Hæstiréttur íslands
Mál nr. 73/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Hjón
- Kaupmáli
|
|
Fimmtudaginn 10. mars 2005. |
|
Nr. 73/2005. |
K (Steinunn Guðbjartsdóttir hdl.) gegn E S og R (Ragnar H. Hall hrl.) |
Kærumál. Dánarbú. Hjón. Kaupmáli.
K krafðist þess í málinu að kaupmáli hennar og M, sem var látinn, yrði ógiltur þar sem forsenda fyrir gildi hans hafi verið sú að tvær erfðaskrár, sem hann hafði undirritað, væru einnig gildar en erfðaskrárnar voru haldnar formgöllum. Sönnun þótti bresta fyrir því að erfðaskrárnar hafi skipt máli um það hvort kaupmáli var gerður eður ei. Ekki voru því skilyrði til að taka kröfu K um ógildingu kaupmálans til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 15. febrúar 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. febrúar 2005 þar sem hrundið var kröfu sóknaraðila, um að kaupmáli milli hennar og M frá 22. október 1983 verði metinn ógildur við opinber skipti á dánarbúi M. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess, að fyrrnefndur kaupmáli verði metinn ógildur við skiptin og varnaraðilum gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.
Til stuðnings framangreindri kröfu ber sóknaraðili meðal annars fyrir sig ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986. Samkvæmt 40. gr. fyrrnefndu laganna gilda þau ekki um löggerninga, sem lúta að málefnum sem reglur sifjaréttar taka til. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. febrúar 2005.
Ár 2005, miðvikudaginn, er á dómþingi, sem háð er að Fjarðargötu 9, Hafnarfirði af Guðmundi L. Jóhannessyni, héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður í málinu nr. Q-3/2004: Ágreiningur vegna opinberra skipta á dánarbúi M.
I.
Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þess þann 8. desember 2004.
Sóknaraðili er K [...].
Varnaraðilar málsins eru E [...], S [...] og R [...].
Sóknaraðili krefst þess:
1. Að kaupmáli M og K dagsettur 22. október 1983 verði metinn ógildur við yfirstandandi skipti á dánarbúi M.
2. Þá er krafist málskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess:
1. Að ógildingarkröfu sóknaraðila verði hafnað og kaupmáli M og K dagsettur 22. október 1983 verði metinn gildur við yfirstandandi skipti á dánarbúi M.
2. Þá er krafist málskostnaðar.
II.
Málavextir eru þeir að þann 1. júlí 2003 lést M. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness dags. 30. janúar 2004 var dánarbú M tekið til opinberra skipta.
Sóknaraðili og hinn látni gengu í hjúskap 22. október 1983 og gerðu þá með sér kaupmála. Sama dag undirritaði hinn látni tvær erfðaskrár. Önnur þeirra er sameiginleg og gagnkvæm erfðaskrá hans og sóknaraðila en hin er undirrituð af honum einum. Öll skjölin voru samin af Birgi Ólafssyni endurskoðanda og vottuð af Birgi og föður sóknaraðila J.
Á skiptafundi í búinu mótmæltu varnaraðilar því að framangreindar erfðaskrár væru taldar gildar við skipti á búinu. Með bréfi dags. 10. mars 2004 óskaði skiptastjóri eftir því að Héraðsdómur Reykjaness tæki ágreininginn til úrlausnar. Héraðsdómur Reykjaness kvað upp úrskurð í málinu þann 24. ágúst 2004 og var niðurstaðan sú að erfðaskrárnar væru haldnar formgöllum skv. 41. gr. laga nr. 8/1962 og ekki bæri að leggja þær til grundvallar við skipti á búinu.
Staðan er því sú að erfðaskrárnar eru formlega ógildar en kaupmálinn formlega gildur. Sóknaraðili gerir í máli þessu kröfu um að kaupmáli hennar og hins látna verði ógiltur á þeirri forsendu að forsenda fyrir gildi hans hafi verið sú að erfðaskrárnar væru einnig gildar. Varnaraðilar mótmæla þessum sjónarmiðum sóknaraðila og telja þau ekki fá staðist.
III.
Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að gerð og gildi erfðaskránna hafi verið ófrávíkjanleg forsenda þess séreignafyrirkomulags sem samið hafi verið um í hjúskapnum með gerð kaupmálans. Þar sem erfðaskrárnar verða ekki lagðar til grundvallar við skipti á dánarbúinu hljóti það að leiða til þess að forsendur kaupmálans séu brostnar og því verði ekki unnt að byggja á honum við skipti á búinu. Samningar svo sem kaupmálar séu alltaf gerðir á ákveðnum forsendum. Í málinu hafi erfðaskrárnar verið gerðar samhliða kaupmálanum. Gerð og gildi skjalanna hafi byggst á því að þau hafi öll verið gild. Gildi erfðaskránna hafi þannig verið grundvallarforsenda og jafnframt ákvörðunarástæða fyrir gerð kaupmálans. Undirritun sóknaraðila á kaupmálann hafi byggst á þeirri forsendu að erfðaskrárnar hafi verið gildar. Þegar sóknaraðili og hinn látni hafi gengið í hjónaband hafi þau ákveðið að í hjúskapnum skyldi ríkja nánast algert séreignafyrirkomulag. Eignir hins látna hafi verið mun meiri en sóknaraðila. Kæmi til skilnaðar skyldi kaupmálinn lagður til grundvallar við fjárskipti þeirra. Samhliða kaupmálanum hafi þau ákveðið að gera erfðaskrár þar sem hagur sóknaraðila hafi verið tryggður kæmi til andláts M. Það hafi verið forsenda hjá báðum samningsaðilum og vilji hins látna að skjölin hafi öll verið gild.
Sóknaraðili telur engan vafa á því að tilgangur hins látna með samningsgerðinni hafi verið að öll skjölin skyldu lögð til grundvallar. Hefði honum verið ljóst að einungis kaupmálinn yrði lagður til grundvallar hefði hann ekki gert hann. Kaupmálinn geti ekki haft nein réttaráhrif umfram það sem hafi verið vilji eða tilgangur hins látna þegar hann hafi gert skjalið. Sóknaraðili hafi ekki getað þó hún hafi lagt sig fram séð það fyrir að erfðaskránum yrði vikið til hliðar. Hún hafi óverðskuldað lent í erfiðri aðstöðu og eigi rétt á vernd. Hver sem er hafi getað lent í sömu aðstöðu nema því aðeins að viðkomandi geri aldrei samninga. Jafnframt þarf að leggja áherslu á það traust sem með sanngirni megi ætla að gerð skjalanna hafi vakið hjá sóknaraðila. Hvort sem tekið sé mið af vilja- eða traustskenningunni verði að telja að gildi allra skjalanna hafi verið forsenda samningsgerðarinnar af hálfu beggja aðila.
Hinn látni hafi rætt erfðaskrár sínar við náinn samstarfsfélaga sinn og vin Ó u.þ.b. ári áður en hann lést. Í því samtali hafi komið fram að hann hafi ekki verið í vafa um að erfðaskrárnar hafi verið gildar og að byggt yrði á þeim að honum látnum. Hann hafi sagt að hann teldi að erfðaskrárnar myndu tryggja að sóknaraðili myndi hafa nægileg fjárráð til þess að sjá til þess að synir þeirra tveir myndu hafa sambærilega möguleika til náms og starfa og börn hans frá fyrra hjónabandi. Vilji hans hafi verið ljós og engin vafi á því að hann hafi talið sig með gerð erfðaskránna hafa gert ráðstafanir til að tryggja að skipti eigna að honum látnum myndu fara fram í samræmi við þær. Að honum látnum hafi erfðaskrárnar fundist í peningaskáp hans sem staðfest hafi að hann hafi varðveitt skjölin á tryggan hátt. Hann hafi lagt áherslu á það að frumrit þeirra myndu ekki glatast og hafi það bent til þess að hann hafi viljað tryggja að hans hinsti vilji myndi koma til framkvæmda við andlát hans. Öll skjölin hafi verið gerð í trausti þess að skipti á dánarbúi hans myndu fara fram í samræmi við þau. Það séu verulegir hagsmunir í húfi fyrir sóknaraðila og ljóst að hún hefði ekki stofnað til kaupmálans ef hún hefði séð fyrir ógildingu erfðaskránna.
Af dómafordæmum megi ráða að ógilding sé heimiluð ef talið sé að loforðsgjafi hafi ekki gengist undir samninginn án þess að ganga út frá því sem vísu að loforð gagnaðila hafi einnig verið bindandi. Á forsendubrest hafi reynt í nokkrum dómum Hæstaréttar. Nefna megi m.a. Hrd. 1938;565, Hrd. 155;691, Hrd. 1972;175 og Hrd. 1996;466. Þá megi nefna NJA 1942;504. Í síðastnefnda dómnum hafi reynt á kaupmála milli hjónaefna þar sem samþykkt hafi verið fullkomin séreignaskipan. Einnig hafi verið ákveðið ef hjúskapnum lyki með andláti annars hjónanna skyldi hið langlífara erfa hitt. Eftir andlát mannsins hafi komið í ljós að kaupmálinn hafi ekki verið gildur sem erfðaskrá. Við svo búið og þar sem þetta hafi augljóslega verið forsenda af hálfu konunnar fyrir gerð kaupmálans hafi gerningurinn ekki heldur verið talinn binda konuna sem kaupmáli. Í Hrd. 1972;175 hafi sjálfskuldarábyrgðarmaður verið krafinn um greiðslu. Hann hafi undirritað ábyrgðarloforð án fyrirvara en sannað hafi verið í málinu að ætlunin hafi verið að minnst einn annar aðili myndi einnig veita ábyrgð. Af því hafi þó ekki orðið. Niðurstaða dómsins hafi verið að ábyrgðarloforð viðkomandi hafi verið gefið á þeirri forsendu að ábyrgðarmenn yrðu fleiri. Viðkomandi hafi aðeins verið talinn bera ábyrgð á helmingi skuldarinnar.
Líta verði til þess hvað telja megi að góður og gegn maður hafi talið eða mátt ætla við sömu aðstæður. Þegar skjölin hafi verið gerð hafi báðir aðilar treyst á gildi erfðaskránna og ljóst hafi verið að sú forsenda hafi verið ákvörðunarástæða fyrir gerð kaupmálans.
Ekki sé unnt að fallast á að erfingjar M geti byggt rétt á samningi sem sé ósanngjarn gagnvart sóknaraðila. Slík niðurstaða væri einnig ósanngjörn gagnvart hinum látna. Knýjandi ástæða sé til að sóknaraðili verði leyst undan löggerningnum. Ljóst sé að niðurstaða í þá átt geti ekki verið ósanngjörn gagnvart gagnaðilum en þau hafi ekki verið aðilar samningsins. Koma verði í veg fyrir að unnt verði að byggja rétt á samningsákvæðum sem telja verði ósanngjörn eða óhæfilega íþyngjandi.
Að lokum vísar sóknaraðili til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Ákvæðið gefi heimild til víðtækra ógildingarheimilda. Samkvæmt ákvæðinu megi víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta eða breyta ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Ákvæðið veiti ekki aðeins heimild til að víkja samningi til hliðar heldur líka til að breyta honum. Samkvæmt ákvæðinu þurfi aðeins að sýna fram á að samningur sé efnislega ósanngjarn til að unnt sé að víkja honum til hliðar. Reglan feli í sér almenna heimild til þess að ógilda samning af sanngirnisástæðum og taki til allra samningstegunda á sviði fjármunaréttar. Sóknaraðili telur engan vafa á því að það væri ósanngjarnt ef kaupmáli hjónanna yrði lagður til grundvallar skiptum á dánarbúi M nú þegar ljóst sé að erfðaskrár hans séu ógildar.
Um lagarök vísar sóknaraðili til erfðalaga nr. 8/1962, laga um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt en varnaraðili er ekki virðisaukaskattskyld og ber því nauðsyn til þess að fá sóknaraðila dæmdan til greiðslu skattsins.
IV.
Varnaraðilar byggja á því að krafa sóknaraðila sé of seint fram komin. Á skiptafundi 3. mars 2004 hafi verið fjallað um gildi kaupmálans og erfðaskráa hins látna. Þá hafi varnaraðilar þessa máls gert ágreining um gildi erfðaskránna og ákveðið hafi verið að óska eftir úrlausn héraðsdóms um hann. Á skiptafundinum hafi enginn ágreiningur verið um gildi kaupmálans. Í fundargerð skiptafundarins kemur m.a. fram: ,,Með kaupmála hins látna og K dags. 22. október 1983 voru meginhluti eigna þeirra gerðar að séreignum. Ekki er ágreiningur um formlegt gildi þessa kaupmála en hann ber með sér að hafa verið móttekinn til skráningar í kaupmálabók þann 1. nóvember 1983 og móttekinn og innfærður í þinglýsingabók þann 7. nóvember 1983.
Á skiptafundi 7. maí 2004 hafi krafa sóknaraðila um að kaupmálinn yrði ekki lagður til grundvallar við skiptin komið fram. Varnaraðilar telja að kröfu um svo mikilvægt atriði sem ógilding kaupmála sé beri að hafa uppi við skipti jafnskjótt og tilefni sé til og þá í síðasta lagi á skiptafundi þar sem fjallað sé um séreignarrétt samkvæmt kaupmálanum. Um þetta séu ekki bein ákvæði í lögum nr. 20/1991 en ljóst sé þó að meginregla þeirra laga sé sú að beri menn ekki fram á skiptafundum mótmæli gegn ákvörðunum sem þar séu teknar missa menn tækifæri til að bera þau fram síðar. Í þessu sambandi sé vísað til 71. gr. laga nr. 20/1991.
Varnaraðilar mótmæla þeirri röksemdafærslu að gildi erfðaskránna hafi verið ófrávíkjanleg forsenda þess séreignafyrirkomulags sem samið hafi verið um í hjúskapnum eins og það sé orðað í málatilbúnaði sóknaraðila. Engin gögn styðja þessa staðhæfingu. Hún sé hinsvegar í hróplegu ósamræmi við ýmis mikilvæg gögn. Í framburði sóknaraðila fyrir dóminum í ágreiningsmáli út af erfðaskrám hafi komið fram að gerð kaupmálans hafi verið afráðin löngu áður en sóknaraðili hafi vitað að til hafi staðið að gera einhverjar erfðaskrár. Þá hafi komið fram í 16. gr. kaupmálans að fjárhagur þeirra skuli að öllu leyti vera algjörlega skiptur. Ekkert sé minnst á erfðaskrár eða að slík gögn eða önnur atvik geti breytt neinu um þetta. Þá hafi hinn látni talið gildi kaupmálans skipta miklu máli. Einnig sé til þess að líta að önnur þeirra erfðaskráa sem sóknaraðili geri hér að umtalsefni hafi verið erfðaskrá M eins en ekki sameiginleg erfðaskrá. Sá erfðagerningur hafi verið einhliða og því hafi M getað afturkallað hann ef honum hafi sýnst svo. Sé öldungis fráleitt að halda því fram að gildi slíkrar erfðaskrár geti hafa verið forsenda fyrir gildi kaupmála sem hvorugt hjónanna hafi getað fellt úr gildi nema að því marki sem um sé að ræða eftirgjöf á eigin séreignarrétti. Af öllu þessu megi vera ljóst að gildi erfðaskránna hafi aldrei verið forsenda séreignafyrirkomulags þeirra hjóna.
Varnaraðilar mótmæla því einnig harðlega að hægt sé að byggja niðurstöðu um gildi kaupmálans á því sem sóknaraðili segir hafa verið vilja hins látna og tilgang hans með kaupmálagerðinni. Það sé ekki gildisskilyrði kaupmála að yfirlýstur vilji aðila með kaupmálagerðinni sé vottaður á sama hátt og erfðaskrá. Vilji viðkomandi aðila verði þess vegna að birtast í skjalinu sjálfu. Þá telja varnaraðilar ógildingu kaupmálans ekki geta komið til greina þegar svo standi á eins og í þessu tilviki að sóknaraðili hafi þegar ráðstafað öllu sem lýst hafi verið séreign hennar í kaupmálanum.
Varnaraðilar telja yfirlýsingar Ó um samtal hans við hinn látna ekki geta haft neina þýðingu við úrlausn þessa máls. Hvorki hinn látni eða sóknaraðili hafi nokkurn tíma falið Ó nokkurt hlutverk í sambandi við fjármál sín. Hætt sé við að lítið yrði eftir af réttaröryggi í sambandi við mál af þessu tagi ef hægt væri að fella skráðan og þinglýstan kaupmála úr gildi með vitnaframburðum af því tagi sem birtist í bréfinu.
Varnaraðilar mótmæla því að þeir dómar sem tilfærðir séu í greinargerð sóknaraðila hafi leiðsagnargildi við úrlausn þessa máls. Atvik í öllum þessum málum hafi verið með öðrum hætti en í því tilviki sem hér sé til úrlausnar. Sérstaklega skal áréttað að tilvikið í NJA 1942;504 hafi alls ekki verið sambærilegt þessu þar sem ákvæðið um arfleiðslu hafi í því tilviki verið fellt inn í kaupmála.
Sóknaraðili vísar um ógildingarkröfu sína einnig til 36. gr. laga nr. 7/1936 sem hún telur veita heimild til ,,víðtækra ógildingarheimilda”. Telur sóknaraðili nægilegt að sýna fram á að samningur sé ,,efnislega ósanngjarn” og megi þá víkja honum til hliðar. Varnaraðilar telja þetta fráleita útleggingu á heimildinni í 36. gr. laga nr. 7/1936. Meginreglan sé vitaskuld sú að samninga beri að efna eftir innihaldi sínu. Heimild þessa lagaákvæðis verði aðeins beitt í sérstökum undantekningartilvikum þegar sú staða sé uppi að ósanngjarnt yrði talið eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samning fyrir sig vegna stöðu aðila við samningsgerðina eða atvika sem síðar komu til. Ekkert slíkt eigi við í þessu tilviki. Ekkert í kaupmálanum leiði til ósanngjarnar niðurstöðu. Því sé harðlega mótmælt að lagaskilyrði séu til að beita 36. gr. laga nr. 7/1936 til að hnekkja gildi kaupmálans.
Um málskostnaðarkröfu sína vísa varnaraðilar til 130. gr. laga nr. 91/1991.
V.
K [...], gaf skýrslu í málinu. Fyrir brúðkaupið hafi verið rætt um að gera kaupmála. Á fimmtudegi fyrir brúðkaupið sem fyrirhugað hafi verið á laugardegi hafi þau hist til að skoða kaupmálann. Þá hafi þau einnig skoðað erfðaskrár sem lagðar hafi verið fram. Þá hafi hún aldrei heyrt minnst á erfðaskrárnar. Umfang kaupmálans hafi komið henni á óvart og hún hafi orðið fyrir áfalli. Ef kaupmálinn einn hefði verið lagður fyrir hana hefði hún neitað að skrifa undir hann en henni hafi litist aðeins betur á öll skjölin samhangandi. Hún hafi samt sem áður óskað eftir að fresta undirskrift þar til síðar. Gengið hafi verið frá erfðaskránum og kaupmálanum fyrir brúðkaupið á laugardeginum. Í kaupmálanum hafi íbúð í Hamraborg í Kópavogi verið gerð að séreign hennar. Íbúðin hafi verið seld og hafi hinn látni gengið frá sölunni og lagt kaupverðið inn á reikning hennar í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Til reksturs heimilisins hafi hinn látni látið hana hafa peninga en stundum hafi verið misbrestur á því. Um tíma hafi hún búið í Kvennaathvarfinu.
Birgir Ólafsson, [...], gaf vitnaskýrslu í málinu. Hinn látni hafi sagt honum frá því að hann hafi ætlað að gifta sig og hafi hann viljað láta gera erfðaskrár og kaupmála. Hinn látni hafi komið með drög að skjölunum til hans og þau hafi verið vélrituð og frá þeim gengið á skrifstofu hans. Hann muni eftir fundinum á fimmtudeginum fyrir brúðkaupið. Þá hafi kaupmálinn legið fyrir en hann sé ekki eins viss um erfðaskrárnar. Það hafi hinsvegar legið fyrir þá að erfðaskrárnar skyldu gerðar og frá þeim gengið samhliða kaupmálanum. Hann hafi litið þannig á að skjölin hafi verið samhangandi og bæði hinn látni og sóknaraðili hafi einnig litið þannig á.
R [...], gaf vitnaskýrslu í málinu. Hann hafi þekkt M lengi og starfað fyrir hann í tólf ár frá árinu 1981. Um það leyti hafi þeir báðir nýverið gengið í gegnum skilnað. Hinn látni hafi sagt honum að hann skyldi láta útbúa bæði kaupmála og erfðaskrá ef hann skyldi ganga í hjúskap á ný. Eftir að hinn látni hafi gengið í hjúskap með sóknaraðila hafi hann kynnt fyrir honum bæði kaupmála og erfðaskrá sem þau hafi þá gert og beðið hann um að fara til sýslumanns til að láta þinglýsa kaupmálanum. Hinn látni hafi talið skjölin vera samhangandi. Fjárhagur hins látna og sóknaraðila hafi verið aðskilinn og hinn látni hafi ekki látið sóknaraðila hafa mikið fé til reksturs heimilis. Íbúðin í Hamraborg í Kópavogi hafi verið seld og hafi hinn látni gengið frá sölunni.
VI.
Ágreiningsefni það sem hér er til úrlausnar snýst um það hvort kaupmáli dags. 22. október 1983 skuli lagður til grundvallar skiptum á dánarbúi M en hann lést 1. júlí 2003. Áður hefur verið dæmt um að tvær erfðaskrár dags. 22. október 1983 skuli ekki lagðar til grundvallar skiptum á dánarbúi M.
Ekki er fallist á að krafa sóknaraðila sé of seint fram komin, en meðan erfðaskrárnar voru taldar gildar, hafði hann ekki ástæðu til að véfengja eða krefjast ógildingar á kaupmálanum, sú staða kom ekki upp fyrr en eftir uppkvaðningu úrskurðar í málinu nr. Q-1/2004, þar sem erfðaskrárnar voru felldar úr gildi, sem gaf tilefni til þessa máls.
Af því sem rakið hefur verið úr gögnum málsins hér að framan er ljóst, að það sem fyrst og fremst ræður úrslitum um gerð kaupmálans er reynsla hins látna í sambandi við skilnað hans og fyrri eiginkonu hans og hin mikla röskun á fjárhagslegri stöðu hans, sem skipti á búi þeirra hafði í för með sér, en þau munu ekki hafa verið með séreignarfyrirkomulag. Þegar virt er að hinn látni M, var sterkefnaður, er sóknaraðili var eignalítil og hann átti fyrir börn verður ekki talið óeðlilegt né óvanalegt við þessar aðstæður, að hinn látni hafi gert kaupmála þar sem allar eignir sem hann átti fyrir er hann gekk í hjúskap við sóknaraðila skyldu vera séreign hans, en eignirnar sem hún hafði með sér skyldu vera séreign hennar. Í kaupmálanum er tekið fram, að fjárhagur hjónanna skuli að öllu leyti vera algjörlega skiptur.
Ekki er í kaupmálanum vísað til tveggja erfðaskrá, sem hinn látni undirritaði sama dag og kaupmálann, þ.e. 22. október 1983.
Í málinu hefur ekki verið sýnt fram á að hinn látni hafi bundið gildistöku kaupmálans á neinn hátt við erfðaskána, sem hann gerði sama dag, þannig að kaupmálinn hefði ekki verið gerður nema jafnframt hefði verið gengið frá framangreindum erfðaskrám. Fram er komið að sóknaraðili vissi ekki um tilurð erfðaskránna, er hún kom á skrifstofu Birgis Ólafssonar, til að ganga frá kaupmálanum og kom hann henni á óvart. Sóknaraðili hefur haldið því fram, að það hafi verið skilyrði fyrir því að hún undirritaði kaupmálann að um leið yrðu erfðaskrárnar undirritaðar, þess efnis sem þær voru. Hvorki Birgir Ólafsson, sem gerði og vottaði þessa gerninga né J, sem og vottaði þá hafa getað borið um að þetta hafi verið skilyrði fyrir undirrituninni né að gildi kaupmálans væri þannig tengd erfðaskránni. Erfðaskráin sem hinn látni ritaði undir er gerð eftir undirritun kaupmálans og miðast við að séreignarfyrirkomulag hafi komist á. Honum er augljóslega ætlað að styrkja stöðu sóknaraðila við lát eiginmanns m/v að séreignarfyrirkomulag hafi komist á.
Skilyrði hjúskaparstofnunar hins látna við sóknaraðila var því að séreignarfyrirkomulag væri á milli þeirra og að því uppfylltu gerði hann erfðaskrá, en það þykir bresta sönnun fyrir því, að þær hafi skipt máli um það hvort kaupmáli var gerður eður ei, heldur er þar eingöngu miðað við síðari tíma atvik, fráfall M , sem ekki hafði áhrif á gerð kaupmálans.
Þá kemur til álita hvort kaupmálanum verði vikið til hliðar eða breytt á grundvelli 36. gr. samningalaganna.Kaupmálinn byggir á eignastöðu sóknaraðila og hins látna við hjúskaparstofnun og miðað við hana og verður ekki séð að hallað sé sérstaklega á sóknaraðila og getur hann því ekki talist sérstaklega ósanngjarn og verður ekki vikið til hliðar á grundvelli ákvæða í erfðaskránum, sem eru sjálfstæðir gerningar, háð sérstökum formskilyrðum, þó að þeim hafi ekki verið fylgt.
Ekki þykja því vera skilyrði til að taka kröfu sóknaraðila um ógildingu kaupmálans til greina.
Eftir þessum úrslitum bera að úrskurða sóknaraðila til að greiða varnaraðila 148.500 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Úrskurð þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari.
ÚRSKURÐARORÐ
Kröfu sóknaraðila um að kaupmála milli hennar og M verði metinn ógildur við skipti á dánarbúi M, er hrundið.
Sóknaraðili greiði varnaraðilum málsins 148.500 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.