Hæstiréttur íslands
Mál nr. 435/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Fimmtudaginn 27. ágúst 2015. |
|
Nr. 435/2015.
|
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari) gegn X (Bjarni Hólmar Einarsson hdl.) Y (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) Z og (Sigmundur Hannesson hrl.) Þ (Heiðar Ásberg Atlason hrl.) |
Kærumál. Vitni.
Hafnað var kröfu varnaraðila um að leiða fleiri vitni en þau 26 sem ráðgert er að komi fyrir dóm við aðalmeðferð málsins vegna ákæru fyrir brot gegn 183. og 184. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í dómi Hæstaréttar kom fram að eins og málið lægi fyrir væri tilgangslaust til sönnunar að leiða fleiri vitni í málinu til þess að bera um starfsemi varnaraðilans Þ.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 25. og 26. júní 2015, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2015, þar sem hafnað var kröfu varnaraðilans Y um að dómari legði fyrir sóknaraðila að leiða fyrir héraðsdóm 92 nánar tilgreind vitni. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að áðurgreind krafa verði tekin til greina.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með ákæru ríkissaksóknara 9. desember 2014 var varnaraðilunum X, Y og Z gefið að sök brot gegn XX. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa á tímabilinu frá júní 2010 fram til 11. desember 2012 í félagi rekið fjárhættuspil í atvinnuskyni og sér til ávinnings og komið öðrum til þátttöku í þeim í húsnæði að [...] í Reykjavík sem varnaraðilinn Þ hafði á leigu en fyrrnefndir varnaraðilar voru í forsvari fyrir. Er brotið talið varða við 183. og 184. gr. almennra hegningarlaga. Þá var varnaraðilunum X, Y og Z gefið að sök peningaþvætti samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr., 264. gr. almennra hegningarlaga og varnaraðilanum Y brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.
Vitnaleiðsla sú, sem varnaraðilar krefjast að fram fari við aðalmeðferð málsins, tekur eingöngu til ákæru fyrir brot gegn 183. og 184. gr. almennra hegningarlaga. Af hálfu sóknaraðila liggur fyrir að ráðgert er að yfirheyra við aðalmeðferð málsins 26 vitni vegna ákæru fyrir það brot og eru þau öll talin geta borið um starfsemi varnaraðilans Þ. Með bréfi sóknaraðila 22. apríl 2015 til verjanda varnaraðilans Y var þess óskað að verjandinn rökstyddi að hvaða leyti framburður þeirra vitna, sem hann hefur óskar eftir að leiða fyrir dóm, umfram áðurnefnd 26 vitni, gæti haft til að upplýsa málið. Kom það eitt fram í svari verjandans 15. júní 2015 að umrædd vitni hafi öll verið virkir meðlimir í fyrrnefndu félagi og þyrftu þau því að koma fyrir dóm og „upplýsa um félagsstarfið og aðkomu sína að því.“
Telja verður að með því að varnaraðilum mun gefast kostur á að spyrja þau 26 vitni, sem fyrirhugað er að yfirheyra við aðalmeðferð málsins, um starfsemi varnaraðilans Þ, sé jafnræði málsaðila tryggt með fullnægjandi hætti við að upplýsa málið. Samkvæmt því er, eins og málið liggur fyrir, tilgangslaust til sönnunar að leiða fleiri vitni um starfsemina, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, X, Y, Z og Þ, um að leiða fleiri vitni en þau 26 sem ráðgert er að komi fyrir dóm við aðalmeðferð málsins vegna ákæru fyrir brot gegn 183. og 184. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2015.
Með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 9. desember 2014, var ákærðu Y, X og Z gefið að sök brot gegn XX. kafla almennra hegningarlaga með því að hafa, á tímabilinu frá júní 2010 til 11. desember 2012, í félagi rekið fjárhættuspil í atvinnuskyni og sér til ávinnings og komið öðrum til þátttöku í því í húsnæði við [...], sem Þ hafði á leigu, en ákærðu voru í forsvari fyrir það félag. Jafnframt er ákærðu gefið að sök peningaþvætti í tengslum við framangreint. Er háttsemi ákærðu talin varða við 183. gr., 184. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er þess krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar. Þá er krafist upptöku fjármuna og annarra muna hjá ákærðu og Þ.
Í greinargerð verjanda ákærða Y, sem lögð var fram í þinghaldi 15. apríl sl., var þess krafist að ákæruvaldið boðaði og leiddi fyrir dóminn sem vitni 92 einstaklinga samkvæmt nafnalista, sem með fylgdi. Var krafan áréttuð í þinghaldi 22. júní sl.
Af hálfu ákæruvaldsins hefur verið fallist á að boða fyrir dóminn vitni, sem nafngreind eru á uppfærðum vitnalista nr. 18, 19, 20 og 22. Að öðru leyti er kröfunni hafnað og þess krafist að dómari úrskuði um ágreining þann sem uppi er í málinu, sbr. 1. mgr. 181. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Verjendur annarra ákærðu taka undir kröfu ákærða Y.
Krafa ákærða Y er á því reist að þeir einstaklingar, sem um ræðir, hafi verið meðlimir í spilafélaginu Þ og sé vitnisburður þeirra nauðsynlegur til að upplýsa um félagsstarfið og aðkomu þeirra að því. Við munnlegan málflutning kom fram hjá verjanda ákærða að með vitnaleiðslunum væri fyrirhugað að sýna fram á að ekki hefðu verið seldar veitingar á vegum félagsins og hefðu félagsmenn ekki innt af hendi greiðslur vegna rekstrar þess. Til stuðnings kröfunni vísar verjandi til ákvæða 2. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 120. gr. laga nr. 88/2008. Þá er vísað til grundvallarreglna sakamálaréttarfars um réttláta málsmeðferð, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og d-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Af hálfu ákæruvaldsins er vísað til þess að fyrirhugað sé að boða 28 vitni fyrir dóm við aðalmeðferð málsins, þ. á m. vitni sem verjandi hafi gert kröfu um að komi fyrir dóminn. Flest vitnanna hafi talist til meðlima í framangreindu félagi og megi ætla að þau geti borið um þau atriði sem verjandi vísar til. Hafi 10 þeirra jafnframt verið á vettvangi er lögregla réðst í húsleit í húsnæði því sem félagið hafði til umráða að [...]. Teknar hafi verið skýrslur af öllum vitnunum við lögreglurannsókn málsins. Hafi ákærði ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að það geti haft þýðingu fyrir málsvörn hans að leiða um 90 vitni til viðbótar við aðalmeðferðina. Sú sönnunarfærsla sé sýnilega óþörf að mati ákæruvaldsins. Sækjandi vísar í þessu sambandi til 1. mgr. 116. gr. og 1. mgr. 120. gr. laga nr. 88/2008, dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 318/2006, nr. 670/2012 og nr. 118/2013 og dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Perna gegn Ítalíu frá 6. mars 2003.
Niðurstaða
Ákærði krefst þess að dómari leggi fyrir ákæruvaldið að boða sem vitni við aðalmeðferð málsins 92 einstaklinga, samkvæmt lista sem fylgdi greinargerð ákærða til dómsins. Á listanum er að finna nöfn eða gæluheiti 96 einstaklinga, sem ákærði kveður hafa verið félagsmenn í Þ og geti upplýst um starfsemi þess.
Svo sem rakið hefur verið hyggst ákæruvaldið leiða 28 vitni við aðalmeðferð málsins, þar af fjóra einstaklinga, sem taldir eru á framangreindum lista, en skýrslur voru teknar af vitnunum við lögreglurannsókn málsins. Af gögnum málsins verður ráðið að 23 vitnanna hafi tengst framangreindu félagi og geti borið um starfsemi þess. Þykir ákærði á þessu stigi málsins ekki hafa fært viðhlítandi rök fyrir því að vitnisburður þeirra einstaklinga sem hann hefur tilgreint að auki hafi þýðingu fyrir málsvörn hans, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt framansögðu verður því hafnað kröfu ákærða um að leggja fyrir ákæruvaldið að boða og leiða framangreind vitni.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Kröfu ákærða, Y, um að dómari leggi fyrir ákæruvaldið að boða og leiða fyrir dóminn vitni samkvæmt lista sem fylgdi greinargerð ákærða til dómsins, er hafnað.