Hæstiréttur íslands

Mál nr. 36/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagnaöflun
  • Ómerking úrskurðar héraðsdóms


                                     

Þriðjudaginn 10. febrúar 2015.

Nr. 36/2015.

A

dánarbú B

C og

D

(Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)

gegn

dánarbúi E

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

Kærumál. Gagnaöflun. Ómerking úrskurðar héraðsdóms.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A, B, C og D um að Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala og velferðarsviði Reykjavíkurborgar yrði gert að veita þeim aðgang að heilsufarsgögnum um F, sem lést árið 2013. Úrskurður héraðsdóms var ómerktur og málinu vísað heim í hérað þar sem dánarbú E hafði ekki lagt fram í héraði greinargerð  til að taka til varna gegn kröfum A, dánarbús B, C og D, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Lágu því hvorki fyrir í málinu kröfur dánarbús E um formhlið og efnishlið málsins og á hverju þær væru byggðar né gögn sem málstaður dánarbúsins væri studdur við. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. janúar 2015. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala og velferðarsviði Reykjavíkurborgar yrði gert skylt að veita þeim aðgang að heilsufarsgögnum um F. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að framangreind krafa þeirra verði tekin til greina. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.  

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í kæru sóknaraðila kemur fram að sóknaraðili að málinu í héraði, B, „lést áður en málið ... var kært til Hæstaréttar.“ Á grundvelli 2. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hefur dánarbú hans tekið við aðild málsins.

Samkvæmt gögnum málsins gerði F erfðaskrá 17. ágúst 1988 þar sem kveðið var á um að E, stjúpdóttir hans, skyldi erfa þriðjung eigna hans en að öðru leyti skyldi fara um arf eftir hann samkvæmt lögum. F gerði á ný erfðaskrá 4. febrúar 2008 þar sem hann arfleiddi E að sumarhúsi í sinni eigu auk þess sem mælt var fyrir um að hún skyldi erfa helming annarra eigna til móts við sex systkini F. Enn gerði F erfðaskrá 12. maí 2011 þar sem hann ráðstafaði öllum eignum sínum til E eftir sinn dag.

F lést [...] júní 2013 og var dánarbú hans tekið til opinberra skipta [...] september sama ár. Á skiptafundi 30. september 2013 vefengdu þrjú af sex systkinum F erfðaskrárnar frá 2008 og 2011, en E byggði arfstilkall sitt á þeirri síðarnefndu sem felldi úr gildi eldri erfðaskrár. Á grundvelli 3. mgr. 53. gr., sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991 vísaði skiptastjóri ágreiningnum til héraðsdóms 8. október 2013 og var mál þetta þingfest af því tilefni 13. desember sama ár. Í samræmi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 20/1991 lögðu sóknaraðilar fram greinargerð á dómþingi 10. janúar 2014 þar sem þau kröfðust þess að erfðaskrár F frá 2008 og 2011 yrðu metnar ógildar og erfðaskrá hans frá 1988 lögð til grundvallar við skipti á dánarbúinu. Að auki lögðu sóknaraðilar fram beiðni um að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að svara nánar tilgreindum spurningum er tengdust arfleiðsluhæfi F, sbr. 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Af því tilefni fékk E frest til að kynna sér matsbeiðnina. Málið var síðan tekið fyrir að nýju 24. janúar, 7. febrúar og 14. febrúar 2014 og var þá fjallað um val á matsmönnum, en þeir voru dómkvaddir í síðastnefndu þinghaldi. Þessu næst var málið tekið fyrir 5. september 2014 vegna kröfu sóknaraðila um öflun þeirra gagna sem nánar er fjallað um í hinum kærða úrskurði, en þeirri kröfu mótmælti varnaraðili. Að undangengnum munnlegum málflutningi um þetta ágreiningsefni var kröfu sóknaraðila hafnað með hinum kærða úrskurði.

Í málinu hefur varnaraðili ekki lagt fram í héraði greinargerð til að taka til varna gegn fyrrgreindum kröfum sóknaraðila, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 20/1991. Liggja því hvorki fyrir í málinu kröfur varnaraðila um formhlið og efnishlið málsins og á hverju þær eru byggðar né gögn sem málstaður varnaraðila er studdur við. Þegar af þeirri ástæðu verður að ómerkja hinn kærða úrskurð og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Í ljósi þessara úrslita málsins er rétt að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2014.

                Með bréfi lögmanns sóknaraðila sem barst dóminum, 19. september sl. var þess krafist að Héraðsdómur Reykjavíkur kveði upp úrskurð þess efnis að Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala − háskólasjúkrahúsi og Velferðarsviði Reykjavíkurborgar verði gert skylt að veita þeim aðgang að öllum heilsufarsgögnum, frá árinu 2004 að telja, um F, síðast til heimilis að [...]. Krafan var tekin til úrskurðar 20. nóvember sl.

                Af hálfu varnaraðila er þess krafist að beiðninni verði hafnað.

Málavextir eru þeir að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum [...] september 2013, var dánarbú F, sem lést [...] júní 2013, tekið til opinberra skipta. Með bréfi skiptastjóra dánarbúsins 8. október 2013 var ágreiningi um gildi tveggja erfðarskráa sem F heitinn gerði, 4. febrúar 2008 og 12. maí 2011, vísað til héraðsdóms. Með erfðaskránum ánafnaði hann eigum sínum til E. E lést eftir að bú F var tekið til skipta og hefur dánarbú hennar nú tekið við aðild málsins til varnar. Sóknaraðilar eru fjögur af sex systkinum. Eru þeir jafnframt lögerfingjar hins látna.

Sóknaraðilar krefjast þess að framangreindar erfðaskrár verið metnar ógildar og við skipti á dánarbúinu skuli erfðaskrá F frá 17. ágúst 1988 lögð til grundvallar um erfðaréttindi. Með þeirri erfðaskrá arfleiddi hann varnaraðila að þriðjungi eigna sinna en aðrar eignir hans áttu að renna til lögerfingja hans. Sóknaraðilar telja að hinn látni hafi verið ófær um að gera erfðaskrárnar frá 2008 og 2011 vegna andlegra annmarka. Hinn 14. febrúar sl. voru, að kröfu sóknaraðila, dómkvaddir tveir öldrunarlæknar til að svara  fjórum spurningum er tengdust arfleiðsluhæfi hins látna, sbr. 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Sóknaraðilar hafa ekki lagt fram matsgerð þeirra.

Í þinghaldi 5. september sl. settu sóknaraðilar fram kröfu um að úrskurðað yrði um heimild þeim til handa til að afla heilsufarsgagna um hinn látna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala − háskólasjúkrahúsi og Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Í samráði við dóminn sendi lögmaður sóknaraðili sömu aðilum bréf þar sem þess var óskað að þeir afhentu sóknaraðilum umrædd gögn. Í skriflegum svörum þeirra til lögmannsins kemur fram að þeir teldu sér ekki heimilt að afhenda umbeðin gögn. Í svar­bréfi heilsugæslunnar kemur fram að hún geti ekki veitt ættingjum hins látna aðgang að sjúkraskrá nema að undangengnum dómsúrskurði. Í svarbréfi Landspítalans kemur m.a. fram að skv. lögum nr. 55/2009 um sjúkraskrár og svo lögum nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga sé tekið fram að þagnarskylda falli ekki niður við andlát. Sé óheimilt að afhenda afrit af sjúkraskrám nema ef fyrir liggur skýr vilji hins látna eða aðrar sérstakar aðstæður. Taldi spítalinn eðlilegt að óska eftir úrskurði dómara í þessum efnum. Í svari Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar kemur fram að heimþjónustu Reykjavíkur sé óheimilt að afhenda óviðkomandi aðilum upplýsingar úr sjúkraskrárkerfinu [...] sem notað sé fyrir alla heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. heimahjúkrun. Við fyrirtöku málsins staðfestu fulltrúar Landspítalans og Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar framangreinda afstöðu. Af hálfu Heilsugæslu höfuð­borg­ar­svæðisins var ekki sótt þing þrátt fyrir lögmæta boðun.

                Af hálfu sóknaraðila er vísað til þess að þeim sé nauðsynlegt að fá aðgang að læknis­fræði­legum gögnum um hinn látna til þess að leggja fram til stuðnings málstað sínum. Þau byggi kröfur sínar á því að heilsufar hins látna hafi verið svo slæmt þegar hann hafi gert þær erfðaskrár sem um sé deilt að hann hafi ekki verið til þess hæfur. Kröfu sinni til stuðnings vísa þeir til 3. og 4. mgr. 67. gr. og 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Varnaraðili mótmælir fram kominni kröfu. Telur hann að lög standi ekki til þess að verða við kröfunni.

Niðurstaða

                Í máli þessu krefjast sóknaraðilar, sem eru systkini F sem nú er látinn, aðgangs að heilsufarsgögnum um hann. Fyrir liggur að vörsluaðilar gagnanna hafa synjað sóknaraðilum um afhendingu þeirra.

                Til stuðnings kröfu sinni vísa matsbeiðendur til 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar segir að sé skjal í vörslum manns sem er ekki aðili að máli, geti aðili krafist þess að fá það afhent til framlagningar í máli sé vörslumanni skjalsins skylt að afhenda það aðilanum án tillits til málsins eða efni skjalsins sé slíkt að vörslumanni sé skylt að bera vitni um það í málinu. Með hliðsjón af b-lið 53. gr. sömu laga er ljóst að heilsufarsgögn þau sem sóknaraðilar leitast eftir að fá afhent innihalda upplýsingar um einkahagi hins látna sem þeim sem trúað var fyrir þeim væri ekki skylt að svara spurningum um, sbr. 12. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga.

Um heimild til aðgangs að sjúkraskrárupplýsingum látins manns gildir ákvæði 15. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár. Þar kemur fram að mæli ríkar ástæður með því sé umsjónaraðila sjúkraskrár heimilt að veita nánum aðstandanda látins einstaklings, svo sem maka, foreldri eða afkomanda, aðgang að sjúkraskrá hins látna og láta í té afrit hennar ef þess er óskað. Við mat á því hvort veita skuli aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings skuli höfð hliðsjón af hagsmunum aðstandanda sem óski eftir slíkum aðgangi og vilja hins látna, liggi fyrir upplýsingar um hann.

Sóknaraðilar byggja á því að þeir hafi hagsmuni af því að fá umrædd gögn afhent til þess að leggja fram til stuðnings málstað sínum um að F hafi skort hæfi til að gera tilteknar erfðaskrár, sbr. 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Í 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 er kveðið á um að dómari leggi sjálfur mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar.  Ef ekki verður svo farið að er mælt fyrir um það í 1. mgr. 61. gr. sömu laga að dómari kveði einn eða tvo matsmenn til að framkvæma matið eftir skriflegri beiðni aðila. Dómari máls þessa hefur ekki nauðsynlega sérfræðikunnáttu til að meta, út frá þeim upplýsingum sem fram kunna að koma í sjúkraskrá F, hvort F hafi verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið fær um að gera hinar umdeildu erfðaskrár. Hafa þessar upplýsingar því takmarkaða þýðingu við úrlausn málsins. Þá er til þess á líta að fyrir liggur að sóknaraðilar hafa þegar fengið dómkvadda tvo öldrunarlækna til að meta hæfi F. Matsgerð þeirra hefur ekki verið lögð fram en fullyrðingum varnaraðila um að hún liggi fyrir hefur ekki verið ekki mótmælt af hálfu sóknaraðila. Telji sóknaraðilar matsgerðina ekki þjóna þeirra málstað er þeim sú leið fær að krefjast yfirmats þar sem tekin verða til endurmats þau atriði sem áður hafa verið metin, sbr. 64. gr. laga nr. 91/1991. Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu sóknaraðila því hafnað.

                Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, B, C og D, þess efnis að Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala − háskólasjúkrahúsi og Velferðarsviði Reykjavíkurborgar verði með úrskurði gert skylt að veita þeim aðgang að heilsufarsgögnum um F.