Hæstiréttur íslands
Mál nr. 265/2001
Lykilorð
- Bifreið
- Örorka
- Líkamstjón
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 13. desember 2001. |
|
Nr. 265/2001. |
Marion Elizabeth Scobie(Kristján Stefánsson hrl.) gegn Birnu Jónsdóttur og Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Bifreiðar. Ororka. Líkamstjón. Fyrning.
M varð fyrir líkamstjóni í umferðarslysi árið 1991. Á árinu 1997 óskuðu lögmaður M og vátryggingafélagið V hf. eftir mati tveggja lækna á örorku M vegna slyssins. Í matsbeiðninni var sérstaklega tekið fram að V hf. gerði fyrirvara um fyrningu á bótakröfu vegna slyssins þrátt fyrir aðild sína að beiðninni. Að fengnu mati læknanna krafði lögmaður M V hf. um bætur auk nánar tilgreinda vaxta og kostnaðar. V hf. hafnaði kröfunni með vísan til þess að hún væri fyrnd, sbr. 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. M höfðaði 21. júní 2000 mál til heimtu bótanna Talið var að M hefði fyrst átt kost á að leita fullnustu kröfu sinnar á árinu 1993. Fyrningartími hafi því byrjað að líða 1. janúar 1994, og ekkert gerst eftir þann tíma, sem valdið gæti slitum á fyrningu kröfunnar fyrr en héraðsdómsstefna í málinu var birt. Var krafa M því talin fyrnd.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. júlí 2001. Hún krefst þess að stefndu verði í sameiningu gert að greiða sér 1.798.700 krónur með „sparisjóðsvöxtum“ frá 21. júní 1996 til 16. september 1998, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Áfrýjandi krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og þeim dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi á málið rætur að rekja til þess að aðfaranótt 22. júní 1991 var bifreiðinni XF 931 ekið aftan á bifreiðina Ö 7126 á Fríkirkjuvegi í Reykjavík og var áfrýjandi farþegi í annarri þeirra. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið með vissu í hvorri bifreiðinni áfrýjandi hafi verið. Stefndu vefengja ekki aðild sína að málinu vegna þessa vafa, en bifreiðin XF 931 var í eigu stefndu Birnu Jónsdóttur og tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. Við þennan árekstur kveðst áfrýjandi hafa tognað í hálsi. Vegna slyssins mun áfrýjandi, sem var á þessum tíma nemi í framhaldsskóla, hafa látið af starfi, sem hún hefði ella gegnt til loka sumars 1991. Á tímabilinu frá 24. júlí til 2. september 1991 greiddi vátryggingafélagið áfrýjanda alls 113.526 krónur upp í bætur, auk 23.111 króna vegna útlagðs kostnaðar, einkum af læknismeðferð, fram til 23. mars 1992. Fyrir liggur að vátryggingafélagið og lögmaður áfrýjanda leituðu sameiginlega til tveggja nafngreindra lækna með matsbeiðni dagsettri 2. apríl 1997 um að meta örorku áfrýjanda vegna slyssins. Var þar sérstaklega tekið fram að vátryggingafélagið gerði fyrirvara um fyrningu á bótakröfu vegna slyssins þrátt fyrir aðild sína að þessari beiðni. Læknarnir létu í té mat á örorku áfrýjanda 21. júlí 1998 og aflaði lögmaður hennar síðan útreiknings tryggingarfræðings á tjóni hennar 9. september sama ár að fengnu samþykki vátryggingafélagsins fyrir forsendum útreikningsins. Að þessu gerðu ritaði lögmaður áfrýjanda innheimtubréf til vátryggingafélagsins 16. september 1998 og krafðist þar bóta að fjárhæð 1.798.700 krónur auk nánar tilgreindra vaxta og kostnaðar. Félagið hafnaði kröfunni með bréfi 6. október sama ár með vísan til þess að hún væri fyrnd, sbr. 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Áfrýjandi höfðaði síðan málið 21. júní 2000 til heimtu bóta.
Gegn andmælum stefndu hefur áfrýjandi ekki fært sönnur fyrir þeirri staðhæfingu að hún hafi haldið að sér höndum um að afla mats á örorku sinni vegna tilmæla starfsmanna stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. Þá verður ekki litið svo á að neinu breyti um rétt áfrýjanda á hendur stefndu að starfsmenn vátryggingafélagsins, sem hún átti samskipti við á tímabilinu fram til 23. mars 1992, hafi ekki leiðbeint henni um hættu á fyrningu kröfu hennar. Má í því sambandi einnig líta til þess að fyrir Hæstarétti hafa stefndu lagt fram ljósrit skjals frá áfrýjanda 24. júlí 1991, þar sem hún veitti lögmanni sínum umboð til að gæta hagsmuna sinna vegna slyssins, þótt viðurkennt sé af hinu stefnda vátryggingafélagi að því hafi ekki borist þetta skjal fyrr en á árinu 1997. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að fyrningartími samkvæmt 99. gr. umferðarlaga á kröfu áfrýjanda hafi byrjað að líða 1. janúar 1994, svo og að ekkert hafi gerst eftir þann tíma, sem valdið gæti slitum á fyrningu kröfunnar fyrr en héraðsdómsstefna í málinu var birt. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2001.
I
Mál þetta, sem dómtekiðvar hinn 6. apríl sl. er höfðað með stefnu birtri 21. júní 2000.
Stefnandi er Marion Elizabeth Scobie, kt. 200869-5839, Fellsmúla 4, Reykjavík.
Stefndu eru Birna Jónsdóttur, kt. 061050-4699, Heiðarseli 2, Reykjavík og Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru:
1. Að stefndu verði dæmd in solidum til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 1.940.700,00 með almennun sparisjóðsvöxtum frá 22. júní 1991 til 16. september 1998, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.
2. Að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
II
Í máli þessu krefur stefnandi stefndu um skaðabætur vegna tjóns, sem hún kveðst hafa orðið fyrir er bifreiðinni XF-931 var ekið aftan á bifreiðina Ö-7126 á Fríkirkjuvegi í Reykjavík hinn 22. júní 1991, en stefnandi var farþegi í aftursæti bifreiðarinnar. Stefnandi heldur því fram að við áreksturinn hafi hún fengið slynk á háls og bak. Ökumaður bifreiðarinnar XF-931 var Sigrún Luvísa Sigurðardóttir, dóttir stefndu, Birnu Jónsdóttur, eiganda bifreiðarinnar. Bifreiðin XF-931 var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands h.f.
Stefnandi var 21 árs á slysdegi og nemandi í fjölbrautaskóla. Daginn eftir slysið leitaði stefnandi á Slysadeild Borgarspítalans vegna eymsla aftan á hálsi og fékk hún hálskraga og lyfjameðferð. Samkvæmt vottorði Slysadeildar leitaði stefnandi síðast til Slysadeildar 22. ágúst 1991 og kvaðst hún þá vera með þó nokkur óþægindi í hálsi og herðum, en ætla að byrja í skóla í september. Þá kemur fram í vottorðinu að stefnandi komi til með að hafa óþægindi eitthvað áfram en ætti að jafna sig af áverkanum.
Stefnandi leitaði til stefnda, VÍS, um bætur vegna slyssins. Bætti stefndi tjón stefnanda vegna tapaðra sumarvinnutekna, svo og lækniskostnað og kostnað vegna sjúkraþjálfunar. Fóru síðustu greiðslur fram þann 23. mars 1992.
Stefnandi heldur því fram að af hálfu stefnda, VÍS, hafi henni verið boðið að ljúka málinu með 50.000 króna fullnaðargreiðslu. Ef hún gengi ekki að því boði hafi verið talað um að hún þyrfti að bíða í 3-5 ár þar sem þá fyrst myndi liggja fyrir hvort hún hlyti varanlega örorku af völdum slyssins og vera tímabært að meta örorku hennar. Stefndi, VÍS, mótmælir þessum staðhæfingum stefnanda sem röngum.
Ekkert gerðist síðan í málinu fyrr en á árinu 1997 er lögmaður stefnanda leitaði eftir samkomulagi við stefnda, VÍS, um mat á hugsanlegri örorku stefnanda og með matsbeiðni dagsettri 2. apríl s.á. óskuðu stefndi, VÍS og lögmaður stefnanda eftir því að læknarnir Ragnar Jónsson og Júlíus Valsson mætu örorku stefnanda af völdum slyssins. Í matsbeiðnini er tekið fram af hálfu stefnda, VÍS, að þrátt fyrir aðild að matsbeiðninni geri stefndi fyrirvara að því er varðar fyrningu á bótakröfum vegna slyssins.
Samkvæmt örorkumati læknanna dags. 21. júlí 1998 mátu þeir varanlega læknisfræðilega örorku stefnanda vegna slyssins 3% og tímabundin örorku 100% í 2 mánuði. Í matsgerðinni segir m.a., að þau einkenni sem stefnandi lýsi í dag geti komið heim og saman við þau einkenni, sem oft sjáist eftir hálshnykksáverka. Allmörg ár séu nú liðin frá slysinu og erfitt að greina þessi einkenni frá þeim sem sjást hjá fólki, sem ekki hefur lent í slíku slysi. Ekki sé þó hægt að útiloka, að þau einkenni sem stefnandi hafi í dag sé hægt að rekja til slyssins a.m.k. að verulegi leyti.
Með bréfi dagsettu 31. ágúst 1998 óskaði stefndi, VÍS, eftir umsögn læknanna um það, hvenær tímabært hefði verið að meta endanlegar afleiðingar slyssins. Í svarbréfi Ragnars Jónssonar dags. 27. september s.á. kemur fram að tímabært hefði verið að meta örorku stefnanda um ári eftir slysið, en þá hefði sjúkraþjálfun verið lokið og líðan hennar hefði ekki breytst eftir það. Í svarbréfi Júlíusar Valssonar kemur fram að hann telji að hægt hefði verið að meta örorku stefnanda, þegar um eitt ár var liðið frá slysinu, eins og hefð væri fyrir um slysamöt hérlendis. Þess bæri þó að geta að slasaða virtist ekki hafa verið kunnug rétti sínum til slíks örorkumats og ekki tengt versnandi heilsu við afleiðingar slyssins.
Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 7. sept. 1998, er farið fram á það við Jón Erling Þorláksson, tryggingafræðing, að hann reikni út tjón stefnanda á grundvelli örorkumatsins. Bréfið er áritað um samþykki af Þóri E. Gunnarssyni fulltrúa hjá VÍS.
Útreikningur Jóns Erlings er dags. 9. september 1998. Tímabundin örorka stefnanda er metin á kr. 148.200 og varanleg örorka á 1.563.800, auk þess töpuð lífeyrissjóðsréttindi kr. 84.900.
Á grundvelli útreikningsins setti stefnandi fram formlega kröfu með bréfi, dags. 16. september 1998, en að auki var gerð krafa um miskabætur kr. 150.000. Stefndi, VÍS, hafnaði kröfunni með bréfi dags. 6. okt. 1998 og vísaði til þess að bótakröfur stefnanda væru fyrndar að lögum.
III
Stefnandi byggir á því að sá starfsmaður stefnda, VÍS, sem hafi öðrum fremur komið að málum hennar og m.a. mælt fyrir og samþykkt greiðslur til hennar, hafi sett fram kröfu um að örorkumat færi fyrst fram 3-5 árum eftir slysið, en sú krafa hafi verið í samræmi við verklagsreglu sem samráð hafi verið um hjá tryggingafélögum á þeim tíma. Hafnar stefnandi því að kröfur hennar hafi fyrnst og byggir á að bótakröfum hafi allar götur verið haldið fram gegn félaginu. Félagið hafi sjálft hlutast til um að beðið væri um árabil að sjá hvort afleiðingar slyss yrðu varanlegar. Þá hafi stefndi, VÍS, staðið að mati sérfróðra manna og samþykkt grundvöll að örorkutjónsútreikningi.
Örorkutjónsútreikningar hafi verið unnin í samráði við stefnda, VÍS, en það hafi ekki verið fyrr en að útreikningurinn lá fyrir sem stefndi neitaði bótaskyldu. Með þessum hætti fari félagið gegn góðum viðskiptaháttum og inntaki vátryggingaréttar og beri að líta á mótmælin sem haldlaus.
Stefnandi byggir kröfur sínar á ákvæðum XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987. Kröfu um málskostnað á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfur um vexti á ákvæðum vaxtalaga nr. 25/1987.
Sýknukrafa stefndu er á því reist, að allar kröfur stefnanda á hendur þeim séu fyrndar
samkvæmt fjögurra ára fyrningarreglu 99. gr. umfl. nr. 50/1987. Hið umstefnda slys hafi orðið 22. júlí 1991, en stefna hafi ekki verið birt fyrr en 21. júní 2000 eða tæpum níu árum síðar. Ljóst sé þó af fyrirliggjandi læknagögnum, að heilsufarslegt ástand stefnanda eftir slysið hafi verið orðið stöðugt um mitt ár 1992. Hafi stefnandi þá getað látið meta örorku sína af völdum slyssins, reikna út tjón sitt og leitað fullnustu kröfu sinnar. Fjögurra ára fyrningarfrestur 99. gr. umfl. hafi þannig hafist við árslok 1992 og runnið út í árslok 1996. Ekkert hafi hindraði stefnanda í að leita fullnustu kröfu sinnar áður en fjögurra ára fyrnigarfresturinn rann út. Þessu til stuðnings er bent á eftirfarandi:
Í örorkumati læknanna Júlíusar Valssonar og Ragnars Jónssonar komi fram, að stefnandi hafi aðeins verið talin óvinnufær frá slysdegi til 1. sept. 1991, að stefnandi byrjaði í sjúkraþjálfun í ágúst 1991 sem lauk 1992, að einkenni stefnanda höfðu verið óbreytt um allangt skeið og að stefnandi hafði ekki verið í neinni læknismeðferð vegna þeirra eftir að sjúkraþjálfun lauk 1992, né notið neinnar sérstakrar lyfjameðferðar vegna þeirra. Komi og ekkert fram sem bendi til þess að einhver frekari meðferð hafi verið fyrirhuguð vegna slyssins, eða að stefnandi hafi haft einhverja ástæðu til að vænta frekari bata. Þá segi í matsgerðinni, að stefnandi telji ekki líklegt að slysið hafi haft áhrif á störf hennar, atvinnuval eða framtíðarhorfur. Sé þannig ljóst að heilsufarslegt ástand stefnanda hafi verið orðið stöðugt um ári eftir slysið og þá tímabært að láta meta örorku stefnanda eins og staðfest sé í álitum matslæknanna Ragnars og Júlíusar, sem hafi ekki verið hnekkt.
Stefnandi sem hafi verið 21 árs á slysdegi, víðförul og veraldarvön, geti ekki borið fyrir sig vanþekkingu á fyrningarlögunum, eða að hún "virðist ekki hafa verið kunnug rétti sínum til slíks örorkumats á sínum tíma" eins og Júlíus Valsson orði það. Það sé grundvallarregla í lögum, að vanþekking manna á lagareglum og réttarstöðu sinni komi ekki í veg fyrir að lögunum verði beitt. Þá séu staðhæfingar í stefnu þess efnis, að stefndi hafi sett fram kröfur um að beðið væri með að meta örorku stefnanda um árabil einfaldlega rangar og ósannaðar. Ekkert hafi verið því til fyrirstöðu, að stefnandi hæfist handa um að leita fullnustu kröfu sinnar þegar árið 1992 og ekki síðar en 1993. Kröfur stefnanda hafi því verið fyrndnar skv. fjögurra ára fyrningarreglu 99. gr. umfl., þegar stefnan í máli þessu var loks birt þann 21. júní 2000.
Loks sé ekki um það að ræða, að greiðslur stefnda, VÍS, á framkomnu tjóni stefnanda 1991-1992, svo sem lækniskostnaði og sjúkraþjálfun, feli í sér viðurkenningu á skyldu til að greiða einhverjar aðrar og frekari kröfur stefnanda vegna slyssins. Hafi stefndi VÍS aldrei viðurkennt greiðsluskyldu á öðru og meiru en hann hafi þegar greitt og aldrei fallið frá rétti sínum til að bera fyrir sig fyrningu á öðrum kröfum stefnanda, heldur þvert á móti, sbr. fyrirvarann í matsbeiðninni. Greiðslur stefnda, VÍS, breyti heldur engu um upphaf fjögurra ára fyrningarfrestsins né teljist geta rofið hann. Þá sé rangt sem segi í stefnu, að tjónsútreikningar á örorku stefnanda hafi verið unnir í samráði við stefnda og stefndi fyrst neitað bótaskyldu, þegar þeir lágu fyrir. Stefndi hafi ekkert haft með tjónsútreikninga stefnanda að gera, en hafði löngu áður, eða þá þegar er matsbeiðnin var samin þann 2. apríl 1997 haft uppi fyrningarvörn við hugsanlegum bótakröfum, sbr. fyrirvarann á matsbeiðninni. Að öllu framangreindu virtu ætti að vera ljóst að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Verði ekki fallist á sýknukröfu krefjast stefndu stórfelldrar lækkunar á stefnukröfum. Fari þá um ákvörðun bótafjárhæða eftir þeim reglum er giltu áður en skaðabótalög nr. 50/1993 tóku gildi.
Kröfu um tímabundið tekjutjón kr. 148.200 mótmæla stefndu sem rangri og ósannaðri. Um sé að ræða áætlað tjón en skv. dómvenju beri aðeins að bæta raunverulegt og sannað vinnutekjutap, sbr. t.d. H 1995:1727 og H 1996:503. Stefndi hafi greitt stefnanda vinnutekjutap á sínum tíma og sé frekara tjón ósannað.
Stefndu mómæla sömuleiðis alfarið kröfu um bætur vegna varanlegs tekjutaps. Fyrir liggi samkvæmt örorkumatinu að stefnandi muni ekki verða fyrir neinu varanlegu tekjutapi af völdum slyssins, en fjárhagsleg varanleg örorka hennar sé metin 0% og læknisfræðileg örorka aðeins 3%. Um fjártjón sé því ekki að ræða.
Krafa um töpuð lífeyrisréttindi kr. 84.900 eigi að sama skapi engan rétt á sér. Ekkert liggi fyrir um að stefnandi muni vegna slyssins tapa nokkrum lífeyrisréttindum frekar en verða fyrir varanlegu vinnutekjutapi vegna slyssins.
Kröfu stefnanda um miskabætur, kr. 150.000 er einnig mótmælt, aðallega sem þegar bættri og til vara sem of hárri og í ósamræmi við dómvenju. Gætu miskabætur í hæsta lagi numið kr. 30.000 og hafi stefnandi þegar fengið greitt sem því svarar.
Loks er vaxtakröfum stefnanda mótmælt, en eldri vextir en 4 ára frá birtingu stefnu séu fyrndir skv. 2. tl. 3. gr. 1. nr. 14/1905, sbr. og t.d. H 1996:765, og dráttarvextir eigi ekki rétt á sér fyrr en frá dómsuppsögudegi.
IV
Svo sem fyrr er rakið, varð stefnandi fyrir áðurgreindu slysi hinn 22. júní 1991. Stefnandi leitaði til stefnda VÍS um bætur og bætti stefndi, VÍS, stefnanda tjón vegna tekjutaps, svo og lækniskostnað og kostnað vegna sjúkraþjálfunar. Fóru síðustu greiðslur fram þann 23. mars 1992.
Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fyrnast allar bótakröfur á hendur þeim, sem ábyrgð ber, og vátryggingafélagi, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, er kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess kost að leita fullnustu hennar.
Stefnandi heldur því fram að stefndi, VÍS, hafi talið að ekki myndi liggja fyrir hvort hún myndi hljóta varanlegt örorkutjón af völdum slyssins fyrr en í fyrsta lagi 3-5 árum eftir slysið og því ekki tímabært að meta örorku hennar fyrr. Þórir E. Gunnarsson, starfsmaður stefnda, VÍS, sem gaf skýrslu fyrir dóminum, kannaðist ekki við að sú krafa hefði verið gerð að hálfu stefnda. Kvað hann það enda ekki hafa verið tímabært að stefnandi færi í örokumat er hún síðast kom til félagsins í mars 1992. Hins vegar kannaðist hann við, að það hafi í vissum tilvikum verið lagt til af hálfu félagsins að fresta uppgjöri, en kvað það aldrei hafa verið gert nema örorkumat lægi fyrir. Verður því að telja ósannað að stefndi, VÍS, hafi lagt til að stefndi færi ekki í örokumat fyrr en 3-5 árum eftir slysið.
Í örorkumati læknanna Júlíusar Valssonar og Ragnars Jónssonar kemur fram að stefnandi hafi ekki verið í meðferð vegna einkenna af völdum slyssins eftir að sjúkraþjálfun lauk árið 1992 og að hún hafi ekki notið neinnar sérstakrar lyfjameðferðar vegna þeirra. Þá liggur frammi í málinu álit sömu lækna um að heilsufarslegt ástand stefnanda hafi verið orðið stöðugt um ári eftir slysið og þá tímabært að láta meta örorku hennar. Staðfesti Júlíus Valsson þetta álit sitt við meðferð málsins fyrir dóminum. Ekkert er fram komið í málinu er hnekkir áliti llæknanna. Verður því við það að miða að ástand stefnanda hafi verið orðið stöðugt og tímabært hafi verið að meta örorku hennar um ári eftir slysið, eða um mitt ár 1992. Þar sem ekki þykir unnt að fullyrða að örorkumati og öðrum undirbúningi kröfugerðar stefnanda hefði lokið til hlítar á árinu 1992, þó að strax um mitt árið hefði verið hafist handa við undirbúning hennar, þykir verða við það að miða að stefnandi hafi fyrst átt kost á að leita fullnustu kröfu sinnar á árinu 1993. Með hliðsjón af því þykir mega við það miða að fyrningarfrestur kröfu stefnanda samkvæmt ákvæðum 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hafi tekið að líða hinn 1. janúar 1994.
Í beiðni um örorkumat dagsettri 2. apríl 1997 er gerður fyrirvari um fyrningu af hálfu stefnda. Samkvæmt því verður ekki fallist á með stefnanda að í þáttöku stefnda, VÍS, í beiðni um örorkumat og greiðslu fyrir það hafi falist viðurkenning á kröfu stefnanda í skilningi 6. gr. laga nr. 14/1905 sem hafi slitið fyrningu kröfunnar. Þá verður heldur ekki fallist á að slík viðurkenning hafi falist í áritun starfsmanns stefnda, VÍS, á beiðni um útreikning á örorkutjóni, en starfsmaðurinn, Þórir E. Gunnarsson, bar fyrir dóminum að með árituninni hafi hann verið að samþykkja að forsendur fyrir útreikningnum væru réttar.
Svo sem áður greinir verður við það miðað að fyrningarfrestur í máli þessu hafi byrjað að líða 1. janúar 1993, en málið var ekki höfðað fyrr en með stefnu birtri 21. júní 2000. Var krafa stefnanda á hendur stefndu þá fyrnd samkvæmt ákvæði 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Verða stefndu því þegar af þeirri ástæðu sýknuð af kröfum stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Þorgerður Erlendsdóttir, héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndu, Birna Jónsdóttir og Vátryggingafélag Íslands hf., eru sýkn af öllum kröfum stefnanda, Marion Elizabeth Scobie, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.