Hæstiréttur íslands

Mál nr. 446/2000


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Vinnusamningur
  • Orlof
  • Slysatrygging


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. maí 2001.

Nr. 446/2000.

Ágúst I. Sigurðsson

(Helgi Jóhannesson hrl.)

gegn

Hallgrími Einarssyni og

Steinunni Eldjárnsdóttur

(Björn L. Bergsson hrl.)

 

Sjómenn. Vinnusamningur. Orlof. Slysatrygging.

H starfaði sem skipverji á skipi Á en lét fyrirvaralaust af störfum í kjölfar ágreinings sem upp kom milli þeirra. H hafði slasast um borð í skipinu nokkru áður og greiddi Á honum tiltekna fjárhæð vegna veikindaforfalla. H tók hins vegar við nokkru hærri fjárhæð úr slysatryggingu sjómanna og vátryggingu hjá Tryggingastofnun ríkisins. Var fallist á að Á bæri að standa H skil á mismuninum, enda var ekki talið að Á hefði verið heimilt að taka til sín hluta fjárins þar sem tryggingarnar hefðu verið teknar til hagsbóta fyrir H. Samið hafði verið um að laun H yrðu tiltekið hlutfall af verðmæti heildarafla. Krafðist H til viðbótar greiðslna fyrir orlof en Á bar að hin umsamda hlutdeild H í verðmæti heildarafla fæli meðal annars í sér orlofslaun. Með hliðsjón af gögnum málsins var fallist á að svo hefði verið um samið og var ekki talið að ákvæði laga um orlof stæðu slíku samkomulagi í vegi. Ekki var talið að Á ætti rétt til að skerða greiðslur til H á grundvelli 60. gr. sjómannalaga vegna brotthvarfs hans úr skipsrúmi. H og S voru hins vegar dæmd til að greiða Á tiltekna fjárhæð vegna úttekta þeirra í verslun Á, enda höfðu þau H og S viðurkennt þá kröfu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. desember 2000. Hann krefst þess að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms í aðalsök í héraði um að stefndu beri að greiða sér 278.354 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Þá krefst hann þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu stefnda Hallgríms Einarssonar í gagnsök í héraði, en til vara verði hún lækkuð. Einnig krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins rekur áfrýjandi verslun í Ólafsvík og gerir einnig út skip til fiskveiða þaðan. Stefndi Hallgrímur mun á árinu 1997 hafa ráðist til starfa á skipi áfrýjanda og verið þar eini skipverjinn. Skip þetta mun hafa verið undir sex tonnum að stærð og eru aðilarnir sammála um að af þeim sökum hafi enginn kjarasamningur tekið til starfa Hallgríms. Ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur, en munnlega hafi verið samið um að við ákvörðun launa Hallgríms yrði lagt til grundvallar verðmæti heildarafla skipsins að frádregnum fjórðungshlut vegna kostnaðar áfrýjanda af útgerðinni, sölukostnaði, markaðskostnaði og launum beitingarmanns. Af mismuninum fengi Hallgrímur í laun sem svaraði 47% ef skipið væri á línuveiðum, en 45% ef það væri á handfæraveiðum. Óumdeilt er að áfrýjandi gerði skriflegt uppgjör vegna hverrar veiðiferðar Hallgríms í samræmi við þessi ráðningarkjör. Á launaseðlum, sem áfrýjandi mun hafa gert mánaðarlega á grundvelli þessara uppgjöra við útborgun launa til Hallgríms, var meginhluti fjárhæðarinnar, sem honum bar, tilgreindur við fyrirsögnina „aflahlutur“, en eftirstöðvar hennar, sem svöruðu til 10,17% af aflahlutnum, voru færðar sem orlof.

Fyrir liggur í málinu að stefndi Hallgrímur varð fyrir slysi á leið til vinnu 23. mars 1999 og var óvinnufær vegna þess allt þar til í júlí á sama ári. Ekki er deilt um að vegna slyssins hafi hann átt rétt til launa úr hendi áfrýjanda eftir ákvæði 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, svo og að skipið hafi ekki verið gert út meðan á forföllum Hallgríms stóð. Mun áfrýjandi hafa innt af hendi til hans greiðslur til bráðabirgða upp í laun, en til uppgjörs gerðu þeir síðan skriflegt samkomulag 31. ágúst 1999 um að „veikindabætur“ vegna slyssins yrðu alls 422.372 krónur. Fyrir liggur að áfrýjandi hafði tekið slysatryggingu sjómanna hjá Vátryggingafélagi Íslands hf., auk vátryggingar hjá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt 63. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Í júlí og ágúst 1999 tók áfrýjandi við samtals 527.964 krónum úr þessum tryggingum vegna umrædds slyss.

Af gögnum málsins verður ráðið að stefndi Hallgrímur hafi tekið upp fyrri störf sín hjá áfrýjanda í júlí 1999 og gegnt þeim allt þar til þeir komu saman snemma í október sama árs til fundar um útgerð á skipi áfrýjanda. Kom þar upp ágreiningur milli áfrýjanda og Hallgríms, sem lýsti yfir að hann hætti störfum. Með bréfi til Hallgríms 14. október 1999 lét áfrýjandi í ljós að hann liti svo á að sá fyrrnefndi hefði horfið úr starfi án þess að virða uppsagnarfrest, enda hefði hann hvorki mætt til vinnu um einnar viku skeið né tilkynnt um forföll.

Áfrýjandi þingfesti í héraði mál þetta á hendur stefndu 9. febrúar 2000 til heimtu skuldar að fjárhæð 278.354 krónur á sameiginlegum viðskiptareikningi stefndu vegna úttekta á vörum úr verslun hans og peningum á tímabilinu 24. ágúst til 30. október 1999. Stefndu viðurkenna þessa skuld. Stefndi Hallgrímur höfðaði á hinn bóginn gagnsök í málinu 8. mars 2000 til heimtu á samtals 692.018 krónum. Krafðist hann annars vegar greiðslu á 586.426 krónum vegna vanreiknaðra orlofslauna frá árunum 1997 til 1999, en kröfuna reisti hann á því að áfrýjandi hafi ranglega dregið orlof af umsömdum heildarlaunum hans í stað þess að reikna orlofið af þeim og leggja það við þau. Hins vegar hafi áfrýjandi tekið til sín 105.592 krónur af áðurnefndum tryggingabótum, sem hann veitti viðtöku vegna slyss Hallgríms, en til þess fjár eigi áfrýjandi ekki rétt og beri honum að greiða það Hallgrími. Áfrýjandi andmælir báðum þessum liðum í gagnkröfu Hallgríms, en um þær er þó ekki tölulegur ágreiningur.

II.

Aðilarnir leita ekki endurskoðunar á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um kröfu, sem áfrýjandi gerði á hendur stefndu í aðalsök í héraði. Verður því óröskuð sú niðurstaða héraðsdóms að stefndu beri í sameiningu að greiða áfrýjanda 278.354 krónur með dráttarvöxtum, eins og þar greinir nánar.

Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof ber vinnuveitanda að reikna orlofslaun við hverja launagreiðslu til starfsmanns þannig að þau nemi að lágmarki 10,17% af heildarlaunum hans. Áfrýjandi hefur ekki andmælt þeirri staðhæfingu stefnda Hallgríms að venjuhelgað sé að líta svo á að aflahlutur sjómanns á fiskiskipi teljist til heildarlauna í skilningi þessa lagaákvæðis, þannig að orlofslaun leggist við hann. Áfrýjandi heldur því á hinn bóginn fram að þeir Hallgrímur hafi samið um að fyrrgreind hlutdeild hans í verðmæti afla af skipi áfrýjanda fæli meðal annars í sér orlofslaun. Þótt áfrýjandi hafi ekki sérstaklega fært sönnur fyrir því, sem kann að hafa farið á milli þeirra Hallgríms um þetta efni við upphaf vinnusambands þeirra, verður ekki horft fram hjá því, sem áður greinir, að af framlögðum launaseðlum frá áfrýjanda til Hallgríms og uppgjörum fyrir einstakar veiðiferðir verður skýrlega ráðið að áfrýjandi hefur alla tíð skipt umsaminni fjárhæð hlutdeildar Hallgríms í aflaverðmætinu annars vegar í aflahlut og hins vegar í orlof, sem svaraði til 10,17% af aflahlutnum. Óumdeilt er að Hallgrímur hafi ekki hreyft athugasemdum út af þessu fyrr en um þær mundir, sem ráðningu hans hjá áfrýjanda var að ljúka. Er óhjákvæmilegt að líta svo á að með þessu hafi Hallgrímur staðfest í verki að áfrýjandi hafi staðið að launagreiðslum til sín eins og munnlegur samningur þeirra um ráðningarkjör kvað á um. Ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1987 getur ekki staðið í vegi því að samið sé í einu lagi um ákveðna heildarfjárhæð endurgjalds fyrir vinnu, sem skipt verði síðan við launauppgjör hverju sinni í vinnulaun, orlofslaun og eftir atvikum aðra liði samkvæmt vinnusamningi, kjarasamningi eða lögum. Að þessu virtu verður að sýkna áfrýjanda af kröfu stefnda Hallgríms um vangreidd orlofslaun.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að áfrýjanda beri að greiða stefnda Hallgrími áðurnefndar eftirstöðvar tryggingabóta að fjárhæð 105.592 krónur, sem áfrýjandi tók við vegna slyss Hallgríms 23. mars 1999. Verður ekki fallist á að áfrýjanda sé heimilt að taka til sín hluta þess fjár til að mæta gjöldum í tengslum við launagreiðslur til Hallgríms meðan hann var frá vinnu, enda voru tryggingarnar, sem áður var getið, teknar til hagsbóta starfsmanni á skipi áfrýjanda, en ekki vegna hagsmuna hans sjálfs. Um greiðsluna, sem hér um ræðir, var áfrýjandi fyrst krafinn með innheimtubréfi 14. desember 1999. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 getur þessi krafa Hallgríms því fyrst borið dráttarvexti frá 14. janúar 2000 að telja.

Staðfest verður sú niðurstaða héraðsdómara að áfrýjandi eigi ekki rétt á að skerða greiðslur til stefnda Hallgríms á grundvelli 60. gr. sjómannalaga vegna brotthvarfs hans úr skiprúmi.

Samkvæmt framansögðu ber stefndu að greiða áfrýjanda 278.354 krónur, en honum að greiða stefnda Hallgrími 105.592 krónur. Í greinargerð stefndu í aðalsök í héraði var krafist sýknu af kröfu áfrýjanda á grundvelli skuldajafnaðar við gagnkröfu Hallgríms. Því til samræmis verða stefndu dæmd til að greiða áfrýjanda mismun þessara fjárhæða, eða 172.762 krónur, með dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir þessum úrslitum málsins er rétt að aðilarnir beri hver sinn kostnað af því í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Stefndu, Hallgrímur Einarsson og Steinunn Eldjárnsdóttir, greiði í sameiningu áfrýjanda, Ágústi I. Sigurðssyni, 172.762 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 18.871 krónu frá 24. ágúst 1999 til 25. sama mánaðar, af 23.400 krónum frá þeim degi til 28. sama mánaðar, af 30.325 krónum frá þeim degi til 31. sama mánaðar, af 36.609 krónum frá þeim degi til 3. september sama árs, af 61.609 krónum frá þeim degi til 8. sama mánaðar, af 65.844 krónum frá þeim degi til 10. sama mánaðar, af 103.063 krónum frá þeim degi til 14. sama mánaðar, af 111.230 krónum frá þeim degi til 4. október sama árs, af 116.230 krónum frá þeim degi til 5. sama mánaðar, af 186.230 krónum frá þeim degi til 15. sama mánaðar, af 247.685 krónum frá þeim degi til 15. nóvember sama árs, af 278.354 krónum frá þeim degi til 14. janúar 2000, en af 172.762 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 19. september 2000.

Málið höfðaði Ágúst I. Sigurðsson, kt. 220845-4359, Ólafsbraut 55, Snæfellsbæ, á hendur Hallgrími Einarssyni, kt. 040343-3429, og Steinunni Eldjárnsdóttur, kt. 150850-3209, báðum til heimilis að Grundarbraut 16, Snæfellsbæ, með stefnu útgefinni 1. febrúar 2000 og birtri 3. s.m.

Málið var þingfest 9. febrúar 2000. Hinn 8. mars s.á. lögðu stefndu fram greinargerð, jafnframt því sem stefndi Hallgrímur höfðaði gagnsök á hendur aðalstefnanda.  Málið var tekið til dóms 29. ágúst 2000 að loknum munnlegum málflutningi.

Í aðalsök gerir stefnandi þær dómkröfur að stefndu verði dæmd óskipt til greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 278.354 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 18.871,- frá 24/8 1999 til 25/8 1999, en af kr. 23.400 frá þeim degi til 28/8 1999, af kr. 30.325 frá þeim degi til 31/8 1999 en af kr. 36.609,- frá þeim degi til 3/9 1999, en af kr. 61.609,- frá þeim degi til 8/9 1999, af kr. 65.844 frá þeim degi til 10/9 1999, af kr. 103.063,- frá þeim degi til 14/9 1999, af kr. 111.230,- frá þeim degi til 4/10 1999, af kr. 116.230 frá þeim degi til 5/10 1999, af kr. 186.230,- frá þeim degi til 15/10 1999, en af kr. 247.685 frá degi til 15/11 1999 og loks af kr. 278.354,- frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi í aðalsök málskostnaðar að mati dómsins úr hendi stefndu.

Stefndu gera í aðalsök þær dómkröfur að þau verði sýknuð af dómkröfum stefnanda.  Þá gera þau þær kröfur að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins.

Í gagnsök gerir gagnstefnandi, Hallgrímur, þær dómkröfur að gagnstefndi verði, persónulega og fyrir hönd óskráðs einkafirma síns, Þinnar verslunar Kassans, dæmdur til að greiða gagnastefnanda 692.018, auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 201.857 frá 1. maí 1998 til jafnlengdar 1999, en síðan af kr. 469.123 frá þeim degi til 31. ágúst s.á., en af kr. 574.715 frá þeim degi til 31. október 1999, og loks af kr. 692.018 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst gagnstefnandi málskostnaðar að mati dómsins úr hendi gagnstefnda .

Gagnstefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum gagnstefnanda.  Til vara krefst gagnstefndi þess að bótum að fjárhæð kr. 211.186 auk dráttarvaxta frá 7. október 1999 til greiðsludags verði skuldajafnað á móti kröfum gagnstefnanda.  Í því sambandi krefst gagnstefndi þess til vara að fjárhæð bóta til skuldajafnaðar verði ákvarðaðar kr. 191.710 og til þrautavara að þær verði ákvarðaðar kr. 29.821.  Þá krefst gagnstefndi málskostnaðar að mati dómsins og að dæmdur málskostnaður beri dráttarvexti frá gjalddaga til greiðsludags og að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti.

Málsatvikum, málsatvikum og lagarökum er svo lýst í stefnu í aðalsök svo sem hér segir:

Sagt er að stefnufjárhæð sé byggð á samtals 29 reikningum vegna úttekta aðalstefndu á vörum og peningum hjá aðalstefnanda sem reki verslunina Kassann í Ólafsvík jafnhliða því sem hann stundi útgerð.  Segir í stefnunni að aðalstefndi Hallgrímur hafi verið starfsmaður útgerðar aðalstefnanda og hafi verið samkomulag milli aðila um að úttektir beggja stefndu og að laun aðalstefnda Hallgríms yrðu færð á viðskiptareikning beggja aðalstefndu hjá aðalstefnanda stefnanda.  Segir aðalstefnandi að aðalstefndi Hallgrímur hafi látið af störfum hjá aðalstefnanda í október 1999, og hafi hann þá verið í skuld á viðskiptareikningi sem nemi stefnufjárhæð málsins vegna framangreindra vöruúttekta.  Segir aðalstefnandi að tilraunir til heimtu skuldarinnar hafi reynst árangurslausar.

Aðalstefnandi vísar kröfum sínum til stuðnings til meginreglna kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, er m.a. fái laga stoð í 5. 6. og 28. gr. laga nr. 39/1922.  Um gjalddaga dómkröfu sinnar vísar aðalstefnandi til meginreglu 12. gr. sömu laga.  Kröfu sína um dráttarvexti styður hann við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum.  Kröfu sína um málskostnað styður hann við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Um varnarþing vísar hann til 32. gr. laga nr. 91/1991.

Í greinargerð stefndu í aðalsök segir að aðalstefnandi og aðalstefndi Hallgrímur hafi átt í tvíhliða samningssambandi.  Kveðst aðalstefndi Hallgrímur hafa verið starfsmaður aðalstefnanda, hafa annast sjómennsku á báti þeim er aðalstefnandi geri út, Ási SH-764, sem sé smábátur undir 12 brúttórúmlestum, og hafi verslun aðalstefnanda, Kassinn, komið fram gagnvart honum sem launagreiðandi.  Segja aðalstefndu að dómkröfur stefnanda í aðalsök eigi rót sína að rekja til þessa samningssambands, en eiginkona aðalstefnda Hallgríms, stefnda Steinunn, hafi auk hans sjálfs haft umboð til úttekta á vörum og peningum í reikning Hallgríms hjá Kassanum.  Aðalstefndu segjast í þessu sambandi kannast við þær úttektir á vörum og peningum úr versluninni Kassanum sem dómkröfur stefnanda í aðalsök byggjast á og fallast á réttmæti þeirra sem og fjárhæð.

Aðalstefndu segja á hinn bóginn að dómkrafa aðalstefnanda feli í sér aðeins annan af tveimur þáttum í gagnkvæmu samningssambandi aðila.  Telja aðalstefndu að hluti fjárkröfu aðalstefnanda sé til kominn vegna launagreiðslna til stefnda Hallgríms.

Segir ennfremur í greinargerð að aðalstefndi Hallgrímur hafi orðið fyrir slysi á leið til vinnu sinnar þann 23. mars 1999 og hafi hann verið óvinnufær af þeim sökum allt til 1. júlí 1999.  Á því tímabili hafi aðalstefnandi gert upp laun hans til bráðabirgða, eins og það hafi verið orðað á launaseðlum.  Segja aðalstefndu að aðalstefnandi hafi í þessu sambandi útbúið skjal sem hafi borið yfirskriftina “samkomulag”.  Kveðst aðalstefndi Hallgrímur hafa ritað undir þetta skjal, en ekki verið sáttur við hlutskipti sitt og í kjölfarið farið að huga að réttindum sínum sem launþega stefnanda.  Hafi þá risið með þeim ágreiningur um greiðslu orlofslauna auk þess sem í ljós hafi komið að aðalstefnandi hefði móttekið bætur úr slysatryggingu launþega hjá Vátryggingafélagi Íslands og greiðslur úr Almannatryggingum frá Tryggingastofnun ríkisins vegna þess slyss er aðalstefndi Hallgrímur hafði orðið fyrir. Hafi þær bætur í heild reynst nema hærri fjárhæð en launin sem aðalstefnandi hafði greitt aðalstefnda Hallgrími fyrir sama tímabil.  Segir í greinargerð að þessi háttsemi aðalstefnanda og deilur vegna orlofsgreiðslna sé tilefni þeirrar gagnsakar sem til úrlausnar er í máli þessu.

Dómkröfur sínar í aðalsök styðja aðalstefndu við meginreglur íslensks réttar um skuldajöfnuð og ákvæði 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem ljóst sé af framlögðum dómskjölum í gagnsakarmáli þeirra á hendur aðalstefnanda, að kröfur þær er hann hafi uppi í aðalsök málsins séu hluti af gagnkvæmu samningssambandi þar sem skilyrðum skuldajöfnuðar sé fullnægt.  Vísa aðalstefndu í þessu sambandi til reglna kröfuréttar um gagnkvæmar efndir tvíhliða samningssambands.

Þá vísa aðalstefndu til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til stuðnings kröfu sinni um málskostnað, en til ákvæða laga nr. 50/1987 vegna kröfu um álag á málskostnað vegna virðisaukaskatts.  Aðalstefndu segjast ekki vera virðisaukaskattsskyld og að þeim beri því nauðsyn til að fá dæmt álag sem skatti þessum nemi úr hendi aðalstefnanda.

Í gagnstefnu gagnstefnanda Hallgríms, er málavöxtum lýst með ítarlegri hætti.  Kemur þar fram að gagnstefnandi hafi ráðist til starfa hjá gagnstefnda á árinu 1997 sem sjómaður á báti gagnstefnda sem sé smábátur undir 12 brúttólestum.  Hafi verslun gagnstefnda, Þín verslun Kassinn, komið fram sem launagreiðandi gagnvart gagnstefnanda, en sú verslun virðist vera óskráð einkafirma gagnstefnda.

Gagnstefnandi segir að honum hafi verið ætlað að róa framangreindum bát einn til fiskjar.  Segir gagnstefnandi að vegna þess að enginn kjarasamningur hafi verið í gildi er tæki til sjómanna á smábátum hafi hann og gagnstefndi gert með sér það samkomulag um launakjör gagnstefnanda í þá veru að hann nyti aflahlutdeildar í aflaverðmæti bátsins að frádregnum tilgreindum kostnaðarliðum.

Gagnstefnandi segir að frádráttarliðir þessir hafi verið þeir, að í fyrsta lagi hafi 25% aflaverðmætis verið dregið frá óskiptu aflaverðmæti bátsins vegna rekstrarkostnaðar hans; í öðru lagi hafi kostnaður af sölu aflans verið dreginn frá og síðan laun beitningamanns.  Því sem þá stóð eftir af aflaverðmæti skyldi skipt þannig, að gagnstefnandi fengi 47%, ef báturinn væri á línuveiðum, en 45% væri báturinn á handfæraveiðum. Segir gagnstefnandi jafnframt að enginn skriflegur ráðningarsamningur hafi verið gerður.

Þá segir gagnstefnandi að ofangreindur háttur hafi verið hafður á launagreiðslum frá ráðningu allt til 23. mars 1999.  Þann dag hafi gagnstefnandi slasast á leið til vinnu sinnar og orðið óvinnufær af þeim sökum allt til 1. júlí 1999.  Segir gagnstefnandi að gagnstefndi hafi á þessu tímabili gert upp laun hans til bráðabirgða eins og það hafi verið orðað á launaseðlum. Til hafi staðið að gera upp veikindatímabil þetta milli aðila í lok ágúst s.á.  Hafi gagnstefndi í því augnamiði útbúið skjal sem borið hafi yfirskriftina samkomulag, og kveðst gagnstefnandi hafa ritað undir það.  Hann kveðst þó ekki hafa verið sáttur við þann hlut er hann hafi borið úr býtum samkvæmt því og í kjölfarið farið að huga að réttindum sínum sem starfsmanns gagnstefnda.

Gagnstefnandi segir að við athugun á réttindamálum hans hafi komið í ljós að gagnstefndi hefði ekki greitt gagnstefnanda orlofslaun allan ráðningartímann, heldur dregið þau af heildarlaunum gagnstefnanda þannig, að launafjárhæð skv. launaseðlum hafi numið 89,83% af heildarhlut hans skv. framansögðu, en orlofslaun numið 10,17%.  Segir gagnstefnandi að ljóst sé að gagnstefndi hafi ætlað honum að greiða sín orlofslaun sjálfur.  Kveðst gagnstefnandi jafnframt strax hafa gert athugasemdir við gagnstefnda varðandi þetta atriði.

Þá segir gagnstefnandi að einnig hafi komið í ljós að gagnstefndi hafi með ólögmætum hætti tekið undir sjálfan sig hluta af tryggingabótum sem greiddar hefðu verið frá Vátryggingafélagi Íslands hf. og Tryggingastofnun vegna slyss gagnstefnanda.  Segir hann jafnframt að bætur þessar hafi verið greiddar til gagnstefnda í samræmi við óskir hans til þessara aðila í krafti þeirrar fullyrðingar að hann hafi greitt gagnstefnanda laun á því tímabili er hann var óvinnufær.  Með samanburði á greiðslukvittunum frá þessum aðilum og samkomulagi því er aðilar gerðu með sér, hafi þannig komið í ljós að gagnstefndi hefði skv. framansögðu veitt móttöku bótum samtals að fjárhæð kr. 527.964, en einungis greitt gagnstefnanda kr. 422.372 í samræmi við samkomulagið.  Kveðst gagnstefnandi hafa hætt störfum hjá gagnstefnda 6. október 1999, er hinn síðargreindi hefði með öllu neitað að leiðrétta hlut gagnstefnanda þessu samkvæmt.

Gagnstefnandi kveðst hafa leitað fulltingis Verkalýðsfélags Snæfellsbæjar til heimtu krafna sinna, en er gagnstefndi hefði verið krafinn um efndir hefði hann brugðist við með því að fela lögmanni innheimtu úttekta gagnstefnanda og eiginkonu hans í verslun gagnstefnda, sem þó hefðu verið hluti af gagnkvæmu samningssambandi aðila.  Segir gagnstefnandi að dómkröfur gagnstefnda í aðalsök byggi því aðeins á öðrum tveggja þátta þess sambands.

Málsástæður og lagarök gagnstefnanda.

Gagnstefnandi segir dómkröfur sínar í gagnsök máls þessa vera á því byggðar að gagnstefnda sé skylt að greiða honum réttmætar kröfur hans um vangreidd orlofslaun og tryggingabætur.  Bendir gagnstefnandi í þessu sambandi á að gagnstefnda beri til þess lagaskylda skv. 7. gr. laga nr. 30/1987, en í 2. mgr. 2. gr. þeirra laga sé mælt svo fyrir að bannað sé að víkja frá reglum laganna launþega í óhag.  Vísar gagnstefnandi í þessu sambandi til þess að gagnstefndi hafi látið undir höfuð leggjast að gera við sig skriflegan ráðningarsamning og mótmælir því þannig sem ósönnuðu að aðilar hafi samið um að orlofslaun skyldu vera innifalin í skiptahlut gagnstefnanda, sem ljóst sé hvernig um var samið.

Segir gagnstefnandi í þessu sambandi að gagnstefndi beri sönnunarbyrði þess að svo óvenjulegur samningur hafi verið gerður, enda brjóti samningsákvæði um að orlofslaun séu innifalin í skiptahlut sjómanns gegn þeim réttindum er sjómenn á stærri skipum njóta skv. kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna.  Þá segir gagnstefnandi ennfremur að þar sem engum kjarasamningi sé til að dreifa er taki sérstaklega til sjómanna á minni bátum, hafi verið litið til þessa kjarasamnings þar sem ráðningarsamningskjörum þeirra sjómanna sleppir, hafi lög ekki leyst úr þeim ágreiningsefnum sem uppi væru.  Slíkrar skýringar sé þó ekki þörf eins og sakarefni í máli þessu er háttað, enda séu framangreind lög um orlof ljós að þessu leyti.

Þá vísar gagnstefnandi til þess að gagnstefndi hafi í samræmi við skyldu sína skv. sjómannalögum nr. 35/1985 tryggt gagnstefnanda hjá Vátryggingafélagi Íslands fh., jafnframt því að fullnægja tryggingaskyldu sinni skv. 63. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993.  Segir gagnstefnandi að báðar þessar tryggingar séu í eðli sínu summutryggingar, er miði að því að vátryggja hagsmuni þriðja manns.  Segir gagnstefnandi í þessu sambandi að gagnstefnda hafi verið skylt að kaupa þessar tryggingar til hagsbóta fyrir sig sem starfsmann hans.  Þá vísar gagnstefnandi til þess að bæði skilmálar slysatryggingar sjómanna hjá Vátryggingafélagi Íslands hf., sem og lög um almannatryggingar, geri ráð fyrir því að atvinnurekandi, þ.e. gagnstefndi, geti átt rétt á því að fá greiddar bætur úr þessum tryggingum að því marki sem hann hefur greitt launþega sínum, þ.e. gagnstefnanda, laun sbr. 5. mgr. 28. gr. laga nr. 117/1993.  Segir gagnstefnandi að þessi réttur gagnstefnda sé hins vegar að sjálfsögðu háður launagreiðslum gagnstefnda til hans, en eigi ekki undir neinum kringumstæðum að leiða til þess að hann öðlist fjárhagslegan ávinning af slysi gagnstefnanda, eða geti nýtt bæturnar á móti einhverjum óskilgreindum kostnaði sem hann haldi fram að hann hafi orðið fyrir vegna slyss gagnstefnanda.  Kveðst gagnstefnandi því telja að móttaka gagnstefnda á bótagreiðslum sem séu hærri en sem nemi greiðslum hans til gagnstefnanda fái ekki staðist lög og feli í sér saknæma og ólögmæta sjálftöku.  Þá kveðst gagnstefnandi telja að samkomulag það er hann gerði við gagnstefnda vegna launa í slysaforföllum hans, hafi ekkert gildi í þessum efnum enda hafi gagnstefnanda ekki verið ljóst er samkomulagið var gert hvernig málum var háttað.  Kveðst þá gagnstefnandi telja að taka hefði þurft fram með afdráttarlausum hætti í samkomulagi ef gagnstefnandi ætti að teljast hafa afsalað sér í hendur gagnstefnda bótarétti úr framangreindum tryggingum með nafnritun sinni á undir það.  Telur gagnstefnandi þó að slík yfirlýsing hefði haft mjög takmarkað gildi, þar sem hún hefði tæpast bundið Vátryggingafélag Íslands hf. og Tryggingastofnun ríkisins, enda andstæð eðli trygginganna sem slysatrygginga starfsmanna.

Loks kveðst gagnstefnandi telja að í ljósi framangreindra, tvíþættra vanefnda gagnstefnda og þess alvarlega trúnaðarbrests sem sjálftaka gagnstefnda á tryggingabótum hans hafi leitt til, að honum hafi verið heimilt að rifta ráðningarsamningi sínum við hann án sérstaks fyrirvara eða uppsagnarfrests.  Telur gagnstefnandi að honum verði ekki talið skylt að vera bundinn af ráðningarsamningi við aðila sem brotið hafi jafn freklega gegn honum og gagnstefndi hafi gert, allra síst þegar haft sé í huga að gagnstefndi hafi skellt skollaeyrum við óskum gagnstefnanda um leiðréttingu á sínum hlut.  Kveðst gagnstefnandi í þessu sambandi mótmæla sem fjarstæðu, hugleiðingum gagnstefnda um bótakröfu vegna ólögmæts brotthlaups hans úr starfi.

Gagnstefnandi kveðst byggja dómkröfur sínar á meginreglum vinnuréttar um greiðslu orlofs, auk laga nr. 30/1987.  Þá vísar hann til almennra reglna varðandi riftunarrétt vegna vanefnda og til heimtu bóta er nemi saknæmri og ólögmætri sjálftöku gagnstefnanda á tryggingabótum samkvæmt slysatryggingu sjómanna sbr. lög nr. 35/1985 og lögum um almannatryggingar nr. 117/1993. Kröfur um vexti og vaxtavexti styðjist við III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.

Kröfur sínar um málskostnað styður gagnstefnandi við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styður hann við ákvæði laga nr. 50/1987.  Gagnstefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og sé því nauðsyn að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi gagnstefnda. [Svo segir í gagnstefnu, en í kafla um kröfugerð er ekki gerð krafa um virðisaukaskatt. Aths. dómara.]

Í greinargerð sinni lýsir gagnstefndi aðdraganda máls þessa þannig að hann hafi ráðið gagnstefnanda til sjómannsstarfa á árinu 1997.  Segir gagnstefndi að þá hafi verið gerður munnlegur samningur um launakjör gagnstefnanda, þess efnis er hann hefur lýst, að því frátöldu að gert hafi verið ráð fyrir því að innan skiptaprósentu þeirrar er gagnstefnandi fékk í sinn hlut skyldu rúmast bæði launa- og orlofsgreiðslur.  Segir gagnstefndi að samningur þessi hafi verið efnislega samhljóða þeim er forveri gagnstefnanda hafi haft.  Þá hafi ávallt verið gert upp við gagnstefnanda á þessari forsendu, og honum afhentir launamiðar þessa efnis, allt til þess að hann hefði fyrirvaralaust látið af starfi hjá gagnstefnda þann 7. október 1999. 

Gagnstefndi segir að gagnstefnandi hafi fótbrotnað fyrir utan heimili sitt og verið frá vinnu af þeim sökum frá 23. mars 1999 til 1. júlí s.á.  Kveðst gagnstefndi hafa greitt gagnstefnanda laun á því tímabili í samræmi við 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Þar sem bátnum hafi hins vegar ekki verið róið á þessu tímabili hafi verið gert sérstakt samkomulag um fjárhæð veikindalaunanna, þ.e. að þau skyldu nema kr. 422.372.  Kveðst gagnstefndi telja að þetta væru til muna hærri laun en gagnstefnandi hefði haft ef farið hefði verið eftir ákvæðum sjómannalaganna um fjárhæð launa þennan tíma.  Bendir gagnstefndi á, í þessu sambandi, að bátnum Ási SH-764, hafi ekki verið róið þann tíma er gagnstefnandi var frá vinnu og að útgerðin hafi því ekki haft neinar tekjur þann tíma.

Í greinargerð gagnstefnda segir að honum hafi ekki borið að hafa gagnstefnda tryggðan, en að hann hafi hins vegar verið tryggður gegn tjóni skv. 36. gr. sjómannalaganna.  Kveðst gagnstefndi hafa fengið greiddar kr. 34.482 frá Vátryggingafélagi Íslands vegna slysatryggingar er hann hafði þar, og kr. 493.482 frá Tryggingastofnun ríkisins úr tryggingu skv. 63. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993.  Segist gagnstefnandi þannig hafa móttekið bætur samtals að fjárhæð kr. 527.964 vegna slyss gagnstefnda, en af þeirri fjárhæð hafi hann einnig greitt öll atvinnurekandaiðgjöld, samtals 12,13%, eða 51.223.

Loks segir gagnstefndi að gagnstefnandi hafi, þann 7. október 1999, horfið fyrirvaralaust og með ólögmætum farið úr skipsrúmi sínu áður en uppsagnarfresti hans lauk.

Málsástæður og lagarök gagnstefnda.

 Gagnstefndi kveðst byggja kröfu sína um sýknu af orlofskröfu gagnstefnanda á því að hann hafi greitt gagnstefnanda það orlof sem hann átti rétt á.  Byggi það á því að aðilar hafi samið um að laun gagnstefnanda skyldu vera eftir atvikum 45% eða 47% af  aflaverðmæti að frádregnum kostnaði.  Hafi orlofslaun verið innifalin í þeirri fjárhæð.  Hefðu því þau laun stefnanda sem orlof reiknuðust af því verið ofangreind prósentutala að frádregnu orlofi.  Kveðst gagnstefndi telja þennan hátt á orlofsgreiðslum í fullu samræmi við lög um orlof nr. 30/1987, og fái uppsetning launaseðla eða uppgjöra engu breytt þar um.  Þá bendir gagnstefndi á að ávallt hafi verið gert upp við gagnstefnanda með þessum hætti og að hann hafi reglulega tekið athugasemdalaust við launaseðlum ásamt aflauppgjörum, allt frá því að hann hóf störf hjá gagnstefnda. Kveðst gagnstefndi þannig telja sýnt að gagnstefnanda hafi frá upphafi verið ljóst að orlofsgreiðslur væru innifaldar í skiptaprósentunni, enda hafi hann engar athugasemdir gert fyrr en en eftir að hann lét af störfum hjá gagnstefnda. Gagnstefndi bendir á að dómkrafa gagnstefnanda virðist reiknuð þannig að hann leggur laun og orlof saman og reiknar sér hið umkrafða orlof af þeirri tölu.

Gagnstefndi segir rétt að ekki liggi fyrir skriflegur ráðningarsamningur við gagnstefnanda, en ítrekar að gert var upp við gagnstefnanda á ofangreindan hátt allt frá árinu 1997 og telur hann það sanna að samningur þessa efnis hafi í reynd verið í gildi milli málsaðila og að gagnstefnanda hafi verið fullljóst hvers efnis hann var. 

Þá kveðst gagnstefndi byggja kröfu sína um sýknu af kröfu gagnstefnanda um vangoldnar tryggingabætur á því, að aðilar hafi gert með sér samning um hverjar bæturnar skyldu vera.  Telur gagnstefndi engin rök hníga til þess að rifta þeim samningi eða ógilda hann. Krafa gagnstefnanda um laun byggi á 36. gr. sjómannalaga um staðgengilslaun þann tíma sem sem sjómenn séu frá vegna veikinda eða slyss. Telur gagnstefndi að fyrir liggi í málinu að gagnstefndi hafi með samkomulaginu greitt gagnstefnanda þau laun sem hann eigi rétt á samkvæmt framangreindri lagagrein og telur sig raunar hafa greitt honum meira en skyldan bauð, þar sem báturinn var ekki gerður út þann tíma sem gagnstefnandi var frá vegna slyss síns.

Gagnstefndi telur að honum hafi ekki borið skylda til að tryggja gagnstefnanda.  Leiði það til þess að tryggingar þær er hann kunni að hafa tekið vegna mögulegrar bótaskyldu skv. framangreindri lagagrein teljist gagnstefnanda óviðkomandi.  Hafi enda verið gert við hann samkomulag um greiðslu launa í slysaforföllum hans og hann því þegar fengið það sem honum bar og jafnvel meira til.

Gagnstefndi getur þess í þessu sambandi, að þær tryggingar sem hann hafði, hafi annars vegar verið slysatrygging frá Vátryggingafélagi Íslands hf. og hins vegar trygging skv. 63. almannatryggingalaga nr. 117/1993, sbr. rg. nr. 675/1998.  Bendir gagnstefndi sérstaklega á að engir kjarasamningar voru í gildi, og því hafi honum ekki borið skylda til að tryggja gagnstefnanda skv. ákvæðum slíkra samninga, né heldur sé trygging skv. 63. gr. almannatryggingalaga skyldutrygging, svo sem sjá megi af t.d. 4. gr. reglugerðar nr. 675/1998.  Telur gagnstefndi einnig rétt að árétta að ráð er fyrir því gert í 63. gr. almannatryggingalaga og rg. 675/1998 að bætur skuli greiða útgerðarmanni.   Telur hann því að fullyrðing gagnstefnanda um ólögmæta sjálftöku sé því úr lausu lofti gripin og mótmælir hann henni harðlega.

Að þessu athuguðu telur gagnstefndi sýnt að samkomulag það er hann gerði við gagnstefnanda hafi verið hinum síðarnefnda mjög hagfellt og því engin rök til að rifta því eða ógilda það.

Varakröfu sína um að þegar greiddum bótum verði skuldajafnað á móti dómkröfum gagnstefnanda, kveðst gagnstefndi styðja við við 60. gr. sjómannalaga.  Vísar hann í því sambandi til þess að gagnstefnandi hafi fyrirvaralaust og með ólögmætum hætti gengið úr skipsrúmi áður en uppsagnarfresti lauk. Kveðst gagnstefndi í þessum efnum byggja á því að uppsagnarfrestur gagnstefnanda hafi verið 3 mánuðir, enda hafi hinn síðarnefndi starfað hjá gagnstefnda í rúm tvö ár er atburðir þessir gerðust. Varakröfu sína, um skuldajöfnun bóta að fjárhæð kr. 211.186,- á móti kröfum gagnstefnanda, kveðst gagnstefndi byggja á því að mánaðarlaun gagnstefnanda hafi verið 422.372:3 eða kr. 140.790. Laun í 1 og ½  mánuð séu því kr. 211.186. Verði ekki fallist á þennan útreikning styður gagnstefndi varakröfu sína við kauptryggingu en hún hafi á umræddum tíma numið kr. 127.807 á mánuði.  Teljist laun skv. því í 1 og ½ mánuð vera kr. 191.710. Þrautavarakröfu sína byggir gagnstefndi á því því ákvæði 60. gr. sjómannalaga að bætur verði aldrei lægri en 7 daga kauptrygging eða kr. 127.807:30 x 7 eða kr. 29. 821.  

Varakröfu sína um lækkun krafna gagnstefnanda kveðst gagnstefndi einnig byggja á því að upphafsdagur vaxta eigi að vera mánuði eftir að kröfubréf var sent, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 1997, bls. 580.  Bendir hann á að honum hafi verið sent innheimtubréf 14. desember 1999 og því teljist upphafsdagur vaxta vera 14. janúar 2000. Þá styður gagnstefndi varakröfu sína um lækkun ennfremur þeim rökum að hann hafi greitt öll “atvinnurekendagjöld” af þeirri heildarfjárhæð launa sem greidd var samkvæmt samkomulagi aðila málsins, en þau séu lífeyrissjóðsiðgjald 6%, gjald til verkalýðsfélags 1,25% og tryggingagjald 5,88% eða samtals  12,13 %. Samtals nemi því “atvinnurekendagjöld” kr. 51.233 sem dragast eigi frá kröfunni. Þá er einnig stuðst við það að gagnstefndi megi reikna sér umsýslukostnað vegna málsins.

Gagnstefndi styður dómkröfur sínar við almennar reglur samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða; við lög um orlof nr. 30/1987; sjómannalög nr. 35/1985; almannatryggingalög nr. 117/1993, sem og rg. nr. 675/1998.  Þá vísar hann til almennra reglna skaðabótaréttar, vinnuréttar og kröfuréttar. Kröfu sína um skuldajöfnuð styður gagnstefndi við 1. mgr. 28. gr. eml. 91/1991 og kröfu um málskostnað styður hann við 129. gr. og 130. gr. sömu laga. Kröfu um dráttarvexti styður gagnstefndi við III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og kröfu um höfuðstólsfærslu dráttarvaxta við við 12. gr. sömu laga.

Sundurliðun dómkröfu gagnstefnanda. Í gagnstefnu kemur fram að gagnstefnandi kveður dómkröfu sína vera tvíþætta:  Í fyrsta lagi feli hún í sér heimtu vangoldinna orlofslauna fyrir ráðningartíma gagnstefnanda.  Kveðst hann miða fjárhæð hinna umkröfðu launa við útreikning Verkalýðsfélags Snæfellsbæjar sem frammi liggur í málinu, en samtals nemi hin vangreiddu laun kr. 586.426,00.

Í öðru lagi segir gagnstefnandi að dómkrafa hans byggi á vangreiddum tryggingabótum en fjárkrafa hans feli í sér mismun greiddra tryggingabóta frá Vátryggingafélagi Íslands hf. og Tryggingastofnun ríkisins annars vegar og fjárhæð samkomulags aðila hins vegar.  Gagnstefnandi sundurliðar þennan þátt fjárkröfu sinnar á eftirfarandi hátt:

Greitt frá Vátryggingafélagi Íslands hf.kr.34.482,00

Greiddir dagpeningar frá Tryggingastofnun ríkisinskr.24.630,00

Greidd sjómannslaun frá Tryggingastofnun ríkisinskr.468.852,00

Samtals:kr.527.964,00

Greitt frá gagnstefnda til gagnstefnanda til frádráttarkr.(422.372,00)

Vangreitt:kr.105.592,00

Skýrslur fyrir dómi gáfu aðalstefnandi og gagnstefndi, Ágúst Ingimar Sigurðsson, aðalstefndi og gagnstefnandi, Hallgrímur Már Einarsson, auk Þrastar Albertssonar.

Aðalstefnandi og gagnstefndi, Ágúst Ingimar Sigurðsson, skýrði svo frá fyrir dóminum, að aðalstefndu Hallgrímur og Steinunn hefðu verið með viðskiptareikning í verslun hans, jafnframt því sem Hallgrímur hefði verið starfsmaður hans.  Hefði viðskiptareikningur þeirra þó verið til kominn áður en Hallgrímur réð sig til starfa hjá honum.  Aðspurður um það á hvaða kjörum Hallgrímur hefði verið ráðinn til starfa, svaraði aðalstefnandi því til að hann hefði verið ráðinn á sömu kjörum og allir forverar hans í starfi;  hann hefði átt að fá í laun 45% af aflaverðmæti á skakveiðum en 47% af línuveiðum að frádregnum tilteknum kostnaðarliðum.  Hefði launahlutfallið átt að innihalda orlofslaun og hefðu laun hans verið reiknuð út í gegnum launakerfi verslunarinnar, þar sem þetta kæmi skilmerkilega fram.  Þessi uppgjörsmáti hefði tíðkast allan þann tíma sem stefnandi hefði stundað útgerð og tíðkaðist enn.  Aðalstefnandi sagði ennfremur að þessi háttur hefði verið hafður á orlofslaunagreiðslum allan þann tíma er aðalstefndi Hallgrímur var við störf í hans þjónustu, samtals tvö og hálft ár, án þess að fram kæmu athugasemdir af hans hálfu fyrr en á  fundi sem haldinn var 6. október 1999.  Hefði fundurinn verið haldinn til þess að ræða fyrirkomulag á útgerð bátsins, en þar hefði aðalstefnda Steinunn haldið því fram að hann, aðalstefnandi, hefði haft af þeim orlof allt tímabilið.  Kvaðst aðalstefnandi hafa mótmælt þeirri fullyrðingu á þeim grunni að hann hefði talið sig vera búinn að greiða hið umkrafða orlof.  Spurður um hvað aðalstefndi Hallgrímur hefði haft til málanna að leggja um þessi efni, svaraði aðalstefnandi því til að fram hefði komið hjá honum að skiptaprósenta hefði orðið þeim mun lægri hefði ekki verið þessi túlkun uppi.  Aðspurður sagði stefnandi að vitni hefðu verið að þessum umræðum, en vitnið Þröstur Albertsson hefði verið viðstaddur þennan fund.

Aðalstefnandi var spurður um á hvaða grunni hann hefði byggt uppgjörsfjárhæð þá er hann hefði samið um við aðalstefnda Hallgrím í kjölfar slyss er hann varð fyrir í mars 1999. Hann svaraði því til að hún hefði verið fengin eftir talsverða yfirlegu.  Kvaðst aðalstefnandi m.a. hafa leitað sér ráða víða um það hvernig standa bæri að þessu uppgjöri, þar sem engum kjarasamningum hefði verið til að dreifa er tækju til þess starfs er aðalstefndi Hallgrímur hefði unnið í hans þágu og hann ekki verið tryggður við starf sitt, þar sem slíkt tíðkaðist ekki á bátum sem þeim er aðalstefndi reri.  Kvaðst stefnandi m.a. hafa leitað til félags smábátaeigenda sem hefði veitt honum þá ráðleggingu að hann skyldi greiða stefnda Hallgrími 100.000 kr. í laun á mánuði þennan tíma, en láta hann svo um að sækja rétt sinn væri hann óánægður með þá fjárhæð.  Aðalstefnandi kvaðst þó ekki hafa hafa verið sáttur við þá ráðleggingu og hefði hann ráðfært sig við Hallgrím sjálfan er gert hefði þá kröfu að farið yrði eftir sjómannalögum við uppgjörið.  Kvaðst stefnandi hafa reynt að finna út úr því hvað sú ósk þýddi, m.a. með tilliti til staðgengilslauna.  Það hefði hins vegar reynst erfitt þar sem báturinn hefði ekki verið gerður út þann tíma sem Hallgrímur var frá vinnu og staðgengilslaunum því ekki til að dreifa.  Auk þess væru tekjur milli mánaða mjög breytilegar á smábátum sem þessum.  Hann kvaðst hins vegar síðar hafa spurt stefnda Hallgrím að því hvort hann vildi fylgja lögunum og láta þriðja aðila finna út úr því hvað þetta þýddi, en Hallgrímur hefði sagt að það vildi hann ekki ef það kynni að skerða það er hann bæri úr býtum.  Sagðist stefnandi þá hafa sagst myndu reyna að ná út þeim tryggingabótum sem þeir ættu rétt á og að stefndi myndi fá þær allar, nema s.k. launatengd gjöld.  Hefðu þeir í kjölfarið gert með sér skriflegt samkomulag þessa efnis, og kvaðst stefnandi hafa talið það réttlátt og þess efnis að það þyrfti hann ekki að verja síðar.

Aðspurður um það hvernig sú tala hefði verið hugsuð, sem samið hefði verið um í samkomulagi stefnanda við stefnda Hallgrím, sagði stefnandi hana hafa verið byggða á tryggingabótum þeim er fengust, að frádregnum launatengdum gjöldum.

Aðspurður um það hvers vegna ekki hefði verið fenginn staðgengill til að róa bátnum í forföllum stefnda Hallgríms, sagði stefnandi að einungis 20 tonn hefðu verið eftir af kvóta bátsins er slysið varð og hann hefði ætlað Hallgrími að veiða þann kvóta er hann kæmi til starfa og áður en kvótaárinu lyki 31. ágúst.  Bati Hallgríms hefði hins vegar verið hægari en búist hefði verið við í fyrstu, en 17. júlí 1999, að því stefnanda minnti, hefði hann komið með læknisvottorð þess efnis að hann væri hæfur til vinnu.  Ekki hefði hins vegar náðst að veiða allan kvótann og afgangurinn flust milli kvótaára.  Stefnandi gat þess ennfremur að Hallgrímur hefði verið þannig á sig kominn, er hann kom til vinnu, að hann hefði þurft að fá annan mann með sér til róðra.  Sagði stefnandi að sér hefði fundist að Hallgrímur hefði í reynd ekki verið hæfur til að vera á sjó þegar þarna var komið sögu, þar sem hann hefði ekki verið búinn að ná sér.

Spurður um það hvaða laun Hallgrímur hefði haft þegar kvóti bátsins var uppurinn, svaraði aðalstefnandi því til að þá hefði hann verið launalaus, launin færu eftir aflaverðmæti, en gat þess ennfremur að þau ár sem Hallgrímur reri bátnum hefði kvóti hans ekki náðst.

Í viðbótarskýrslu sem aðalstefnandi gaf fyrir dóminum svaraði hann því til, spurður um aðdraganda þess að stefndi Hallgrímur lét af störfum hjá honum í október 1999, að á fundi þeim er haldinn hefði verið 6. þ.m., hefði margt verið rætt.  Hefði þar m.a. verið rætt um leigu á kvóta, en aðallega hefði fundurinn verið haldinn vegna þess að hann hefði verið að ráða tvo menn á bátinn og hefði staðið til að ræða skipulag útgerðarinnar í framhaldi af því.  Hefði stefndi Hallgrímur verið ósáttur við það að ráða átti annan mann með honum og hefði fundurinn í og með verið haldinn til að leitast við jafna það ósætti.  Sagði aðalstefnandi að það hefði tekist og samkomulag verið handsalað um það hvernig báturinn yrði gerður út.  Hefði hann þó, í þann mund er hann yfirgaf fundarstaðinn, gefið gagnstefnanda og Þresti Albertssyni, er þarna var einnig staddur frest til kl. 7 þá um kvöldið til að sjá sig um hönd með samkomulagið.  Kortér yfir sjö þá um kvöldið hefði síðan gagnstefnandi hringt og krafist þess að hann gæfi út yfirlýsingu um það að enginn kvóti yrði leigður frá bátnum. Kvaðst aðal­stefnandi hafa neitað þeirri málaleitan og kvaðst munu stýra sínu fyrirtæki sjálfur.  Hefði gagnstefnandi þá sagst ekki munu róa bátnum og kvaðst aðalstefnandi hafa svarað því með orðunum: “Þá verður bara svo að vera”.  Hefðu það verið hans síðustu samskipti við gagnstefnanda um þessi mál.  Hann hefði síðar ritað gagnstefnanda bréf vegna þessa og sagði afstöðu sína koma þar fram.

Aðalstefndi og gagnstefnandi, Hallgrímur Már Einarsson, gaf skýrslu fyrir dómi.  Í skýrslunni kom fram að hann hefði hafið störf hjá gagnstefnda 1. mars árið 1997.  Aðspurður um það hvernig þeim hefði samist um launakjör, svaraði gagnstefnandi því til að samið hefði verið um ákveðinn aflahlut að frádregnum tilteknum kostnaði.  Aðspurður um það hvort orlofslaun hefðu komið til umræðu við gerð þessa samnings, svaraði gagnstefnandi því neitandi; á það hefði ekki verið minnst.  Gagnstefnandi kvaðst hafa slasast 23. mars 1999 og hefði hann verið óvinnufær frá þeim degi til 17. júlí sama ár.  Aðspurður um það hvenær og hvernig ágreiningur hefði risið með honum og aðalstefnanda um uppgjör, svaraði gagnstefnandi því til að það myndi hann ekki svo gjörla, en það hefði verið eftir að honum hefði verið bent á að brotalöm væri í uppgjöri til hans.  Það hefði verið augljóst þegar það hefði verið skoðað, þar sem orlof sé aldrei innifalið í aflahlut sjómanns, hann kvaðst hins vegar ekki hafa veitt þessu athygli fyrr en bent var á það síðastliðið sumar.  Aðspurður um samkomulag um tjónabætur sem hann og aðalstefnandi hefðu gert með sér í ágúst 1999, svaraði gagnstefnandi því til að gerð þessa skjals hefði borið að með þeim hætti að aðalstefnandi hefði boðið þetta samkomulag fram.  Kvaðst hann ekki hafa vitað betur þá en að þetta samkomulag væri það sem komið hefði frá tryggingafélögum.  Hann sagði ennfremur að illa hefði gengið að fá kvittanir frá Tryggingastofnun og tryggingafélagi aðalstefnanda, en að þeim fengnum hefði komið í ljós að um misræmi milli bótanna og samkomulagsfjárhæðarinnar var að ræða.  Gagnstefnandi kvaðst hafa fengið umrædd gögn frá aðalstefnanda eftir að fyrrgreint samkomulag var gert.  Aðspurður taldi gagnstefnandi sig muna að fjárhæð sú sem samið var um með samkomulagi hans og aðalstefnanda hefði verið fundin þannig út, að tekið hefði verið meðaltal af launum ársins á undan.  Aðspurður um það sem fram kom í skýrslu aðalstefnanda um að hann hefði krafist uppgjörs skv. sjómannalögum, svaraði gagnstefnandi því til að hann hefði haft það í huga með þessari kröfu sinni að hann hann yrði ekki fyrir launamissi og vitnaði til 36. gr. sjómannalaga í því efni.

Aðspurður um tildrög þess að hann hætti störfum á bátnum, svaraði gagnstefnandi því til að á þeim fundi sem aðalstefnandi vitnaði til í skýrslu sinni og haldinn var 6. október 1999 á heimili gagnstefnanda og konu hans, hefði hann áskilið sér rétt til þess að leigja 30% af kvóta bátsins, þar sem það væri hagstæðara fyrir hann.  Hefði aðalstefnandi einnig ætlast til þess að þeir reru bátnum tveir.  Sagði gagnstefndi að þessi háttur hefði leitt til 30-35% kjaraskerðingar fyrir hann hefði hann náð fram að ganga.  Aðspurður um það hvort einhver umræða hefði orðið um orlofslaun og tryggingabætur á þessum fundi, svaraði gagnstefnandi því til að þau mál hefðu eitthvað verið rædd en ekki mundi hann hvað rætt hefði verið í því sambandi.  Aðspurður um það hvort hann hefði rætt þau mál við aðalstefnanda áður en þessi fundur var haldinn, kvaðst gagnstefnandi ekki muna það; hann hefði einbeitt sér að því í fyrstu að fá í hendur kvittanir frá tryggingunum til að staðreyna samkomulagið sem þeir hefðu gert, en það hefði reynst auðvelt.

Aðspurður um það hvort það hefði komið fram á fundinum að skiptaprósenta hans hefði einfaldlega lækkað ef orlof hefði ekki átt að vera innifalið í aflahlut hans,  svaraði hann því til að hann minnti að hann hefði eitthvað nefnt þetta á fundinum.

Vitnið Þröstur Albertsson gaf skýrslu fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins.  Í skýrslu hans fyrir dóminum kom fram hann hefði verið á fundi með aðalstefnanda og gagnstefnanda 6. október 1999.  Aðspurt um það hvort orlofslaun og tryggingamál gagnstefnanda hefðu borið á góma á þeim fundi, svaraði vitnið því til að það minnti að gagnstefnandi hefði sagt að skiptaprósenta hefði líklega þurft að vera lægri hefði orlofið átt að leggjast ofan á hana.

Aðspurt kvaðst vitnið hafa starfað hjá aðalstefnanda í þrjá eða fjóra mánuði og hefði hann verið að hefja störf er atburðir þessir gerðust.  Vitnið kvaðst hins vegar hafa hætt störfum hjá aðalstefnanda og starfa nú með gagnstefnanda.

Forsendur og niðurstöður.

Kröfur stefnanda í aðalsök. Kröfur þessar sæta engum andmælum aðalstefndu, og verða þau dæmd til að greiða þær in solidum.

Í málflutningi lögmanns aðalstefndu við aðalmeðferð kom fram að hann taldi að sýkna ætti stefndu Steinunni vegna aðildarskorts. Í greinargerð í aðalsök kemur ekki fram skýrt fram þessi málsástæða fyrir sýknu, og lögmaður aðalstefnanda mótmælti þessari málsástæðu. Við þetta er því að bæta að í mörgum framlögðum kvittunum fyrir úttekt stefndu Steinunnar á fé hjá verslun aðalstefnanda, Þinni verslun Kassanum, er tekið fram að fjárhæðir séu greiddar inn á reikning sem hún er eigandi að. Að þessu athuguðu ber að hafna þessari málstæðu aðalstefndu.

Kröfur stefnanda í gagnsök eru af tvennum toga. Annars vegar er krafa um orlofslaun og hins vegar krafa um vangoldnar tryggingabætur.

Krafa gagnstefnanda um orlofslaun.  Þegar aðiljar sömdu um að gagnstefnandi skyldi róa báti gagnstefnda, var ekki gerður skriflegur ráðningarsamningur, svo sem 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 gerir ráð fyrir. Verður gagnstefndi að bera halla af því að svo var ekki gert, að því marki sem hann heldur því fram að samið hafi verið um önnur atriði en þau sem aðiljar eru sammála um. Styðst þetta og við dómvenju.

Óumdeilt er að aðiljar sömdu um þessi ráðningarkjör gagnstefnanda: 25% aflaverðmætis skyldi útgerðarmaður taka af óskiptu vegna rekstrarkostnaðar bátsins. Af óskiptu skyldi og dreginn kostnaður vegna sölu afla og ennfremur beitningarkostnaður, er róið var með línu. Því sem þá stóð eftir skyldi svo skipt að gagnstefnandi fengi 47% ef báturinn væri á línu, en 45% ef hann væri á handfærum.

Gagnstefndi heldur því fram að um það hafi verið samið,  að “innan skiptaprósentunnar skyldu rýmast laun og orlof”. Gegn andmælum gagnstefnanda verður að telja þetta ósannað. En þótt svo hafi verið ber að mati dómara að líta svo á að slíkur samningur hafi verið andstæðum ófrávíkjanlegum reglum orlofslaga nr. 30/1987, sbr. einkum 2. gr. þeirra, sbr. einnig 1. gr. og 2. mgr. 7. gr. Samkvæmt síðastnefnda lagaákvæðinu ber að dæma gagnstefnda til að greiða orlof, þá fjárhæð sem gagnstefnandi krefur hann um. Um tölulegan ágreining er ekki að ræða, en ágreiningur er um vexti, og verður um þann þátt fjallað síðar.

Krafa gagnstefnanda um vangoldnar tryggingabætur. Krafa þessi er fram sett vegna tryggingabóta sem gagnstefndi veitti viðtöku annars vegar frá Vátryggingafélagi Íslands (VÍS), en það félag greiddi gagnstefnda kr. 34.482. Hins vegar er um að ræða tryggingabætur frá Tryggingastofnun ríkisins, samkv. almannatryggingalögum, að fjárhæð samtals 493.482 (24.630+468.852).

Frammi liggja í málinu vátryggingaskilmálar VÍS vegna slysatrygginga sjómanna. Þar segir í inngangi um orðskýringar að “orðasambandið sá sem tryggður er, merkir þann einstakling, sem félagið ber áhættuna af að slasist.” Fyrsta grein skilmálanna, um vátryggingasvið, hefst á þessum orðum: “Félagið greiðir bætur vegna slyss, er sá, sem tryggður er, verður fyrir . . .” Í lok greinarinnar segir: “ Bætur greiðist því aðeins, að slysið sé bein og eina orsök þess, að sá, sem tryggður er, deyr eða missir starfsorku sína að nokkru eð öllu leyti.”

Það gefur auga leið,  að í máli þessu er gagnstefnandi “sá sem tryggður er” og að gagnstefndi hafi keypt tryggingu hjá VÍS til þess að hann fengi bætur ef slys bæri að höndum. Því ber að telja að gagnstefnanda beri sú tryggingarfjárhæð sem VÍS greiddi gagnstefnda.

36. gr. sjómannalaga tryggir sjómönnum rétt til launa, ef þeir forfallast vegna slyss eða sjúkdóms. Þannig segir í 1. mgr. 36. gr. að skipsverji skuli ekki missa neins í af launum sínum ef hann verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla, svo lengi sem hann er óvinnufær, þó ekki lengur en tvo mánuði. Í 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 segir að “ráðherra getur ákveðið að útgerðarmönnum skuli skylt að tryggja áhættu þá vegna bótaskyldra slysa og veikinda sem þeir bera skv. 36. gr. laga nr. 35/1985, þannig að Tryggingastofnunin greiði hinum tryggða fullt kaup eða aflahlut jafnlangan tíma og sjómannalög ákveða hverju sinni.” Reglugerð um þá skyldu sem hér um ræðir setti ráðherra 10. nóvember 1998, nr. 675.

Dómari lítur svo á að vart geti farið milli mála að orðin hinn tryggði í þessum lagatexta vísi til sjómannsins sem sjúkur er eða slasaður. 4. og 5. mgr. 28. gr. almannatryggingalaganna eru þessu til stuðnings. Samkvæmt þessu hefur gagnstefndi haft tryggingu skv. lögum um almannatryggingar hjá Tryggingastofnun ríkisins til hagsbóta fyrir gagnstefnanda, sem var sá sem tryggður var. Bera gagnstefnanda því óskertar þær tryggingabætur sem Tryggingastofnunin greiddi gagnstefnda. Samkomulag það sem aðiljar gerðu með sér um kaup gagnstefnanda þann tíma sem hann var óvinnufær, breytir þessu ekki, enda hafði gagnstefnandi þá ekki í höndum nein gögn um tryggingabæturnar. Um tölulegan ágreining er ekki að ræða.

Gagnstefndi gerir kröfu til þess að á móti kröfum gagnstefnanda verið skuldajafnað kröfum hans vegna ólögmæts brotthlaups gagnstefnanda úr starfi, aðallega að fjárhæð kr. 211.186, en til vara kr. 191.710, en til þrautavara kr. 29.821. Styður gagnstefndi þessar kröfur við 60. gr. sjómannalaga. Sú lagagrein kveður á um bótarétt útgerðarmanns úr hendi sjómanns sem fer fyrirvaralaust úr starfi eða áður en uppsagnarfrestur er liðinn. Skilyrði bótaréttar skv. lagagreininni er að brottför sjómannsins sé án lögmætrar ástæðu. Samkvæmt niðurstöðu dómarans í þessu máli braut gagnstefndi lög á gagnstefnanda með því að greiða honum ekki lögbundið orlof ofan á umsaminn aflahlut og einnig með því að greiða honum ekki allt það tryggingafé sem honum bar að lögum. Af þeirri ástæðu verður ekki talið að gagnstefndi geti borið fyrir sig 60. gr. sjómannalaga til innheimtu bóta af gagnstefnanda.

Við þetta er því að bæta að í skýrslu sinni fyrir dómi sagði gagnstefndi svo frá fundi aðilja 6. október 1999, að þar hefði skipulag útgerðarinnar verið til umræðu.  Hefði gagnstefnandi Hallgrímur verið ósáttur við það að ráða átti annan mann með honum og hefði fundurinn í og með verið haldinn til að leitast við jafna það ósætti.  Það hefði tekist og samkomulag verið handsalað um það hvernig báturinn yrði gerður út.  Hefði hann þó, í þann mund er hann yfirgaf fundarstaðinn, gefið gagnstefnanda og Þresti Albertssyni, er þarna var einnig staddur, frest til kl. 7 þá um kvöldið til að sjá sig um hönd með samkomulagið.  Kortér yfir sjö þá um kvöldið hefði síðan gagnstefnandi hringt og krafist þess að hann gæfi út yfirlýsingu um það að enginn kvóti yrði leigður frá bátnum. Kvaðst aðal­stefnandi hafa neitað þeirri málaleitan og kvaðst munu stýra sínu fyrirtæki sjálfur.  Hefði gagnstefnandi þá sagst ekki munu róa bátnum og kvaðst aðalstefnandi hafa svarað því með orðunum: “Þá verður bara svo að vera”.  Hefðu það verið hans síðustu samskipti við gagnstefnanda um þessi mál.  Hann hefði síðar ritað gagnstefnanda bréf vegna þessa og sagði afstöðu sína koma þar fram.

Bréf það sem gagnstefndi hér vitnar til liggur frammi í málinu. Það er dagsett 14. október 1999. Segir þar í upphafi að gagnstefndi líti svo á að gagnstefnandi sé “hættur störfum hjá mér án þess að virða uppsagnarfrest.” Í lok bréfsins þakkar gagnstefndi gagnstefnanda samstarfið og kveðst “harma að til þessarar niðurstöðu þurfti að koma”. Að mati dómara er nærtækast að skilja orð gagnstefnda fyrir dóminum og í nefndu bréfi svo, að hann hafi sætt sig við án eftirmála að gagnstefnandi hætti störfum hjá honum með þeim hætti sem varð.

Að þessu athuguðu fellst dómari ekki á skuldajöfnunarkröfur gagnstefnda.

Að mati dómara eru ekki gild lagarök til þess að gagnstefnda hafi verið rétt að draga frá fjárhæð tryggingabóta svokölluð atvinnurekendagjöld. Um þau eru heldur ekki lögð fram gögn í málinu.

Samkvæmt því sem hér hefur verið ritað verður gagnstefndi dæmdur til að greiða gagnstefnanda fjárhæð að höfuðstól kr. 692.018.

Ágreiningur  er um vexti. Dómari fellst á rök gagnstefnda fyrir því að upphafsdagur dráttarvaxta, að því er varðar vangreitt orlof,  skuli vera 14. janúar 2000. En rétt er að vangreiddar tryggingabætur beri dráttarvexti frá 31. ágúst 1999, en þá gerðu aðiljar með sér samkomulag “vegna veikindabóta”.

Málskostnaður.  Eftir atvikum og úrslitum máls þykir dómara rétt að gagnstefndi greiði gagnstefnanda kr. 150.000 í gagnsök, en málskostnaður verði ekki dæmdur í aðalsök.

Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Aðalstefndu, Hallgrímur Einarsson og Steinunn Eldjárnsdóttir, greiði óskipt aðalstefnanda, Ágústi I. Sigurðssyni kr. 278.354 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 18.871 frá 24/8 1999 til 25/8 1999, en af kr. 23.400 frá þeim degi til 28/8 1999, af  kr. 30.325 frá þeim degi til 31/8 1999 en af kr. 36.609 frá þeim degi til 3/9 1999, en af kr. 61.609 frá þeim degi til 8/9 1999, af kr. 65.844 frá þeim degi til 10/9 1999, af kr. 103.063 frá þeim degi til 14/9 1999, af kr. 111.230 frá þeim degi til 4/10 1999, af kr. 116.230 frá þeim degi til 5/10 1999, af kr. 186.230 frá þeim degi til 15/10 1999, en af kr. 247.685 frá degi til 15/11 1999 og loks af kr. 278.354 frá þeim degi til greiðsludags. 

Gagnstefndi, Ágúst I. Sigurðsson, greiði gagnstefnanda, Hallgrími Einarssyni, kr. 692.018 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 105.592 frá 31. ágúst 1999 til 14. janúar 2000, en af kr. 692.018 frá þeim degi til greiðsludags.

Gagnstefndi greiði gagnstefnanda kr. 150.000 í málskostnað.