Hæstiréttur íslands
Mál nr. 486/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Mánudaginn 18. ágúst 2014. |
|
Nr. 486/2014. |
Landsbankinn
hf. (Stefán Geir Þórisson hrl.) gegn Soffaníasi
Cecilssyni hf. (Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
Staðfestur
var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina beiðni S hf. um
dómkvaðningu matsmanna í máli sem L hf. höfðaði gegn S hf. til greiðslu tveggja
nánar tilgreindra lánssamninga.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar
með kæru 2. júlí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar.
Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2014, þar sem tekin var til
greina beiðni varnaraðila um að dómkvaddir yrðu tveir sérfróðir menn til að
leggja mat á nánar tilgreind atriði sem í matsbeiðni greinir. Kæruheimild er í c.
lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði
úrskurður verði felldur úr gildi og fyrrgreindri kröfu varnaraðila hafnað. Þá
krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki til álita hér fyrir dómi.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Landsbankinn hf., greiði varnaraðila, Soffaníasi Cecilssyni hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2014.
I.
Mál
þetta, sem tekið var til úrskurðar 22. maí sl., er höfðað 28. desember 2012 af
Landsbankanum hf., Austurstræti 11 í Reykjavík, gegn Soffaníasi Cecilssyni hf., Borgarbraut 1 í Grundarfirði.
Í
málinu krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.743.711.737
japönsk jen og 2.379.096.967 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Þá
krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi
krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að dómkröfurnar
verði lækkaðar verulega og að viðurkennt verði með dómi að dómkrafa stefnanda í
japönskum jenum sé ólögmæt. Þá krefst stefndi málskostnaðar.
Stefndi
lagði, í þinghaldi 14. maí sl., fram beiðni um dómkvaðningu tveggja matsmanna
til að svara nánar tilgreindum matsspurningum, sem raktar verða í kafla III.
Stefnandi mótmælti dómkvaðningunni. Hinn 22. maí sl. fengu lögmenn aðila færi á
að reifa sjónarmið sín um hvort matsmenn yrðu dómkvaddir í samræmi við beiðnina
og var ágreiningsefnið tekið til úrskurðar í kjölfarið.
II.
Í
máli þessu krefur stefnandi stefnda um endurgreiðslu á tveimur lánssamningum
milli stefnda og Landsbanka Íslands hf. Annar lánssamningurinn, lán nr. 7206,
er dagsettur 13. mars 2007, og var upphaflega að fjárhæð 1.500.000.000 króna, í
nánar tilgreindum mynthlutföllum. Bar að endurgreiða lánið með einni afborgun í
lok lánstímans 25. mars 2010, en þó skyldi greiða vexti á sex mánaða fresti.
Lánið var ekki endurgreitt á gjalddaga. Með bréfi, dags. 6. september 2011, var
viðurkennt að lán þetta kvæði á um ólögmæta gengistryggingu og voru
eftirstöðvarnar endurreiknaðar. Kveður stefnandi að síðari dómkrafa sín taki
mið af þeim endurútreikningi þar sem miðað sé við lægstu óverðtryggðu vexti
Seðlabanka Íslands samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/2001.
Hinn
lánssamningurinn, lán nr. 9089, er frá 22. ágúst 2007. Samningurinn fól í sér
skyldu stefnanda til að veita stefnda „fjölmyntalán til 2,5 ára að jafnvirði
kr. 1.500.000.000 ... í japönskum jenum“. Bar að endurgreiða lánið sama dag og
fyrrgreint lán nr. 7206, 25. mars 2010, en vexti bar að greiða á sex mánaða
fresti. Stefnandi segir að þetta lán hafi verið greitt út með því að leggja
samtals 2.687.229.525 japönsk jen inn á gjaldeyrisreikning stefnda í sex hlutum
24. ágúst 2007. Stefnandi vísar einnig til þess að greitt hafi verið af láninu
að hluta í japönskum jenum. Kveður stefnandi fyrri dómkröfu sína nema
eftirstöðvum lánsins.
Hið
stefnda félag reisir sýknukröfu sína í mjög stuttu máli á því að fjármunirnir
hafi verið notaðir til að kaupa annars vegar hlutabréf í Landsbanka Íslands hf.
og hins vegar til að fjármagna kaup stefnda á peningabréfum bankans, allt í
samræmi við ákvæði í lánssamningunum. Telur stefndi sig vera óbundinn af þessum
samningum þar sem þeir séu ekki gildir og vísar um það m.a. til umboðsskorts,
en stefndi sé útgerðarfélag. Þá hafi bankinn við samningsgerðina virt að
vettugi upplýsingaskyldu sína, skyldur um góða viðskiptahætti,
leiðbeiningarskyldu og reglur um fjárfestavernd. Þannig telur stefndi að
stjórnendum bankans hafi verið kunnugt eða átt að vera kunnugt um að fjárhagsstaða
bankans væri svo slæm að óheimilt hafi verið að ráðleggja stefnda að kaupa hlut
í bankanum. Síðar hafi bankanum einnig verið skylt að vara stefnda við svo
félaginu væri unnt að selja bréfin. Þá telur stefndi sig eiga gagnkröfu á
hendur stefnda sem sé jafnhá eða hærri en stefnukröfurnar. Varakrafa stefnda um
lækkun er meðal annars reist á því að eigi síðar en 3. desember 2007 hafi
bankinn átt að ráðleggja stefnda að selja hluti sína í bankanum og
peningabréfin til að takmarka tjón stefnda. Jafnframt byggir stefndi á því að
lán nr. 9089 sé ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum, en ekki erlent
lán. Því beri að sýkna stefnda af endurgreiðslu þess í japönskum jenum.
III.
Með
matsbeiðni, sem lögð var fram í þinghaldi 14. maí sl., óskar stefndi eftir dómkvaðningu
tveggja sérfróðra og óvilhallra manna til þess að svara sjö matsspurningum sem
eru svohljóðandi:
I.a
Hverjar venjur giltu í verðbréfaviðskiptum á árinu 2007 um lán banka til kaupa
á eigin verðbréfum, þ.e. hlutabréfum í bankanum sjálfum og peningabréfum?
I.b
Hverjar venjur giltu í verðbréfaviðskiptum árið 2007 um skyldur banka til að
vara lántaka við áhættu af að ráðstafa öllu andvirði láns til kaupa á
verðbréfum lánveitenda?
II.a
Telja hinir dómkvöddu matsmenn að Landsbanki Íslands hf. hafi starfað í samræmi
við góðar venjur í verðbréfaviðskiptum, þegar bankinn gerði lánssamning nr.
7206 hinn 13. mars 2007 við matsbeiðanda um lán að fjárhæð kr. 1.500.000.000
til kaupa á verðbréfum bankans, þ.e. hlutabréfum í bankanum sjálfum?
II.b
Telja hinir dómkvöddu matsmenn að Landsbanki Íslands hf. hafi starfað í samræmi
við góðar venjur í verðbréfaviðskiptum, þegar bankinn gerði lánssamning nr.
9089 hinn 22. ágúst 2007 við matsbeiðanda um lán að fjárhæð kr. 1.500.000.000
til kaupa á verðbréfum bankans, þ.e. peningabréfum bankans og hlutabréfum í
bankanum sjálfum?
III.
Telja hinir dómkvöddu matsmenn að það hefði verið í samræmi við góðar venjur í
verðbréfaviðskiptum, að Landsbanki Íslands hf. hefði ráðlagt matsbeiðanda að
selja hlutabréf þau og peningabréf, sem bankinn seldi matsþola í mars og ágúst
2007, þegar markaðsverð verðbréfanna tók að lækka í nóvemberbyrjun 2007 og hélt
áfram að lækka allt þar til bankinn féll í október 2008 og hlutabréfin urðu
verðlaus?
IV.
Telja hinir dómkvöddu matsmenn að það hefði verið í samræmi við góðar venjur í
verðbréfaviðskiptum, að Landsbanki Íslands hf. hefði varað matsþola við þeirri
áhættu, sem því fylgdi eða kynni að fylgja, að taka lánin nr. 7206 og nr. 9089
með þeim skilmálum, að endurgreiðsla þeirra tengdist þróun gengis erlendra
mynta, einkum með hliðsjón af því að matsþola bar að ráðstafa lánsfénu til
kaupa á verðbréfum af bankanum í íslenskum krónum?
V.
Telja hinir dómkvöddu matsmenn að það hefði verið í samræmi við góðar venjur í
verðbréfaviðskiptum, að Landsbanki Íslands hf. hefði varað matsþola við þeirri
áhættu sem því fylgdi eða kynni að fylgja að ráðstafa öllu andvirði lánanna nr.
7206 og 9089 til kaupa á verðbréfum Landsbanka Íslands hf., þ.e. hlutabréfum í
bankanum og peningabréfum hans, í stað þess að dreifa áhættunni með því að
fjárfesta í fleiri fjárfestingarkostum?
Aðili
að máli, sem rekið er á grundvelli laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, á að
meginstefnu til rétt á því að afla og leggja fram þau sönnunargögn sem hann
telur þörf á. Það er því almennt hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að aftra
því nema með stoð í lögum. Af þeim sökum ber dómara jafnan að verða við beiðni
málsaðila um að dómkveðja matsmann eða matsmenn samkvæmt IX. kafla laga nr.
91/1991 nema skilyrði 2. málsl. 1. mgr. 61. gr.
laganna séu ekki fyrir hendi, leitað sé mats um atriði sem dómari telur
bersýnilegt að ekki skipti máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, eða að
matsbeiðnin lúti einvörðungu að atriðum sem dómara ber að leggja sjálfur mat á
en ekki sérfróðir matsmenn, sbr. 2. mgr. 60. gr. og 1. málsl.
1. mgr. 61. gr. laganna.
Stefndi
hefur tvívegis áður farið fram á að dómkvaddir verði matsmenn til þess að
leggja mat á þau lánsviðskipti sem málið lýtur að. Með úrskurðum Héraðsdóms
Reykjavíkur 19. nóvember 2013 og 27. febrúar 2014 var því hafnað að dómkvaðning
færi fram með vísan til þess að dómara bæri sjálfum að leggja mat á þau atriði
sem ætlunin var að leggja fyrir hina sérfróðu matsmenn að svara, sbr. 2. mgr.
60. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 61. gr. laga nr.
91/1991. Í síðari úrskurðinum var fjallað um matspurningar sem eru um margt
hliðstæðar þeim spurningum sem ætlunin er að leggja fyrir hina sérfróðu
matsmenn með þeirri beiðni sem hér er til úrlausnar. Með dómi Hæstaréttar frá
8. apríl 2014 í málinu nr. 209/2014 var úrskurður héraðsdóms frá 27. febrúar
2014 staðfestur með þeirri athugasemd að með matsspurningum stefnda væri ekki
leitað svara um hverjar venjur hefðu gilt í verðbréfaviðskiptum, sem haft gæti
þýðingu við úrlausn málsins, heldur væri óskað eftir að lagt yrði mat á atriði
sem dómara beri að leysa úr í ljósi allra atvika.
Með
matsbeiðninni sem lögð var fram 14. maí sl. telur stefndi sig hafa bætt úr þeim
annmörkum sem hafi verið á fyrri matsspurningum í ljósi fyrrgreindrar
athugasemdar Hæstaréttar Íslands. Stefnandi mótmælir þessu og telur
matsspurningarnar ennþá vera haldnar slíkum annmörkum að hafna beri
dómkvaðningunni.
Í
greinargerð stefnda er meðal annars á því byggt að umræddar lánveitingar og
lögskipti stefnda og Landsbanka Íslands hf. eftir að samningar milli þeirra
komust á hafi ekki samrýmst góðum viðskiptaháttum og venjum í
verðbréfaviðskiptum. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 verður sá sem
ber fyrir sig venju að leiða tilvist og efni hennar í ljós. Með matsspurningum
I.a og I.b hyggst stefndi varpa ljósi á það hvaða venjur hafi gilt árið 2007 um
lánveitingar banka til að fjármagna kaup lántaka á verðbréfum bankans sem og um
aðvaranir þeirra við þeirri áhættu sem lántaki tæki við það að ráðstafa öllu
andvirði lánsins til að kaupa verðbréf lánveitanda. Dómendur búa almennt ekki
yfir sérþekkingu á þeim venjum sem kunna að hafa gilt um þessi atriði hjá
fjármálastofnunum. Þá fær dómurinn ekki séð að bersýnilega sé óþarft að leiða í
ljós venjur á þessu sviði. Ljóst er af matsbeiðninni hvað eigi að meta og hvað
stefndi hyggst sanna með matinu. Ekki er því fallist á að slíkir annmarkar séu
á þessum matsspurningum að efni sé til þess að hafna því að stefndi fái
dómkvadda matsmenn til þess að svara þeim.
Með
síðari matsspurningum sínum, þ.e. spurningum II, III, IV og V, fer stefndi fram
á að matsmenn leggi mat á það hvort einstakar ráðstafanir í viðskiptum stefnda
og Landsbanka Íslands hf., eða athafnaleysi bankans við nánar tilgreindar
aðstæður í lögskiptum bankans og stefnda, hafi samrýmst góðum venjum í
verðbréfaviðskiptum. Með matsbeiðninni er matsmönnum að þessu leyti ætlað að
leggja mat á aðstæður, sem aðilar greinir á um, út frá þeim venjum sem ætlunin
er að leiða í ljós með svörum við spurningum I.a og I.b. Eins og áður segir búa
dómendur almennt ekki yfir vitneskju um venjur á þessu sviði. Af því leiðir að
torvelt er fyrir þá að álykta hvaða hegðun samrýmist þeim venjum. Þó kann að
vera unnt að leggja mat á það hvort hegðun bankans í lögskiptum hans og stefnda
hafi samrýmst þeim venjum sem svör við spurningum I.a og I.b er ætlað að varpa
ljósi á. Spurningar II, III, IV og V setja hins vegar ætlaðar venjur á þessu
sviði í samhengi við þær aðstæður sem um er deilt.
Í
þessu sambandi ber að hafa í huga að efnisleg svör matsmanna við þessum spurningum,
er snerta lagaleg atriði, binda ekki hendur dómara eða þrengja svigrúm hans og
skyldu til þess að leggja sjálfstætt mat
á þau atriði svo komast megi að niðurstöðu hvort lagaskilyrðum sé fullnægt til
þess að víkja samningsskyldum stefnda til hliðar að hluta eða öllu leyti. Þá
verður stefndi að bera hallann af því ef matsgerð nýtist ekki sem skyldi til
sönnunar í því skyni. Að teknu tilliti þess sem hér hefur verið rakið telur
dómurinn að framangreindar matsspurningar lúti ekki einvörðungu að atriðum sem
dómara beri að leggja sjálfur mat á en ekki sérfróðum matsmönnum. Þá liggur
ekki fyrir að matsgerð sé að þessu leyti bersýnilega tilgangslaus til sönnunar
í málinu auk þess sem ljóst er hvað eigi að meta og hver tilgangur stefnda er
með matsbeiðninni.
Ekki
er fallist á með stefnanda að önnur þau atriði, sem hann teflir fram í þessum
þætti málsins, valdi því að hafna beri matsbeiðninni. Í ljósi alls þess sem hér
er rakið verður ekki séð að skilyrði séu fyrir því að meina stefnda að fá
dómkvadda matsmenn til þess að meta þau atriði sem hann óskar eftir, enda ber
hann sjálfur kostnað af matsgerðinni og áhættu af því að hvort hún komi honum
að notum. Ber því að fallast á matsbeiðnina. Ákvörðun málskostnaðar bíður
lokaniðurstöðu málsins.
Ásmundur
Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Fallist
er á beiðni stefnda, Soffaníasar Cecilssonar hf., um
að dómkvaddir verði tveir sérfróðir matsmenn til að meta þau atriði sem rakin
eru á matsbeiðni á dskj. 70.
Ákvörðun
málskostnaðar bíður lokaniðurstöðu málsins.