Hæstiréttur íslands

Mál nr. 81/2006


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Óvenjulegur greiðslueyrir
  • Endurgreiðslukrafa


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. október 2006.

Nr. 81/2006.

Steinavík ehf.                                      

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)                   

gegn

þrotabúi Ljósavíkur hf.

(Ása Ólafsdóttir hrl.)

 

Gjaldþrotaskipti. Riftun. Óvenjulegur greiðslueyrir. Endurgreiðslukrafa.

Talið var að skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 væru fyrir hendi til að rift yrði tilteknum greiðslum frá L til S samkvæmt samningi. Þótti í ljós leitt að um greiðslu á skuld hefði verið að ræða og hún teldist hafa verið reidd af hendi með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi ákvæðisins. Þá þótti ósannað að L hefði verið gjaldfært þrátt fyrir greiðsluna. Vegna kröfu L um endurgreiðslu var talið að samkvæmt 1. mgr. 142. gr. sömu laga þyrfti að draga frá endurgreiðslukröfu verðmæti þeirra hagsbóta sem L hafi notið úr hendi S eftir gerð fyrrnefnds samnings, með áframhaldandi leigu bifreiðar og fasteignar í eigu S. Var endurgreiðslukrafan lækkuð um fjárhæð, sem nam nefndum leigugreiðslum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. febrúar 2006. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að stefnda verði dæmd lægri fjárhæð en dæmd var í héraði og málskostnaður felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Með hinum áfrýjaða dómi var fallist á kröfur stefnda um riftun á greiðslum Ljósavíkur hf. í sjö liðum á árinu 2003 inn á skuld við áfrýjanda, sem einkum stafaði af leiguafnotum á húsnæði í hans eigu. Eru þessir liðir tölusettir 1 til 7 þar sem lýst er kröfugerð stefnda í héraðsdómi. Riftun greiðslnanna var reist á ákvæðum 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Var áfrýjandi jafnframt, með vísan til 142. gr. laganna, dæmdur til að greiða stefnda þær fjárhæðir sem greiðslur þessar voru taldar nema þegar þær voru færðar til lækkunar á skuldinni við áfrýjanda í bókum Ljósavíkur hf.

Við skýringu á 134. gr. laga nr. 21/1991 verður að miða greiðsludag við þann tíma er greiðsla fer frá greiðandanum og skiptir þá ekki máli hvenær um það var samið milli aðila að greiða skyldi. Svo sem rakið er í héraðsdómi höfðu áfrýjandi og Ljósavík hf. gert samkomulag 6. janúar 2003 um greiðslur samkvæmt liðum 1 til 5 í kröfum stefnda. Voru viðskiptakröfurnar samkvæmt liðum 3 og 4 færðar til lækkunar á skuldinni við áfrýjanda í bókhaldi Ljósavíkur hf. þá þegar sem og viðskiptakröfur samkvæmt dómkröfuliðum 6 og 7. Áfrýjandi hefur hvorki mótmælt því að í þessum tilvikum sem varða viðskiptakröfurnar hafi verið um að ræða greiðslur með óvenjulegum greiðslueyri né að þær hafi átt sér stað milli nákominna í skilningi 2. mgr. 134. gr. laganna. Hann byggir sýknukröfu sína af þessum liðum annars vegar á því, að hann hafi áfram eftir samningsgerðina í janúar 2003 leigt Ljósavík hf. afnot af fasteign og tveimur bifreiðum og hafi  leigugjöld ársins vegna þessara afnota samtals numið 4.460.000 krónum. Hafi hann ekkert fengið greitt upp í þessar leigukröfur. Gerð samningsins í janúar 2003 hafi hins vegar valdið því að hann neytti ekki vanefndaheimilda vegna þeirra vanskila. Verði að líta til þessara aðstæðna við mat á því hvort greiðslum sem þá var samið um verði rift. Þetta atriði skipti einnig máli við mat á endurgreiðslukröfu stefnda verði fallist á að rifta greiðslunum. Hins vegar byggir hann á að nægilega sé í ljós leitt, að Ljósavík hf. hafi verið gjaldfær í skilningi ákvæðisins í janúar 2003, þrátt fyrir þessar greiðslur. Sé því ekki unnt að rifta þeim.

II.

Í 134. gr. laga nr. 21/1991 er fjallað um skilyrði þess að rifta megi greiðslu skuldar þrotamanns á tilgreindum tímafrestum fyrir frestdag. Í samkomulaginu 6. janúar 2003 er berum orðum tekið fram að það miði að lækkun skuldar Ljósavíkur hf. við áfrýjanda. Ákvæðið heimilar ekki að við mat á því hvort skilyrði séu til að beita riftunarheimild þess verði litið til sjónarmiða af því tagi sem áfrýjandi nefnir og varða áframhaldandi leiguviðskipti aðila eftir að samningurinn var gerður. Er sjónarmiðum hans hér að lútandi því hafnað.

Sönnunarbyrði um gjaldfærni þrotamanns samkvæmt 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 hvílir á móttakanda greiðslu. Áfrýjandi vísar til gagna málsins sem hann kveður sanna þetta. Telur hann að í ársbyrjun 2003 hafi verðmæti aflaheimilda í eigu Ljósavíkur hf. verið mun meira en þegar líða tók á árið. Skipti þar verðhrun á aflaheimildum í rækju á árinu 2003 mestu máli sem og lækkun á gengi erlendra gjaldmiðla, einkum sterlingspunds, á sama tímabili. Við sölu aflaheimildanna 3. nóvember 2003 hafi allt að einu fengist 427.000.000 króna fyrir þær. Þetta sé hærri fjárhæð en neikvætt eigið fé félagsins í árslok 2002 samkvæmt ársreikningi þess, en aflaheimildirnar hafi ekki verið eignfærðar í þeim reikningi. Í forsendum héraðsdóms er lýst öðrum röksemdum sem áfrýjandi hefur fært fram fyrir þessu.

Af hálfu stefnda hefur því verið mótmælt að áfrýjandi hafi sannað með fullnægjandi hætti að Ljósavík hf. hafi verið gjaldfær í skilningi 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 í ársbyrjun 2003. Hann bendir meðal annars á að ýmsar bókfærðar eignir í ársreikningi 2002 hafi þar verið metnar á mun hærra verði en fengist hafi fyrir þær við sölu á síðari hluta árs 2003.

Áfrýjandi hefur ekki, svo sem honum var unnt, látið dómkveðja matsmenn til að leggja mat á verðmæti aflaheimilda og skipa Ljósavíkur hf. í janúar 2003 og hvort félagið hafi þá átt eignir umfram skuldir, eins og hann heldur fram. Er ekki unnt að fallast á það með honum að honum hafi með framangreindum hætti tekist lögfull sönnun um staðhæfingu sína um þetta. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um riftun á afhendingu viðskiptakrafnanna í janúar 2003, sem greinir í liðum 3, 4, 6 og 7 í dómkröfum stefnda fyrir héraðsdómi.

Áfrýjandi heldur því fram að ekki sé unnt með vísan til 134. gr. laga nr. 21/1991 að rifta greiðslum samkvæmt 1. og 2. lið í kröfugerð stefnda þar sem þar hafi ekki verið um óvenjulegan greiðslueyri að ræða. Hann hafi einfaldlega fengið greiðslur í peningum beint frá Ljósavík hf. eftir að eignirnar sem hér um ræðir, aflaheimildir og bifreið, hafi verið seldar þriðja manni, því andvirði þeirra hafi verið ráðstafað til sín en ekki eignunum sjálfum. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur verið talið að um sé að ræða óvenjulegan greiðslueyri, þegar svo stendur á að andvirði tiltekinna eigna þrotamanns hefur samkvæmt samkomulagi við kröfuhafa verið varið til greiðslu á skuld við hann, jafnvel þó að viðkomandi eign hafi verið seld þriðja manni. Þannig stendur á hér og er því ekki unnt að fallast á málflutning áfrýjanda um þetta. Verður hinn áfrýjaði dómur samkvæmt þessu staðfestur að því er varðar riftun á þessum greiðslum.

Loks telur áfrýjandi að ekki sé unnt að rifta framsali Ljósavíkur hf. til sín á viðskiptakröfu á hendur Unnþóri B. Halldórssyni miðað við 30. júní 2003, sbr. 5. lið í dómkröfum stefnda, þar sem Unnþór hafi átt kröfur á hendur Ljósavík hf. vegna vinnuframlags á árinu 2003 sem nemi hærri fjárhæð. Þetta er sjónarmið sem sýnist varða kröfu stefnda um endurgreiðslu úr hendi áfrýjanda vegna þessa framsals og verður um það fjallað þegar úr þeirri kröfu verður leyst. Ljóst er að hér er um að ræða greiðslu með óvenjulegum greiðslueyri og verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur að því er riftun hennar varðar.

III.

Fjárkrafa stefnda í tilefni af riftun framangreindra greiðslna byggist á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Svo sem fyrr segir er hún af þeirri fjárhæð sem greiðslur þessar voru samanlagt taldar nema þegar þær voru færðar til lækkunar á skuld Ljósavíkur hf. við áfrýjanda í bókum félagsins. Í lagaákvæði þessu segir að fari riftun fram með stoð í 131. - 138. gr. laganna skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun eða fullnustugerð greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en nemur tjóni þrotabúsins. Áfrýjandi heldur því fram að viðskiptakröfurnar sem hann fékk afhentar hafi hvorki nýst honum, né hafi afsal þeirra valdið stefnda tjóni. Krafan á hendur Sunnlenskri fjölmiðlun ehf. hafi verið fyrnd, þegar áfrýjandi fékk hana en sá möguleiki hafi beinlínis verið nefndur í samningnum 6. janúar 2003. Telja verður að það standi áfrýjanda nær að sanna að þessar viðskiptakröfur hafi ekki nýst honum með þeim fjárhæðum sem þær kváðu á um og færðar voru í bókhald Ljósavíkur hf. og að stefndi hefði ekki getað nýtt þær með því að innheimta þær. Hann hefur ekki lagt fram nein gögn þessu til sönnunar. Raunar hefði honum verið í lófa lagið að bjóða stefnda kröfurnar til baka strax og honum varð ljóst að stefndi vildi rifta afhendingu þeirra. Það gerði hann ekki en kaus þess í stað að verjast kröfunni á þann hátt sem nefnt var. Samkvæmt þessu verður fallist á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um skyldu áfrýjanda til endurgreiðslu vegna framsalsins á viðskiptakröfunum.

Áfrýjandi heldur því fram að stefndi hefði aldrei getað innheimt viðskiptakröfuna á hendur Unnþóri B. Halldórssyni, þar sem Unnþór hafi átt að minnsta kosti jafnháa kröfu á hendur Ljósavík hf. vegna vinnu sinnar í þágu félagsins á árinu 2003. Hefði hann getað skuldajafnað henni á móti viðskiptakröfunni. Stefndi hafi því ekki orðið fyrir tjóni vegna framsals kröfunnar. Stefndi hefur mótmælt þessum sjónarmiðum og talið ósannað að Unnþór hafi átt gagnkröfu á hendur Ljósavík hf. Áfrýjandi hefur ekki lagt fram gögn til sönnunar um þessa ætluðu gagnkröfu Unnþórs. Er þegar af þeirri ástæðu ekki unnt að taka sjónarmið hans um þetta til greina. Verður því einnig fallist á niðurstöðu héraðsdóms að því er varðar skyldu áfrýjanda til endurgreiðslu vegna afhendingar á þessari viðskiptakröfu.

Ljóst er að áfrýjandi tók við peningagreiðslum við sölu á aflaheimildum og bifreið samkvæmt kröfuliðum 1 og 2 í riftunarkröfu stefnda. Með því að fallist er á kröfu um riftun þessara greiðslna verður einnig fallist á niðurstöðu héraðsdóms um skyldu áfrýjanda til endurgreiðslu þeirra fjárhæða sem hann tók við.

Áfrýjandi hefur loks teflt því fram gegn fjárkröfu stefnda, að Ljósavík hf. hafi áfram á árinu 2003 haft á leigu fasteignir og bifreiðar í sinni eigu án þess að inna leigugreiðslur af hendi sem féllu til á því ári, samtals 4.460.000 krónur. Hafi hann vegna greiðslnanna sem um var samið í janúar 2003 ekki neytt vanefndaheimilda sinna, svo sem að rifta leiguafnotum Ljósavíkur hf. af þessum eignum. Afnot þeirra hafi verið Ljósavík hf. nauðsynleg til að geta haldið áfram rekstri. Ósanngjarnt sé að taka ekki tillit til þessa þegar afstaða sé tekin til endurgreiðslukröfu stefnda.

Svo sem fyrr var greint er tekið fram í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, að sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun þrotamanns verði ekki dæmdur til að greiða þrotabúi hærri fjárhæð en nemur tjóni þess. Fallast má á með áfrýjanda að við mat á tjóni stefnda vegna hinna riftanlegu greiðslna beri að draga frá verðmæti greiðslnanna  þær hagsbætur sem Ljósavík hf. naut úr hendi áfrýjanda á árinu 2003, eftir að samningurinn var gerður í byrjun janúar það ár.

Samkvæmt framansögðu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda þá fjárhæð sem dæmd var í héraðsdómi 8.136.764 krónur að frádregnum 4.460.000 krónum eða samtals 3.676.764 krónur að viðbættum dráttarvöxtum en upphafstími þeirra hefur ekki sætt sérstökum andmælum af hálfu áfrýjanda.

IV.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður héraðsdómur staðfestur um riftun greiðslna Ljósavíkur hf. til áfrýjanda. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda 3.676.764 krónur með dráttarvöxtum, eins og í dómsorði greinir.

Með því að verulegur vafi þykir hafa verið um ýmsa þætti málsins verður með vísan til 3. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála málskostnaður felldur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um riftun á greiðslum Ljósavíkur hf. við áfrýjanda, Steinavík ehf.

Áfrýjandi greiði stefnda, þrotabúi Ljósavíkur hf., 3.676.764 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. desember 2004 til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 24. nóvember 2005.

 

Mál þetta, sem dómtekið var 28. október sl., var höfðað 18. nóvember 2004. Stefnandi er þrotabú Ljósavíkur hf., [kt.], en stefndi er Steinavík hf. [kt.].

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

Að rift verði með dómi eftirtöldum greiðslum á viðskiptaskuld Ljósavíkur hf. við stefnda:

   1)         Greiðslu á skuld Ljósavíkur hf. við stefnda með framsali aflamarks
                Ljósavíkur hf. fiskveiðiárið 2003/2004, samtals að fjárhæð
                4.987.610 krónur.

2)              Greiðslu á skuld Ljósavíkur hf. við stefnda með framsali á andvirði  af sölu bifreiðarinnar BY-134, samtals að fjárhæð 1.130.000 krónur.

3)           Greiðslu á skuld Ljósavíkur hf. við stefnda með framsali á skuld Sunnlenskrar fjölmiðlunar ehf. við Ljósavík hf. að fjárhæð
619.541 krónur.

4)           Greiðslu á skuld Ljósavíkur hf. við stefnda með framsali á skuld Bjarnavíkur ehf. við Ljósavík hf. að fjárhæð 84.980 krónur.

5)          Greiðslu á skuld Ljósavíkur hf. við stefnda með framsali á kröfu Ljósavíkur hf. á hendur Unnþóri B. Halldórssyni, samtals að fjárhæð 796.535 krónur.

6)           Greiðslu á skuld Ljósavíkur hf. við stefnda með framsali á skuld Auðbjargar ehf. við Ljósavík hf. að fjárhæð 125.000 krónur.

7)           Greiðslu á skuld Ljósavíkur hf. við stefnda með framsali á skuld Manusar ehf. við Ljósavík hf. að fjárhæð 393.098 krónur.

Að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda 8.136.764 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. desember 2004 til greiðsludags.  Einnig er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti til greiðsludags, fyrst þann 18. desember 2005.

Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins, ef til hennar kemur.

Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins. Til vara er þess krafist að stefnukröfurnar verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Málsatvik.

            Málavextir eru þeir að með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands uppkveðnum 3. mars 2004 var bú Ljósavíkur hf. tekið til gjaldþrotaskipta. Var Jóhann H. Níelsson hrl. skipaður skiptastjóri búsins. Frestdagur við skiptin er 11. desember 2003, en þann dag barst héraðsdómi krafa um gjaldþrotaskipti.

            Félagið Ljósavík hf. var stofnað árið 1986 og yfirtók það alla starfsemi Ljósavíkur sf. í eigu þeirra Unnþórs B. Halldórssonar og Guðmundar Baldurssonar. Mun starfsemi félagsins aðallega hafa snúist um rækjuveiðar og vinnslu og hin síðari ár gerði það út tvo rækjutogara, Ask og Gissur. Auk þess átti félagið hlut í færeyska útgerðarfélaginu p/f Berg sem gerði út rækjutogarann Borgin, en það skip lagði upp afla sinn hjá Ljósavík hf.

Ljósavík hf. leigði frá 1. janúar 2001 tvær fasteignir í Þorlákshöfn undir skrifstofur af stefnda, Steinavík hf., en það félag er að mestu í eigu þeirra Unnþórs og Guðmundar sem jafnframt áttu um 60% hlutafjár í Ljósavík hf. Nam húsaleigan á mánuði 250.000 krónum allt þar til í september 2003 þegar leigu annarrar eignarinnar var hætt og varð leigan þá 150.000 krónur á mánuði.

Í upphafi ársins 2002 sameinuðust Ljósavík hf. og Rækjuvinnslan Pólar hf. undir nafni Ljósavíkur hf. Við skýrslutöku skiptastjóra af fyrrverandi fyrirsvarsmönnum Ljósavíkur hf. kom fram að tap af rekstri félagsins starfsárið 2001 hafi numið á fjórða hundrað milljóna króna en á árinu 2002 hafi hins vegar orðið um 68 milljóna króna hagnaður af rekstri hins sameinaða félags. Töluverður viðsnúningur hafi síðan orðið á rekstri félagsins á árinu 2003 og afkoma þess þá mjög farið versnandi vegna verðfalls á rækju en félagið hafi átt 6% af heildarveiðiheimildum á rækju. Hafi þetta smám saman leitt til þess að félagið gat ekki greitt af lánum sínum. Hafi á árinu orðið ljóst að rekstur félagsins væri kominn í þrot og hafi rekstri þess verið hætt á síðari hluta ársins 2003. Síðasta löndun á vegum félagsins hafi þannig farið fram í október 2003. Að svo komnu hafi verið ákveðið að segja upp öllu starfsfólki félagsins og hafi starfsfólki félagsins á Siglufirði verið sagt upp frá 1. desember 2003 en starfsfólki þess í Þorlákshöfn hafði verið sagt upp nokkru fyrr. Þá hafi helstu eignir félagsins verið seldar, m.a. skipin Askur og Gissur, auk eignarhluta félagsins í færeyska félaginu p/f  Berg og annarra eigna félagsins.

Við nánari könnun skiptastjóra á málefnum þrotabúsins kom í ljós að í ársbyrjun 2003 var húsaleiguskuld Ljósavíkur hf. við stefnda 14.737.223 krónur og að félagið hafði af því tilefni gert sérstakt samkomulag við stefnda um uppgjör og greiðslu skuldarinnar. Samkvæmt samkomulaginu var ákveðið að lækka skuld Ljósavíkur hf. við stefnda með eftirfarandi hætti:

  1. Í september 2003 átti Ljósavík hf. að greiða 4,5 til 5 milljónir króna í formi framsals á aflamarki fiskveiðiársins 2003/2004 til þess aðila sem stefndi tilnefndi á þeim tíma.
  2. Ljósavík hf. átti að framselja til stefnda andvirði af sölu bifreiðarinnar BY-134 í gegnum bifreiðaumboðið Ingvar Helgason hf., alls 1.130.000 krónur, en greiðslu þessari átti að ráðstafa upp í kaup á bifreið sem stefndi hafði fest kaup á hjá sama bifreiðaumboði.
  3. Ljósavík hf. átti að greiða stefnda 3.770.000 krónur sem innborgun á viðskiptaskuld sína eigi síðar en 7. febrúar 2003.
  4. Ljósavík hf. átti að framselja stefnda viðskiptakröfu á hendur Sunnlenskri fjölmiðlun ehf. alls 619.541 krónur skv. stöðu 31.12. 2002. Samkvæmt samkomulaginu var báðum aðilum það ljóst að krafa þessi væri frá árinu 1998 og því hugsanlega fyrnd.
  5. Skuld Bjarnavíkur ehf. við Ljósavík hf. alls að fjárhæð 84.980 krónur var framseld stefnda.
  6. Nettókrafa Ljósavíkur hf. á hendur Guðmundi Baldurssyni og Unnþóri B. Halldórssyni var framseld stefnda inn á viðskiptaskuldina samkvæmt þeirri stöðu sem hún yrði í þann 30. júní 2003.

  Í stefnu krafðist stefnandi riftunar á þeim greiðslum sem stefndi fékk samkvæmt liðum 1, 2, 4, 5 og 6 í framangreindu samkomulagi, auk þess sem hann krafðist riftunar á greiðslu Ljósavíkur hf. á skuld við stefnda samkvæmt framsali á skuld Auðbjargar ehf. við Ljósavík hf. að fjárhæð 125.000 krónur og með framsali á skuld Manusar ehf. við Ljósavík hf. að fjárhæð 393.098 krónur. Við upphaf aðalmeðferðar málsins féll stefnandi síðan frá þeirri kröfu er laut að framsali kröfunnar á hendur Guðmundi Baldurssyni.

 Við skoðun bókhalds hins gjaldþrota félags kom einnig í ljós að til viðbótar við það sem fram kom í samkomulaginu hefðu jafnframt verið framseldar til stefnda tvær viðskiptakröfur, á hendur Auðbjörgu hf. og Manusi ehf., til greiðslu upp í fyrrgreinda skuld.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi telur almenn skilyrði til riftunar óumdeilanlega fyrir hendi. Ljóst sé að nái riftun fram að ganga aukist möguleikar kröfuhafa á að fá fullnustu krafna sinna og einnig sé ljóst að greiðsla til stefnda á skuld Ljósavíkur hf. hafi ekki verið í samræmi við greiðslur til annarra kröfuhafa og því leitt til mismununar kröfuhafa.

Sé á því byggt að um óvenjulegan greiðslueyri hafi verið að ræða sem runnið hafi til stefnda til greiðslu á skuldum Ljósavíkur hf. við hann. Hafi greiðslan verið innt af hendi með óveðsettu lausafé félagsins, með framsali á aflaheimildum og með framsali á viðskiptakröfum félagsins á hendur þriðja aðila, sem teljist vera óvenjulegur greiðslueyrir og sé greiðslan því riftanleg með vísan til 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. 

Stefnandi vísar til þess að hin hlutlægu skilyrði sem fram komi í 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 séu öll fyrir hendi. Af gögnum málsins sé ljóst að um sé að ræða greiðslu á skuld Ljósavíkur hf. við stefnda, samtals að fjárhæð 8.136.764 krónur. Um þetta vísist til samningsins milli Ljósavíkur hf. og stefnda þar sem ljóslega komi fram að tilgangur ráðstafananna hafi verið að greiða skuld félagsins við stefnda.

Uppfyllt séu þau tímamörk sem tilgreind séu í 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. 
Frestdagur í búinu sé 11. desember 2003, en þá hafi héraðsdómara borist krafa um gjaldþrotaskipti á búi félagsins. Umræddar ráðstafanir hafi átt sér stað á árinu 2003.  Á því sé byggt að stefndi teljist nákominn hinu gjaldþrota félagi í skilningi 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4.-6. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1991. Stofnendur og stjórnarmenn stefnda, Steinavíkur ehf., séu Unnþór B. Halldórsson og Guðmundur Karl Baldursson, en þeir séu jafnframt stofnendur og stjórnarmenn hins gjaldþrota félags. Þá komi fram í skýrslu fyrrverandi fyrirsvarsmanna Ljósavíkur hf. hjá skiptastjóra þann 5. mars 2004 að hluthafar í stefnda séu þeir sömu og í hinu gjaldþrota félagi.

Skuldin hafi verið greidd með óvenjulegum greiðslueyri. Löglíkur séu fyrir því að greiðsla á peningakröfum með lausafjármunum, aflaheimildum og með framsali viðskiptakrafna á þriðja aðila teljist hafa farið fram með óvenjulegum greiðslueyri. Ljóst sé að tilgangurinn með ráðstöfuninni hafi verið að greiða skuld hins gjaldþrota félags og hafi stefndi því fengið skuldina greidda umfram aðra kröfuhafa stefnanda, með riftanlegum hætti. 

Loks liggi fyrir að greiðslan hafi ekki verið venjuleg eftir atvikum. Fullyrðir stefnandi að engin venja hafi ríkt í viðskiptum aðila þess efnis að greiða skuldir með lausafé. Auk þess hafi greiðslan ekki verið liður í tilraunum til að rétta af rekstur félagsins heldur þvert á móti liður í því að leggja niður félagið eftir að ljóst var orðið að það var gjaldþrota.

Stefnandi kveðst einnig byggja á því að greiðslan hafi á ótilhlýðilegan hátt orðið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og sé riftanleg með vísan til 141. gr. laga nr. 21/1991. Hafi greiðslan verið ótilhlýðileg, m.a. vegna grandsemi stefnda um ógjaldfærni Ljósavíkur hf. því fyrirsvarsmenn og stjórnarmenn stefnda hafi jafnframt verið fyrirsvarsmenn stefnanda og því haft yfirburðaþekkingu á efnahag og rekstri hins gjaldþrota félags.

Stefnandi segist reisa kröfu sína um endurgreiðslu á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 að því leyti sem riftunarkrafan byggist á 134. gr. laga nr. 21/1991 en á 3. mgr. s.l. að því leyti sem riftunarkrafan sé byggð á 141. gr. laga nr. 21/1991, og sé réttilega beint að stefnda. Kröfuna um vexti og dráttarvexti kveður stefnandi byggða á ákvæðum laga nr. 38/2001 og krafan um málskostnað sé byggð á 1. mgr. 130. gr. sbr. 129. gr. laga um meðferð einkamála nr. 19/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi segir sýknukröfu sína í fyrsta lagi byggða á því að ekki hafi verið greitt með óvenjulegum greiðslueyri. Í öðru lagi sé sýknukrafan reist á því, að stefnandi hafi verið gjaldfær þegar samkomulagið var gert þann 6. janúar 2003 og því sé framsal greiðslna sem inntar hafi verið af hendi með óvenjulegum greiðslueyri ekki riftanlegt. Í þriðja lagi sé á því byggt að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni en það sé skilyrði greiðslukröfu, sbr. 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.

Stefndi telji að stefnandi hafi verið gjaldfær þegar samkomulag um uppgjör á leiguskuld stefnanda var gert. Engar forsendur hafi breyst frá því að endurskipulagning félagsins átti sér stað í lok árs 2001 og byrjun árs 2002 sem gæfu forsvarsmönnum stefnda ástæðu til að ætla að Ljósavík hf. væri ógjaldfært í byrjun árs 2003. Færustu sérfræðingar á sviði útgerðar, endurskoðendur hjá Deloitte & Touche hf., hafi aðstoðað forsvarsmenn þess við endurskipulagningu félagsins um áramótin 2001/2002 og hafi félagið verið rekið með 68 milljóna króna hagnaði árið 2002. Nýir hluthafar hafi bæst í hluthafahópinn og keypt hluti á margföldu yfirverði. Því hafi forsvarsmenn stefnda ekki haft neina ástæðu til að ætla annað en að vel gengi hjá fyrirtækinu í framtíðinni. Hafi verið talið að verð á rækju myndi aftur hækka, sterlingspundið hækka og reksturinn blómgast. Telji stefndi því að 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti eigi alls ekki við um þau viðskipti sem um sé fjallað í máli þessu þar sem stefndi hafi verið gjaldfær þegar samningar um viðskiptin áttu sér stað. Þá telji stefndi að 141. gr. sömu laga eigi ekki við af sömu ástæðum jafnframt því að stefnandi hafi ekki orðið ógjaldfær vegna þeirra ráðstafana sem gerðar voru og fjallað er um í máli þessu. Því til stuðnings bendir stefndi á að veðhafar á Aski og Gissuri hafi samþykkt að varanlegar aflaheimildir á skipunum yrðu seldar, en það hafi verið gert á sama tíma og samkomulag stefnanda og stefnda.

Stefndi tekur fram að framangreindar málsástæður eigi við um alla liðina í kröfugerð stefnanda en þeim til viðbótar sé byggt á málsástæðum sem nánar eru tilgreindar hér á eftir í umfjöllun um einstaka liði kröfugerðarinnar.

Stefndi mótmælir kröfunni um riftun á framsali aflamarks fiskveiðiárið 2003/2004 samtals að fjárhæð 4.987.610 krónur  þar sem aflamarkið hafi verið framselt Auðbjörgu ehf. en andvirðið hafi hins vegar runnið til stefnda sem greiðsla inn á skuld Ljósavíkur hf. við stefnda. Aflamarkið hafi tilheyrt togurunum Aski og Gissuri og verið við þá bundið. Þegar skipin hafi verið seld í október 2003 hafi fylgt þeim allar veiðiheimildir sem þeim hafi tilheyrt enda veiðiheimildirnar veðsettar með skipunum. Aflamarkið sem flutt hafi verið til Auðbjargar ehf. hefði jafnframt fylgt skipunum við sölu ef það hefði ekki verið af þeim flutt áður en kaupsamningar voru gerðir. Hvorki aflamarkið né þeir fjármunir sem fyrir það komu hefðu því fallið til þrotabús Ljósavíkur hf. Hafi stefnandi því ekki orðið fyrir tjóni og eigi því ekki undir neinum kringumstæðum kröfu á stefnda sbr. 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Veðhafar á togurunum Aski og Gissuri hefðu hins vegar getað fengið meira upp í kröfur sínar en það skipti ekki máli hér.

Þá sé því mótmælt að greiðslan í þessu tilviki hafi farið fram með óvenjulegum greiðslueyri þar sem stefndi hafi tekið við peningum en ekki öðrum verðmætum. Greiðslur með peningum séu ekki riftanlegar samkvæmt  ákvæðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Bendir stefndi á að Ljósavík hf. hafi áfram haft fasteign stefnda á leigu eftir að samkomulagið var gert þann 6. janúar 2003. Hafi Ljósavík hf. ekki afhent þá greiðslu sem það átti að inna af hendi í síðasta lagi þann 7. febrúar 2003, að fjárhæð 3.770.000 krónur, og tilgreind var í 3. tl. samkomulags aðila. Félagið hafi hins vegar þann 16. júní 2003 greitt inn á skuld sína 2.000.000 króna. Líta megi á allar greiðslur sem inntar voru af hendi á árinu 2003 sem leigugreiðslur fyrir afnot af húsnæði stefnda í því ljósi að stefndi gat hvenær sem var rift leigusamningnum og fengið Ljósavík hf. borið út úr húsnæðinu og geti riftunarreglur gjaldþrotaskiptalaga því ekki átt við. Ljósavík hf. hafi verið nauðsyn að hafa húsnæðið undir starfsemi sína og hafi það því í raun verið forsenda þess að rekstur félagsins héldi áfram.

Stefndi hafnar kröfu stefnanda um framsal á söluandvirði bifreiðarinnar BY-134 að fjárhæð 1.130.000 krónur með vísan til sömu sjónarmiða og rakin eru hér að framan. Samkomulagið frá 6. janúar 2003 sé um framsal á greiðslu. Stefndi hafi fengið peninga til greiðslu inn á leiguskuld Ljósavíkur hf. og þar sé ekki um óvenjulegan greiðslueyri að ræða. Félagið hafi ávísað ákveðinni greiðslu inn á skuld sína við stefnda enda sé það orðað svo í samkomulaginu að „Ljósavík framselur andvirði af sölu bifreiðarinnar BY-134 til Steinavíkur ehf.“  Framsal þetta á greiðslu sé því aldrei riftanlegt. Það hafi verið andvirði bifreiðarinnar sem runnið hafi til stefnda en honum hafi ekki verið framseld bifreiðin sjálf og sé þar reginmunur á.

Krafa stefnanda vegna framsals á skuld Sunnlenskrar fjölmiðlunar ehf. að fjárhæð  619.541 krónur sé um riftun á greiðslu skuldar Ljósavíkur hf. við stefnda með framsali á skuld. Tekið hafi verið fram í samkomulagi aðilanna að krafa þessi væri hugsanlega fyrnd enda stofnað til hennar árið 1998. Þegar frá samkomulagi aðila var gengið hafi m.a. verið hugsað um það að nýir hluthafar væru komnir að rekstri Ljósavíkur hf. Forsvarsmenn stefnda og Ljósavíkur hf. hefðu á sínum tíma lagt fé í stofnun Sunnlenskrar fjölmiðlunar ehf. og látið Ljósavík hf. lána því félagi fé. Í ársbyrjun 2003 hafi þeir vitað að Sunnlensk fjölmiðlun ehf. myndi aldrei endurgreiða þetta fé og því ákveðið að taka það út úr reikningum Ljósavíkur hf. og færa það yfir í Steinavík ehf. Krafan hafi í raun verið fyrnd og geti því ekki skoðast sem greiðsla á skuld þar sem hún kæmi aldrei til greiðslu. Stefnandi hefði ekki orðið fyrir tjóni sbr. 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti þar sem stefnandi hefði aldrei fengið fé þetta greitt þó svo að krafan hefði fallið til búsins.

Það sama eigi við um riftun kröfunnar á hendur Manusi ehf. að sú krafa hafi verið fyrnd þegar stefndi yfirtók hana frá stefnanda til greiðslu á leiguskuld hans og sé því byggt á öllum sömu sjónarmiðum í því sambandi.

Krafan á hendur Bjarnavík ehf. að fjárhæð 84.980 krónur hafi verið greidd með peningum sem gengið hafi beint til stefnda. Því hafi ekki verið greitt með óvenjulegum greiðslueyri og greiðslan sé því ekki riftanleg.

Unnþór og Guðmundur hafi verið aðaleigendur beggja félaganna. Í samkomulagi Ljósavíkur hf. og stefnda frá 6. janúar 2003 hafi verið ákveðið að nettókrafa Ljósavíkur hf. á hendur aðaleigendum beggja félaganna, Guðmundi og Unnþóri, eins og hún yrði þann 30. júní 2003, yrði framseld til Steinavíkur ehf. sem innborgun á skuld Ljósavíkur hf. við Steinavík ehf. Unnþór og Guðmundur, sem unnið hafi hjá Ljósavík hf. allt þar til félagið var lýst gjaldþrota hafi ekki reiknað sér laun síðustu mánuði starfseminnar heldur lagt allt kapp á að geta greitt starfsfólki og haldið félaginu gangandi. Hafi Unnþór átt kröfur á Ljósavík hf. vegna vinnulauna a.m.k. síðustu þrjá mánuðina sem hann vann við fyrirtækið. Hið rétta hefði verið að reikna honum laun og skuldajafna við skuld hans hjá félaginu. Það hafi hins vegar ekki verið gert heldur hafi skuld hans verið látin standa en ákveðið að nýta hana til greiðslu á húsaleiguskuld Ljósavíkur hf. við stefnda sem gert hafi verið með samkomulaginu þann 6. janúar 2003. Í raun hafi ekkert verið óvenjulegt við það enda mætti allt eins líta á það sem fyrirframgreiðslu leigu þar sem Ljósavík hf. greiddi ekki með öðrum hætti leigu til stefnda. Stefnandi hafi alls ekki orðið fyrir tjóni og því sé skilyrðum 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 ekki fullnægt til kröfu um greiðslu. Unnþór hefði átt kröfu til skuldajafnaðar á móti kröfu stefnanda. Stefnandi hafi því ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna þessa og beri því að sýkna stefnda.

Vegna riftunarkröfu stefnanda er snýr að framsali á skuld Auðbjargar ehf. við stefnanda að fjárhæð 125.000 krónur byggi stefndi á því að Ljósavík hf. hafi verið gjaldfær á þeim tíma sem framsalið hafi átt sér stað, en yfirfærslan sé færð í bókhaldi félaganna þann 1. janúar 2003.

Stefndi kveður allar framangreindar greiðslur til stefnda hafa verið venjulegar eftir atvikum öllum. Hafi þær allar verið fallnar til þess að létta undir rekstri Ljósavíkur hf. og auka líkur á áframhaldandi rekstri félagsins. Þær hafi í raun leitt til þess að stefndi heimilaði að félagið hefði áframhaldandi umráð fasteigna þeirra sem það hefði haft á leigu og stefndi lét viðgangast að leigan væri ekki greidd á gjalddaga.

Því sé loks alfarið mótmælt af hálfu stefnda að ákvæði 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti eigi við um framangreind viðskipti aðilanna. Vísist þar um til sömu sjónarmiða og að framan hafa verið rakin.

Stefndi segir málskostnaðarkröfu sína byggða á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða.

Stefnandi leitar riftunar á greiðslu skuldar Ljósavíkur hf. við stefnda sem er í eigu þeirra Guðmundar Baldurssonar og Unnþórs B. Halldórssonar, fyrrverandi aðaleigenda og stjórnenda Ljósavíkur hf. Er þar annars vegar um að ræða nánar tilgreindar greiðslur samkvæmt samkomulagi félaganna frá 6. janúar 2003 og hins vegar tvær greiðslur sem framseldar voru sérstaklega til stefnda. Byggir stefnandi kröfu sína aðallega á 134. gr. en til vara á 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í 1. mgr. 134. gr. er kveðið á um að krefjast megi riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Í 2. mgr. segir síðan að krefjast megi riftunar slíkrar greiðslu til nákominna sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir greiðsluna.

Í framangreindu samkomulagi félaganna kemur glögglega fram að það „miðar að því að lækka skuld Ljósavíkur við Steinavík“. Jafnframt var í samkomulaginu tekið fram að skuldin næmi þá 14.737.223 krónum. Samkvæmt því verður að líta svo á að greiðslur þær sem stefnandi hefur krafist riftunar á teljist greiðsla á skuld í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991. Verður því ekki fallist á þær varnir stefnda að líta beri á greiðslurnar sem húsaleigugreiðslur vegna ársins 2003 samkvæmt gildandi húsaleigusamningi er hljóti að því marki að falla utan riftunar á grundvelli nefndrar 134. gr.

Stefndi hefur mótmælt því að greiðslur þessar hafi verið inntar af hendi með óvenjulegum greiðslueyri og haldið því fram að greiðslur þessar hafi alla vega mátt telja venjulegar eftir atvikum.

Með greiðslum þessum var Ljósavík hf. annars vegar að ráðstafa söluandvirði aflamarks og tiltekinnar bifreiðar og hins vegar tilgreindum viðskiptakröfum félagsins til innborgunar á viðskiptaskuld við stefnda. Þegar litið er til forms þeirra greiðslna sem hér um ræðir á því tímamarki þegar þær fara frá Ljósavík hf. verður að líta svo á að um óvenjulegan greiðslueyri hafi verið að ræða í skilningi tilvitnaðrar 134. gr. enda  þótt endanlegar greiðslur til stefnda hafi átt að vera í formi peningagreiðslna.

Ekki verður heldur fallist á, að greiðslurnar hafi getað virst venjulegar eftir atvikum. Er þá haft í huga að  eigendum stefnda, sem jafnframt voru fyrirsvarsmenn Ljósavíkur hf., mátti vera ljós erfið fjárhagsstaða félagsins í janúar 2003. Mátti þeim þá jafnframt vera ljóst að með afhendingu greiðslnanna var að því stefnt að gera hlut stefnda gagnvart öðrum skuldheimtumönnum betri en lög stóðu til. Hefur því enda ekki verið haldið fram af stefnda að umræddur greiðslueyrir hafi tíðkast í viðskiptum félaganna tveggja.

Stefnandi heldur því fram að alla vega tvær greiðslnanna, þ.e. greiðslan með framsali aflamarks að fjárhæð 4.987.610 krónur skv. 1. tölulið samkomulagsins og greiðsla með framsali kröfu að fjárhæð 796.535 krónur á hendur Unnþóri B. Halldórssyni skv. 6. tölulið, hafi í raun átt sér stað innan við sex mánuðum fyrir frestdaginn í þrotabúinu sem er 11. desember 2003. Falli þessar greiðslur því undir ákvæði 1. mgr. 134. gr. tilvitnaðra laga en að öðru leyti falli greiðslurnar þá undir 2. mgr. sömu greinar.

Í greindum 1. tölulið samkomulagsins kemur fram að Ljósavík hf. skyldi, í september 2003, greiða 4,5 til 5 milljónir króna í formi framsals á aflamarki fiskveiðiársins 2003-2004 til þess aðila sem Steinavík hf. skyldi tilnefna á þeim tíma. Samkvæmt gögnum málsins tilheyrði aflmark þetta togurunum Aski og Gissuri og var það framselt til Auðbjargar ehf. í lok september 2003 gegn greiðslu að fjárhæð 4.987.610 krónur. Er innborgunin vegna aflamarksins færð þann 23. september sama ár sem greiðsla til Steinavíkur hf. á bókunarblað fyrir bókhald Ljósavíkur hf., sem þáverandi fjármálastjóri félagsins hefur staðfest að hafa sett upp. Þann sama dag undirrita aðilar viðskiptanna jafnframt tilkynningu til Fiskistofu um flutning aflamarksins. Þykir því verða að leggja hér til grundvallar að greiðsla þessi hafi verið innt af hendi sem innborgun á skuld Ljósavíkur hf. við stefnda þann 23. september 2003 og því innan sex mánaða frestsins.

Í 6. tölulið samkomulagsins er kveðið á um að nettókrafa Ljósavíkur hf. á hendur Unnþóri B. Halldórssyni verði framseld stefnda sem innborgun á skuld félagsins við stefnda og skuli þá miðað við upphæð skuldar Unnþórs þann 30. júní 2003. Á fyrrgreindu bókunarblaði fyrir bókhald Ljósavíkur hf. er færsla sem dagsett er 2. nóvember 2003 þar sem viðskiptaskuld Unnþórs að fjárhæð 796.535 krónur er færð yfir á stefnda.  Raunveruleg færsla skuldarinnar yfir á stefnda í bókhaldi Ljósavíkur hf. er síðan skráð 4. nóvember sama ár. Þar sem ekkert hefur komið fram um að greiðsla skuldarinnar hafi átt sér stað við eitthver fyrri tímamörk en þau sem þarna eru tilgreind þykir verða að líta svo á að einnig þessi greiðsla hafi átt sér stað innan sex mánaða frestsins en upphaf hans miðast við 11. júní 2003.

Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til að rifta umræddum greiðslum Ljósavíkur hf. til stefnda að fjárhæð 4.987.610 krónur og 796.535 krónur.

 Ekki sýnist um það deilt að aðrar þær greiðslur Ljósavíkur hf. til stefnda sem krafist er riftunar á hafi verið inntar af hendi fyrr á árinu 2003 og að þær falli ekki undir umræddan sex mánaða frest. Kemur þá til úrlausnar hvort greiðslur þessar geti fallið undir 2. mgr. 134. gr. laganna nr. 21/1991. Af hálfu stefnda er því ekki mótmælt að stefndi teljist nákominn í skilningi ákvæðisins þar eð eigendur stefnda áttu stóran hlut í Ljósavík hf. og voru jafnframt í fyrirsvari fyrir það félag. Stefndi heldur því hins vegar eindregið fram að félagið hafi verið gjaldfært á þeim tíma sem greiðslurnar áttu sér stað og það þrátt fyrir greiðslurnar. Eignastaða félagsins hafi verið góð og upplausnarverð þess langt umfram skuldir allt fram á árið 2003 en þá hafi verð á rækju hrunið og sterlingspundið fallið verulega en afurðir félagsins hafi að verulegu leyti verið seldar í þeim gjaldmiðli. Efnahagsreikningur sem unnin hafi verið sérstaklega í tilefni sameiningar Ljósavíkur hf. við Rækjuvinnsluna Póla ehf. sýni að eigið fé félagsins hafi eftir sameininguna verið 515.591.000 krónur um mitt ár 2001 að meðtöldum aflaheimildum sem metnar hafi verið á um einn milljarð króna. Hafi nýir hluthafar haft það mikla trú á stöðu félagsins að þeir hafi greitt verulegt yfirverð fyrir hlutabréfin. Rekstur félagsins hafi farið batnandi allt til ársloka 2002 og skilað 68 milljóna króna hagnaði á því ári og hafi eiginfjárstaða þess batnað úr því að vera neikvæð um 477.374.953 krónur í árslok 2001 í að vera neikvæð um 307.830.897 krónur í árslok 2002.

Samkvæmt 2. gr. 134. gr. þarf viðtakandi greiðslu að sýna fram á að þrotamaður hafi verið gjaldfær á því tímamarki sem greiðslan var innt af hendi ef hann vill komast hjá riftun. Þykir hér verða við það að miða, með hliðsjón af samkomulagi aðilanna og færslu greiðslnanna í bókhaldi, að greiðslur þær sem hér um ræðir, aðrar en greiðslan með andvirði bifreiðarinnar, hafi átt sér stað í janúarbyrjun 2003. Af hreyfingarlista úr bókhaldi Ingvars Helgasonar hf., sem keypti bifreiðina af Ljósavík hf., verður hins vegar ráðið að afhending söluandvirðis hennar til stefnda hafi átt sér stað í byrjun maímánaðar 2003.

Það er álit dómsins að í byrjun ársins 2003 hafi ýmis teikn verið á lofti um erfiða greiðslustöðu Ljósavíkur hf. Verður þannig af kröfulýsingum í þrotabú félagsins ráðið að allmargar kröfur, þar á meðal kröfur vegna ógreidds orlofs starfsmanna, gjalda til verkalýðsfélaga vegna starfsmanna og lífeyrisiðgjalda, hafi verið í vanskilum á þeim tíma og fyrirsjáanlegt að afborganir af háum lánum frá Landsbanka Íslands hf. og Íslandsbanka hf. sem félagið hafði fengið skilmálabreytt myndu fyrst koma í gjalddaga á vormánuðum 2003. Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2002 var eigið fé þess neikvætt um 307.830.897 krónur um þessi áramót og er þá ekki tekið tillit til verðmætis aflaheimilda félagsins sem höfðu eins og áður segir verið metnar á rúmlega 1.084.399 krónur skömmu áður.

Í framburði vitnisins Stefáns Guðmundssonar, fjármálastjóra Ljósavíkur hf., kom fram að upplausnarverð félagsins hafi um þessi áramót, að hans mati og þeirra sem að rekstrinum komu, örugglega átt að duga fyrir skuldum þess. Hann upplýsti hins vegar að lausafjárstaðan hefði alla tíð verið erfið og að um áramótin hafi mátt sjá merki þess að hún færi versnandi og að erfiðleikar við að greiða af lánum færu vaxandi. Félagið hafi fengið eins konar greiðslufrystingu á afborganir tiltekinna lána og á þessum tíma hafi í raun verið að koma í ljós, miðað við þáverandi markaðsverð afurða, olíuverð og gengi, að áætlanir félagsins gætu ekki gengið upp hvað varðaði nauðsynlegan hagnað fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld svo hægt yrði að standa við greiðslur afborgana og annarra peningalegra skuldbindinga þess.

Sigurður H. Pálsson, endurskoðandi hjá Deloitte & Touche hf., er annaðist endurskoðun reikninga Ljósavíkur hf., lýsti þeirri skoðun sinni fyrir dómi að þeir sem komu að rekstri Ljósavíkur hf. hafi litið svo á að félagið væri gjaldfært um áramótin 2002-2003 og að þeir hafi haft fulla ástæðu til að ætla að svo væri. Taldi hann að söluverðmæti eigna félagsins hefði dugað til að greiða allar skuldir þess á þessum tímapunkti og hefði félagið þá jafnvel getað átt eftir talsverða fjármuni. Hins vegar lægi ljóst fyrir að lausafjárstaðan hafi ekki verið í lagi og verði þannig ráðið af efnahagsreikningi að skammtímaskuldir félagsins hafi verið rétt um 540 milljónir króna en veltufjármunir hins vegar um 417 milljónir króna.

Stefndi hefur haldið því fram að fyrirsvarsmenn Ljósavíkur hf. hafi ekki haft neina ástæðu til að ætla annað í ársbyrjun 2003 en að reksturinn myndi blómgast í framhaldi. Reyndin hafi hins vegar orðið sú að rekstrarumhverfi rækjuútgerðar og rækjuvinnslu hafi versnað til muna á árinu 2003 og verðmæti skipa og aflaheimilda því lækkað verulega. Það liðu hins vegar ekki nema rúmlega níu mánuðir frá framsali Ljósavíkur hf. á umræddum viðskiptakröfum til stefnda, og um fimm mánuðir frá framsali andvirðis bifreiðar félagsins, þar til skipin Askur og Gissur voru seld frá félaginu ásamt aflaheimildum og rekstri félagsins þar með hætt.  Í desember 2003 var síðan óskað eftir að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta og reyndust lýstar kröfur í búið alls 893.024.606 krónur. Tók skiptastjóri ekki afstöðu til almennra krafna samtals að fjárhæð 584.382.141 króna, þar sem ljóst væri að ekki kæmi til greiðslu þeirra. Í bréfi Unnþórs B. Halldórssonar til Verkalýðsfélagsins Vöku, dagsett 28. nóvember 2003, í tilefni af uppsögnum starfsmanna Ljósavíkur hf., segir að rekstur félagsins hafi gengið erfiðlega um þó nokkuð langt skeið og að rekstrarumhverfi félagsins hafi verið afar neikvætt til margra ára.

 Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður að telja verulegan vafa leika á hvort Ljósavík hf. hafi í byrjun árs 2003 verið gjaldfært í skilningi 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Í málinu liggja ekki fyrir gögn sem sýna fram á möguleika Ljósavíkur hf. á þeim tímabilum sem hér um ræðir, þ.e. í byrjun janúarmánaðar og byrjun maímánaðar 2003, til að standa í skilum við lánadrottna sína, hvenær gjalddagi einstakra afborgana eða annarra skuldbindinga var eða um hvaða fjárhæðir var að tefla. Ekki liggur heldur fyrir mat á því hvernig ætla má að verðmæti eigna félagsins hafi þróast á árinu 2003 en fyrir liggur að verðmæti eignanna þegar þær voru seldar, að hluta til fyrir töku þess til gjaldþrotaskipta og að hluta eftir, reyndist verulega lægra en stefndi hefur haldið fram að það hafi verið í ársbyrjun 2003. Er það því niðurstaða dómsins að stefnda hafi ekki tekist sönnun um að Ljósavík hf. hafi verið gjaldfært í skilningi 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 á þeim tíma sem afhending umræddra eigna félagsins átti sér stað.

Að því virtu sem nú hefur verið rakið og með vísan til 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 verður tekin til greina krafa stefnanda um riftun á greiðslu þess hluta skuldar Ljósavíkur hf. við stefnda sem fram fór annars vegar með framsali á kröfum Ljósavíkur hf. á Sunnlenska fjölmiðlun ehf., Bjarnavík ehf., Auðbjörgu ehf. og Manus ehf. í janúar 2003 og hins vegar með framsali andvirðis bifreiðarinnar BY-134 í maí 2003.

Í 1. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaganna segir að ef riftun fer fram með stoð í 131.-138. gr. skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun eða fullnustugerð greiða þrotabúinu fé sem svari til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemi tjóni þrotabúsins.

Stefndi heldur því fram að hagur stefnda, eða tjón þrotabúsins, af þeim ráðstöfunum sem riftun sæta samkvæmt ofangreindu sé í raun mun minni en fram kemur í dómkröfum stefnanda.  Byggir hann í fyrsta lagi á því að söluandvirði aflamarksins, sem selt var til Auðbjargar ehf., hafi verið bundið við togarana Ask og Gissur og því verið veðsett ásamt þeim og tilheyrandi veiðiheimildum. Vegna þessa hafi andvirði aflamarksins aldrei getað fallið til þrotabúsins því ef ekki hefði komið til þessarar ráðstöfunar hefði það verið selt með skipunum tveimur og veðhafarnir þá fengið þeim mun meira í sinn hlut.

Samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð er óheimilt að veðsetja réttindi til nýtingar í atvinnurekstri, séu þau skráð opinberri skráningu á tiltekið fjárverðmæti og stjórnvöld úthluta lögum samkvæmt. Verður ekki fallist á það með stefnda að aflamark Ljósavíkur hf. sem hér um ræðir hafi getað verið háð veðsetningu, enda liggur ekkert fyrir um það í málinu að atbeina veðhafa hafi þurft til að framsal þess gæti átt sér stað með löglegum hætti. Sýnist útleiga á hluta aflamarks hvers árs hafa verið fastur þáttur í tekjuöflun félagsins án þess að veðhafar umræddra skipa hafi komið að þeim málum. Verður því hér lagt til grundvallar að tjón þrotabúsins nemi þeim hag sem stefndi hafði af móttöku söluandvirðis aflamarksins eða 4.987.610 krónum.

Stefndi hefur í öðru lagi haldið því fram að viðskiptakröfur þær sem hann fékk framseldar á hendur Bjarnavík ehf. og Manusi ehf. hafi verið fyrndar og ekki innheimst og því ekki orðið honum að neinum notum. Er staðhæfing þessi ekki studd neinum gögnum og telst því ósönnuð.

Stefndi byggir loks á því að framsal kröfunnar á hendur Unnþóri B. Halldórssyni hafi ekki leitt til neins tjóns fyrir þrotabúið því ef til framsalsins hefði ekki komið hefði Unnþór krafist skuldajöfnunar hennar við launakröfu sína á hendur Ljósavík ehf. Vegna framsals kröfunnar til stefnda hafi hann því ákveðið að reikna sér ekki laun vegna starfa sinna fyrir félagið síðustu mánuðina áður en það var úrskurðað gjaldþrota. Samkvæmt framangreindu er í raun viðurkennt af stefnda að launakrafa sú sem hér er vikið að hafi aldrei verið sett fram með formlegum hætti enda var henni ekki lýst í búið í kjölfar innköllunar skiptastjóra. Þegar af þeirri ástæðu ber að hafna þessari málsástæðu stefnda.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður við það miðað að hagur stefnda og tjón þrotabúsins af hinum riftanlegu ráðstöfunum nemi samtals 8.136.764 krónum og verður stefndi því dæmdur til að greiða þá fjárhæð með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 450.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Ása Ólafsdóttir hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Björgvin Þorsteinsson hrl.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.       

Dómsorð:

Rift er greiðslum á skuld Ljósavíkur hf. við stefnda Steinavík hf., samtals að fjárhæð 8.136.764 krónur, sem fram fóru með framsali aflamarks vegna fiskveiðiársins 2003-2004, framsali andvirðis sölu bifreiðarinnar BY-134 og framsali til stefnda á skuldum Sunnlenskrar fjölmiðlunar ehf., Bjarnavíkur ehf., Unnþórs B. Halldórssonar, Auðbjargar ehf. og Manusar ehf. við Ljósavík hf.

Stefndi greiði stefnanda, þrotabúi Ljósavíkur hf., 8.136.764 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. desember 2004 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 450.000 krónur í málskostnað.