Hæstiréttur íslands
Mál nr. 408/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 28. júlí 2008. |
|
Nr. 408/2008. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X(Helgi Jóhannesson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103 gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. ágúst 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að hann verði látinn sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds. Að því frágengnu krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 23. júlí 2008.
Ár 2008, miðvikudaginn 23. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Ingveldi Einarsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um dómurinn úrskurði að X sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. ágúst 2008, kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar stórfellt fíkniefnabrot, innflutning á fíkniefnum frá Hollandi gegnum Danmörku til Íslands. Þann 10. júní sl. hafi hollenski ríkisborgarinn Y verið handtekinn við komu til Íslands, Seyðisfjarðar, með Norrænu. Í húsbíl Y hafi fundist tæp 200 kg af ætluðum fíkniefnum, mest hass. Y hafi játað aðild sína og við rannsókn málsins hafi einnig verið fengnir úrskurðir héraðsdóms varðandi síma þá sem Y hafi verið með og símanúmer þeim tengdum. Við skoðun þeirra gagna hafi komið fram ítrekuð samskipti við aðila sem Y segi vera Íslending kallaðan ,,Kimma“, sem hann hafi afhent efnin hér á landi. Y segi við yfirheyrslur hjá lögreglu að ,,Kimmi“ sé sá aðili sem eigi fíkniefnin og hafi beðið hann að flytja þau inn til landsins oftar en einu sinni. Y hafi greint svo frá við skýrslutökur að hann hafi m.a. hitt „Kimma“ í sams konar ferð fyrir ári síðan og gert grein fyrir ferð sinni um landið á sínum tíma, sem hann kvað hafa verið farna í sama tilgangi og nú, þ.e. að flytja inn fíkniefni og að þá hafi hann gert það með sömu verknaðaraðferð og svipað magn fíkniefna hafi verið flutt inn. Allar upplýsingar lögreglu bendi til að um sé að ræða X, og hafi Y staðfest þann grun lögreglu með því að benda á X við myndsakbendingu hjá lögreglu sem umræddan ,,Kimma.“
Með úrskurði dómsins nr. R-317/2008 hafi símafyrirtækjum verið gert skylt að veita lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu símaupplýsingar um númerið [...] sem sé skráð á X og hafi rannsókn á þeim símagögnum farið fram. Samkvæmt bráðabirgðagögnum um umræddar símaupplýsingar sé ljóst að X hafi ferðast austur á land á nákvæmlega sömu tímum og Y hafi komið til landsins og sama eigi við um staðsetningar á landinu, sem Y kveðst hafa verið með ,,Kimma” á. Við fyrstu yfirheyrslur hafi X neitað alfarið að þekkja Y og að hafa hitt hann hér á landi. Þegar þessar símaupplýsingar hafi verið bornar undir X þá hafi hann kvaðst bara ferðast mikið um landið en hafi ekki getað skýrt ferðir sínar nánar en það. Við yfirheyrslu hjá lögreglu þann 16. júlí 2008 hafi X breytt svo framangreindum framburði sínum og kvaðst hafa hitt Spánverja að nafni ,,Rapido” þann 5. júlí 2007 á Seyðisfirði. Þessi Spánverji hafi verið á rauðum húsbíl að sögn X og kvaðst X hafa hitt hann vegna samkomulags sem hann hafði gert við spænska ferðaskrifstofu um að fylgja hópi spænskra ferðamanna um Ísland, en þessi Spánverji hafi bara komið einn til landsins. Lögregla hafi reynt að fá staðfestingu á þessum framburði X en umrædd ferðaskrifstofa finnist hvergi á Spáni. Auk þess sem fram hafi komið önnur gögn sem vefengja þennan framburð X.
Sambærileg skoðun hafi farið fram á símanúmerinu [...] sem Y kvað við yfirheyrslur vera símanúmer ,,Kimma” og við þá skoðun hafi komið í ljós að símarnir [...] (sem er skráður á X) og [...] hafi verið í fjölmörg skipti staðsettir á sama stað á landinu en í engum tilfella hafi þeir verið á mismunandi stöðum. Þá sé það einnig líkt með símunum að þeir beri báðir sömu kveðju í talhólfinu, þ.e. með rödd sem talin sé vera rödd X. Við skoðun á símaupplýsingunum hafi einnig verið að finna samskipti við þýskt par sem hafi komið til landsins í haustbyrjun 2007 á húsbíl með ferjunni Norrænu og talið sé að þau hafi komið í sama tilgangi og Y hafi gert, þ.e. til að flytja inn fíkniefni til landsins að beiðni X. Við rannsókn hafi einnig komið í ljós að símaupplýsingar sýni að hringt hafi verið úr símanúmeri ,,Kimma” í umrætt par, en við yfirheyrslur hjá lögreglu hafi X viðurkennt að hafa hitt umrætt par hér á landi sumarið 2007 í þeim tilgangi að sýna þeim landið. Réttarbeiðni hafi verið send til Þýskalands þess efnis að óskað sé eftir að parið verði yfirheyrt um samskipti sín við X og Y og ferð þeirra til Íslands. Sambærileg réttarbeiðni hafi verið send til Spánar vegna málsins, en við rannsókn símagagna hafi komið í ljós að þann 23. ágúst 2007, eða daginn sem Y hafi farið frá Íslandi eftir fyrsta innflutning fíkniefna, hafi sama spænska símanúmerið verið í samskiptum við síma X [...] kl. 13.32 og sýni símagögn stutt samtal. Sama spænska númer hafi svo verið í samskiptum við síma Y kl. 13:34, en símagögn sýni að ekki hafi verið svarað. Að lokum sé hringt úr sama spænska númeri í númer ,,Kimma” [...]. Ljóst sé að eigandi umrædds spænska númers sé í tengslum við bæði Y, X og ,,Kimma.” Réttarbeiðni hafi verið send til Spánar þess efnis að óskað sé að skráður eigandi númersins verði yfirheyrður um þessu samskipti sín. Nauðsynlegt sé því að X sæti gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna þar til yfirheyrslum sé lokið í Þýskalandi og á Spáni.
Skoðun á fjármálum X sýni að X sendi umtalsvert fé til aðila í Þýskalandi þann 19. nóvember 2007 eða um 25.000,00 Evrur. Sé það grunur lögreglu að hér sé um að ræða peninga sem ætlaðir eru til þess að fjármagna fíkniefnakaup erlendis frá og óskað hafi verið aðstoðar þýskra yfirvalda við rannsóknina hvað þetta varði. Fyrsta skoðun á fjármálum X sýni að svokallaður neikvæður lífeyrir X fyrir árið 2007 nemi kr. 15.500.000 og kr. 22.000.000 það sem af er ársins 2008. Neikvæður lífeyrir sé það fjármagn eða óútskýrðar tekjur sem ekki sé hægt að rekja til launa eða lögmætrar atvinnustarfsemi. Upplýsingar lögreglu bendi til þess að X sé með reikninga erlendis þar sem hann geymi fjármuni, t.d. hjá Kaupþingi banka í Lúxemburg og vinni lögreglan nú í því að fá heimild til þess að aflétta bankaleynd yfir umræddum reikningum.
X þyki vera undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti. Meint aðild X sé talin varða skipulagningu og fjármögnun fíkniefnainnflutningsins og dreifingu og sölu fíkniefnanna hér á landi. X hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins síðan 2. júlí sl. en þá hafi honum verið gert með úrskurði héraðsdóms nr. R-346/2008 að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 103. gr. laga nr. 19,1991 um meðferð opinberra mála til dagsins í dag. Hafi sá úrskurður verið staðfestur með dómi Hæstaréttar nr. 361/2007. Nauðsynlegt sé að upplýsa nánar um einstaka verknaðarþætti hinna grunuðu og um meinta aðild X að brotinu. Ekki sé fyrir það loku skotið að fleiri eigi aðild að umræddum innflutningi og sé rannsókn á samskiptum X við meinta samverkamenn sem kunni að tengjast málinu í fullum gangi. Rannsókn málsins miði áfram hvað varðar hlut X. Málið sé talið umfangsmikið og framundan séu frekari yfirheyrslur af X vegna málsins. Frekari gagnaöflun og gagnaúrvinnsla sé framundan sem skýrt getur frekar aðdraganda brotsins. Beðið sé gagna sem óskað hafi verið eftir frá erlendum lögregluyfirvöldum, en lögreglan njóti aðstoðar erlendra yfirvalda við rannsókn málsins. Upplýsa þurfi hvar, hvenær og hvernig fíkniefnunum hafi verið komið fyrir í bifreiðinni og hverjir hafi komið þeim fyrir. Nauðsynlegt sé að upplýsa nánar um hvernig fjármögnun brotsins hafi farið fram, en sterkur grunur lögreglu sé fyrir því að X hafi fjármagnað umræddan innflutning með smygli fíkniefna til landsins á árinu 2007 og sölu og dreifingu hér á landi. Nauðsynlegt sé að rannsaka nánar fjármál X og fjármálatengsl við aðra með tilliti til eignamyndunar og notkun X á fjármunum á tímabilinu frá árinu 2006 til 2008, en talið sé að X flytji inn og selji fíkniefni í hagnaðarskyni og sér og öðrum til framfærslu. Framundan sé frekari gagnaöflun með tilliti til fjármálaumsvifa X. Fyrir dyrum standi umfangsmikil rannsókn og gagnaúrvinnsla sem talið sé að geti skýrt fjárhagslegan ávinning og afrakstur af meintum brotum X og tengsl X við ætlaða vitorðsmenn, en X sé grunaður um þátttöku í skipulögðum innflutning fíkniefna. Nauðsynlegt sé að X sæti gæsluvarðhaldi, en ljóst sé að gangi X laus geti hann sett sig í samband við meinta vitorðsmenn sem gangi lausir eða þeir geti sett sig í samband við hann eða X geti komið undan gögnum með sönnunargildi sem ekki hafi verið lagt hald á. Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að X gangi laus.
Verið sé að rannsaka ætluð brot gegn fíkniefnalöggjöfinni og megi ætla að ef þau sönnuðust, þá myndu þau geta varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála.
Kærði er undir rökstuddum grun um aðild að broti gegn. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað getur allt að 12 ára fangelsi. Kærði hefur neitað sök, en til rannsóknar er umfangsmikið brot á fíkniefnalöggjöfinni og rannsókn þess enn á frumstigi. Þá hefur kærði neitað því að þekkja eða haft nokkur tengsl við Y, sem flutti fíkniefnin hingað til lands, en ýmislegt í rannsóknargögnum málsins bendir til hins gagnstæða. Af gögnum málsins er ljóst að frekari gagnaöflun og gagnaúrvinnsla er framundan sem skýrt getur frekar aðdraganda brotsins. Lögregla bíður nú gagna sem óskað hefur verið eftir frá erlendum lögregluyfirvöldum, og nýtur aðstoðar erlendra yfirvalda við rannsókn málsins. Fallist er á að nauðsynlegt sé að rannsaka nánar fjármál kærða og fjármálatengsl hans við aðra með tilliti til eignamyndunar og notkunar kærða á fjármunum á tímabilinu frá árinu 2006 til 2008. Þá er fallist á með lögreglu að kærði geti sett sig í samband við meinta vitorðsmenn sem gangi lausir eða þeir geti sett sig í samband við hann eða kærði geti komið undan gögnum með sönnunargildi sem ekki hafi verið lagt hald á. Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus.
Er fallist á með lögreglu að brýnir hagsmunir séu fyrir því að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til rannsóknar, enda verður að telja hættu á að hann geti hann spillt fyrir rannsókn málsins gangi hann laus. Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna og a- liðar 1. mgr. 103. gr. um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, er krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tekin til greina, eins og hún er fram sett, en ekki þykir ástæða til að marka henni skemmri tíma og farbann ekki það úrræði sem tryggt geti rannsóknarhagsmuni til hlítar.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. ágúst 2008, kl. 16.00.