Hæstiréttur íslands

Mál nr. 270/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni
  • Matsmenn
  • Læknaráð


Þriðjudaginn 3

 

Þriðjudaginn 3. september 2002.

Nr. 270/2002.

Jórunn Anna Sigurðardóttir

(Róbert Árni Hreiðarsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Kærumál. Vitni. Matsmenn. Læknaráð.

J höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu til heimtu skaðabóta vegna tjóns, sem hún kvaðst hafa orðið fyrir vegna mistaka við læknisaðgerð. Með úrskurði lagði héraðsdómari fyrir læknaráð tíu nánar tilgreindar spurningar varðandi aðdraganda aðgerðarinnar, aðgerðina sjálfa, eftirmeðferð og mat á örorku J. Þegar umsögn læknaráðs hafði verið lögð fram krafðist J þess að G, prófessor, sem var einn þriggja lækna, sem stóð að umsögn læknaráðs kæmi fyrir dóm til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins. Héraðsdómari hafnaði kröfu J. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að hlutverki læknaráðs verði jafnað til þess, sem matsmaður hefði annars með höndum eftir almennum reglum IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. að nokkru 3. mgr. 60. gr. þeirra laga. Að því leyti, sem lög mæli ekki á annan veg, séu ekki efni til annars en að beita þeim almennu reglum um þá menn, sem standi að umsögn læknaráðs. Matsmanni beri samkvæmt 65. gr. laga nr. 91/1991 að koma fyrir dóm samkvæmt kröfu málsaðila til að gefa skýrslu til skýringar á matsgerð og um atriði, sem tengjast henni, en um þá skýrslugjöf gildi reglur um vitni í VIII. kafla sömu laga eftir því, sem þær geta átt við. Í lögum nr. 14/1942 um læknaráð séu engin fyrirmæli um að menn, sem sæti eiga í læknaráði, séu lausir undan slíkri skyldu til að koma fyrir dóm. Var því fallist á kröfu J.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júní 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Gunnlaugur Geirsson prófessor verði kvaddur fyrir dóm sem vitni í máli hennar á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrnefndum manni verði gert að koma fyrir dóm til skýrslugjafar í málinu. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Sóknaraðili rekur fyrir héraðsdómi mál á hendur varnaraðila til heimtu skaðabóta vegna tjóns, sem hún kveðst hafa orðið fyrir vegna mistaka við læknisaðgerð. Með úrskurði 3. apríl 2001 lagði héraðsdómari fyrir læknaráð tíu nánar tilgreindar spurningar varðandi aðdraganda aðgerðarinnar, aðgerðina sjálfa, eftirmeðferð og mat á örorku sóknaraðila. Umsögn læknaráðs um þetta efni frá 18. desember 2001 var lögð fram á dómþingi 11. janúar sl. Í þinghaldi 19. mars 2002 var því lýst yfir af hálfu sóknaraðila að hún hygðist kveðja fyrir dóm til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins þrjá nafngreinda lækna, sem stóðu að umsögn læknaráðs, þar með talinn Gunnlaug Geirsson prófessor, svo og landlækni. Hefði hún hug á að leita svara þessara manna um efni umsagnarinnar og meðferð málsins fyrir læknaráði. Varnaraðili lét þá í ljós það álit að með vísan til 1. mgr. 51. gr. og 5. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991 væru engin efni til að þessir menn yrðu kvaddir fyrir dóm, en til þess yrði héraðsdómari að taka afstöðu af sjálfsdáðum. Þegar málið var tekið næst fyrir 8. apríl 2002 greindi héraðsdómari frá þeirri afstöðu sinni að hann myndi ekki hafna af sjálfsdáðum að umbeðnar skýrslur yrðu teknar. Var ákveðið að málið kæmi til aðalmeðferðar 28. maí 2002. Í þinghaldi þann dag var lagt fram bréf Gunnlaugs Geirssonar frá 22. sama mánaðar, þar sem hann hafnaði að koma fyrir dóm á grundvelli ákvæðis 5. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991. Krafðist sóknaraðili þess að aðalmeðferð yrði frestað, svo og að leyst yrði úr því með úrskurði hvort Gunnlaugi Geirssyni væri skylt að gefa skýrslu í málinu. Með hinum kærða úrskurði hafnaði héraðsdómari því að honum yrði gert að koma fyrir dóm.

Samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1942 um læknaráð lætur það meðal annars dómstólum í té umsögn um læknisfræðileg efni ef leitað er eftir því með úrskurði dómara. Í þessu tilliti verður hlutverki læknaráðs jafnað til þess, sem matsmaður hefði annars með höndum eftir almennum reglum IX. kafla laga nr. 91/1991, sbr. að nokkru 3. mgr. 60. gr. þeirra laga. Að því leyti, sem lög mæla ekki á annan veg, eru ekki efni til annars en að beita þeim almennu reglum um þá menn, sem standa að umsögn læknaráðs. Matsmanni ber samkvæmt 65. gr. laga nr. 91/1991 að koma fyrir dóm samkvæmt kröfu málsaðila til að gefa skýrslu til skýringar á matsgerð og um atriði, sem tengjast henni, en um þá skýrslugjöf gilda reglur um vitni í VIII. kafla sömu laga eftir því, sem þær geta átt við. Í lögum nr. 14/1942 eru engin fyrirmæli um að menn, sem sæti eiga í læknaráði, séu lausir undan slíkri skyldu til að koma fyrir dóm. Samkvæmt þessu verður að fallast á kröfu sóknaraðila um að Gunnlaugi Geirssyni verði gert að gefa skýrslu fyrir dómi í máli hennar gegn varnaraðila.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Gunnlaugi Geirssyni prófessor ber að koma fyrir dóm til skýrslugjafar í máli sóknaraðila, Jórunnar Önnu Sigurðardóttur, gegn varnaraðila, íslenska ríkinu.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2002.

Stefnandi, Jórunn Anna Sigurðardóttir, krefst þess að úrskurðað verði að Gunnlaugi Geirssyni prófessor sé skylt að koma fyrir dóm sem vitni í máli stefnanda gegn íslenska ríkinu.

Gunnlaugur Geirsson prófessor hefur í bréfi til réttarins andmælt því að mæta fyrir dómi og ekki sótt þing þrátt fyrir kvaðningu um að sækja þing í dag.

Af hálfu stefnanda er haldið fram að Gunnlaugi hafi verið ætlað að svara m.a. spurningum um það hvaða gögn í málinu lágu fyrir hjá læknaráði og réttarmáladeild, þegar málið var þar til umfjöllunar, og álitið ritað 18. desember 2001 og hvort hann hefði kynnt sé og metið vottorð Ólafs Péturs Jakobssonar lýtalæknis, dags. 22. ágúst 1996 og ódagsett bréf hans til lögmanns stefnanda, sbr. dskj. nr. 162.  Þá hvort hann hefði kynnt sér og metið mismunandi vottorð Gerðar Jónsdóttur, dags. 20. júlí 1994, 16. febrúar 1995, 24. júní 1997 og 15. mars 1999, bréf Ólafs Ólafssonar landlæknis til Ólafs Einarssonar læknis, dags. 2. janúar 1996 og bréf Ólafs Ólafssonar landlæknis til lögmanns stefnanda, dags. 16. september 1996.  Þá hvort hann hefði kynnt sér bæði möt Högna Óskarssonar geðlæknis, þ.e. frá 20. september 1997 og 12. desember 1997, auk bréf Högna til lögmanns stefnanda, dags. 6. mars 1998, og vottorð Arnórs Víkingssonar læknis, dags. 4. maí 2000. Þá hvort hann hefði kynnt sér álitsgerð landlæknis, dags. 9. júní 2000 og bréf hans til lögmanns stefnanda, dags. 9. október  og 13. nóvember 2000, bréf lögmannsins til landlæknis, dags. 8. júní 2000, 22. ágúst 2000, 16. október 2000 og 2. nóvember 2000. Þá hefði verið ætlað að hann rökstyddi svör við spurningum 7 til 8 í áliti læknaráðs frá 18. desember 2001.

Af hálfu stefnanda er talið að upplýsingar af þessu tagi sé Gunnlaugi skylt að veita og hafi ekki verið leiddar nægilega í ljós með áliti læknaráðs frá 18. desember 2001. Ákvæði 5. mgr. 52. gr. eml. sé ekki því til fyrirstöðu að Gunnlaugi sé skylt að svara spurningum stefnanda afþví tagi sem hér um ræðir.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að að ætlaðar spurningar stefnanda til Gunnlaugs geti ekki varðað málsatvik. Gunnlaugur hafi ekki verið vitni af þeim atvikum sem leiddu til afleiðinga brjóstminnkunaraðgerða sem stefnandi gekkst undir á Landspítalanum 23. ágúst 1991.  Atvik sem gerst hefðu varðandi málið hjá læknaráði hafi nægilega verið leidd í ljós með

áliti læknaráðs frá 18. desember 2001.

 

Niðurstaða:  Með bréfi landlæknis til dómsins 18. desember 2001 - þar semlæknaráð gaf umsögn um atriði sem Hæstiréttur hafði tilgreint í dómi sínum 29. mars 2001 að nauðsynlegt væri að fá áður en dómur gengi í héraði – telur dómurinn að læknaráð og þar með Gunnlaugur Geirsson prófessor hafi með réttum hætti sinnt embættisskyldu varðandi þetta mál. Hafnað verður því kröfu stefnanda um að Gunnlaugur beri vitni í málinu.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn ásamt meðdómsmönnunum Stefáni Einari Matthíassyni lækni og Þorvaldi Jónssyni lækni.

ÚRSKURÐARORÐ:

   Hafnað er kröfu stefnanda, Jórunnar Önnu Sigurðardóttur, um að Gunnlaugur Geirsson prófessor beri vitni í máli hennar gegn íslenska ríkinu.