Hæstiréttur íslands
Mál nr. 319/2012
Lykilorð
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
- Kærumál
|
|
Þriðjudaginn 22. maí 2012. |
|
Nr. 319/2012. |
Arion
banki hf. (Þorsteinn Ingi Valdimarsson hdl.) gegn Kristjáni
Stefánssyni (enginn) |
Kærumál. Frávísunardómur héraðsdóms úr gildi felldur.
A hf. krafði
K um greiðslu yfirdráttarskuldar á veltureikningi. Deildu aðilar um það hvort
sú skuld hefði verið gerð upp með samkomulagi sem A hf. og félag í eigu K, H
ehf., höfðu gert um heildaruppgjör á skuldum einkahlutafélagsins. Með úrskurði
héraðsdóms var máli A hf. vísað frá dómi þar sem talið var að A hf. hefði ekki
gert fullnægjandi grein fyrir kröfu sinni og að krafan hefði verið svo óljós að
ekki hefði verið hægt að leggja efnisdóm á málið. Í dómi Hæstaréttar kom fram
að eins og kröfu A hf. var lýst í stefnu, svo og þeim gögnum sem lágu fyrir í
málinu um lögskipti annars vegar A hf. og K og hins vegar A hf. og H ehf., væri
ekki hægt að fallast á með héraðsdómi að A hf. hefði ekki gert fullnægjandi
grein fyrir kröfu sinni og að krafa þess væri svo óljós að ekki yrði lagður á
hana efnisdómur. Var málatilbúnaður A hf. talinn fullnægja áskilnaði 1. mgr.
80. gr. laga nr. 91/1991 og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til
efnismeðferðar að nýju.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta
dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Þorgeir Örlygsson og Benedikt
Bogason settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili
skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. maí 2012 sem barst réttinum ásamt
kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl
2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi.
Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til
efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili
hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt
gögnum málsins sótti varnaraðili 20. október 2005 um að opna veltureikning með
heimild til yfirdráttar hjá Kaupþing banka hf., nú Arion
banki hf., og var umsókn hans samþykkt með stofnun reiknings nr. 5610 í
Vesturbæjarútibúi bankans. Með bréfi sóknaraðila 21. janúar 2009 tilkynnti hann
varnaraðila að yfirdráttarskuld á reikningnum væri í vanskilum og þar sem
tilkynningu um niðurfellingu hefði ekki verið sinnt mætti búast við
innheimtuaðgerðum.Yfirdráttur á reikningnum 31. júlí 2009 nam 7.440.366 krónum
og með innheimtubréfi 25. ágúst 2009 skoraði sóknaraðili á varnaraðila að
greiða skuldina ásamt vöxtum og kostnaði. Mál þetta var höfðað til innheimtu
skuldarinnar með birtingu stefnu 24. febrúar 2011.
Einkahlutafélagið
Heiðarverk var með tékkareikning í Vesturbæjarútibúi sóknaraðila, reikningur
nr. 5609 sem stofnaður var 20. ágúst 2002, en varnaraðili er eigandi félagsins
og fyrirsvarsmaður þess. Heiðarverk ehf. hafði heimild til yfirdráttar á
reikningi nr. 5609 og var varnaraðili í sjálfskuldarábyrgð vegna skulda á þeim
reikningi samkvæmt yfirlýsingu 11. september 2007 þar að lútandi. Vanskil á
þeim reikningi 10. ágúst 2009 námu 10.000.405 krónum og höfðaði sóknaraðili mál
til heimtu skuldarinnar á hendur einkahlutafélaginu sem skuldara og varnaraðila
sem sjálfskuldarábyrgðarmanni og var málið þingfest 29. október 2009. Samkvæmt
gögnum málsins var í september 2011 gert samkomulag milli sóknaraðila og
Heiðarverks ehf. sem fól í sér að félagið myndi greiða 32.000.000 krónur sem
fullnaðargreiðslu á skuldum félagsins við sóknaraðila sem ekki myndi krefja
félagið um frekari greiðslur. Í samræmi við þetta samkomulag voru sóknaraðila
greiddar 32.000.000 krónur 16. september 2011 og í framhaldinu felldi
sóknaraðili niður þær innheimtuaðgerðir sem ráðist hafði verið í vegna skulda
félagsins, þar með talið ofangreint dómsmál, en það var fellt niður 26.
september 2011.
II
Eins og
fyrr greinir var mál þetta höfðað með birtingu stefnu 24. febrúar 2011 og er
kröfu sóknaraðila svo lýst í stefnu: „Krafa [sóknaraðila] er byggð á
yfirdráttarheimild á veltureikningi. Þann 20.10.2005 var umsókn [varnaraðila],
um stofnun veltureiknings með heimild til yfirdráttar í útibúi [sóknaraðila],
samþykkt, sbr. dskj. nr. 3. Veltureikningurinn ber
númerið 0306-26-5610. Hinn 31.07.2009, er heimild til yfirdráttar rann út á
umræddum reikningi, stóð vanskilaskuldin í kr. 7.440.366,- sbr. reikningaskrá, dskj. nr. 3. Samkvæmt almennum reglum kröfuréttarins og
meginreglu samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að
efna samninga ber [varnaraðila] að greiða kröfuna. Skuld þessi hefur ekki
fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og er því nauðsynlegt að höfða
mál til greiðslu hennar.“ Þegar þetta er virt og að því gættu sem rakið er í
kafla I hér að framan um það sem gögn málsins bera með sér, annars vegar um
lögskipti sóknaraðila og varnaraðila og hins vegar um lögskipti sóknaraðila og
Heiðarverks ehf., verður ekki fallist á með héraðsdómi að sóknaraðili hafi ekki
gert fullnægjandi grein fyrir kröfu sinni á hendur varnaraðila í málinu og að
krafa sóknaraðila sé svo óljós að ekki verði á hana lagður efnisdómur. Samkvæmt
þessu fullnægir málatilbúnaður sóknaraðila
áskilnaði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurður því
felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar á
ný.
Krafa
sóknaraðila um málskostnað í héraði kemur til úrlausnar þar þegar dómur verður
felldur á málið.
Eftir
framangreindum málsúrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila
kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði
úrskurður er úr gildi felldur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til
efnismeðferðar á ný.
Varnaraðili,
Kristján Stefánsson, greiði sóknaraðila, Arion banka
hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20.
apríl 2012.
I
Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 16. mars
sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Arion banka hf.
Borgartúni 19, Reykjavík, á hendur Kristjáni Stefánssyni, Frostaskjóli 81,
Reykjavík, með stefnu birtri 24. febrúar 2011.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til
þess að greiða stefnanda 7.440.366 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr.
6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 31. júlí 2009 til
greiðsludags. Þá krefst stefnandi
málskostnaðar úr hendi stefnda auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði vísað
frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi
stefnanda.
Með úrskurði dagsettum, 26. október 2011, var kröfu stefnda
um frávísun málsins hafnað.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð
einkamála, áður en úrskurður var kveðinn upp.
II
Í stefnu segir að hinn 20. október 2005 hafi stefndi
samþykkt umsókn stefnanda um stofnun veltureiknings með heimild til yfirdráttar
í útibúi stefnanda. Veltureikningurinn
bar númerið 0306-26-5610. Stefnandi
kveður, að hinn 31. júlí 2009 hafi heimild til yfirdráttar runnið út á umræddum
reikningi og hafi þá vanskilaskuld stefnda verið 7.440.366 krónur.
Skuldin hafi ekki fengist greidd, þrátt fyrir
innheimtutilraunir, og því sé stefnanda nauðsynlegt að höfða mál þetta til
innheimtu hennar.
Kröfum sínum til stuðnings vísar stefnandi til meginreglna
samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Einnig vísar stefnandi til laga nr. 7/1936,
um samninga, umboð og ógilda löggerninga.
Um aðild sína að málinu vísar stefnandi til 100. gr. a laga
nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að taka
vald hluthafafundar Kaupþingsbanka hf. og víkja stjórn bankans og skipa
skilanefnd yfir hann, með heimild í lögum nr. 125/2008. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dagsettri
21. október 2008, var ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings banka hf. til Arion banka hf. ákveðin.
Kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, byggir stefnandi á
lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr.
laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir
stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og
því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
III
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að stefnandi hafi ekki
haft heimild til þess að loka á reikningsviðskipti stefnda. Stefndi hafi á engan hátt brotið gegn þeim
skilmálum sem hann hafi gengist undir.
Stefnandi hafi ekki sýnt fram á slíkar heimildir né hafi stefnandi á
nokkurn hátt krafið stefnda um greiðslu og hafnar stefnandi því að hafa nokkru
sinni móttekið greiðsluáskorun vegna þessa.
Að öllu megi því vera ljóst að ákvörðun stefnanda að sækja mál þetta
byggist á einhliða geðþóttaákvörðun.
Í stefnu kom fram að stefndi áskildi sér rétt til þess að
hafa uppi kröfu til skuldajafnaðar í málinu.
Stefndi hafi lýst kröfu í þrotabú hins fallna Kaupþings banka og sé mál
vegna þessa rekið fyrir dómstólunum.
Um lagarök vísaði stefndi til almennra reglna kröfu- og
samningsréttar um greiðslu fjárskuldbindinga.
Einnig vísaði stefnandi til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála,
einkum ákvæða 80. gr. þeirra laga.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. og c-
lið 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu á skuld á
bankareikningi, sem stefndi á hjá stefnanda.
Er byggt á því, að innistæða hafi ekki verið á reikningnum fyrir þessum
úttektum stefnda, en yfirdráttarheimild stefnda hafi runnið út 31. júlí
2009. Hafi við það stofnast
greiðsluskylda stefnda.
Í greinargerð sinni krafðist stefndi frávísunar málsins og
var það flutt um frávísunarkröfu stefnda hinn 12. október 2011. Úrskurður var kveðinn upp 26. október 2011,
þar sem frávísun málsins var hafnað. Í
forsendum úrskurðarins kom m.a. fram, að lög nr. 91/1991, um meðferð einkamála,
geri ráð fyrir frekari gagnaöflun á síðari stigum, gefi andmæli stefnda tilefni
til þess.
Við aðalmeðferð málsins gaf stefndi skýrslu, sem og sonur
hans, Páll Kristjánsson. Kom fram í
framburði þeirra, að umstefnd skuld væri hluti af skuldum einkahlutafélagsins
Heiðarverks ehf. við stefnanda og hefði umstefnd skuld verið greidd er gengið
hafi verið frá heildaruppgjöri félagsins og stefnda við stefnanda með greiðslu
á 32.000.000 króna, eftir að málið var höfðað.
Stefnandi hafi hins vegar aldrei afhent stefnda fullnaðaruppgjörið,
þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir þar um.
Í framburði þeirra kom og fram að annað mál milli stefnanda og stefnda
og Heiðarverks ehf. hefði verið rekið fyrir dómstólnum og það mál hefði verið
fellt niður í lok september sl., að kröfu lögmanns stefnanda, án þess að sótt
hefði verið þing af hálfu stefndu.
Í þinghöldum hefur stefndi einnig haldið því fram, að gengið
hafi verið frá uppgjöri vegna umstefndrar skuldar í tengslum við heildaruppgjör
skulda einkahlutafélagsins Heiðarverks, eign stefnda. Hefur stefndi ítrekað óskað eftir því við
lögmann stefnanda að afhent yrði fullnaðaruppgjör og hvernig fjármununum hefði
verið ráðstafað af stefnanda. Í
þinghaldi hinn 8 nóvember 2011 lagði stefndi fram gögn, sem sýna að mál milli
stefnanda annars vegar og Heiðarverks og stefnda hins vegar, var, á sama tíma
og mál þetta, rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, en fellt niður, að kröfu
lögmanns stefnanda, án þess að sótt væri þing af hálfu stefndu. Jafnframt skoraði stefndi á lögmann stefnanda
að leggja fram endurrit af samtölum starfsmanns stefnanda við son stefnda, og
umboðsmann. Stefndi hefur hafnað því að
verða við umbeðnum áskorunum, og fullyrt að umrædd greiðsla stefnda tengist með
engu móti umstefndri skuld.
Þegar framangreint er virt, um það sem fram hefur komið í
málinu eftir framlagningu greinargerðar stefnda, sem og gögn málsins, sem lögð
hafa verið fram eftir uppkvaðningu úrskurðarins, er ljóst að gengið var frá
einhvers konar uppgjöri vegna skulda félags stefnda og hans sjálfs við
stefnanda eftir að málið var höfðað. Af
gögnum málsins verður hins vegar ekki ráðið hvernig greiðslunni var ráðstafað
af stefnanda og hvort greiðslan hafi að einhverju leyti eða öllu gengið til
greiðslu umstefndrar skuldar. Að því
virtu þykir stefnandi ekki hafa gert fullnægjandi grein fyrir kröfu sinni og er
krafa stefnanda því svo óljós að ekki er unnt að leggja á málið efnisdóm. Verður því að vísa málinu frá dómi ex officio.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda
málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi ex officio.
Stefnandi, Arion banki hf., greiði
stefnda, Kristjáni Stefánssyni, 200.000 krónur í málskostnað.