Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-69
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Umhverfismat
- Stjórnvaldsákvörðun
- Stjórnsýsla
- Matsgerð
- Ómerkingarkröfu hafnað
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 24. maí 2024 leita Holt ehf. og Ljósaborg ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 26. apríl sama ár í máli nr. 70/2023: Holt ehf. og Ljósaborg ehf. gegn íslenska ríkinu, Skipulagsstofnun, Eyjafjarðarsveit og Teigi ehf. Gagnaðilar íslenska ríkið og Skipulagsstofnun leggjast ekki gegn beiðninni. Gagnaðilar Eyjafjarðarsveit og Teigur ehf. leggjast gegn henni.
3. Ágreiningur málsins snýst um hvort ógilda beri með dómi ákvörðun gagnaðila Skipulagsstofnunar 12. mars 2019 um að fyrirhuguð framkvæmd svínabús að Torfum í Eyjafjarðarsveit sé ekki líkleg til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Leyfisbeiðendur eru eigendur aðliggjandi jarða. Gagnaðili Teigur ehf. stendur að fyrirhuguðum framkvæmdum.
4. Með dómi Landsréttar var hafnað kröfu leyfisbeiðenda um ómerkingu héraðsdóms á þeim grunni að þörf hefði verið á því að sérfróður meðdómsmaður skipaði dóm í málinu og staðfesti Landsréttur héraðsdóm með vísan til forsendna hans. Í héraðsdómi var talið að gagnaðili Eyjafjarðarsveit ætti ekki aðild að málinu og var sveitarfélagið sýknað á grundvelli aðildarskorts. Héraðsdómur hafnaði því að fyrirhuguð framkvæmd félli undir 5. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sem og málsástæðum leyfisbeiðenda um að ákvörðun gagnaðila Skipulagsstofnunar á grundvelli 6. gr. sömu laga hefði verið haldin efnislegum annmörkum, þar á meðal um að brotið hefði verið gegn jafnræðisreglu. Ekki var heldur fallist á málsástæðu leyfisbeiðenda um að rökstuðningi gagnaðila Skipulagsstofnunnar hefði verið áfátt. Enn fremur hafnaði héraðsdómur því að gagnaðili Skipulagsstofnun hefði brotið gegn reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um upplýsinga- og andmælarétt og rannsóknarskyldu. Fékk dómurinn ekki séð hvaða upplýsingar hefði skort á að gagnaðili Skipulagsstofnun aflaði til þess að geta tekið efnislega rétta ákvörðun á grundvelli 1. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000. Þá taldi dómurinn að matsgerð sýndi ekki fram á að umþrættri ákvörðun væri efnislega áfátt eða að mat stofnunarinnar á hugsanlegum umhverfisáhrifum hefði verið haldið annmörkum.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að dómar Landsréttar og héraðsdóms hafi verið rangir bæði að formi og efni til auk þess sem málsmeðferðinni hafi verið stórlega ábótavant. Leyfisbeiðendur vísa einkum til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 og telja að dómari hefði átt að kveðja til sérfróðan meðdómanda til að leggja mat á sérfræðileg atriði um umhverfisáhrif fyrirhugaðs svínabús að Torfum. Leyfisbeiðendur telja að jafnframt að dómarar málsins í Landsrétti hafi verið vanhæfir þegar málflutningur og dómsuppsaga fór fram þar fyrir dómi sökum þess að héraðsdómari málsins var þá búinn að vera settur dómari við Landsrétt í hálft ár. Krafa leyfisbeiðenda um að fá niðurstöðu héraðsdóms ómerkta fól þannig í sér kröfu um að dómarar Landsréttar ómerktu dóm samstarfsmanns þeirra.
6. Um efnishlið málsins telja leyfisbeiðendur að dómur Landsréttar sé bersýnlega rangur. Til stuðnings því er vísað til þess að svínabúið muni hafa jafnmikil eða meiri umhverfisáhrif en svínabú af svokölluðum þröskuldsviðmiðunarstærðum en slík bú sæti undantekningalaust umhverfismati. Leyfisbeiðendur telja að sá lagaágreiningur sem standi eftir í málinu snúist um hvort gagnaðili Skipulagsstofnun hafi víðtækari heimildir til að ákveða að stærri framkvæmdir þurfi ekki að fara í umhverfismat samkvæmt 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 þegar minni framkvæmdir sömu tegundar þurfi að lúta slíku mati samkvæmt 5. gr. sömu laga. Þá telja leyfisbeiðendur að málið hafi verulegt almennt gildi þar sem af niðurstöðu Landsréttar leiði að almenningur og nágrannar við framkvæmdir hafi engan eða mjög takmarkaðan rétt til aðkomu að svokölluðum matsskylduákvörðunum auk þess sem mikilvægt sé að fyrir liggi dómafordæmi Hæstaréttar um þess háttar ákvarðanir. Þá vísa leyfisbeiðendur til þess að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sökum þess að veruleg veðrýrnun á jörðum sem liggja að búinu sé fyrirsjáanleg.
7. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Í því sambandi skal tekið fram að engin þörf var á því, eins og málið er vaxið, að héraðsdómur væri skipaður sérfróðum meðdómsmanni. Þá voru dómarar Landsréttar ekki vanhæfir af þeirri ástæðu að sá dómari sem dæmdi málið í héraði hafði tekið sæti í Landsrétti. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.