Hæstiréttur íslands

Mál nr. 17/2001


Lykilorð

  • Banki
  • Gjaldtaka
  • Ríkisábyrgð
  • EES-samningurinn
  • Ráðgefandi álit
  • EFTA-dómstóllinn


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. júní 2001.

Nr. 17/2001.

Lánasýsla ríkisins

(Sveinn Sveinsson hrl.)

gegn

Íslandsbanka FBA hf.

(Karl Axelsson hrl.)

 

Bankar. Gjaldtaka. Ríkisábyrgð. EES-samningurinn. Ráðgefandi álit. EFTA-dómstóllinn.

Aðila greindi á um það hvort Í bæri að greiða ríkisábyrgðargjald af lánum teknum hjá Norræna fjárfestingarbankanum eins og sá síðarnefndi væri erlendur aðili í skilningi laga um ríkisábyrgðir. Hæstiréttur féllst á það með héraðsdómi að túlka bæri íslenska ákvæði samningsins um stofnun bankans á þá leið að réttarstaða bankans í einstökum aðildarríkjum skyldi vera sú sama og sambærilegra innlendra lánastofnana. Þótti ekki verða miðað við það að bankinn væri erlendur í skilningi laga um ríkisábyrgðir. Þessi niðurstaða var talin leiða til þess, að ekki þyrfti að fjalla um þá málsástæðu Í, að umdeilt ákvæði laga um ríkisábyrgðir samrýmdist ekki reglum EES-samningsins, en Í hafði farið fram á að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um þetta atriði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. janúar 2001. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 26.732.156 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. júlí 1995 til greiðsludags. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem greinir í héraðsdómi snýst ágreiningur málsaðila um það, hvort stefnda, og áður Iðnlánasjóði, sem lántakanda hafi verið skylt að greiða ríkisábyrgðargjald af lánum teknum hjá Norræna fjárfestingarbankanum í Helsinki eins og sá síðarnefndi væri erlendur aðili í skilningi 1. mgr. 8. gr. laga nr. 37/1961 um ríkisábyrgðir, sbr. lög nr. 65/1988. Í héraðsdómi eru raktar málsástæður aðila um þetta ágreiningsefni, en um málsatvik og fjárhæðir er ekki ágreiningur.

Ríkisstjórnum Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar var heimilað með lögum á hverju þjóðþinganna fyrir sig árið 1976 að fullgilda samning landanna um stofnun Norræna fjárfestingarbankans, sem undirritaður hafði verið í Kaupmannahöfn 4. desember 1975 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku. Hlutu ákvæði samningsins þar með lagagildi í hverju landanna og skyldu textarnir allir vera jafngildir.

Í samningnum um stofnun bankans og í samþykktum fyrir hann er markmið hans sagt vera að veita lán og ábyrgðir með bankakjörum og samkvæmt almennum þjóðhagslegum sjónarmiðum með það í huga að hrinda í framkvæmd fjárfestingaráformum og efla útflutning í þágu Norðurlandaþjóða. Í stjórninni eiga sæta 10 menn, 2 frá hverju ríkjanna. Í 5. gr. íslenska texta samningsins segir:

„Bankinn skal njóta sömu réttinda í aðildarríkjum að samningnum og persónur að lögum, sem reka sambærilega starfsemi.

Bankinn skal undanþeginn hvers kyns greiðslu- og útlánaskilyrðum, sem koma í veg fyrir eða íþyngja bankanum við að standa við skuldbindingar sínar.

Eignir og tekjur bankans skulu vera undanþegnar allri beinni skattlagningu.

Bankinn skal undanþeginn stimpilgjöldum og gjöldum til opinberra aðila vegna lánssamninga, þar sem bankinn er skuldari. Ef slík gjöld eru lögð á, skulu þau endurgreidd eftir beiðni.“

Svo sem greint er í héraðsdómi er ekki fullt samræmi milli íslenska textans annars vegar og þeirra dönsku, norsku og sænsku hins vegar um orðalag þessa ákvæðis. Ber að fallast á með héraðsdómi, að þegar litið sé til textans á dönsku, norsku og sænsku beri að túlka íslenska ákvæðið á þann veg að réttarstaða bankans í einstökum aðildarríkjum skuli vera sú sama og sambærilegra innlendra lánastofnana, enda þótt ljóst sé af framangreindu ákvæði að bankinn njóti forréttinda í hverju landanna svo sem með undanþágu frá sköttum og gjöldum. Vegna þessa og þegar virt er hlutverk bankans í hverju aðildarlandanna og í samstarfi þeirra, og þar sem lögin um hann eru sérlög og hljóta því að ganga framar almennum ákvæðum um innheimtu ríkisábyrgðargjalds í eldri og yngri lögum um ríkisábyrgðir, verður ekki við það miðað að bankinn sé erlendur aðili í skilningi 1. mgr. 8. gr. laga nr. 37/1961, eins og henni var breytt með lögum nr. 65/1988. Skuldbindingar gagnvart honum verða því ekki taldar falla undir ákvæðið. Þegar af þessari ástæðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Þarf þá ekki að fjalla um þá málsástæðu stefnda, að 8. gr. laga nr. 37/1961 samrýmist ekki reglum EES-samningsins, sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 2/1993. Hins vegar hafði stefndi tilefni til að fara fram á að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um þetta atriði.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðst sameiginlega eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, Lánasýsla ríkisins, greiði stefnda, Íslandsbanka FBA hf., samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2000.

I

Mál þetta, sem tekið var dóms, að loknum munnlegum málflutningi 22. september sl., var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 25. júní 1999. Málið var þingfest  29. sama mánaðar.

Stefnandi er Lánasýsla ríkisins f.h. Ríkisábyrgðasjóðs, kt. 530269-1679, Hverfisgötu 6, Reykjavík.

Stefndi er Íslandsbanki-FBA hf., kt. 550500-3530, Kirkjusandi, Reykjavík. 

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 26.732.156 krónur með dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 15. júlí 1995 af 1.629.647 krónum, frá 15. október 1995 af 3.366.285 krónum, frá 15. janúar 1996 af 5.195.247 krónum, frá 15. apríl 1996 af 7.022.665 krónum, frá 15. júlí 1996 af 8.939.407 krónum, frá 15. október 1996 af 10.931.641 krónu, frá 15, janúar 1997 af 12.911.253 krónum, frá 15. apríl 1997 af 14.845.633 krónum, frá 15. júlí 1997 af 16.754.136 krónum, frá 15. október 1997 af 18.617.839 krónum, frá 15. janúar 1998 af 20.503.247 krónum, frá 15. apríl 1998 af 21.903.216 krónum, frá 15. júlí 1998 af 23.273.645 krónum, frá 15. október 1998 af 24.616.845 krónum, frá 15. janúar 1999 af 25.934.463 krónum og frá 15. apríl 1999 af 26.732.157 krónum til greiðsludags. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 15. júlí 1996. Þá er krafist málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti eftir því sem við á að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi ásamt virðisaukaskatti. Til vara krefst stefndi þess að dráttarvextir reiknist ekki á tildæmda fjárhæð fyrr en frá dómsuppsögudegi og að málskostnaður verði felldur niður.

Málið er upphaflega höfðað gegn Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Í þinghaldi í málinu 6. september sl. upplýsti lögmaður stefnda að 15. maí 2000 hefði Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. sameinast Íslandsbanka hf. í nýju hlutafélagi sem beri nafnið Íslandsbanki-FBA hf. Í dóminum verður eftir atvikum fjallað um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og hinn sameinaða banka sem stefnda.

Málið var tekið til dóms 22. september sl. en síðan eru liðnar rúmar fimm vikur. Í þinghaldi nú í dag töldu lögmenn aðila og dómarinn óþarft að málið yrði flutt munnlega að nýju.

II

Óumdeild málsatvik

Í 8. gr. laga nr. 37/1961 um ríkisábyrgðir, svo sem henni var breytt með lögum nr. 65/1988, sagði að bankar, lánasjóðir, lánastofnanir, fyrirtæki og aðrir þeir aðilar, sem lögum samkvæmt nytu ábyrgðar ríkissjóðs, hvort sem hún byggðist á eignaraðild ríkisjóðs eða öðru, skyldu greiða ábyrgðargjald til ríkissjóðs af skuldbindingum sínum gagnvart erlendum aðilum. Ábyrgðargjald þetta skyldi greiða ársfjórðungslega og nema 0,0625% af höfuðstól gjaldskyldra skuldbindinga eins og hann væri að meðaltali á hverju gjaldtímabili. Í 9. gr. laganna var gjaldstofninn afmarkaður nánar.

Með lögum nr. 26/1976 var ríkisstjórninni veitt heimild til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um stofnun Norræna fjárfestingarbankans (NIB) milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, sem undirritaður hafði verið í Kaupmannahöfn 4. desember 1975 og prentaður var sem fylgiskjal með lögunum. Sagði í 2. gr. laganna að þegar samningurinn hefði verið fullgiltur, skyldu ákvæði hans hafa lagagildi hér á landi.

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 76/1987 um Iðnlánasjóð skyldi ríkissjóður Íslands ábyrgjast allar skuldbindingar Iðnlánasjóðs og greiða þær, ef eignir og tekjur sjóðsins hrykkju ekki til. Iðnlánasjóður greiddi framan af ríkisábyrgðargjald vegna skuldbindinga gagnvart NIB en hætti því á miðju ári 1995.

Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf., var stofnaður með lögum nr. 60/1997. Bankinn hóf starfsemi sem lánastofnun 1. janúar 1998 og tók sama dag yfir allar skuldbindingar Iðnlánasjóðs, Fiskveiðasjóðs Íslands og Iðnþróunarsjóðs. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 60/1997 ber ríkissjóður áfram ábyrgð á þeim skuldbindingum Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs sem ríkisábyrgð var á við stofnun bankans, allt þar til viðkomandi skuldbinding er að fullu efnd. Ábyrgð ríkisins breyttist ekki við sameiningu Fjárfestingabanka atvinnulífsins hf. og Íslandsbanka hf. 15. maí 2000.

Ný lög um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997, tóku gildi 1. janúar 1998. Ákvæði eldri laga um greiðsluskyldu ríkisábyrgðargjalds héldust óbreytt. Í 2. mgr. 6. gr. laganna var þó gerð sú breyting á skilgreiningu gjaldskyldra skuldbindinga umræddra aðila að ábyrgðargjaldið skyldi nema 0,0625% á ársfjórðungi af höfuðstól gjaldskyldra erlendra skuldbindinga og 0,0375% á ársfjórðungi af höfuðstól gjaldskyldra innlendra skuldbindinga.

Iðnlánasjóður greiddi ekki ríkisábyrgðargjald af skuldbindingum sínum gagnvart NIB frá gjalddaga 15. júlí 1995. Frá 1. janúar 1998 greiddi Fjárfestingarbanki atvinnulífsins ábyrgðargjald af skuldbindingum við NIB sem ríkisábyrgð var á og hann yfirtók 1. janúar 1998 eins og um væri að ræða skuldbindingar við innlendan aðila. Stefnandi hefur ekki sætt sig við þennan skilning og krafið stefnda um greiðslu ábyrgðargjalds vegna skulda sem bankinn yfirtók frá Iðnlánasjóði gagnvart NIB fyrir annars vegar tímabilið 15. júlí 1995 til 15. janúar 1998 eða 20.503.246 krónur auk dráttarvaxta. Einnig hefur stefnandi krafið stefnda um mismun á ábyrgðargjaldi af erlendum skuldbindingum og innlendum skuldbindingum vegna tímabilsins 14. apríl 1998 til 15. apríl 1999 eða 6.228.910 krónur auk dráttarvaxta. Samtals er því stefnukrafan 26.732.156 krónur.

III

Álit EFTA-dómstólsins

Lögmaður stefnanda lagði til í stefnu að leitað yrði álits EFTA-dómstólsins varðandi tiltekin álitaefni í málinu. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 1999 var ákveðið að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins varðandi túlkun á 4., 40., 42. og 61. gr. EES-samningsins. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar Íslands. Í dómi Hæstaréttar frá 13. janúar 2000 var fallist á að leita álits EFTA-dómstólsins en spurningum til dómstólsins fækkað úr þremur í eina. Eftirfarandi spurning var samkvæmt dómi Hæstaréttar lögð fyrir EFTA-dómstólinn með beiðni dagsettri 1. febrúar 2000.

"Er það samrýmanlegt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, einkum 4., 40., 42. og 61. gr. hans, að í landslögum ríkis sem aðild á að samningnum sé kveðið á um:

a.       Að lántakandi sem nýtur ábyrgðar ríkissjóðs skuli greiða ábyrgðargjald af lánum sem hann tekur hjá aðilum í öðrum aðildarríkjum samningsins en ekki af lánum sem hann tekur hjá innlendum aðilum?

b.       Að lántakandi sem nýtur ábyrgðar ríkissjóðs skuli greiða hærra ábyrgðargjald af lánum sem hann tekur hjá aðilum í öðrum aðildarríkjum samningsins en af lánum sem hann tekur hjá innlendum aðilum?"

EFTA-dómstóllinn gaf ráðgefandi álit 14. júlí 2000 og voru meginatriði þess svohljóðandi:

"Álit dómstólsins

13     Kjarni spurningarinnar frá Héraðsdómi Reykjavíkur er hvort EES-samningurinn, einkum 4, 40, 42 og 61 gr. hans, útiloki að aðilar sem njóta góðs af ríkisábyrgðum, þurfi að greiða hærri ábyrgðargjöld vegna lána frá lánveitendum í öðrum aðildarríkjum samningsins en vegna lána frá innlendum lánveitendum.

Skýring 40 gr. EES samningsins

14     Það er ein af meginreglum EES-samningsins að fjármagnsflutningar skuli vera frjálsir. Í 4. kafla samningsins er sett fram meginreglan um fjármagnsflutninga innan EES. Í 40. gr. samningsins segir:

          "Innan ramma ákvæða samnings þessa skulu engin höft vera milli samningsaðila á flutningum fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB eða EFTA­ríkjum né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð er notað til fjárfestingar. Í XII. viðauka eru nauðsynleg ákvæði varðandi framkvæmd þessarar greinar."

15     Í viðauka XII er vísað í tilskipun ráðsins 88/361/EBE frá 24. júní 1988 (hér eftir nefnd "tilskipun") um framkvæmd 67. gr. sáttmálans. Tilskipunin var í gildi á þeim tíma sem hér skiptir máli. Í 1. gr. hennar segir:

     "Aðildarríkin skulu, í samræmi við eftirfarandi ákvæði, aflétta hömlum á fjármagnsflutningum milli þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjunum. Til að auðvelda beitingu þessarar tilskipunar skulu fjármagnsflutningar flokkaðir í samræmi við skrá í I. Viðauka."

16     Orðalag 40. gr. EES-samningsins er sambærilegt við orðalag þeirrar greinar sem áður var 1. mgr. 67. gr. Rómarsáttmálans. Í samningnum um Evrópusambandið er gert ráð fyrir nýjum ákvæðum um "Fjármagn og greiðslur" sem skyldu verða hluti Rómarsáttmálans, þ.m.t. 73. gr. b, sem efnislega samsvarar 1. gr. tilskipunar ráðsins nr. 88/361/EBE. Eftir gildistöku Amsterdamsáttmálans verður 73. gr. b Rómarsáttmálans að 56. gr.

17 Með 40. gr. EES-samningsins og tilskipuninni eru afnumin höft á fjármagnsflutningum milli aðildarríkja samningsins.

18     Dómstóllinn þarf fyrst að taka afstöðu til þess hvort lánveitingar eins og um er fjallað í aðalmálinu eru fjármagnsflutningar í skilningi 40. gr. EES-samningsins.

19     Hugtakið "fjármagnsflutningar" er hvorki skilgreint í 40. gr. EES-samningsins né í tilskipuninni. Engu að síður má ráða umfang þess, sem í 40. gr. og 1. gr. tilskipunarinnar telst fjármagnsflutningur, af því sem fram kemur í skrá yfir fjármagnsflutninga í l. viðauka við tilskipunina (sjá meðal annars málið C-222/97 Trummer og Mayer [1999] ECR I-1661, 21. liður; og málið Case C-35/98 Staatssecretaris van Financiën gegn B.G.M. Verkooijen [2000] ECR I-0000, 27. liður).

20 Í VIII. hluta skrárinnar eru peningalán og lánsfrestir talin ein tegund fjármagnsflutninga. Í inngangi segir að til fjármagnsflutninga teljist "- allar þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru við fjármagnsflutninga: ákvörðun um viðskipti og framkvæmd þeirra og yfirfærslur tengdar þeim."

21     Að auki hefur dómstóll Evrópubandalaganna áður komist að þeirri niðurstöðu að peningalán frá banka í öðru aðildarríki sé fjármagnsflutningur í skilningi tilskipunarinnar (sjá málið C-484/93 Svensson og Gustavsson [1995] ECR I-3955).

22     Það er niðurstaða dómstólsins á grundvelli þess sem rakið var, að lántökur eins og þær sem fjallað er um í aðalmálinu séu fjármagnsflutningar í skilningi 40. gr. EES-samningsins, sbr. tilskipunina.

23     Í öðru lagi þarf dómstóllinn að ganga úr skugga um hvort það séu takmarkanir á frjálsum fjármagnsflutningum ef landsréttarreglur sem leggja á aðila, sem njóta góðs af ríkisábyrgðum, að greiða hærri ábyrgðargjöld vegna lána frá erlendum lánveitendum en innlendum.

24     Reglur í landsrétti sem mæla fyrir um hærri ábyrgðargjöld af lánum frá erlendum en innlendum lánveitendum hafa ekki óhjákvæmilega þau áhrif að erlend lán verði óhagstæðari en innlend. Önnur atriði, svo sem vaxtastig, geta ráðið úrslitum fyrir lántakendur þegar þeir taka afstöðu til lánstilboða. Fyrir þá geta hagkvæmir skilmálar sem erlendir lánveitendur bjóða skipt meiru en ókostir sem felast í hærri ábyrgðargjöldum. Þetta getur leitt til þess að lántakendur semji um lán við erlenda lánveitendur en ekki innlenda.

25     Engu að síður hljóta erlend lán að verða dýrari en innlend ef af þeim er tekið hærri ábyrgðargjald en ef lægra gjaldið væri á þau lagt. Hið sama er þegar lántakandi, sem á aðgang að ríkisábyrgð verður að greiða ábyrgðargjald vegna erlendra lána en ekki vegna innlendra lána. Ákvæði í landsrétti eins og þau sem um er fjallað í aðalmálinu fela í sér innbyggða mismunun milli lána frá erlendum og innlendum lánveitendum. Séu aðrir skilmálar hinir sömu, leiðir þessi munur til þess að erlend lán verða dýrari en innlend lán.

26     Slík mismunandi meðferð getur valdið því að lántakendur leiti ekki til lánveitenda í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Af því leiðir að ákvæði um ábyrgðargjald eins og þau sem fjallað er um í aðalmálinu fela í sér takmörkun á frjálsum fjármagnsflutningum.

27     Stefnandi hefur haldið fram að hin umdeildu ákvæði í íslenskum lögum feli ekki í sér takmarkanir andstæðar 40. gr. EES-samningsins, þar sem mismunandi ábyrgðargjöld hafi í raun ekki þýðingu sem máli skipti þegar lántakendur meti hvort lán skuli tekin hjá erlendum eða innlendum lánveitendum.

28     Ekki verður á þessa röksemd fallist. Lagareglan sem hér skiptir máli getur hugsanlega leitt til þess að lántakendur leiti ekki eftir lánum í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta nægir til að 40. gr. EES-samningsins hafi verið brotin. Ekki þarf að sýna fram á merkjanleg áhrif á fjármagnshreyfingar milli landa.

29     Svarið til Héraðsdóms Reykjavíkur hlýtur því að vera, að reglur í landsrétti aðildarríkis að EES-samningnum séu í ósamræmi við 40. gr. EES-samningsins, sbr. tilskipun ráðsins 88/361/EBE, ef þær eru þess efnis, að lántakandi, sem á kost á ríkisábyrgð, verði að greiða ábyrgðargjald vegna lána frá aðilum í öðrum aðildarríkjum en ekki vegna lána frá innlendum aðilum. Hið sama er ef lántakandi, sem á kost á ríkisábyrgð, verður að sæta því að greiða hærri ábyrgðargjöld vegna lána frá aðilum í öðrum aðildarríkjum en vegna lána frá innlendum aðilum.

 ... (sleppt umfjöllun EFTA- dómstólsins um 36. og 37. gr. EES-samningsins)

Hið almenna bann við mismunun vegna ríkisfangs

35     Í 4. gr. EES-samningsins kemur fram sú meginregla að á gildisviði samningsins og að teknu tilliti til allra sérreglna sem hann hefur að geyma, skuli bönnuð hverskonar mismunun eftir ríkisfangi. Í dómum dómstólsins kemur fram að 4. gr. gildir aðeins sjálfstætt um aðstæður sem ráðast af rétti Evrópska efnahagssvæðisins þegar ekki er að finna í EES-samningnum sérstakar reglur um þær sem banna mismunun (sjá málið E-5/98 Fagtún [1999] skýrsla EFTA dómstólsins bls. 51, 42. liður).

36     Meginreglan um bann við mismunun kemur fram í 40. gr. EES-samningsins að því er frjálsa fjármagnsflutninga varðar. Þess vegna er ekki þörf á að kanna hvort aðstæður eins og eru í aðalmálinu séu andstæðar 4. gr.

Skýring annarra ákvæða í EES samningnum

37     Héraðsdómur Reykjavíkur hefur spurt hvort ríkisaðstoð samkvæmt 61. gr. EES­samningsins felist í lögunum sem um er deilt. Í máli E-4/97 Samtök norskra banka [1999] skýrsla EFTA dómstólsins 32. og 33. lið, kemur fram, að ríkisaðstoð í skilningi 61. gr. samningsins getur verið til staðar ef um er að ræða ríkisábyrgð til banka í opinberri eigu. Þrátt fyrir það brestur dómstóla í aðildarríkjunum hæfi til að lýsa ríkisaðstoð, sem EFTA-ríki veitir, andstæða EES-samningnum. Af því leiðir, að svar við þeim hluta spurningarinnar sem varðar 61. gr. EES-samningsins hefði ekki í þessu máli þýðingu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur.

38     Vegna þess sem fyrr er sagt um 40. gr. EES-samningsins er ekki þörf á að skera úr því, hvort lög eins og þau sem þetta mál fjallar um séu andstæð öðrum þeim ákvæðum í samningnum sem getið er um í beiðninni um ráðgefandi álit eða aðilar hafi vikið að í málflutningi sínum.

Málskostnaður

39     Ríkisstjórn Íslands, ríkisstjórn Noregs, Eftirlitsstofnun EFTA og Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna sem hafa skilað greinargerð til dómstólsins skulu bera sinn málskostnað. Að því er lýtur að aðilum málsins verður að líta á málsmeðferð fyrir EFTA-dómstólnum sem þátt í meðferð málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og kemur það í hlut þess dómstóls að kveða á um málskostnað."

Með vísan til framangreindra forsendna var niðurstaða álits EFTA-dómstólsins eftirfarandi:

"Ákvæði í landsrétti aðildarríkis að EES-samningnum sem segja

a. að lántakandi sem nýtur ríkisábyrgðar, skuli greiða ábyrgðargjald vegna lána frá aðilum í öðrum aðildarríkjum en ekki vegna lána frá innlendum aðilum.

eða

b. að lántakandi, sem nýtur ríkisábyrgðar, skuli greiða hærri ábyrgðargjald vegna lána frá aðilum í öðrum aðildarríkjum en lána frá innlendum aðilum eru ósamrýmanleg 40. gr. EES-samningsins, sbr. tilskipun ráðsins nr. 88/361/EBE."

IV

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu á hendur stefnda á því að annars vegar hafi Fjárfestingabanki atvinnulífsins hf. yfirtekið allar skuldbindingar Iðnlánasjóðs með lögum nr. 60/1997 og hins vegar hafi bankinn ekki staðið að fullu í skilum með ríkisábyrgðargjald af lánum frá NIB eftir að hann tók til starfa í ársbyrjun 1998.

Stefnandi vísar til 8. gr. laga um ríkisábyrgðir nr. 37/1961, sbr. lög nr. 65/1988, en þar sé skýrt kveðið á um að þeir aðilar sem njóti ábyrgðar ríkissjóðs skuli greiða ábyrgðargjald til ríkissjóðs af skuldbindingum sínum gagnvart erlendum aðilum. Hann heldur því fram að NIB sé erlendur aðili í skilningi laganna og því beri stefnda að greiða ábyrgðargjald vegna ríkisábyrgðar á lánum frá bankanum.

Stefnandi vísar til þess að í 1. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992 sé skilgreint hvað sé innlendur aðili. Þar komi fram að allir aðrir séu erlendir aðilar en þeir sem taldir séu upp í 1. og 2. tl. 1. mgr. 1. gr. en í 2. tl. séu lögaðilar tilgreindir og þar sagt að innlendur aðili merki:

"sérhvern lögaðila sem skráður er til heimilis hér á landi á lögmæltan hátt, telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn hans er hér á landi; hérlend útibú lögaðila, sem heimili eiga erlendis, teljast til innlendra aðila".

Í athugasemdum í greinargerð með 1. gr. frumvarpsins komi fram eftirfarandi skilgreining á greininni:

"Í þessari grein eru helstu hugtök skilgreind. Í samræmi við þá stefnu, sem fylgt er hjá Efnahags- og framfara­stofnuninni (OECD) í aðildarríkjum hennar, er búseta einstaklings og heimili lögaðila lögð til grundvallar skil­greiningu á því hver telst vera  innlendur eða erlendur aðili í skilningi frumvarpsins. "

Í athugasemdunum er einnig vísað til þess að sambærilegar skilgreiningar sé að finna í lögum nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, og reglugerð nr. 312/1990 um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála.

Stefnandi kveður sambærilega skilgreiningu áður hafa verið að finna í reglugerð um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála nr. 519/1979.

Stefnandi telur engan vafa leika á því að þegar stefndi taki lán hjá NIB fari lántakan fram hjá erlendum aðila. Í 4. gr. samnings um stofnun NIB komi skýrt fram að aðsetur bankans skuli vera í Helsingfors og verði sá staður því að teljast heimili bankans. Bankinn sé heldur ekki með útibú hér á landi. NIB falli því undir þá skilgreiningu að vera erlendur aðili og hafi bankinn sjálfur fallist á þann skilning.

Stefnandi mótmælir þeirri skoðun stefnda að líta beri á NIB sem framlengingu af lánasýslu aðildarríkjanna sjálfra.

Þá mótmælir stefnandi túlkun stefnda á 5. gr. samningsins um NIB en í ákvæðinu sé kveðið á um að bankinn skuli njóta sömu réttinda í aðildarríkjum að samningnum og persónur að lögum, sem reki sambærilega starfsemi. Stefnandi heldur því fram að túlka beri ákvæðið á þann veg, að það snúi að réttarstöðu bankans þannig að hann njóti sömu stöðu og innlendir bankar, en ekki að réttarstöðu viðsemjenda bankans hverju sinni. Stefnandi kveður NIB hafa fallist á þá skoðun fjármálaráðuneytisins að líta beri á bankann sem erlendan banka. Ekki verði því séð að réttarstaða NIB samkvæmt samningnum geti með nokkru móti haft áhrif á þá skyldu sem lögð sé á innlendan aðila sem taki lán frá erlendum aðila til greiðslu á ábyrgðargjaldi.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að ríkisábyrgðargjald eins og það sem um sé fjallað í málinu sé aðeins lagt á lán sem tekin séu af ríkisaðilum.

Stefnandi mótmælir því að réttur lántakanda verði leiddur beint af rétti NIB. Stefndi hafi dregið gjaldið af viðsemjendum sínum og eigi því ekki rétt á að fá það endurgreitt.

Hvað varði hugsanlega mismunun milli innlendra og erlendra aðila hvað ábyrgðargjaldið snerti verði að líta til þess að NIB hafi ekki verið mismunað í reynd. Innlendar lánastofnanir líti fyrst og fremst til vaxta við ákvörðun um það hvar lán séu tekin en ekki til ríkisábyrgðargjaldsins sérstaklega. Ekki sé hægt að halda því fram að NIB sé mismunað í reynd í því umhverfi sem hann starfi í. Bankinn sé undanþægur greiðslu stimpilgjalda og greiði hvorki tekju- né eignarskatt. Bankinn hafi heldur ekki sett fyrir sig ákvæði laga um ríkisábyrgðir. Meta verði heildstætt hvort erlendur lántakandi hafi í hverju tilviki fyrir sig notið verri kjara en innlendir. Samkvæmt því sé dómurinn ekki bundinn af niðurstöðu ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins þar sem það eigi ekki við í þessu máli.

Af hálfu stefnanda er jafnframt á því byggt að ákvæði EES-samningsins ryðji hvorki í burtu ákvæðum eldri né yngri laga um ríkisábyrgðir. Stefnandi vísar til þess að 8. gr. laga um ríkisábyrgðir nr. 37/1961, sbr. lög nr. 65/1988, hafi ekki verið breytt með lögfestingu EES-samningsins.  Þá hafi 6. gr. laga nr. 121/1997 verið lögfest eftir lögfestingu samningsins. Stefnandi telur 3. gr. laga nr. 2/1993 einungis vera lögskýringarreglu. Þar sem umrædd lagaákvæði um ríkisábyrgðargjald séu skýr sé útilokað að ná fram öðrum skilningi á þeim með hliðsjón af EES-reglum.

Stefnandi telur ljóst að löggjafinn geti ekki bundið hendur sínar til frambúðar með almennum lögum. Til þess þurfi að breyta stjórnarskrá. Samkvæmt framansögðu sé ekki unnt að líta svo á að 40. gr. EES-samningsins eigi að ganga framar ákvæðum eldri eða yngri ákvæðum laga um ríkisábyrgðir vegna ákvæða 3. gr. laga nr. 2/1993.

Teljist íslenska ríkið hafa brotið gegn EES-samningnum með því að breyta lögum nr. 37/1961 ekki til samræmis við samninginn og með lögfestingu 6. gr. laga nr. 121/1997 eigi stefndi þann eina kost að krefja ríkið um skaðabætur.

Um lagarök vísar stefnandi m. a. til laga nr. um ríkisábyrgðir nr. 37/1961, sbr. lög 65/1988 og lög 121/1997, gjaldeyrislaga nr. 87/1992 og laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri nr. 34/1991.

V

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er byggt á því, að ábyrgðargjald vegna skuldbindinga Iðnlánasjóðs og síðar stefnda við NIB, er ríkisábyrgðar nutu, eigi að vera hið sama eins og um væri að ræða skuldbindingar gagnvart innlendum aðila. Því til stuðnings færir stefndi fram þrenns konar málsástæður:

1.     Stefndi telur að NIB sé ekki erlendur aðili í skilningi laga um ríkisábyrgðir.

 Stefndi vísar til þess að hvorki í eldri lögum um ríkisábyrgðir nr. 37/1961 né í yngri lögum nr. 121/1997 hafi verið kveðið á um það hverjir skyldu teljast erlendir aðilar í skilningi laganna. Ekkert verði heldur ráðið þar um af lögskýringargögnum. Ákvæði annarra laga, svo sem laga um tekju- og eignarskatt nr. 75/1981, laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, og laga um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, geti veitt ákveðnar vísbendingar í þessum efnum en þar sem gildissvið laganna hverra um sig sé afmarkað sé ekki unnt að yfirfæra skilgreiningar þeirra sjálfkrafa yfir á lög um ríkisábyrgðir. Þá séu umrædd lög yngri en upphafleg lög um ríkisábyrgðir og ekki sé hægt að byggja á skilgreiningu yngri laga við túlkun á eldri lögum.

Af hálfu stefnda er talið að það hafi enga þýðingu hvernig NIB hafi kosið að túlka réttarstöðu bankans. Þá sé það ekki sjálfgefið að NIB teljist innlendur aðili þótt bankinn verði ekki talinn erlendur aðili í skilningi laga um ríkisábyrgðir.

Bent er á að um NIB hafi, á því tímabili sem hér um ræðir, gilt sérlög og samningur með lagagildi hér á landi. Samkvæmt samningnum um stofnun NIB frá árinu 1975 sé hlutverk bankans að veita lán og ábyrgðir með bankakjörum og samkvæmt almennum þjóðhagslegum sjónarmiðum með það í huga að hrinda í framkvæmd fjárfestingaráformum og efla útflutning í þágu Norðurlandaþjóðanna. Starfsemi NIB skyldi, samkvæmt 2. gr. samningsins, fara fram í samræmi við ákvæði samþykkta sem fylgdu samningnum.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um fullgildingu samningsins hafi komið fram að gert væri ráð fyrir því að bankinn aflaði sér lánsfjár á Norðurlöndum og utan þeirra en innborgað framlag yrði einnig notað til lánveitinga. Í framsöguræðu forsætisráðherra með frumvarpinu í efri deild hafi hann m.a. sagt að um öll Norðurlönd væri þörf fyrir mikið fé til framkvæmda til þess að auka framleiðslu og útflutning og væri því afar mikilvægt að tryggja sem hagkvæmasta fjáröflun til þessara framkvæmda. Um væri að ræða lánastofnun sem væri sameign Norðurlandanna fimm. NIB myndi hafa sérstaklega gott lánstraust og án efa gefa kost á hagstæðari lánskjörum en ella. Samnorrænt framtak ætti að skila ríkulegri árangri en næðist þegar hvert land leitaði lausnar eitt á bát fyrir sig. Hafi ráðherra talið að þetta myndi ekki síst hafa gildi fyrir Íslendinga enda hefði sérstaða Íslands verið viðurkennd bæði á fundi ráðherranefndar Norðurlanda í Stokkhólmi 19. júní 1975 og á vettvangi Norðurlandaráðs. Full ástæða væri til að ætla að starfsemi bankans gæti átt mikilvægu hlutverki að gegna í íslensku atvinnulífi og stuðlaði að efnahagsframförum.

Stefndi telur framangreind ummæli sýna að NIB hafi að nokkru verið hugsaður sem tæki aðildarríkjanna fimm til lánsfjáröflunar á alþjóðamarkaði sem skilaði hverju landi um sig, og ekki síst Íslandi, hagstæðari lánskjörum en ef hvert land væri sér á báti. Starfsemi NIB væri því í vissum skilningi liður í lántökum og lánveitingum aðildarríkjanna sjálfra. NIB væri samnorræn stofnun, banki án innri Norræna landamæra. Samkævmt 1. gr. samningsins skyldi bankinn vera persóna að lögum og í stjórn hans ættu sæti tveir fulltrúar frá hverju aðildarríkjanna eða alls tíu.

Samningurinn um stofnun NIB hafi verið gerður á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku og í niðurlagi samningsins sem prentaður sé með lögum nr. 26/1976 á öllum tungumálunum fimm, segi að þessir textar skuli allir vera jafngildir. Af hálfu stefnda er bent á að nokkurs ósamræmis gæti milli íslenska textans og hinna. Þannig segi t.d. í hinum íslenska texta 4. gr. samningsins að aðsetur bankans skuli vera í Helsingfors, en í danska, norska og sænska textanum sé notað orðið hovedsæde/ hovedsete/huvedsäte, sem merki aðalaðsetur. Í framsöguræðu forsætisráðherra fyrir frumvarpi til laga um fullgildingu samningsins hafi komið fram að aðsetur bankans yrði í Helsingfors en þar hefði engin samnorræn stofnun verið fyrir. Í samþykktum NIB sé ekkert kveðið á um heimili hans. Þótt aðalaðsetur bankans sé í Helsingfors sé hann einnig með markaðsskrifstofur í Kaupmannahöfn, Ósló, Stokkhólmi og Reykjavík.

Stefndi telur að í samningnum um stofnun NIB felist að líta beri á bankann sem framlengingu af lánasýslu aðildarríkjanna sjálfra, sbr. t.d. einnig það ákvæði 3. mgr. 6. gr. samþykkta fyrir NIB, um bankanum beri að hafa samvinnu við aðrar peningastofnanir og viðkomandi opinbera aðila og einkaaðila, en ákvæðið gefi til kynna að litið hafi verið svo á að NIB væri til staðar í hverju einstöku aðildarríki.

Í ljósi hlutverks og eðlis NIB telur stefndi að það geti ekki átt að ráða úrslitum um það hvort bankinn teljist hafa verið erlendur aðili í skilningi laga um ríkisábyrgðir hvort aðalaðsetur bankans hafi endað í Helsingfors eða í Reykjavík. Niðurstaðan hljóti að hafa átt að verða sú sama í báðum tilvikum, þ. e. að annað hvort væri NIB erlendur aðili eða ekki. Stefndi álítur því að rök standi fremur til þeirrar niðurstöðu að NIB verði ekki talinn vera erlendur aðili í skilningi laga um ríkisábyrgðir.

2.  Stefndi heldur því fram að þótt NIB teljist erlendur aðili leiði það af ákvæðum í stofnsamningi um hann að um réttarstöðu bankans og viðsemjenda hans fari eins og um innlendan aðila væri að ræða.

Verði talið að NIB sé erlendur aðili í skilningi laga um ríkisábyrgðir, telur stefndi að koma eigi til skoðunar hvort samningurinn um NIB hafi að geyma ákvæði sem leiði til þeirrar niðurstöðu að skuldbindingar gagnvart bankanum eigi að meðhöndlast sem skuldbindingar gagnvart innlendum aðila m.t.t. ríkisábyrgðargjaldsins.

Í þessu sambandi vísar stefndi einkum til l. mgr. 5. gr. samningsins en sem í íslenskur texti hans hljóðar þannig: "Bankinn skal njóta sömu réttinda í aðildarríkjum að samningnum og persónur að lögum, sem reka sambærilega starfsemi".

Stefndi bendir á að verulegt misræmi sé milli íslenska textans og hins danska, norska og sænska. Í danska textanum segi: "Banken skal i hver og en af de stater, som er part i aftalen, gives samme retsstilling som indenlandske juridiske personer med virksomhed, der kan sammenlignes med den, som Banken driver".

Stefndi telur að þótt samningstextarnir fimm séu, samkvæmt samningnum, allir jafngildir hljóti við túlkun íslenska textans að verða að taka mið af hinum textunum þar sem sá íslenski skeri sig greinilega efnislega frá hinum.

Hvorki í samningnum sjálfum né í athugasemdum með fullgildingarfrumvarpinu eða öðrum lögskýringargögnum sé að finna nánari skýringar á ákvæði 1. mgr. 5. gr. Í ákvæðinu felist a.m.k. að bankinn sjálfur eigi að vera eins settur að lögum í hverju hinna fimm aðildarríkja og innlendar lánastofnanir. Í texta ákvæðisins sé hins vegar ekki með beinum hætti tekin afstaða til þess hvort viðsemjendur bankans í aðildarríkjum samningsins eigi einnig rétt til þess að lögum að þeir séu eins settir að öllu leyti þegar þeir skipta við bankann og þeir væru ef þeir hefðu þess í stað skipt við innlenda lánastofnun. Á því sé þó rökræn nauðsyn því banki geti ekki haft sömu réttarstöðu nema sömu reglur gildi um viðskipti sem hann tekur þátt í og um sambærileg viðskipti innlendra banka.

Stefndi bendir á að ef sömu reglur giltu ekki um lántökur hjá NIB og innlendum bönkum, t.d. vegna álagningar einhverra gjalda á lántökur hjá NIB sem ekki legðust á lántökur sama aðila hjá innlendum lánastofnunum, þá væri slíkt til þess fallið að skerða samkeppnisstöðu NIB gagnvart innlendum lánastofnunum í viðkomandi aðildarríki. Verður að telja að slíkt samsvari því að NIB nyti ekki sömu réttinda, hefði ekki sömu réttarstöðu, og innlendar lánastofnanir. Með því að bankinn eigi ekki að njóta neinnar sérstöðu eigi viðsemjendur hans hvorki að vera betur né verr settir en væru þeir að eiga viðskipti við innlendar lánastofnanir.

Stefndi telur að ákvæði 1. mgr. 5. gr. samningsins um NIB, sem hafi lagagildi, séu sérlög og gangi því framar ákvæðum almennra laga en líta verði á reglur um ríkisábyrgðargjald af erlendum skuldbindingum sem almenn lög gagnvart sérákvæðum um réttarstöðu NIB hér á landi. Það leiði til þeirrar niðurstöðu að um greiðslur ríkisábyrgðargjalds af skuldbindingum Iðnlánasjóðs og síðar stefnda gagnvart NIB hafi átt að fara eins og um væri að ræða skuldbindingar gagnvart innlendum aðila.

3. Stefndi telur óheimilt, samkvæmt EES-samningnum, að gera aðilum sem njóta ríkisábyrgðar að greiða hærra ríkisábyrgðargjald af skuldbindingum gagnvart aðilum á Evrópska efnahagssvæðinu utan Íslands heldur en af skuldbindingum gagnvart innlendum aðilum.

Stefndi vísar til þess að EES-samningurinn hafi lagagildi hér á landi, sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið,

Stefndi bendir á að í frumvarpi til laga um ríkisábyrgðir er orðið hafi að lögum nr. 121/1997 hafi verið gert ráð fyrir því að jafnhátt ríkisábyrgðargjald skyldi greitt af innlendum og erlendum skuldbindingum sem nytu ríkisábyrgðar, en áður hefði ábyrgðargjald einungis verið innheimt af skuldbindingum gagnvart erlendum aðilum. Í athugasemdum við 6. gr. frumvarpsins hafi m.a. verið sagt:

"Hér er lögð til sú breyting, að hið sérstaka 0,0625% ársfjórðungslega ábyrgðargjald sem ríkisaðilum er gert að greiða, nái nú einnig til innlendra skuldbindinga þeirra annarra en innlána. Miklar breytingar hafa orðið á lánamarkaðinum síðan þetta ákvæði var upphaflega sett með lögum nr. 65/1988 um breyting á lögum nr. 37/1961, um ríkisábyrgðir, með síðari breytingum. Lán eru fengin innan lands eða utan, eftir því hvaða kjör bjóðast hverju sinni. Sú mismunun sem felst í núgildandi reglum á milli innlendra og erlendra lánveitenda er hæpin með tilliti til þeirra skuldbindinga sem íslenska ríkið hefur undirgengist með samningnum um EES".

Stefndi kveður efnahags- og viðskiptanefnd hafa lagt til þá breytingu á frumvarpinu að ábyrgðargjaldið yrði mishátt eftir því hvort um erlendar eða innlendar skuldbindingar yrði að ræða. Engin rök hafi komið fram fyrir þessari breytingu í meðförum þingsins og breytingin verið samþykkt.

Stefndi byggir einkum á því að hvorki 8. gr. laga nr. 37/1961, eins og ákvæðinu var breytt með lögum nr. 65/1988, né 6. gr. laga nr. 121/1997 samræmist 40. gr. EES-samningsins. Í 40 gr. segi að innan ramma ákvæða samningsins skuli engin höft vera milli samningsaðila á flutningum fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB eða EFTA ríkjum né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar nota eigi féð til fjárfestingar.

Stefndi vísar máli sínu til stuðnings til niðurstöðu ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins frá 14. júlí 2000, sem aflað hafi verið vegna þessa máls. Þar sé talið að ekki þurfi að taka afstöðu til þess hvort umræddar íslenskar réttarreglur brjóti í bága við 4. gr. samningsins þar sem 40. gr. sé sérregla um fjármagnsflutninga. Stefndi bendir á að 4. gr. EES-samningsins sé almennt ákvæði sem kveði á um að hvers kyns mismunun á grundvelli ríkisfangs sé bönnuð á gildissviði samningsins, nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans.

Stefndi byggir jafnframt á því að framangreindar lagareglur um ríkisábyrgðargjald samrýmist heldur ekki 1. mgr. 42. gr. EES-samningsins sem kveði á um að ef beitt sé innlendum reglum um fjármagnsmarkað og lánsviðskipti í fjármagnsflutningum sem höftum hafi verið létt af samkvæmt ákvæðum samningsins skuli það gert án mismununar. Loks telur stefndi að lagaákvæðin samrýmist ekki 1. mgr. 61. gr. samningsins en þar segi að ef ekki sé kveðið á um annað í samningnum sé hvers kyns aðstoð, sem aðildarríki EB eða EFTA-ríki veiti eða veitt sé af ríkisfjármunum og raski eða sé til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara, ósamrýmanleg framkvæmd samningsins að því leyti sem hún hafi áhrif á viðskipti milli samningsaðila.

Af hálfu stefnda er vísað til þess að NIB sé staðsettur á Evrópska efnahagssvæðinu. Stefndi telur að það samræmist ekki fyrrgreindum ákvæðum EES-samningsins að gera stefnda að greiða hærra ríkisábyrgðargjald af skuldbindingum gagnvart NIB heldur en af skuldbindingum gagnvart innlendum aðilum þar sem í því felist mismunun á grundvelli ríkisfangs eða búsetu og ríkisaðstoð við innlenda lánveitendur.

Stefndi bendir á að í 3. og 7. gr. EES-samningsins, svo og bókun 35 með samningnum, hafi verið mælt fyrir um forgangsáhrif EES-réttar gagnvart landsrétti, þótt í bókun 35 hafi ekki falist framsal löggjafarvalds. Ákvæði 3. gr. laga nr. 2/1993 hafi verið ætlað að tryggja þessi forgangsáhrif EES-réttar. Eins og ráða megi af athugasemdum við 3. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 2/1993 felist tvennt í ákvæðinu. Annars vegar að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggi. Hins vegar að EES-reglur beri að skilgreina sem sérreglur og þar sem sérreglur gangi framar almennum reglum njóti EES-reglur í reynd forgangs. Þannig hafi með 3. gr. laga nr. 2/1993 verið lögfest sérstök lögskýringarregla sem tryggi sérstöðu EES-réttarreglna meðal réttarheimildanna.

Í máli þessu sé um það að ræða að tveimur íslenskum lagareglum ljósti saman og önnur þeirra er jafnframt EES-regla. Með hliðsjón af framangreindu verði að líta á EES-samninginn sem sérlög sem gangi framar ákvæðum eldri og yngri laga um ríkisábyrgðir.

Stefndi heldur því fram að með lögfestingu 6. gr. laga nr. 121/1997 hafi löggjafinn ekki meðvitað ætlað að setja réttarreglu sem væri ósamrýmanleg  40. gr. EES-samningsins heldur hafi löggjafinn beinlínis ætlast til þess að löggjöfin yrði samrýmd EES-reglum þannig að hún gilti ekki á EES-svæðinu.

Þar sem skýra eigi lög um ríkisábyrgðir til samræmis við EES-samninginn, einkum 40. gr. hans, beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda og dæma honum málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til kostnaðar stefnda af öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.

Um lagarök vísar stefndi m. a. til laga um ríkisábyrgðir nr. 37/1961, sbr. lög nr. 65/1988, laga nr. 121/1997, laga nr. 26/1976 um heimild fyrir ríkisstjórnina til að fullgilda samning um stofnun Norræna fjárfestingarbankans og fylgiskjala með lögunum, laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins.

VI

Niðurstaða

Af hálfu stefnda hafa verið færðar fram málsástæður af þrennum toga gegn stefnukröfum stefnanda.

Stefndi heldur því í fyrsta lagi fram að Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) teljist ekki erlendur aðili í skilningi 8. gr. laga um ríkisábyrgðir nr. 37/1961 eins og ákvæðinu var breytt með lögum nr. 65/1988 né teljist lán frá NIB til gjaldskyldra erlendra skuldbindinga í skilningi 2. mgr. 6. gr. nýrri laga um ríkisábyrgðir nr. 121/1997.

Hvorki í eldri né yngri lögum um ríkisábyrgðir er að finna skilgreiningu á hugtökunum erlendur aðili eða erlendar skuldbindingar og lögskýringargögn veita engar vísbendingar. Fallast má á með stefnda að ekki sé unnt að byggja afmörkun á framangreindum hugtökum í lögum um ríkisábyrgðir alfarið á skilgreiningum á hugtökunum innlendir og erlendir aðilar í lögum um gjaldeyrismál nr. 87/1992 þar sem lög um gjaldeyrismál eru yngri en upphafleg lög um ríkisábyrgðir.

Í reglugerð um skipan gjaldeyris og viðskiptamála nr. 519/1979 voru erlendir aðilar skilgreindir sem aðrir en innlendir aðilar sem voru skilgreindir sem:

"Einstaklingar búsettir hér á landi, án tillits til ríkisfangs, fyrirtæki, sem skrásett eru hér á landi, og erlendir einstaklingar og fyrirtæki, búsettir eða skrásettir hérlendis að því leyti, sem þau reka starfsemi hér á landi."

Síðastnefndar skilgreiningar eru eldri en lög nr. 65/1988 og er rétt að hafa nokkra hliðsjón af þeim og skilgreiningum í öðrum lögum við skýringu á framangreindum hugtökum í lögum um ríkisábyrgðir en þær eiga það sammerkt að horft er til þess hvar lögaðili á heimili.

Enda þótt fyrir liggi að íslenska ríkið var einn af stofnendum NIB og að tilgangur með stofnun bankans var að afla Íslendingum og öðrum Norðurlandaþjóðum lánsfjár á alþjóðlegum markaði á hagstæðum lánakjörum verður ekki framhjá því litið að um alþjóðlega lánastofnun er að ræða sem hefur aðsetur í Finnlandi. Bankinn rekur ekki útibú hér á landi heldur aðeins markaðsskrifstofu. Verður því ekki hjá því komist að telja NIB erlendan aðila í skilningi 8. gr. laga nr. 37/1961 og lánveitingar frá honum erlendar skuldbindingar í skilningi 2. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1997.

Stefndi byggir í öðru lagi á því að vegna ákvæða í stofnsamningi um NIB fari um réttarstöðu bankans og viðsemjenda hans eins og um innlendan aðila væri að ræða.

Með lögum nr. 26/1996 var ríkisstjórninni heimilað að fullgilda samning milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, um stofnun Norræna fjárfestingarbankans, sem undirritaður var 4. desember 1975, og kveðið á um að ákvæði hans skyldu hafa lagagildi þegar hann hefði verið fullgiltur. Óumdeilt er að samningurinn hefur lagagildi hér á landi. 

Í 1. mgr. 5. gr. samningsins segir að bankinn skuli njóta sömu réttinda í aðildarríkjum að samningnum og persónur að lögum sem reki sambærilega starfsemi. Í 2. mgr. 5. gr. segir síðan að bankinn skuli undanþeginn hvers kyns greiðslu- og útlánaskilyrðum, sem komi í veg fyrir eða íþyngi bankanum við að standa við skuldbindingar sínar. Í niðurlagi 8. gr. samningsins segir að samningurinn sé gerður í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku og að allir textarnir skulu vera jafngildir. Leggja verður til grundvallar að hinn íslenski texti samningsins hafi verið lögfestur hér á landi. Engu að síður veita hinir samningstextarnir mikilsverða vísbendingu um túlkun íslenska samningstextans.

Í danska samningstextanum segir að bankinn skuli í hverju aðildarríki samningsins njóta sömu réttarstöðu og innlendar lögpersónur sem reki sambærilega starfsemi og bankinn. Sambærilegt orðalag er í norska og sænska samningstextanum.

Fallast má á með stefnda að þegar litið er til texta samningsins á dönsku, norsku og sænsku beri að túlka íslenska samningstextann á þann veg að réttarstaða bankans í einstökum aðildarríkjum eigi að vera sú sama og sambærilegra innlendra lánastofnana. Ákvæðið ber því að skýra þannig að bankinn eigi í einu og öllu að njóta sömu viðskiptakjara og hann væri innlend lánastofnun. Ljóst er að það að íslenskir viðsemjendur bankans þurfa að greiða hærra ríkisábyrgðargjald af skuldbindingum við bankann en við innlendar lánastofnanir er til þess fallið að rýra samkeppnisstöðu bankans hér á landi. Af því leiðir að réttarstaða bankans er ekki að þessu leyti sú sama og innlendra lánastofnana.

Ekki verður fallist á þá málsástæðu stefnanda að við úrlausn þess hvort bankinn njóti sömu réttinda verði að líta til allra þátta sem haft geta áhrif á viðskiptamöguleika hans hér á landi.

Í þessu sambandi þykir ekki skipta máli að ríkisábyrgð er einkum veitt vegna lánveitinga til ríkisstofnana þar sem skuldbindingar sem ríkisábyrgð er á geta verið yfirteknar af einkaaðilum eins og í því tilviki sem hér um ræðir.

Í bréfi NIB til fjármálaráðuneytisins frá 22. júlí 1997 kemur fram að ekki sé skýrt hvort NIB sé erlendur eða innlendur lánveitandi. Bankinn hafi þó reynt að halda því fram að hann eigi í hverju tilviki að fá sömu meðferð þannig að starfsemi hans sé ekki íþyngt eða honum mismunað miðað við innlenda baka. Í vissum tilvikum hafi það orðið til þess að bankinn hafi fengið sömu réttindi og innlendir bankar í aðildarríkjunum en það sé ekki algild regla. Í þessu máli hafi verið litið á bankann sem erlendan lánveitanda á Íslandi og hafi bankinn fallist á það.

Enda þótt bankinn hafi fallist á að litið væri á hann sem erlendan lánveitanda hér á landi verður að telja að viðskiptavinir hans eigi með hliðsjón af 5. gr. samningsins um stofnun bankans rétt á því að um lánveitingar frá bankanum sé í hverju tilviki farið eins og um innlendar lánveitingar sé að ræða.

Fallast ber á það með stefnda að ákvæði 5. gr. samningsins um stofnun NIB, sem hefur lagagildi hér á landi, sé sérregla um réttarstöðu bankans sem gangi framar almennum ákvæðum um innheimtu ríkisábyrgðargjalds í eldri og yngri lögum um ríkisábyrgðir. Samkvæmt því ber að fara með lánveitingar frá NIB með sama hætti og lánveitingar frá innlendum aðila hvað varðar álagningu ríkisábyrgðargjalds.

Sú niðurstaða um ágreining málsaðila varðandi ríkisábyrgðargjald af lánveitingum frá NIB sem hér hefur verið komist að á grundvelli túlkunar á samningi um stofnun NIB sem hlotið hefur lagagildi hér á landi, leiðir ein og sér til þess að sýkna ber stefnda af öllum kröfum stefnanda. Engu að síður þykir rétt eins og máli þessu er háttað að fjalla um aðrar sýknuástæður stefnda.

Af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram að 8. gr. laga nr. 37/1961, eins og greininni var breytt með lögum nr. 65/1988, og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1997 samrýmist ekki 4., 40., 42. og 61. gr. EES-samningsins sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 2/1993.

Að frumkvæði stefnda leitaði dómurinn ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á grundvelli heimildar í lögum nr. 21/1994 eins og að framan er rakið. Eins og fram kemur í 1. mgr. 1. gr. EES-samningsins er eitt af meginmarkmiðum hans að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði. Þetta einsleitnismarkmið kemur einnig fram í fjórða og fimmtánda lið aðfararorða samningsins en þau eru svohljóðandi:

"HAFA Í HUGA það markmið að mynda öflugt og einsleitt Evrópskt efnahagssvæði er grundvallast á sameiginlegum reglum og sömu samkeppnisskilyrðum, tryggri framkvæmd, meðal annars fyrir dómstólum, og jafnrétti, gagnkvæmni og heildarjafnvægi hagsbóta, réttinda og skyldna samningsaðila;

STEFNA AÐ ÞVÍ, með fullri virðingu fyrir sjálfstæði dómstólanna, að ná fram og halda sig við samræmda túlkun og beitingu samnings þessa og þeirra ákvæða í löggjöf bandalagsins sem tekin eru efnislega upp í samning þennan, svo og að koma sér saman um jafnræði gagnvart einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri að því er varðar fjórþætta frelsið og samkeppnisskilyrði;"

Í 2. mgr. 108. gr. EES-samningsins er mælt fyrir um stofnun EFTA-dómstólsins en dómstóllinn starfar á grundvelli samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Í fjórða lið aðfararorða þess samnings er að finna nánast samhljóða markmið og í fimmtánda lið aðfararorða EES-samningsins og í 1. mgr. 34. gr. hans er kveðið á um að dómstóllinn hafi lögsögu til að gefa ráðgefandi álit varðandi EES-samninginn. Við skýringu ákvæða EES-samningsins fyrir íslenskum dómstólum ber því að hafa hliðsjón af ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins.

Í samræmi við það sem fram kemur í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins frá 14. júlí 2000 verður að telja að lántökur eins og þær sem fjallað er um í málinu séu fjármagnsflutningar í skilningi 40. gr. EES-samningsins. Með hliðsjón af álitinu verður einnig talið að þau ákvæði yngri og eldri laga um ríkisábyrgðir sem fjallað er um í málinu feli í sér innbyggða mismunun milli lána frá erlendum og innlendum lánveitendum og að ef aðrir skilmálar eru hinir sömu leiði þessi munur til þess að erlend lán verði dýrari en innlend lán. Slík mismunun geti leitt til þess að lántakendur leiti ekki til NIB varðandi lán. Tilvist umræddra reglna í lögum um ríkisábyrgðir felur þannig í sér takmörkun á frjálsum fjármagnsflutningum á EES-svæðinu.

Með hliðsjón af ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins verður einnig talið að það að umrædd ákvæði laga um ríkisábyrgðir geti hugsanlega leitt til þess að lántakendur leiti ekki eftir lánum í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu nægi til þess að ákvæðin samrýmist ekki 40. gr. EES-samningsins.

Með vísan til álitsins verður talið að 4. gr. EES-samningsins sem fjallar almennt um mismunun eftir ríkisfangi hafi ekki sjálfstæða þýðingu við úrlausn þessa máls þar sem 40. gr. samningsins sé sérregla um fjármagnsflutninga. Með vísan til álitsins verður heldur ekki talið að 61. gr. verði beitt við úrlausn málsins.

Samkvæmt framansögðu verður talið  8. gr. laga nr. 37/1961, eins og greininni var breytt með lögum nr. 65/1988, og 6. gr. laga nr. 121/1997 séu ósamrýmanleg 40. gr. EES-samningsins en meginmál samningsins var veitt lagagildi hér á landi með lögum nr. 2/1993.

Ótvírætt er að framangreint ósamræmi er svo verulegt að lagaákvæðin um ríkisábyrgðargjaldið verði ekki túlkuð eða skýrð til samræmis við 40. gr. EES-samningsins heldur stangist þessi lagaákvæði á.

Í máli þessu reynir á hvort innheimta megi ríkisábyrgðargjald á grundvelli lagaákvæða sem ekki eru sótt í EES-rétt vegna ósamrýmanlegra ákvæða EES-samningsins. Niðurstaða um það veltur á því hvort EES-réttarreglur gangi framar umræddum ákvæðum um ríkisábyrgðargjald. Samkvæmt því og þar sem ljóst er að stefndi nýtur verri viðskiptakjara hjá NIB en ella vegna framangreindrar mismununar, þykir ekki skipta máli þótt stefndi hafi ekki sýnt fram á að hann njóti í þessu tilviki verri samanlagðra viðskiptakjara hjá NIB en hjá innlendum lánastofnunum.

Annars vegar er um það að ræða að lagaákvæði um ríkisábyrgðargjald sem í gildi var við lögfestingu EES-samningsins er ósamrýmanlegt honum og hins vegar að lagaákvæði sem tók gildi eftir lögfestingu samningsins er ósamýmanlegt honum.

Ekkert er fjallað sérstaklega um gildi eldri lagaákvæða um ríkisábyrgðir í EES-samningnum og í lögum nr. 121/1997 um ríkisábyrgðir er ekki fjallað um gildi lagaákvæðanna gagnvart EES-samningnum. Í frumvarpi til síðastgreindu laganna var gert ráð fyrir því í 6. gr. að sama ríkisábyrgðargjald væri innheimt af erlendum og innlendum skuldbindingum og í athugasemdum með frumvarpinu var það m.a. stutt þeim rökum miklar breytingar hefðu orðið á lánamarkaði frá 1988 og lán fengin innan lands eða utan eftir því hvaða kjör byðust hverju sinni. Ennfremur væri sú mismunun sem fælist í núgildandi reglum á milli innlendra og erlendra lánveitenda hæpin með tilliti til þeirra skuldbindinga sem íslenska ríkið hefði undirgengist með EES-samningnum. Í meðförum þingsins var 6. gr. breytt til núverandi horfs og er engum lögskýringargögnum til að dreifa sem skýrt geta þann löggjafarvilja. Samkvæmt framansögðu verður að ætla að löggjafinn hafi verið meðvitaður um löggjöfin kynni að vera ósamrýmanleg EES-samningnum. Ekkert verður því fullyrt um hvort löggjafinn gekk út frá því að EES-samningurinn gengi framar 2. mgr. 6. gr. laganna hvað varðar lántökur frá ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu eða hvort ætlunin var að 2. mgr. 6. gr. laga um ríkisábyrgðir gengi framar.

Um tengsl eldri laga og yngri gilda einkum tvær lögskýringarreglur hér á landi þegar ný löggjöf mælir ekki fyrir um brottfall eldri ósamrýmanlegra laga. Annars vegar sú regla að yngri lög gangi framar þeim eldri og hins vegar að sérákvæði gangi framar almennum lagaákvæðum. Rétt þykir að taka til skoðunar hvort önnur sjónarmið eigi við þegar um það er að ræða að ákvæði laga teljast ósamrýmanleg ákvæðum EES-samningsins.

Í 3. gr. EES-samningsins segir að samningsaðilar skuli gera allar viðeigandi almennar eða sérstakar ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af samningnum leiðir. Þeir skuli varast ráðstafanir sem teflt geti því í tvísýnu að markmiðum samningsins verði náð. Í 7. gr. samningsins eru nánari fyrirmæli um hvernig reglugerðir og tilskipanir EBE sem falla undir samninginn verði teknar upp í landsrétt.

Í bókun 35 við EES-samninginn segir ennfremur:

“Þar eð með samningi þessum er stefnt að einsleitu Evrópsku efnahagssvæði sem byggist á sameiginlegum reglum, án þess að samningsaðila sé gert að framselja löggjafarvald til stofnana Evrópska efnahagssvæðisins; og þar eð þessum markmiðum verður því að ná með þeirri málsmeðferð sem gildir í hverju landi um sig;

...

Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þessum tilvikum.”

Með bókun 35 var annars vegar stefnt að því að tryggja forgangsáhrif EES-reglna en hins vegar skýrt kveðið á um þann sameiginlega skilning aðildarríkja samningsins að hann fæli ekki í sér framsal löggjafarvalds til stofnana Evrópska efnahagssvæðisins. Hér á landi var kröfu bókunarinnar mætt með 3. gr. laga nr. 2/1993 en hún hljóðar svo:

"Skýra skal lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja."

Af orðalagi 3. gr. laganna verður ráðið að í ákvæðinu felist lögskýringarregla sem miði að því að lög verði skýrð til samræmis við EES-reglur en greinin tryggi ekki forgang lögfestra EES-reglna gagnvart yngri lagafyrirmælum sem ekki samrýmast EES-reglunum.

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 2/1993 er látið að því liggja að í 3. gr. felist meira en ráðið verður af orðalagi ákvæðisins samkvæmt framansögðu. Í greinargerð segir m.a. um ákvæðið:

“Í 3. gr. felst m.a. að innlend lög sem eiga stoð í EES-samningnum verði jafnan túlkuð sem sérreglur laga gagnvart ósamræmanlegum yngri lögum, að því leyti að yngri lög víki þeim ekki ef þau stangast á, nema löggjafinn taki það sérstaklega fram. Þetta er nauðsynlegt til þess að tryggja samræmi í reglunum á Evrópska efnahagssvæðinu.”

Með hliðsjón af því ótvíræða orðalagi bókunar 35 að með EES-samningnum sé ekki stefnt að því að framselja löggjafarvald til stofnana Evrópska efnahagssvæðisins og með vísan til þess að 3. gr. laga nr. 2/1993 er orðuð sem lögskýringarregla verður ekki talið að ummæli í greinargerð með frumvarpi til laganna geti leitt til þeirrar túlkunar á 3. gr. laganna að í henni felist að ávallt verði litið á lögfestar EES-reglur sem sérreglur gagnvart ósmrýmanlegum yngri lagareglum. Enda þótt játa verði því að EES-samningurinn sé þjóðréttarsamningur sérstaks eðlis getur löggjafinn ekki með almennu lagaboði eins og 3. gr. laga nr. 2/1993 bundið hendur Alþingis við lagasetningu í framtíðinni. Slíkt verður aðeins gert með stjórnarskrárákvæði.

Telja verður að ekki sé unnt að líta á ákvæði 40. gr. EES-samningsins sem sérákvæði gagnvart þeim ákvæðum laga um ríkisábyrgðir sem um er fjallað í málinu né ákvæðin um ríkisábyrgðir sem sérákvæði gagnvart 40. gr. EES-samningsins. Verður því að líta svo á að þar sem ákvæði 8. gr. laga nr. 37/1961, sbr. lög nr. 65/1988, sé í ósamræmi við yngri lögfest ákvæði 40. gr. EES-samningsins, víki síðarnefnda ákvæðið því fyrrnefnda til hliðar hvað varðar skuldbindingu gagnvart NIB. Hins vegar verður að líta svo á að 2. mgr. 6. gr. núgildandi laga um ríkisábyrgðir nr. 121/1997, sem gildi tóku 1. janúar 1998, gangi framar eldra ákvæði 40. gr. EES-samningsins að þessu leyti.

Verður þá að taka til skoðunar hvort stefndi geti sem greiðandi ríkisábyrgðargjaldsins byggt rétt á 40. gr. EES-samningsins í máli þessu.

Í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í málinu nr. E-7/97; Erla María Sveinbjörnsdóttir gegn íslenska ríkinu, segir orðrétt:

„Annað mikilvægt markmið EES-samningsins er að tryggja einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri jafnræði og jöfn samkeppnisskilyrði og raunhæfa leið til að fylgja þeim réttindum eftir. Hér má enn vísa til fjórða og fimmtánda liðs í aðfaraorðum EES-samningsins … og sérstaklega til áttunda liðs aðfaraorðanna, þar sem segir:

„ERU SANNFÆRÐIR UM að einstaklingar muni gegna mikilvægu hlutverki á Evrópska efnahagssvæðinu vegna beitingar þeirra réttinda sem þeir öðlast með samningi þessum og þeirrar verndar dómstóla sem þessi réttindi njóta.”

      Dómstóllinn tekur mið af því að ákvæðum EES-samningsins er í ríkum mæli ætlað að vera til hagsbóta einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Því veltur framkvæmd samningsins á því að einstaklingar og lögaðilar, sem tryggð eru þessi réttindi, geti byggt á þeim."

Tekið er undir þessi sjónarmið í dómi Hæstaréttar Íslands frá 16. desember 1999 í því máli sem leitað var framangreinds ráðgefandi álits. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram koma í ráðgefandi síðastnefndu ráðgefandi áliti EFTA- dómstólsins, framangreindum dómi Hæstaréttar og þá sérstaklega framangreinds áttunda liðs aðfaraorða EES-samningsins þykir stefndi eiga að njóta þeirra réttinda sem 40. gr. EES-samningsins veitir og geta borið ákvæðið fyrir sig í lögskiptum sínum gagnvart stefnanda.

Telja verður að framangreind niðurstaða um gildi 40. gr. EES-samningsins gagnvart eldri og yngri lögum um ríkisábyrgðir styðji þá niðurstöðu sem áður hefur verið komist að í málinu hvað varðar álagningu ríkisábyrgðargjalds í gildistíð laga nr. 37/1961 en haggi hins vegar ekki þeirri niðurstöðu að gjaldtakan hafi einnig verið óheimil eftir 1. janúar 1998 vegna sérákvæða í 5. gr. samningsins um stofnun NIB, sbr. lög nr. 26/1976 um fullgildingu samningsins.

Með vísan til 3. gr. laga nr. 2/1993 þykir framangreind niðurstaða um að yngri og eldri ákvæði laga um ríkisábyrgðir séu ósamrýmanleg 40. gr. EES-samningsins styðja þá túlkun á 5. gr. samningsins um stofnun NIB sem niðurstaða málsins er einkum byggð á.

Samkvæmt öllu framansögðu og þar sem stefndi hefur sannanlega greitt ríkisábyrgðargjald af skuldbindingum við NIB eins og um skuldbindingu við innlendan aðila væri að ræða ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins þykir rétt að stefnandi greiði stefnda málskostnað. Með hliðsjón af niðurstöðu EFTA-dómstólsins og forsendum þessa dóms verður ekki talið að ósk stefnda um öflun ráðgefandi álits hafi verið tilefnislaus. Þykir því rétt að taka tillit til kostnaðar stefnda af öflun þess við ákvörðun málskostnaðar. Samkvæmt framangreindu þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 1.900.000 krónur og er þá tekið tillit til þess að stefnda er skylt að greiða lögmanni sínum virðisaukaskatt af málflutningsþóknun en getur ekki dregið hann frá sem innskatt.

Af hálfu stefnanda flutti málið Sveinn Sveinsson hrl. en Baldur Guðlaugsson hrl. af hálfu stefnda.

Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Íslandsbanki-FBA hf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Lánasýslu ríkisins, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 1.900.000 krónur í málskostnað.