafi þannig að mati stefnenda ekki sinnt lögboðinni rannsóknarskyldu sinni, sbr. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 og þannig einnig farið á svig við hina almennu rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins sem lögfest sé í 10. gr. laga nr. 37/1993.
Óbyggðanefnd byggi niðurstöðu sína mjög á því að í skjallegum heimildum sé orðið afréttur oft notað um hið umdeilda landsvæði. Orðrétt segi í úrskurði nefndarinnar á bls. 84:
„Heimildir benda þannig til að þar sé um að ræða afrétt stofnunar í þeim skilningi að Skriðuklaustur hafi átt þar óbein eignarréttindi, sbr. m.a. dómtitil frá 1679, úrskurð sýslumanns frá 1835 og landamerkjabréf Skriðuklausturs...“
Stefnendur mótmæli því að á grundvelli tilvitnaðra gagna megi draga þá ályktun sem óbyggðanefnd geri.
Óbyggðanefnd líti þannig algerlega framhjá vitnisburði Jóns Eyjólfssonar frá árinu 1670 um landamerki milli Skriðuklausturs og Valþjófsstaða en þar segi:
„...voru Landamerki haldinn mille Walþiofstadar og Skriduklausturs gardurinn sem liggur upp eptir Nesinu þadann sionhending uppi fiall og i þann stora stein sem stendur utanntil I Eivindarfialli Ytra enn þadann riettlynis Nordur J Jökulsaa ...“
Í ljósi fyrrgreinds vitnisburðar verði að skoða hinn svonefnda dómtitil frá 1679, sem sé eins konar forúrskurður um það erindi Klausturhaldarans hvort honum væri leyfilegt að afleggja Ranaafrétt. Fyrsta heimildin um málið sé svohljóðandi vitnisburður um Ranaafrétt frá 18. mars 1679:
„... vier höfumm vitad Rana afriett kallada. allt land a mille Hölknaar og Eyvindaraar framm a mille Eyvindarfialla og offrann ad Jökulsaa. So og lijka vitnumm vier og berum. ad þesse afriett og land var veniuleg og almennelegust afriett allra fliótsdalsmanna vt yfer Hrafnsaa edur jafnvelleingra ut j fell adur firer þetta hallære næsta sem upp kom medann menn attu saudfiendad. Enn aflagdest j hallærenu þá griperner mistust og sijdann til þessa. Játumm Eirnenn og vitnum med gódre samvitsku. ad firrnefnd Rana afriett sie og vered haffe halldenn filleleg Eign Skriduklausturs og lient og leift aff Skriduklausturs hölldurum.“
Samkvæmt þessum vitnisburði sé Ranaafrétt, fillileg Eign Skriduklausturs og lient og leift aff Skriduklasturs hölldurum. Erfitt sé að draga aðra ályktun en þá að Raninn hafi verið fullkomin eign Skriðuklausturs, en öðrum leyfð nýting hans með samningi.
Tæpum þremur mánuðum síðar, þann 6. maí 1679 hafi Jón Þorláksson sýslumaður og klausturhaldari nefnt sex menn í dóm og hafi beðið þá að álykta um hvort sér leyfðist að:
„... laata affleggiast þa Skriduklausturs affriett Er Rane kallast. og vane heffur til vered ad brúkud være firer affriettarpenijng j hanns formanna tijd.“
Dómsmenn hafi bent á að svo kvæði á um í veitingabréfi Jóns fyrir klaustrinu, að gengi eitthvað undan því með ólögum, bæri honum að endurheimta það með lögum og dómi. Jafnframt tilfæri þeir 52. kafla búnaðarbálks Jónsbókar um að efri og ytri mörk „afrétta“ skuli haldast eins og þau hafi verið að fornu. Því næst segi:
„Tilbydur Syslumadurenn þessa affriett firer eitt lamb edur þess virde aff tiju Eff Rekenn Eru. og ej frekara þo tuttugu edur hundrad frá Einumm manne Rekenn sieu. Þui virdest oss ecke leiffelegt ad þesse klaustursens afriett aldeiliss affleggest aff klaustursens landsetum. helldur ad þeir henne fillelega vppehalde og þangad Reke sijn lömb firer tilbodenn betalijng. Nefnelega þeir j fliótsdal búa.“
Ekki bendi þessi afgreiðsla til annars en að um fullkomið eignarland sé að ræða. Einungis túlkun dómsins á 52. kafla búnaðarbálks Jónsbókar ráði niðurstöðunni, þ.e. að merki afrétta skuli vera sem að fornu hafi verið og venjuhelguð nýting annarra standi í vegi fyrir því að afréttinn megi afleggja. Þó sé tekið skýrt fram að greiðsla komi fyrir nýtingu annarra á afréttinum.
Úrskurður sýslumanns frá 1835, sem óbyggðanefnd vitni til í úrskurði sínum á bls. 84 hafi verið kveðinn upp á vettvangi þegar land nýbýlisins Brattagerðis hafi verið mælt út þann 20. ágúst 1835. Hreppstjóri Fljótsdalshrepps mótmæli útmælingu og stofnun nýbýlis á þeim grundvelli að um afrétt Fljótsdælinga væri að ræða. Sýslumaður hafi ekki fallist á mótmæli hreppstjóra þar sem Raninn væri „...eptir þvi sem eldstu Menn tilvita ... Skridu Klausturs mótmælalaus Eign ...“
Stefnendur mótmæli því og harðlega að rökstyðja megi niðurstöðu óbyggðanefndar um þjóðlendu á hinu umdeilda landsvæði með vísan í landamerkjabréf jarðarinnar. Niðurstaða óbyggðanefndar sé reist á landamerkjum samkvæmt úttektar og skoðunargjörð Skriðuklausturs frá 1828, en í engu á þinglýstum landamerkjabréfum jarðarinnar.
Ofuráhersla óbyggðanefndar á orðið afrétt og framkvæmd fjallskila í tilfelli Skriðuklausturs komi stefnendum í opna skjöldu, ekki síst í ljósi þess að í almennum niðurstöðum óbyggðanefndar í málunum nr. 1 7/2000 og 1 5/2001 komi fram á bls. 29 að innan merkja jarða kunni að vera svæði sem nefnd séu afréttir. Í því þurfi þó ekki að felast mismunandi eignarréttarleg staða lands innan jarðarinnar. Hugsanlegt sé að verið sé að vísa til gamalgróinnar notkunar á viðkomandi jarðarhluta sem beitarlandi. Og jafnvel þó slíkur jarðarhluti sé alfarið tekinn undir fjallskilaframkvæmd gefi slík tilhögun ein og sér enga vísbendingu um eðli eignarhalds á slíkum jarðarhluta eins og greini á bls. 30 í almennum niðurstöðum óbyggðanefndar. Þessar niðurstöður nefndarinnar hafi og verið staðfestar af dómstólum.
Stefnendur telji að ekkert annað en að hið umdeilda land sé víða nefnt afréttur í heimildum og hafi verið tekið undir fjallskilaframkvæmd ráði niðurstöðu óbyggðanefndar. Önnur og marktækari gögn styðji ekki niðurstöðu óbyggðanefndar.
Óbyggðanefnd styðji og niðurstöðu sína við þau almennu atriði að staðhættir styðji niðurstöðuna, landið sé í um 600 metra hæð yfir sjávarmáli og sé ekki afgirt.
Stefnendur bendi á að einungis lítill hluti hins umdeilda lands liggi í um 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Enn fremur sé efsti hluti Skriðuklausturs sem ekki sé þjóðlenda samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar í um 600 metra hæð sem og land Klaustursels víða í Klausturselsheiðinni.
Staðhættir á hinu umdeilda landi séu og í engu frábrugðnir staðháttum á Klausturseli og land Klaustursels sé heldur ekki afgirt frekar en land annarra jarða á þessu svæði. Klaustursels- og Fellaheiðin hafi og verið teknar undir fjallskilaframkvæmd.
Stefnendur telji því að slík atriði geti aldrei ráðið úrslitum um eignarréttarlega stöðu lands, enda væri þá um að ræða brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins sem lögfest sé í 11. gr. laga nr. 37/1993.
Stefnendur mótmæli því harðlega sem fram komi í úrskurði óbyggðanefndar að í svari hreppstjóra Fljótsdalshrepps við fyrirspurn sýslumanns Múlasýslu árið 1920 eða svari kollega hans í Jökuldalshreppi hinum forna, megi ráða að hið umdeilda land sé ekki beinum eignarrétti undirorpið. Stefnendur telji miklu nærtækara að komast að gagnstæðri niðurstöðu, en í svari hreppstjóra segi:
„... hjer í hreppi er ekkert svæði sem talin er almenníngur, og að ekkert afréttar land er hjer, sem ekki tilheyrir einhverju býli ...“
Í svarbréfi hreppstjóra Jökuldalshrepps til sýslumanns í Norður-Múlasýslu frá 1920 segi:
„... skal ég tjá yður að eg veit ekki til, að hér í hreppi sé til nokkur slíkur almenningur eða afréttarlönd. ...“
Samkvæmt framangreindu öllu telji stefnendur vera alvarlega annmarka á úrskurði óbyggðanefndar og hafi nefndin í senn, með úrskurði sínum farið á svig við eða brotið grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins, þ.á.m. meðalhófsreglu, rannsóknarreglu og jafnræðisreglu. Beri því þegar af þeirri ástæðu að ógilda úrskurð óbyggðanefndar í máli nr. 1/2005.
Stefnendur bendi á að í dómsmálum vegna þjóðlendna hafi verið á það litið við úrlausn málanna að réttmætar væntingar eiganda um eignarrétt sinn, eins og þær sem að framan greini, nytu verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi verið með samnefndum lögum nr. 62/1994. Verði eigandi ekki sviptur þeim fjárhagslegu hagsmunum sem felist í slíkum réttmætum væntingum nema að uppfylltum þeim skilyrðum sem nánar greini í umræddum eignarréttarákvæðum. Athugasemdir við það frumvarp sem orðið hafi að lögum nr. 58/1998 beri skýrlega með sér að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum sem þeir hafi aflað og notið athugasemdalaust um aldalangt skeið, með því að gera þeim að sýna fram á órofna sögu eignarréttar þeirra frá landnámi og láta þá bera hallan af vafa um þetta efni.
Það sé og skoðun stefnenda að lög nr. 58/1998 verði ekki skýrð á þá leið að landeigendur þurfi að sýna frekar fram á, en þegar hafi verið gert, að umrætt landsvæði sé eignarland þeirra og þar með utan þjóðlendu.
Ekki ráði úrslitum í þessu máli þótt víða í heimildum sé notað orðið afréttur um hið umdeilda land. Afréttur geti verið heimaafréttur og ekki eingöngu notaður til sumarbeitar sauðfjár. Þá ráði ekki úrslitum um eignarhald þótt land sé aðeins notað til sumarbeitar eins og fram komi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004.
Stefnendur vísi til þess að stefndi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi nokkurn rétt til umrædds landsvæðis. Til að stefndi geti öðlast þann rétt, sem skilgreindur sé í þjóðlendulögum verði að sýna fram á að heimildir um landamerki séu rangar, en það hafi hann á engan hátt gert. Þá þurfi stefndi að sýna fram á að afrétturinn sé samnotaafréttur en ekki einkaafréttur eða hluti jarðar, sem hann hafi ekki gert og hafi það mikið að segja við ákvörðun um inntak eignarréttarins, sbr. fyrrgreindan Hæstaréttardóm.
Stefnendur byggi á því að verði eignarréttur ekki viðurkenndur hafi núverandi eigandi öðlast eignarrétt að hinu umdeilda landsvæði fyrir hefð og vísi þeir til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46/1905. Eignarhefð verði unnin á fasteign með 20 ára óslitnu eignarhaldi og stefnendur og fyrri eigendur hafi í góðri trú haft öll umráð landsins í árhundraðaraðir. Fullnægt sé öllum skilyrðum hefðar um eignarhaldstíma, virk umráð og huglæga afstöðu og samkvæmt því verði að telja, án tillits til uppruna og sögu eignarheimilda fyrir jörðina, að hefð hafi unnist, sbr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð, að því er varði umrætt landsvæði. Með hliðsjón af afstöðu eigenda á hverjum tíma og nýtingar þeirra verði að telja að sú hefð hafi verið til eignar á landinu, en ekki aðeins náð til takmarkaðra afnota eða ítaksréttinda.
Stefnendur vísi um lagarök til 25. og 26. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 um rétt þinglýsts eiganda og til 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttinda, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi verið með samnefndum lögum nr. 62/1994. Einnig sé vísað til óskráðra reglna eignarréttarins um beinan eignarrétt, til 1. gr. laga um þjóðlendur o.fl. nr. 58/1998, að því er varði skilgreiningu á eignarlöndum, og 1. gr. laga um landamerki nr. 41/1919, sbr. eldri lög um sama efni. Þá sé vísað til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46/1905, enda hafi stefnendur haft umráð landsins fullan hefðartíma fasteigna margfalt og meinað öðrum afnot þess. Einnig vísi stefnendur til venju, þ.e. að land sem að fornu hafi verið notað eingöngu af landeigendum sé með vísan til venjuréttar talið eignarland þeirra án takmarkana enda hafi nýting þeirra gefið slíkt til kynna. Þá vísi stefnendur til meginreglna einkamálaréttarfars um sönnunargildi dóma, sbr. og núgildandi ákvæði 116. gr. laga nr. 91/1991. Þá vísi stefnendur til kröfulýsingar og greinargerðar sem þeir hafi lagt fram undir rekstri óbyggðanefndar á málinu og allra þeirra gagna sem þeim hafi fylgt.
Stefnendur byggi málskostnaðarkröfu á XXI. kafla laga nr. 91/1991 og vísi til gjafsóknarleyfis dóms- og kirkjumálaráðuneytis.
V
Af hálfu stefnda er í fyrsta lagi byggt á því að stefnendur í máli þessu eigi ekki lögvarða hagsmuni af úrslitum málsins, en stefnendur séu ábúendur jarðarinnar og lúti réttindi þeirra því eingöngu að nýtingu landsvæðisins. Réttindi stefnenda varði því eingöngu óbein eignarréttindi, þ.e.a.s. afnotarétt, sem leiddur verði af beinum þinglýstum eignarrétti íslenska ríkisins, stefnda í máli þessu, til jarðarinnar Skriðuklausturs. Stefnendur geti því ekki talist aðilar máls þessa, enda séu þeir hvorki færir um að ráðstafa hinum beinu eignarréttindum til jarðarinnar né hafi þeir heimild til að leita heimildar dómstóla til verndar eigninni og hafi því enga sjálfstæða lögvarða hagsmuni af niðurstöðu málsins.
Þegar af þessum sökum sé þess krafist að íslenska ríkið verði alfarið sýknað af öllum kröfum stefnenda í máli þessu.
Að öðru leyti sé á því byggt, að landsvæði það sem mál þetta varði sé svæði utan eignarlanda og teljist þannig vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar á svæðinu, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998. Telji stefndi fullljóst af heimildum, að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarétti, og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti, sbr. nánar eftirgreint. Að mati stefnda hvíli sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnendum að sýna fram á tilvist beins eignaréttar að landsvæðinu, eða einstökum hlutum þess.
Óbyggðanefnd byggi úrskurð sinn á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum. Sé niðurstaðan byggð á kerfisbundinni leit nefndarinnar að gögnum og framlögðum gögnum frá málsaðilum. Þá hafi einnig verið byggt á skýrslum sem gefnar hafi verið fyrir nefndinni. Hafi óbyggðanefnd talið ótvírætt, að við gildistöku laga nr. 58/1998, hefði landsvæði það sem um sé deilt í máli þessu, talist til afrétta samkvæmt þeirri eignaréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma.
Stefndi geri niðurstöður nefndarinnar að sínum til stuðnings sýknukröfu.
Merkjum Skriðuklausturs sé fyrst lýst í úttekt jarðarinnar, dags. 19. september 1828, og skoðunargjörð sýslumanns, dags. 22. september 1828. Vesturmerkjum sé fyrst sérstaklega lýst í jarðamati Skriðuklausturs frá 1849. Þá liggi fyrir þrjú landamerkjabréf fyrir Skriðuklaustur, hið fyrsta dags. 18. júní 1884, það næsta 17. maí 1896 og hið síðasta dags. 27. ágúst 1922. Í landamerkjabréfinu frá 1922 sé að finna ítarlegustu lýsinguna.
Innan merkja Skriðuklausturs liggi eyðibýlin Þorskagerði og Brattagerði í svokölluðum Rana.
Þá gerir stefndi í greinargerð sinni grein fyrir sjónarmiðum um eyðibýlið Brattagerði, en óþarfi þykir að rekja það hér þar sem sá hluti lands Skriðuklausturs var í kjölfar endurupptöku málsins lýstur háður beinum eignarrétti stefnda sem eiganda Skriðuklausturs og er sú niðurstaða ekki til endurskoðunar hér.
Afbýlið Þorskagerði hafi staðið vestan Sauðár, nokkru sunnan við Brattagerði en þar hafi verið búið á árunum 1783 1784, 1807 1810 og árið 1868. Engar upplýsingar liggi fyrir um landamerki Þorskagerðis eða heimildir um að landi þess hafi verið útvísað með formlegum hætti. Með því að fyrirmælum nýbýlatilskipunar hafi ekki verið fullnægt sé ljóst að ekki hafi verið stofnað til beins eignarréttar á grundvelli þeirrar löggjafar. Eignarréttarleg staða viðkomandi landsvæðis hafi því ekki tekið breytingum á þeim grundvelli. Í þessu sambandi beri að vísa til þeirra krafna sem Hæstiréttur hafi gert til sönnunar eignarlands, sbr. m.a. dóm réttarins í málinu nr. 48/2004 (Úthlíð) og 345/2005 (Fell í Suðursveit)
Af hálfu stefnda sé því fallist á þá ályktun óbyggðanefndar að af hemildum megi skýrt ráða að innan þeirra merkja sem lýst sé í landamerkjabréfum Skriðuklausturs séu afréttarsvæðin Rani og Undir Fellum. Landamerkjabréfin lýsi merkjum mun vestar en úttekt frá 1828 og skoðunargerð frá sama ári. Merkjalýsingar Skriðuklausturs frá 1828 falli vel að austurmerkjum afréttarins Undir Fellum og séu í samræmi við umsögn sýslunefndar Norður-Múlasýslu, dags. 24. apríl 1893, þess efnis að jörðin hafi „lítið heimaland, en afrjettarland mikið, sem [taki] við af heimalandi ...“.
Af hálfu stefnda sé á það bent, að þrátt fyrir tilvist þinglýsts landamerkjabréfs fyrir jörð, verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004.
Þá verði og við mat á gildi landamerkjalýsinga jarðarinnar að horfa til þess, að ekki verði séð að bréfið hafi verið samþykkt af eigendum allra aðliggjandi jarða.
Við mat á gildi landamerkjabréfa beri að gæta að því, að landamerkjabréf feli fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felist á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland. Þrátt fyrir að þessum bréfum sé þinglýst, þá takmarkist gildi þinglýsingarinnar af því, að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi á. Slíku eigendalausu landi geti eingöngu löggjafinn ráðstafað. Sæki lýsing landamerkjabréfs ekki stoð í eldri heimildir, dragi það úr sönnunargildi bréfsins, sbr. t.d. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004.
Af hálfu stefnda sé því fallist á þá ályktun óbyggðanefndar að land innan lýsingar í landamerkjabréfum Skriðuklausturs hafi mismunandi eignarréttarlega stöðu, þ.e. annars vegar eignarland Skriðuklausturs, en hins vegar afréttarsvæðin tvö, Rani og Undir Fellum, sem álíta verði þjóðlendu í afréttareign jarðarinnar í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar.
Bent sé á, að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á þessu svæði hafi náð. Ólíklegt verði að teljast, að land á umþrættu svæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum og fjarlægðum.
Í samræmi við dómafordæmi verði talið að heimildarskortur hvað þetta varði leiði til þess að álitið verði ósannað að heiðarlönd eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu. Sé þetta til samræmis við þá reglu sem ráðin verði af dómafordæmum Hæstaréttar, að sé deilt um upphaflegt nám lands, verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess, að álitið verði ósannað að heiðarlönd hafi verið numin í öndverðu, sbr. til hliðsjónar t.d. dóma Hæstaréttar í málinu nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði). Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignaréttarstofnun á þeim sem haldi slíku fram.
Ekki verði annað séð, en að réttur stefnenda til hins umþrætta landsvæðis hafi orðið til á þann veg, að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og, ef til vill, annarrar takmarkaðrar notkunar.
Verði talið, að svæðið hafi verið numið í öndverðu, hafi það ekki verið numið til eignar, heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota. Frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn helgað sér ekki eingöngu ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu hafi getað haft fyrir afkomu þeirra. Meðan landsvæði hafi gefið eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau hafi verið. Um þetta sé m.a. vísað til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/20007 (Grænafjall).
Verði hins vegar talið, að svæðið kunni að hafa að hluta eða að öllu leyti verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarétti, byggi stefndi á til vara, að allar líkur séu á því, að slíkt eignarhald hafi fallið niður en svæðið verið tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota, sbr. eftirfarandi umfjöllun í greinargerð. Þó að talið yrði að til beins eignaréttar hefði stofnast í öndverðu, liggi ekkert fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.
Engin gögn liggi fyrir um að svæðið hafi verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé og e.t.v. annarra takmarkaðra nota.
Vísist um það til þess sem áður hafi verið rakið, og rakið verði, sem og til staðhátta og gróðurfars á svæðinu, en um sé að ræða víðáttumikið en gróið heiðarflæmi sem liggi í töluverðri hæð, fjarri byggð. Þá hafi fjallskil verið á hendi sveitarfélags, landsvæðið ekki afgirt og þangað hafi búfénaður getað leitað frá öðrum jörðum án hindrana. Um afréttarnotkun og fjallskil hafi snemma verið settar opinberar reglur, sem sveitarstjórnum hafi verið falið að annast framkvæmd á.
Eldri heimildir bendi jafnframt til þess að afréttarsvæðin Rani og Undir Fellum sé afréttur jarða í þeim skilningi að Skriðuklaustur hafi átt þar óbein eignarréttindi. Um Rana og Undir Fellum sé fyrst og fremst fjallað í tengslum við upprekstur og afréttarnot. Gerður sé greinarmunur á því landsvæði og öðru landi tilheyrandi Skriðuklaustri með því að þau séu jafnan tiltekin sérstaklega og þess getið að Skriðuklaustur eigi þar afrétt eða hlunnindi.
Megi í þessu sambandi nefna vitnisburð dags. 8. maí 1679, en þá hafi tíu bændur vitnað um að Ranaafréttur hafi verið „veniuleg og almennelegust afriett allra fliotsdalsmanna...“ Jafnframt hafi þeir vitnað um að „Rana afriett“ væri „fillileg eign“ Skriðuklausturs en lánuð og leyfð af klausturhöldurum. Í svokölluðum dómtitli um Ranaafrétt, dags. 6. maí 1697, hafi verið úrskurðað um það hvort klausturhaldaranum væri heimilt að afleggja afréttinn. Niðurstaðan hafi orðið sú að honum væri það ekki heimilt og hafi verið vísað til ákvæða Jónsbókar um að „svo skuli almenningar vera sem að fornu hafi verið.“ Í úttekt Klaustursels, dags. 16. september 1828, segi að jörðin hafi haft afnot af Rana til heys og beitar en tekið fram að hann sé afréttur Fljótsdælinga. Í lögfestu Valþjófsstaðar, 12. maí 1840, sé fyrirboðið að nota megi Ranaafrétt sem liggi fyrir framan landamerki Skriðuklausturs og Valþjófsstaðar, nema með leyfi prests eða ábúanda Skriðuklausturs, sem hefði haft afréttarlandið á leigu af sér og formanni sínum. Í sóknarlýsingu Valþjófsstaðar, 1840 1841, segi að öll heiðin milli Jökuldals og Fljótsdals sé notuð sem afréttur. Segi að Fellnamenn hafi mest gagn „af heiðinni til geldfjárgöngu á sumardag, allt fram að Bessastaðaá, en eftir það brúki Fljótsdælingar einir afréttirnar sem [kallist] ýmsum nöfnum, svo sem: Rani; tilheyrir Skriðuklast[ri].“ Í sömu lýsingu segi um Fellnaafrétt (Undir Fellum) að afrétturinn tilheyri „Valþjófstað ásamt heiðinni út á móts við landamerki millum Skriðu og Valþjófstaðar“. Samkvæmt jarðamati 1849 segi að til hlunninda Skriðuklausturs teljist að jörðin eigi afréttarland fyrir sig í svokölluðum Rana fyrir 400 fjár. Þá segi í mati á Skriðuklaustri frá árinu 1878 að jörðin eigi afrétt „langt umfram aðar þjóðjarðir.“ Þau ummæli séu í samræmi við álit sýslunefndar Norður-Múlasýslu vegna sölu Skriðuklausturs, dags. 24. apríl 1893, um að jörðin eigi lítið heimaland „en afréttarland mikið, sem [taki] við af heimalandi.“ Í jarðamati 1916 1918 segi að Skriðuklaustri fylgi „afréttarland 2/3 hluti í Rana og eyðibýlið Brattagerði...“. Yngri heimildir beri einnig með sér að Rani og Undir Fellum hafi verið í afréttarnotum jarðeigenda í Fljótsdal undir stjórn sveitarfélagsins fram á þennan dag.
Þess beri að geta að í svari hreppstjóra Fljótsdalshrepps vegna fyrirspurnar Stjórnarráðs Íslands um afrétti og almenninga í Múlasýslu, dags. 22. maí 1920, segi að „...hér í hreppi er ekkert svæði sem talin er almenningur, og að ekkert afréttar land er hjer, sem ekki sannanlega tilheyrir einhverju býli.“ Svar hreppsstjóra Jökuldalshrepps, dags. 3. júní 1920, hafi verið efnislega á sama veg. Lýsi stefndi sig sammála þeirri ályktun óbyggðanefndar að fyrrgreind svör hreppstjóra verði ekki talin mæla því mót, að umþrætt landsvæði, Rani og Undir Fellum, hafi talist til afrétta samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við á þeim tíma.
Með hliðsjón af fyrrgreindum heimildum, auk annarra atriða sem getið sé í greinargerðinni, sé þeim röksemdum og heimildum sem vísað sé til í stefnu hafnað, svo sem vitnisburði Jóns Eyjólfssonar frá árinu 1670, en ekki verði talið að unnt sé að leggja hann til grundvallar við mat á eignarréttarlegri stöðu landsvæðisins.
Þá sé á því byggt af hálfu stefnda að staðhættir og fjarlægðir frá byggð bendi ekki til þess að landið hafi verið numið í öndverðu eða teljist lúta beinum eignarrétti.
Umþrætt landsvæði sé háslétta í 600 700 metra hæð yfir sjávarmáli og hallalítið milli brúna. Þar sé fjöldi vatna, þeirra stærst séu Gilsárvötn (628 m.). Í lægðum séu stórir flóar, en melar á milli. Á Fljótsdalsheiði sé Miðheiðarháls, aflangur háls með leguna norðaustur/suðvestur í rúmlega 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Um hann liggi vatnaskil og sveitarfélagamörk Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps. Frá bæjarstæði Skriðuklausturs, við Jökulsá í Fljótsdal og vestur í Jökulsá á Jökuldal, við Eiríksstaði, séu um það bil 24 kílómetrar í beinni loftlínu.
Að teknu tilliti til staðhátta, víðáttu, gróðurfars á svæðinu og hæðar þess yfir sjó, virðist því augljóst að svæðið hafi ekki verið nýtt til annars en beitarafnota.
Ekki verði talið að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, m.a. með vísan til framanritaðra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhætti og eldri heimildir. Nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignaréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málunum nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og 48/2004.
Stefndi hafni því, að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignaréttartilkalli á svæðinu. Sú regla verði leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík yfirráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi. Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram. Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar í skilningi laga, þ.e. menn geti ekki haft væntingar til að öðlast meiri og frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á. Ef því hátti þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignaréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.
Þeim málatilbúnaði stefnenda sé jafnframt hafnað, er lúti að því að ákvæði þjóðlendulaga uppfylli ekki lagaskilyrði 72. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 1. gr. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu. Með lögunum sé ekki verið að gera eignir manna upptækar, heldur skera úr um eignaréttindi.
Með vísan til alls þess sem að framan sé rakið, hvers um sig og saman, þá telji stefndi að stefnendum hafi ekki tekist að sýna fram á eignarétt á hinu umþrætta landsvæði. Ljóst sé að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hafi verið fjallað um, séu misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld. Landsvæði það sem hér sé til meðferðar, verði því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði ...sem að staðaldri [hafi] verið notað til sumarbeitar fyrir búfé...“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998. Engin gögn liggi fyrir um að landsvæði þetta hafi haft mismunandi eignaréttarlega stöðu. Telji stefndi því að landsvæði það sem hér sé til umfjöllunar, svo sem það sé afmarkað í kröfugerð stefnenda og fari saman við niðurstöður óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.
Að öðru leyti mótmæli stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnenda, svo sem þeim sé lýst í stefnu, en byggi um leið á þeim röksemdum sem lagðar hafi verið til grundvallar í úrskurði óbyggðanefndar í málinu nr. 2/2005, auk þess sem byggt sé á þeim sjónarmiðum og röksemdum sem settar hafi verið fram af hálfu stefnda, fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins, í kröfulýsingu hans fyrir nefndinni, dags. 14. október 2004, sbr. greinargerð hans dags. 10. desember 2005, og þess krafist að úrskurður óbyggðanefndar frá 29. maí 2007, í fyrrgreindu máli nr. 2/2005, verði staðfestur, þannig að miðað verði við að þjóðlendulína verði dregin með þeim hætti sem þar sé gert, að teknu tilliti til þeirrar breytingar sem gert var á úrskurðarorði með bókun nefndarinnar 12. febrúar 2009.
Auk framangreindra lagatilvísana, vísi stefndi máli sínu til stuðnings til almennra reglna eignaréttar og til þjóðlendulaga, nr. 58/1998. Þá sé vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Byggt sé á meginreglum eignaréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglum um eignarráð fasteignareigenda og almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Vísað sé til hefðarlaga, nr. 46/1905 og til laga nr. 6/1986, um afréttarmálefni og fjallskil. Þá sé vísað til ýmissa eignaréttarreglna Grágásar og Jónsbókar.
Krafa um málskostnað styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr. þeirra laga.
VI
Með úrskurði sínum í máli nr. 1/2005 skar óbyggðanefnd m.a úr um eignarréttarlega stöðu lands jarðarinnar Skriðuklausturs og komst þar að þeirri niðurstöðu að það land sem hér er umþrætt væri þjóðlenda en í afréttareign eiganda jarðarinnar Skriðuklausturs. Stefndi í máli þessu unir þessum úrskurði nefndarinnar, en hann er, jafnframt því að fara með forræði á þjóðlendukröfum, eigandi umræddrar jarðar. Stefnendur aftur á móti njóta þar lífstíðarábúðar á grundvelli Byggingabréfs dags. 11. maí 1999. Í kröfugerð sinni hér fyrir dómi krefjast stefnendur í fyrsta lagi þess að úrskurður óbyggðanefndar um að land innan greindra merkja teljist þjóðlenda verði ógiltur. Þá krefjast þau þess að viðurkenndur verði réttur þeirra til nýtingar landsins í samræmi við ábúðarsamning þeirra, eins og landið sé beinum eignarrétti undirorpið.
Forsenda þess að unnt væri að fallast á framangreindar kröfur stefnenda væri að dómurinn kvæði upp úr með það að stefndi, sem landeigandi, ætti á umræddu landsvæði ríkari réttindi heldur en hann sjálfur gerir kröfu um og hefur reyndar harðlega mótmælt að hann eigi í málatilbúnaði sínum hér fyrir dómi. Verður að telja það einsýnt að afnotarétthafi lands, sem nýtur réttinda sinna á grundvelli beins eignarréttar annars aðila, geti ekki gert eignarréttarkröfur í þjóðlendumáli sjálfstætt gegn mótmælum þess sem landið á. Er það því mat dómsins að stefnendur geti ekki að lögum átt aðild að þeim kröfum sem þau samkvæmt framansögðu gera í málinu. Verður þegar af þessari ástæðu fallist á sýknukröfu stefnda, sbr. 2.mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði að meðtalinni málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Garðarssonar héraðsdómslögmanns, sem telst hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Halldór Björnsson dómstjóri kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, skal sýkn af kröfum stefnenda, Hallgríms Þórhallssonar og Önnu Kristínar Tryggvadóttur, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarakostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði og er þar meðtalin þóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Garðarssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 311.250 krónur og er virðisaukaskattur meðtalinn í þeirri fjárhæð.