Hæstiréttur íslands

Mál nr. 564/2017

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Súsanna Björg Fróðadóttir saksóknarfulltrúi)
gegn
X (Úlfar Guðmundsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. september 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. september 2017 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. september 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og að það verði „án takmarkana.“

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili er undir rökstuddum grun um háttsemi sem varðað getur fangelsisrefsingu samkvæmt 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá eru vegna rannsóknarhagsmuna uppfyllt skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi þann tíma sem krafist er og einangrun meðan á því stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 8. september 2017

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. september 2017, kl. 16:00 og að honum verði gert að sæta einangrun á meðan gæsluvarðhaldi stendur.

                 Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að lögreglan hafi undanfarið haft til rannsóknar mál þetta er varði innflutning á ætluðum ávana- og fíkniefnum hingað til lands. Hinn 19. ágúst sl. hafi Y, kt. [...], komið með flugi [...] frá Barcelona á Spáni. Hafi hann verið handtekinn í kjölfar afskipta tollvarða vegna gruns um að hann hefði fíkniefni í fórum sínum. Í ljós hafi komið að fölskum botni ferðatösku sem hann hafði meðferðis voru um 2000 g af kókaíni. Lögregla hafi haft upplýsingar um að kærði, X, og meðkærði, Z væru viðriðnir málið. Við rannsóknaraðgerðir í kjölfar framangreinds hafi lögregla fylgst með ferðum meðkærða Z sem hafi sótt meðkærða Y við komuna hingað til lands á BSÍ að morgni 20. ágúst. Hafi þeir ekið að [...] í Reykjavík þar sem Y fór inn með töskuna og Z hélt á brott. Síðar um daginn hafi Z farið að [...], sótt töskuna og hafi farið í beinu framhaldi að [...], Hafnarfirði, dvalarstað kærða. Hafi kærði verið handtekinn þar ásamt Y í þágu rannsóknar málsins. Hinn 21. ágúst sl. hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna aðildar sinnar að málinu, sbr. úrskurð Héraðsdóm Reykjaness þess efnis frá 21. ágúst sl. Vísast nánar til rannsóknargagna málsins.

                Rannsókn máls þessa sé í fullum gangi og sé á viðkvæmu stigi. Sé við það miðað að kærði hafi ásamt öðrum aðilum málsins flutt töluvert magn ætlaðra ávana- og fíkniefni hingað til lands og að þau hafi verið ætluð til sölu og dreifingar. Á þessum tímapunkti sé unnið að því að upplýsa um hlutverk kærða og meðkærðu í málinu aukinheldur sem unnið sé að því að afla upplýsinga um hvort fleiri aðilar tengist því, hér á landi og erlendis. Telji lögregla sig þurfa svigrúm til að vinna nánar úr þeim gögnum sem hún hafi undir höndum og upplýst geta um framangreind atriði, sbr. nánar rannsóknargögn málsins. Vísar sækjandi til greinargerðar um stöðu rannsóknar málsins og nýrra rannsóknargagna en verjandi ákærða hefur ekki enn fengið þau gögn afhent. Sé því nauðsynlegt að kærða verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi og í ljósi þess sem fram hafi komið við rannsóknina sé að sama skapi nauðsynlegt að honum verði gert að sæta einangrun.

                Að mati lögreglustjóra séu lagaskilyrði uppfyllt fyrir því að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Verið sé að rannsaka innflutning á hættulegum ávana- og fíkniefnum sem að mati lögreglu hafa verið flutt hingað til lands í þeim tilgangi að selja þau til ótiltekins fjölda fólks. Að mati lögreglustjóra sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst brotlegur við ákvæði laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk 264. gr. sömu laga.

Lögreglustjóri telji hættu á að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni, gangi hann laus.

Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/ 2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til að fallist verði á kröfuna og kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. september 2017, kl. 16:00.

Þess sé einnig krafist að kærða verði gert að sæta einangrun, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, á meðan gæsluvarðhaldi stendur, með vísan til framangreindra rannsóknarhagsmuna. 

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um aðild að innflutningi mikils magns fíkniefna og getur meint brot varðað fangelsisrefsingu sannist sök. Rannsókn málsins er viðamikil eins og lesa má úr gögnum málsins. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, s.s. með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa samband við samseka. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfur lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. september 2017, kl. 16:00. Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.