Hæstiréttur íslands

Mál nr. 621/2017

Ákæruvaldið (Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari)
gegn
X (Þorgils Þorgilsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. september 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2017 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 26. október 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2017.

                Héraðssaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að ákærða, X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 26. október nk. kl. 16.00.

                Í greinargerð saksóknara kemur fram að héraðssaksóknari hafi þann 31. ágúst síðastliðinn gefið út ákæru á hendur X fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til bana, með því að hafa að kvöldi mánudagsins 7. júní 2017, [...], [...], veist með ofbeldi að A.

Háttsemi ákærða sé lýst svo í ákæru að ákærði hafi haldið báðum höndum A fyrir aftan bak, þar sem hann hafi legið á maganum á jörðinni, farið klofvega yfir bak A og notað líkamsþunga sinn til að halda honum föstum, þá hafi hann tekið A hálstaki og slegið hann ítrekað í andlit og höfuð með krepptum hnefa. Af þessu hafi A hlotið margar rispur og skrámur víða á höfuð og líkama; margúla víða á andlit; blæðingar í mjúkvef á gagnauga og á hægra gagnaugavöðva, á miðjum hálsi að framanverðu og hægra megin; nefbrot; brot á báðum hornum skjaldbrjósks og hafi A látið lífið af völdum mikillar minnkunar á öndunarhæfni sem olli banvænni stöðukæfingu sem rekja megi til einkenna æsingsóráðs, þeirrar þvinguðu frambeygðu stöðu sem hann hafi verið í með hendur fyrir aftan bak, þunga ákærða sem hafi þrýst á brjósthol hans aftanvert, hálstaks í langan tíma og mótspyrnu hans sjálfs.

Háttsemi ákærða sé í ákæru talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og geri ákæruvaldið þær dómkröfur að hann verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Við rannsókn málsins hafi ákærði neitað sök og það gerði hann einnig við þingfestingu málsins [...] í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 14. september síðastliðinn. Næst sé fyrirhuguð fyrirtaka í málinu þann 5. október næstkomandi og gera megi ráð fyrir að þá verði ákveðið hvenær aðalmeðferð þess muni fram fara.

Ákærða hafi upphaflega verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna frá 8. júní sl. til 23. júní sl. Frá þeim tíma hafi kærði sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna til dagsins í dag skv. úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-209/2017,  R-248/2017, R-274/2017 og R-290/2017, sem staðfestir hafi verið með dómum Hæstaréttar Íslands nr. 409/2017, 476/2017, 518/2017 og 553/2017.

Með vísan til framangreinds og rannsóknargagna málsins, sem ákæran byggist á, sé ákærði að mati héraðssaksóknara undir sterkum grun um að hafa framið ofangreint brot. Brot ákærða samkvæmt framangreindu ákvæði almennra hegningarlaga geti varðað allt 16 ára fangelsi. Að mati ákæruvaldsins sé brotið þess eðlis að með tilliti til almannahagsmuna sé nauðsynlegt að tryggja áfram að kærði gangi ekki laus á meðan mál hans sé til meðferðar hjá ákæruvaldi og dómstólum. Dómstólar hafi í fjórgang talið skilyrði gæsluvarðhalds á grundvelli almannahagsmuna vera fyrir hendi í máli ákærða, sbr. framangreinda dóma Hæstaréttar, og að áliti ákæruvaldsins hafi ekki neitt nýtt komið fram í málinu sem breytt geti því mati dómstóla.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða

Í greinargerð héraðssaksóknara kemur fram að héraðssaksóknari hafi 31. ágúst sl. gefið út ákæru á hendur X fyrir stórfellda líkamsárás sem hafi leitt til bana, með því að hafa að kvöldi mánudagsins 7. júní 2017, [...], [...], veist með ofbeldi að A, eins og rakið er í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 533/2017 sem kveðinn var upp 4. september sl.

Ákæra í málinu var gefin út 31. ágúst sl. og málið þingfest 14. september sl. og verjandi mun skila greinargerð í þinghaldi sem fyrirhugað er 5. október nk.

 Háttsemi ákærða er í ákæru talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákæra var móttekin í Héraðsdómi Reykjavíkur á útgáfudegi hennar og í dag.

                Í greinargerð kemur fram að við rannsókn málsins hafi ákærði neitað sök. Þá kemur fram að ákærða hafi upphaflega verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna frá 8. júní sl. til 23. júní sl. Frá þeim tíma hafi kærði sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna til dagsins í dag skv. úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-209/2017,  R-248/2017 og R-274/2017 og R-290/2017 sem staðfestir hafi verið með dómum Hæstaréttar Íslands nr. 409/2017, 476/2017, 518/2017 og 533/2017.

  Með vísan til framangreinds og rannsóknargagna málsins, sem ákæran byggist á, er fallist á það mat héraðssaksóknara að ákærði sé undir sterkum grun um að hafa framið ofangreint brot. Brot kærða samkvæmt framangreindu ákvæði almennra hegningarlaga getur varðað allt 16 ára fangelsi. Dómurinn fellst á það með héraðssaksóknara að brotið sé þess eðlis að með tilliti til almannahagsmuna sé nauðsynlegt að tryggja áfram að kærði gangi ekki laus á meðan mál hans sé til meðferðar hjá ákæruvaldi og dómstólum. Dómstólar hafa í fjórgang talið skilyrði gæsluvarðhalds á grundvelli almannahagsmuna vera fyrir hendi í máli ákærða, sbr. framangreinda dóma Hæstaréttar, og dómurinn telur að ekki hafi neitt nýtt komið fram í málinu sem breytt geti því mati dómstóla.

         Verður því á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála fallist á þá kröfu héraðssaksóknara um að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 26. október nk. til kl. 16.00.

                Lárentsínus Kristjánsson kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Ákærði, X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 26. október nk. kl. 16.00.