Hæstiréttur íslands
Mál nr. 13/2011
Lykilorð
- Skaðabætur
- Ábyrgð stjórnarmanna
|
|
Fimmtudaginn 3. nóvember 2011. |
|
Nr. 13/2011.
|
Arnar Arngrímsson Reynir Heiðdal Ölversson og Róbert Smári Reynisson (Magnús Guðlaugsson hrl.) gegn Páli Sveinssyni Pétri Þórarinssyni Ægi Magnússyni Hafsteini Þór Magnússyni Hrafnhildi Guðbrandsdóttur Sigfríði Magnúsdóttur Þuríði Guðrúnu Magnúsdóttur Rebekku Magnúsdóttur og Haraldi Magnússyni (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) |
Skaðabætur. Ábyrgð stjórnarmanna.
A, RÖ og RR kröfðu PS og PÞ, fyrrum stjórnarmenn í B, auk erfingja fyrrum stjórnarmannsins M, um skaðabætur þar sem þeir höfðu ekki fengið greiddan út hlut í B eftir að fasteign sjóðsins var seld, en þeir höfðu allir lagt fram fé til B við stofnun hans. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að við ráðstöfun á söluandvirði fasteignarinnar hefði ekki verið að endurgreiða stofnframlög til B, enda hefðu þeir sem það gerðu lýst yfir því að þeir ættu ekki tilkall til þess. Hefðu A RÖ og RR ekki sýnt fram á skaðabótaskyldu stefndu og var héraðsdómur því staðfestur um sýknu þeirra.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 7. janúar 2011. Þeir krefjast þess að stefndu verði óskipt dæmd til að greiða þeim, hverjum um sig, 1.617.647 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. júní 2007 til greiðsludags. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjendur hafa fyrir Hæstarétti fallið frá kröfu sinni á hendur Byggingarsjóði Bifreiðastöðvar Keflavíkur. Krafa þeirra er nú eingöngu á því byggð að stefndu beri skaðabótaábyrgð gagnvart þeim á tjóni sem þeir telja sig hafa orðið fyrir við að fá ekki greiddan út hlut í Byggingarsjóði Bifreiðastöðvar Keflavíkur eftir að fasteign sjóðsins að Hafnargötu 56 í Keflavík var seld 22. maí 2007. Byggja þeir á því að fyrrverandi stjórnarmenn í byggingarsjóðnum, Magnús Jóhannsson og stefndu Páll Sveinsson og Pétur Þórarinsson, hafi bakað sér skaðabótaskyldu með því að hafa mismunað þeim við fyrrgreindar greiðslur á þann hátt að greiða öðrum aðilum að sjóðnum hluti í andvirði fasteignarinnar en ekki þeim. Magnús Jóhannsson andaðist 7. september 2008 og eru stefndu, aðrir en Pétur og Páll, erfingjar Magnúsar.
Í málinu liggur fyrir að þeir sem lögðu fram stofnfé til Byggingarsjóðs Bifreiðastöðvar Keflavíkur, en formlega var gengið frá stofnun hans 11. september 1996, höfðu allir ritað undir yfirlýsingu í febrúar 1992 þar sem tekið var fram að þeir myndu ekki gera neinar endurkröfur vegna framlaga sinna „til eigna byggingasjóðs Bifreiðastöðvar Keflavíkur ..., hvorki nú né síðar, ...“. Áfrýjendur rituðu allir undir yfirlýsingar af þessu tagi. Þeir munu hafa hætt leiguakstri hjá Bifreiðastöð Keflavíkur á árinu 1996.
Við ráðstöfun á söluandvirði fasteignarinnar að Hafnargötu 56 á árinu 2007 var ekki verið að endurgreiða framlög þeirra sem lagt höfðu fram fé til byggingarsjóðsins við stofnun hans, enda höfðu þeir beinlínis lýst yfir því að þeir ættu ekki tilkall til þess. Fénu var ráðstafað á öðrum forsendum og hafa áfrýjendur ekki sýnt fram á að réttur hafi verið á þeim brotinn þegar það var gert. Þegar af þessari ástæðu verður ekki fallist á með áfrýjendum að stofnast hafi skaðabótaskylda gagnvart þeim.
Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur og áfrýjendur dæmdir til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir. Samkvæmt 2. mgr. 132. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verða áfrýjendur dæmdir óskipt til að greiða málskostnaðinn, en hann tildæmdur stefndu hverju fyrir sig.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um sýknu stefndu, Páls Sveinssonar, Péturs Þórarinssonar, Ægis Magnússonar, Hafsteins Þórs Magnússonar, Hrafnhildar Guðbrandsdóttur, Sigfríðar Magnúsdóttur, Þuríðar Guðrúnar Magnúsdóttur, Rebekku Magnúsdóttur og Haraldar Magnússonar af kröfum áfrýjenda, Arnars Arngrímssonar, Reynis Heiðdal Ölverssonar og Róberts Smára Reynissonar.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er óraskað.
Áfrýjendur greiði óskipt í málskostnað stefndu fyrir Hæstarétti, Páli og Pétri 200.000 krónur hvorum og Ægi, Hafsteini Þór, Hrafnhildi, Sigfríði, Þuríði Guðrúnu, Rebekku og Haraldi, 30.000 krónur hverju.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 27. september sl., var höfðað með stefnu birtri 27. júlí og 4., 5., 6., 7., 17. og 25. ágúst 2009 af Arnari Arngrímssyni, Holtagerði 4, Kópavogi, Reyni Heiðdal Ölverssyni, Suðurgötu 36, Keflavík, og Róberti Smára Reynissyni, Suðurgötu 36, Keflavík, gegn Byggingarsjóði Bifreiðastöðvar Keflavíkur, Hafnargötu 56, Keflavík, Páli Sveinssyni, Stapavöllum 29, Njarðvík, Pétri Þórarinssyni, Baugholti 27, Keflavík, Ægi Magnússyni, Baugholti 27, Keflavík, Hafsteini Þór Magnússyni, Vallarbraut 11, Akranesi, Hrafnhildi Guðbrandsdóttur, Vallarbraut 13, Akranesi, Sigfríði Magnúsdóttur, Gnoðarvogi 58, Reykjavík, Þuríði Guðrúnu Magnúsdóttur, Uppsalavegi 6, Sandgerði, Rebekku Magnúsdóttur, Hlíðargötu 27, Sandgerði, og Haraldi Magnússyni, Kelduhvammi 14, Hafnarfirði.
Stefnendur krefjast þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða hverjum stefnenda fyrir sig 1.617.647 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 22. júní 2007 til greiðsludags. Stefnendur krefjast þess einnig hver um sig að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða hverjum stefnenda fyrir sig málskostnað að mati dómsins með inniföldum áhrifum 25,5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Af hálfu stefndu er krafist sýknu af öllum kröfum stefnenda og að stefndu verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnenda að mati dómsins að teknu tilliti til þess að stefndu eru ekki virðisaukaskattskyld.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Í málinu er ágreiningslaust að á árunum 1991 og 1992 lögðu 17 leigubifreiðarstjórar, sem allir störfuðu hjá Bifreiðastöð Keflavíkur, fram 180.000 krónur hver í stefnda, Byggingarsjóð Bifreiðastöðvar Keflavíkur. Það kom til af því að safnast hafði sjóður vegna aksturssamninga og var honum deilt á milli bifreiðastjóranna þannig að í hvers hlut kom framangreind fjárhæð, 180.000 krónur, sem þeir lögðu til sem stofnfé í byggingarsjóðinn. Gerð var skipulagsskrá fyrir sjóðinn 11. september 1996. Árið áður hafði verið keypt fasteign, fyrir meðal annars fé úr sjóðnum, að Hafnargötu 56 í Keflavík, en kaupsamningur er dagsettur 12. september 1995. Í 3. gr. skipulagsskrárinnar kemur fram að markmið sjóðsins sé að eiga og reka fasteign í þeim tilgangi að reka þar leigubifreiðastöð.
Á árinu 2007 var fasteignin seld. Greitt var af andvirðinu samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins til þeirra sem þá stunduðu leigubifreiðaakstur á stöðinni. Stefnendur voru ekki meðal þeirra, en þeir höfðu hætt akstri á stöðinni á árinu 1996. Stefnendur telja að hver um sig hafi átt rétt á greiðslu af andvirðinu, eins og þeir sem hana fengu, og er krafa stefnenda í málinu byggð á því. Af hálfu stefndu er kröfum stefnenda mótmælt enda væru þær ekki á rökum reistar og án lagastoðar.
Málsástæður og lagarök stefnenda
Af hálfu stefnenda er vísað til þess að 17 leigubifreiðastjórar, sem allir hafi starfað hjá Bifreiðastöð Keflavíkur, hafi lagt fram 180.000 hver í hinn stefnda byggingarsjóð. Í þessum hópi hafi meðal annarra verið allir stefnendur, stefndu, Pétur og Páll, og Magnús I. Jóhannsson heitinn. Allir 17 hafi undirritað yfirlýsingu um að þeir myndu ekki gera neinar endurkröfur vegna eigin framlags til eigna stefnda, Byggingarsjóðs Bifreiðastöðvar Keflavíkur, hvorki þá né síðar, þar sem þeir líti á þær eignir sem vinnuaðstöðu eingöngu. Hinn stefndi byggingarsjóður hafi keypt húseignina að Hafnargötu 56 í Keflavík 12. september 1995. Húsnæðið hafi síðan verið notað sem vinnuaðstaða fyrir leigubifreiðastjórana. Eftir það hefðu stefnendur hætt að aka leigubifreiðum fyrir bifreiðastöðina, þó ekki allir samtímis.
Byggingarsjóðurinn hefði selt fasteignina fyrir 27.500.000 krónur 22. maí 2007. Í framhaldi af því hafi stjórn sjóðsins hafist handa við að greiða þessa fjármuni út úr sjóðnum til 13 af leigubifreiðastjórunum 17. Stefnendur hafi ekki verið meðal þeirra sem fengu greitt. Hins vegar hafi þar á meðal verið stefndu, Pétur og Páll, og Magnús I. Jóhannsson heitinn. Þeir þrír hafi alla tíð verið í stjórn sjóðsins. Magnús hafi látist 7. september 2008, en stefndu, Pétur og Páll, séu enn í stjórninni. Þessar greiðslur hafi verið misháar, sumar hærri og sumar lægri en einn sautjándi af söluandvirði fasteignarinnar, 27.500.000 krónum. Ef til vill hafi öll þessi fjárhæð verið greidd úr sjóðnum, en ekki sé þó útilokað að eitthvað sé þar eftir.
Þrátt fyrir innheimtutilraunir hafi stefnendur ekki fengið sinn hlut greiddan eins og hinir, en allir hafi lagt fram 180.000 krónur. Málið hafi verið höfðað á hendur stefnda, Byggingarsjóði Bifreiðastöðvar Keflavíkur, og stjórn hans, þeim stefndu, Pétri og Páli. Þá sé erfingjum Magnúsar I. Jóhannssonar stefnt, en hann hafi verið í stjórn á þeim tíma sem máli skipti, eða allt til dánardags 7. september 2008. Skiptum í búi hans hafi verið lokið með einkaskiptum 10. nóvember s.á.
Samlagsaðild sé með stefnendum, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í fyrsta lagi eigi dómkröfur þeirra allra rætur að rekja til sömu atvika og varði tilurð og starfsemi stefnda, Byggingarsjóðs Bifreiðastöðvar Keflavíkur, og kaup og sölu á fasteigninni að Hafnargötu 56. Í öðru lagi ættu dómkröfur þeirra allra rætur að rekja til þess að allir væru í sömu aðstöðu. Sumir þeirra, sem lagt hafi fram stofnfé í sjóðinn, hafi fengið greitt af andvirði fasteignarinnar en ekki stefnendur. Í þriðja lagi eigi dómkröfur þeirra allra rætur að rekja til þeirra löggerninga að stofna sjóðinn, leggja honum til fé, gera honum skipulagsskrá, kaupa og selja fasteignina og greiða fé út úr sjóðnum. Því sé ekki neinn vafi á heimild stefnenda til að sækja mál þetta í félagi samkvæmt lagagreininni.
Um samlagsaðild stefndu eigi sömu röksemdir við. Aðild erfingja Magnúsar heitins byggðist á því að dánarbúi hans hafi verið skipt með einkaskiptum og því beri erfingjarnir einn fyrir alla og allir fyrir einn ábyrgð á skuldbindingum búsins, sbr. 97. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Samlagsaðild sé með öllum stefndu vegna þess að dómkröfurnar á hendur þeim öllum ættu rætur að rekja til sömu atvika, aðstæðna og löggerninga. Ábyrgð stjórnarmannanna á athöfnum sínum sé auk þess óskipt milli þeirra og með hinum stefnda byggingarsjóði.
Þrettán af leigubílstjórunum sautján, sem upphaflega hafi lagt fram stofnfé í hinn stefnda byggingarsjóð, hafi fengið greiddan hluta af söluandvirði fasteignarinnar. Stefnendur hafi ekkert fengið. Með þessu hafi stefndu, sjóðurinn og stjórn hans, mismunað félögunum þar sem ekki hafi allir fengið greiðslur þótt framlag þeirra hafi verið jafnt í upphafi. Þessi mismunun sé brot á óskráðri meginreglu félagaréttar um jafnræði. Hún mæli m.a. fyrir um að stjórnum félaga sé óheimilt að mismuna einstökum félögum og gera þannig betur við suma á kostnað annarra. Þar sem sumir hafi fengið greitt sé ekki annað tækt en að greiða öllum jafnt. Stjórninni hafi borið að gæta hagsmuna allra félagsmanna og gæta um leið fulls jafnræðis og hlutlægni. Að greiða söluandvirði fasteignarinnar einungis til sumra félagsmanna feli bersýnilega í sér mismunun og afli þeim ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað hinna.
Samkvæmt 4. gr. skipulagsskrár sjóðsins hafi stjórn hans verið falið að fara vel með fjármuni hans. Ekki geti talist eðlileg ráðstöfun eða ráðvönd að tæma sjóðinn með greiðslum til sumra stofnfélaga en ekki annarra. Stjórninni hafi borið að gæta hagsmuna sjóðsins og allra félaganna. Þar sem framlag þeirra allra hafi verið jafnhátt við inngöngu hafi þeir átt að fá jafnmikið greitt þegar kom að því að greiða úr sjóðnum.
Stefndu stoði ekki að bera því við að stefnendur hafi undirritað yfirlýsingar um að þeir gerðu engar endurkröfur. Það sé annars vegar vegna þess að yfirlýsingarnar væru beinlínis háðar því skilyrði að eignir hins stefnda byggingarsjóðs yrðu notaðar sem vinnuaðstaða eingöngu. Eftir að fasteignin var seld og eignir greiddar úr sjóðnum ætti það ekki lengur við, en þá sé ekki um neina vinnuaðstöðu að ræða lengur. Hins vegar sé það vegna þess að allir hinir, sem lögðu fram stofnfé, hafi undirritað samhljóða yfirlýsingar á sama tíma, þ.m.t. þeir sem hafi þegið hlutfall af söluandvirði fasteignarinnar. Því hafi verið alveg ástæðulaust að láta þá njóta frekari réttar en stefnendur. Þegar allir stofnfélagar hins stefnda byggingarsjóðs hafi undirritað samskonar yfirlýsingar hafi komist á samkomulag með þeim og sjóðnum, þess efnis að þeir afsöluðu sér rétti til endurgreiðslu. Það samkomulag hafi byggst á þeirri forsendu að allir stofnfélagarnir undirrituðu slíkar yfirlýsingar. Nú hafi yfirlýsingarnar verið hundsaðar og sumir sem undirrituðu þær hafi fengið greitt úr sjóðnum. Þar með væru allar forsendur fyrir þessu loforði brostnar og geti stefndu því ekki byggt neinn rétt á þeim lengur.
Stefnda, Byggingarsjóði Bifreiðastöðvar Keflavíkur, beri að greiða stefnendum sinn hluta af söluandvirði fasteignarinnar, 27.500.000 krónum. Einn sautjándi af því sé kröfufjárhæð hvers stefnenda um sig, 1.617.647 krónur. Stefnendur krefjast þess að sjóðurinn efni þessa skyldu, en greiði þeim ella skaðabætur að sömu fjárhæð. Stefndu, Pétri og Páli, stjórnarmönnum sjóðsins, og erfingjum Magnúsar I. Jóhannssonar, fyrrverandi stjórnarmanns, beri jafnframt að bæta stefnendum það tjón sem þeir hafi orðið fyrir vegna þess að stjórnin hafi mismunað þeim.
Stjórn hins stefnda byggingarsjóðs og sjóðurinn sjálfur beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnendum. Stefndu hafi ekki gætt hagsmuna stefnenda þegar greitt var úr sjóðnum. Einstökum félögum hafi verið hyglað á kostnað stefnenda og stjórn sjóðsins hafi ekki sýnt ráðdeild við meðferð á eignum hans. Þannig hafi sjóðurinn, og um leið stefnendur, orðið fyrir tjóni. Hinn stefndi sjóður og stjórnarmenn hans hafi á ólögmætan hátt, af ásetningi eða gáleysi, brotið skráðar og óskráðar reglur samninga og skipulagsskrár sjóðsins. Með þessu hafi sjóðurinn og stjórnin valdið stefnendum tjóni sem stefndu ber með vísan til almennu sakarreglunnar að bæta þeim.
Saknæmið og ólögmætið felist í því að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu, samkomulaginu, sem stofnendur sjóðsins gerðu þegar þeir undirrituðu yfirlýsingarnar, og gegn 3. og 4. gr. skipulagsskrár sjóðsins. Tjón hvers stefnenda fyrir sig nemi að höfuðstól þeim hlut, sem hverjum þeirra hefði borið að fá, hefðu þeir fengið sama hlutfall af söluandvirði fasteignarinnar og þeir hafi lagt til í upphafi í sjóðinn. Stefnendur hafi ekki notið góðs af fasteigninni eða haft afnot af henni. Kostnað, sem á hafi fallið, verði þeir að bera sem hafi haft afnot af fasteigninni. Stefnendur mótmæli því að krafa þeirra eigi að lækka. Frestur gagnvart stefnendum til að hafa uppi kröfu á hendur stefndu hafi ekki byrjað að líða fyrr en 22. maí 2007.
Upphafsdagur dráttarvaxta miðist við þann dag þegar liðinn var mánuður frá þeim degi þegar hinn stefndi byggingarsjóður seldi fasteignina að Hafnargötu 56. Engin ástæða hafi verið til að halda peningunum lengur frá stefnendum. Við söluna, og jafnvel fyrr, hafi legið fyrir ákvörðun um að greiða peningana út. Stefnendur vísi til jafnræðisreglu og til reglna um skyldu stjórna félaga til að sýna ráðdeild. Þá vísi stefnendur til reglna um skilyrði og forsendur samninga og forsendubrest. Um dráttarvexti vísist til laga nr. 38/2001, sérstaklega 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. Um varnarþing vísist til 1. mgr. 31. gr. og 1. mgr. 42. gr. laga um meðferð einkamála, en stefnda Sigfríð eigi lögheimili í Reykjavík. Krafan um málskostnað sé reist á 1. mgr. 130. gr. sömu laga. Krafan um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988, en stefnendur reki ekki neina virðisaukaskattskylda starfsemi.
Málsástæður og lagarök stefndu
Málsatvikum lýsa stefndu þannig að fasteignin, sem hinn stefndi sjóður hafi keypt á árinu 1995 að Hafnargötu 56, hafi þarfnast mikilla lagfæringa, eins og tekið sé fram í kaupsamningi. Því hafi verið gerðar miklar endurbætur á henni og hún ekki tekin í notkun fyrr en um ári eftir kaupin, eða seinni hluta ársins 1996. Stefnendur hafi allir hætt að vinna fyrir Bifreiðastöð Keflavíkur fyrri hluta þess árs. Þeir hafi því aldrei starfað hjá stöðinni þegar hún var til húsa að Hafnargötu 56.
Hinn stefndi byggingarsjóður hafi tekið lán, bæði fyrir kaupunum á húsinu og nauðsynlegum endurbótum á því sem hafi verið mjög umfangsmiklar og kostnaðarsamar. Greitt hafi verið af láninu með því að innheimta stöðvargjöld af starfsmönnum stöðvarinnar og hafi gjaldið hækkað þónokkuð frá því sem verið hafði. Þá hafi einnig verið samkomulag meðal starfsmanna um að hlutfall af greiðslum frá föstum viðskiptavinum stöðvarinnar skyldu renna til sjóðsins. Samningar við fasta viðskiptavini hafi verið fjölmargir og stór hluti af rekstri stöðvarinnar. Starfsmenn stöðvarinnar hafi þannig greitt beint til sjóðsins með gjöldum en einnig óbeint með vinnu sinni.
Stefnendur hafi engan þátt tekið í greiðslum vegna fasteignarinnar, hvorki beint né óbeint, enda hafi þeir verið hættir að starfa við stöðina þegar kostnaður af henni féll til. Öll verðmætasköpunin hafi því farið fram eftir að stefnendur hættu störfum á stöðinni. Með vinnu og greiðslum hafi starfsmenn stöðvarinnar greitt fyrir fasteignina smátt og smátt í mörg ár. Verðmætasköpunin, sem felist í fasteigninni, sé til komin vegna vinnu og fégreiðslna annarra en stefnenda.
Kröfugerð stefnenda sé ófullkomin og vanreifuð. Stefnendur krefjist hlutdeildar í söluverði fasteignarinnar án þess að draga nokkuð frá því, en þeir geti aldrei átt réttmæta kröfu um hlutdeild í brúttó söluverði fasteignarinnar. Stefnendur hafi ekki gert fullnægjandi grein fyrir kröfu sinni, en þeir verði að sýna fram á hlutdeild sína í nettó verðmæti fasteignarinnar, að teknu tilliti til alls. Draga þurfi uppgjör lána og þóknun fasteignasala frá söluverðinu og alla kostnaðarliði, sem fallið hafi til frá 1996 til 2007, enda hafi stefnendur engan þátt tekið í þeim kostnaði.
Málatilbúnaður stefnenda sé óljós en þeir geri kröfu um að fá hlutdeild í söluverði sem þeir telji sig hafa átt að fá til jafns við aðra. Ef stefnendur líti svo á að þeir hafi átt að fá hlutdeild til jafns við aðra þá felist væntanlega í því að aðrir, sem fengu greidda hlutdeild, hafi fengið of háa greiðslu í sinn hlut. Miðað við þennan málatilbúnað þeirra hefðu þeir þurft að stefna öllum sem fengu greiðslur frá félaginu. Stefnendur ættu þá rétt á hluta af þeim greiðslum sem hver og einn hafi fengið. Verði fallist á málsástæður stefnenda, sem byggi á mismunun við úthlutun söluverðs, geti það aðeins leitt til þess að stefnendur fái greitt frá hverjum og einum hluta af þeirri greiðslu sem hver og einn hafi fengið. Að öðrum kosti yrði ráðstafað meiri peningum vegna sölunnar á fasteigninni heldur en nemi söluverði hennar. Það stangist á við málatilbúnað stefnenda um jafna úthlutun verðsins.
Engin stoð sé fyrir því að hver og einn stefndu beri ábyrgð á að greiða stefnendum alla kröfu þeirra. Stefnendur hafi engin rök fært fyrir því hvers vegna krafa þeirra sé sameiginlega á ábyrgð allra stefndu (in solidum) þannig að hver og einn stefndu beri persónulega ábyrgð á allri skuldinni. Engin rök væru fyrir slíkri kröfuábyrgð sem sé auk þess í andstöðu við málatilbúnað stefnenda að öðru leyti.
Sjálfseignarstofnanir beri aðeins ábyrgð á skuldbindingum sínum með eigin eignum og eignir stofnunarinnar séu það eina sem standi til fullnustu krafna á hendur slíkri stofnun. Engir félagsmenn væru í stofnuninni til að bera persónulega ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Hvorki stofnendur né stjórnarmenn stofnunarinnar beri þannig ábyrgð á skuldbindingum hennar. Stefnendur eigi enga kröfu samkvæmt reglum félagaréttar. Byggingarsjóðurinn sé sjálfseignarstofnun. Samkvæmt reglum um sjálfseignarstofnanir ættu engir aðilar þær heldur ættu þær sig alfarið sjálfar. Sjálfseignarstofnanir séu í raun ekki félög og ekkert réttarsamband skapist milli sjálfseignarstofnunar og stofnenda þeirra eða annarra.
Ekki sé hægt að eiga hluti í sjálfseignarstofnun og stofnfjárframlag til hennar sé óendurkræft. Það skapi hvorki rétt til arðs né áhrifa eða fjárhagsleg- eða ófjárhagsleg réttindi. Raunar sé það grundvallar hugtaksskilyrði sjálfseignarstofnunar að reiðufé, eða önnur verðmæti, sem henni eru afhent, séu óafturkallanleg. Auk hinna almennu reglna, sem gildi um sjálfseignarstofnanir, hafi stefnendur gefið sérstaka yfirlýsingu um að þeir muni ekki gera neinar endurkröfur vegna framlags þeirra.
Jafnræðisreglan, sem stefnendur byggi á, sé óljós og ósönnuð. Jafnræðisregla félagaréttar eigi við um hlutafélög og einkahlutafélög en ekki sjálfseignarstofnanir. Jafnræðisreglunni sé ætlað að tryggja að allir hluthafar njóti jafns réttar, en þar sem engir hluthafar séu í sjálfseignarstofnun geti reglan þegar af þeirri ástæðu ekki átt við. Stofnunin sé eini eigandinn að sjálfri sér og því engin þörf á að gæta jafnræðis hennar einnar. Jafnræðisreglan eigi því ekki við um úrlausnarefnið.
Þá hafi heldur engin önnur jafnræðisregla á neinu öðru réttarsviði verið brotin. Stefnendur hafi hætt að vinna hjá Bifreiðastöð Keflavíkur áður en hún hafi tekið til starfa að Hafnargötu 56. Afborgun lána, viðgerðir, viðhald, skattar o.fl. hafi því alla tíð verið í höndum annarra en stefnenda. Smátt og smátt hafi virði fasteignarinnar aukist fyrir tilkomu starfsmanna bifreiðastöðvarinnar. Þegar húsið hafi loks verið selt hafi um 11 ár verið liðin frá því að stefnendur hættu störfum hjá stöðinni. Stefnendur hafi ekkert framlag lagt til fasteignarinnar í allan þann tíma og sé með ólíkindum að þeir telji það vera til marks um jafnræði að þeir geti krafist að fá greidda hlutdeild í söluverði fasteignarinnar eftir öll þess ár.
Stefnendur hafi greitt framlag til hins stefnda byggingarsjóðs á árunum 1991 og 1992. Þeir hafi skrifað undir yfirlýsingu árið 1992 um að þeir myndu ekki gera neinar endurkröfur vegna framlagsins. Stefnendur hafi hætt störfum fyrir Bifreiðastöð Keflavíkur árið 1996, eða 13 árum áður en mál þetta var höfðað. Hafi þeir, þrátt fyrir allt, átt kröfu um tilkall til endurgreiðslu framlagsins þá hafi sú krafa stofnast þegar stefnendur hættu störfum fyrir stöðina. Krafa stefnenda sé því fyrnd samkvæmt 2. tl. 4. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Hafi stefnendur í raun talið sig eiga rétt til eignarhlutar í fasteigninni hafi þeim borið að gera slíka kröfu mun fyrr. Hafi krafan ekki fyrnst sé hún fallin niður fyrir tómlæti.
Þá sé ekki gerð grein fyrir því í stefnu hvernig skilyrðum skaðabótareglunnar sé fullnægt. Stefnendur virtust byggja á því að sjóðurinn sjálfur hefði orðið fyrir tjóni og þar sem svo sé beri sjóðnum að greiða bætur. Í þessu felist þversögn. Hafi sjóðurinn orðið fyrir tjóni eigi stefnendur ekki aðild að máli til að heimta bætur fyrir hönd sjóðsins. Stefnendur hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni. Þeir hafi ekki átt nokkra eign eða réttindi og því hafi þeir engu tapað.
Innan aðalkröfu stefndu felist krafa um lækkun á kröfum stefnenda, en verði fallist á röksemdir stefnenda að einhverju leyti beri að lækka kröfur þeirra verulega. Stefnendur geti ekki gert kröfu um að fá nettó hluta söluhagnaðar í sinn hlut án nokkurs frádráttar. Hafi verið brotið gegn stefnendum eigi þeir eingöngu rétt á raunverulegu tjóni, sé það nokkuð, en eigi ekki að hagnast á brotinu. Til frádráttar kröfu stefnenda komi allur kostnaður af eigninni frá því að stefnendur hættu að taka þátt í greiðslum af henni fyrri hluta árs 1996 til söludags. Stefndu og fleiri hafi í meira en 10 ár lagt peninga til fasteignarinnar. Á sama tíma hafi stefnendur ekkert greitt og því hafi þeir getað ráðstafað sambærilegum fjármunum í annað. Til að fyllsta jafnræðis sé gætt verði að reikna út og draga frá allar greiðslur, sem stefnendur hefðu þurft að greiða til jafns við aðra, hefðu þeir haldið áfram störfum á bifreiðastöðinni. Reikna þurfi út hvert virði þeirra greiðslna væri í dag hefði það verið lagt inn á banka á sama tíma og starfsmenn bifreiðastöðvarinnar hafi ráðstafað sömu fjárhæðum til fasteignarinnar. Hafa verði til hliðsjónar kostnað af uppgreiðslu lána við sölu fasteignarinnar, þóknun fasteignasala, afborganir lána, stöðvargjöld, hlutdeild í greiðslum fastra viðskiptavina, skatta, gjöld, viðhald, endurbætur og hagnað stefnenda af því að geta ávaxtað fjármuni í 11 ár sem annars hefðu runnið til greiðslna vegna fasteignarinnar.
Upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnenda sé mótmælt. Verði fallist á kröfu um dráttarvexti verði þeir fyrst dæmdir frá dómsuppsögudegi. Kröfugerð stefnenda sé óljós og stefndu hefðu haft fullt tilefni til að taka til varna. Stefndu hafi ekki getað lagt mat á kröfuna fyrr en að dómi föllnum og ósanngjarnt að stefnendur njóti þess í formi dráttarvaxta. Stefndi vísi um það til 9. gr. laga nr. 38/2001. Málskostnaðarkrafa stefndu eigi sér stoð í 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa stefndu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988, en stefndu séu ekki virðisaukaskattskyldir.
Niðurstaða
Kröfur stefnenda í málinu eru byggðar á því að þeir hafi ekki fengið greitt úr hinum stefnda sjóði, eins og aðrir, þótt allir hafi lagt jafnt framlag í sjóðinn í upphafi. Þetta telja stefnendur að feli í sér mismunun gagnvart félagsmönnum og brot á jafnræðisreglu og reglum sjóðsins. Enn fremur telja stefnendur að samkomulag hafi verið brotið með því að ráðstafa fé úr sjóðnum á annan hátt en gengið var út frá þegar stefnendur undirrituðu yfirlýsingar um að þeir gerðu engar endurkröfur á hendur hinum stefnda byggingarsjóði.
Samkvæmt skipulagsskrá stefnda, Byggingarsjóðs Bifreiðastöðvar Keflavíkur, frá 11. september 1996 er sjóðurinn skilgreindur sem sjálfseignarstofnun. Í 3. gr. skipulagsskrárinnar er markmiðum sjóðsins lýst, en þau eru að eiga og reka fasteign í þeim megintilgangi að reka þar leigubifreiðastöð. Í skipulagsskránni eru einnig ákvæði um skipun stjórnar sjóðsins sem skuli bera ábyrgð á fjárvörslu eigna hans og því að fé hans sé ávaxtað á tryggilegan hátt. Stjórn sjóðsins skuli hafa umsjón með fasteignum í eigu sjóðsins og beri að gæta þess að viðhalda þeim eins og kostur sé á hverjum tíma. Með yfirlýsingum þeirra sem lögðu stofnfé í sjóðinn, um að þeir muni ekki gera neinar endurkröfur vegna framlags þeirra til sjóðsins, verður að líta svo á að um óafturkræft framlag þeirra hafi verið að ræða. Hinn stefndi sjóður hefur með vísan til þessa öll helstu einkenni sjálfseignarstofnunar. Sjóðurinn telst því ekki félag og stefnendur, og aðrir sem lögðu í upphafi stofnfé í sjóðinn, eru þar með ekki félagsmenn í honum.
Í jafnræðisreglunni, sem vísað er til af hálfu stefnenda, felst að allir sem eins er ástatt um njóti sama réttar. Samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu tók stjórn sjóðsins ákvörðun um að ráðstafa söluandvirði húseignarinnar til þeirra sem stóðu að rekstri leigubifreiðastöðvarinnar þegar húsið var selt. Rök stefndu fyrir því eru þau að lagðir hafi verið fjármunir í húsnæðið, viðhald þess og rekstur á árunum 1996 til 2007. Þeir fjármunir hafi komið frá þeim sem greiddu stöðvargjöld á þessum árum og einnig sem ákveðið hlutfall af greiðslum frá föstum viðskiptavinum bifreiðastöðvarinnar. Það eigi ekki við um stefnendur, en á þessum árum hafi engar greiðslur komið frá þeim. Samkvæmt kaupsamningi 12. september 1995 var kaupverð hússins 6.350.000 krónur en greiðsla við samning var 3.040.738 krónur. Fram kemur í skipulagsskrá sjóðsins að stofnfé hans var 3.060.000 krónur. Gera þurfti miklar endurbætur á húsinu, en í kaupsamningnum segir að kaupendum sé kunnugt um að eignin þarfnist mikilla lagfæringa. Af þessu verður ráðið að það sem greitt var úr sjóðnum, eftir að fasteignin var seld á árinu 2007, var ekki miðað við upphaflegt framlag sem lagt var til sjóðsins sem stofnfé á árunum 1991 og 1992. Verður með vísan til þessa ekki fallist á að staða stefnenda, sem hættu leigubifreiðaakstri á árinu 1996, sé sambærileg stöðu þeirra sem fengu greitt úr sjóðnum 2007. Ber því að hafna þeirri málsástæðu stefnenda að jafnræðisregla hafi verið brotin gagnvart þeim á þann hátt sem þeir hafa lýst og rakið er hér að framan.
Engin ákvæði eru í skipulagsskránni um það hvernig hinum stefnda sjóði verði slitið eða hver sé réttur þeirra, sem lögðu til stofnfé í sjóðinn, til greiðslna úr honum við slit hans eða af öðrum ástæðum, svo sem þegar sjóðurinn gegnir ekki lengur því hlutverki sem honum var ætlað samkvæmt skipulagsskrá. Ber með vísan til þess, og annars sem fyrir liggur í málinu og hér hefur verið rakið, að hafna þeirri málsástæðu stefnenda að reglur sjóðsins hafi verið brotnar þegar greitt var úr honum samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins.
Þá verður að hafna þeirri málsástæðu stefnenda að samkomulag hafi verið brotið gagnvart þeim með því að greiða úr sjóðnum þar sem forsendur þeirra fyrir því að undirrita yfirlýsingu um að þeir gerðu ekki endurkröfur á sjóðinn hefðu verið þær að eignir sjóðsins yrðu eingöngu notaðar sem vinnuaðstaða. Þegar litið er til þeirra reglna, sem giltu um starfsemi sjóðsins, markmiða og tímans sem liðinn er frá því að stefnendur lögðu til fé í hann, þykja ekki fram komin viðhlítandi rök fyrir því af hálfu stefnenda að samkomulag hafi verið brotið gagnvart þeim af hálfu stefndu.
Með vísan til alls þessa skortir kröfur stefnenda, eins og þær eru fram settar, lagastoð og ber því að sýkna stefndu af þeim.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Málið dæmir Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndu, Byggingarsjóður Bifreiðastöðvar Keflavíkur, Páll Sveinsson, Pétur Þórarinsson, Ægir Magnússon, Hafsteinn Þór Magnússon, Hrafnhildur Guðbrandsdóttir, Sigfríð Magnúsdóttir, Þuríður Guðrún Magnúsdóttir, Rebekka Magnúsdóttir og Haraldur Magnússon, eru sýknuð af kröfum stefnenda, Arnars Arngrímssonar, Reynis Heiðdal Ölverssonar og Róberts Smára Reynissonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.