Hæstiréttur íslands
Mál nr. 375/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Föstudaginn 11. júlí 2008. |
|
Nr. 375/2008. |
Ríkislögreglustjóri(Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Farbann.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2008, þar sem varnaraðila var áfram bönnuð för frá Íslandi allt til þriðjudagsins 9. september 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara krefst hann þess að honum verði gert að setja tryggingu fyrir nærveru sinni í stað farbanns, en að því frágengnu að farbanninu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og rakið er í héraðsdómi hafa skýrslur verið teknar af vitnum í Bandaríkjunum vegna máls þessa og er beðið endurrita skýrslnanna til að unnt sé að bera þær undir varnaraðila. Þá hefur viðbótarréttarbeiðni verið send bandarískum og kanadískum stjórnvöldum vegna málsins, auk þess sem enn er beðið svara við réttarbeiðni sem send var breskum yfirvöldum. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 9. júlí, Árið 2008.
Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess að með vísan til 110. gr., sbr. b.-lið 1. mgr. 103. gr., laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, að framlengt verði farbann sem X sætir til miðvikudagsins 9. júlí 2008 og að honum verði bönnuð brottför af Íslandi allt til þriðjudagsins 9. september n.k. kl. 16:00.
Í greinargerð ríkislögreglustjóra kemur fram að miðvikudaginn 11. apríl 2007 tilkynntu forráðamenn A saksóknara efnahagsbrota um ætlaða refsiverða háttsemi X í störfum hans sem framkvæmdastjóri A. Leikur grunur á að hann hafi misnotað aðstöðu sína hjá fyrirtækinu og falsað og/eða rangfært skjöl sem beri það með sér að eiga að stafa frá A, en í þessum skjölum er vísað til viðskipta sem ekki er nokkur fótur fyrir að átt hafi sér stað á vegum A eða fyrir tilstuðlan félagsins. Í hinum fölsuðu og/eða rangfærðu skjölum er m.a. yfirlýsing um að tilteknir fjármunir, 200.000.000 bandaríkjadala, séu í vörslu A á tilteknum bankareikningi. Skjal þetta ber yfirskriftina Certificate of deposit, sem þýða má sem staðfesting á innstæðu. Samkvæmt efni skjalsins er það staðfest að á innlánsreikningi sé að finna 200 milljónir bandaríkjadala. Innistæðan sé á lokuðum reikningi og sé þar með óafturkallanleg, til hagsbóta fyrir tilgreinda aðila. Innistæðuna skuli greiða þeim aðilum eða þeim sem þeir vísa til á gjalddaga sem er 31. desember 2009, gegn framvísun skjalsins á skrifstofu A að [...], Reykjavík. Sérstaklega er tekið fram í skjalinu að það megi framselja. Skjal þetta virðist hafa bein tengsl við lánasamning. Í samningi þessum er rakið hvernig staðfestingu á innistæðunni sem vísað er til sem “CD” tengist lánasamningnum. Ekki hefur enn tekist að hafa uppi á frumriti skjalsins. Lánasamningurinn sem fjallað er um hér að ofan, er gerður á milli B sem lánveitanda og C. sem lántakanda. Í öðrum kafla lánasamningsins er að finna ákvæði um hvaða skjöl þurfa að vera til staðar til að draga megi á lánið og ber lántakanda að afhenda lánveitanda skuldabréf (Medium Term Note) að fjárhæð 200 milljónir bandaríkjadala útgefnum af C., ásamt staðfestingunni á innistæðunni, sbr. hér að ofan útgefinni af A.
Jafnframt er að finna í hinum fölsuðu og/eða rangfærðu skjölum yfirlýsingu vegna einhvers konar ábyrgðar á skuldabréfaútboði C., sem skráð er á Channel Island Stock Exchange, um að C eigi á reikningum hjá A erlend hlutabréf skráð í Bandaríkjunum að andvirði 84.365.000 bandaríkjadollara, erlend verðbréf skráð í
Bandaríkjunum að andvirði 32.524.095 bandaríkjadollara og peningainnistæðu í 59.552.793.649 japönskum yenum, eða samtals inneign að virði 623.087.842 bandaríkjadala. Það hefur verið upplýst af forráðamönnum A að eftirgrennslan og athuganir starfsmanna A hafi leitt í ljós að engar slíkar innistæður séu eða hafi verið hjá félaginu á umræddum tíma.
Ekki er loku fyrir það skotið að með útgáfu hinna fölsuðu og/eða rangfærðu skjala í nafni A kunni X, sem framkvæmdastjóri og prókúruhafi A, að hafa með ólögmætum hætti drýgt athafnir sem fyrirtækið sé bundið við og kunni að hljóta fjártjón af. Einnig má benda á það að X var skráður eigandi 25% hlutafjár í C (leiðrétt 20. apríl s.l.), auk þess sem hann er skráður í stjórn félagsins samkvæmt gögnum málsins sem varða útboðslýsingu á skuldabréfaútboði C.
Frekari upplýsingar fengust með skoðun á tölvupóstum kærða sem sýna að hann hefur haft meiri samskipti við hina erlendu aðila og aðkomu að þeim viðskiptum sem reynt var að koma á, en hann hefur viðurkennt í skýrslum sínum hjá lögreglu. Þá komu fram upplýsingar varðandi kaup aðila í Bandaríkjunum á skuldabréfum C. í áðurnefndu skuldabréfaútboði alls að fjárhæð 7 milljónir bandaríkjadollara. Upp komst um þetta tilvik í kjölfar rannsóknar á tölvupóstum X.
Málið er mjög alvarlegt og ábyrgðir geta fallið á A, í það minnsta vegna 200 milljóna bandaríkjadollara samkvæmt Certificate of Deposit, en frumritið hefur eins og áður kom fram ekki fundist og getur, að áliti lögmanna A, bundið A gagnvart grandlausum framsalshafa allt fram á árslok 2009, þegar gjalddagi ábyrgðarinnar er. Enn fremur liggur fyrir að ábyrgð vegna skuldabréfaútboðsins er á gjalddaga árið 2017. Þótt enn hafi ekki verið upplýst með vissu um hversu mikla ábyrgð má ætla að A hafi verið tengt við í tengslum við útboðið eru líkur fyrir að það byggi að öllu leiti á ábyrgðum A, bæði að því er varðar beina skráningu þess í kauphöllina á Guernsey og ábyrgð á greiðslum skuldabréfanna sem gefin voru út.
Réttarbeiðnir voru sendar til Bandaríkjanna, Guernsey, Jersey og Englands, auk þess sem fyrirspurn var send til Filipseyja, en eins og nánar er rakið í þeim virðist fjöldi einstaklinga tengdur brotunum og eru þeir flestir búsettir erlendis aðrir en kærði. Mál þetta verður því illa eða ekki upplýst án aðstoðar lögreglu í viðkomandi löndum. Eru slíkar réttarbeiðnir sendar eftir tilteknum leiðum í samræmi við ákvæði alþjóðasamninga þar um. Er meðferð slíkra beiðna seinleg og er ekki við því að búast að niðurstaða fáist úr þeim fyrr en að nokkrum tíma liðnum.
Svar barst frá Guernsey fljótt og vel, eða í lok júlí 2007. Kom fram í því að í útboðslýsingu (Offering Circular), sem lögð var inn hjá kauphöllinni á Guernsey dags. 18.10.2006, er vísað til ábyrgðar A vegna útboðsins með vísan til “Collateral Trust Guaranty” á milli C og A vegna skuldabréfaútboðsins. Jafnframt kemur fram í þessu sama skjali að kærði X sé “Director” hjá C og eigandi 25% hlutafjár.
Svar barst frá Jersey um miðjan október sl., en þar koma fram svipaðar upplýsingar og frá Guernsey varðandi skráningu skuldabréfaútboðs C á Channel Island Stock Exchange.
Seinlegt reyndist að fá svar við réttarbeiðninni sem send var til Bandaríkjanna. Það barst þó loks í apríl sl. Í kjölfar þess fóru fram yfirheyrslur yfir þremur vitnum í Bandaríkjunum í lok maí. Til aðstoðar íslenskum yfirvöldum eru þrír bandarískir saksóknarar staðsettir í Portland í Oregon, Phoenix Arizona og Sakramento í Californiu, en þar fóru yfirheyrslurnar fram. Voru saksóknari og aðstoðaryfirlögregluþjónn efnahagsbrotadeildar viðstaddir seinni yfirheyrslurnar tvær. Í tengslum við og í framhaldi af yfirheyrslunum stefndu bandarísku saksóknararnir umræddum vitnum til að afhenda gögn. Um afhendingu þessara gagna er farið eftir þeim reglum sem almennt gilda í meðferð réttarbeiðna þannig að þau munu, ásamt endurritum af yfirheyrslunum, verða komið til dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, sem hefur verið íslenskum yfirvöldum til aðstoðar, og verða þaðan send til Íslands. Hafa gögnin enn ekki borist og hefur því ekki verið unnt að kalla kærða til yfirheyrslu vegna þeirra
Í tengslum við yfirheyrslu yfir einu vitninu komu fram upplýsingar um konu í New York sem varð fyrir tjóni vegna kaupa sinna á skuldabréfum úr útboði C á Guernsey. Til stendur að yfirheyra þá konu og fá frá henni gögn um málið. Var viðbótarréttarbeiðni send bandarískum yfirvöldum vegna þessa þann 25. júní sl. Hafa gögn vegna hennar ekki borist.
Varðandi réttarbeiðnina sem send var til Bretlands þá fengust þær upplýsingar frá breskum yfirvöldum að meðferð réttarbeiðninnar væri í gangi og hefur verið ýtt frekar á eftir þeirri afgreiðslu.
Ljóst er að meðferð framangreindra beiðna í Bandaríkjunum og Bretlandi mun taka nokkurn tíma enn. Er því nauðsynlegt að kærða verði enn um sinn meinuð för af landinu, þangað til hægt er að ljúka framangreindum rannsóknarþáttum, en ella er hætta á að rannsókn málsins tefjist eða að hann reyni að koma sér undan rannsókn og hugsanlegri saksókn síðar.
Hætta þykir vera á að kærði muni reyna að komast úr landi og þar með torvelda rannsókn málsins, en benda má á að hann var búsettur í [...] í Bandaríkjunum þar sem hann á ættingja, auk þess sem fyrirsvarsmaður C., D, er búsettur þar. Eins og rakið hefur verið hér að framan eiga enn eftir að berast mikilvægar upplýsingar erlendis frá og er nauðsynlegt að tryggja að kærði verði til staðar til að unnt verði að yfirheyra hann um þær.
Er til stuðnings kröfunni sérstaklega vísað til meðfylgjandi yfirlits Sveins Ingibergs Magnússonar aðstoðaryfirlögregluþjóns um framgang rannsóknarinnar.
Í þágu rannsóknar málsins þykir, með vísan til þess sem að framan er rakið, brýna nauðsyn bera til að dómari leggi fyrir kærða að halda sig á Íslandi allt til þriðjudagsins 9. september n.k. kl. 16:00.
Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við. Telur lögreglan sig hafa rökstuddan grun um að kærði hafi framið brot sem kunni að varða við ákvæði hegningarlaga um skjalafals og auðgunarbrot. Mál þetta varðar afar mikla fjármuni og rannsókn þess er tímafrek einkum þar sem leita þarf réttaraðstoðar erlendis frá.
Kærði var upphaflega úrskurðaður í farbann 13. apríl 2007 og hefur það verið framlengt 8 sinnum. Hefur Hæstiréttur Íslands staðfest umrædda úrskurði, síðast með dómi 20. maí 2008. Við framlengingu farbannsins hinn 14. mars sl., var tekið fram í forsendum dóms Hæstaréttar að því séu takmörk sett hversu lengi heimilt sé að beita farbanni sem rannsóknarúrræði. Þá sé það einnig skilyrði fyrir beitingu þess að rannsókn sé fram haldið án tafa. Samkvæmt gögnum málsins hefur rannsókn lögreglu miðað nokkuð áfram frá uppkvaðningu síðasta dóms Hæstaréttar. Í gögnum málsins kemur fram að skýrslur hafi verið teknar af aðilum í Bandaríkjunum í lok maí sl., sem tengjast þessu máli. Sækjandi hefur lýst því að nauðsynlegt sé að bera undir kærða fyrrgreindar yfirheyrslur, er þær liggja fyrir, en enn sé beðið eftir endurritum af þeim yfirheyrslum, sem væntanlegar séu frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu. Þá sé von á frekari gögnum frá Bandaríkjunum vegna málsins. Saksóknari telur því nauðsynlegt að tryggja nærveru kærða þar til þær liggja fyrir.
Á sóknaraðila hvílir skylda til að sýna fram á að framlengingar á farbanni sé nú þörf á ný enda felst í farbanni takmörkun á frelsi varnaraðila sem ekki verður beitt nema fyrir liggi að þess sé þörf í þágu meðferðar máls. Ekki verður fram hjá því litið að málið er flókið og umfangsmikið. Dráttur sá sem orðinn er á rannsókninni hefur verið skýrður. Eins og mál þetta er vaxið og stöðu rannsóknar þess er háttað, umfangi málsins og þeirra gífurlegu hagsmuna sem það varðar, má fallast á að enn sé þörf á að tryggja nærveru kærða hér á landi í þágu rannsóknar málsins með farbanni. Ber því að fallast á að skilyrði b-liðar 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991, séu uppfyllt. Verður því fallist á beiðni Ríkislögreglustjóra um að kærði sæti áfram farbanni svo sem greinir í úrskurðarorði.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Kærða, X, er bönnuð brottför af Íslandi allt til þriðjudagsins 9. september n.k. kl. 16:00.