Hæstiréttur íslands

Mál nr. 163/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ábyrgð
  • Ógilding samnings


                                                        

 

Þriðjudaginn 17. maí 2005.

Nr. 163/2005.

Sparisjóður Hafnarfjarðar

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

gegn

Ágústi Þór Guðbergssyni

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

 

Kærumál. Ábyrgð. Ógilding samnings.

Á krafðist ógildingar á fjárnámi sem S hafði látið fara fram hjá honum á grundvelli skuldabréfs. Var skuldabréfið gefið út af bróður Á, en Á hafði tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldinni. Ógildingarkrafa Á var meðal annars reist á því að ekki hafi verið gætt ákvæða samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem S var aðili að, er Á tók ábyrgðina á hendur. Að öllum atvikum virtum var fallist á að víkja bæri til hliðar umræddri sjálfskuldarábyrgð með vísan til 36. gr. samningalaga. Var umrædd aðfarargerð því felld úr gildi.

 

                                                    Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. apríl 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. mars 2005, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að ógilt yrði aðfarargerð, sem sýslumaðurinn í Keflavík gerði hjá honum 15. nóvember 2004. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og framangreind aðfarargerð staðfest. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.

Sóknaraðili hefur engum frekari stoðum rennt undir þá fullyrðingu sína að 3.000.000 króna sjálfskuldarábyrgð varnaraðila hafi verið vegna yfirdráttar á tékkareikningi vegna atvinnurekstrar en ekki einkareikningi skuldarans, bróður varnaraðila. Þá hefur sóknaraðili hvorki hnekkt þeirri staðhæfingu varnaraðila að þeim síðarnefnda hafi ekki verið kunnugt um vanskil bróður síns þegar hann gekk í sjálfskuldarábyrgðina á tékkareikningnum 8. nóvember 2000 og ábyrgðina á skuldabréfinu 21. desember 2001, né að sóknaraðili hafi þá ekki gert honum grein fyrir stöðu reikningsins. Óumdeilt er að sóknaraðili lét ekki fara fram greiðslumat eins og skylt var samkvæmt 3. mgr. 3. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem sóknaraðili hefur gengist undir, og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði.

Þegar varnaraðili gekkst undir ábyrgðina 8. nóvember 2000 nam yfirdráttarskuld eiganda tékkareikningsins rúmum 12.000.000 krónum. Fór sóknaraðili þá fram á auknar ábyrgðir af hálfu eiganda tékkareikningsins, sem fékk varnaraðila til að gangast í umrædda ábyrgð. Hlaut sóknaraðila að vera ljóst, er hér var komið, að fjárhagur reikningseigandans stefndi í veruleg vandræði. Við þessar aðstæður bar sóknaraðila að upplýsa varnaraðila um skuldastöðu á tékkareikningnum og láta fara fram greiðslumat í samræmi við áðurnefnt ákvæði samkomulagsins. Það lét hann hins vegar undir höfuð leggjast. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á með varnaraðili að víkja beri til hliðar umræddri sjálfskuldarábyrgð, sem hann gekkst undir 21. desember 2001 með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með áorðnum breytingum. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Sparisjóður Hafnarfjarðar, greiði varnaraðila, Ágústi Þór Guðbergssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. mars 2005.

                Mál þetta var tekið til úrskurðar 2. þ.m.

                Sóknaraðili er Ágúst Þór Guðbergsson, Háaleiti 31 í Keflavík.

                Varnaraðili er Sparisjóður Hafnarfjarðar, Strandgötu 8-10, Hafnarfirði.

                Sóknaraðili krefst þess að ógilt verði aðfarargerð nr. 34-2004-03114, sem fram fór hjá sýslumanninum í Keflavík 15. nóvember 2004. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Varnaraðili krefst þess að ógildingarkröfu sóknaraðila verði hafnað og að framangreind aðfarargerð á hendur sóknaraðila verði staðfest. Þá er krafist málskostnaðar.

I.

                Hinn 15. nóvember 2004 var tekin fyrir hjá sýslumanninum í Keflavík beiðni varnaraðila um fjárnám hjá sóknaraðila til tryggingar skuld að fjárhæð 714.491 króna. Studdist beiðnin við skuldabréf útgefið 21. desember 2001 af Magnúsi Ívari Guðbergssyni til varnaraðila, upphaflega að fjárhæð 3.000.000 krónur, með sjálfskuldar-ábyrgð sóknaraðila, sem er bróðir Magnúsar Ívars. Sóknaraðili mótmælti því að gerðin næði fram að ganga. Voru mótmæli hans í fyrsta lagi á því byggð að varnaraðili hefði gagnvart honum brotið samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sem Samtök banka og verðbréfafyrirtækja fyrir hönd aðildarfélaga sinna, Samband íslenskra sparisjóða fyrir hönd sparisjóða, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda gerðu sín á milli og tók gildi 1. nóvember 2001. Í öðru lagi voru mótmæli sóknaraðila reist á því að varnaraðili hafi þá er sóknaraðili tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu umrædds skuldabréfs ekki virt þá viðskiptavenju að framkvæma greiðslumat sem tæki til útgefanda skuldabréfsins. Loks byggði sóknaraðili mótmæli sín við framgangi gerðarinnar á því að varnaraðili hafi í desember 2001 búið yfir mikilvægum upplýsingum um fjárhagsstöðu aðalskuldarans en látið hjá líða að upplýsa sóknaraðila um þær. Sýslumaður hafnaði þessum mótmælum sóknaraðila og gerði að kröfu varnaraðila fjárnám í fasteign sóknaraðila að Háaleiti 31 í Keflavík til tryggingar greiðslu framangreindrar fjárkröfu varnaraðila auk áfallandi vaxta og kostnaðar. Leitast sóknaraðila nú við að fá gerð þessa fellda úr gilda og barst héraðsdómi krafa þess efnis 15. desember 2004.  

II.

Málsatvikum lýsir sóknaraðili svo að 8. nóvember 2000 hafi hann tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á tékkareikningi bróður síns, Magnúsar Ívars Guðbergssonar, hjá varnaraðila.  Ábyrgðarskuldbindingin hafi numið 3.000.000 króna. Sóknaraðila hafi á þessum tíma ekki verið kunnugt um það að bróður hans væri í vanskilum né hafi hann verið upplýstur um slíkt. Samkvæmt gögnum sem lögmaður sóknaraðila hefur aflað undir rekstri málsins virðist hins vegar sem staðan á umræddum tékkareikningi hafa verið neikvæð um 12.961.288 krónur þann 31. október 2000. Í desember 2001 hafi sóknaraðili síðan fallist á að vera sjálfskuldarábyrgðarmaður á skuldabréfaláni þessa bróður síns. Hafi höfuðstóll skuldabréfsins verið að fjárhæð 3.000.000 krónur og skyldi lánið endurgreiðast á þremur árum með jöfnum mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 1. febrúar 2002. Hafi þessari skuldbindingu var ætlað að koma í stað áðurgreindrar sjálfskuldarábyrgðar sóknaraðila á tékkareikningi. Þannig hafi verið um skuldbreytingu að ræða. Þegar ábyrgð sóknaraðila á tékkareikningnum féll niður hafi ábyrgð hans numið 1.731.958 krónum, en  staðan á reikningnum hafi þá verið  neikvæð um þá fjárhæð.  Með því að veita sjálfskuldarábyrgð á nefndu skuldabréfi hafi ábyrgðarskuldbinding sóknaraðila aukist um tæplega 1.300.000 krónur. Þá hafi hún að auki ekki lengur verið bundin við notkun á tékkareikningnum. Með því að gangast undir ábyrgð á greiðslu skuldabréfsins hafi sóknaraðili ekki lengur getað afturkallað ábyrgð sína og þannig reynt að lágmarka hana, líkt og gilt hafi um ábyrgðina á tékkareikningnum.

Í hvorugt framangreindra skipta, það er þegar sóknaraðili gekkst í ábyrgð fyrir skuldum bróður síns, hafi verið framkvæmt mat á greiðslugetu aðalskuldarans né hafi sóknaraðili verið upplýstur um skuldastöðu hans hjá varnaraðila. Sóknaraðili hafi reyndar í fyrra skiptið ekki gert um það sérstaka kröfu að greiðslugeta aðalskuldara yrði metin og hakað við yfirlýsingu þess efnis að hann óskaði ekki eftir slíku mati, reyndar eftir að ábyrgðarskuldbindingin stofnaðist.  Ástæða þessa hafi verið sú að hann hafi staðið í þeirri trú að bróðir hans væri fullfær um að greiða skuldbindingar sínar, enda hafi hann ekið um á dýrri jeppabifreið og átti einbýlishús. Hafi sóknaraðili algerlega treyst orðum bróður síns um að hann gæti auðveldlega staðið undir þeim skuldbindingum sem sóknaraðili veitti ábyrgð sína fyrir og að varnaraðili mundi upplýsa hann um þessi mál, ef ástæða þætti til. Þá vekur sóknaraðili athygli á því að daginn eftir að hann tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldabréfalánsins hafi honum verið gert að fylla út skjal frá varnaraðila er beri heitið „Til ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga“.  Þar sem hann hafi þá þegar verið búinn að taka á sig ábyrgð á greiðslu lánsins og þar sem fram komi í skjalinu skuldbinding af hálfu varnaraðili til að framkvæma mat á greiðslugetu lántaka þegar ábyrgðarfjárhæð er hærri en 1.000.000 króna hafi sóknaraðili talið útfyllingu sína ekki hafa sjálfstæða þýðingu varðandi greiðslumatið.

Í málavaxtalýsingu sóknaraðila kemur fram að 24. september 2002 hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá Magnúsi Ívari. Hann hafi síðan verið úrskurðaður gjaldþrota 4. nóvember 2002.  Hafi sóknaraðili 3. desember 2002 gert upp uppsöfnuð vanskil á greiðslu skuldabréfsins, samtals að fjárhæð 1.318.009 krónur. Hafi Magnús Ívar þannig einungis greitt fyrstu tvær afborganirnar af bréfinu, en sóknaraðili séð um að greiða af því eftir það.

Þá tekur sóknaraðili fram, svo sem gögn málsins bera með sér, að hann hafi lagt mál þetta fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Með úrskurði sínum 4. mars 2004 hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að varnaraðili hefði í framangreindum tveimur tilvikum brotið gegn ákvæðum samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem varnaraðili eigi aðild að.  Þrátt fyrir það hafi nefndin talið að reglur samninga- og kröfuréttar ættu ekki að leiða til ógildingar á ábyrgð sóknaraðila.

Sóknaraðili telur að framangreind ábyrgðarskuldbinding hans samkvæmt fyrrgreindu skuldarbréfi sé ógild og því eigi varnaraðili ekki þann rétt sem skuldabréfið beri með sér. Hið sama eigi við um upprunalega ábyrgðaryfirlýsingu sóknaraðila frá því í nóvember 2000. Styður sóknaraðili málatilbúnað sinn við eftirfarandi málsástæður og lagarök.

Ábyrgð sóknaraðila á tékkareikningi nr. 12395 hafi verið veitt þann 8. nóvember 2000. Hafi sóknaraðili ekki verið upplýstur um stöðuna á tékkareikningnum þegar hann ábyrgðist notkun reikningseigandans. Samkvæmt gögnum málsins virðist sem staða reikningsins hafa þá verið neikvæð um ca. 13.000.000 krónur. Gildi ábyrgðarskuld-bindingar hans hafi ekki verið afturvirkt, það er hann hafi ekki ábyrgst notkun tékkareikningsins fyrir 8. nóvember 2000.  Varnaraðili hafi heldur ekki gert áskilnað um slíkt eða gefið það til kynna. Er á því byggt af hálfu sóknaraðila að ábyrgð hans hafi einungis verið ætlað að gilda til framtíðar.  Telur sóknaraðili að varnaraðili hafi þurfti að taka annað skýrlega fram, sem og að tilgreina á ábyrgðarskuldbindingunni skuldastöðuna á því tímamarki sem ábyrgðin var veitt.  Þar sem þetta hafi ekki verið gert sé ábyrgð hans á tékkareikningnum ógildanleg, að minnsta kosti taki hún að hámarki til skuldastöðunnar eins og hún var á útgáfudegi skuldabréfsins 21. desember 2001, að frádreginni skuldastöðunni þann 8. nóvember 2000.

Sóknaraðili byggir á því að hann hafi mátt treysta því að skuld hafi ekki myndast á tékkareikningnum þegar hann gekkst í ábyrgð sína og að honum hafi verið rétt að líta svo á að ábyrgðin væri veitt vegna notkunar í framtíðinni. Telur sóknaraðili vera hér fyrir hendi aðstæður er varði ógildingu á ábyrgðarskuldbindingu hans, sbr. reglur III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sem og óskráðar reglur um brostnar forsendur. Telur sóknaraðili að varnaraðila hafi mátt vera ljóst að skuldastaða reikningseiganda væri líkleg til að hafa áhrif á ákvörðun sóknaraðila um að gangast í ábyrgð.

Sóknaraðili telur jafnframt að með því að ekkert greiðslumat hafi verið framkvæmt hjá reikningseigandanum og engar upplýsingar kynntar sóknaraðila um fjárhagsstöðuna hans hafi varnaraðili orðið uppvís að háttsemi er varði ógildingu á ábyrgðarskuldbindingu sóknaraðila. Þannig hafi varnaraðila skilyrðislaust borið að framkvæma greiðslumat samkvæmt þeim reglum sem hann hafi undirgengist samkvæmt framangreindu samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem og að  sóknaraðili hafi mátt treysta því að slíkt yrði gert.  Telur sóknaraðili að hann geti byggt á nefndum reglum líkt og um þriðjamanns loforð væri að ræða. Hafi sóknaraðili mátt treysta því að brot á reglunum hefðu í för með sér einhverjar réttarverkanir og í þessu tilviki ógildingu ábyrgðar. Jafnframt telur sóknaraðili að hann hafi mátt treysta því að varnaraðili færi í einu og öllu eftir samkomulaginu, enda aðili að því. 

Sóknaraðili telur að fyrrgreint samkomulag um notkun ábyrgða staðfesti að í gildi sé sú viðskiptavenja að bankar og sparisjóðir framkvæmi mat á greiðslugetu einstaklings þegar ábyrgðarskuldbinding (einstaklings) er hærri en 1.000.000 krónur. Þannig hafi varnaraðili ekki einungis brotið reglu samkomulagsins heldur og orðið uppvís að háttsemi sem fari í bága við gildandi viðskiptavenju. Telur sóknaraðili þar af leiðandi og með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 að ábyrgðarskuldbinding hans sé ógildanleg, enda taki ákvæðið til þeirra atvika sem hér hefur verið lýst.

Að mati sóknaraðila skiptir engu við mat á gildi ábyrgðaryfirlýsingar hans hvort hann hafi óskað eftir mati á greiðslugetu aðalskuldarans eður ei. Þannig hafi hann ekki haft forræði á að gefa yfirlýsingu um greiðslumat þar sem ábyrgðarfjárhæðin hafi verið hærri en 1.000.000 krónur. Skilyrðislaus skylda til að framkvæma greiðslumat hafi því hvílt á varnaraðila.

Með vísan til framanritaðs telur sóknaraðili að ábyrgð hans á tékkareikningi nr. 12395 sé ógildanleg.

Skuldbinding sóknaraðila á skuldabréfi, sem sé grundvöllur fjárnámsgerðar þeirrar sem krafist er ógildingar á, sé einnig ógildanleg. Þannig hafi varnaraðili hvorki veitt sóknaraðila upplýsingar um fjárhagsstöðu aðalskuldarans né um skuldastöðu á tékkareikningi nr. 12395 á útgáfudegi skuldabréfsins 21. desember 2001. Þá hafi varnaraðili tekist með skuldabréfinu að verða sér úti um aukna ábyrgð hjá sóknaraðila þar sem staða tékkareikningsins hafi verið jákvæð um 1.170.910 krónur þegar bréfið var bókað sem innborgun á reikninginn. Í þessu sambandi vísar sóknaraðili sérstaklega til þess að annar ábyrgðarmaður, sem mun vera frændi þeirra bræðra, Magnús Ágústsson, hafi þurft að greiða vanskil Magnúsar Ívars við varnaraðila að fjárhæð 10.000.000 skömmu áður en sóknaraðili gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir umræddu skuldabréfi.  Þrátt fyrir þetta hafi varnaraðili ekki séð ástæðu til að upplýsa sóknaraðila um að aðrir ábyrgðarmenn hefðu þurft að hlaupa undir bagga með aðalskuldaranum vegna gríðarlegra vanskila. Telur sóknaraðili að framangreind atvik séu með þeim hætti að það sé bersýnilega ósanngjarnt af hálfu varnaraðila að bera fyrir sig ábyrgðarskuldbindingu sóknaraðila og því beri að ógilda fjárnámsgerðina. 

Þá telur sóknaraðili fyrrgreinda greiðslu ábyrgðarmannsins staðfesta að aðalskuldarinn hafi ekki verið fær um að standa við skuldbindingar sínar. Þessu til frekari stuðnings heldur sóknaraðili því fram að aðalskuldarinn hafi verið með skráð vanskil á vanskilaskrá Lánstrausts hf. á þeim tíma er hér um ræðir og að varnaraðila hafi mátt vera um það kunnugt. Að mati sóknaraðila hvíldu ríkar kröfur á varnaraðila að upplýsa hann um hina bágu fjárhagsstöðu aðalskuldarans, enda líklegt að vitneskja um hana hefði áhrif ákvörðun hans.

Sóknaraðili telur með vísan til framangreinds að það sé óheiðarlegt af varnaraðila að byggja á ábyrgðarskuldbindingunni í ljósi þeirra upplýsinga sem hann hafi búið yfir og látið hjá líða að upplýsa sóknaraðila um. Ábyrgðarskuldbindingin sé því ógildanleg.

Sóknaraðili telur jafnframt að varnaraðila hafi borið að meta greiðslugetu aðalskuldarans áður en hann stofnaði til ábyrgðarskuldbindingar sinnar.  Því til stuðnings leyfir sóknaraðili sér að vísa til þeirra sjónarmiða er koma fram hér að framan í tengslum við umfjöllun á ábyrgð hans á tékkareikningi nr. 12395. 

Í þessu sambandi bendir sóknaraðili jafnfram á, að yfirlýsingin „Til ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga” hafi verið undirrituð af sóknaraðila daginn eftir undirritun skuldabréfsins. Því sé ljóst að varnaraðili átti skilyrðislaust að framkvæma greiðslumat hjá aðalskuldara.

Sóknaraðili áréttar að hann hafi á engan hátt notið góðs af umræddri lánveitingu ólíkt varnaraðila, sem tekist hafi „að fá góðan ábyrgðarmann fyrir vonlausan aðalskuldara“.  Þá áréttar sóknaraðili þann mun sem hafi verið á stöðu aðila, en ljóst megi vera að varnaraðili hafi verið í stöðu sérfræðings þrátt fyrir að framganga hans beri þess ekki merki. Telur sóknaraðili að líta beri til þessa aðstöðu- og þekkingarmunar þegar lagt er mat á réttarstöðu aðila og þar með hvort ógilda eigi fjárnámsgerðina.  Jafnframt beri að líta til þeirra upplýsinga sem varnaraðili hafi haft undir höndum varðandi fjárhagstöðu aðalskuldarans.

Sóknaraðili áréttar jafnframt að hann hafi ekki séð önnur gögn en þau sem hann undirritaði í tengslum við ábyrgðaryfirlýsingar sínar, það er „sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttar á tékkareikning”, skuldabréfið og síðar skjalið „Til ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga”.  Þá hafi sóknaraðili engar upplýsingar fengið um það á hvaða hátt nýta átti lánsfé, að öðru leyti en því sem fram komi í skjalinu „Til ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga”, það er að meira en helmingi lánsins hafi átt að nýta til að greiða skulda við varnaraðila.  Hinu sama gegni um ábyrgðina frá 8. nóvember 2000, en þá hafi sóknaraðili engar upplýsingar fengið um fjárhagsstöðu aðalskuldarans.

Sóknaraðili telur ekki skipta máli hvort sjálfskuldarábyrgð hans á umræddu skuldabréfi sé metin sjálfstætt og óháð fyrri ábyrgðarskuldbindingum eða hvort skuldbindingarnar séu skoðaðar saman. Í báðum tilvikum sé ljóst að ábyrgð hans sé ógildanleg. Þannig hafi upplýsingum um skuldasöfnun aðalskuldarans verið haldið leyndum. Þá hafi ábyrgð sóknaraðila á tékkareikningi aðalskuldarans, Magnúsar Ívars, numið kr. 1.731.958 þegar hún féll úr gildi en á sama tíma hafi stofnast ábyrgðarskuldbinding sem verið hafi um það bil 1.300.000 krónum hærri. Telur sóknaraðili að varnaraðili hafi með því að sóknaraðili gekkst í ábyrgð fyrir greiðslu skuldabréfsins orðið sér úti um aukna ábyrgð þrátt fyrir að sóknaraðili hafi talið að um skuldbreytingu væri að ræða.

Sóknaraðili telur með vísan til framanritaðs að taka beri kröfur hans til greina, enda sé ábyrgðarskuldbinding hans á umræddu skuldabréfi ógildanleg og því eigi varnaraðili ekki þann rétt sem bréfið beri með sér.  Telur sóknaraðili ljóst að háttsemi varnaraðila sé ekki í takt við það sem vænta megi hjá góðum og gegnum „bankastarfsmanni”. Þá hafnar sóknaraðili því alfarið að umrædd lánveiting hafi tengst atvinnurekstri aðalskuldarans, að minnsta kosti hafi slíkt ekki verið upplýst á þeim tíma er um ræðir.

Sóknaraðili byggir kröfur sínar á ógildingarreglum samningaréttar, sbr. sérstaklega 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936.  Þá byggir hann á sjónarmiðum samninga- og kröfuréttar um forsendubrest, sem og gagnkvæma tillitsemi samningsaðila. Sóknaraðili byggir ennfremur á réttarreglum um þriðjamannsloforð og títtnefndu samkomulagi um notkun sjálfskuldarábyrgða, auk gildandi viðskiptavenju. Þá byggir sóknaraðili á þeim auknu kröfum sem gerðar eru til sérfræðinga við samningagerð, sem og efni þeirra skjala er tengdust ábyrgðarveitingu hans.  Jafnframt er vísað til 15. kafla laga nr. 90/1989, sem og dóma Hæstaréttar í málum nr. 87 og 88/2000, sem birtir eru í dómsafni réttarins það ár á bls. 1437 og 1447.

Krafa um málskostnað byggir á því að krafa sóknaraðila sé fyllilega réttmæt og í takt við það sem ganga megi út frá í samkomulagi því sem varnaraðili er aðili að, sem og gildandi viðskiptavenju. Telur sóknaraðili að varnaraðili beri að greiða honum málskostnað óháð dómsniðurstöðu, enda réttmætt að láta á það reyna hvort varnaraðila sé heimilt að brjóta þær reglur sem hann hafi sjálfur sett sér og skuldbundið sig til að fara eftir og talið sóknaraðila trú um að hann færi eftir.  Að öðru leyti vísar sóknaraðili i til þeirra sjónarmiða sem fram koma í 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991.

III.

                 Forsaga þessa máls er að sögn varnaraðila sú að Magnús Ívar Guðbergsson, bróðir sóknaraðila, hafði um árabil staðið í umfangsmiklum atvinnurekstri tengdum smábátaútgerð og þegið lánafyrirgreiðslu hjá varnaraðila vegna þessara viðskipta. Hafi fyrirgreiðsla vegna rekstursins verið veitt með yfirdrætti á tékkareikningi hans nr. 12395, en Magnús Ívar hafi verið með rekstur sinn í eigin nafni en ekki í nafni félags.  Yfirdráttarheimild Magnúsar Ívars á tékkareikningnum hafi numið 10.000.000 króna og hafi nafngreindur maður, sem mun vera frændi þeirra bræðra, gengist á ábyrgð fyrir greiðslu yfirdráttarins. Haustið 2000 hafi yfirdrátturinn á reikningi Magnúsar Ívars verið orðinn meiri en heimildinni nam og hafi varnaraðili þá gert kröfu til þess að hann gerði annað tveggja, greiddi inná reikninginn þannig að hann yrði innan heimildar eða útvegaði viðbótartryggingu. Hafi Magnús Ívar óskað eftir því að fá að setja sjálfskuldarábyrgð bróður síns, það er sóknaraðila, sem viðbótartryggingu að fjárhæð 3.000.000 krónur. Hafi Magnús Ívar skýrt svo frá að sóknaraðili væri eins og hann sjálfur vel stæður útgerðarmaður smábáta, sem þekkti vel þann rekstur sem um væri að ræða. Eftir könnun á eigna- og skuldastöðu sóknaraðila hafi varnaraðili gegn þessari viðbótarábyrgð fallist á að hækka yfirdráttarheimildina í 13.000.000 krónur. Sóknaraðili hafi á þessum tíma ekki haft samband við varnaraðila og ekki undirritað ábyrgðaryfirlýsinguna í afgreiðslu hans.  Þess í stað hafi Magnús Ívar fengið eyðublað um sjálfskuldarábyrgð hjá varnaraðila og farið með það til bróður síns. Þeir bræður hefðu svo sjálfir fyllt skjalið út og það verið afhent varnaraðila 9. nóvember 2000.  Á eyðublaðinu hafi verið sérstakir reitir þar sem óskað hafi verið eftir því að ábyrgðaraðilar tækju afstöðu til þess hvort þeir vildu að greiðslugeta skuldarans yrði metin. Hafi sóknaraðili merkt í tiltekinn reit á eyðublaðinu og þar með fallið frá því að greiðslugeta bróður hans yrði metin. Um það bil ári síðar hafi verið orðið ljóst að rekstur Magnúsar Ívars stæði það höllum fæti að ekki væri lengur von til þess að hann myndi greiða þessa tékkareikningsskuld, en hún hafi þá numið 11.731.958 krónum. Jafnframt hafi skuld Magnúsar Ívars á VISA reikninga hans numið rúmum tveimur milljónum króna. Ákvörðun hafi þá verið tekin um það að innheimta þessar skuldir hjá Magnúsi Ívari og ábyrgðarmönnum hans. Áður en til þess kom hafi þessir aðilar gengið til uppgjörs við varnaraðila vegna þessara lausaskulda. Hafi áðurgreindur frændi Magnúsar Ívars og sóknaraðila greitt varnaraðila 10.000.000 krónur og Magnús Ívar gefið út skuldabréf að fjárhæð 3.000.000 króna með sjálfskuldarábyrgð sóknaraðila. Hafi varnaraðili fallist á þessa tillögu þeirra bræðra. Í kjölfarið hafi nauðsynleg skjöl verið útbúin og afhent Magnúsi Ívari, sem skilað hafi þeim undirrituðum til varnaraðila 21. desember 2001. Í kjölfarið hafi skuldabréfið verið keypt og fyrri ábyrgðaryfirlýsing sóknaraðila ógilt. Magnús Ívar hafi aðeins greitt óverulega inn á bréfið í upphafi og  það fljótlega farið í vanskil og innheimtu.

Varnaraðili byggir kröfur sínar í málinu á því að sjálfskuldarábyrgð sóknaraðila á efndum umrædds skuldabréf sé í alla staði gild að lögum og bindandi fyrir sóknaraðila.  Gegn afhendingu þessa skuldabréfs hafi fallið niður ábyrgð sömu fjárhæðar fyrir sama skuldara, sem jafnframt hafi verið fullkomlega gild að lögum.

Varnaraðili heldur því fram að sóknaraðila hafi verið það ljóst eða í það minnsta mátt vera það fyllilega ljóst þegar hann upphaflega gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldum bróður síns að um viðbótartryggingu væri að ræða. Frændi hans hafi þegar verið í ábyrgð fyrir 10.000.000 króna og eina ástæðan fyrir því að sóknaraðili þyrfti viðbótartryggingu væri sú að yfirdráttur hans hefði farið fram úr tryggingum. Honum hafi jafnframt verið ljóst að yfirdráttur þessi væri til kominn vegna reksturs Magnúsar Ívars en ekki einkaneyslu hans.  Hann hafi gjörþekkt þann rekstur sem Magnús Ívar stundaði, enda sjálfur haft sama atvinnurekstur með höndum mun lengur en Magnús Ívar. Vegna þessa hafi varnaraðila ekki verið skylt að láta framkvæma mat á greiðslugetu Magnúsar Ívars þegar ábyrgðin á tékkareikningnum var stofnuð. Samningur banka og sparisjóða við viðskiptaráðuneytið og neytendasamtökin varði ábyrgð einstaklinga á lántökum annarra einstaklinga, það er að segja samningurinn taki til neyslulána fyrst og fremst. Ástæða þessa sé sú að ábyrgðartaka fyrir fyrirtæki og aðra rekstraraðila sé í raun allt annars eðlis en ábyrgðartaka vegna neyslulána. Ákvörðun um að gangast í ábyrgð vegna skuldar rekstraraðila sé aftur á móti einatt byggð á hagsmunatengslum viðkomandi aðila við reksturinn auk þess sem könnun á greiðslugetu slíkra aðila sé flókin, dýr og um leið ótryggari en könnun á málefnum einstaklings.

Varnaraðili heldur því fram að sóknaraðili þekki vel til viðskipta með tékkareikninga.  Staða á þeim breytist nánast á hverjum degi, einkanlega hjá fyrirtækjum þar sem farið er með miklar fjárhæðir, eins og til dæmis í útgerð og við kaup og sölu fiskibáta. Hann hafi því ekki getað lagt til grundvallar að ábyrgð hans næði einungis til skuldar á tékkareikningum sem yrði umfram þá skuld sem var til staðar við stofnun ábyrgðarinnar. Skilmálar ábyrgðarinnar séu skýrlega greindir á eyðublaðinu og þeir gildi um þetta réttarsamband. Hefði sóknaraðili viljað víkja frá þeim hefði hann þurft að gera sérstakar ráðstafanir í þeim efnum. Það hefði hann ekki gert og ekki einu sinni óskað eftir því að fá yfirlit um stöðu reikningsins. Þessi skuldbinding hafi síðan verið til staðar þegar sóknaraðili hafi fallist á að bróðir hans gerði upp hluta tékkareikningsskuldarinnar með skuldabréfi. Í stað þess að taka við þessu bréfi hafi varnaraðili á þessari stundu getað gengið að sóknaraðila og innheimt hjá honum fjárhæð skuldbindingarinnar að fullu.  Skuldbindingar sóknaraðila hafi því ekki aukist við útgáfu skuldabréfsins. Þá hafi  varnaraðili ekki heldur þurft að kanna greiðslugetu skuldara á þessu tímamarki. Vísar sóknaraðili hvað þetta varðar til sjónarmiða sem áður eru rakin. Þessi ráðstöfun hafi á engan hátt falið það í sér að verið væri að auka byrgðar sóknaraðila á nokkurn hátt. Greiðslumat hafi því ekki verið nauðsynlegt.

Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að Magnús Ívar Guðbergsson hafi ekki verið í vanskilum með skuldbindingar sínar í nóvember árið 2000, það er þegar upphaflega ábyrgðarskuldbinding sóknaraðila stofnaðist. Þá sé því einnig ranglega haldið fram í greinargerð sóknaraðila að Magnús hafi í desember árið 2001 verið kominn í mikil vanskil og þau hafi mátt sjá í opinberum gögnum. Vísi sóknaraðili hvað þetta varðar til skráningar Lánstrausts hf. á vanskilum Magnúsar Ívars og heldur því fram að starfsmönnum varnaraðila hafi með könnun á þeirri skrá mátt vera ljóst að hann væri þá þegar komin í mikil vanskil við marga kröfuhafa. Af þessu tilefni hafi varnaraðili leitað til Lánstrausts hf. þegar mál þetta var til meðferðar hjá úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálastofnanir  og óskað eftir upplýsingum um það hvaða vanskil hafi verið skráð á Magnús Ívar þegar sóknaraðili áritaði skuldabréfið. Í ljós hafi komið að á þeim tíma hafi aðeins verið skráð á Magnús Ívar vanskil á tveimur frekar litlum kröfum, annars vegar við Reka hf. að höfuðstól 152.140 krónur og hins vegar við nafngreindan einstakling að höfuðstól 113.450 krónur, eða samtals kröfur að höfuðstól 265.590 krónur.  Fullyrðingar sóknaraðila um að varnaraðili hafi mátt með lestri þessara gagna gera sér grein fyrir greiðslustöðu Magnúsar Ívars séu því rangar. Viðskipti Magnúsar Ívars við varnaraðila fram að því að hann fékk yfirdráttarheimildina á reikning nr. 12395 hafi verið með miklum ágætum. Mikil velta hafi verið á reikningum hans og engin vanskil. Þau gögn sem varnaraðili hafi haft undir höndum á þessum tíma hafi ekki gefið vísbendingu um annað en að reksturinn gengi vel og að eignastaðan væri góð. Magnús Ívar hafi átt miklar eignir á þessum tíma, meðal annars einbýlishús og aflamarksbáta auk annarra eigna.

                Með hliðsjón af öllu framangreindu telur varnaraðili rétta þá niðurstöðu úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálastofnanir að mat á greiðsluhæfni Magnúsar Ívars hefði ekki breytt þeirri ákvörðun sóknaraðila að gangast í ábyrgð fyrir bróður sinn.  Jafnvel þótt talið verði að varnaraðili hefði átt að framkvæma greiðslumat, og það þótt sóknaraðili hefði ekki óskaði eftir slíku mati, þá leiðir vöntun á því, eins og atvikum er hér háttað, ekki til þess að ábyrgð sóknaraðila teljist ógild.

IV.

                Svo sem fram er komið leitar sóknaraðili eftir því að fá fellt úr gildi fjárnám sem að kröfu varnaraðila var gert í fasteign hans að Háaleiti 31 í Keflavík 15. nóvember 2004. Studdist aðfararbeiðni við skuldabréf útgefið 21. desember 2001 af Magnúsi Ívari Guðbergssyni til varnaraðila, upphaflega að fjárhæð 3.000.000 krónur, með sjálfskuldar-ábyrgð sóknaraðila, sem er bróðir Magnúsar Ívars. Reisir sóknaraðili ógildingarkröfu sína meðal annars á því að ákvæðis 3. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem varnaraðili er aðili að og tók gildi 1. nóvember 2001, hafi ekki verið gætt þá er hann tókst þessa ábyrgð á hendur. Ákvæði þetta hljóðar svo:

                „Sé skuldaábyrgð eða veð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu ber fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda, nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert.

                Við greiðslumat skal taka tillit til neyslu og annarra fastra útgjalda áður en ráðstöfunarfé til greiðslu skuldbindinga er reiknað út. Við áætlun á útgjöldum til neyslu skal að lágmarki nota viðmiðun Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna eða Íbúðalánasjóðs. Við áætlun á greiðslubyrði vegna yfirdráttarlána skal aldrei miða við lægri fjárhæð en sem nemur mánaðarlegum vöxtum og heimildargjöldum af hámarksfjárhæð yfirdráttarláns. Við áætlun á greiðslubyrði vegna kreditkorta skal taka mið af mánaðarlegum vöxtum af hámarksúttekt.

                Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er fjármálafyrirtæki skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemur meira en kr. 1.000.000,-. Þó er hjónum eða fólki í sambúð heimilt að undanskilja fjármálafyrirtæki frá skyldu til greiðslumats, vegna ábyrgðar á skuldum hvors annars.“

                Í 1. gr. samkomulagsins lýsa aðilar þess því yfir að þeir séu sammála um gildi þeirrar stefnu að draga úr vægi ábyrgða einstaklinga og að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu greiðanda og eigin tryggingar hans. Með samkomulaginu séu settar meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum þegar skuldaábyrgð eða veð í eigu annars einstaklings eru sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu. Þá er kveðið á um það í 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins að tryggt skuli að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann  gengst í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Bendi niðurstaða greiðslumats til þess að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar en ábyrgðarmaður óski engu að síður eftir því að lán verði veitt skuli hann staðfesta það skriflega.

                Skilja verður málatilbúnað sóknaraðila á þann veg að hann hefði ekki gengist í ábyrgð fyrir skuldum bróður síns, Magnúsar Ívars, ef mat á greiðslugetu hans hefði leitt það í ljós að hann gæti hugsanlega ekki greitt þær. Er að þessu vikið í bréfi lögmanns sóknaraðila til dómsins 26. nóvember 2004, en með því var krafist úrlausnar héraðsdóms um aðfarargerðina frá 15. sama mánaðar, og í niðurlagi þess tekið fram að áskilinn sé réttur til færa fram nýjar málsástæður í greinargerð.

                Sóknaraðili útfyllti sérstakt eyðublað í tengslum við stofnun þeirrar ábyrgðar hans sem aðfararbeiðni varnaraðila á hendur honum studdist við. Þar svaraði hann neitandi fyrirspurn þess efnis hvort hann óskaði eftir því að greiðslugeta útgefanda skuldabréfsins yrði metin. Á eyðublaðinu er hins vegar tekið fram í samræmi við 3. mgr. 3. gr. framangreinds samkomulags að greiðslumat fari „ávallt fram ef lánsfjárhæð er hærri en kr. 1.000.000“. Þá segir þar að greiðslumatið taki eingöngu til könnunar á fjármálum greiðanda hjá varnaraðila og uppflettingar í opinberri vanskilaskrá.

                Þegar varnaraðili keypti framangreint skuldabréf féll úr gildi ábyrgð sóknaraðila á greiðslu yfirdráttar á tékkareikningi bróður hans hjá varnaraðila  samkvæmt ábyrgðar-yfirlýsingu frá 8. nóvember 2000. Samkvæmt yfirlýsingunni nam hámarksfjárhæð ábyrgðarinnar 3.000.000 króna. Við undirritun hennar var í gildi samkomulag um notkun sjálfskuldarábyrgða sem varnaraðili var aðili að og tók gildi 1. maí 1998. Í 3. gr. þess var með sama hætti og í núgildandi samkomulagi kveðið á um það að ávallt skyldi fara fram mat á greiðslugetu aðalskuldara ef ábyrgðarfjárhæð næmi meira en einni milljón króna. Óumdeilt er að greiðslumat fór ekki fram í tengslum við stofnun þessarar ábyrgðar sóknaraðila, en þá lá fyrir sú afstaða hans að hann teldi það óþarft.

Samkvæmt gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu nam yfirdráttarskuld á framangreindum tékkareikningi Magnúsar Ívars Guðbergssonar hjá varnaraðila 12.961.289 krónum hinn 8. nóvember 2000, en 11.731.959 krónum hinn 1. desember 2001. Var hún greidd upp með 10.000.000 króna innborgun 21. desember 2001, sem frændi þeirra bræðra innti af hendi og í samræmi við ábyrgðarskuldbindingu hans, og andvirði skuldabréfsins, 2.902.869 krónum, sem varnaraðili ráðstafaði inn á tékkareikninginn 27. sama mánaðar. Inneign á reikningnum að fengnum þessum innborgunum nam þannig 1.170.910 krónum, en að teknu tilliti til vaxta, sem skuldfærðir voru við lok mánaðarins, 990.531 krónu. Þá voru 2.126.458 krónur skuldfærðar á reikninginn 27. desember 2001. Eftir því sem næst verður komist var þar um að ræða uppsafnaða greiðslukortaskuld Magnúsar Ívars við varnaraðila. Að teknu tilliti til óútskýrðrar skuldfærslu að fjárhæð 85.576 krónur var staðan á reikningnum í árslok þannig orðin neikvæð um 1.221.503 krónur. Skuld Magnúsar Ívars við varnaraðila þegar hér var komið sögu nam þannig rúmlega 4.000.000 króna. Mun Magnús Ívar einungis hafa greitt tvær fyrstu afborganirnar af skuldabréfinu. Þá hefði könnun varnaraðila á fjárhagsstöðu Magnúsar Ívars í desember 2001 í öllu falli leitt það í ljós að hann væri í vanskilum við tvo aðra lánardrottna sína. Bú Magnúsar Ívars var svo sem fram er komið tekið til gjaldþrotaskipta 4. nóvember 2002 og á grundvelli árangurslauss fjárnáms sem gert var hjá honum 24. september sama árs.

Varnaraðili hefur ekki sýnt fram á að efni séu til að líta svo á að þær ábyrgðarskuldbindingar sóknaraðila sem um ræðir í málinu falli utan gildissviðs samkomulags um notkun sjálfskuldarábyrgða einstaklinga sem verið hefur í gildi frá 1. maí 1998 og vísað hefur verið til hér að framan.

Í málinu verður engu slegið föstu um það að sóknaraðili hafi á þeim tíma sem hér skiptir máli búið yfir slíkri vitneskju um fjárhagsstöðu Magnúsar Ívars að sú mótbára hans að mat á greiðslugetu var ekki framkvæmt teljist haldlaus.

Að öllu framangreindu virtu þykja í fyrsta lagi ekki vera efni til annars en að líta svo á að varnaraðila hafi samkvæmt samkomulaginu um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem öðlaðist að meginstefnu til gildi 1. nóvember 2001, borið að meta greiðslugetu Magnúsar Ívars Guðbergssonar í tengslum við þá ábyrgðarskuldbindingu sem sóknaraðila gekkst undir 21. desember 2001 og fjárnámið, sem sóknaraðili krefst ógildingar á, styðst við. Þá er það í annan stað niðurstaða dómsins að það, að láta hjá líða að meta greiðslugetu útgefanda skuldabréfsins og eftir atvikum gera sóknaraðila grein fyrir því ef niðurstaða þess mats benti til þess að útgefandinn gæti ekki staðið í skilum, hafi verið á áhættu varnaraðila og að hann verði hér að bera hallann á þeirri ákvörðun sinni að veita skuldabréfalánið án þess að viðhafa áður þau vönduðu vinnubrögð sem hann hafði undirgengist með aðild sinni að framangreindu samkomulagi og lýst hefur verið. Er vandséð að takast megi að öðrum kosti að ná fram því meginmarkmiði með gerð samkomulagsins að ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga geri sér eftir atvikum ljósa grein fyrir þeirri áhættu sem þeir taka með því að undirgangast slíka ábyrgð.

                Samkvæmt öllu framansögðu og með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986, þykir mega taka til greina kröfu sóknaraðila um ógildingu á umræddri aðfarargerð og hafna þannig kröfu varnaraðila um staðfestingu hennar.

                Eftir framangreindum málsúrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur. 

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                Aðfarargerð nr. 034-2004-03114, sem framkvæmd var af sýslumanninum í Keflavík 15. nóvember 2004, er felld úr gildi.

                Varnaraðili, Sparisjóður Hafnarfjarðar, greiði sóknaraðila, Ágústi Þór Guðbergssyni, 150.000 krónur í málskostnað.