Hæstiréttur íslands

Mál nr. 14/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Þriðjudaginn 4

 

Þriðjudaginn 4. febrúar 2003.

Nr. 14/2003.

Karri ehf.

(Þórður Þórðarson hdl.)

gegn

Finnboga Bjarnasyni og

Jónínu I. Gunnarsdóttur

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.

Málatilbúnaður K, sem laut að aðalkröfu, var svo óljós og ruglingslegur og í innbyrðis ósamræmi, að ekki varð lagður efnisdómur á kröfuna. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest um frávísun málsins með vísan til d- og e-liða 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2002, sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 10. janúar 2003. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2002, þar sem vísað var frá dómi aðalkröfu sóknaraðila í máli hans gegn varnaraðilum þess efnis að viðurkennt yrði með dómi að ekki hafi komist á kaupsamningur milli aðilanna 12. júlí 2001 um Akralind 9 í Kópavogi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfuna til efnismeðferðar. Hann krefst jafnframt kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða honum kærumálskostnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2002.

I.

         Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda fimmtudaginn 12. desember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Karra ehf., kt. 660595-3099, Þrastarlundi 1, Akureyri, með stefnu birtri 26. júní 2002 á hendur Finnboga Bjarnasyni, kt. 270746-4899, og Jónínu I. Gunnarsdóttur, kt. 240751-4619, báðum til heimilis að Sogavegi 164, Reykjavík.

         Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að viðurkennt verði með dómi, að ekki hafi komizt á kaupsamningur milli stefnanda og stefndu þann 12. júlí 2001 um Akralind 9, Kópavogi, en til vara, að viðurkennd verði með dómi riftun á kaupsamningi milli stefnanda og stefndu, dags. 12. júlí 2001, um kaup stefndu á Akralind 9, Kópavogi. Þá er þess krafizt, að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins.

         Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara er þess krafizt, að synjað verði kröfu stefnanda um viðurkenningu á, að ekki hafi komizt á kaupsamningur milli málsaðila 12. júlí 2001 um fasteignina Akralind 9, Kópavogi.  Með sama hætti er krafizt sýknu af varakröfu stefnanda um, að viðurkennd verði með dómi riftun á kaupsamningi á milli málsaðila, dags. 12. júlí 2001, um kaup stefndu á Akralind 9 í Kópavogi.  Málskostnaðar er í öllum tilvikum krafizt úr hendi stefnanda, stefndu að skaðlausu, samkvæmt síðar framlögðum reikningi.

II.

Málavextir:

Stefnandi skýrir svo frá málavöxtum í stefnu, að með kaupsamningi, dags. 12. júlí 2001, hafi hann selt stefndu fasteignir að Akralind 9, Kópavogi. Um hafi verið að ræða 180 fm iðnaðarhúsnæði, fast. nr. 224-8903, ehl. 010102, ásamt 118,3 fm iðnaðarhúsnæði, fast. nr. 223-7077, ehl. 010101.  Báðar fasteignirnar hafi verið á 1. hæð í húseigninni Akralind 9, Kópavogi.  Kaupverð framangreindra fasteigna hafi verið kr. 29.300.000 og hafi stefnda borið að greiða það annars vegar við undirritun kaupsamnings með útgáfu afsals að sólbaðsstofunni Sól og sæla, Fjarðargötu 11, Hafnarfirði, og hins vegar með því að yfirtaka nánar tilgreindar áhvílandi veðskuldir á Akralind 9, Kópavogi.  Samkvæmt samningi aðila hafi sólbaðs­stofan verið metin sem greiðsla að fjárhæð kr. 8.778.659, en um hana hafi verið gerður sérstakur samningur.  Yfirtaka áhvílandi veðskulda­bréfa hafi verið metin sem greiðsla að fjárhæð kr. 20.521.341.  Af hálfu stefnanda hafi verið ritað undir samninginn í tvennu lagi.  Fyrst hafi Jón Haukur Ingvason, stjórnarmaður, ritað undir samninginn, en síðar Hallgrímur Ólafsson eftir umboði frá Ingva Jóni Einarssyni, stjórnar­formanni.  Vegna síðastnefndu greiðslunnar hafi Hallgrímur Ólafsson gert, með samþykki stefndu, svohljóðandi fyrirvara við gildi samningsins:

"Kaupsamningur þessi er gerður með þeim fyrirvara að veðeigandi samþykki skuld­skeytingu."

         Veðeigandi samkvæmt veðbókarvottorði hafi verið Íslandsbanki hf.  Þegar ritað var undir annars vegar kaupsamning að fasteignunum að Akralind 9, Kópavogi, og hins vegar þegar afsalið fyrir sólbaðsstofunni Sól og Sælu var gefið út, hafi ekki legið fyrir samþykki Íslandsbanka hf.  Þegar leitað hafi verið eftir samþykki Íslandsbanka hf. hafi komið í ljós, að hann samþykkti ekki stefndu sem nýja skuldara samkvæmt veðskuldabréfunum.  Hafi stefnanda verið tilkynnt um ákvörðun bankans með bréfi, dags. 1. nóvember 2001.  Í kjölfar þess hafi stefnandi ítrekað reynt að hafa samband við stefndu og reynt að komast að samkomulagi, með hvaða hætti kaupin gengju til baka.  Tilraunir stefnanda til að ná sambandi við stefndu hafi reynzt árangurslausar.  Að lokum hafi hann ekki séð aðra kosti í stöðunni en að leita sér lögmannsaðstoðar og hafi lögmaður stefnanda ritað bréf til stefnda í kjölfar þess, þar sem þess var krafizt, að stefndu afhentu stefnanda fasteignirnar að Akralind 9, Kópavogi, gegn því að hann afhenti þeim umráð sólbaðsstofunnar Sól og sæla, Fjarðargötu 11, Hafnarfirði.

         Stefndu hafi ekki sinnt framangreindri áskorun stefnanda.  Af þeim sökum hafi stefnandi gripið til þess ráðs að krefjast með beinni aðfarargerð, að stefndu yrðu borin út úr fasteigninni að Akralind 9, Kópavogi.  Samkvæmt úrskurði héraðs­dóms Reykjaness, uppkveðnum þann 1. febrúar 2002, hafi kröfu stefnanda verið hafnað. Þeim úrskurði hafi stefnandi skotið til Hæstaréttar Íslands, en samkvæmt dómi hans hafi ekki verið fallizt á kröfu stefnanda, og hafi úrskurður héraðsdóms verið staðfestur.

         Þann 7. maí 2002 hafi stefnandi látið birta fyrir stefndu áskorun um, að þau yfirtækju veðskuldir samkvæmt kaupsamningi milli aðila um fasteignina Akralind 9, Kópavogi, frá og með afhendingu hins selda húsnæðis og kæmu þeim í skil, ellegar að þau greiddu þær upp miðað við sömu dagsetningu.  Stefndu hafi sem fyrr haft áskoranir stefnanda að engu, og hafi honum því verið nauðugur sá kostur að lýsa þann 15. maí 2002, formlega yfir riftun á ofangreindum kaupsamningi milli aðila.

         Stefndu hafi mótmælt riftunaryfirlýsingu stefnanda með bréfi, dags. 15. maí 2002, og bréfi, dags. 3. júní 2002.

         Af framangreindu sé ljóst, að stefnandi hafi ítrekað skorað á stefndu að afhenda fasteign hans að Akralind 9, Kópavogi, en þau hafa ekki sinnt áskorunum hans.  Af því leiði, að stefnanda sé nauðugur einn kostur að höfða almennt einkamál til staðfest­ingar á rétti sínum.

 

Stefndi lýsir málavöxtum svo, að hluti fasteignarinnar, Akrasel 9 í Kópavogi, hafi verið boðinn til sölu hjá fasteignasölunni Lyngvík.        Fasteignasali hafi verið Sigrún  Gissurardóttir.

         Á fasteignasölunni hafi legið frammi söluyfirlit um fasteignirnar 010101 og 010102.  Starfsmaður fasteignasölunnar hafi tilkynnt stefndu, að stefnandi væri reiðubúinn að selja eignirnar og taka sem kaupsamnings­greiðslu fyrirtæki stefndu, sólbaðsstofuna Sól og Sælu, er þau ráku í leiguhúsnæði að Tjarnargötu 11A (sic í grg.), Hafnarfirði.  Stefndu hafi gert formlegt kauptilboð í eignina 2. júlí 2001, sem samþykkt hafi verið samdægurs. Í tilboðinu hafi verið fyrirvari af hálfu stefndu.  Kaupsamningur hafi verið gerður 12. júlí 2001 og undirritaður af stefndu og stjórnarmanni í stefnanda.  Þennan kaupsamning hafi stefnandi ekki lagt fram.  Við undirritun kaupsamnings hafi stefnandi tekið kaupsamnings­greiðsluna undir sig, sem metin hafi verið á kr. 8.778.659, og hafi nýtt sér síðan.  Stefndu hafi skuldbundið sig gagnvart stefnanda til að greiða sem þeirra skuld veðskuldir á 1. og 2. veðrétti áhvílandi á eignunum, þ.e. skuld við Íslandsbanka hf., útg. 10.09. 1999.  Af þessum lánum hafi stefndu greitt fram eftir hausti 2001.

         Samkvæmt samningi hafi stefndu átt að fá afsal fyrir hinum seldu eignum 15. ágúst 2001, og hafi stefnandi átt að hafa leyst af eigninni veðbönd, kaupendum óviðkomandi, fyrir þann tíma.  Af hálfu stefnanda hafi samningur verið undirritaður af öðrum stjórnarmanna í stefnanda, þeim sem hafði samþykkt kauptilboðið, og hafi hann verið tilgreindur sem umboðsmaður eiganda í söluyfirliti.  Af hálfu hins fyrirsvarsmanns stefnanda hafi samningurinn síðar verið undirritaður e.u. af Hallgrími Ólafssyni, og hafi samningurinn þar með verið fullgerður.  Af hálfu Hallgríms hafi verið innfærður fyrirvari um samþykki veðeiganda fyrir skuldskeytingu.  Fyrirvari, sem ekki hafi verið til umræðu fyrir kaupin.  Þessi fyrirvari sé marklaus að efni til og skapi stefnanda engan rétt.  Enginn fyrirvari hafi verið settur fyrir kaupin.  Vottorð fasteignasala sé rangt og ósatt og sett fram gegn betri vitund.  Stefnandi hafi ekki getað leyst hinar seldu eignir úr veðböndum og þar með efnt samningsskyldur sínar fyrr en í september sl.

         Misskilnings gæti í málatilbúnaði stefnanda. Samkvæmt fyrirliggjandi þinglýsingar­vottorðum sé Karri ehf. þinglýstur veðeigandi, en Íslandsbanki h.f. veðhafi.  Stefnandi hafi boðið eignina fala með áhvílandi veðskuldum. Með þeim hætti hafi stefnandi skuldbundið sig til að tryggja stefndu yfirtökuheimild, ella að öðrum kosti að greiða sjálfur upp veðskuldir og lána stefndu sambærilega fjárhæð með sömu kjörum, ef hann vildi losna undan skuldbindingum veðskuldanna.

         Stefndu hafi reynt, umfram skyldu, að beiðni stefnanda, að fá yfirtökuheimild hjá Íslandsbanka hf. án þess að það gengi eftir, en í ljós hafi komið, að stefnandi hafi ekki sjálfur verið útgefandi skuldabréfanna, heldur stjórnarformaður stefnanda persónulega.  Yfirlýsingu á dskj. nr. 5 hafi ekki verið beint til stefndu.  Stefnandi hafi reynt að fá umráð eignarinnar með aðför, en því hafi verið hafnað, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands.  Í því máli hafi hann haft uppi kröfur á þeim grundvelli, að með málsaðilum hafi verið gildur skuldbindandi kaup­samningur.

III.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir kröfur sínar á því aðallega, að samningur milli hans og stefndu hafi ekki komist á, vegna þess að fyrirvarar í kaupsamningi aðila, dags. 12. júlí 2001, um að stefndu skyldu yfirtaka nánar tilgreindar veðskuldir, og að skilyrði fyrir gildi kaup­samningsins, um að veðhafi samþykkti skuldskeytingu, hafi hvorugu verið fullnægt, sbr. dskj. nr. 3.  Skuldskeyting geti ekki átt sér stað, nema með samþykki veðhafa, sbr. 20. gr. laga nr. 75 frá 1997 um samningsveð.  Samningur aðila öðlist ekki gildi, fyrr en hann hafði verið efndur samkvæmt efni sínu af hálfu beggja aðila.  Stefnandi hafi innt sína greiðslu af hendi samkvæmt áðurnefndum kaupsamningi.  Stefndu hafi aftur á móti ekki getað innt sína greiðslu af hendi, þar sem veðhafi í Akralind 9, Kópavogi, hafi ekki samþykkt þau sem nýja skuldara, og af þeirri ástæðu liggi fyrir vanefnd af hálfu stefndu.  Þar sem stefndu hafi ekki getað fullnægt fyrirvara og skilyrði, sem finna megi í samningi aðila, verði að telja, að hann hafi aldrei öðlazt gildi.  Af þessu leiði að stefndu hafi vanefnt samninginn verulega, og sé stefnandi því ekki bundinn af honum, enda verði það að teljast forsenda fyrir efndaskyldu hans, að stefndu efni sinn hluta samningsins.  Það hafi stefndu ekki gert, og eigi stefndi af þeim sökum rétt á, að greiðslur gangi til baka að öllu leyti, og að aðilar samningsins verði eins settir og samningurinn hefði aldrei verið gerður.

         Verði ekki fallizt á framangreint, byggir stefnandi málatilbúnað sinn á því, að hann sé óbundinn af nefndum samningi aðila á grundvelli forsendubrests.  Eins og fram komi í yfirlýsingu þess fasteignasala, sem annaðist samning aðila, dags. 22. janúar 2002, sbr. dskj. nr. 7, hafi það verið forsenda af hálfu stefnanda fyrir kaupunum, að Íslandsbanki hf. samþykkti stefndu sem nýja skuldara að tveimur veðskuldabréfum, sem hvíldu á Akralind 9.  Samkvæmt bréfi Íslandsbanka, sbr. dskj. nr. 5, sem var veðhafi, hafi skuldskeytingu verið hafnað og því brostin forsenda fyrir kaupsamningi aðila af seljanda hálfu og samningurinn því ekki skuldbindandi fyrir hann.

         Varakröfu sína byggir stefnandi á því, að honum hafi verið heimilt að rifta kaupsamn­ingi aðila, dags. 12. júlí 2001, um fasteignina Akralind 9, Kópavogi, sbr. dskj. nr. 3, vegna verulegra vanefnda stefndu á efndum samningsins.  Í málinu liggi fyrir, að gegn afhendingu Akralindar 9, Kópavogi, hafi stefndu borið að inna af hendi eftirtaldar greiðslur:

        

         Útgáfa afsals að sólbaðsstofunni Sól og Sæla                                      kr.   8.778.659

         Yfirtaka skulda skv. tveimur veðskuldabréfum                                      kr. 20.521.341

         Samtals                                                                                                         kr. 29.300.000

         Af framansögðu sé ljóst, að stefndu hafi ekki innt síðari greiðsluna af hendi, eins og samið var um, þ.e. yfirtekið þær veðskuldir, sem hvíldu á Akralind 9, Kópavogi. Stefndu hafi því vanefnt kaupsamning aðila verulega, og hafi stefnanda því verið heimilt að rifta samningi þeirra í milli, sbr. bréf, dags. 15. maí 2002, sbr. dskj. nr. 13 og 14.

Málsástæður stefnda:

Aðalkrafa stefnda er sú, að málinu verði vísað frá dómi, og er einungis sá þáttur þess hér til úrlausnar.

         Frávísunarkröfu sína byggir stefndi á því, að málatilbúnaður stefnanda sé óskýr og ruglingslegur.  Sakarefni sé ekki nægjanlega sérgreint, og þá séu málsástæður, sem málssókn hans byggi á, og önnur atvik, sem þurfi til að greina samhengi málsástæðna, svo óljós, að ekki verði ráðið, hvert sakarefnið sé.  Stefndu sé því ókleift að hafa uppi efnisvarnir við hæfi.  Þá sé sakarefnið sett fram með þeim hætti, að vafa veki, hvort það verði borið undir dómstóla.

Sjónarmið stefnanda varðandi frávísunarkröfu stefnda:

Stefnandi krefst þess, að frávísunarkröfunni verði hafnað og stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins. 

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu stefnanda lítur stefnandi svo á, að gerður hafi verið samningur milli aðila.  Málsástæður hans í aðalkröfu byggja hins vegar á því, aðallega, að samningur hafi ekki komizt á, en til vara að samningurinn sé ekki skuldbindandi vegna brostinna forsendna.  Er málatilbúnaður stefnanda, sem að aðalkröfu lýtur, svo óljós og ruglingslegur og í innbyrðis ósamræmi, að ekki verður lagður á hana efnisdómur.  Ber því að vísa henni frá dómi með vísan til d- og e- liða 1. mgr. 80. gr. l. nr. 91/1991.

         Varakrafa stefnanda, um að viðurkennd verði með dómi riftun á kaupsamningi aðila, þykir nægilega skilgreind og er frávísunarkröfu, hvað hana varðar, hafnað.

         Eftir atvikum þykir rétt, að ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms.

         Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Aðalkröfu stefnanda, um að viðurkennt verði með dómi, að ekki hafi komizt á kaup­samningur milli stefnanda og stefndu þann 12. júlí 2001 um Akralind 9, Kópavogi, er vísað frá dómi.

         Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.