Hæstiréttur íslands
Mál nr. 529/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 19. og 25. júlí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júlí 2016, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að beiðni varnaraðila verði hafnað. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 22. júlí 2016. Hann krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og málskostnaðar í héraði, auk kærumálskostnaðar.
I
Varnaraðili höfðaði í júní og júlí 2015 mál á hendur sóknaraðilum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem hann hafði uppi kröfur vegna sölu á dótturfélagi sóknaraðilans LS Retail Holding ehf., sem samþykkt var af sóknaraðilanum ALMC hf. gegn mótmælum varnaraðila. Með úrskurði héraðsdóms 16. mars 2016 var málinu vísað frá dómi með þeim rökum að það ætti undir gerðardóm samkvæmt ákvæðum í hluthafasamkomulagi og kaupréttasamningi. Varnaraðili kærði úrskurðinn til Hæstaréttar, sem staðfesti hann með dómi 6. maí 2016 í máli nr. 247/2016. Í framhaldi af því var skipaður gerðarmaður 23. júní sama ár til að fara með málið.
Í matsbeiðni varnaraðila 31. maí 2016, sem lögð var fram í þinghaldi 13. júní sama ár, var um lagaheimild til dómkvaðningar matsmanna vísað til 61. gr. laga nr. 91/1991 og um tilgang mats sagði að því væri ætlað að vera sönnunargagn fyrir gerðardómi, en jafnframt sönnunargagn „í staðfestingarmálum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna þriggja kyrrsetningargerða, sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu framkvæmdi þann 7. september 2015.“
II
Eins og áður segir vísaði varnaraðili um lagastoð fyrir matsbeiðni sinni til 61. gr. í IX. kafla laga nr. 91/1991, en samkvæmt þeirri grein skal matsbeiðni beint til þess dómara sem fer með mál eftir að það hefur verið höfðað. Þar sem málinu hafði verið vísað frá héraðsdómi samkvæmt framansögðu sótti matsbeiðnin ekki stoð í áðurnefnt lagaákvæði.
Í 1. mgr. 77. gr. XII. kafla laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um heimild aðila til þess að beiðast dómkvaðningar matsmanns þótt hann hafi ekki haft uppi kröfu vegna matsatriðis í dómsmáli ef það er gert til að staðreyna kröfu eða sanna atvik að baki henni. Skal þá aðili, sem leita vill sönnunar eftir 77. gr., beina skriflegri beiðni um það til dómara í þinghá þar sem mætti höfða mál um kröfu hans, sýnilegt sönnunargagn er að finna eða hlutur er niður kominn sem matsgerð varðar, sbr. 1. mgr. 78. gr. Svo sem áður greinir var máli aðila vísað frá héraðsdómi með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 6. maí 2016, þar sem málsmeðferð ætti undir gerðardóm. Lá því ljóst fyrir við framlagningu matsbeiðninnar 13. júní 2016 í Héraðsdómi Reykjavíkur að málið yrði ekki rekið þar fyrir dómi. Af þeim sökum brast lagaskilyrði til að taka afstöðu til hennar fyrir dóminum eftir XII. kafla laga nr. 91/1991.
Mælt er fyrir um öflun sönnunargagna fyrir öðrum dómi í XI. kafla laga nr. 91/1991. Segir í 1. mgr. 73. gr. að óski aðili að fá matsmann kvaddan skuli hann leggja skriflega beiðni um það fyrir dómara í málinu. Samkvæmt fyrri málslið 2. mgr. 73. gr. skal beiðni eftir 1. mgr. tekin fyrir í þinghaldi í málinu og eftir 2. málslið 2. mgr. getur dómari sett það skilyrði fyrir að sinna beiðni að aðili greiði fyrir fram kostnað eða setji tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar af málaleitan sinni. Þá segir í fyrri málslið 3. mgr. 73. gr. að telji dómi skilyrðum 1. mgr. 47. gr. fullnægt til að verða við beiðni bóki hann ákvörðun sína um það í þingbók. Eftir 2. málslið 3. mgr. 73. gr. skal úrskurður kveðinn upp ef krafist er. Þar sem ljóst er að sá dómari, sem tók afstöðu til matsbeiðninnar, mun ekki fara með mál þetta brast lagaheimild fyrir því að dómarinn leysti úr því hvort umbeðið mat færi fram á grundvelli XI. kafla laga nr. 91/1991.
Í matsbeiðninni er að auki vísað til þess að mati samkvæmt henni sé ætlað að vera sönnunargagn í ótilgreindum staðfestingarmálum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna þriggja kyrrsetningargerða Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 7. september 2015. Skilja verður matsbeiðnina á þann veg að mál þessi hafi þegar verið höfðuð, en af því leiðir að beiðni um dómkvaðningu ber eftir atvikum að beina til dómara í þeim málum samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991. Samkvæmt öllu framansögðu verður hafnað kröfu varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins í héraði, en um kærumálskostnað fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hafnað er beiðni varnaraðila, Vita ehf., um dómkvaðningu matsmanna.
Varnaraðili, Viti ehf., greiði sóknaraðilum, ALMC hf. og LS Retail Holding ehf., hvorum um sig, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júlí 2016
Með beiðni dags. 31. maí 2016 krafðist Viti ehf., Fornubúðum 12, Hafnarfirði, þess að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að svara þessum spurningum:
1. Hvert var markaðsvirði heildarhlutafjár LS Retail ehf. á alþjóðlegum markaði á þeim tíma sem viðskiptin fóru fram þann 27. apríl 2015?
2. Var það verð sem greitt var fyrir LS Retail ehf. í samræmi við markaðsvirði hlutafjár LS Retail ehf. á alþjóðlegum markaði á þeim tíma sem viðskiptin fóru fram þann 27. apríl 2015?
3. Hversu söluvænlegt var LS Retail ehf. á alþjóðlegum markaði þann 27. apríl 2015 og hvert var vænt söluandvirði alls hlutafjár í LS Retail ehf. þann 27. apríl 2015 miðað við að ekki hafi verið tímapressa á söluferlinu, þ.e. ekki sé gert ráð fyrir afslætti af söluverði til að flýta fyrir sölu.
4. Hvert var virði hlutafjár í LS Retail Holding ehf. kt. 470610-0770, þann 27. apríl 2015, að teknu tilliti til niðurstöðu matsmanna í lið 1 – 3 áður en hluthafafundur tók ákvörðun um sölu LS Retail ehf. til Anchorage Capital?
Matsþolar eru ALMC hf. og LS Retail Holding ehf., báðir með starfsstöð að Borgartúni 25, Reykjavík. Þeir krefjast þess að beiðni um dómkvaðningu matsmanna verði hafnað. Þeir krefjast einnig málskostnaðar.
Í matsbeiðni segir að matsþoli ALMC hafi eignast LS Retail á árinu 2009. Um eignarhaldið hafi verið stofnað félagið LS Retail Holding og hafi starfsmönnum verið veittur kaupréttur í því félagi. Markmið eignarhaldsfélagsins hafi verið að gera sem mest úr dótturfélaginu og selja það síðan. Eignarhaldsfélaginu yrði þá slitið. Matsbeiðandi eigi 6,9% hlutafjár í eignarhaldsfélaginu.
Matsbeiðandi segir að tilgangur matsgerðar sé að meta hvert raunverulegt virði umrædds félags hafi verið þegar það var selt. Um sé að ræða einu eign matsþola LS Retail Holding. Salan hafi verið ákveðin á hluthafafundi með atkvæðum matsþola ALMC, gegn atkvæðum matsbeiðanda. Matsbeiðandi kveðst munu leggja matsgerðina fram fyrir gerðardómi þar sem hann muni hafa uppi kröfur m.a. um ógildingu og breytingu á ákvörðun hluthafafundarins um sölu á félaginu, til vara ógildingu á ákvörðuninni. Þá muni verða hafðar upp kröfur um skaðabætur og innlausn, verði ekki fallist á aðal- eða varakröfu. Fyrir gerðardóminum muni reyna á ákvæði laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og hvort matsþoli ALMC hafi með sölunni aflað sér ótilhlýðilegs ávinnings á kostnað matsþola LS Retail Holding.
Matið muni einnig verða sönnunargagn í staðfestingarmálum sem höfðuð hafi verið vegna þriggja kyrrsetningargerða, þar sem kyrrsettar hafi verið eignir matsþola LS Retail Holding og annarra aðila. Kyrrsettir hafi verið fjármunir að verðmæti 14.477.112 evrur.
Sjónarmið matsþola ALMC hf.
Matsþoli kveðst mótmæla öllum málatilbúnaði sóknaraðila, en segir ekki tímabært að rekja einstök atriði á þessu stigi.
Matsþoli segir að matsefnin séu vart tæk til mats. Ekki sé ljóst hvað átt sé við þegar talað sé um verð á alþjóðlegum markaði. Þá sé hugtakið söluvænleiki óljóst. Þá segir hann sérkennilegt að gera mun á því hvort viðskiptin hafi farið fram fyrir eða eftir hluthafafundinn þar sem salan hafi verið ráðin.
Þessi ómarkvissa framsetning á matsbeiðni leiði til þess að lágmarkskröfum um skýrleika sé ekki fullnægt. Þá varði hún atriði sem dómari eigi að meta. Loks sé óskað mats á atriðum sem teljist þýðingarlaus til sönnunar.
Matsþoli segir að 61. gr. laga nr. 91/1991 geti ekki átt við. Dómsmál hafi ekki verið höfðað og því sé ekki leitað til þess dómara sem fari með mál um ágreiningsefnið. Beðið sé um að dómari sem mun ekki fjalla um efnislegan ágreining aðila dómkveðji matsmenn. Telur matsþoli að 1. mgr. 47. gr. laga nr. 91/1991 komi í veg fyrir að hann úrskurði um ágreininginn.
Þá vísar matsþoli til þess að leyst skuli úr ágreiningi aðila fyrir gerðardómi. Allar ákvarðanir um málsmeðferð fyrir gerðardóminum heyri undir hann. Þar sem gerðarmaður hafi verið skipaður verði hann að fjalla um matsbeiðnina. Áður en gerðardómurinn hafi fjallað um málefnið geti matsbeiðandi ekki átt lögvarða hagsmuni af því að héraðsdómur dómkveðji matsmenn. Enginn geti átt lögvarða hagsmuni til málsmeðferðar sem sé andstæð lögum, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 53/1989.
Loks gerir matsþoli athugasemd við að matsbeiðandi segist afla matsgerðar vegna dómsmála sem hann eigi ekki aðild að, svo og mála sem matsþoli eigi enga aðild að. Telur hann þetta ekki getað staðist.
Sjónarmið matsþola LS Retail Holding ehf.
Matsþoli LS Retail Holding byggir á því að efniskröfur sóknaraðila muni fá efnislega meðferð fyrir gerðardómi. Gerðardómurinn ákveði sjálfur málsmeðferð að því leyti sem ekki sé fjallað um hana í gerðarsamningi. Því sé það hlutverk gerðarmanns að ákveða með hvaða hætti sönnunarfærsla fari fram. Matsgerð sem aflað væri á þessu stigi bryti því gegn málsmeðferðarreglum og væri auk þess, þegar af þeirri ástæðu, bersýnilega tilgangslaus.
Matsþoli byggir á því að reglan um milliliðalausa málsmeðferð og sönnunarfærslu leiði til þess að sönnunarfærslan verði að fara fram fyrir gerðardóminum. Að minnsta kosti verði gerðardómurinn að samþykkja sönnunarfærsluna. Þar sem matsgerðin yrði ekki tæk sem sönnunargagn fyrir gerðardóminum sé dómkvaðning matsmanna bersýnilega þýðingarlaus.
Matsþoli bendir á að matsbeiðandi hyggist nota matsgerð sem sönnunargagn fyrir gerðardómi. Þetta brjóti í bága við 2. mgr. 7. gr. laga nr. 53/1989, gerðardómurinn eigi sjálfur að ákveða málsmeðferð. Þá segi matsbeiðandi að matsgerðin eigi einnig að vera sönnunargagn í málum um staðfestingu þriggja kyrrsetningargerða. Það geti ekki staðist þar sem engar efniskröfur séu til úrlausnar í þeim dómsmálum. Efniskröfur málsins verði ekki hafðar uppi fyrir almennum dómstólum. Því yrði matsgerð samkvæmt beiðni matsbeiðanda þýðingarlaus, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.
Matsþoli byggir á því að óheimilt sé að nýta matsgerð úr einu dómsmáli til sönnunar í öðru máli.
Matsþoli segir að 61. gr. laga nr. 19/1991, sem matsbeiðandi vísi til, geti ekki verið heimild fyrir beiðni hans. Hann hafi ekki höfðað mál fyrir dóminum. Þá sé óljóst hvernig matsbeiðandi telji sig geta óskað eftir dómkvaðningu sjálfstætt á sama tíma og hann vísi til 61. gr. Kveðst matsþoli mótmæla þessum tilraunum matsbeiðanda til að sveigja réttarfarsreglur.
Loks mótmælir matsþoli orðalagi matsspurninga, það sé bæði óljóst og villandi. Þá séu spurningarnar endurtekning hver á annarri.
Niðurstaða
Matsbeiðandi hyggst með matsgerð tryggja sér sönnun um að ráðstöfun sem matsþoli ALMC stóð að hafi skert réttindi hans með óréttmætum hætti og þannig að matsþoli hagnaðist. Fjallað verður um ágreining aðila vegna hinnar umdeildu ráðstöfunar og kröfur vegna hennar fyrir gerðardómi, sem nú hefur verið skipaður.
Í lögum um samningsbundna gerðardóma nr. 53/1989 er ekki að finna ítarlegar reglur um sönnunarfærslu. Þar er ekki vikið sérstaklega að matsgerðum og gerðardómi er ekki veitt vald til að skylda menn til að vinna matsgerð. Þá eru ekki í lögunum fyrirmæli um hvernig sönnunargagna verði aflað og í gerðarsamningi aðila eru heldur engin slík fyrirmæli. Af þessu verður það ráðið að matsgerð sem unnin yrði samkvæmt þeirri beiðni sem hér er til úrlausnar yrði tækt sönnunargagn fyrir gerðardóminum, sem yrði að meta sönnunargildi hennar. Matsgerðin yrði því ekki augljóslega þýðingarlaus. Gerðardómsmeðferðin útilokar ekki að matsgerðar sé aflað með dómkvaðningu matsmanna hjá almennum dómstólum eftir reglum laga nr. 91/1991.
Matsbeiðandi ber hallann af því ef matsspurningar hans eru óljósar og verður ekki synjað um dómkvaðningu vegna þeirra spurninga sem hér um ræðir. Þá er ekki óskað mats á atriðum sem gerðardóminum er einum ætlað að leysa úr.
Andmælum matsþola við matsbeiðni verður hafnað. Ber að dómkveðja matsmenn í samræmi við beiðni matsbeiðanda. Matsbeiðandi krefst ekki málskostnaðar í þessum þætti og fellur hann því niður.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Dómkveðja skal matsmenn í samræmi við framangreinda beiðni Vita ehf.