Hæstiréttur íslands

Mál nr. 115/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Miðvikudaginn 11

 

Miðvikudaginn 11. mars 2009.

Nr. 115/2009.

Ákæruvaldið

(Karl Vilbergsson, aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. mars 2009 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 1. apríl 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 1. apríl 2009 kl. 16.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2009, nr. R-45/2009, hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag kl. 16, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Í dag hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu höfðað opinbert mál á hendur kærða með útgáfu ákæru, sem telji samtals 16 ákæruliði.  Í ákæruskjali sé honum gefið að sök fjölmörg afbrot, einkum auðgunarbrot og önnur fjármunabrot, þ. á m. fjölda nytjastulda á bifreiðum og þjófnaðarbrota, sem varði mikla fjármuni.  Brot hans hafi verið samfelld og drýgð nær samfellt frá því í ágúst 2008 til febrúar 2009. 

Kærði eigi að baki töluverðan sakarferil.  Þann 8. október 2007 hafi hann verið dæmdur í 3 mánaða fangelsisrefsingu fyrir ýmis auðgunarbrot. Þann 21. desember 2007 hafi hann verið dæmdur í 8 mánaða fangelsisrefsingu fyrir ýmis auðgunarbrot. Þá hafi kærði hlotið 2 mánaða fangelsisdóm þann 9. maí 2008 vegna ýmissa brota þar á meðal auðgunarbrota. Hann hafi hlotið reynslulausn 10. maí 2008 í 1 ár á eftirstöðvum refsingar 137 daga. Það sé því ljóst að með þeim brotum sem kærði sé nú kærður fyrir þá hafi hann rofið þessa reynslulausn.

Með vísan til brotaferils kærða sé það mat lögreglustjóra að hann muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus. 

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga

Með ákæru, útgefinni 4. mars 2009, er kærða gefin að sök brot gegn 231. gr., 26. kafli og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65,1974 og brot gegn ákvæðum 45. og 45. gr. a. og 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Eins og rakið hefur verið hefur kærði verið í afbrotum frá því í ágúst síðast liðnum.  Var ákæra gefin út í dag á hendur kærða, þar sem honum er gefið að sök mörg brot á almennum hegningarlögum og brot á lögum um ávana- og fíkniefni sem og umferðarlagabrot frá því í ágúst 2008 til byrjun febrúar 2009. Er því fallist á það með lögreglu að hætta sé á að kærði haldi áfram brotum hafi hann ferðafrelsi.  Þá er og til þess að líta að hann hefur rofið skilorð reynslulausnarinnar frá 10. maí 2008.  Er því uppfyllt skilyrði c- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Hann verður því úrskurðaður í gæsluvarðhald eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði en ekki þykir ástæða til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 1. apríl 2009 kl. 16.00