Hæstiréttur íslands

Mál nr. 423/2005


Lykilorð

  • Kaup
  • Gagnkrafa
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
  • Áfrýjun


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. mars 2006.

Nr. 423/2005.

Fjölnir ehf.

(Gunnar Sólnes hrl.)

gegn

Elíasi Hákonarsyni

(Erla S. Árnadóttir hrl.)

 

Kaup. Gagnkröfur. Vanreifun. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi. Áfrýjun.

F ehf. greiddi E hluta af kaupverði hlutabréfa hans í félaginu og tilkynnti honum að afganginum hefði verið skuldajafnað við kröfu þess á hendur honum. E kannaðist ekki við að hann skuldaði félaginu og krafði það um greiðslu eftirstöðvanna. Í héraðsdómi var fallist á einn kröfulið í gagnkröfum F ehf. á hendur E en þremur liðum var vísað frá dómi. Félagið kærði frávísunina ekki til Hæstaréttar og gat gagnkrafan að því leyti ekki komið til endurskoðunar. Þar sem sýknukrafa F ehf. studdist eingöngu við þá málsástæðu að skuld þess hefði mátt skuldajafna við umræddar kröfur var héraðsdómur staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. september 2005 og krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsaðilar sömdu um kaup á hlutabréfum í áfrýjanda. Skyldi stefndi selja áfrýjanda bréf sín fyrir 4.050.000 krónur og hann greiða kaupverðið 20. desember 2002. Greiðsla fór ekki fram þann dag, en 23. sama mánaðar greiddi áfrýjandi 1.571.286 krónur með tékka og sagði afganginum, 2.478.714 krónum, hafa verið skuldajafnað við kröfu sína á hendur stefnda. Stefndi kannaðist ekki við skuld við áfrýjanda og höfðaði mál þetta til greiðslu eftirstöðvanna. Svo sem í héraðsdómi greinir reisti áfrýjandi þar sýknukröfu sína á því að hann ætti gagnkröfu á hendur stefnda til skuldajafnaðar og væri sú krafa í fjórum liðum. Héraðsdómur tók einn kröfuliðinn til greina, skuld samkvæmt reikningi að fjárhæð 159.900 krónur vegna kaupa á tölvu, en vísaði öðrum liðum í gagnkröfu áfrýjanda af sjálfsdáðum frá dómi. Fyrir Hæstarétti reisir áfrýjandi sýknukröfu sína eingöngu á þeirri málsástæðu, sem hann hélt fram í héraði, að hann eigi gagnkröfu til skuldajafnaðar á hendur stefnda, sem nemi fjárhæð dómkröfu hans. Áfrýjandi kærði ekki til Hæstaréttar ákvæði héraðsdóms um frávísun þriggja liða í gagnkröfu hans. Getur það ekki komið til endurskoðunar við áfrýjun dómsins og verður því ekki felldur efnisdómur á gagnkröfu áfrýjanda að þessu leyti. Þar sem hann hefur ekki stutt sýknukröfu sína öðrum málsástæðum verður hinn áfrýjaði dómur að standa óraskaður.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Fjölnir ehf., greiði stefnda, Elíasi Hákonarsyni, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 1. júlí 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 7. júní s.l., hefur Elías Hákonarson, Huldugili 64, Akureyri, höfðað hér fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra með stefnu, birtri 10. júní 2004, á hendur Fjölni ehf., Fjölnisgötu 2 b, Akureyri.

Eru dómkröfur stefnanda þær, að stefnda verði dæmt til að greiða honum kr. 2.478.714 ásamt dráttarvöxtum af kr. 4.050.000 frá 14.11.2002 til 23.12.2002, en af kr. 2.478.714 frá þ.d. til greiðsludags.

Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og jafnframt að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

Í máli þessu er deilt um réttmæti gagnkrafna er hafðar eru uppi til skuldajafnaðar kröfu um eftirstöðvar kaupverðs hlutabréfa í stefnda.

I.

Stefnandi kveður málsatvik þau að hann hafi í félagi við Magnús Guðjónsson og fleiri stofnað félagið Fjölni ehf., stefnda í máli þessu.  Hafi tilgangur félagsins verið að annast alhliða byggingastarfsemi og rekstur af því tagi.  Kveðst stefnandi hafa verið stjórnarmaður og jafnframt eigandi að 15% hluta í félaginu allt fram að stjórnarfundi þann 12. apríl 2002, en á þeim fundi hafi hann samþykkt að ganga úr stjórn félagsins gegn því að stjórn stefnda nýtti sér forkaupsrétt sinn að hlut stefnanda í félaginu.  Kveður stefnandi að félaginu haf áður boðist tilboð í það að fjárhæð kr. 27.000.000.  Stefnanda hafi verið heimilað að leita tilboða í sinn hlut þar sem aðrir hluthafar hafi ekki kosið að selja.  Samkvæmt samþykktum stefnda eigi stjórn félagsins forkaupsrétt fyrir hönd félagsins að fölum hlutum.  Stefnandi hafi leitað boða í hlut sinn í félaginu.  Þann 10. maí 2002 hafði honum borist munnlegt tilboð í hlutinn.  Hafi stefnandi tilkynnt boðið þá þegar til stjórnar stefnda, sem hafi lagt fyrir stefnanda að afla boða með formlegum hætti í samræmi við samþykktir félagsins.  Stefnanda hafi borist nýtt tilboð í hlut hans þann 28. maí 2002 frá Stefáni Gunnari Þengilssyni, sem hljóðað hafi upp á 5 milljónir króna fyrir 15% hlut stefnanda.  Stefnandi hafi tilkynnt stjórn stefnda um kauptilboð þetta með bréfi, dags. 29. maí 2002.  Magnús Guðjónsson hafi tilkynnt stefnanda með bréfi dags. 25. júlí 2002 f.h. stjórnar stefnda að stjórnin myndi ekki nýta sér forkaupsrétt sinn.  Þá hafi stefnanda, með bréfi dags. 13. september 2002, verið tilkynnt af Magnúsi Guðjónssyni að aðrir hluthafar myndu ekki nýta sér forkaupsrétt sinn að hlut stefnanda í stefnda.  Þann 14. nóvember 2002 hafi lögmaður stefnanda ritað Magnúsi Guðjónssyni framkvæmdastjóra stefnda bréf, þar sem þess hafi verið krafist að félagið greiddi stefnanda út 15% hlut hans, kr. 4.050.000 á grundvelli samkomulags er komist hafði á fundi stjórnar félagsins þann 12. apríl 2002.  Krafa þessi hafi verið ítrekuð með símbréfi þann 5. desember 2002 og síðan símleiðis þar sem tilkynnt hafi verið að Gunnar Sólnes hrl. myndi annast málið fyrir hönd félagsins.  Af þeirri ástæðu hafi lögmaður stefnanda sent Gunnari fyrirspurn í tölvubréfi, dags. 19. desember 2002.  Með tölvupóstsendingu lögmanns stefnda, dags. 20. desember 2002 hafi stefnda fallist á kaupin á hlut stefnanda og tilkynnt að kaupverðið yrði greitt þann dag beint til stefnanda.  Hinn 23. desember 2002 hafi stefnanda verið greitt með tékka kr. 1.571.286 og honum tjáð að mismunurinn hefði verið tekinn upp í skuldir hans við félagið.  Kveðst stefnandi hafa mótmælt því þar sem ekki hafi verið fyrir hendi neinar skuldir hans við félagið.

II.

Ágreiningslaust er með aðilum að komist hafi á samningur um kaup á téðum skuldabréfum fyrir kr. 4.050.000 og að stefnda hafi þegar greitt stefnanda kr. 1.571.286 þannig að eftir standi stefnufjárhæðin.

Stefnda byggir hins vegar sýknukröfu sína á því að umsamið kaupverð sé að fullu greitt með framangreindri peningafjárhæð og að öðru leyti með skuldajöfnuði krafna stefnda á hendur stefnanda, sem hann sundurliðar þannig:

1.        Skuld skv. viðskiptareikningi kr. 218.833.

2.        Skuld skv. reikningi frá Pennanum kr. 159.900.

3.        Skuld v/veltugjalda á Viðskiptanetinu h.f. kr. 208.048.

4.        Skuld á Viðskiptanetinu kr. 1.891.933.

eða samtals kr. 2.478.714, sem komið hafi til frádráttar á kaupverði stefnda og eignarhluta stefnda í Fjölni ehf.

Kveðst stefnda byggja kröfur sínar á reikningsyfirlitum, sem unnin séu upp úr bókhaldi stefnda og viðskiptanetsins og liggja frammi í málinu á minnisblaði endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte dagsettu 2. desember 2004.

III.

Stefnandi véfengir réttmæti reikningsyfirlitanna og telur þau í veigamiklum atriðum röng.  Krefst hann því sýknu af gagnkröfunum.

Í þinghaldi þann 11. nóvember 2004 lagði stefnandi fram bókun þar sem hann skoraði á stefnda að leggja fram m.a. gögn úr bókhaldi stefnda er staðfestu yfirlit viðskiptanetsins yfir viðskipti við stefnda 1999 – 2002 svo og fylgiskjöl er lægju til grundvallar fjárhæð kr. 3.215.000, sem á framlögðu yfirliti sé talin sala stefnanda gegnum Viðskiptanetið á vegum stefnda.  Þá skoraði stefnandi á stefnda að leggja fram reikning 2X ehf. útgefnum á árunum 1999/2000 á hendur stefnda fyrir timbur sem stefnandi telur sig hafa lagt stefnda til og færa hafi átt inn á viðskiptanetið sem greiðslu til stefnanda.  Þá skoraði stefnandi á stefnda að leggja fram fylgiskjöl með nánar tilgreindum 4 færslum á viðskiptareikningi stefnanda.

Í þinghaldi 6. janúar 2005 lagði stefndi fram yfirlit þar sem hann telur koma fram greiðsla kr.162.072-vegna kaupa á tölvu fyrir stefnanda.  Þá lagði hann fram ljósrit af kvittun sýslumannsins á Akureyri til stefnanda fyrir greiðslu á kr. 11.074- svo og ljósrit af launaseðlum stefnanda vegna launagreiðslna til hans frá 8. júní 2001 til 4. janúar 2002. þar sem orlof er samtals reiknað kr. 236.572- og einnig ljósrit af þremur launaseðlum stefnanda öllum dags. 3. ágúst 2001 þar sem stefndi telur koma fram að stefnandi hafi fært desember uppbót sem yfirvinnu andstætt greiðslum til annarra starfsmanna auk þess sem hann hafi greitt sér kr. 20.000- umfram aðra starfsmenn.  Þá lagði hann fram ljósrit af millifærslum og úr færslubók úr bókhaldi stefnda ásamt 9 launaseðlum starfsmanna stefnda sem hann telur sýna hvernig allir starfsmenn hafi fengið greidd fyrirfram laun kr. 25.000- hver. Sú fjárhæð hafi verið dregin frá öllum starfsmönnunum nema stefnanda eins og launaseðlarnir beri með sér.

Stefndi hefur að öðru leyti ekki orðið við áskorun stefnanda um framlagningu fylgiskjala, hvorki vegna viðskiptareiknings stefnanda né viðskipta hans við viðskiptanetið.

Vitnið Ragnar Jóhann Jónsson endurskoðandi skýrir svo frá að starfsmenn frá fyrirtæki hans hafi borið færslur reikningsyfirlitanna á minnisblaðinu við fylgiskjöl og sannreynt að þær stöfuðu frá stefnanda.  Þá kveður vitnið að greint hefði verið á milli úttekta stefnanda á viðskiptanetinu í þágu hans sjálfs og vegna stefnda.  Vitnið segir að fylgiskjöl hafi legið að baki færslum á viðskiptareikning stefnanda en færslur á viðskiptanetið samkvæmt korti hafi ekki byggst á fylgiskjölum um viðskiptin.  Á vitninu er að skilja að reikningsyfirlitin á minnisblaðinu séu unnin af starfsmanni stefnda út úr bókhaldi stefnda og viðskiptanetsins.  Um einstakar færslur kveðst vitnið ekki geta borið þar sem starfsmaður hans hafi séð um að skoða fylgiskjölin

Stefnandi skýrir svo frá að ýmsir liðir á viðskiptayfirlitinu séu sér óviðkomandi.  Tilgreinir hann sérstaklega greiðslu á vsk. til sýslumanns kr. 11.074 sem hann kveðst ekki kannast við.  Þá kveður stefnandi og færslu reiknings Húsasmiðjunnar vegna Frostagötu 4 kr. 87.242 sér óviðkomandi.  Þá segir hann færslu merkta Elías v/trygging á Bens kr. 86.978- eiga að greiðast af stefnda og sé sér óviðkomandi.  Er sú staðhæfing stefnanda studd vætti Stefáns Þengilssonar, sem mun hafa verið kaupandi bifreiðar þessarar eins og nánar kemur fram í framburði stefnanda.  Þá gerir stefnandi athugasemdir við færslu orlofs 2001 f inn á reikninginn kr. 236.572-, og Lífeyrissjóðsgjalds 2001 kr. 16.656- út af reikningnum.  Þá kannast stefnandi ekki við færslur vegna tvígreiddar orlofsuppbótar og fyrirfram greiddra launa á viðskiptayfirlitinu.þessar hér fyrir dóminum.

Stefnda hefur eigi orðið við áskorun stefnanda um að leggja fram fylgiskjöl þau er viðskiptayfirlitið er byggt á, sbr. 67. gr. laga nr. 91,1991.

Af framburði stefnanda hér fyrir dómi má ráða að krafa stefnda skv. viðskiptayfirlitinu geti að einhverju leyti átt við rök að styðjast.  Eins og krafa þessi liggur hér fyrir dóminum og með vísan til þess sem að framan er rakið þykir hún það vanreifuð að vísa beri henni frá dómi ex officio.

Krafa stefnda vegna skulda stefnanda á viðskiptanetinu h.f. kr. 1.891.933 er byggð á framangreindu minnisblaði og hefur vitnið Ragnar Jónsson, endurskoðandi, staðfest að um sé að ræða samantekt á úttektum stefnanda hjá viðskiptanetinu sem unnið hafi verið af starfsmanni stefnda.

Stefnandi gerir hér fyrir dóminum margar athugasemdir við yfirlit þetta og tilgreinir allmargar færslur sem hann telur sér óviðkomandi sem tilheyri stefnda.  Kveðst hann m.a. í sumum tilvikum hafa notað kort sitt til kaupa á varningi fyrir stefnda.  Þá kveður hann vanta inngreiðslu kr. 3.000.000- sem koma hafi átt inn viðskiptanetið frá stefnda vegna timburs sem hann hafi lagt fyrirtækinu til en hann hafi eignast í skiptum fyrir bifreið.  Telur hann sig eiga inneign á viðskiptanetinu þegar tekið sé tillit til þessarar greiðslu.

Stefndi hefur hvorki lagt fram fylgiskjöl þau er samantektin byggist á né gögn þau er samantektin er unnin upp úr þrátt fyrir áskorun stefnanda um það.  Með vísan til framangreinds verður ekki hjá því komist að vísa kröfu þessari frá dómi ex officio sökum vanreifunar

Stefndi hefur lagt fram ljósrit reiknings vegna kaupa á tölvu hjá Pennanum kr. 159.900, sem hann krefur stefnanda um.  Stefnandi hefur hér fyrir dóminum viðurkennt að tölvan hafi verið keypt til einkanota sinna og að hann hafi haft hana með sér er hann lauk störfum hjá stefnda.  Þá hefur stefnandi hér fyrir dóminum ekki véfengt að verð tölvunnar sé rétt.  Ber að taka kröfu þessa til greina til frádráttar kröfu stefnanda með kr. 159.900.

Með vísan til þess að krafa vegna veltugjalda á netinu kr. 208.048 er háð viðskiptum stefnanda við netið og þeirri kröfu er uppi er höfð vegna skuldar á viðskiptanetinu sem vísa ber er frá dómi þykir einnig verða að vísa þessum lið gagnkröfunnar frá dómi ex officio.

Er niðurstaða málsins þá sú að dæma ber stefnda til að greiða stefnanda kr. 2.318.814.

Stefndi hefur ekki í greinargerð sérstaklega mótmælt vaxtakröfu stefnanda en við munnlegan flutning málsins mótmælti hann kröfunni.  Þykja þau mótmæli of seint fram komin og verða því vextir dæmdir eins og krafist er.

Með vísan til framangreindrar niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 400.000-.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefnda, Fjölnir ehf., greiði stefnanda, Elíasi Hákonarsyni, kr. 2.318.814- ásamt dráttarvöxtum af kr. 3.890.100- frá 14.11.2002 til 23.12. s.á., en af kr. 2.308.814- frá þ.d. til greiðsludags.

Framangreindum gagnkröfum stefnda er vísað frá dómi ex. officio.

Stefnda greiði stefnanda kr. 400.000 í málskostnað.