Hæstiréttur íslands
Mál nr. 105/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Útburðargerð
- Vitni
|
|
Fimmtudaginn 27. febrúar 2014. |
|
Nr. 105/2014. |
Lovísa Guðbjörg Sigurjóns (Jón Egilsson hrl.) gegn Landsbankanum hf., Bíla- og tækjafjármögnun (Ásgeir Jónsson hrl.) |
Kærumál. Útburðargerð. Vitni.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu LGS um að tveir menn gæfu skýrslu við meðferð máls L hf. á hendur henni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. febrúar 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að „starfsmaður varnaraðila“ og nafngreindur fasteignasali gæfu skýrslu við aðalmeðferð málsins. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa hennar verði tekin til greina. Þá krefst hún kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Fasteignin að Logafold 77, Reykjavík var seld varnaraðila með nauðungarsölu 6. desember 2012. Samþykkisfrestur boðs var til 20. sama mánaðar en sýslumaðurinn í Reykjavík samþykkti afnot sóknaraðila af eigninni í allt að 12 mánuði frá þeim tíma gegn því að sóknaraðili greiddi varnaraðila leigu fyrir afnotin. Uppboðsafsal til handa varnaraðila var gefið út 16. ágúst 2013, en vegna vanskila sóknaraðila á leigu lýsti varnaraðili yfir riftun á afnotum sóknaraðila af eigninni með ábyrgðarbréfi 23. sama mánaðar og krafðist þess að hún yrði rýmd. Sóknaraðili varð ekki við kröfu varnaraðila og lagði varnaraðili þá fram við héraðsdóm aðfararbeiðni og krafðist dómsúrskurðar um að sóknaraðili yrði borin út úr fasteigninni á grundvelli 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989. Í þinghaldi í því máli sem háð var 15. janúar 2014 krafðist sóknaraðili þess að „starfsmaður varnaraðila“ og nafngreindur fasteignasali gæfu skýrslu við aðalmeðferð málsins.
Eins og að framan hefur verið rakið er mál þetta rekið á grundvelli 13. kafla laga nr. 90/1989. Almennar reglur um meðferð einkamála í héraði gilda um mál samkvæmt þeim kafla laganna eftir því sem við getur átt, sbr. 1. mgr. 84. gr. þeirra, þótt skorður séu reistar við vitnaleiðslum og mats- og skoðunargerðum samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 83. gr. laganna.
Samkvæmt VIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um vitni, sem beitt verður samkvæmt framangreindu eins og hér stendur á, verður skýrlega ráðið að ónafngreint vitni verður ekki leitt fyrir dóm, enda er þá hvorki unnt að staðreyna vitnaskyldu, stöðu vitnis, tilefni þess að vitni er boðað, né önnur þau atriði sem nauðsynlegt er að liggi fyrir áður en vitni kemur fyrir dóm. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Lovísa Guðbjörg Sigurjóns, greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., Bíla- og tækjafjármögnun, 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2014.
Þessu máli var skotið til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi sem barst dóminum 4. september sl. Sóknaraðili er Landsbankinn hf., Bíla- og tækjafjármögnun, Sigtúni 42, Reykjavík, en varnaraðili er Lovísa Guðbjörg Sigurjóns, Logafold 77, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst dómsúrskurðar um að varnaraðili verði með beinni aðfarargerð borinn út úr fasteigninni Logafold 77, Reykjavík, fastanúmer 204-2704. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar auk þess sem fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.
Varnaraðili krefst þess að dómurinn fallist ekki á útburðarkröfu sóknaraðila. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Í fyrirtöku málsins 15. janúar sl. krafðist lögmaður varnaraðila þess að starfsmaður sóknaraðila gefi skýrslu við aðalmeðferð málsins, m.a. vegna tilurðar kröfu og útreiknings. Þá krafðist lögmaðurinn þess að Runólfur Gunnlaugsson, fasteignasali á fasteignasölunni Höfða, gefi skýrslu í málinu sem mats- eða skoðunarmaður. Lögmaður sóknaraðila mótmælti þessari kröfu.
Lögmenn aðila tjáðu sig stuttlega um kröfur sínar í þinghaldinu og málið var að því loknu tekið til úrskurðar um þennan þátt málsins.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Til stuðnings þeirri kröfu að starfsmaður sóknaraðila gefi skýrslu við aðalmeðferð málsins vísaði lögmaður varnaraðila til málsatvikalýsingar sinnar í greinargerð. Framkoma sóknaraðila og SP Fjármögnunar hf. í þessu máli væri ólíðandi og allir vísuðu á aðra. Varnaraðili væri í málinu gerð ábyrg fyrir skuld sem ekki sé mögulega til staðar en hún eigi fé inni hjá sóknaraðila. Réttur sóknaraðila sé óljós. Við uppgjör verði að miða við markaðsverð eignar samkvæmt 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Fasteign varnaraðila hafi verið seld fyrir 17 milljónir króna á nauðungarsölu. Að beiðni lögmanns varnaraðila hafi Runólfur Gunnlaugsson fasteignasali metið eignina og talið verðmæti hennar um 30 milljónir króna.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laga nr. 90/1991 um nauðunarsölu njóti gerðarbeiðandi við nauðungarsölu umráðaréttar yfir fasteign frá samþykki uppboðs. Uppboðsskilmálum í þessu máli hafi verið breytt þannig að varnaraðili mætti halda umráðarétti umræddrar fasteignar gegn greiðslu leigu. Leiga hafi verið í vanskilum síðan í apríl 2012. Varnaraðili byggi á því að uppgjör hafi ekki farið fram. Ekkert mál hafi verið borið undir dóminn um gildi uppboðs á fasteigninni. Frumvarpi til úthlutunar söluverðs hafi ekki verið mótmælt. Afsal hafi verið gefið út til sóknaraðila. Samkvæmt 3. mgr. 55. gr. laga nr. 90/1991 geti gerðarþoli við nauðungarsölu krafist þess að leyst verði úr því með úrskurði undir rekstri máls sem rekið er um gildi nauðungarsölu eftir ákvæðum XIV. kafla laganna, hvort honum eða öðrum umráðamanni verði vikið af eigninni fyrr en lyktir málsins séu fengnar. Málsástæður varnaraðila varði allar uppgjör fjárkröfu sóknaraðila en slík mál séu rekin samkvæmt XIII. kafla sömu laga. Varnaraðila sé mögulegt að reka skaðabótamál á hendur sóknaraðila. Samkvæmt 1. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 um aðför komist vitnaleiðslur ekki að í aðfararmálum. Réttur sóknaraðila sé skýr og vitnaleiðslur séu óþarfar.
Niðurstaða
Í úrskurði dómara um hvort bein aðfarargerð samkvæmt 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför fái fram að fara skal leysa úr ágreiningi um umráðarétt. Ekki verður í slíkum máli tekin afstaða til réttarsambands aðila að öðru leyti.
Samkvæmt 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 gilda almennar reglur um meðferð einkamála í héraði um mál samkvæmt 13. kafla laganna, eftir því sem við geti átt. Varnaraðili krefst þess að starfsmaður sóknaraðila gefi skýrslu við aðalmeðferð málsins, m.a. vegna tilurðar kröfu og útreiknings, en tilgreinir ekki hvaða starfsmann hún vilji leiða fyrir dóminn. Aðili máls sem vill leiða vitni verður að tilgreina það vitni sem óskað er eftir að leiða, sbr. 2. og 3. mgr. 54. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þegar af þessari ástæðu verður að hafna kröfu varnaraðila um að ótilgreindur starfsmaður sóknaraðila gefi skýrslu við aðalmeðferð málsins.
Runólfur Gunnlaugsson hefur ekki verið dómkvaddur sem matsmaður og getur hann því eingöngu gefið skýrslu í þessu máli sem vitni. Engin mats- eða skoðunargerð Runólfs liggur fyrir í þessu máli, eingöngu svar hans 5. desember 2013 við tölvuskeyti lögmanns varnaraðila sama dag, þar sem lögmaðurinn óskaði eftir áliti á verði umræddrar fasteignar. Augljóst er af tölvuskeytinu að Runólfur hefur ekki skoðað umrædda fasteign. Verður því ekki séð að hann geti borið vitni um málsatvik, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991. Er skýrslutaka af Runólfi því bersýnilega tilgangslaus til sönnunar um verðmæti fasteignar varnaraðila, sbr. 3. mgr. 46. gr. sömu laga. Verður því einnig að hafna kröfu varnaraðila um að Runólfur gefi skýrslu við aðalmeðferð málsins.
Málskostnaðar var ekki krafist í þessum þætti málsins.
Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu varnaraðila, Lovísu Guðbjargar Sigurjóns, um að starfsmaður sóknaraðila, Landsbankans hf., bíla- og tækjafjármögnunar, og Runólfur Gunnlaugsson fasteignasali gefi skýrslu við aðalmeðferð þessa máls, er hafnað.