Hæstiréttur íslands

Mál nr. 437/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 10

 

Miðvikudaginn 10. nóvember 2004.

Nr. 437/2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(enginn)

 

Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. nóvember 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 20. desember 2004 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ætla verður að varnaraðili kæri úrskurð héraðsdómara í því skyni að fá úrskurðinn felldan úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Fyrir liggur að á árunum 1996 til 1998 var varnaraðili dæmdur tvisvar í skilorðsbundna fangelsisrefsingu fyrir þjófnaðarbrot. Þá var hann dæmdur 7. janúar 2004 í fangelsi í 10 mánuði fyrir þjófnað og fíkniefnalagabrot og 27. maí sama árs í fangelsi í 30 daga fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Var honum 3. júní 2004 veitt reynslulausn í eitt ár á eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómunum tveimur í 135 daga, en fyrsta brot sem varnaraðili er nú grunaðar um að hafa framið átti sér stað tæpum fjórum mánuðum síðar. Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði er varnaraðili grunaður um að hafa framið sex brot, þar af fimm þjófnaði úr bifreiðum, á tímabilinu 26. september til 7. nóvember 2004. Varnaraðili hefur játað eitt þessara brota sem framið var 5. október en neitað sök varðandi hin brotin. Fram kemur að rannsókn þeirra er ekki lokið, en í kröfu lögreglu er vísað til c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 með þeim rökum að yfirgnæfandi líkur séu á því að varnaraðili haldi áfram brotum meðan málum hans er ekki enn lokið. Með hliðsjón af framangreindu þykja ekki alveg næg efni til að fallast á kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald yfir varnaraðila á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, en ekki er krafist gæsluvarðhalds með vísan til a. liðar sama ákvæðis. Samkvæmt því sem að framan greinir verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík krafðist þess í dag að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, verði á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991 úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til mánudagsins 20. desember 2004, kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að á undanförnum vikum hafi lögregla ítrekað þurft að hafa afskipti af X vegna meintra brota.

Eftirfarandi mál séu á rannsóknarstigi hjá lögreglu eða til afgreiðslu hjá lögfræðideild embættisins:

[...]

Kærði hafi þó nokkurn sakarferil og hafi undanfarin misseri verið í fjölda mörgum afbrotum og hafi ekki látið sér segjast þrátt fyrir afskipti lögreglu og haldið brotastarfseminni áfram.  Kærði hafi hlotið dóm fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 7. janúar sl. þar sem hann hafi verið dæmdur til 10 mánaða fangelsisrefsingar.  Þá hafi hann hlotið 30 daga fangelsisrefsingu þann 27. maí sl. með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Meðan á málsmeðferð fyrri málsins hafi staðið hafi kærði sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. oml.

Þann 3. júní sl. hafi kærða síðan verið veitt reynslulausn á 135 daga eftir­stöðvum fangelsisrefsingar.  Kærði hafi virst hafa haft hægt um sig fyrst eftir að hann losnaði úr afplánun en svo hafið brotastarfsemi að nýju.

Lögreglan telji yfirgnæfandi líkur á að kærði muni halda áfram brotum fari hann frjáls ferða sinna.  Kærði hafi nú hafið nýja brotahrinu og stöðva verði þennan afbrotaferil.  Því sé nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi uns dómur gangi í máli hans.

Kærði hefur á undanförnum árum sætt all nokkrum dómum, einkum vegna auðgunarbrota.  Þann 3. júní sl. var honum veitt reynslulausn á 135 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar.  Til rannsóknar eru nú all mörg ætluð þjófnaðarbrot kærða.  Fallist er á að gögn málsins sýni að kærði hafi hafið brotahrinu og að nauðsynlegt sé að stöðva þann feril eins og krafist er.

Með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 um meðferð opinberra mála er niðurstaða úrskurðar þess sú að fallist er á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík eins og hún er fram sett.

Úrskurð þennan kveður upp Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til mánudagsins 20. desember 2004, kl. 16.00.