Hæstiréttur íslands

Mál nr. 45/2009


Lykilorð

  • Skuldamál
  • Leigusamningur


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. september 2009.

Nr. 45/2009.

Óðinn Örn Jóhannsson

(Sigurður Jónsson hrl.)

gegn

Hreggviði Hermannssyni

(sjálfur)

 

Skuldamál. Leigusamningur.

H og Ó gerðu með sér munnlegan samning um leigu Ó á þremur beitarhólfum á jörð H. Í málinu deildu þeir um fjárhæð leigugjaldsins en H hélt því fram að samið hefði verið um 12.500 krónur auk virðisaukaskatts í gjald fyrir hverja hryssu sem í hólfin kæmu en Ó vildi miða við 7.380 krónur samkvæmt matsgerð sem hann hafði aflað í málinu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ósannað hefði verið hvert umsamið leiguverð hefði verið fyrir hverja hryssu. Yrði því að hafa hliðsjón af meginreglu 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup við úrlausn málsins. Þegar litið væri til þeirra gagna sem lágu fyrir í málinu um leiguverð vegna hagabeitar, meðal annars matsgerðarinnar, yrði að fallast á það með Ó að miða bæri við það verð sem í matsgerðinni greindi. Þar sem Ó hafði nú þegar greitt H í samræmi við matgerðina var hann sýknaður af kröfu H. Hins vegar þótti rétt að Ó greiddi H málskostnað fyrir Hæstarétti, þar sem Ó hafði ekki greitt kröfuna í samræmi við matgerðina fyrr en komið var að málflutningi í Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. janúar 2009. Hann krefst nú sýknu af kröfu stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar er rakið í héraðsdómi hafði áfrýjandi hryssur í þremur beitarhólfum sem stefndi hafði girt af á jörð sinni á vormánuðum 2007. Stefndi kveðst hafa átt að fá 12.500 krónur auk virðisaukaskatts í gjald fyrir hverja hryssu sem þangað kæmi. Hvert beitarhólf var um 20 hektarar að stærð og hafði áfrýjandi afnot þeirra frá miðjum júní og fram í september 2007. Áfrýjandi reisir kröfu sína um sýknu ekki lengur á aðildarskorti. Í málflutningi fyrir Hæstarétti kvaðst áfrýjandi ekki lengur byggja á að umsamið leigugjald fyrir hverja hryssu hafi verið 6.000 krónur auk virðisaukaskatts, en vill nú miða við að eðlilegt verð hafi verið 7.380 krónur auk virðisaukaskatts.

Með héraðsdómi var fallist á kröfu stefnda og áfrýjanda gert að greiða honum 1.213.875 krónur með tilgreindum dráttarvöxtum allt að frádregnum 600.140 krónum. Aðilar eru sammála um að miða beri við að sú greiðsla hafi verið innt af hendi 20. nóvember 2007. Með henni taldi áfrýjandi sig hafa uppfyllt greiðsluskyldu sína miðað við 6.000 krónu leigugjald fyrir hverja hryssu, auk virðisaukaskatts og dráttarvaxta í 45 daga, eða frá 24. september til 20. nóvember 2007. Áður en málið var flutt í Hæstarétti, eða 9. september 2009, greiddi áfrýjandi stefnda 217.473 krónur sem miðaðist við niðurstöðu matsgerðar dómkvadds manns 16. mars 2009, auk dráttarvaxta.

Stefndi hefur ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki til álita fyrir Hæstarétti.

Að gengnum héraðsdómi var að beiðni áfrýjanda dómkvaddur matsmaður til að meta hvert hafi verið almennt gangverð hagabeitar fyrir stóðhryssur á Suðurlandi sumarið 2007, nánar tiltekið fyrir tímabilið 15. júní til 15. september 2007 og hvert hafi verið eðlilegt og sanngjarnt leiguverð fyrir beitarhólf stefnda sama tímabil. Í matsgerðinni rekur matsmaður athugun sem hann kveðst hafa gert á almennu gangverði hagabeitar fyrir hryssur sumarið 2007 og kemst að þeirri niðurstöðu að svokallað faldmeðaltal greiðslu fyrir hverja hryssu hafi verið 7.380 krónur án virðisaukaskatts og að rétt sé að miða við þá fjárhæð. Í svari við síðari spurningu áfrýjanda gefur matsmaður sér þær forsendur, í samræmi við fullyrðingar stefnda, að frágangur girðinga hans hafi verið góður og hafi beitarhólfin verið með góðum rekstrarrennum og hagi fjölbreyttur. Er niðurstaða hans sú að hvert beitarhólfanna ætti að geta borið 25 til 30 hryssur og sanngjarnt leiguverð umræddra beitarhólfa væri samtals 600.000 krónur á því tímabili sem um ræðir.

Eins og greinir í héraðsdómi er ósannað hvert hafi verið umsamið leiguverð fyrir hverja hryssu. Við úrlausn máls þessa verður höfð hliðsjón af meginreglu sem kemur fram í 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, að séu kaup gerð án þess að kaupverðið leiði af samningi skuli greiða það gangverð sem sé á sams konar hlutum, seldum við svipaðar aðstæður, við samningsgerðina, enda sé verðið ekki ósanngjarnt. Ef ekki sé um neitt slíkt gangverð að ræða skuli kaupandi greiða það verð sem sanngjarnt sé miðað við eðli hlutar, gæði hans og atvik að öðru leyti. Þegar litið er til þeirra gagna sem fyrir liggja um leiguverð vegna hagabeitar, meðal annars framangreindrar matsgerðar, er fallist á með stefnda að miða beri við það verð sem í matsgerð greinir. Eins og að framan er rakið hefur stefndi greitt kröfu áfrýjanda samkvæmt niðurstöðu matsgerðarinnar. Verður stefndi því sýknaður af þessari kröfu áfrýjanda.

Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu og því að áfrýjandi greiddi ekki framangreinda kröfu stefnda fyrr en komið var að málflutningi í Hæstarétti verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Óðinn Örn Jóhannsson, er sýkn af kröfu stefnda, Hreggviðar Hermannssonar, um annað en málskostnað fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 31. október 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 8. september sl. er höfðað með stefnu birtri 11. mars sl.

Stefnandi er Hreggviður Hermannsson, kt. 180750-3559, Langholti 1, Selfossi.

Stefndi er Óðinn Örn Jóhannsson, kt. 260772-5469, Urðartjörn 3, Selfossi.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.213.875 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 24. september 2007 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð 600.140 krónur.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Málavextir.

Stefnandi lýsir málavöxtum svo í stefnu að hann sé bóndi að Langholti I, Flóahreppi, Árnessýslu og á vormánuðum 2007 hafi hann girt af á jörðinni þrjú hólf í því skyni að halda þar stóðhesta.  Hvert hólf sé um 20 hektarar og fullnægi ströngustu kröfum varðandi slíkar girðingar.  Stefndi mótmælir því hins vegar að hvert hólf sé 20 hektarar og hafi stefnandi ekki lagt fram gögn því til stuðnings.  Hafi girðingarvinnu verið lokið í júní 2007 en í byrjun janúar sama ár hafi stefndi frétt af fyrirætlunun stefnanda og farið þess á leit að fá hólfin á leigu.  Stefndi mun reka þá starfsemi að leigja stóðhesta, finna aðstöðu fyrir þá og síðan bóka hryssur fyrir þá.  Hafi þeir gert munnlegt samkomulag um að stefndi fengi öll hólfin og yrðu þau ekki boðin öðrum það árið.  Þegar girðingarnar voru tilbúnar hafi stóðhestum verið sleppt í hólfin ásamt alls 78 merum.  Stefnandi heldur því fram að leigutímabilið hafi átt að standa frá miðjum júní til 1. september 2007 en hluti af hrossunum hafi verið í hólfunum til 15. september sama ár án samþykkis stefnanda.  Stefndi mótmælir þessu og segir stefnanda hafa vitað að Foli ehf. hefði leigt stóðhesta til 20. september og þyrfti á hólfunum að halda til þess dags. Stefndi segir fyrirtækið Fola ehf. hafa verið stofnað í ársbyrjun 2007 vegna reksturs sem felist í því að leigja þekkta stóðhesta, auglýsa þá og kynna fyrir hryssueigendum, halda úti heimasíðu til að taka á móti pöntunum, miðla upplýsingum og fréttum, leigja fyrir þá aðstöðu, taka á móti hryssum fyrir þá, sjá um daglegt eftirlit með hrossunum, sjá um sónarskoðanir o.fl.  Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi misbeitt hólfin eftir 1. september og hafi orðið ofbeit í einu þeirra.  Hafi héraðsdýralæknir kallað til mann frá Búnaðarsambandi Suðurlands sem hafi metið girðingarnar mjög góðar en talið landið verulega bitið en ekki haglaust.  Stefndi telur að þessi mikla beit á valllendinu hefði orðið mun minni hefði stefnandi gefið heyrúllur með beitinni eins og talað hefði verið um í upphafi.  Stefnandi hafi aðeins gefið 4 rúllur og hafi það orðið til þess að hrossin hafi ekki verið eins lengi í Langholti og til hafi staðið og hafi það valdið Fola ehf. aukakostnaði og tjóni.

Stefnandi heldur því fram að hann hafi í upphafi sjálfur viljað innheimta girðingargjald fyrir merarnar og heldur hann því fram að gjaldið hafi átt að vera 20.000 krónur fyrir hverja meri. Telur stefnandi útlagðan kostnað stefnda nema 2.500 krónum, sem væri sónargjald, stefndi fengi 5.000 krónur í þóknun fyrir að útvega og bóka merarnar en stefnandi fengi 12.500 krónur fyrir hverja meri.  Stefndi hafi hins vegar sjálfur viljað innheimta gjaldið og hafi stefnandi samþykkt það.  Stefndi mótmælir því að rætt hafi verið um að stefnandi myndi sjálfur innheimta girðingargjaldið og hvað þá 20.000 krónur eins og stefnandi haldi fram.  Kveður stefndi gjald Fola ehf. fyrir alla þá þjónustu sem fyrirtækið veiti vera 25.000 krónur með virðisaukaskatti sem leggist ofan á þann hluta sem stóðhesteigandinn fengi til sín.  Stefndi heldur því fram að enginn ágreiningur hafi verið um leigufjárhæðina 6.000 krónur fyrir hverja stóðhryssu.  Hafi stefnandi beðið um að fá tíma til að kanna hjá endurskoðanda sínum hvort reikningurinn ætti að vera með virðisaukaskatti.  Stefndi segist hafa beðið stefnanda að stíla reikninginn á Fola ehf. sem hafi verið leigutaki en ekki stefndi.  Hafi það komið stefnda á óvart þegar hann hafi fengið allt of háan reikning frá stefnanda stílaðan á rangan aðila.  Stefndi segist fyrir hönd Fola ehf. hafa greitt stefnanda 600.140 krónur 20. nóvember 2007 sem hann segir greiðslu fyrir 78 hryssur með virðisaukaskatti auk dráttarvaxta í 45 daga.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á framlögðum reikningi sem sé á því byggður að í hólfunum hafi verið 78 merar og gjald landeiganda fyrir hverja meri sé 12.500 krónur eða samtals 975.000 krónur og með virðisaukaskatti sé stefnufjárhæðin 1.213.875 krónur.  Stefnandi byggir á því að hann og stefndi hafi gert munnlegan samning sem stefndi hafi ekki uppfyllt.  Stefnandi vísar til meginreglna samningaréttarins og kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga.  Krafa um dráttarvexti er reist á III. kafla laga nr. 38/2001 og krafa um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir í fyrsta lagi á aðildarskorti.  Þegar samningar hafi tekist með stefnanda og stefnda um leigu á hólfunum hafi verið um það samið að leigutakinn væri einkahlutafélag stefnda, Foli, sem stefndi hefði stofnað um rekstur sinn, en félagið hafi þá ekki verið búið að fá kennitölu.  Myndi stefnandi gera skriflegan samning við félagið strax og kennitalan lægi fyrir og yrði reikningur gefinn út í september 2007.  Þrátt fyrir umleitun og eftirrekstur stefnda eftir að kennitalan hafi verið komin í júlí sama ár hafi stefnandi þó ekki fengist til að gera skriflegan samning við Fola ehf.  Einkahlutafélagið hafi samt sem áður verið viðsemjandi stefnanda og hafi honum borið að beina reikningi til þess félags.  Sé krafa á hendur stefnda persónulega því ekki í samræmi við samning aðila.

Í öðru lagi er á því byggt að umsamið leigugjald vegna beitarhólfanna, 6.000 krónur á hryssu auk virðisaukaskatts, hafi að fullu verið greitt 19. nóvember 2007.  Sé girðingargjaldið 12.500 krónur á hryssu allt of hátt og ekki í samræmi við samning aðila.  Hvíli sönnunarbyrðin um að samið hafi verið um hærra gjald að öllu leyti á leigusala sem hafi látið undir höfuð leggjast að gera skriflegan samning.  Stefndi hefur lagt fram reikninga vegna leigu á öðrum beitarhólfum sem sýni að gangverð girðingargjalds sumarið 2007 hafi verið á þeim nótum sem aðilar sömdu um.

Stefndi vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttar um efndir og vísar jafnframt til 10. og 37. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 til hliðsjónar.  Krafa um málskostnað er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða.

Stefndi byggir vörn sína í fyrsta lagi á aðildarskorti.  Hafi svo um samist með aðilum að leigutakinn væri einkahlutafélag stefnda, Foli, en félagið mun ekki hafa verið búið að fá kennitölu er samningar tókust.  Stefnandi hefur í munnlegum málflutningi hér fyrir dómi mótmælt því að um aðildarskort sé að ræða og hafi aldrei verið rætt um að Foli ehf. væri viðsemjandi.  Aðilar gerðu ekki skriflegan samning um leigu á hólfunum og hefur stefnda að mati dómsins ekki tekist að sanna að hann sé ekki réttur aðili málsins.  Verður sýknukröfu af þessum ástæðum því hafnað.

Í öðru lagi er ágreiningur með aðilum um leigugjald fyrir hverja meri.  Ekki er um það deilt að um 78 merar var að ræða en stefndi heldur því fram að umsamið leigugjald hafi verið 6.000 krónur á hverja meri auk virðisaukaskatts en stefnandi heldur því hins vegar fram að gjald fyrir hverja meri eigi að vera 12.500 krónur auk virðisaukaskatts.  Stefndi hefur í samræmi við þennan skilning sinn á samningi aðila greitt stefnanda 600.140 krónur 19. eða 20. nóvember 2007 sem hann segir greiðslu fyrir 78 hryssur með virðisaukaskatti auk dráttarvaxta í 45 daga.  Stefndi hefur lagt fram tvo reikninga sem einkahlutafélag hans hefur greitt vegna leigu á öðrum beitarhólfum og telur hann þá reikninga sýna að gangverð girðingargjalds hafi verið á þeim nótum sem aðilar sömdu um.  Stefndi hefur í greinargerð vísað til húsaleigulaga nr. 36/1994 til hliðsjónar, en þau lög eiga ekki við um þau lögskipti aðila sem hér er fjallað um.

Aðilar komu fyrir dóm og hélt hvor fast við sitt að því er umsamið verð varðaði.  Vitnið Hjörtur Bergstað kom fyrir dóm en hann gat ekki staðfest hvað aðilum hefði farið á milli um verðlagningu fyrir hverja hryssu.  Er því ósannað að samist hafi um ákveðið verð og verður því að dæma málið á grundvelli 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup en þar kemur fram að greiða skuli það gangverð sem er á sams konar hlutum, seldum við svipaðar aðstæður, við samningsgerðina, enda sé verðið ekki ósanngjarnt.  Ef ekki er um neitt slíkt gangverð að ræða skal kaupandi greiða það verð sem sanngjarnt er miðað við eðli hlutar, gæði hans og atvik að öðru leyti.  Stefndi hefur hvorki lagt fram matsgerð sem styður fullyrðingar hans um gangverð né að kröfugerð stefnanda sé ósanngjörn.   Verða kröfur stefnanda því teknar til greina.

Með hliðsjón af atvikum öllum og þar sem aðilar létu undir höfuð leggjast að gera skriflegan samning um viðskipti sín eða tryggja sér með öðrum hætti sönnun um þau, þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kvað upp dóminn.  Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna embættisanna dómarans en lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Óðinn Örn Jóhannsson, greiði stefnanda, Hreggviði Hermannssyni, 1.213.875 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 24. september 2007 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð 600.140 krónur.

Málskostnaður fellur niður.